Hraunbúar héldu 20. vormót sitt í Helgadal árið 1959. Þess er getið í Alþýðublaði Hafnarfjarðar sama ár undir fyrirsögninni:
“Um 700 skátar frá Hafnarfirði og nágranna bæjum komu til mótsins. Meðal gesta voru Forseti Íslands og biskup”.
“Skátar hafa haft það fyrir sið, að halda vormót á ári hverju. Í flestum tilfellum hafa mót þessi verið haldinn í Helgadal, enda hefur sá staður gefizt hafnfirzkum skátum bezt. Vormótin hafa jafnan verið eitt aðal tilhlökkunarefni skátanna í Hraunbúum, enda eina útilega margra þeirra. Mótið, sem nú var haldið, var það 20. í röðinni. Í tilefni þess var sérstaklega til þess vandað, og á bak við það lá mikil vinna, sem leyst var af hendi af áhuga og fórnfýsi. Forsetahjónin og biskup Íslands voru gestir mótsins.
Mótið hófst föstudaginn 29. maí og stóð yfir til kl. 6 á sunnudag. Mikið fjölmenni var saman komið í Helgadal og þar var glatt á hjalla. Samtals munu yfir 700 skátar hafa komið til mótsins. Fjöldi aðkomuskáta frá nágrannabæjum og þorpum heimsótti hafnfirzku félagana dg höfðu meðferðis ýmis skemmtiatriði.
Það var ánægjulegt að horfa yfir Helgadalinn á laugardagskvöldið. Skipulega niðursett tjaldborgin huldi dalbotninn að mestu, en Upp í hlíðinni logaði varðeldurinn. Allt um kring sat hin fjölmenna skátaþyrping og þaðan bárust glaðværir skátasöngvarnir og „heija” hrópin út yfir hraunbreiðuna.
Kl. 2 á sunnudaginn heimsóttu forsetahjónin og biskup Íslands mótið. Flutti biskup messu þar í dalnum, en á eftir var gestunum boðið til tedrykkju í veitingatjaldi skátanna. Forsetinn, herra Ásgeir Ásgeirsson, ávarpaði síðan skátana og árnaði þeim heilla í störfum. Var heimsókn þessi hin ánægjulegasta og skátunum til uppörfunar og gleði. Veður var sæmilegt meðan á mótinu stóð. Þó rigndi dálítið á sunnudaginn, en fjölmennið hélzt þó allt til mótsloka.
Mótinu lauk kl. 6 sd. og hafði í alla staði heppnast vel og verið skátunum til ánægju og sóma.”
Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 18. árg. 1959, bls. 6