Færslur

Ferjukot
Gengið var um Kirkjuferju á norðurbakka Ölfusár.
Ölfusá er algerlega vaðlaus, þannig að fyrrum varð að sundríða hana eða nota ferjur. Á 19. öld voru einnig ferjustaðir við Laugardæli og við Óseyrarnes. Kotferjuslysið 1627 er eitt mesta ferjuslys hérlendis. Þá drukknuðu 10 manns. Ferjað var víðar yfir ána og eru fleiri sagnir til um slys og óhöpp á ferðum fólks yfir ána.

Kirkjuferja

Kirkjuferja – loftmynd.

Íslendingar hafa frá upphafi ferðast um land sitt þvert og endilangt. Þau ferðalög hafa oft verið erfið, einkum þar sem torleiði eins og vatnsföll urðu á leið manna. Þá minntust þeir þess gjarnan að oft er betri krókur en kelda og lögðu lykkju á leið sína þar sem því var við komið. Seinna komu fram uppfinningar eins og ferjur og kláfar til að stytta mönnum leið yfir erfiðustu vatnsföllin, sem varasamt eða ómögulegt var að sundríða.
Kaldaðarnes er og var stórbýli austan Ölfusár í Flóa. Ein elzta heimild um staðinn er ferjumáldagi Kaldaðarness frá aldamótunum 1200. Þar er kveðið á um einkarétt Kaldaðarness til ferjuflutninga yfir ána og tvær ferjur voru í rekstri. Önnur var á heimajörðinni gegnt Arnarbæli og hin efri var í ferðum milli Kotferju og Kirkjuferju.

Ölfus

Ölfus umhverfis Ölfusá.

Kaldaðarnes varð snemma kirkjustaður, helgaður heilögum krossi. Kirkjan átti kross, sem mikill átrúnaður hvíldi á. Vegna þessa kross var ævinlega margmenni á staðnum, þó flest á krossmessum vor og haust. Fólkið kom með gjafir með sér sem áheit. Sagnir segja frá því, að pílagrímar hafi flykkzt 50 saman út í ferjuna í einu og hún hafi sokkið í miðri á og allir farizt.
Kirkjuferja er norðan Ölfusár, en Kotferja sunnan hennar. Þegar gengið var um Kirkjuferju var Kirkjuhóll, Völukirkja og Ferjunefið (Ferjunes) skoðað sérstaklega. Handan árinnar heitir Hraknes. Kotferja var við víkina austan þess. Þar má sjá tóftir bæjarins.
Völukirkja er strýtumyndaður hóll, að hluta úr stuðlabergi, með fuglaþúfu á. Kirkjan er kunn úr þjóðsögum sem álfakirkja. Haft er fyrir satt að kona frá Kirkjuferju var á leið til kirkju að Arnarbæli. Átti hún leið fram hjá Völukirkju. Settist hún þar niður til að fara í sokkana. Hún hafði gengið berfætt yfir mýrina og Rauðukeldu. Heyrði hún þá sungið inni í Völukirkjunni. Sálmaversið nam hún, og var það ekki í sálmabók hinnar íslenzku þjóðkirkju. Hjá Völukirkju gengu menn ávallt með mestu virðingu við huldufólkið.

Kirkjuferja

Völvukirkja.

Kirkjuhóllinn er austur á túninu, sunnan vegar. Utan í honum er tún huldufólksins, sem í hólnum bjó.
Ferjunef er klettanef, sem skagar út í ána við mörk Þórustaða. Í skjóli við það var ferjunni lent, þegar ferjað var. Þar sjást enn kengir í klöppum, leifar frá tímum ferjunnar. Einnig eru uppi á bakkanum (á Ferjuvöllum), eða var til langs tíma, einhverjar leifar af byggingum, ef til vill skýli fyrir þá, sem biðu eftir ferjunni.
Segja má að fyrirrennarar nútímasjálfseignarstofnana á Íslandi megi finna allt aftur í fornöld. Þá voru brýr og ferjustaðir stundum eins konar sjálfseignarstofnanir. Ferjur hafa verið notaðar á Íslandi frá örófi alda. Nú hafa brýr víðast gert þær óþarfar.
Frábært veður.

Kirkjuferja

Kirkjuferja Ölfushreppur Árnessýsla – túnakort 1914.