Færslur

Duushús

2. Keflavík – Hafnir

-Nikkelsvæðið
Nefnt svo vegna meintrar nikkelmengunar á svæðinu neðan við Háaleiti. Einnig olíumengun. Nú er Vatnarliðið búið að afhenta Reykjanesbæ svæðið, olíugeymar hafa verið fjarlægðir, skipt hefur verið um jarðveg að mestu og svæðið undirbúið undir íbúðarbyggingar.

-Hitaveitutankarnir
Rauðu pípurnar frá Svartsengi – heita vatnið…
Hitaveita Suðurnesja hf. er sameignarfyrirtæki sveitarfélaganna á Suðurnesjum, Hafnarfjarðarbæjar og ríkissjóðs. Tilgangur Hitaveitu Suðurnesja hf. er vinnsla og nýting jarðvarma og hvers konar annarra orkuauðlinda, dreifing og sala raforku, orkugjafa og annarra afurða félagsins ásamt hverri þeirri starfsemi annarri sem nýtt getur rannsóknir, þekkingu eða búnað félagsins. Einnig iðnþróun og nýsköpun af hverju tagi sem er ásamt annarri viðskipta- og fjármálastarfsemi samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni.

Pattersson

Lífstöðugrjót við Pattersson flugvöll.

Hitaveita Suðurnesja rekur orkuver í Svartsengi sem nýtir um 240 °C heitan jarðhitavökva, sem fenginn er úr borholum allt að 2000 metra djúpum. Jarðhitavökvann er ekki unnt að nota til beinnar upphitunar vegna seltu hans og því hversu ríkur hann er af uppleystum steinefnum. Vökvinn er því notaður til upphitunar á ferskvatni og til framleiðslu á rafmagni. Jarðhitavökvi um 80 °C heitur sem ekki er nýttur í orkuverinu er hleypt út á hraunbreiðuna. Jarðhitavökvi blandaður þéttivatni háhitagufunnar myndar Bláa lónið. Einstakt lífríki ásamt miklu magni af náttúrulegum steinefnum, kísl og sérstökum blágrænum þörungi mynda mjúkan hvítan leirinn í lóninu og gefa því sinn sérstaka bláa lit. Bláa Lónið hf. rekur baðstaðinn við Bláa lónið, göngudeild fyrir psoriasis sjúklinga og framleiðir húðverndarvörur undir merkinu Blue Lagoon.

-Varnarliðið
nýtt hlið tekið í notkun, kostnaður við það…..
Nýtt varðskýli kostaði um 100 millónir kr. í byggingu, líkt og 5 einbýlishús.

Í maí s.l. (2004) voru liðin 53 ár frá undirritun varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna. Meðmælendur samningsins segja hann eina mikilvægustu ákvörðun íslenskra stjórnvalda á seinni tímum og eina þá heillavænlegustu. En hún átti sér nokkurn aðdraganda.
Alvarleg staða heimsmálanna á seinni hluta síðustu aldar hafði áhrif á íslensk stjórnvöld, m.a. valdataka kommúnista í Tékkóslóvakíu 1948, fyrsta kjarnorkusprenging Sovétríkjanna í september 1949 og upphaf Kóreustríðsins í júni 1950. Árið 1949 gerðist Ísland stofnaðili að Atlantshafsbandalaginu (NATO) og var varnarsamningurinn við Bandaríkin gerður á grundvelli Norður-Atlantshafssamningsins. Honum er ætlað að tryggja varnir Íslands og stuðla að friði og öryggi áþví svæði sem samningurinn tekur til.
Varnarliðið samanstendur af mörgum aðskildum starfseiningum innan Bandaríkjahers, en þar starfa einnig hermenn og fulltrúar frá Hollandi, Noregi, Danmörku og Kanada. Um 750 Íslendingar starfa fyrir varnaliðið (en þeim fer fækkandi). Varnarliðið rekur ratsjárstöðvar, annast skipa- og kafbátaeftirlit, flugvallarekstur, þyrlubjörgunarflug, fjarskipti og landvarnir.

Hafnir

Ankeri Jamestown í Höfnum.

Það var árið 1941 að Ísland og Bandaríkin gerðu með sér herverndarsamning. Samningurinn batt í raun endi á þáverandi hlutleysisstefnu Íslands. Sama ár komu fjögur þúsund landgönguliðar til landsins. Winston Churchill, forsætisráðherra Bretlands kom til landsins, en að því tilefni var haldin stærsta hersýning, sem um getur. Árið 1943 var bandaríski heraflinn á Íslandi hvað fjölmennastur, eða um 45.000 manns. Þá voru hér á landi um 50.000 hermenn (einnig frá Bretlandi og Kanada), eða álíka margir og allir fullorðnir karlmenn á Íslandi. Á haustdögum tók að fækka í heraflanum.
Keflavíkurflugvöllur var lagður af bandaríkjaher í heimstyrjöldinni síðari. Skömmu eftir hernám landsins hófu Bretar flug frá Kaldaðarnesi á bökkum Ölfusár og sumarið 1941 hófst flug þeirra frá Reykjavíkurflugvelli, þrátt fyrir að gerð hans væri ekki að fullu lokið. Jafnframt voru sléttaðir lendingarstaðir á nokkrum stöðum er nota mátti í neyð. Einn slíkur neyðarflugvöllur var útbúinn á Garðskaga og voru það fyrstu flugvallarframkvæmdir á Suðurnesjum.
Bandaríska herráðið áætlaði lagningu stórs flugvallar fyrir sprengju- og eftirlitsflugvélar á suðvesturhorni landsins ásamt minni flugvelli fyrir orrustuflugsveit er þar höfðu aðsetur. Beindust augu Bandaríkjamanna strax að Suðurnesjum, enda Bretar þegar með vísi að flugvelli á Garðskaga og svæðið nánast hindrunarlaust til flugs.

Nafnið á vellinum kom frá flugmanni, sem hafði farist í flugi frá Reykjavíkurflugvelli. Vél hans flæktist í vírum við brautarendann og skall í Skerjafjörðinn (SJ). Flugvöllurinn hlaut þá nafnið Keflavíkurflugvöllur og varð alþjóðaflugvöllur í eigu Íslendinga.

Það var árið 1946 sem íslensk stjórnvöld höfnuðu beiðni Bandaríkjamann um afnot af landi undir herstöðvar til langs tíma. Keflavíkursamningurinn var undirritaður og ákveðið að bandarískt herlið yfirgefi landið, en Bandaríkjamenn hafi áfram tiltekin afnot af Keflavíkurflugvelli. Flugvöllurinn var síðan afhentur Íslendingum. Árið eftir yfirgáfu síðustu bandarísku hermennirnir svæðið.
Árið 1949 gerast Íslendingar stofnaðilar að Atlantshafsbandalaginu. Aðildin veldur innanlandsdeilum og óeirðum við Alþingishúsið. Fyrstu hersveitir Bandaríkjahers koma til landsins 7. maí 1951 og setja upp bækistöðvar á Keflavíkurflugvelli. Þær voru undir stjórn hershöfðingja í landhernum, sem laut stjórn Atlantshafsherstjórnar NATO og Atlantshafsherstjórnar Bandaríkjanna. Vallarsvæðið og nágrenni verður meginathafnasvæði varnarliðsins. 1955 var fjarskiptastöðin Broadstreet við Seltjörn flutt til Grindavíkur.
Húsnæði varnarliðsins var mjög takmarkað í fyrstu. Þúsundir hermanna höfðu búið í braggahverfum í námunda við flugvöllinn á styrjaldarárunum, en flestar þessara bráðabirgðabygginga voru rifnar eða gengu úr sér á árunum eftir stríð. Þá þurfti flugvöllurinn, sem upphaflega var með þeim stærstu í heimi, allmikla endurbóta við.

Kotvogur

Kotvogur.

Varnarliðið hefur allnokkrum sinnum komið við sögu björgunarmála. Má þar t.d. nefna Vestmannaeyjagosið 1973 og Goðastrandið 1994. Árið 2001 fékk þyrlubjörgunarsveitin viðurkenningu fyrir björgun um 300 mannslífa frá því að hún kom til landsins árið 1971.
Í upphafi fimmta áratugar síðustu aldar var Háaleiti fyrir ofan Keflavík einungis sorfinn jökulruðningur. Efst á honum trjónaði háreist gígopið (þar sem flugstjórnarturninn á Keflavíkurflugvelli stendur nú). Norðan þess stóð Kalka, hvítkölkuð stór varða, áberandi landamerki og kennileiti á Miðnesheiði.

-Hafnavegur
Sjá má gamla Hafnaveginn hægra megin við núverandi veg.

-Patterson flugvöllur
Ljóst var að flytja þyrfti mikinn fjölda flugvéla frá Bandaríkjunum til Bretlands til þátttöku í styrjöldinni í Evrópu. Lagning flugvallanna tveggja, Patterson á Njarðvíkurfitjum og Meeks á Háaleiti hófst snemma árs 1942. Var Patterson flugvöllur tilbúinn til takmarkaðrar umferðar strax um sumarið er flugvélum 8. flughersins bandaríska var flogið til Bretlands með viðkomu á Grænlandi og Íslandi. Meeks flugvöllur, er við þekkjum nú sem Keflavíkurflugvöll, var tekinn í notkun í apríl 1943 og framkvæmdum við flugvellina lokið þá um haustið.
Patterson flugvöllur þjónaði orrustuflugvélum Bandaríkjamanna sem önnuðust loftvarnir á suðvesturhorni landsins til stríðsloka, en Meeks var áningarstaður í millilandaflugi eins og æ síðan. Einu umsvif Breta á Keflavíkurflugvelli (Meeks) voru starfsemi Liberator flugvéla, sem flogið var til stuðnings skipalestum og aðgerðum gegn þýskum kafbátum. Þessar flugvélar, sem aðsetur höfðu í Reykjavík, voru stórar og þungar til að geta athafnað sig þar fullhlaðnar við allar aðstæður. Lögðu þær því gjarna upp í eftirlitsflug frá Keflavík, þar sem þær höfðu aðsetur í Geck flugskýlinu, en lentu í Reykjavík að ferðinni lokinni þar sem áhafnirnar höfðu aðsetur.
Rekstri Pattersen flugvallar var hætt að styrjöldinni lokinni sumarið 1945, en fámennt herlið annaðist rekstur Meeks flugvallar til ársins 1947, en bandarískir borgarlegir starfsmenn tóku við rekstrinum samkvæmt Keflavíkursamningnum, sem gerður var milli Íslands og Bandaríkjanna haustið 1946.

-Lífsstöðugrjót

Kirkjuvogskirkja

Kirkjuvogskirkja.

Loftslag hefur verið mjög sveiflukennt síðustu þrjár milljónir ára. Á því tímabili hafa komið um 30 jökulskeið. Meðalhiti var þá 8 gráðum lægri en nú. Hvert jökulskeið stóð í um 100 þúsund ár en hlýskeiðin á milli aðeins í um 10 þúsund ár. Síðasta jökulskeiði lauk fyrir um 10 þúsund árum. Tímabilið sem síðan er liðið nefnist Nútími.
Jöklarnir skófu og hefluðu landið sem þeir skriðu yfir og mýktu það. Þeir mynduðu U-laga dali, rispuðu berggrunninn sem undir var og skildu eftir sig hvalbök og jökulrispur.
Á jökulskeiðunum var gríðarlegt vatnsmagn bundið í jöklum, og meðan þau stóðu yfir lækkaði yfirborð sjávar á jörðinni um allt að 130 m miðað við núverandi sjávarmál. Aftur á móti fergðu jöklarnir landið undir næst sér.
Jökulskeið enda snögglega og meðalhitastig hækkar undrahratt. Þá bráðna jöklar á tiltölulega stuttum tíma. Sjávarborð hækkar og sjór gengur á land. Fornar strandlínur eru því allhátt yfir núverandi sjávarmáli. Munar þar um 110 m á Suðurlandi. Skeljar og bein sávarspendýra finnast í gömlum sjávarsetlaögum. Einn slíkur staður er við Pattersonflugvöll á Njarðvíkurheiði.

-Gamla sorpeyðingarstöðin
Reykjanesbær, Gerðahreppur, Sandgerðisbær, Grindavíkurbær og Vatnsleysustrandarhreppur eiga og reka saman, sameignarfélag með ótakmarkaða ábyrgð undir nafninu Sorpeyðingarstöð Suðurnesja s.f. (Suðurnes Incinerator Autority) skammstafað S.S. Heimili þess og varnarþing er í Njarðvík. Tilgangur félagsins er að eiga og reka hina nýju móttöku-flokkunar- og eyðingarstöð Kölku í Helguvík. Ennfremur að annast þjónustu og á sviði sorphirðu og móttöku úrgangs í sveitarfélögunum og önnur verkefni sem sveitarfélögin kunna að fela félaginu, á sviði úrgangs og endurvinnslumála.
Frá og með 1. apríl 2004 flutti starfsemi S.S. í nýja móttöku-flokkunar- og eyðingarstöð í Helguvík sem ber nafnið Kalka. Þar fer fram öll móttaka á sorpi frá sveitarfélögunum og fyrirtækjum á starfsvæði stöðvarinnar samkvæmt verðskrá. Þar er einnig rekin gámasvæði fyrir almenning sem og í Grindavík og Vogum, þar sem íbúar svæðisins geta komið með úrgang frá heimilum til endurvinnslu og eyðingar gjaldfrítt.
Nýja stöðin Kalka sem getur brennt allt að 12.300 tonnum úrgangs á ári er með mjög fullkomin hreinsunarbúnað til að halda mengun frá stöðinni í algjöru lágmarki. Jafnframt er unnin orka úr sorpinu sem gefur um 4.5 mw af varmaorku sem knýr gufutúrbínu sem framleiðir um 450 kw af rafmagni eða um helmingi meira en stöðin þarfnast sjálf. Hitaveita Suðurnesja á og rekur rafstöðina og sendir raforkuna út á dreifikerfi sitt en afgangsvarmaorkan er nýtt til að hita upp hús og plön Kölku.
Annar úrgangur sem til fellur á Suðurnesjum um 6.000 tonn verður að stærstum hluta sendur í endurvinnslu. Stefnt er á að endurvinnsluhlutfall verði yfir 80% á svæðinu að meðtalinni orkunýtingui í Kölku.
Auk þess að þjóna sveitarfélögunum fimm á Suðurnesjum tekur Kalka á móti úrgangi frá varnarsvæðum og flugþjónustusvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Þá er stöðin einnig útbúin til að eyða sóttmenguðum úrgangi sem og ýmsum flokkum spilliefna sem falla til hér á landi.

Hunangshella

Hunangshella.

Kalka
Nafnið vísar til vörðu sem nefndist Kalka og skipti löndum meðal 4 sveitarfélaganna á Suðurnesjum en er nú horfin undir flugbrautir á Keflavíkurflugvelli. Hún var hvítkölkuð á lit og var kennileiti af sjó.

-Stapafellið
sem er að hverfa…..
Stapafellið er frá síðasta jökulsskeiði. Það er að mestu úr bólstrabergi, líkt og Súlurnar og Þórðarfellið. Malargryfjur Íslenskra aðalverktaka eru í fjallinu. Flutt hefur verið slíkt magn úr því að nú liggur fyrir fjallinu að hverfa alveg. Í Stapafelli er “stærsti bólstri í heimi – Sig. Þórarinsson).

-Landnámsmenn
Í Hauksbók Landnámu og Sturlubók Landnámu er kveðið á um að Steinunn gamla hafi fengið Rosmhvalanesið í kaup við Ingólf frænda sinn. Hún bjó í Hólmi. Herjólfur Bárðason fékk land hjá Ingólfi milli Vogs og Reykjaness og er talið að hann hafi haft bú í Gamla-Kirkjuvogi við Ósabotna utanverða. Lönd Steinunnar og Herjólfs lágu því saman við Ósabotna. Land Steinunnar náði að Hvassahrauni, en hún gaf frænda sínum Eyvindi land á milli þess og Kvíguvogsbjarga þar sem líklega hefur verið miðað við Innri-Skoru. Eyvindur bjó í Kvíguvogum. Hann skipti síðan á því landi við Hrolleif Einarsson á landi í Þingvallasveit þar sem hann bjó að Heiðarbæ, en flutti síðan að Bæjarskerjum á Romshvalanesi. Ásbjörn Özurarson fékk land frá Hvassahrauni að Álftanesi og Þórður skeggi fékk land norðan við Ingólf þar sem nú er Mosfellsveit. Herjólfur fékk land frá Kotvogi að Reykjanestá, en Molda-Gnúpur þaðan að Selatöngum. Austar var Þórir haustmyrkur (Krýsuvík) og Álfur Egzki austan Selvogs að Ölfusárósum.

-Ósabotnar
Af veginum á Þrívörðuhæð, beint af augum, sjást Ósar, eða Kirkjuvogur, en svo nefnist fjörðurinn sem talinn er hafa myndst vegna landsigs. Vísbendingar um það er að minnst er á 50 kúa flæðiengi, sem lægi undir jörðina Vog sem var norðan Ósa, í Vilkinsmáldaga frá 1397. Ósar eru eitt af náttúruverndarsvæðum landsins. Þar er óvenjuleg fjölbreytni í lífríki fjöruborðsins auk fuglalífs.

-Vörður
Vörður eru við gömlu þjóðleiðina, en flestar fallnar. Þær tvær sem nýlega hafa verið hlaðnar eru gerðar fyrir Varnarliðið. Á þær eru fest upplýsingaspjöld um tilkomu Bandaríkjahers hér á landi 1941 er þeir tóku við af breska hernámsliðinu. Ýmsir kampar voru vítt og breitt um Suð-Vesturland. Í fyrstu var búið í Nissen-skálum Bretanna, en svo nefndust braggar, sem þeir höfðu reist. Bandaríkjamenn reistu síðan aðra tegund af bröggum, sem þóttu bæði reisulegri og betri mannabústaðir.

-Vopnageymslur varnarliðsins
Vopnageymslur hersins austan Pattersonflugvallar eru nú að mestu aflagðar. Líklegt er talið að svæðið muni verða afhent íslenskum yfirvöldum innan ekki langs tíma. Nú eru einungis hluti geymslanna í notkun og þá með meira og minna fornfálegum skotfærum.

-Hunangshellan
Spölkorni lengra er Hunangshella klöpp norðvestan vegarins (á hægri hönd). Gamall niðurgrafinn vegur í Hafnir lá í gegn um skarð sem er í klöppinni – nú grasi gróið. Sjálf Hunangshellan er stærri hluti klapparinnar sjávarmegin, nokkuð löng klöpp sem hallar móti norðvestri. Á háflóði eru 25-30 metrar á milli Hunangshellu og sjávarborðs. Þjóðsagan segir að á þessum stað hafi skrímsli legið fyrir ferðamönnum í myrku skammdeginu og gert þeim ýmsa skráveifu. En þessi meinvættur var svo vör um sig að engin leið reyndist að komast í færi til að vinna á henni – ekki fyrr en einhverjum hugkvæmdist að smyrja hunangi á klöppina. Á meðan dýrið sleikti hunangið skreið maður með byssu að því og komst í skotfæri. Sagt er að hann hafi til öryggis rennt þrísigndum silfurhnappi í hlaup framhlaðningsins en fyrir slíku skoti stenst ekkert, hvorki þessa heims né annars.
Finngálkn er það dýr kallað sem köttur og tófa geta saman. Er það grimmt mjög og öllum vargi skaðlegri fyrir sauðfé manna og skotharðast allra dýra. Vinnur engin kúla á finngálknið og verður það ekki skotið nema með silfurhnapp eða silfurkúlu. Það er og styggt mjög og ákaflega frátt á fæti.
Einu sinni lagðist finngálkn á sauðfé Hafnamanna og annara þar nærlendis. Hélt það sig mest umhverfis Ósana, sem kallaðir eru og gjörði tjón mikið. Reyndu menn á allar lundir að drepa finngálknið en það tókst ekki. Gekk svo lengi þangað til loksins að maður einn sem vissi jafnlangt nefi sínu hitti upp á því að hann makaði hellu eina við Ósabotnana með hunangi. Vissi hann að finngálkn er mjög sólgið í sætindi, helzt hunang. Síðan lagði maðurinn sig í leyni skammt frá hellunni. Dýrið rann á hunangslyktina og fór að sleikja helluna. Skaut þá maðurinn dýrið og hafði silfurhnapp af bol sínum fyrir kúlu. Þótti öllum mjög vænt um verk þetta.
Hellan er síðan kölluð Hunangshella og er hún við landsuður-horn Ósanna hjá alfaraveginum milli Keflavíkur og Hafna. Sumir hafa farið villu vega og nefnt tiltölulega slétta klöpp við veginn þessu nafni.

Hlið

Nýja hliðið inna á Varnarsvæðið.

-Teigur
Þegar ekið er áfram í vestur meðfram Ósum er komið að gamalli heimreið. Á hægri hönd sést eins konar steyptur strompur. Það mun vera það eina sem eftir er af mannvirkjum býlis sem hét Teigur og er reyndar ekki strompur heldur gömul undirstaða vindrafstöðvar sem framleiddi rafmagn fyrir loðdýra- og síðar svínabú sem þar var sett á stofn snemma á 6. áratug síðustu aldar. Það var rekið fram á síðari hluta 8. áratugarins og mun hafa verið eitt fyrsta stóra svínabú landsins og sem slíkt merkilegur áfangi í nútímaiðnvæðingu landsins en fóðrið var matarúrgangar frá mötuneytum í herstöðinni á Vellinum (en með honum streymdu hnífapör og annað dót í Hafnir). Bóndinn í Teigi hét Guðmundur Sveinbjörnsson, var frá Teigi í Fljótshlíð, lærður skósmiður og hafði rekið skósmíðastofu í Reykjavík þegar hann setti upp búið í Teigi. Og þótt það sé aukaatriði má geta þess að Guðmundur í Teigi mun hafa verið einna fyrstur manna til að kaupa og nota japanskan ,,pikköpp-bíl” hérlendis – en Guðmundur í Teigi mun hafa verið á undan sínum samtíðarmönnum í ýmsu sem laut að tækni.

-Annað sem tilheyrir Höfnum
Hafnir byggðust upp í kringum mikið útræði. Hefur byggðin nafn sitt af tveimur fyrrum stórbýlum, Sandhöfn og Kirkjuhöfn, sem nú eru í eyði. Var fjölmenn byggð í Höfnum og útræði mikið á stórum bátum allt fram til aldamótanna 1900.

Keflavík og Njarðvík runnu saman í eitt sveitarfélag og nefnast nú einu nafni Reykjanesbær. Hafnir eru annað landstærsta sveitarfélagið á Reykjanesi en byggð þar er fámenn nú miðað við það sem áður var.

Þorpið
Byggðin, Kirkjuvogshverfi í Höfnum, er dæmigert ,,svefnþorp” því flestir sækja vinnu til Keflavíkur eða upp á Völl. Frystihús var reist upp af gömlu bryggjunni árið 1943 af Eggerti Ólafssyni og fleirum og var starfrækt fram á 8. áratug 20. aldar en stóð þá ónotað um margra ára skeið þar til fiskeldi hófst í hluta þess. Sú starfsemi lagðist af með gjaldþroti en nú er rekið Sæfiskasafn í húsinu. Laxeldisstöð er skammt sunnan við þorpið og 2 verksmiðjur úti á sjálfu Reykjanesinu, önnur sem framleiðir salt úr jarðsjó en hin sem notar hveragufu til þurrkunar á sjávarfangi. Fiskvinnslu og verkun í Höfnum stundaði Eggert Ólafsson fram á 9. áratuginn í síðara húsinu sem hann byggði og er upp af nýrri hafnargarðinum og aðrir í nokkur ár eftir að hann hætti. Í því húsi er nú starfrækt líftæknifyrirtæki (og merkt upp á ensku ,,Bio Process”). Um annan atvinnurekstur er ekki að ræða í Höfnum ef undan er skilin smábátaútgerð. Frá Kirkjuvogshverfi er stutt sigling á fengsæl fiskimið. Vegna veðra er hafnaraðstaðan þó ófullnægjandi og hefur oft orðið tjón á bátum í stórviðrum. Þjóðvegurinn út á Reykjanes og áfram til Grindavíkur liggur í gegn um Kirkjuvogshverfi og hefur umferð um veginn aukist jafnt og þétt í áratugi enda er svæðið sunnan Hafna sérkennilegt, einstakt og áhugavert í fleiri en einu tilliti.

Kirkjuvogshverfið nefnist Hafnir í daglegu tali en þar hafa búið 80-120 manns sl. 2 áratugi. Fyrr á öldum voru Hafnir ein af stærstu verstöðvum landsins en þær eru samheiti fyrir 3 hverfi (lendingar), þ.e. Kalmanstjörn, Merkines og Kirkjuvog. Nú er byggðin öll í gamla Kirkjuvogshverfinu auk íbúðarhúss í Merkinesi og í Junkaragerði.
Á 19. öld var Kotvogur í Höfnum eitt stærsta býli landsins. Þar bjuggu m.a. 3 forríkir útvegsbændur mann fram af manni, þeir hétu allir Ketill og eru oftast nefndir Katlarnir þrír. Annað stórbýli var Kirkjuvogur í Höfnum þar sem búið hafa margir höfðingjar. Á 19. öldinni bjó í Kirkjuvogi dannebrogsmaðurinn Wilhjálmur (Christinn) Hákonarson (1812-1871), en þannig er nafn hans stafað á leiði hans í Kirkjuvogskirkjugarði. Vilhjálmur átti 2 dætur. Önnur þeirra hét Anna. Heimiliskennari í Kirkjuvogi var þá ungur menntamaður, Oddur V. Gíslason, og felldu þau Anna hugi saman. Þegar ungi maðurinn bað um hönd dótturinnar brást faðir hennar hinn versti við og þvertók fyrir ráðahaginn. Afleiðingin varð eitt frægasta og æsilegasta brúðarrán Íslandssögunnar. Sættir tókust þó síðar. Oddur varð prestur í Grindavík við mikinn orðstír og var m.a. upphafsmaður að sjóslysavörnum á Íslandi. Af honum er mikil saga sem endar í Bandaríkjunum.
Vilhjálmur Kr. Hákonarson reisti þá kirkju sem nú stendur í Höfnum. Hún er úr timbri og var vígð árið 1861. Vilhjálmur lést 10 árum seinna 59 ára að aldri. Ekkert er eftir af Kirkjuvogsbænum en kirkjan stendur nánast á bæjarhlaðinu enda nefnist hún Kirkjuvogskirkja og sóknin Kirkjuvogssókn. Ketill Ketilsson (1823-1902) dannebrogsmaður og útvegsbóndi í Kotvogi, stundum nefndur Mið-Ketill vegna þess að hann tók við búi af föður sínum og Ketill sonur hans tók svo við búi af honum, hefur ekki viljað vera minni maður en Vilhjálmur í Kirkjuvogi og byggði kirkju úr timbri á Hvalsnesi í Miðneshreppi, en þá jörð átti hann. Kirkjuna lét hann síðar rífa og byggja aðra stærri og íburðarmeiri úr tilhöggnu grjóti. Sú kirkja var vígð 1887 og stendur enn.
Sem dæmi um stærð Kotvogs á dögum Mið-Ketils á 19. öld má nefna að þá var bærinn alls 16 hús og mörg þeirra stór, 38 hurðir á lömum og 72 í heimili á vertíðinni. Bærinn í Kotvogi var enn reisulegur og stór um aldamótin 1899/1900. Hinn 5. apríl 1939 brann íbúðarhúsið og fórst þrennt í brunanum. Pakkhús úr timbri var austast og fjærst eldinum og skemmdist því ekki . Því var breytt í íbúðarhús og notað sem slíkt til 1984. Það stendur enn ásamt nokkrum útihúsum en allt er það illa farið og ekki svipur hjá sjón (stendur á kampinum strax vestan við Sæfiskasafnið). Stór grasi vaxinn hóll rétt hjá Kotvogi hægra megin götunnar þegar horft er í vestur nefnist Virkishóll.
Gamli Hafnahreppur var stærsta sveitarfélagið á Suðurnesjum mælt í ferkílómetrum – víðáttumikil hraunúfin flatneskja og sandflæmi að stórum hluta. Nyrðri hluti landsins er nokkuð gróið hraun en syðri hlutinn eldbrunnið, uppblásið og hrikalegt svæði. Strandlengjan er einn stærsti skipalegstaður landsins, hrikalegir klettar, sker og boðar þar sem þung úthafsaldan myndar oft tilkomumikið og rosalegt brim.
Á sl. 25 árum hefur hraunið ofan við Hafnir tekið stakkaskiptum vegna aukins grasvaxtar sem er árangur landgræðslu sem stunduð hefur verið með flugvélum á Reykjanesskaganum auk þess sem sáð hefur verið í vegkanta af starfsmönnum Vegagerðar ríkisins. Í hrauninu upp af Ósum má enn sjá leifar landgræðslugirðingar sem mun hafa verið lokið við um 1939 en hún skipti Reykjanesskaganum í 2 svæði. Girðingin lá eftir hrauninu og niður í Merkinesvör og hefur verið mikið mannvirki á sínum tíma. Sunnan hennar var sauðfé bannað. Síðar var svæðið stækkað með því að sett var horn á girðinguna uppi í hrauninu og girt norður að Ósum og sá hluti girðingarinnar sem lá fram í sjó að vestanverðu var lagður niður.
Mikið og fjölbreytt fuglalíf er í hrauninu, m.a. talsvert af rjúpu í góðum árum, talsvert af kjóa og einstaka smyrill. Nokkuð er um æðarfugl við Ósa en æðarvarp er ekki svipur hjá sjón eftir að minnkurinn kom á svæðið. Mikið er um sjófugl og mest byggð í Hafnabergi og Eldey. Hafnir eru eitt af mestu veðravítum landsins og þar er sjaldan logn. Hvöss austanátt með rigningu getur staðið svo dögum og vikum skiptir, einkum á haustin og eirir engu sökum vindálags. Oft bresta stórviðri á fyrirvaralaust eins og hendi sé veifað. Mest og hættulegust veður nefna Hafnamenn ,,aftakastórveltu af suðvestri” (í einni slíkri eyðulögðust tún að vestanverðu í Kirkjuvogshverfi og í Merkinesi). Hríðarbyljir og skafrenningur eru algengir að vetri – snjói á annað borð. Og þótt ekki séu nema 9 km frá Höfnum til Njarðvíkna er veðurfar gjörólíkt.
Nýr uppbyggður vegur var lagður frá Höfnum út á Reykjanes um miðjan 9. áratug nýliðinnar aldar.

Hafnir

Hafnir.