Félagi FERLIRsfélaga, Ríkarður Ríkarðsson (www.rikkir123.is) lagðist í svolitla rannsóknarvinnu um bát þann sem ber við Bjarghús ofan Norðurkots í Sandgerðishreppi.
Bátslagið vakti einkum athygli Ríkharðs, en hann hefur verið mikill áhugamaður um báta, auk þess sem hann er mikill fuglamyndasmiður. Á vefsíðu hans má sjá eftirfarandi um nefndan bát; Hrafnkel.
„Smíðaár ekki vitað og ekki vitað hver smíðaði hann [líklegt er þó, m.v. bátslagið, að hann hafi verið smiðaður að Hvalsnesi um og eftir 1910]. Upphaflega smíðaður sem fjóræringur. Einar Gestsson, fæddur í Bjarghúsum í Garði sagðist hafa keypt bátinn af Guðmundi á Rafnkelsstöðum um 1930-35.
Sigurður K. Eiríksson (Siggi í Norðurkoti) kvaðst hafa farið að velta fyrir sér hvers vegna báturinn héti Hrafnkell. Þá kom í ljós að Rafkelsstaðir hétu áður Hrafnkelsstaðir. Báturinn var allur endursmíðaður af Einari Gestssyni. Sigurður kvaðst hafa farið á sjó með Einari og þetta hefði verið hörkuskip. Sigurður vildi meina að bátnum hafi verið lagt um 1990.“
Við þetta má bæta að Bjarghús eru hlaðið úr lóðréttum hraunhellum, sem verður að þykja svolítið sérstakt á Reykjanesskaganum.
Nefndur Sigurður Eiríksson er mikill hagleiksmaður, hvort sem er til smíða eða varðveislu örnefna.
Nefnt skip; Hrafnkell, er sérstaklega áhugavert viðfangsefni vegna spurningarinnar um aldur og uppruna fornleifa; á t.a.m. að miða við „fæðingu“ eða „dánardægur“ þeirra? Líklegt má telja að svörin verði margflókin… (meira síðar um aldur fornleifa).