Tag Archive for: Hríshólavarða

Prestavarða

Gengið var um Stóra-Hólm og Litla-Hólm í Leiru, upp á heiðina fyrir ofan Leiru að Prestsvörðunni, sem þar er. Frá henni var haldið vestur fir heiðina ofan við Langholt að Árnarétt, fallegri fjárborg, og síðan gengið til norðurs að Ellustekk.

Litla-Hólmsvör

Litla-Hólmsvör.

Stóri-Hólmur er fornt höfuðból í Leiru. Talið hefur verið að Steinunn gamla, frændkona Ingólfs Arnarsonar hafi búið á Stóra-Hólmi á landnámsöld. Að sjálfsögðu deila menn um hinn eiginlega dvalastað hennar í umdæminu, en skv. Landnámu þáði hún Rosmhvalanesið allt af frænda sínum, Ingólfi Arnarssyni, fyrir forláta kápu. Það var altalað þá og virðist lengi hafa verið í minnum haft, enda vildi hún að kaup kæmu fyrir gjafakaupin góðu. Í landi Stóra-Hólms er sæmilegur golfvöllur landsins rekin af Golfklúbbi Suðurnesja. Vestan við Stóra-Hólm er bátslaga óræktarsvæði. Hleðsla hefur verið umhverfis og lengi vel var bletturinn girtur af. Sú sögn var um blett þennan að þar væri fornmaður grafinn og honum mætti ekki raska. Sumir segja að þar hafi Hólmkell, fornmaður, verið grafinn með haugfé sínu, en ekki er vitað til þess að gengið hafi verið úr skugga um það.
Enn vestar er fallega hlaðinn brunnur. Utar og neðar er Litla-Hólsmvörin, ein tilkomumesta lending á ströndinni. Úr henni hefur verið kastað stóru sjávargrjóti með takmörkuðum tækjabúnaði.

Stóri-Hólmur

Stóri-Hólmur – fornmannaleiði.

Gengið var upp frá Stóra-Hólmi og upp fyrir æfingavöll golfklúbbsins ofan vegar. Skammt ofan við vesturjaðar hans er Prestsvarðan. Sagt var, að síra Sigurður Sívertsen, sem prestur var á Útskálum fyrrum, hafi einhverju sinni verið þarna á ferð að vetrarlagi. Kom hann úr Keflavík og ætlaði heim til sín að Útskálum.
Talið var að leiðin væri tveggja tíma gangur eða meira eftir þeim vegi sem þá var farinn. En við lestagang voru allar vegalengdir miðaðar á þeim tímum.
Þegar prestur kom út á móts við miðja Leiru villtist hann af leið. Fannst honum líðan sín þannig að hann treystist ekki til þess að halda áfram ferðinni. Prestur tók það ráð að leggjast fyrir og vera kyrr alla nóttina. Nokkru síðar lét síra Sigurður hlaða upp vörðu á þessum stað. Var hún ferstrend eins og margar grjótvörður. En eitt var það, sem gerði hana frábrugðna öðrum vörðum. Á hlið þeirri sem að austri snéri var allstór flöt hella sem á var höggvið sálmavers.

Árnarétt

Árnarétt.

Skammt frá vörðunni er gamla leiðin yfir í Garð frá Keflavík. Önnur leið var norðar, framhjá fjárborginni vestast á Berghólum. Hún sést enn mjög vel á köflum, einkum næst borginni.
Strikið var tekið til vesturs, ofan við Langhóla. Austast á þeim er stór ferhyrnd varða. Í fyrstu gæti hún hafa verið leiðamerki inn í vörðina við Hólm, en þarna mun vera merkilegt fyrirbæri er nefnist Ranglát. Var dregin sjónlína úr henni yfir fjörðinn.  Veiðitakmarkanir voru beggja vegna línunnar. Árnarétt er í heiðinni nokkru vestar. Hún er hringlaga og vel hlaðin. Litlar upplýsingar virðast vera til um mannvirkið, en það gefur Staðarborginni lítið eftir. Hún er stærri að ummáli en Staðarborgin, svo til alveg heil og næstum því jafn há og hún. Norðan hennar er Álaborgin, forn rétt.

Ellustekkur

Ellustekkur.

Gengið var til norðurs, niður heiðina, að Hríshólavöru og áfram niður að Elínarstekk. Þetta er lítill grasi gróinn hóll eða þúfa, sem kölluð er þessu nafni, stundum þó Ellustekkur. Það var að sögn heygð Elín, niðursetningur frá Gufuskálum, sem dó á dularfullan hátt á 18. öld.
Það var sumarið 1787 að Elín Stefánsdóttir, blásnauður niðursetningur á Gufuskálum, fannst örend í snærisspotta í hjalli þar skammt frá bænum. Vegna deilna hennar og vinnumanns, þar á bænum, þótti dauði hennar ekki einleikinn.

Ellustekkur

Ellustekkur.

Haldgóðar vísbendingar fengust þó ekki um að Elín hafi verið myrt, þrátt fyrir réttarhöld. Þess vegna var talið að hún hefði tekið líf sitt í skyndilegu æði, sem að hefði borið um nótt.
Elín var því, samkvæmt kirkju- og landslögum, heygð utan vígðrar moldar og var holað niður utan túngarðs í Leirunni, í sauðfjárstekk frá bænum á Gufuskálum. Óttuðust grafarnir að Elín gengi aftur og skáru höfuð hennar af um hálsinn, lögði líkið á grúfu, en lögðu höfuðið við þjóhnappana. Átti það að tryggja að hún lægi kyrr. Fyrir meðferðina á líkinu hlutu mennirnir dóma og ákúrur yfirvalda. En aldrei fórum neinum sögum af ókyrrleika sem eignaður var þessari ólánsömu konu.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=219

Hólmur

Hólmur – örnefnakort; ÓSÁ.

Skagagarður

Gengið var um ofanverðan Inn-Garð. Ætlunin var m.a. að skoða Elínarstekk (Ellustekk), tóftir Heiðarhúss, Árnaborgina og ganga um Langholtin að Prestsvörðunni ofan við Leiru.

Garður

Árnarétt.

Elínarstekkur er rétt ofan við Garðveg skammt innan við Garð. Skúli Magnússon segir um Elínarstekkk (Ellustekk) í Faxa, október 1999:
„Skammt ofan við þjóðveginn í gegnum Leiruna er lítill grasi gróinn hóll eða þúfa, sem kölluð er Elínarstekkur (Ellustekkur). Það var að sögn heygð Elín, niðursetningur frá Gufuskálum, sem dó á dularfullan hátt á 18. öld.
Sögu þessa og staðsetningu stekksins hef ég eftir ábendingum Ólafs Sigurjónssonar frá Litla-Hólmi.
Þegar bílvegur var lagður um Leiruna, um og eftir 1920, var honum valið stæði ofan við byggðina, skammt austan við Elínarstekk. Þessi vegur var síðan breikkaður, eins og fleiri þjóðvegir á árum seinni heimstyrjaldarinnar, og náði þá uppundir stekkinn.
Það var sumarið 1787 að Elín Stefánsdóttir, blásnauður niðursetningur á Gufuskálum, fannst örend í snærisspotta í hjalli þar skammt frá bænum. Vegna deilna hennar og vinnumanns, þar á bænum, þótti dauði hennar ekki einleikinn.
Haldgóðar vísbendingar fengust þó ekki um að Elín hafi verið myrt, þrátt fyrir réttarhöld. Þess vegna var talið að hún hefði tekið líf sitt í skyndilegu æði, sem að hefði borið um nótt.
Elín var því, samkvæmt kirkju- og landslögum, heygð utan vígðrar moldar og var holað niður utan túngarðs í Leirunni, í sauðfjárstekk frá bænum á Gufuskálum.

Garður

Heiðarhús.

Láti Elínar og aðdraganda þess, svo og hulun líks hennar og frágangi þess, er lýst í Dóma- og þingbókum Gullbringusýslu. Óttuðust grafarnir að Elín gengi aftur og skáru höfuð hennar af um hálsinn, lögði líkið á grúfu, en lögðu höfuðið við þjóhnappana. Átti það að tryggja að hún lægi kyrr.
Fyrir meðferðina á líkinu hlutu mennirnir dóma og ákúrur yfirvalda. En aldrei fórum neinum sögum af ókyrrleika sem eignaður var þessari ólánsömu konu.
Heimildarmaður minn, Ólafur Sigurjónsson, kallaði stekkinn aldrei annað en Elínarstekk, en í heimildum Jóns Helgasonar í Sunnudagsblaði Tímans 9. febr. 1969, bls. 108-112, virðist hann nefndur Gufuskálastekkur og hefur það að öllum líkindum verið upprunalegt nafn hans. Eftir greftrun Elínar hefur nafn stekksins breyst en hið eldra heiti líklega fallið úr daglegu máli og gleymst.“

Langholtsvarða

Langholtsvarða.

Efri vegur liggur við Langholtin við Hríshólavörðu. Varðan sést vel ofan við Ellustekk. Gengið var upp að tóftum Heiðarhúss ofar í heiðinni. Þar móta fyrir húsum og görðum. Í Þjóðsögum Jón Árnasonar segir að; „Það er í munnmælum haft að Heiðarhús sem eru spölkorn fyrir ofan Inngarðinn hafi í fornöld verið mesti stórbær svo að þar væru þrjátíu hurðir á hjörum, en hafi aflagt fyrir reimleika sakir. Var sá draugur nefndur Heiðarhúsadraugur. Skyldi einn þar búandi maurapúki peningaauðugur hafa gengið aftur til skildinganna. Þókti þar ekki viðvært lengi fram eftir jafnvel þó þar séu tún hin beztu. Sigurður og Svanhildur kona hans bjuggu í Heiðarhúsum um 1805. Svanhildur var talin forneskjukerling. Sigurður reri þar í Garðinum sem fleiri og kom oft seint heim á kvöldin frá sjónum. Einu sinni seint um kvöld er Svanhildur sat inni, en Sigurður var ekki kominn frá sjónum, var kallað á gluggann hjá henni: „Ég vil mitt.“ Þá svaraði hún: „Taktu þitt og farð’ í burtu.“ Svo fóru leikar að þeim þókti þar svo óskemmtilegt að þau fóru þaðan.“

Garður

Hríshólavarða.

Enn ofar í heiðinni er Árnarétt, heilleg og fallega hlaðin. Hún var skilarétt. Réttina byggði Árni Þorvaldsson, sem hér var stórbóndi áður fyrr. Réttin er skemmtileg í annars kennilausalitlu landslaginu og víðast hvar mannhæðar há.
Neðar eru löng holt; Ytra-Langholt og Innra-Langholt. Innra-Langholt tilheyrir allt Innleiru. Syðst á því er mikil varða; Ranglát. Ásgeir M. Hjálmarsson í Garði sagði vörðuna hafa verið reista af opinberum aðilum, en ekki er vitað hvenær það var. Hún átti að þjóna þeim tilgangi að það var dregin lína úr henni yfir flóann í eitthvað kennileiti upp í Hvalfirði. Þetta var einskonar landhelgislína þannig að bátar úr byggðalögum fyrir sunnan hana máttu ekki fara norður fyrir hana, sama gilti fyrir báta sem voru gerðir út frá Garði, þeir máttu ekki fara suður fyrir línuna. Menn voru mjög ósáttir við þetta, því var varðan jafnan nefnd Ranglát.
Á holtunum eru vörður; Langholtsvörður. Það er gömul trú, að einhverjir vættir væru í Langholtum: Illvættur í Ytra-Langholti, en hollvættur í Innra-Langholti. Þrívörðurnar sjást vel í suðvestur frá Ytra-Langholti. Hríshólavarða er í stefnu vestsuðvestur frá Ellustekk (Elínarstekk). Hún stendur á Hríshólum. Gamlar götur út úr Garði lágu neðan við Langholt og Hríshólavörðu. Þær nefndust Efrivegur. Neðrivegur lá ofan við Leirubæina. Enn sést móta fyrir götum þessum.
Haldið var eftir Efra-vegi að Prestsvörðu ofan við Leiru. Hún var endurhlaðin ekki alls fyrir löngu. Við hana er slétt hella með áletrun.

Garður

Ellustekkur.

Í Rauðskinnu segir frá Prestsvörðunni: „Í heiðinni skammt fyrir ofan Leiru er mannhæðar há grjótvarða sem alltaf var nefnd Prestsvarða. Sagt var, að síra Sigurður Sívertsen (1808-1887), sem prestur var á Útskálum fyrrum, hafi einhverju sinni verið þarna á ferð að vetrarlagi. Kom hann úr Keflavík og ætlaði heim til sín að Útskálum. Talið var að leiðin væri tveggja tíma gangur eða meira eftir þeim vegi sem þá var farinn. En við lestagang voru allar vegalengdir miðaðar á þeim tímum. Þegar prestur kom út á móts við miðja Leiru villtist hann af leið. Fannst honum líðan sín þannig að hann treystist ekki til þess að halda áfram ferðinni. Prestur tók það ráð að leggjast fyrir og vera kyrr alla nóttina. Nokkru síðar lét síra Sigurður hlaða upp vörðu á þessum stað. Var hún ferstrend eins og margar grjótvörður. En eitt var það, sem gerði hana frábrugðna öðrum vörðum. Á hlið þeirri sem að austri snéri var allstór flöt hella sem á var höggvið sálmavers.“
Sálmaversið á hellunni er 4. Davíðs Sálmur 8. vers. („Í friði leggst ég til hvíldar og sofna, því að þú, Drottinn, lætur mig búa óhultan í náðum“).
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Garður

Fornmannaleiði í Garði.