Færslur

Hraun

Haldið var að Hrauni í Ölfusi og tekið hús á Ólafi Þorlákssyni, öldnum og virtum bónda. Hann fylgdi FERLIR góðfúslega að hinni dulúðlegu dys á bökkum Ölfusár, en í henni eru taldar vera jarðneskar leifar Lénharðs fógeta á Bessastöðum.

Ölfus

Dys Lénharðs.

Í Öldinni okkar árið 1502 segir m.a. um dráp Lénharðs fógeta:
“Torfi Jónsson, sýslumaður í Klofa á Landi, hefur látið drepa Lénharð, fógeta á Bessastöðum. Fór Torfi að fógetanum, er hann var staddur á bæ í Ölfusi, rauf á honum húsin og felldi hann.
Torfi í Klofa er eitt hið mesta afarmenni, sem nú er uppi í landinu, og flestum óvægnari, ef í odda skerst. Hann hefur lengi átt í miklum deilum við Stefán biskup Jónsson í Skálholti, goldið slælega tíundir og kirkjureikninga, haft að engu dóma hans og haldið verndarhendi yfir fólki, sem biskup telur í sökum við kirkjuna.Lénharður fógeti hefur getið sér hið versta orð sökum ofríkis og ójafnaðar síðan hann kom að Bessastöðum. Í vetur gerðist hann sekur um manndráp, og á páskadag í vor misþyrmdi hann Árna Snæbjarnarsyni, ábóta í Viðey. Með þeim Torfa og Lénharði var fullur fjandskapur, og hefur fógeti haft í heitingum við hann að undanförnu. Fjandskapur var einnig með þeim Lénharði og biskupi.
Þegar Lénharður reisti austur í Ölfus, settist í bú að Arnarbæli og fór þar með ránskap og ofbeldi, safnaði Torfi liði og fór að fógetanum.

Hjalli

Lénharðardys.

Lénharður var staddur að Hrauni í Ölfusi, er Torfi kom með menn sína, og bjóst um í húsum inni, þegar hann varð ófriðarins var. Varð þeim Torfa ekki greitt inngöngu, því að piltur úr liði Lénharðs, Eysteinn Brandsson að nafni, varði dyrnar svo fimlega, að þeim vannst ekki á, nema hætta sér undir vopn hans.
Torfi greip þá til þess ráðs að láta rjúfa þekjuna á bæjarhúsunum, og féll fógeti eftir skamma viðureign, er menn Torfa voru inn komnir.
Stefán biskup í Skálholti hefur lagt bann við, að fógeti fái kirkjuleg, nema greidd séu þrjátíu hundruð honum til yfirbótar.”
Torfi ríki Jónsson, sýslumaður í Klofa, andaðist snögglega á þingferð í Landeyjum er hann sat að drykkju árið 1505. Ekkja hans, Helga Guðnadóttir, varð að gjalda biskupi nokkrar jarðir til þess að fá hann grafinn í Skálholti.

Hraun

Hraun í Ölfusi.

Lénharður var sagður hafa verið dysjaður að Hrauni. Hóllinn, eða dysin, er greinilega manngerður. Hlaðið er með hólnum og hefur áin skolað steinum úr henni. Regluleg hleðsla er vestan við hólinn. Líklegt er að þarna hafi verið t.d. leiðarmerki yfir Ölfusá, en vaðið er þarna nokkur ofar í ánni.
Ólafur sagðist hafa verið á ferð þarna einhverju sinni og þá fundið mannbein er stóð út úr hólnum. Áin hafi oft leikið hólinn illa, einkum fyrrum. Hún flæddi oft um svæðið og mæddi þá talsvert á hólnum. Munnmæli hafi verið um að þarna hefði Lénharður fógeti verið dysjaður, en hann teldi eins víst að þarna hefði fornmaður látið verpa yfir sig.
Ólafur sagði að einhverju sinni hafi ung nafngreind kona dvalið í tjaldi niður við bakka árinnar, nálægt dysinni, ásamt öðrum. Þá dreymdi hana að einkennisklæddur maður kæmi til hennar og sagði að þau myndi una þarna hag sínum vel um sumarið. Setti hún drauminn í samband við fógetann.
Frábært veður.

Lénharð

Dys Lénharðs.