Færslur

Hraunsholt

Í Fornleifaskráningu í Garðabæ árið 2009 segir m.a. um Hraunsholt:

1565: Bygging jarða Garðakirkju. ,,Hraunshollt byggt mäg Þorsteins fyrer fridar. xx. alner. äskilinn vallarslattur. og mannslän um vertid. med jördunne eckert kugillde. madurinn heiter Ingemundur.” DI, XIV, 437.
1703: “Hraunsholt efa menn hvert heita skuli hálflenda eður lögbýli, því þar er margoft ekki fyrirsvar nema til helmínga, utan þegar vel fjáðir menn hafa ábúið, og stendur þetta býli í óskiftu Garðastaðar landi. …Eigandinn Garðakirkja.” JÁM, III, 222.
1703: “Engjar öngvar.” JÁM, III, 223.
1918: “Tún 2,5 teigar og kálgarður 600 m2.”

Hraunsholt

Hraunsholt 2020. Húsið t.h. er síðasta bæjarhúsið í Hraunsholti.

“Hraunsholt: Býli í Garðahreppi, fyrrum Álftaneshreppi. Á afmarkað tún og rétt til afnota af Garðakirkjulandi að tiltölu. … Hraunsholtsbærinn: Stóð á holtshryggnum austarlega,” segir í örnefnaskrá.
Bæjarhóllinn er við sauðausturenda Hraunholtsvegar. Hraunholtsvegur 8, sem er nýbygging, er byggður utan í hólinn norðvestanverðan, en einnig nær bakgarður Hraunholtsvegar 6, sem í er mikill trjágróður, inn á hólinn að norðvestan.
Búið er að byggja hús og leggja innkeyrslu á bæjarhólnum. Hóllinn er talsvert mikið raskaður, bæði vegna nýlegra framkvæmda við Hraunsholtsveg 8, sem og vegna þess að síðustu bæjarhúsin (sem enn sést grunnurinn af) hafa verið steinsteypt og með kjallara. Súrheysturn stendur enn undir þaki á bæjarhólnum. Erfitt er að átta sig fyllilega á ummáli bæjarhólsins sökum framkvæmda á og í kringum hann. En hóllinn er að líkindum um 40×40 m að stærð. Nokkuð mikið af 20. aldar keramikbrotum eru á hólnum og eru þau án efa ættuð úr róti sökum framkvæmda á og við hólinn, jafnframt eru brunnin bein og tennur úr nautgripum á hólnum sem gætu verið ættuð úr nálægum öskuhaugi.

Hraunsholt

Hraunsholt – Túnakort 1918.

Á túnakorti frá 1918 er sýnt útihús 5-10 m suðaustur af Hraunsholtsbænum. Rúst útihússins er að líkindum undir sverði austarlega á bæjarhólnum.
Búið er að byggja hús og leggja innkeyrslu á bæjarhólnum. Hóllinn er talsvert mikið raskaður, bæði vegna nýlegra framkvæmda við Hraunsholtsveg 8, sem og vegna þess að síðustu bæjarhúsin (sem enn sést grunnurinn af) hafa verið steinsteypt og með kjallara. Súrheysturn stendur enn undir þaki á bæjarhólnum.

Á túnakorti frá 1918 er sýnt mannvirki um 10-20 m austur af bæ. Mannvirkið er austarlega á bæjarhólnum og sést enn. Búið er að byggja hús og leggja innkeyrslu á bæjarhólnum. Hóllinn er talsvert mikið raskaður, bæði vegna nýlegra framkvæmda við Hraunsholtsveg 8, sem og vegna þess að síðustu bæjarhúsin (sem enn sést grunnurinn af) hafa verið steinsteypt og með kjallara. Súrheysturn stendur enn undir þaki á bæjarhólnum. Lítið, ferhyrnt og þaklaust steypt mannvirki sem er um 2,3×2 m að ummáli NA-SV. Veggjahæð er um 1 m. Veggir eru 0,15 m þykkir og fremur margar stórar steinvölur eru íblandaðar steypunni.

Hraunsholt

Hraunsholt – loftmynd 1954. Braggahverfið Slingsby Hill fyrir miðri mynd.

Á túnakorti frá 1918 er útihús sýnt fast utan túngarðs, um 50 m vestur af bæ. Útihúsið hefur verið skammt suður af enda botnlangagötunnar Lækjarfitjar, sem og skammt suður af skotbyrgi úr Seinni heimsstyrjöld sem þar er.

Á túnakorti frá 1918 er sýnt útihús um 70 m norðvestur af íbúðarhúsinu á Hraunsholti. Þar sem útihúsið var áður stendur nú einbýlishús að Hraunsholtsvegi 2.

Á túnakorti frá 1918 er sést kálgarður um 80 m vestur af íbúðarhúsi Hraunsholts. Garðbrot og þúst, sem sennilega eru leifar kálgarðsins, eru um 5 m suðvestan við bakgarð Hraunsholtsvegar 2.
Garðbrotið og þústin eru á grónu, gömlu túni, örskammt frá frá bakgarðgörðum húsa við Hraunsholtsveg. Nokkuð hátt og mikið gras er yfir rústinni og enn vex rabbabari við garðbrotið, þótt grisjóttur sé. Garðbrotið er um 1 m breitt og 3 m langt SA-NV og er um 0,3 m hátt. Garðlagið er hlaðið úr torfi og hraungrýti og glittir í grjót í suðausturenda þess en annars er það vel yfirgróið. Fast við norðvesturenda garðbrotsins er þúst. Þústin er nokkuð óregluleg í laginu ekki er hægt að greina á henni hólf. Þústin rennur vel inn í umhverfið svo mörk hennar eru ekki augljós, en hún er að líkindum um 4 x 3 m að stærð NV-SA og 0,3 m há.

Hraunsholt

Hraunsholt – loftmynd 1958.

“Garður að torfi og grjóti lá umhverfis túnið,” segir í örnefnaskrá. Túngarðurinn liggur frá girðingu bakgarðs Garðs (íbúðarhús úr timbri við innkeyrslu sem gengur inn af Lækjarfitjum) í 90 m til SSV. Túngarðsbrotið er hátt í 150 m austur af bæjarhól.
Túngarðurinn er í gömlu grónu túni. Hægt er að rekja túngarðinn um 90 m leið. Að NNA er garðurinn lágur og yfirgróinn og einstaka mosavaxið grjót stingst upp úr honum. Um miðbikið er garðurinn afar siginn og líkist einna helst grjótfylltri “rennu”. Um 10 m frá SSV enda er garðurinn mikið raskaður á 4 m spotta. Garðurinn er um 1 m breiður og skagar hæst um 20 sm. Stærstu steinarnir í garðinum eru um 0,5 x 0,5 m að ummáli.

“Suðurtraðir: Lá[g]u heiman frá bæ suð-vestur í Gömlu-Fjarðargötur…Suðurtraðarhlið: Hlið þar sem lá[g]u saman garðar traða og túns,” segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi. “Suðurtraðir Hraunsholtsbæjar lágu frá bænum í suðvestur niður undir hraun og sameinuðust þar Gömlu-Fjarðargötu sem var alfaraleið til Hafnarfjarðar í eina tíð, eða allt fram til 1898 (G.S. Skráði eftir Sigurlaugu Jakobsdóttur í Hraunsholti),” segir í örnefni og leiðir í Garðabæ. Suðurtraðir sjást ekki á túnakorti 1918 og því hefur líklega verið hætt að nota þær fyrir þann tíma. Samkvæmt heimildamanni, Guðlaugi R. Guðmundssyni, lágu traðinar að Helguflöt, sem er slétt grasflöt fast VSV af Hraunsholtstúngarði og er merkt á kort á bls. 14 í örnefni og leiðir.

Garðahevrfi

Engidalsvegur aftan Fjarðarkaupa.

“Traðir eða vegur af Hafnarfjarðarveginum heim að bæ. Vesturtraðarhlið: Hlið þar á túngarðinum út undir Hafnarfj-vegi. Hraunsholtsstígur: Nú 1963 er vegurinn nefndur þessu nafni,” segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi. “Vesturtraðir voru aftur á móti síðar til komnar, eða ekki fyrr en Hafnarfjarðarvegurinn hafði verið lagður, og lágu út eftir hryggnum um Vesturtraðahlið,” segir í örnefnaskrá GS. Vesturtraðir eru á túnakorti frá 1918 og liggja NNV frá bæjarhúsum og út úr túni. Vesturtraðir voru líklegast á svipuðum slóðum og Hraunsholtsvegur er í dag.

“Þá voru Norðurtraðir. Þær lágu frá bænum austanvert niður í Norðurtraðahlið, og lágu þær milli hárra garða, austurtraðagarðs og vesturtraðagarðs,” segir í örnefnaskrá GS. Á túnakorti 1918 eru það líklegast Norðurtraðir sem liggja til NA frá bæjarhúsum og út úr túni. Ekki sást til traðanna á vettvangi.

“Nokkru vestar í holtinu, en túngarðurinn var, mátti til skamms tíma sjá þetta gamla garðlag,” segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið Í Álftaneshreppi. “Túngarður um Hraunsholtstún, hæstur að sunnanverðu til að verjast fénu úr hrauninu,” segir í örnefnaskrá EBB. “Þá mátti fram undir 1940 sjá Gamla-Garðlagið alllangt vestur á holtinu,” segir í örnefnaskrá GS. Ekki sást til Garðlagsins gamla á vettvangi og er sennilegast að það hafi verið rutt niður við sléttun.

“Svo var troðningurinn, eða Alfaravegurinn kallaður, er lá suður frá Suðurtraðarhliði, suðvestur yfir hraunið til Hafnarfjarðar,” segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið. “Hluti af Gömlu-Fjarðargötu sést enn milli lóða Hraunshólum 6-8,” segir í örnefnaskrá EBB. Samkvæmt heimildamanni var steyptur göngustígur, sem liggur frá Stekkjarflöt að Hraunshólum, lagður yfir Gömlu Fjarðargötur. Enn er hægt að greina götuna í bakgarði Hraunshóla 18, sem og fast austan við lóð Hraunshóla 18, 2-3 m suður af göngustígnum.
Vestan Hraunsholtslækjar eru Gömlu Fjarðargötur að mestu undir nýjum steyptum göngustíg, en austan lækjar undir byggð eða sléttaðar.
Brot leiðarinnar sem enn sést er um 12-13 m langt A-V og er í ósléttuðu þýfi. Reiðgatan er um 3-4 m breið og samanstendur af nokkrum samhliða rásum í gegnum þýfið. Hver rás er um 20 sm djúp og 0,2-0,5 m breið.

Engidalsvarða

Engidalsvarðan.

“Markavarðan á Engidalsnefni. Landamerki Hafnarfj. og Garða,” segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi. Markavarðan er á umferðareyju á Reykjarvíkurvegi, fast vestan móta Hafnarfjarðarvegar og Reykjavíkurvegar. Varðan er á gróinni umferðareyju.
Markavarðan er hlaðin úr hraungrýti og er styrkt með steypu. Hún er um 1,8 m á hæð og rösklega 1×1 m í grunnmál. Toppur vörðunnar er stök hraunhella sem stendur upp á rönd og er skorðuð föst með steypu. Umför í vörðunni eru 8 – 9 og er varðan nokkuð mosavaxin.

“Þá var Stekkurinn í Stekkjarlautinni vestur af Fjarðargötu og Húfugjóta þar suður af,” segir í örnefnaskrá GS. “Í suðaustur af bæ er hóll, heldur austur af Hádegishól, sem er allstór, og heitir hann Klofhóll; við hann eru svonefndar Löngugjótur, og Stekkjargjótur bera í hann frá bæ séð,” segir í örnefnaskrá AG.
Stekkjarlaut er SA við mót Hafnarfjarðarvegar og Fjarðarhrauns og liggur í austur átt meðfram Hafnarfjarðarvegi að norðan, rúmlega 500 m suðvestur af bæ.
Stekkjarlaut er afmörkuð með 4 m háum hamri að sunnan en malbikuðum vegi að norðan og vestan, en endar í byggð að austan. Lautin er gróin grasi og þónokkrum trjágróðri. Þónokkrar framkvæmdir hafa farið fram í og við lautina, t.a m. vegagerð, grafið hefur verið fyrir ræsum og malarslóði liggur suður frá Hafnarfjarðarvegi og í átt að Marklandi.
Hraungrýtishleðsla er upp við hamarinn vestast í lautinni, við Fjarðarhraun, sem mögulega er leif stekksins. Hleðslan er 4 m löng og er 0,5-0,7 m há, þykkt óviss en allt að 1 m. 2-3 umför og stærsta grjótið um 0,4 m á kant. Mestmegnis er gróið yfir hleðsluna, gras, mosi og trjágróður.

Hraunsholt

Hraunsholtsselsstígur.

“Stígur frá Suðurtraðarhliði um Hraunbrúnina suður hraunið í svokallað Hraunsholtssel,” segir í Skrá yfir örnefni og leiðir í Álftaneshreppi. Hraunsholtsselsstígur fannst ekki við vettvangsathugun. Búið er að slétta grasflötina þar sem Suðurtraðarhlið var áður, sem og ryðja hraunið þar sem Hraunsholtssel var sunnan Hádegishóls. Þó má vera að enn leynist ummerki stígsins í Flatahrauni.
Nyrðsti hluti stígsins er sléttaður og sá syðsti var í hrauni sem nú er búið að ryðja. Líkast til leynist enn hluti stígsins í Flatahrauni, sem er nokkuð gróið.

Hraunsholtssel

Varða ofan Hraunsholtssels.

“Var í eina tíð á hrauninu sunnan Hádegishóls,” segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið. “Selstígurinn lá suður með Hádegishól í Hraunsholtssel, en talið er, að það hafi verið við Hraunsholtshella, öðru nafni Hraunsholtskletta, og er þar grænka kringum, þó hellarnir séu litlir,” segir í örnefnaskrá GS.
“Hraunsholtssel…var sunnan við Hádegishól Hraunsholts og einnig nefnt Hraunsholtshella. Selstígurinn lá sunnan við Brunann, framhjá Hádegishól, að Selinu (G.S.). G[unnar] Ben[ediktsson] sá enn votta fyrir selinu 1987,” segir í Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar. Nú er búið að ryðja hraunið sunnan Hádegishóls undir byggð og bílaplan, en þar er iðnaðarhverfi (Hraunahverfið austan Fjarðahrauns). Selið hefur verið um 500 m SSA af bæ.
Sunnanverður Hádegishóll er mikið raskaður því búið er að ryðja hraunið að stórum hluta.
Ekki sáust augljósar fornleifar sunnan Hádegishóls, en þó er afar þýfður og mishæðóttur grasblettur sunnan hólsins þar sem fornleifar kunna að leynast undir sverði. Allt í kringum grasblettinn, sem er um 15×10 m A-V, er rutt hraun og mikið rask.

Hádegisvarða

Hádegisvarða á Hádegishól.

“Alfaravegurinn 1: Lá af Gömlu-Fjarðargötum norður með Túngarði niður að Hraunholtslæk, yfir hann og niður Háubakka, en þar var mikill áningarstaður ferðamanna,” segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi. Sést ekki til, grasflötin kringum túnið gamla er sléttuð og svæðið kringum Hraunsholtslæk (norðan Flatahrauns) er meira og minna undir byggð.

“Alfaravegurinn 2: Hann lá af Gömlu-Fjarðargötu milli Hraunbrúnar og Túngarðs eftir lægðinni að Neðra-Nefi í Krossgötur,” segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi. Ekki sést til Alfaravegarins 2, grasflötin kringum túnið gamla er sléttuð og svæðið kringum Hraunsholtslæk (norðan Flatahrauns) er meira og minna undir byggð.

Hraunsholtslækur

Hraunsholtslækur.

“Neðra vað: Svo hét vaðið við Hraunhornið yfir lækinn,” segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið. “Leiðin liggur hér inn með hraunbrúninni inn að Hraunsnefi neðra eða Neðranefi, sem lá alveg við Hraunsholtslæk, sem bar þetta nafn frá nefinu niður til sjávar. Hér var yfir lækinn Vaðið eða Neðravað,” segir í örnefnaskrá GS. Vaðið er 10-15 m ofar (sunnar) í Hraunsholtslæk en brú við Stekkjarflöt og um 280 m austur af bæ.
Lækurinn breikkar nokkuð á þessum stað og verður við það grynnri og lygnari, en lækjarfarvegurinn þrengist aftur neðan vaðsins (þar sem brúin er). Af hófförum að dæma á lækjarbakkanum er vaðið enn nýtt af reiðmönnum.

“Í eina tíð var göngubrú yfir lækinn, kölluð svo.” “Ofan við það (Neðravað) var hleðsla, og myndaðist við það foss eða flúð, nefndist Efri-fossar og þá Efri-fossvað. Hleðslan nefndist Hofstaðabrú,” segir í örnefnaskrá GS. Í Örnefnum og leiðum í landi Garðabæjar segir: “Hofsstaðabrú var göngubrú sunnan við Neðravað á Hraunholtslæk,” segir í GRG. Hofstaðabrú er merkt á kort herforingjaráðs frá 1903 (eða 1905?). Þar sem Hofstaðabrú var áður er nú göngubrú yfir Hraunsholtslæk, vestur af SV enda Stekkjarflatar og S af Stjörnuvelli.
Grónir lækjarbakkar og steyptur göngustígur eru nú á þessum slóðum.

Hraunsholt

Hvammsfjárhús.

“Hraungjótan [Hraunnefsgjóta] var einnig kölluð svo. Þarna var fjárhús og sjást enn rústirnar,” segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi. “Sunnan við nefið kom svonefndur Hvammur. Vestast í honum var Hraunsnefsgjóta og þar rétt hjá Hvammsfjárhús,” segir í örnefnaskrá GS. Fjárhúsið er í Hafnarfjarðarhrauni norðaustanverðu, SV af Smáraflöt 22 og 24 (sem eru beint handan Hraunholtslækjarlæjar) og 80 m vestur af brú yfir Hraunholtslæk sem er framhald göngustígs frá Lindarflöt.
Hvammfjárhús er um 370 m ASA af bæ. Fjárhúsið er hlaðið í úfnu hrauni. Umhverfis fjárhúsrústina er þýfi, gróið háu og þéttu grasi sem sker sig frá hrauninu umhverfis og bendir til mikils magns lífræns úrgangs í jarðvegi. Jafnframt ef horft er til suðvestur Hvammsins frá Hraunsholtslæk er augljóst að brekkan upp að ANA vegg fjárhússins er mun grænni og grónari en umhverfið sem bendir til að mokað hafi verið út úr fjárhúsinu og hent niður brekkuna sem er niður af ANA vegg.

Hraunsholt

Við Hvammsfjárhús.

Fjárhúsrústin er um 7×6 m, snýr NNA-SSV og er innrabyrði hennar 4×3,5 m NNA-SSV. Langveggir fjárhússins (ANA og VSV veggir) eru hlaðnir úr stóru og miðlungs hraungrýti og standa hæstir um 1,5 m. Í ANA vegg er hraunhleðsla að innanverðu (4 umför greinileg) og torf hlaðið upp að utan. VSV veggur virðist hafa nokkuð þykkari hraunhleðslu en óljóst er hvort torfhleðsla hafi verið pökkuð upp að honum að utan á sama hátt þar sem hann er meira hruninn, sérstaklega fyrir miðju. Niður frá báðum langveggjum (ANA og VSV veggjum) eru aflíðandi brekkur. ANA veggur snýr að Hvamminum, sem gengur inn í Hafnarfjarðarhraun að austan, en VSV veggur snýr að lægð í hrauninu sem notuð hefur verið sem aðhald eða hugsanlega sem heygarður. Mun minni hraunhleðslur hafa verið í NNA og SSV veggjum og hugsanlega voru þar timburþil fyrir. Rúmlega 4 m breið lægð er í hrauninu fast VSV við rústina og er hún mörkuð að VSV með klapparvegg. Lægðin liggur samhliða rústinni en er nokkuð lengri og er hleðsla í henni að SSV sem skapar aðhald, en engin hleðsla er sjáanleg að NNA. Í lægðinni er talsvert mikið torfhrun úr VSV vegg fjárhúsrústarinnar. Hlaðna aðhaldið er hæst um 1,6 m, 1 m breitt og er 5-6 umför. Hleðslan er vaxin nokkuð miklum mosa og skófum.

Hraunsholt

Vegur að Hvammsfjárhúsum.

“Vað yfir lækinn kallað svo. Hagakotsvað áður nefnt,” segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi. “Hvammurinn var einnig kallaður Milli nefja, allt inn að Efranefi eða Hraunsnefi efra. Þar var einmitt Hagakotsvað, sem einnig var nefnt Efravað,” segir í örnefnaskrá GS. Efravað er um 10 m sunnar en Neðravað og 20-25 m sunnar í Hraunsholtslæk en brú við Stekkjarflöt.
Grónir lækjarbakkar. Lækjarfarvegurinn við Efravað er heldur þrengri en við Neðravað.

Á túnakorti frá 1918 er kálgarður sýndur um 10 m suður af bæ. Ekki er vitað hvort hlaðið garðlag var utan um kálgarðinn fyrr á tímum, en í dag eru leifar seinni tíma girðingar, fúnir timburstaurar og vír, á sama stað.

Hraunsholtslækur

Hraunsholtsvatnsból.

“Hraunsholtsvatnsból: Vatnsból frá Hraunsholti var við Stórahyl fram til ársins 1910 að Vífilsstaðahælið var byggt,” segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið. Hylurinn er í Hraunsholtslæk, um 15 m SV við girðingu sem umlykur knattspyrnuvöll Stjörnunnar og um 140 m NV af göngubrú yfir Hraunsholtslæk, sem brúar göngustíg frá Stekkjarflöt að Hraunhólum. Stórihylur er um 200 m ANA af bæ.
Tær og sefgróinn lækur umlukinn grasivöxnum lækjarbökkum.

“Skólabrú: Eftir að skólinn var byggður, lá brú þarna yfir lækinn,” segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið. Þar sem Skólabrú var áður er nú göngubrú úr viði yfir lækinn. Göngubrúin brúar Hraunsholtslæk á stíg sem liggur frá íþróttahúsi Stjörnunnar að Lækjarflöt.
“Bugðulækjarvað: Vað yfir lækinn neðan Bugðumels,” segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið.
“Bugðulækjarvað á Hraunsholtslæk þar sem síðar var byggð göngubrú fyrir nemendur skólans, Skólabrú,” segir í Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar. Þar sem Bugðulækjarvað var áður er nú göngubrú yfir Hraunsholtslæk sem er hluti stígs sem liggur frá íþróttahúsi Stjörnunnar að Lækjarflöt.

Hraunsholtsækur

Hraunsholtslækur – Skólabrú við Bugðulækjarvað.

“Neðri Fossavað: Þar ofan við fossinn var vað svo kallað,” segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið. Neðri Fossavað var áður á þeim stað þar sem Hraunholtslækur rennur nú undir Sjálandsskóla. Lækurinn rennur undir stóra skólabyggingu. Þegar skráning á vettvangi fór fram voru miklar framkvæmdir í gangi allt í kring, bæði niðurrif gamalla bygginga sem og bygging nýrra, og hefur umhverfið tekið miklum breytingum.

“Brunnur grafin 1910 rétt hjá Stöðlinum,” segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi. Brunnurinn sást ekki við vettvangsathugun og er annaðhvort búið að fylla upp í hann og slétta úr eða hann er kominn undir byggð (Lækjarfit).
“Brunngatan: Lá frá Brunninum heim til bæjar,” segir í skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi.
“Brunngatan lá vestan traðargarðanna heim til bæjar,” segir í örnefnaskrá GS. Brunngatan sást ekki við vettvangsathugun og er að líkindum bæði búið að slétta úr henni sem og að hún er kominn undir byggð, bæði gatan að brunninum frá 1910 og alla leið að Hraunsholtsvatnsbóli.

Fógetagata

Fógetagata.

“Hann [Álftanesvegur] var fyrst troðningur er lá um Holtið norðan Þjóðvegar úr Engidal niður að Brúarvaði,” segirí Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftanesi. “Álftanesvegur, fyrrum Selstígurinn, lá frá Suðurtraðahliði á Hraunsholtstúni vestur með hraunbrúninni norðan við Engidal, í holtinu út að hrauni og þar upp, en Hraunsholt á ekkert land þar,” segir í örnefnaskrá GS. “Er Álftanesvegur sami og Gjárréttarstígur (Seljastígur)? Allt sama örnefnið kallað Götur frá Hraunsholti,” segir í örnefnaskrá EBB.
Áður fyrr tengdist Álftanesvegurinn í landi Hraunsholts Fógetavegi, sem var aðalgatan gegnum Garðahverfi norður á Álftanes og sem enn sést til að hluta. Ekki sést þó til vegarins í landi Hraunholts því hann er undir malbiki og byggð, m.a. að líkindum Hraunholtsbraut og Ásahverfinu.

Á túnakorti frá 1918 er sýndur kálgarður um 20 m ASA af bæ. Ekki er vitað hvort hlaðið garðlag var utan um kálgarðinn fyrr á tímum, en í dag eru leifar seinni tíma girðingar, fúnir timburstaurar og vír, á sama stað.

Hraunholtslækur

Hraunholtslækur.

“Mýrin vestan Hraunsholtslækjar. Mótak mikið,” segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi.
“Vestur eða norðvestur frá bæ er, niður við sjó, sem hér heitir Arnarnesvogur, mýri, sem nefnd er Hraunsholtsmýri. Þar tóku Hafnfirðingar mó áður fyrr. Þessi mýri, sem nú er allmikið komin undir hús og tún, nær svo austur að Hraunsholtslæk,” segir í örnefnaskrá AG. Hraunholtsmýri var svæðið vestan Hraunsholtslækjar á þeim slóðum sem Langalína og Strikið eru í dag, en ekki eru vesturmörk mýrarinnar eða mótaksins kunn.
Hraunholtsmýri er nú undir byggð, jafnframt voru miklar byggingframkvæmdir í gangi þegar skráning á vettvangi fór fram.

“Götur frá Neðri-fossum vestur eftir Sjávarbökkunum,” segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi. “Troðningur liggur hér inn að Neðrafossvaði, er liggur ofan til við Neðrifossa, en neðan þeirra rennur lækurinn niður í fjöruna,” segir í örnefnaskrá GS. Troðningar voru rétt ofan til við fjöruna vestan við Hraunsholtslæk, vestan við Neðri fossa og Réttartanga,” segir í Örnefni og leiðir í Garðabæ, en leiðin er merkt á kort í sömu bók á bls. 14. Troðningar voru áður meðfram ströndinni frá frá Réttartanga, vestur að Hraunsviki. Nú er steyptur göngustígur meðfram ströndinni, en ekkert sést til hinna gömlu Troðninga.
Byggð er komin langleiðina að ströndinni, fjölbýlishús sem tilheyra Strandvegi og austast við Réttartanga er búið að landfylla.

Flatahraun

Rétt í Flatahrauni.

Rétt er norðarlega í Hafnarfjarðarhrauni, um 90 m A af Hraunhólum 18, um 200 m suður af bæjarhól, rúmlega 50 m suður af rétt og 70 m S af göngustíg milli Stekkjarflatar og Hraunshóla.
Umhverfi réttarinnar er þýft og grasi gróið en víðsvegar stingst úfið hraun í gegnum svörðinn. Réttin er á hraunspildu inni í byggð. Réttin er um 23×19 m að flatarmáli og snýr A-V. Í NA horni réttarinnar er tóft. Tóftin er um 5,5×5 m og snýr N-S. N veggur hennar er klöpp og dyr hafa að líkindum verið á S vegg. Veggir tóftarinnar eru úr hraungrýti (litlu og meðal stóru) og torfi. Hægt er að greina 3 umför af hraungrýti. Þykkt veggja er mest um 2,5 m á S vegg og hæð mest um 1,3 m á V vegg. Veggir réttarinnar eru nokkuð tilgengnir og lágir, en þeir eru hlaðnir úr hraungrýti af öllum stærðum. Ekkert torf er sjáanlegt í réttinni. Veggirnir eru mest 1 m breiðir og 1 m háir, þó að jafnaði séu þeir ekki nema 0,2-0,3 m á hæð. Lítil sem engin skipting er sjáanleg innan réttarinnar og kann það hugsanlega að stafa af því að viðarþil hafi verið nýtt innan réttarinnar.

Flatahraun

Flatahraun – uppdráttur ÓSÁ.

Lítið aðhald eða tóft er í lægð í Hafnarfjarðarhrauni, um 70 m A af Hraunshólum 18, 180 m S af bæjarhól, um 20 m NV af rétt 038 og 50 m S af göngustíg milli Stekkjarflatar og Hraunshóla. Hleðslurnar eru ofan í lægð í hrauninu sem í eru tvö hellisop sem opnast til S og NV. Lægðin er gróin í botninn en hliðar hennar eru víðast bert hraun.
Hellarnir sem opnast inn af lægðinni eru fremur lágir og litlir og með mikið af stórgrýti á hellisgólfinu.
Mannvirkið er um 5×4 m að stærð og snýr A-V. Veggir eru úr hraungrýti og torfi og víðast um 1 m á þykkt en eru sumsstaðar (sérstaklega að A og V) nokkuð óljósir því þeir renna inn í umhverfið. Sennilega einhvar konar aðhald sem gæti tengst rétt, en hugsanlega er um hústóft að ræða. Hleðsluhæð mest um 0,5 m. Ekki hægt að greina fjölda umfara af hraungrýti.

Garðlag er á lóð Hraunshóla 18, um 4 m norður af íbúðarhúsinu. Garðlagið er á gróinni lóð og vex trjágróður tiltölulega nálægt.
Garðlagið er úr hraungrýti og torfi og snýr N-S. Óvíst er um stærð hleðslugrjóts eða fjölda umfara því vel er gróið yfir garðinn af grasi og mosa. Lagið er 6 m langt, 0,5 m breitt og hæst 0,3-0,5 m. Bil er á garðinum rétt sunnan við hann miðjan, en líkast til er fremur um rask að ræða en op því greina má sennilegt hrun austan við opið.

Flatahraun

Flatahraun – Hesthús.

Hesthús er á baklóð Hraunhóla 18, um 20 m S af Hraunhólum 18 og um 200 m SSV af bæ.Lóðin er grasigróin og er í jaðri Hafnarfjarðarhrauns. Mikið af birki og grenitrjám er á lóðinni, sem m.a. vaxa á tóftinni og stafar henni talsverð hætta af því.
Samkvæmt heimildamanni er tóftin af hesthúsi. Tóftin er um 6×5 m og snýr NS. Hún er hæst um 1,5 m (hraunhleðsla að innanverðu). Tóftin er hlaðin úr meðal-og stóru hraungrýti og torfi. Innrabyrðið er hraunhleðsla (4 umför) en þó stingst einnig hraungrýti hér og þar í gegnum torfið utan á. Tóftin er nokkuð tilgengin og má það að hluta rekja til tjrágróðurs sem vex á henni. Sunnan við hesthústóftina er sokkið garðlag. Garðlagið er 7 m langt og 0,3 m breitt og er að stórum hluta yfirgróið grasi, lyngi og mosa. Hæst skagar garðlagið um 0,3 m og eru 2 umför greinileg, en hugsanlega leynast fleiri umför undir sverði. Að líkindum var garðlagið einungis hlaðið úr hraungrýti en engu torfi.

Garðagata

Garðagata – kirkjuvegurinn.

“Þær [Krossgötur] var að finna á mel frá Hraunhorninu. Vegamót,” segir í örnefnaskrá. Vegamótin Krossgötur voru áður þar sem nú er sléttgrasflöt milli Stekkjarflatar og Hraunholtslæks, SA við göngubrú sem þar er yfir lækinn.

Skotbyrgi úr síðari heimsstyrjöld er um 7 m SV af botni Lækjarfitjar og um 15-20 m SA af Lækjarfiti 16. Byrgið stendur í gömlu grónu túni og er að mestu yfirgróið grasi. Byrgið er fullt af rusli.
Byrgið er steinsteypt og er enn undir þaki og að mestu niðurgrafið, svo ganga verður niður nokkur þrep til að komast inn í það. Byrgið er 3 x 2,5 m N-S. Gengið er inn í það að vestan en skotraufin vísar til austurs, í átt að Kópavogi og Reykjavík.

Hagakotsstígur

Gjáarréttarstígur/Hraunholtsstígur.

Hraunsholtsstígur lá áður fyrr frá Hraunsholti að Urriðakoti og Gjáarréttum. Hann er enn greinanlegur þar sem hann liggur SSA yfir Hafnarfjarðarhraun. Stígurinn verður greinilegur uppi á hrauninu um 70 m VSV af göngubrú yfir Hraunsholtslæk sem er niður af Bakkaflöt 22 og 24 og liggur þaðan til SSA í um 490 m að Miðhrauni 4.
Slóðinn er grasmeiri og gulari en umhverfið, en meira lyng vex í kring. Nyrðst er gatan greinileg sem 1-3 rásir í jörðinni sem stefna suður, mest um 1 m á breidd 1 m og 20 sm á dýpt. Slóðinn hlykkjast gegnum hraunið og sneiðir hjá því úfnasta. Um 90-100 m sunnar hverfur slóðinn undir malbikaðann göngustíg frá Bakkaflöt sem gengur þvert á hann. Undan göngustígnum stefnir slóðinn til SSA að Miðaftanshól (á honum er áberandi steypt varða með áletruninni “1960”). Stígurinn er mjög greinilegur nálægt rótum Miðaftanhóls og liggur suður meðfram rótum hólsins. Suðvestan undir Miðaftanshól gengur Dýrtíðarvinnuvegur þvert á Hraunsholtsstíg, sem kemur nokkuð greinilegur undan honum. Þaðan liggur stígurinn að Miðhrauni 4, en hverfur þar skammt NA við.

Samkvæmt heimildamanni var tekinn mór á Jónsflöt. Svæðið tilheyrir nú Vatnsveitu Garðabæjar við Lyngás og er nýtt undir byggingar og geymsluplan. Jónsflöt er um 600 m NNV af bæ.

“Stöðulgjóta var heimarétt tók um 30-40 kindur, sunnan við túnið í laut,” segir í örnefnaskrá EBB.
“Stöðulgjóta lá á hægri hönd eða vestan við Fjarðargötu,” segir í örnefnaskrá GS. Réttin er við norðurjaðar Hafnarfjarðarhrauns um 30 m SSV af göngustíg sem liggur milli Stekkjarflatar og Hraunshóla, um 80-90 m austur af Hraunshólum 18 og um 150 m suður af bæ. Þýfð og grasi gróin flöt á opnu svæði innanbæjar, sem er afmarkast af Hafnarfjarðarhrauni að sunnan og vestan.
Aðhaldið er eitt hólf og er hlaðið úr hraungrýti. Suður- og vesturveggir aðhaldsins eru úfið hraun sem norður- og austurveggir eru hlaðnir upp að. Þeir eru hlaðnir úr litlu og meðalstóru hraungrýti og torfi (um 4 umför). Veggirnir eru nokkuð signir og tilgengnir og er mesta þykkt norðurveggjar um 1,5 m. Aðhaldið snýr N-S og er um 6,5 x 4,5 m. Dyr eru á austurvegg. Hleðsluhæð er mest um 0,5 m. Á bergveggnum fast SA við réttina er hleðsla, um 1 m breið og 1,5 m há og er líkast að þar hafi verið hlaðið upp í lítinn hellisskúta. Ummerki um stöðulinn hafa verið afmáð. “…á Stöðlinum voru kýrnar mjólkaðar á unglingsárum Sigurlaugar (fædd árið 1898),” segir í örnefnaskrá EBB. “Við Norðurtraðahlið var Stöðullinn vestan við þær,” segir í örnefnaskrá GS. Óvíst er hvort mannvirki hafi tengst Stöðlinum, en ef svo hefur verið eru kvíarnar horfnar í dag og útsléttaðar. Staðsetning Stöðulsins er því ekki þekkt.

Heimild:
-Fornleifaskráning í Garðabæ, Fornleifastofnun Íslands 2009.

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegurinn/Dýrtíðarvegurinn í Hafnarfjarðarhrauni.

Hagakot

Í ritinu “Listin að lifa” frá árinu 2007 skrifar Sigurður Björnsson greinina “Gengið um Garðabæ”. Umfjöllun Sigurðar birtist annars staðar á vefsíðunni, en í greininni minnist hann m.a. í stuttu máli á Hagakot í Garðabæ. Nefnt kot, eða öllu heldur ábúendur þess, skyldi eftir sig allnokkrar minjar í Hafnarfjarðarhrauni, auk þess sem Hagakotsstígurinn, þ.e. hinn forni selsstígur frá Hofstöðum að seli bæjarins að Urriðavatni, lá um Hagakot.

Hagakot

Hagakot – Tjarnarflöt 10.

“Suður frá Hofsstöðum stóð býlið Hagakot. Bærinn stóð þar sem nú er Tjarnarflöt 10. Gatan dregur nafn sitt af seftjörn, sem fyrrum var í ofanverðu túninu.”
Í manntalinu 1703 eru 5 íbúar skráðir í Hagakoti; 1703: “hálflenda so kölluð, því það hefur ekki fyrirsvar nema til helmings á móts við lögbýlisjarðir.”
Konungseign. JÁM, III, 225.
1703: “Engjar litlar.” JÁM, III, 226.
Túnakort ekki til.

Hagakotsstígur

Hagakotsstígur. Urriðavatn framundan.

Hagakotsbær: “Býli í Garðahreppi, fyrrum Álftaneshreppi. Er nú í eyði [1964]. Átti sitt eigið tún, en beit í óskiftu Garðastaðalandi, fyrir fénað þann sem túnið framfleytti. Munmæli herma svo: Hagakot á utan túns, beit fyrir kýr í hafti og hest í stokk. Hagi er býli þetta nefnt í fornum bréfum Viðeyjarklausturs…Hagakotsbærinn: Stóð í túninu miðju, þar sér nú aðeins rústirnar,” segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið. ,,Hagakot var jörð í Garðakirkjulandi…. Bæjarrústirnar eru horfnar með öllu.
Bæjarstæði Hagakots var þar sem nú er Tjarnarflöt 10.” segir í Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar. ,,Á móts við Brekkutögl liggur stígur út í hraunið, sem nefnur var Hagakotsstígur. Um hann var farið milli Urriðakots og Hagakots, en Hagakot var skammt norðan við Vífilsstaðalæk, en suður af Hofsstöðum”, segir í örnefnaskrá SP yfir Urriðakot.
Þar sem Hagakotsbærinn var áður er nú þétt og gróin byggð. Tjarnargata 10 er einbýlishús og bílskúr og er mikið af trjágróðri á lóðinni. Ekkert markar fyrir bæjarstæði Hagakots á yfirborði, þó leifar þess kunni að leynast undir sverði.”
2001: Bæjarrústir með öllu horfnar, þar er nú Tjarnarflöt 10. GRG, 102.

Í Tímanum 1970 segir frá Birni Konráðssyni, oddviti í Garðahreppi í nær þrjá áratugi. Í viðtali við hann segir Björn m.a. frá Hagakoti og nágrenni:

Björn Konráðsson

“Björn Konráðsson er seztur í helgan stein eftir langt og mikið dagsverk, rúmlega 75 ára að aldri, ern og hress í anda með hugann fullan af áhugamálum um Garðahreppsbyggðina og sístarfandi að hugðarefnum. Hann hefur haft fingurinn á slagæð þessarar byggðar allt hið hraða vaxtarskeið hennar og man tímana tvenna. Fáir hafa orðið vitni að og átt ríkari þátt í slíkum umskiptum sveitar sinnar.
Björn er Skagfirðingur að ætt, lagði ungur að árum leið sína til Noregs og kom þaðan búfræðingur frá Ási og réðst ráðsmaður að ríkisbúinu á Vífilsstöðum.
—Hvenær komst þú í Vífilsstaði, spyr ég Björn, þegar við erum setztir inn í stofu.
—Það var 1923. Berklahælið var þá tekið til starfa, sem kunnugt er og ríkisbúið við það stofnað, en lítið var farið að rækta. Þúfnabaninn frægi hafði þó komið þangað og ráðizt á mýrina vestan við bæjarásinn. Þetta er gamall vatnsbotn, mýrin mjög seig, og þurfti að ræsa hana fram. Það var ekki gert til hlítar í öndverðu, en síðar bætt um það.
Það kom í minn hlut að rækta tún úr umbroti þúfnabanans, og þetta varð gott tún, hefur gefið af sér margan hestburðinn. Það kól aldrei fyrr en 1952, en náði sér fljótt aftur, enda sáði ég í kalið.
— Hve stórt var búið á Vífilsstöðum, þegar þú tókst við, Björn?
— Bústofninn var einar 16 kýr og túnið gaf af sér um 200 hesta af íöðu. Síðar gáfu túnin af sér um 3 þús. hesta og auk þess voru tún ræktuð til beitar. Á þeim bletti, sem þetta hús stendur nú á hér á Flötunum, var einmitt kúabeit frá Vífilsstöðum framan af árum. Hér var kóngsjörð lítil, nefnd Hagakot. Þar var hætt búskap um 1920. Einnig var landið upp með læknum ræktað til beitar. Mest varð búið hjá mér um 70 kýr mjólkandi, auk geidneyta, svo að nær hundrað var í fjósi stundum. Ég fékk mjaltavélar 1928.
Bústofninn var lítið annað en kýrnar, aðeins lítið eitt af svínum og hænsn.
— En óræktað land Vífilsstaða, var það beitt?

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir og nágrenni 1954.

— Nei, það var snemma friðað, og síðan hefur mikið verið gróðursett af trjám í hlíðinni. Gróðurinn þar og í hrauninu hefur tekið ótrúlega miklum stakkaskiptum, og nú er hraunið orðið sannkallaður unaðsreitur með birkikjarri sínu, skjólbollum og hraunmyndum. Þessa lands getur fólkið hér í byggðinni nú notið, en ég treysti því til þess að verja það og vernda.
— Hve lengi hefur þú verið oddviti, Björn?
— Ég var kjörinn í hreppsnefnd hér 1931, og fer úr henni á þessu herrans ári 1970, svo að nú geturðu reiknað. Eru það ekki nær 40 ár? Oddviti var ég í 28 ár.”

Í Ísafold 1895 er Hagakot auglýst til leigu:

Hagakot

Hagakot – auglýsing 1895.

“Umboðsjörðin Hagakot í Garðahreppi, 8,3 hndr. að dýrleika eptir mati nýju mati, er laus til ábúðar í næstkomandi fardögum. Eptirgjaldið er; landskuld 40 álnir og leigur 20 álnir eptir smjörverði.
Umboðsmaður í Kjósar- og Gullbringusýslu, 14. desember 1895 – Franz Siemsen”

Í Ísafold 1896 er Hagakot aftur auglýst til útleigu:

Hagakot

Hagakot – auglýsing 1896.

“Umboðsjörðin Hagakot í Garðahreppi er laus til ábúðar í næstkæmandi fardögum. Eptirgjaldið er; landskuld 40 álnir og leigur 20 pd. smjörs.
Þeir, sem óska að fá ábúð á jörðu þessari, snúi sjer sem fyrst til mín sem umboðsmanns tjeðrar jarðar.
Skrifst. Kjósar- og Gullbringusýslu 17 des. 1896 – Franz Siemsen”

Í Ísafold 1898 er enn ein auglýsingin um leigu á Hagakoti:

“Hagakot í Garðahreppi, að dýrl. 8,3 hdr. n.m. Landskuld 40 álnir, leigur 20 pd. smjörs.
Skrifstofu Kjósar- og Gullbringusýslu 23. janúar 1898 – Franz Siemsen”

Lítill áhugi virðist vera á jörðinni enda ræktað landrými takmarkað. Svo fór, líkt og Björn lýsti, að jörðin lagðist í eyði um 1920.

Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar segir um Hagakot:

“Hagakot, býli í Garðahreppi, fyrrum Álftaneshreppi. Hagi er býlið nefnt í skjali frá gömlum tímum.

Hagakot

Hagakot – herforingjakort 1919.

Hagakotsbær stóð í Hagakotstúni því nær miðju, en það mun hafa fóðrað þrjár kýr eða þar um bil. Hagakotstúngarðar lágu að því austan, norðan og vestan. Hagakotstraðir lágu frá bænum vestanvert upp túnið í alfaraleiðina, sem lá rétt ofan við túnið. Hali eða Ranghali nefndist vesturhluti túnsins. Ofan eða bak við bæinn var Hagakotstjörn. Þangað var stundum sótt vatn. Á sumrum var hún gróin fergini. Hagakotsmýri lá neðan túnsins niður að Hagakotslæk, eins og lækurinn var kallaður, meðan hann rann meðfram landi býlisins. Beint niður undan bænum var vatnsbólið og vatnsgatan ofan frá bæ og þangað niður. Vestan túns var Vaðið yfir lækinn, þar sem hann nefndist Djúpilækur. Suðaustur frá túninu var Steinbrúin eða Stiklurnar yfir lækinn.

Hagakot

Hagakot – stekkur.

Austan túns var barð, og þar var mótekja, nefndist Móbarð. Hagakotsmelar lágu vestan, ofan og austan túns, og þar um lá alfaraleiðin. Austan túns niður undan melunum var Torfmýrin. Um hana var talið, að lægi landamerkjalínan milli Hagakots og Vífilsstaða. Þar upp af var lægð, Grófin. Ofar í holtinu var Sérstakaþúfa, eða eins og hún var kölluð frá Hagakoti, Syðriþúfa. Aðrir töldu, að landamerkin lægju nokkru innar um svonefnda Nautalind eða Nautadrykk og þá um Mýrarblettinn.

Hagakot

Hagakot – Hagakotshellir.

Hagakotsstígur lá frá Vaðinu suður um hraunið, Svínahraun, að Urriðakoti. Því var stígurinn allt eins nefndur Urriðakotsstígur. Spölkorn úti í hrauninu var Hagakotshellir, lítill skúti, en þó skjól fyrir fé. Þar lengra úti á hrauninu var Hagakotshóll eða (?) Hádegishóll, eyktamark frá Hagakoti.

Þjóðjörðin Hagakot í Garðahreppi á tún sitt, hefur eftir fornri venju notað mýri fyrir neðan túnið og mótak í barði austur af túninu og beit í Garðakirkjulandi fyrir fénað þann, sem framfleytist af mýrinni og túninu.”

Öllu umhverfis túnstæði Hagakots fyrrum hefur nú verið umverft undir þarfir nútímans…

Heimildir:
-Listin að lifa, 2. tbl. 01.06.2007, Gengið um Garðabæ, Sigurður Björnsson, bls. 46.
-Manntalið 1703.
-Tíminn, 113. tbl. 24.05.1970, Hann var oddviti í Garðahreppi nær þrjá áratugi – Björn Konráðsson, bls. 14 og 22.
-Ísafold, 96. tbl. 21.12.1895, auglýsing, bls. 884.
-Ísafold, 89. tbl. 23.12.1896, auglýsing, bls. 858.
-Ísafold, 6. tbl. 02.02.1898, auglýsing, bls. 24.
-Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi, 7; GRG, 102; Ö-Urriðakot SP, 4.
-Örnefnalýsing, Hagakot – Gísli Sigurðsson.
-Garðahraun Efra- Fornleifaskráning- og skýrsla. Antikva 2018.

Hagakot

Hagakot og nágrenni – herforingjakort 1919.

Garðahverfi

Í ritinu Harðjaxl réttlætis og laga 1924 skrifar “Gamall Garðhreppingur” um “Átthagafræði Garðahrepps“. Um var að ræða verðlaunasamkeppni ritsins þar sem viðkomandi lýsir bæjum og ábúendum í Garðahreppi:

Hr. ritstjóri!

Lónakot

Lónakotsbærinn.

“Þegar eg las í blaði yðar Harðjaxl um hinn mikla framgang Harðjaxlsstefnunnar, sem ennþá er vitanlega mestur í höfuðborginni, datt mér í hug, að þegar þér farið að senda erindreka yðar út um sveitirnar, væri gott fyrir yður að vita nokkur deili á býlum þeim og bændum, þar sem erindrekar yðar fara um. Þess vegna sendi eg yður hér með stuttorða lýsingu á bæjarnöfnum og fleiru smávegis, í þeim hreppi, sem eg er tiltölulega kunnugastur í.
Syðsti bær hreppsins er Lónakot. þar bjó til skamms tíma Guðlaugur; var hann sveitarhöfðingi hinn mesti, og bætti jörð sína mjög, og fór vel með allar skepnur, sérstaklega sauðfé. En nú er hann fluttur til Hafnarfjarðar og mun það mest vera fyrir þá sök, að honum þótti of lítið útsvar lagt á sig í hreppnum. Nú býr í Lónakoti Þorsteinn frá Herdísarvík, sá sem ekki vildi dóttur þórarins. Er hann sagður búhöldur góður.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir.

Næsti bær fyrir innan Lónakot eru Óttarstaðir; þar er tvíbýli. Á öðrumum partinum býr Guðmundur strandamaður. þar bjó áður Guðjón, sem búnaðist best í Krýsuvík. Á hinum partinum býr Sigurður; var hann talinn góður bóndi áður en bílarnir komu. Skammt fyrir ofan Óttarstaði er býlið Eiðskot.
Þar búa bræður tveir, Sveinn og Guðmundur. Eru þeir smiðir góðir og gamlir skútumenn, en hafa nú í seinni tíð hneigst til sauða, eins og stórbóndinn á Hvaleyri. Einnig hafa þeir verið helstu skónálasmiðir hreppsins um mörg ár.
Nú kemur engin bygð. fyr en í Straumi. Þar bjó um langan aldur Guðmundur dýravinur. En nú er hann kominn til Hafnarfjarðar eins og Guðlaugur, og lifir þar á sauðfé sínu og guðs blessun. Bjarni skólastjóri hefir nú útibú í Straumi, og á margt auðfé. Þar er engum úthýst.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta (ÓSÁ).

Í inn-hraununum eru nú sex býli í eyði, sem búið hefir verið á til skamms tíma, en liggja nú flest undir Straum.
Helsta býlið af þessum sex voru Þorbjarnarstaðir. Þar bjó lengi Þorkell faðir Árna, Ingólfs og Geira. Og var honum að sögn bygt út fyrir þá sök, að hann þótti ekki gresja nóg skóginn.
Hann hafði mikla ást á geldingum, sérstaklega mislitum. Nú er hann kominn til fjarðarins eins og Laugi. Í Péturskoti, sem er eitt af eyðibýlunum, bjó eitt ár Ingólfur sonur Þorkels, en af því að hann gat ekki tekið með köldu blóði að hafa þar margt fé á litlu, fór hann þaðan, og er nú kominn í velsæluna í firðinum. Á eyðibýlinu Litla-Lambhaga bjó fyrir nokkru Brynjólfur, gamall vinur Þorkels. Mun hann hafa farið þaðan fyrir þá sök að honum þótti of lág landskuldin. Í Gerðinu hefir nú Þórarinn sumarbústað; er hann sami maðurinn sem snéri trollurunum aftur við Reykjanes í fyrra, þegar hann komst ekki í bæjarstjórnina í firðinum. Þá grétu Emil og Gísli. Í Stóra-Lambhaga, sem nú er ein af hjálendum Straums, bjó fyrir nokkru Guðjón, sem nú býr á Langeyri við Hafnarfjörð, faðir Magnúsar hugvitsmanns…

Ás

Ás – tilgáta ÓSÁ.

Þegar hinum svokölluðu Hraunabæjum sleppir, er næsti bær Þorgeirsstaðir. Þar nam land Þorgeir hinn sterki. Nú býr þar Brynjólfur frá Litla-Lambhaga. Er hann víst allgóður bóndi, en heldur þykir hann óheppinn með sauðfé nú í seinni tíð. Skammt frá Þorgeirsstöðum er býlið Stekkur. Þar býr Sigurður. Þykir hann gera það gott eftir atvikum. Næsti bær við Stekk er Ás. Þar býr Oddgeir sonur Þorkels; er það sami maðurinn sem ekki bauð sig fyrir hreppstjóra hérna um árið, en varð hreppstjóri samt, eg man ekki hvað lengi. Nú er höfuðbólið Setberg næsti bær. Þar býr nú Jóhannes Reykdal, og hefir mikið um sig. Þar bjuggu áður Halldór og Anna, sem margir kannast við.

Urriðakot

Urriðakot.

Næsti bær við Setberg er Urriðakot. Þar býr Guðmundur. Er hann tengdafaðir Björns bolsivikka í firðinum, og er sagt, að Guðmundur sé ekkert upp með sér af þeim tengdum.
Þá koma næst Vífilsstaðir. Þar er nú rekinn fyrirmyndar búskapur á kostnað ríkissjóðs, undir stjórn Þorleifs. Og mundi vart betur vera búið, þótt einstakur maður ætti. Og sýnir það, að ríkisrekstur á fullkominn tilverurétt, á hvaða sviði sem er, ef honum er viturlega stjórnað. En heldur þykir bændum útsvarið vera lágt á búinu.
Skammt fyrir neðan Vífilsstaði er Hagakot; það er nú í eyði, en beljur látnar slá túnið á sumrum.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir fyrrum.

Þá koma Hofstaðir. Þar býr nú Gísli, sá sem ekki vill komast í hreppsnefndina. Þar bjó áður Jakob faðir Gísla, vel metinn maður. Fyrir neðan Hofstaði er Arnarnes. Þar býr nú prestsekkja með sonum sínum. Og hefir hún meira álit á hærri stöðum en sumir hreppstjórar. Þá er næst Hraunsholt. Þar hefir lengi búið Jakob; er hann með betri bændum hreppsins, og helsti brautryðjandi hreppsins í kaupfélagsmálum. Og sérstaklega er sagt að hann hafi gengið upp, síðan farið var að slá slöku við að mæla fitumagnið í mjólkinni.

Krókur

Krókur.

Þá tekur við Garðahverfið, og er þá best að byrja á Garðastað. Þar býr prófastur Árni Björnsson, tengdafaðir Gunnlaugs stórkaupmanns. Þá er næst Nýibær. Þar býr Magnús, allgóður bóndi, en heldur er sagt að búskap hans hafi hrakað síðan bæjarfulltrúinn tók heimasætuna. Skamt upp af Nýjabæ er Krókur. Þar bjó lengi Björn faðir Guðmundar. Er sagt að Guðmundur sjái um að blikkkassinn hjá gjaldkeranum springi ekki af offylli. Fyrir neðan Krók eru Pálshús. Þar býr nú Guðjón hreppstjóri, sem ekki fékk Arnarnesið.

Garðahverfi

Pálshús.

Fyrir neðan Pálshús eru Dysjar. Þar er tvíbýli. Á öðrum partinum býr Magnús Brynjólfsson. Og er sagt að bærinn hjá honum leki enn, þó að hann kysi Björn. Á hinum partinum býr Guðjón, mágur Steingríms og Óla H. Skamt frá Dysjum er Bakki. Þar býr nú Kristinn Kristjánsson. Þar bjó áður Isak, sem á meinlausu hundana. Þá er Miðengi. Þar býr Gunnar, sláttumaður góður. Þar næst er Móakot. Þar býr Einar, bróðir Steins rithöfundar. Sonur Einars er Sigurður sá, sem engin hjúkrunarkona vill ganga með, jafnvel þó hún sé launuð af bæjarstjórn. Fyrir ofan Móakot er Háteigur. Þar býr Stefán, faðir Páls.

Garðahverfi

Hlíð.

Þá kemur næst Hlíð. Þar hefir til skamms tíma verið tvíbýli. Nú hefir alla jörðina Gísli Guðjónsson. Þá er næsti bær Grjóti. Þar býr nú sprenglærður búfræðingur með mikilli rausn.
Á Hausastöðum býr nú Valgeir Eyjólfsson, talinn gott búmannsefni. Fyrir neðan Hausaataði er Katrínarkot. Þar hefir lengi búið Jónína, gömul vinkona Guðjóns. Þá er norðasti bær hreppsins, Selskarð. Þar bjó til skamms tíma Þórarinn, sem margir Hafnfirðingar kannast við. En nú hafa þeir félagar Jón og Gísli keypt jörðina, og er sagt að þeir ætli að setjast þar að þegar þeir eru búnir að tapa svo miklu á akkorðunum, að þeir haldist ekki lengur við í firðinum. Og telja kunnugir, að það geti vart dregist lengur en fram á næsta vor, sérstaklega, ef þeir hafa uppskipun úr 14 trollurum í vetur.
Þess skal getið réttum hlutaðeigendum til hróss, að þeir hafa sett mjög öfluga girðingu á milli Álftaness og Garðahverfis. En þó Álftnesingurinn sé ekki árennilegur, mun eg ef til vill, ef eg sé mér færi, skjótast í gegnum hliðið á girðingunni og rita þá lítilsháttar um bændur þar og búalið.” – Gamall Garðhreppingur.

Heimild:
-Harðjaxl réttlæstis og laga, 16. tbl. 04.12.1924, Átthagafræði Garðahrepps – verðlaunasamkeppni, bls. 2-3.

Garðahverfi

Garðahverfi.