Í Örnefnalýsingum er sagt frá vatnsstæði á Vatnsheiði.
Ætlunin var að ganga frá Hrauni um Siglubergsháls, að Móklettum, landamerkjum Hrauns og Ísólfsskála, niður með Hrafnshlíð, með gígtoppunum þremur er mynda Vatnsheiðina, Vatnsheiðahnúkana, vestan Fiskidalsfjalls og Húsafjalls og skyggnast eftir vatnsstæðinu. Jafnframt að líta eftir hugsanlegum götum að austan, ofan við Siglubergsháls og fellin til Grindavíkur (inn á Skógfellaveginn). Þá var líka ætlunin að kíkja á K9 í leiðinni, “Tyrkjahellinn” svonefnda undir Húsafjalli, á krossrefagildruna ofan við Sandleyni og í Guðbjargarhelli ofan við Hraun.
Byrjað var á því að taka hús á Sigurði Gíslasyni á Hrauni. Hann var spurður um það hvort draumur eins FERLIRsfélagans um helli í túninu á Hrauni gæti átt við rök að styðjast. Siggi kvað það svo sem líklegt. Vestan í túninu væri hellir, að vísu lítill, en hann hefði sett lok yfir gatið því tvö lömb frá honum hefðu ratað niður í hann, en ekki komist upp aftur. Vísaði hann á hellisopið. Þegar lokið var fjarlægt sáust bein lambanna þar niður í. Sagði Siggi að hægt væri að skríða þarna inn undir hraunið, en rásin væri lág og erfið. Nokkrir litlir skútar væru og í túninu á Hrauni þar sem lágin mætti hraunkantinum.
Sunnar á túninu eru miklar tóftir. Þær munu vera af háleigunni Vatnagarði, sem hafi verið í byggð a.m.k. árið 1703. Þá hefði búið þar ekkja, Drysíana Eyjólfsdóttir að nafni ásamt fimm börnum sínum. Konan leigði þá Hraunsbónda slægjuna, en líklega hafi verið um tómthús að ræða. Ekki er útilokð að bóndi Drysíönu hafi drukknað í róðri eins og svo títt var með útvegsbændur í þá daga. Sex nautgripir hefðu þó verið á fóðrum í Vatnagarði. Bakki hafi verið bær ofan við Hraun, skammt utan við túngarðinn. Þar má enn sjá tóftir. Þriðja hjáleigan á Hrauni hét Garðhús, en hún stóð einungis í skamman tíma. Hraunið vestan við bæinn heitir Slokahraun. Þar eru enn óraskaðir fjölmargir þurrkgarðar frá fyrri tíð. Girðing var ekki fyrir löngu sett upp niður í hraunið og var þá einhverjum garðanna rutt um koll. – því miður.
Skoðaður var brunnurinn sunnan Hrauns. Stór hella er yfir brunninum, en annars er hann fallega hlaðinn niður. Þá var litið á “skírnarforntinn”, sem kom upp nýlega við hrólf í tóft austan við bæinn. Þar segir sagan að hafi verið kirkja eða bænahús forðum. Steinninn gæti einnig hafa verið signingasteinn í kaþólsku, líkt og utan við kirkjuna á Kálfatjörn, eða hreinlega verið notaður undir stoð í húsinu, sem þar stóð. Síðastnefnda skýringin er jafnframt sú liklegasta. Steinninn er mjög líkur stoðsteininum í gamla bænum í Herdísarvík nema hvað innnmálið á þessum er margfalt stærra. Kirkja var á Hrauni allt fram yfir 1600, jafnvel frá a.m.k. 1397, og gæti það skýrt að nokkru tilurð steinsins.
Gengið var austur með ströndinni ofan við Hraunsvík. Utan girðingar, sjávarmegin, er heilleg tóft. Ströndin hefur breyst mikið þarna á tiltölulega skömmum tíma. Áður náði hún mun lengra út líkt og annars staðar með ströndum Reykjanesskagans. Enn mótar fyrir miklum görðum við Hraun. Bóndinn þar, Jón Jónsson, fékk m.a. Dannebrogsorðuna fyrir garðhleðslu á þeim tímum er konungur vildi hvetja bændur til garð- og vegghleðslu, ræktunar og uppbyggingar á bæjum sínum.
Skyggnst var eftir Gamlabrunni á grónum sandflötum austan Hrauns. Hann fannst eftir stutta leit. Um er að ræða fallega hlaðinn brunn, en nú er að mestu gróið yfir hann og sandur fyllt hann að nokkru. Vel sést þó móta fyrir hleðslunum. Í þennan brunn sóttu Þorkötlustaðabúar vatn áður fyrr, ef þurfa þótti.
Í Hraunsvíkinni eru hnyðlingar, en slíkir eru brot úr framandbergi sem berst upp með kvikunni og því ekki eiginleg gosefni. Brotin eru líklegast úr gígrásinni eða úr þaki kvikuþróarinnar. Oft eru slík brot úr grófkornóttu djúpbergi og skera sig því greinilega úr fín- eða dulkornóttum bergmassa hraunsins. Þetta sést vel í Hrólfsvíkinni. Hnyðlingarnir þeytast oft hátt upp úr gígnum og lenda síðan hjúpaðir storku kvikunnar. Slíkir hnyðlingar eru algengir umhverfis sprengigíginn Grænavatn við sunnanvert Kleifarvatn í Krýsuvík.
Gengið var upp Kapellulágina og upp að kapellunni. Við hana er merki um friðlýstar minjar. Annars er járnadrasl þar í varpanum sem og all í kring. Kristján Eldjárn og fleiri grófu upp kapelluna á sjötta áratug síðustu aldar og fundu í henni bæði muni og minjar. Hún var síðan verpt sandi. Talið er að þarna hafi verið kapella eða bænahús frá því á 14. öld. Gera þarf vegsemd hennar meir en nú er. Segir sagan og að á þriðja tug manna hafi verið grafnir í Kapelluláginni sunnan undir kapellunni. Aðrar heimildir segja að það hafi verið við bænahúsið á Hrauni. Í annálum 1602 (Fitjaannáli) segir m.a.: “Þá drukknuðu ástóra farmaskipi Skálholtsstaðar 24 manneskjur með einni stúlku, fyrir framan Þorkötlustaðií Grindavík… og voru þeir flestir jarðaðir í bænhúsinu í Grindavík á Hrauni.
Skammt austan kapellunnar, vestan þjóðvegarins, sést enn gamla Ísólfsskálagatan áleiðis upp á Siglubergsháls. Húsafjall er þá á vinstri hönd, aftar, og Fiskidalsfjall. Í því er áberandi gil er nefnist Skökugil.
Á hægri hönd var Festarfjall. Þjóðsagan segir að neðan undir felli þessu sé hátt blágrýtisstandberg og ægisandur undir sem ganga má þurrum fótum með lágum sjó. Frá Hrauni blasir við í miðju berginu grá rák sem gengur þráðbeint upp í gegnum bergið og nefnist Festin. Sagan segir að rák þessi sé silfurfesti sem tröllkona ein hafi einhvern tíma í fyrndinni hengt fram af berginu með þeim ummælum að þá er dóttir bóndans á Hrauni, sú sem bæri nafn hennar, gengi þar neðan undir þá skyldi festin detta niður og verða eign stúlkunnar. Því miður lét tröllkonan ekki nafns síns getið svo að ekki hefir verið auðvelt að láta heita eftir henni, enda hangir festin óhreyfð enn í dag.
Götunni var fylgt þangað til nýi vegurinn fór yfir hana upp hálsinn um Skökugil. Uppi á hálsinum, vinstra megin við veginn, sést gamla gatan enn og var henni fylgt áfram upp, yfir nýja þjóðveginn og upp á þann gamla er liggur fast upp með Festarfjallinu. Hann liggur svo beint niður að Móklettum, vestanverðum. Af Siglubergshálsi er fallegt útsýni yfir Hrólfsvíkina og Hraunsvíkina sem og yfir Þorkötlustaðahverfið.
Í austanverðum Móklettum eru höggvin landamerki Ísólfsskála og Hrauns. Sjá má þar ártalið 1890 og merkið V undir því.
Haldið var norður með austanverðum Móklettum og beygt til vesturs yfir Bleikshól (-háls). Framundan voru fallegar brekkur og nokkuð há hlíð á vinstri hönd. Nefnist hún Hrafnshlíð.
Neðan við hana voru fallegar hraunkúlur. Þegar kvikuflygsur þeytast hátt í loft upp snúast þær jafnframt um sjálfar sig þannig að þær verða kúlulaga. Á fluginu storknar yfirborð þeirra en kjarninn helst oft bráðinn, einkum hjá þeim stærri, uns þær lenda og fletjast út eða splundrast. Slíkar hraunkúlur eru ávallt með glerjuðu yfirborði en blöðróttar að innan og oft mótar fyrir stuðlun út frá miðju. Þessar hraunkúlur og brot úr þeim má mjög oft sjá í rofnu móbergi t.d. í Sveifluhálsi. Þarna var talsvert á þeim og sjaldan hafa þær sést fallegri.
Vesturhlíð Fiskidalsfjalls var fylgt til suðurs. Á hægri hönd var Beinvörðuhraun. Mátti sjá vesturhlið Fagradalsfjalls (Borgafell, Einbúa, Görnina og Kastið), Sundhnúkagígaröðina, Sundhnúka, Svartsengisfjall og Hagafell. Framundan blöstu tvær dyngjur Vatnsheiðarinnar við. Þegar komið var á móts við Svartakrók við Fiskidalsfjall var stefnan tekin á hálsinn vestan við fjallið. Þar í lægð birtist hið ágætasta vatnsstæði. Að vísu hefur landi verið raskað þarna með efnistöku, en vatnsstæðið hefur fengið að vera í friði. Líklegt má telja að þarna hafi myndast góð tjörn á vorin eftir leysingar í hárri fjallshlíðinni og af heiðinni. Hefur vatnið að öllum líkindum dugað fram eftir sumri.
Gangan með vestanverðu Fiskidalsfjalli er mjög auðveld. Reykjavegurinn liggur þar um.
Stefnan var tekin á syðstu dyngjuna á Vatnsheiðinni. Uppi í henni er stór gat, u.þ.b. 20 metra djúpt. Myndaðist það er Catepillar jarðýtu var ekið þar um fyrir nokkrum árum. Hrundi undan ýtunni, en stjórnandunum tókst að koma henni frá án skaða.
Gengið var niður að vesturöxl Húsafjalls og kíkt þar á op “Tyrkjahellisins” svonefnda, en sagnir segja að í hann hafi austanverðir Grindvíkingar ætlað að flýja ef Tyrkir létu sjá sig á ný við Grindavík. Norðurjarðri hraunsins var fylgt til suðurs vestan hæðarinnar og gengið að krossrefagildru þar í hrauninu skammt ofan við Sandleyni. Enn má sjá þrjá arma gildrunar heila. Þetta hefur verið mikil smíð á sínum tíma og væntanlega þjónað sínum tilgangi.
Skammt sunnar eru leifar af annarri refagildru, minni. Enn sunnar, skammt ofan við þjóðveginn við Hraun er hlaðin dys á hól. Segir sagan að þar hafi Tyrkir þeir tveir, er Rauðka drengsins frá Skála, hafi gefið undir sinnhvorn og drepið er þeir sóttu að honum.
Kíkt var á op Guðbjargarhellis ofan við Hraun. Þar á samnefnd kona frá Hrauni að hafa flúið er hún vildi fá að vera í friði fyrir öðrum. Opið er skammt ofan við garðana ofan við þjóðveginn.
Frábært veður – gangan tók 4 klst og 4 mín.