Félagi FERLIRsfélaga, Ríkarður Ríkarðsson (www.rikkir123.is) lagðist í svolitla rannsóknarvinnu um bát þann sem ber við Bjarghús ofan Norðurkots í Sandgerðishreppi.
Hrafnkell-1Bátslagið vakti einkum athygli Ríkharðs, en hann hefur verið mikill áhugamaður um báta, auk þess sem hann er mikill fuglamyndasmiður. Á vefsíðu hans má sjá eftirfarandi um nefndan bát; Hrafnkel.
“Smíðaár ekki vitað og ekki vitað hver smíðaði hann [líklegt er þó, m.v. bátslagið, að hann hafi verið smiðaður að Hvalsnesi um og eftir 1910]. Upphaflega smíðaður sem fjóræringur. Einar Gestsson, fæddur í Bjarghúsum í Garði sagðist hafa keypt bátinn af Guðmundi á Rafnkelsstöðum um 1930-35.
Sigurður K. Eiríksson (Siggi í Norðurkoti) kvaðst hafa farið að velta fyrir sér hvers vegna báturinn héti Hrafnkell. Þá kom í ljós að Rafkelsstaðir hétu áður Hrafnkelsstaðir. Báturinn var allur endursmíðaður af Einari Gestssyni. Sigurður kvaðst hafa farið á sjó með Einari og þetta hefði verið hörkuskip. Sigurður vildi meina að bátnum hafi verið lagt um 1990.”

Hrafnkell-2Við þetta má bæta að Bjarghús eru hlaðið úr lóðréttum hraunhellum, sem verður að þykja svolítið sérstakt á Reykjanesskaganum.
Nefndur Sigurður Eiríksson er mikill hagleiksmaður, hvort sem er til smíða eða varðveislu örnefna.
Nefnt skip; Hrafnkell, er sérstaklega áhugavert viðfangsefni vegna spurningarinnar um aldur og uppruna fornleifa; á t.a.m. að miða við “fæðingu” eða “dánardægur” þeirra? Líklegt má telja að svörin verði margflókin… (meira síðar um aldur fornleifa).

Bjarghús

Bjarghús. Rafnkelsstaðabáturinn fremst.