Færslur

Hraunsnes

Gengið var um fisbyrgin og minjarnar á Selatanga, skoðaðar sjóbúðirnar, Brunnurinn, Smiðjan, Skjólin, Dágon o.fl. Minnt var á Tanga-Tómas og rifjuð upp sagan af viðureign hans og Arnarfellsbónda. Síðan var gengið að refagildrunum ofan við Nótahelli, um Ketilinn í Katlahrauni og yfir í fjárbyrgi Vígdísarvallamanna (Ísólfsskálamanna).

Selatangar

Verkhús á Selatöngum.

Frá því var gengið í fjórðungssveig yfir að Vestari lestargötunni (Rekagötunni) frá Selatöngum yfir að Ísólfsskála. Erling Einarsson (Skálaafkomandi, sem var með í för) sagðist hafa heyrt að gatan hefði verið nefnd Selatangagata frá Ísólfsskála, en Ísólfsskálagata frá Selatöngum. Gatan er vörðuð þegar komið er upp úr Katlinum. Framundan er greinileg klofin varða. Síðan sést móta fyrir götunni uns komið er að Mölvík. Þá hverfur hún að mestu í sandi, en ef sýnilegum litlum vörðum er fylgt neðan við hraunkantinn kemur gatan fljótlega aftur í ljós. Hún heldur síðan áfram inn á hraunið og áfram áleiðis að Skála. En við hraunkantinn var beygt til vinstri að þessu sinni, niður í Hraunsnes. Þar eru fallegar bergmyndanir, klettadrangar og vatnsstorknir hraunveggir. Gengið var eftir ruddri götu til vesturs. Áður en komið var að enda hennar í vestanverðum hraunkantinum var enn beygt til vinstri, að hinum miklu þurrkgörðum og – byrgjum ofan við Gvendarklappir. Þar var fiskur verkaður vel fram á 20. öldina.
Kaffi og meðlæti var þegið á Ísólfsskála að lokinni göngu.
Því miður gekk skipulagið ekki alveg upp að þessu sinni. Áætlað hafði verið, auk landgöngunnar, hvalaganga og afturganga, en sú fyrrnefnda fór framhjá í kafi, þrátt fyrir þrotlausar æfingar, og sú síðarnefnda sofnaði í einu byrgjanna í góða veðrinu þannig að þátttakendur urðu ekki varir við hana að þessu sinni.
Veður var með ágætum – þægileg gjóla og sól.

Selatangar

Selatangar – uppdráttur ÓSÁ.

Hvassahraun
Girðingu austan Hvassahrauns var fylgt til norðurs frá Skyggni. Skammt undan hólnum er gamla Hvassahraunsréttin, fallega hlaðin í hraunkvos.
Girðingin, eða öllu heldur undirhleðslan, endar niður við sjó skammt austan við Stekkjarhól. Gengið var austur með ströndinni, Hvassahraunsbót. Gatan er að mestu gróin og auðvel yfirferðar.

Hraunsnesskjól

Hraunsnesskjól.

Grjótkampurinn er mikið til sérkennilegt grágrýti, sem ber þess glögg merki að hafa storknað í sjó. Eftir u.þ.b. hálftíma göngu skipti um. Framundan var nokkuð langur, grasi gróinn, tangi, Hraunsnes. Framan við hann voru falleg vatnsstæði. Inn á nesinu er hlaðið fjárskjól. Svæðið ber með sér að þarna hafi verið beitt á árum áður.
Haldið var áfram austur með ströndinni. Framundan sást Markaklettur þar sem hann stóð upp úr hrauninu næst sjónum. Kletturinn er landamerki Hvassahrauns og Lónakots. Gömul girðing liggur upp frá honum. Ofan hans eru tveir staurar og hefur hlið verið á milli þeirra. Handan Markakletts var komið að nokkrum fallegum spegilsléttum tjörnum inn á milli Kindinhárra kletta. Við eina tjörnina var, að því er virtist, elliær sækind. Tókst að taka ljósmynd af kindinni með því að læðast að henni og koma að óvörum. Vel mátti sjá sauðasvipinn á henni ef vel var að gáð. Þegar hún varð mannaferða var stökk hún áleiðis til sjávar og hvarf sjónum.
Skammt austar eru háir klettar, Réttarklettar. Gróið er í kringum þá. Umhverfis eru hlaðnir garðar og mótar fyrir tótt norðan við klettana. Hlaðinn stekkur er utan í garði austan þeirra. Ekkert nafn virðist vera á þessu svæði því það virðist ekki vera til á kortum. Heimild er til um kot fyrrum á þessu vsæði, Svínakot. Í örnefnalýsingu fyrir Lónakot segir m.a. um þetta svæði: “Úr Söndugrjóti lá landamerkjalínan í Markhól eða Hól, sprunginn, með Markhólsþúfu. Þar er enga áletrun að finna. Frá norðurtúngarðshliði lá Sjávargatan vestur með sjónum.
Gata þessi vestur með sjónum var gerð fær hestvagni eftir 1920 og eftir henni ekið með reka af fjörunum. Lónakotsvör var vestan og neðan vesturtúngarðsins, en mun sjaldan hafa verið notuð nema að sumri til. Hér nokkru vestar var Brimþúfa, þúfa uppi á kletti. Niðri í fjörunni var Mávahella, þar sátu mávarnir og skarfarnir [og] viðruðu sig. Vestan var strýtumyndaður hóll, nefndist Nípa. Þar upp af í hrauninu var fjárskjól, Nípuskjól og Nípurétt, tóft réttar við hellisskúta syðst í lægðinni. Nokkru lengra vestur voru klettastrýtur, nefndust Réttarklettar.  Milli þeirra voru allvel grónar flatir og réttartættur, garðar og skjól.”
Sjávargötunni var fylgt til austurs, yfir hraunhaft, framhjá Nípu og áfram áleiðis að Lónakoti.
Ef fé hefur verið haldið þarna mátti draga þá ályktun að þar hlyti að vera einhver fjárskjól auk þessa vestan á nesinu. Þegar vel var skyggnst mátti greina hleðslu á hól í suðri. Stígur virtist liggja í þá áttina. Honum var fylgt og var þá komið að miklum hleðslum fyrir skúta, fjárhelli. Skútinn var í hárri hraunkvos og var vel gróið í kring. Ekki var að sjá merki mannaferða í eða við skútann, sem er vel hár og rúmgóður.
Sjávargötunni var fylgt til austurs, yfir hraunhaft, framhjá Nípu og áfram áleiðis að Lónakoti.
Tækifærið var notað og mannvistarsvæðið rissað upp.
Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Lónakot

Lónakot – uppdráttur ÓSÁ.

Hraunsnes

Gengið var niður hraunið frá Gamla Keflavíkurveginum skammt austan við Hvassahraun, að Stóra Grænhól, yfir Skógarhól og að Vondaskúta skammt ofan við suðvestanvert Hraunsnes. Ætlunin var að skoða skútann og halda síðan áfram yfir að Lónakoti þar sem Vatnagarðahellir er fyrir, gamalt fjárskjól og brugghellir. Fjárgata liggur niður hraunið vestan við skútann.

Vatnagarðahellir

Vatnagarðahellir.

Elsti hluti Keflavíkurvegarins, Suðurvegurinn, var lagður um 1900. Hluti af efninu var þá tekið úr Litla-Rauðamel. Einnig var efni tekið þar nokkru fyrr þegar unnið var við lagfæringar á gamla Sýsluveginum (JG).
Vondiskúti er undir margklofnum kletti upp af austanverði Hvassahraunsbót. Opið snýr í norður. Fjárgata liggur niður hraunið vestan við hraunhólinn. Skútinn ber nafn með rentu því þar endaði sauður ævi sína fyrir löngu. Skútinn var þyrnir í augum fjármanna sem þurftu sífellt að vera á varðbergi og gæta að fjársafni sínu. Víða má sjá hlaðið fyrir skúta í hraununum til að varna fé inngöngu. Þá eru einnig hleðslur við veggi jarðfalla til að auðvelda fénu uppgöngu ef það á annað borð leitaði þar skjóls. Líf bænda og búanda fyrrum snérist meira og minna við að eltast við og gæta að sérhverjum sauð og sérhverri skjátu því án þeirra var vandlifað í og við Hraunin.
Í Hraunsnesi er einnig fjárskjól undir bakka í grunnu jarðfalli, Hraunsnessfjárskjólið. Hleðslur eru fyrir því. Ofan við Hraunsnesið eru fallegar tjarnir og er ferskvatn í sumum þeirra.

Vondiskúti

Vondiskúti.

Gengið var niður að Markakletti, mörkum Hvassahrauns og Lónakots ofan við ströndina, áfram til austurs með ströndinni, Dulaklettum, framhjá minjunum við Réttarkletta og yfir að Lónakoti. Sunnan þeirra er Grænhólsskjól. Sumir telja að þarna hafi Lónakot verið fyrrum, en aðrir að selstaðan hafi verið flutt þangað úr heiðinni. Aðrir telja að þarna hafi svonefnt Svínakot, sem minnst er á í annálum. Í leiðinni var litið á fjárskjólið í skeifulaga hraunskál skammt sunnan við klettana. Troðningur liggur með ströndinni svo leiðin er nokkuð greið.
Ofan lónanna við Lónakot er Vatnagarðahellir í sunnanverðu jarðfalli. Myndarlagar hleðslur eru þar fyrir.

Vatnagarðahellir

Í Vatnagarðahelli.

Vatnagarðahellir var vetrarhellir Lónakotsbænda, skammt undan bænum, en samt utangarðs. Þar rúmaðist góður tugur fjár sem leitaði sjálft skjóls í óveðrum. Þar sem hellirinn er á mörkum Óttarsstaða og Lónakots gerðu báðir tilkalla til hans. Munnmæli herma að göróttur drykkur hafi verið bruggaður í hellinum á bannárunum. Orðrómur var um allnokkra slíka á Reykjanesskaganum. Einn þeirra er í Hvassahrauni, skammt sunnan við Reykjanesbrautina, en yfirvaldið, Björn Blöndal, mun hafa leitað árangurslaust að honum, enda erfitt að koma auga á opið.
Lónakot var einn Hraunbæjanna.
Haldið var inn á Lónakotsselsstíg og honum fylgt upp á þjóðveginn. Gróðurangan fyllti loftið eftir rigningar undanfarna daga.

Lónakot

Grænhólsskjól.

Ísólfsskáli

Gengið var um Ísólfsskála, verminjarnar á og við Nótarhól ofan við Gvendarvör austan Rangagjögurs neðan Skálabótar, og haldið með ströndinni um Tranta, Hattvík og Kvennagöngubása út í Hraunsnes. Þaðan var gengið um Veiðibjöllunef og Mölvík í Katlahraun uns staðnæmst var við fjárskjólið þar uppi í hrauninu.

Hraunsnes

Hraunsnes – jarðmyndun.

Hraunið ofan við Hraunsnes, austan Ísólfsskála, nefnist Skollahraun, en hraunið ofan við Mölvík nefnist Leggjarbrjótshraun. Austar er Katlahraun. Samheiti á hraunum þessum er Ögmundarhraun (sbr. landakort), en eins og af nöfnunum sem og útliti má sjá er Ögmundarhraun fleiri en eitt hraun.
Á leiðinni var m.a. ætlunin að huga að fallegum brimkatli við ströndina, gati, sem sjórinn hafði brotið sig upp um allnokkuð ofan við ströndina og kíkja í sprungu, sem opnaðist nýlega í Katlahrauni. Ketillinn og gatið sáust vel í nýlegu yfirlitsflugi FERLIRs.
Umhverfið er eitt, en veðrið annað. Athyglin og skynjunin tengja hvorutveggja saman í heildir. Að þessu sinni hafði verið samið um ásýnilega sjávarágjöf, hvítfryssandi háöldur og skynjanlegt samstuð sjávar og strandar (átök Gyms og móður Jarðar) – svona að til auka enn á áhrif umhverfis og veðurs.

Mölvík

Í Mölvík.

Göngunni er hér lýst upp í vindinn, rangsælis við leiðina, sem gengin var – upphafið var því við fjárskjólið í Katlahrauni og endirinn við Ísólfsskála – til þess að auðveldara væri að sjá það sem fyrir augu bar á leiðinni. Svæði þetta er ótrúleg náttúrusmíð – ekki síst þegar veðrið fær að leika lausum hala.
Tillaga frá Náttúrfræðistofnun Íslands árið 2002 og síðar Umhverfisstofnun frá árinu 2004 hefur legið fyrir um að koma svæðinu á náttúruminjaskrá. Í umsögn stofnananna um svæðið segir m.a. að þar séu “fallegar og óvenjulegar hraunmyndanir og einstakar mannvistarleifar, svo greinilega yfirbugaðar af eldvirkni landsins. Á svæðinu eru jarðmyndanir, vatnafar, plöntur, dýr, vistkerfi, vistgerðir, búsvæði, landslag, víðerni, menningar- og söguminjar og fágætar náttúruminjar. Sumar þeirra eru í hættu. Katlahraun, sem er vestan Ögmundarhrauns, hefur runnið í sjó fram. Katlahraun er talsvert eldra en hið eiginlega Ögmundarhraun. Sama má segja bæði um Leggjarbrjótshraun og Skollahraun. Þarna eru mikil hraunflæmi, sérkennilegar hrauntjarnir og hellar. Áhrifaríkt er að koma að fyrrum byggð Í Húshólma í Ögmundarhrauni og sjá þar húsatóttir, sem hraunið rann yfir (1151). Á Selatöngum eru hlaðnar rústir eftir útræði fyrri alda. Þar eru friðlýstar fornminjar, líkt og gildir um minjarnar í Húshólma.”

Hraunsnes

Hraunmyndun í Hraunsnesi.

Í Náttúruverndaráætlun Umhverfisstofnunar 2004-2008 er gert ráð fyrir að svæðið verði sett á náttúruminjaskrá. Í umsögn um umhverfismats um Suðurstrandaveg er þó látið sem svæðið sé allt á náttúrminjaskrá. Hvað sem því líður er hér í heild um bæði áhugavert og verðmætt svæði að ræða, einkum út frá framangreindum efnisþáttum.
Forstjóri Umhverfisstofnunar hefur sagt að eitt af mikilvægari verkefnum stofnunarinnar frá því að hún hóf starfsemi sína hinn 1. janúar 2003 sé m.a. að reka smiðshöggið á tillögu um náttúruverndaráætlun sem unnið hafði verið að um nokkra hríð í samræmi við lög nr. 44/1999, um náttúruvernd. Þar segir að
“maðurinn hefur nýtt sér auðlindir náttúrunnar frá örófi alda. Hann hefur reynt að móta náttúruna í viðleitni sinni til að brauðfæða sig og afkomendur sína. Athafnasaga mannsins er ekki samfelld sigurganga heldur endurspeglar hún, líkt og önnur saga mannsins, þróun þar sem mörg mistök hafa átt sér stað, þar sem menn hafa lent í blindgötu með framkvæmdir sínar, þær verið endurskoðaðar og nýjar leiðir reyndar þar til betri árangur náðist. Í upphafi var viðleitnin vanmáttug, en smám saman varð manninum meira ágengt við að móta náttúruna að sínu höfði. Margir telja að iðnbyltingin á miðri 19. öld marki upphaf þeirra gríðarlegu breytinga sem síðan hafa átt sér stað. En á síðustu öld varð nánast stökkbreyting þar sem saman fór gífurlega hröð fólksfjölgun og tæknibylting sem á sér enga hliðstæðu í sögu mannsins.

Hraunsnes

Í Hraunsnesi.

Í byrjun 21. aldar ræður maðurinn yfir verkfærum og þekkingu sem geta breytt og mótað náttúruna á örskömmum tíma með ófyrirsjáanlegum afleiðingum ef varúðar er ekki gætt, enda er tæknin orðin slík að auðvelt er að valda óbætanlegum skaða með vanhugsuðum aðgerðum. Það er eðlilegt þegar fólk sér þær breytingar sem hafa orðið á umhverfinu að margir vilji staldra við og spyrja um ávinning af þessum breytingum og hverju sé fórnað. Nýting náttúruauðlinda er undirstaða efnahagslegrar velferðar flestallra þjóða heims. Hins vegar eru það einnig eftirsóknarverð lífsgæði að mega njóta fjölbreyttrar náttúru.  Nýting náttúrugæða jarðar hefur margar hliðar. Síðarnefndu sjónarmiðunum hefur vaxið mjög ásmegin eftir því sem tækninni hefur fleygt fram, efni fólks hafa orðið meiri, og meiru hefur verið raskað. Það er hlutskipti þeirra sem sinna náttúruvernd að horfa til framtíðar og til þeirrar ábyrgðar sem við sem nú lifum berum á þeim heimi sem við skilum til komandi kynslóða. Óhjákvæmilega stangast hagsmunir annarrar nýtingar, fjárhagslegir eða félagslegir, stundum á við hagsmuni náttúruverndar. Þess vegna verða náttúruverndarmál oft átakamál. Það er ákaflega mikilvægt að rök, t.d. fyrir friðun lands, séu sett skilmerkilega fram og að þau séu aðgengileg almenningi jafnt og stjórnvöldum.” Staðreyndin er því miður sú að of margt fólk hugsar lítið sem ekkert um umhverfi sitt og allt of margir hugsa yfirleitt ekki um nokkurn skapan hlut – nema kannski svolítið um þá sjálfa.

Mölvík

Í Mölvík.

Skoðuð voru hlaðin byrgi og garðar ofan við Gvendarvör. Um er að ræða svipaðar og hinar friðlýstu minjar og á Selatöngum, en þó minni í sniðum. Mannvirkin lýsa vel sögu fiskverkunarinnar, sem lýst er nákvæmlega í umfjöllun um skreið undir Fróðleikur hér á vefsíðunni (ath. megnið af fyrri vefsíðuskrifum er hulin um sinn).
Sker utan við ströndina skammt suðaustar nefnast Trantar og austan þeirra er Hattvíkin. Þar skammt austar eru Kvennagöngubásar, hin þokkalegasta lending. Þá tekur Hraunsnesið við, en það er smækkuð mynd af Dimmuborgum og Katlinum (Borgunum) í Katlahrauni. Þunnfljótandi hraun (Skollahraun) hefur runnið þar í “sjóketil”. Við það hafa myndast formfagrir hellulaga stöplar sem og hinar ótrúlegustu hraunmyndanir. Storknuð hraunhellan hefur síðan fallið niður og stöplarnir staðið eftir. Gerður hefur verið slóði út í nesið og hafa einhverjir verið að dunda sér við að fjarlægja hellurnar utan af stöplunum, sem er hin mesta eyðilegging á þessu fallega náttúrufyrirbæri, og nota í garða sína þar sem allt samhengi við þær skortir. Litbrigði og myndanir í klettum eru einstök í Hraunsnesi.

Mölvík

Mölvík – hellisgat.

Jón Guðmundsson frá Ísólfsskála sagði fyrir skömmu í samtali að áður hafi jafnan verið róið úr Gvendarvör og gert að á Nótarhól. Austan við hólinn eru rústir verkhúss. Trantar þar utan við væru í raun hrjúft hraun, sem stendur upp úr sjónum. Nafnið benti til þess að það hafi hrannast upp, tranað eða trantað sér upp og myndað strýtur. Austar væru Rangargjögur og Hattvík. Rangagjögur væri í raun stórmerkilegt. Best væri að skoða það á fjöru til að þá sjá megi það vel. Gjögrið er á milli Tranta og Hattvíkur. Bát rak þar inn í vitlausu veðri fyrir u.þ.b. 20 árum síðan, er Ísólfur bjó enn á Skála, og lenti inni í skorunni. Þar er bæði þröngt og hyldjúpt. Áhöfnin, einn maður, komst gangandi heim að bæ og bankaði upp á. Bátnum varð hins vegar ekki bjargað. Kista er kistulaga klettur vestarlega og miðsvæðis uppi í hrauninu. Frá Nótarhól sést vel yfir að Festarfjalli, Lambafelli, nær og Lambastapa neðan þess, niður við sjó. Ofan við Skála er Bjalli (Hjálmarsbjalli) og Lyngfellið ofan hans.
Heimastibás heitir þröngur klettabás skammt austar og Kvennagöngubásar eru þar austan við. Veiðibjöllunef, stundum nefnt Vondanef, var mið af sjó austan úr Hælsvík. Þá átti Veiðibjöllunef að bera í Langageira í Fiskidaldsfalli. Þessa lýsingu hafði Jón fengið frá Manga á Hrauni, en Jón gaf m.a. út rit um miðin utan við Grindavík á sínum tíma, en þau skrif voru bæði byggð á reynslu hans sjálfs og þeirra manna, sem þá voru þegar gengnir.

Mölvík

Mölvík.

Mölvíkin virðist ekkert sérstök, en fyrir fiskimennina var hún það svo sannarlega. Mölvíkurleirinn (slétt hraunið ofan við víkina) var afmarkaður af Skála-Mælifelli að vestan og með skoru upp í Lönguhlíð að austan. Utar, á sléttum botni, voru togmiðin, en góðan og mikinn fisk var að hafa á hrauninu í Mölvíkinni, einkum á veturna. Á sumrin var veitt alveg upp við fjöru (Þorskmið). Þar sem Geitarhlíð kemur í skarðið á Katlahrauni og hrauk í hrauninu ber í vestari Görnina á Núpshlíðar (lægð er liggur upp í grasi búna hliðina – undir Görninni er fjárból) er hraundrangur undir. Þar eru um 7 faðmar niður. Fiskurinn sest að við hraundranginn, sem er um hálfur annar metri á hæð, undir sjólínu. Fiskurinn sést og tók líka vel ef verið var að. Straumurinn leikur um dranginn og þar lá fiskurinn í vari (líkt og fé í hlíð).
Jón sagði að vörðurnar uppi í Skollahrauni, skammt frá þjóðveginum undir Slögu, austan við Löngukvos, nefndust Bárðarvarða, eftir gömlum einsetumanni á Skála er hélt þar til um vetur, og Bergsvarða (faðir Hinriks og Guðbergs). Í umsögn um Suðurstrandarveginn eru þær sagðar “gamlar vörður við forna þjóðleið”. Þær þjónuðu hins vegar ekki öðrum tilgangi en þeim að stytta byggjendunum stundir á og meðan var.

Selatangar

Gatvarða á rekagötunni við Selatanga.

Gengið var inn í Leggjarbrjótshraun með Mölvíkinni. Um er er að ræða fallegt útsýni út með ströndinni. Þegar komið var inn í Katlahraun var gengið niður í Borgirnar (Ketilinn) og þær bornar saman við myndun stöplana í Hraunsnesi. Um er að ræða nátengd fyrirbæri.
Haldið var norður um hraunið að hlöðnu fjárskjóli fólksins á Vigdísarvöllum. Féð þaðan vildi leita niður í fjörur Selatanga og var þá hlaðið fyrir skúta þarna í hrauninu því til skjóls. Helgi Einarsson, sem var með í för, sagði að skjólið hafi einnig verið notað eftir að forfeður hans frá Vigdísarvöllum flutti búferlum niður að Ísólfsskála. Helgi er mjög kunnugur örnefnum á svæðinu, auk þess sem hann hefur bæði gengið mikið um það og ástundað miðin út undan því.
Brimketillinn fannst ekki í særokinu, en gatið tilnefnda fannst skammt vestan við fallegan gatklett í Mölvíkinni. Rúmlega 20 metra langur sjávarhellir gengur inn undir ströndina, étið malbergið og hefur síðan brotið sér leið upp um grágrýtishelluna þegar sjórinn hefur ætt þar inn og þrýstingurinn verið orðinn of mikill. Þá var kíkt í sprunguna í Katlahrauni, en hún myndaðist í jarðskjálfta fyrir u.þ.b. tveimur árum. Hún hefur verið að stækka smám saman og er þegar orðin alldjúp. Hellir gæti leynst undir niðri. Ekki er ólíklegt að sjórinn leyti finni sér leið um síðar meir. Skoðaður var skúti í Katlahrauni skammt norðan við Rekagötuna, en svo virðist sem hlaðið hafi verið að hluta til fyrir opið. Skútinn rúmar vel nokkra menn.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Ísólfsskáli

Brimketill við Kvennagöngubása.

Hraunsnes

Gengið var frá gömlu Hvassahraunsréttinni vestan Skyggnis, niður hraunið að ströndinni og henni síðan fylgt til austurs um Stekkjarnes og með Hvassahraunsbót að Markakletti. Þaðan var gengin bein lína yfir að upphafsstað, áfram að Hjallhólaskúta og síðan haldið yfir Reykjanesbrautina að Strokkamelum og brugghellinum.

Hvassahraun

Hvassahraun – gerði.

Þá var gengið til baka yfir brautina áleiðis að Fögruvík skammt vestar og skoðað hlaðið gerði skammt vestan hennar.
Skammt norður undan hól vestan við Skyggni er gamla Hvassahraunsréttin, fallega hlaðin í hraunkvos. Girðingin, sem liggur frá henni til norðurs, eða öllu heldur undirhleðslan, endar niður við sjó skammt austan við Stekkjarhól. Austan undir hólnum eru hleðslur. Gengið var austur með ströndinni, Hvassahraunsbót. Gatan er að mestu gróin og auðvel yfirferðar. Grjótkampurinn er mikið til sérkennilegt grágrýti, sem ber þess glögg merki að hafa storknað í sjó. Eftir u.þ.b. hálftíma göngu skipti um.

Hraunsnes

Hraunsnes-rétt.

Framundan var nokkuð langur, grasi gróinn, tangi, Hraunsnes. Framan við hann voru falleg vatnsstæði. Inn á nesinu er hlaðið fjárskjól. Svæðið ber með sér að þarna hafi verið beitt á árum áður. Haldið var áfram austur með ströndinni. Framundan sást Markaklettur þar sem hann stóð upp úr hrauninu næst sjónum. Kletturinn er landamerki Hvassahrauns og Lónakots. Gömul girðing liggur upp frá honum áleiðis að Skógarhól og síðan áfram upp í Rjúpnadalahraunið. Ofan Markakletts eru tveir staurar og hefur hlið verið á milli þeirra.
Gengið var til baka suðvestur með stefnu suður fyrir Hvassahraun.

Hvassahraun

Hvassahraun – nú horfið.

Ekki er mikið vitað um ábúendur í Hvassahrauni fyrr á öldum, en þó er vitað að árið 1786 bjuggu þar Þorbjörn Jónsson, fæddur 1739, og kona hans Anna Magnúsdóttir, fædd 1734. Líklega hafa þau búið um tíma í Krýsuvík en með vissu eru þau farin að búa í Hvassahrauni 1786. Þau munu hafa komið austan úr Skaftafellssýslu í Skaftáreldum. Þau eru búandi þar í manntalinu 1801.

Þegar gengið er í gegnum annars gróið hraunið er ljóst að talsvert kjarr hefur verið í því fyrrum. Nú hefur berlega komið í ljós hversu vel kjarrið hefur tekið við sér eftir að fé á svæðinu hefur dregið sig til hlés.

Hrístóur

Stígur um Hrístóur í Afstapahrauni.

Árið 1703 var t.d. hrísrif á heimalandi Hvassahrauni og var það einnig notað í heyskorti. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, 1703, eru talin upp hlunnindi jarða, þar á meðal skógarhögg til kolagerðar. Við lauslega athugun teljast sjötíu og sjö jarðir í sýslunni eiga skógarhögg á almenningum. Ekki liggur ljóst fyrir hvar þessir almenningar hafa verið. Þó er örnefnið til á milli Kapelluhrauns og Afstapahrauns. Af orðalagi má þó ráða, að með almenningum sé stundum átt við uppland, þar sem landamerkjum jarða sleppir. Í Álftanes- og Seltjarnarneshreppi er talað um einn eða tvo hríshesta (hestburði) á hverja jörð, en sunnar á Reykjanesinu er ekki talað um slíkar takmarkanir. Við upphaf nútíma fyrir um 10 þúsund árum var öðruvísi um að litast en nú á ströndinni frá Straumsvík vestur að Kúagerði.

Hraun - aldur

Hraun á Reykjanesskaga.

Á síðasta jökulskeiði lá jökulfargið meira og minna yfir Reykjanesskaga, en hafði að því er virðist ekki áhrif á gosvirknina. Stundum náðu hraunin að dreifa úr sér þegar íslaust var, en stundum gaus undir ísnum og gosefnin hlóðust upp í geilinni sem þau bræddu, hörðnuðu þar og urðu að móbergi. Sum hraun sem náðu að renna og dreifast hurfu alveg undir önnur nýrri. Það elzta sem sést á yfirborði í námunda við þetta svæði er Búrfellshraun, sem rann fyrir um 7.300 árum og Norðurbærinn í Hafnarfirði er byggður á.

Fyrir um 5000 árum varð mikið gos í Hrútagjá, nyrst í Móhálsadal, milli Sveifluháls og Núpshlíðarháls. Hraunið, sem kennt er við Hrútagjárdyngju, rann til sjávar og myndaði svæðið vestan við Straumsvík þar sem Hraunabæirnir voru byggðir, nærri 4000 árum síðar.

Afstapahraun

Í Afstapahrauni.

Afstapahraun er síðari tíma hraun eins og Kapelluhraunið austar. Hraunið undir landi Hraunabæjanna hafði góðan tíma til að gróa upp áður en nokkur lifandi skepna gekk um það og myndaðist víða kjarr í því, eða skógur, sem eyddist af rányrkju á öldum fátæktarinnar.

Hin reglubundna goshrina, sú síðasta, fór hinsvegar í gang fyrir um 1000 árum; Ísland þá búið að vera numið á aðra öld og ef til vill enn lengur. Þá rann Hellnahraunið yngra, sem svo er nefnt, frá Tvíbollum í Grindaskörðum og náði einn hraunstraumurinn langleiðina til Straumsvíkur, en óvíst er að nokkur bær hafi þá verið í Hraununum; elztu heimildir um byggð þar eru frá því um 1200.

Víkingaskip

Víkingaskip í Afstapahrauni.

Hálfri öld áður rann Kapelluhraun til sjávar í Straumsvík og hafði áhrif á landmótun þar; yngsta hraunið á þessu svæði.

Frá fornu fari hafði ábúendum og öðru fólki á Reykjanesskaga verið skipt í útnesjamenn, sem bjuggu utan við Kúagerði, og innnesjamenn sem til að mynda bjuggu í Hraunum og á Álftanesi. Fram á 20. öld var mikil umferð ríðandi, en mun oftar þó gangandi manna suður með sjó og þaðan “inn” í Hafnarfjörð og Reykjavík. Menn fóru í verið til Suðurnesja og svo þurfti að ná í blessaða þorskhausana og reiða þá austur í sveitir á baggahestum. Þorskhausalestir voru dagleg sjón á vorin. Enginn var vegurinn, aðeins götur sem fótspor hesta og manna höfðu markað og þær lágu í krókum og krákustígum eftir því hvar skást var að komast yfir hraunin.

Afstapavarða

Afstapavarða (nú horfin).

Hraunabyggðin taldist löngum vera í Garðahreppi, en vestan Lónakotslands tekur Vatnsleysustrandarhreppur við. Hvassahraun er austasta jörðin í hreppnum.

Eftir að hafa kíkt á Hjallhólaskúta norðan Reykjanesbrautarinnar var gengið upp fyrir brautina. Byrjað var að skoða hraundrílin á Strokkamelum. A.m.k. tvö þeirra eru alveg heil, tvö önnur eru fallega formuð og önnur hálfheil eða hrunin. Hraundrílin hafa myndast á svipaðan hátt og tröllakatlanir undir Lögbergsbrekkunni, en eru einungis minni í sniðum. Fegurð þeirra er þó engu minni eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Hvassahrauns

Strokkamelar – hraundríli.

Þaðan var gengið að opi Brugghellisins, en til þess að komast niður í hann þarf a.m.k. 6 metra langan stiga. Þetta er greinilega rúmgóður hellir. Niður í honum eru hleðslur, bæði undir opinu og síðan út frá þeim beggja vegna. Flóðs og fjöru gætir í hellinum og flýtur ferska vatnið ofan á saltvatninu. Í háflæði er einungis hægt að tilla sér á hleðslurnar.

Sagt er að hellirinn hafi áður fyrr verið notaður til brugggerðar, enda erfitt er að finna opið. Björn Blöndal átti að hafa gert nokkrar árangursríkar tilraunir til að finna hellinn á sínum tíma. Hvað sem öðru líður er þarna hin ákjósanlegasta aðstaða til vínandaframleiðslu, hafi menn á annað borð áhuga á slíku.

Hvassahraun

Hvassahraun – brugghellir.

Handan Reykjanesbrautarinnar, skammt vestar, er Fagravík. Við hana var áformað að byggja stálbræðslu. Féllst bygginganefnd Vatnsleysustrandarhrepps á það fyrir sitt leyti, en ekkert var úr rekstri hennar þrátt fyrir undirbúningsframkvæmdir á svæðinu.
Vestan við víkna er hlaðið gerði. Búið er að fjarlægja hluta þess, en veggir er enn standa, sýna nokkurn veginn hver stærðin hefur verið. Ekki er útilokað að þarna geti hafa verið um fjárborg eða rétt að ræða.
Fjaran og strandlengjan frá Fögruvík að Straumi á u.þ.b. 500 metra breiðu belti, ásamt ísöltum tjörnum, frá botni Fögruvíkur að Straumi, njóta náttúrverndar fyrir sérstætt umhverfi með einstökum náttúruperlum.

Hraunsnes

Fjárskjól í Hraunsnesi.

Ísólfsskáli

Gengið var um Ísólfsskála, frá Skálabót að Gvendarvör skammt austar og mannvirkjunum ofan hennar, að Tröntum og áfram um Hattvík og Kvennagöngubása. Haldið var eftir ruddum slóða út í Hraunsnes og hin merkilegu jarðfræðifyrirbæri skoðuð. Þá var haldið áfram ofan við Veiðibjöllunef, framhjá Mölvik og inn í borgirnar (Ketilinn) áður en komið var að Selatöngum.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

Á Ísólfsskála var gengið að bæjarstæði gamla bæjarins, sem var þar sem nú er sumarhús niður við sjó, ofan við Skálabótina, vestast í túninu. Vestan og neðan við hann var sjóbúð, sem enn sést móta fyrir. Þar sem járnhlið er á girðingunni sjávarmegin var brunnurinn, sem nú er kominn undir sjávarkambinn. Sjóbúðun var framan og vestan við bæinn, fast við veginn að bústaðnum. Austan við veginn að bústaðnum eru einnig hleðslur gripahúsanna, en göng voru yfir í þau úr bænum.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – uppdráttur ÓSÁ.

Réttin var undir hamrinum ofan við núverandi íbúðarhus að Ísólfsskála, þ.a.e.s. það íbúðarhús, sem síðast var búið í. Nú er húsið notað sem “fjölskyldurefreshment” skv. nútímamáli, sem endurspeglar að nokkru nálægð varnarliðsins um nokkurt skeið. Það hafi fjarskiptastöð undir Fiskidalsfjalli/Húsafjalli er lagðist af undir lok sjötta áratugar tuttugustu aldar.
Gengið var austur með Skálabótinni að Gvendarvör. Hún er innan í fallegu lóni utan við Nótarhól austan við túnin á Skála.

Nótarhóll

Nótarhóll.

Á hólnum og við hann eru mikil fiskibyrgi og þurrkgarðar frá þeim tíma er fiskur var verkaður og þurrkaður á staðnum. Fiskurinn var flattur eins og saltfiskur nú, hann síðan lagður inn í byrgin og þess gætt að roðið lægi saman. Þannig hafi fiskurinn verið um veturinn. Um vorið var hann tekinn og lagður á garðana uns honum var pakkað og skúturnar komu erlendis frá og sóttu hann. Þær voru á legu utan við víkina, stundum margar saman. Utan við Nótarhól er Gvendarvör, eins og fyrr sagði og heitir ysta mark lónis Gvendarsker. Frá því myndast Alnbogi til lands með því austanverðu og sker að vestanverðu.

Ísólfsskáli

Fiskbyrgi við Nótarhól.

Lending var í Börubót, sem var beint neðan við bæinn. Kampurinn hefur gengið mikið upp síðan því tún var niður að honum allt að móts við Lambastapann, sem er austasti klettur Festisfjalls, Skálamegin. Ofan hans er Hjálmarsbjalli, nefndur eftir bróður Guðmundar. Hann ruddi svæðið ofan við bjallann, hlóð veggi og gerði þar túnblett. Norðan við húsið er stakur steinn er nefnist Huldukonusteinn. Segir sagan að huldukona hafi eitt sinn birst heimasætunni er var að leik við steininn og beðið hana um að lána sér dúkku, sem hún hafði. Heimasætian lánaði huldukonunni dúkkuna, en svo óheppilega vildi til að hún missti hana svo hún brotnaði. Varð af grátur og gnýstan tanna, en huldukonan hvarf inn í steininn.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli -málverk eftir ljósmynd 1956.

Haldið var að “nýja” Skálahúsinu, sem byggt var 1931. Í stefnu austur frá húsinu, ríst klettaborg úti í hrauninu. Hún nefnist Kista. Fjárbólið var uppi í klettunum norðan við bæinn.

Gamla lestargatan, eða rekagatan (lestargatan) vestari, liggur frá Ísólfsskála, í gegnum hraunið til austurs og út að Selatöngum. Þangað er um 20 mín. gangur. Gatan er áberandi ígegnum hraunið, en þegar hún kemur út á sandflákana ofan við ströndina (ofanvið Veiðibjöllunef og Mölvík, hverfur hún að mestu. Þó má sjá þar vörðubrot á stangli.
Djúp gjá opnaðist nýlega við götuna skömmu áður en komið er að Smíðahellinum austan við Ketilinn (Borgirnar) í Katlahrauni. Gatan, sem hefur verið löguð til, liggur niður í Ketilinn, gegnum hann og út hann að austanverðu. Þaðan er ágætt útsýni yfir Selatangasvæðið.

Hraunssnes

Hraunsnes – bergsstandur.

Á Selatöngum var fyrrum mikil útróðrarstöð og verstöð. Þar eru verbúðarústir, fiskbyrgi og fiskgarðar auk hraunhella sem voru notaðir til ýmissa hluta. Standa mörg fiskbyrgin og fiskgarðarnir enn að miklu leyti. Svæði þetta var allt friðlýst 1966 af Kristjáni Eldjárn, þáverandi þjóðminjaverði.
Selatangar eru í Ögmundarhrauni á mörkum jarðanna Ísólfsskála og Krýsuvíkur. Landamerkin liggja um klett (Dágon) í ofan við fjöruborðið. Ljóst er að hraunið hefur runnið eftir landnámsöld því undir því eru leifar mannvirkja sem greinilegar eru t.d. á svonefndum Húshólma.
Geislakolsaldursgreining á koluðum gróðurleifum dagsettu hraunið til miðrar 12. aldar og annálar nefna eldgos 1151. Óvíst er hvenær útgerð hefst frá Selatöngum en samkvæmt ofangreindu eru minjarnar ekki eldri en frá miðri 12. öld.

Hraunsnes

Í Hraunsnesi.

Víst er að útgerðin lagðist niður um tíma eftir Básendaflóðið 1799, og svo að fullu og öllu 1884 en það ár var síðast róið frá Selatöngum. Um það leyti var seinasta sjóbúðin rifin, og hafa menn eigi hafzt þar við síðan.
Rústirnar eru margar og er hægt að telja þær upp undir 20, auk garðhleðslanna sem eru á hraunnefunum og eru nú að mestu horfnar. Á vestustu hraunnibbunni er verbúð og rústir auk garðhleðsla. Á næstu nibbu austan við eru rústir sömuleiðis en hraunnibban er aðgreind frá þeirri vestari af sandi.

Selatangar

Rekagatan.

Fleiri rústir eru svo á þriðju nibbunni sem myndar samfelldara og stærra svæði en hinar og þar eru líka flestar rústirnar. Austast á þessu svæði er önnur verbúðartóft og byrgi í líkingu við það sem er vestast. Utan í hraunflákanum að austan eru fyrirhleðslur við skúta sem virðast hafa verið notaðir af fé. Margar hleðslurnar hafa farið verulega illa í flóðum undanfarin ár.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimildir m.a.:
-Fornleifaskrá. Skrá um friðlýstar fornleifar. Ágúst Ó. Georgsson tók saman. Reykjavík 1990.
-Ísólfsskáli. Örnefnalýsing. Guðmundur Guðmundsson bóndi Ísólfsskála. Ari Gíslason skráði. Örnefnastofnun Íslands.
-Lúðvík Kristjánsson: Íslenzkir sjávarhættir II. Rvk. 1982, bls. 410-11

Ísólfsskáli

Brimketill utan við Ísólfsskála.

Portfolio Items