Færslur

FERLIR hefur um nokkurt skeið leitað leifa Hraunsréttar ofan við Hafnarfjörð. Vitað var að áhugasamir bæjarbúar (og jafnvel aðrir lengra að komnir) höfðu haft ágirnd á steinhleðslum þessar aflögðu réttar til nota í nágörðum sínum heimavið. 

Leifar HraunsréttarEnda hvarf uppraðað dilka- og gerðisgrjótið furðufljótt og það að því er virðist án hinnar minnstu vitundar minjavörslunnar í landinu.
Þegar FERLIR var nýlega á ferð um Gráhelluhraun í leita að allt öðru en réttinni snart tá skyndilega leifar réttarinnar (sjá mynd) inni í grenitrjálundi. Erfitt er að koma auga á leifar hleðslurnar, en svo virðist sem innsti hluti réttarinnar hafi orðið eftir í grjótaðsókninni miklu, enda bæði stærsta grjótið og fjærst veginum.
Gjáaréttin í Búrfellsgjá var fjallskilarétt og lögrétt þessa svæðis fram til 1920. Þessi fjallaskilarétt var byggð 1839. Smalað var þó til hennar fram yfir 1940. Réttin þar var hlaðin úr hrauni og þrátt fyrir að hún hafi verið endurgerð í seinni tíð bera veggirnir ummerki eftir afleiðingar jarðskálfta, sem jafnan eru tíðir á svæðinu. Réttin sú stendur á þéttri hraunhellu. Gjáaréttin er á fornminjaskrá. Það eitt kæmi þó ekki í veg fyrir að fólk sæki sér grjót úr réttinni, en það gerir fjarlægðin frá akvegi hins vegar. Ágætt dæmi um hið gagnstæða er gömu fjárborg nokkru vestar, nálægt vegi. Úr henni hefur verið tekið nær allt grjót. Og hver ætti s.s. að koma í veg fyrir það?
Árið 1920 var Gjáarrétt flutt niður í Gráhelluhraun og nefndist þá Hraunrétt. Sú rétt þjónaði Hafnarfjarðarfjárbændum og öðrum allt fram  á sjötta áratug 20. aldar eða í rúmlega 40 ár. Þá var réttin færð upp í Kaldársel, þar sem enn má sjá steinsteypta fjárrétt. Sú rétt hefur hins vegar ekki verið notuð sem slík síðustu árin, nema ef vera skyldi af hestafólki.

Gráhelluhraun

Gráhelluhraun.