Tag Archive for: Húsatóftir

Skipsstígur

Um var að ræða í gönguröð um hluta gamalla þjóðleiða á Suðurnesjum undir heitinu „Af stað“ til tengingar loftmyndagönguleiðarkorti Ferðamálasamtaka Suðurnesja er þau gáfu út fyrir trekvart misserum síðan.

Bláa lónið

Bláa lónið – upphaf göngu.

Markmiðið er bæði að hvetja fólk til að nýta sér hina skemmtilegu og fornumbúnu þjóðleiðir á Suðurnesjum til útivistar, fróðleiks og hollrar hreyfingar og um leið rifja upp þær aðstæður er forfeður þeirra buggu við fyrrum – áður en sjálfrennireiðaakvegir og síðar mótorbílaakbrautir tóku við af hinum gömlu þarfaleiðum fótgangandi fólks og skepna á millum bæja, sveita og héraða.
Að þessu sinni var gengið frá Bláa lóninu í boði Grindavíkurbæjar. Ætlunin var að ganga inn á Skipsstíg, fylgja honum til suðurs að Dýrfinnuhelli, síðan Reykjaveginum til vesturs að Árnastíg, skoða hvar B17 (Fljúgandi virkið) nauðlenti árið í apríl 1943, ganga síðan Árnastíg áleiðis að Húsatóftum og skoða m.a. í leiðinni fornar hlaðnar refagildrur og þjóðsögukennda staði.

Bláa lónið

Gengið frá Bláa lóninu.

Til að þurfa ekki að fylgja hinnum nútímalega og afsaltlagða nútímaþjóðvegi milli Bláa lónsins og Grindavíkur í suðri, var ákveðið að ganga um slétt moasahraun samnefnt hinum Illa og um það inn á Skipsstíg sunnan Lats (einn af gígum eldri hluta Eldvarpanna). Þessi hluti er vel greiðfær. Framundan sást vörðuröðin á Skipsstíg þar sem hann liggur millum Njarðvíkna og Grindavíkur. Sólin skein að sunnanverðu, en að norðanverðu virtist dumbungur yfrum.

Skipsstígur

Gengið að Skipsstíg.

Þegar komið var inn á Skipsstíg var augljós og áþreifanlegu meðvindur til Grindavíkur. Hin gamla gata sást vel þar sem hún var mörkuð ofan í hraunhelluna vestan Skipsstígshrauns (Illahrauns) þar sem hún liðaðist vörðumprýdd, fullreistar eða hálffallnar um Bræðrahraun og síðan áfram sem slík með Blettahrauni. Á stöku stað sáust vel mannanna verk á hlöðnum köntum eða brúm stígsins, en þegar nær dró Lágafelli kom atvinnubótavegarkaflinn frá því skömmu eftir aldarmótin 1900 smám saman í ljós. Segja má með sanni að þarna er einn fallegasti kafli vegagerðar frá þessum tíma og sá hluti sem einna helst þarf að varðveita.

Skipsstígur

Skipsstígur.

Við þennan hluta Reykjavegar má t.d. sjá hraunæðar sem burnirótin hefur náð að nýta sér sem skjól, líkt og tófugrasið.
Þegar komið var að Dýrfinnuhelli var saga hans rifjuð upp. Segir sagan að samnefnd kona hafi dvalið með börn sín eftir að hafa flúið undan Tyrkjunum er herjuðu á Grindavík að morgni 20. júní 1627 Tyrkjasagan. Dvaldi hún þarna um skamman tíma, uns talið var óhætt að halda áný til fyrri híbýla í Grindavík. Opið snýr mót norðri, en botn hellisins er nú sandumorpinn. Í Nágrenninu eru einnig margir ákjósanlegir felustaðir.

Skipsstígur

Gengið um Skipsstíg.

Þá var gengið spölkorn til baka og vent til vesturs inn á Reykjaveginn. Í fljótu bragði virðist Reykjanesskaginn hrjóstugur og illur yfirferðar og því ekki vel fallinn til gönguferða. Við nánari skoðun kemur annað í ljós. Hann hefur upp á flest að bjóða sem göngufólk leitar að. Hraunið og auðnin hefur aðdráttarafl ekki síður en gróskumikið gróðurlendi þótt á annan hátt sé. Víða leynast fallegar gróðurvinjar og mosinn í hraununum er sérkennilegur. Þar eru líka einstök náttúrufyrirbrigði eins og hraunsprungur og misgengi, eldgígar, hrauntraðir, jarðhitasvæði, hellar og fuglabjörg. Þótt fjölbreytt mannlíf hafi aldrei verið á þeim slóðum sem Reykjavegurinn liggur um eru samt til sögur og minjar um mannlíf á þeirri leið. Gamlar götur líkar Árnastíg liggja víða um Reykjanesskagann og skera eða tengjast Reykjaveginum á mörgum stöðum.

Blá lónið

Helluhraun.

Í jarðfræðilegu tilliti er Reykjanesskaginn mjög merkilegur. Hann er hluti af Atlantshafshryggnum mikla sem liggur um þvert Ísland og er eini staðurinn þar sem hægt er að skoða hann ofansjávar. Sköpunarsaga landsins verður hér ljóslifandi. Að minnsta kosti 12 hraun hafa runnið á Reykjanesskaga síðan land byggðist. Það nýjasta sennilega á 13. öld. Eftir að jökul leysti af skaganum fyrir tólf til fimmtán þúsund árum hafa um 200 eldstöðvar í fjórum eldstöðvakerfum, verið virkar á svæðinu og úr þeim runnið um 42 rúmkílómetrar af hrauni sem þekur yfir 1000 ferkílómetra landsvæði. Má þar á meðal finna allar helstu gerðir íslenskra eldstöðva.

Reykjavegur

Reykjavegur – Þorbjarnarfell fjær.

Reykjavegurinn sem liggur um endilangan Reykjanesskagann var stikaður sumarið 1996. Hann liggur frá Reykjanesi að Nesjavöllum og er um 130 km langur eða meira en tvöföld vegalengd Laugavegarins margfræga á milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Víða hafa myndast gönguslóðar á leiðinni, sérstaklega þar sem hún liggur um mosavaxin hraun. Á öðrum stöðum liggur leiðin um gamlar götur sem öðlast hafa nýjan tilgang. Einn helsti kostur Reykjavegarins auk þess að vera mjög skemmtileg gönguleið, er hvað hann er nálægt byggð og aðkoma að honum þægileg á mörgum stöðum án þess að fólk verði vart við skarkala þéttbýlisins. Hann liggur um óbyggð svæði og fullnægir því vel þörfum fólks sem vill vera í náinni snertingu við náttúruna og hvíla líkama og sál frá hraða hversdagsins.

Bláa lónið

Gengið um Skipsstíg.

Skömmu áður en komið var inn á aðra forna þjóðleið milli Húsatópta og Njarvíkna var beygt inn á að því er vitist gamall stígur. Um var hins vegar að ræða far eftir snertingu B17 flugvélar er nauðlenti þarna árið 1943. Sjá má á jörðinni brak úr vélinni þar sem neðsti hluti hennar, byssuturninn, varð hrauninu smám saman að bráð.

Skammt norðar má sjá kringlumótt í hrauninu, sem endar skammt norðar. Þar má einnig sjá nokkurt brak. Það er tilkomið vegna aðgerða til að bjarga leifum af flugvélinni (Fljúgandi virkinu) sem varð eldsneytislaus þarna og lenti á hrauninu.

Eldvörp

B-17 vélin í Eldvarpahrauni 1943.

Skv. upplýsingum frá Friðþóri Eydal „er brakið brot úr þessari B-17 sprengjuflugvél sem lenti í villum á leið frá Bandaríkjunum til Bretlands með fyrirhugaðri viðdvöl á Keflavíkurflugvelli og nauðlenti þarna er eldsneytið þraut eftir 14 klst. flug þann 17. apríl 1943. Mannbjörg varð meðal fimma manna áhafnarinnar, sem verður að teljast gleðilegt af annars fjölþættari flugvélaslysasögu svæðisins, en a.m.k. fimm aðrar flugvélar Bandaríkjamanna fóru niður á sviðuðum slóðum á svipuðum tíma. En má sjá leifar þeirra.

Bláa lónið

Áning.

Götu þeirri er herbílar fluttu sundurskorna flugvélina var fylgt inn á Árnastíg. Sá stígur er ágætt dæmi um aðra forna þjóðleið milli Njarvíkna og Húsatófta, þriðja hverfis Grindavíkur. Skipsstígur lá niður að Járngerðarstöðum, en það þriðja, senn hefur ónefnt verið, Þórkötlustaðahverfið, fékk afleggjara af Skipsstíg.
Þar sem Árnastígur beygir til norðurs inn á hraunhelluna að Eldvörpum eru nokkrir hraunhólar, Vegamótahólar. Þar greinist leiðin, annars vegar að Húsatóptum um Árnastíg og hins vegar að Járngerðarstöðum um Járngerðarstaðastíg. Mosinn er horfinn af þessu svæði, en hann brann um ´56 þegar brottflognir Bandaríkjamenn voru þarna við heræfingar. Eftir svo langan tíma hefur hann enn ekki náð sér á strik sem skyldi, enda tekur mosann u.þ.b. öld að ná jafnvægi þar sem honum hefur verið raskað.

Sundvarða í Sundvörðuhrauni

Sundvarðan í Sundvörðuhrauni.

Skammt neðan við austanvert Sundvörðuhraun, þar sem er Sundvarðan, klettastandur upp úr hrauninu, fyrrum mið Grindvíkinga. Á hábrúninni eru þrjár vörður; afstaða þeirra vísa veginn á gatnamót, sem þarna eru skammt frá, annars egar áfram um Ánarstíg og hins vegar um Brauðstíg, að Eldvörpum og framfjá svonefndum „Tyrkjabyrgjum“. Þau eru í hraunkrika sunnan undir Sundvörðuhrauni. Þetta eru 10 tóftir, auk hlaðinnar refagildru, en tvær tóftanna eru uppi á hraunbrúninni. Þetta eru allmikil mannvirki, misstór en stærsta rústin er um það bil 4 x 1,5 m á stærð. Engar heimildir hafa fundist um þessar rústir og hafa því verið uppi getgátur um tilvist þeirra. Þær fundust fyrir tilviljun veturinn 1872 og elstu lýsingu á þeim er að finna í Ferðabók Þorvaldar Thoroddsen en hann skoðaði þær árið 1883.

Brauðstígur

Gengið um Brauðstíg í Eldvörpum.

Þegar komið var að gatnamótum ofan við sauðfjárvarnargirðingu þótti ástæða til að staldra við. Þvergatan til vinstri nefndist Brauðstígur. Hann fór fólk frá Húsatóftum uppí Eldvörp til að baka brauð við hverahitann.
Skriðdrekaslóði liggur víða ofan á hinni gömlu þjóðleið Árnastígs. Síðan hefur honum verið haldið við með akstri annarra ökutækja. Þó má sumsstaðar sjá gömlu götuna til hliðar við slóðann. Á a.m.k. tveimur stöðum eru hlaðnar brýr á henni.

Árnastígur liggur yfir mjóa apalhrauntungu úr Sundvörðuhrauni og inn á slétt helluhraun Eldvarpahrauns.Fallegar hraunæðar, hraunreipi, katlar og önnur fyrirbæri varða leiðina upp fyrir suðaustanverð Sundvörðuhraunið. Sundvörðuna, hár hraunstöpull í austanverðu hrauninu, var mið sjómanna fyrrum, en vestan við Stekkjartúnskamp við Arfadalsvík eru klettabásar, nefndir Sölvabásar.

Skipsstígur

Við Árnastíg. Þorbjarnarfell fjær.

Vestan við Sölvabása skagar tangi fram í sjó. Heitir hann Vörðunes, en er í daglegu tali nefndur Vörðunestangi. Beint upp af honum, u.þ.b. 1 km, er stór hlaðin varða. Tvær vörður með dálitlu millibili stóðu á bakkanum tæpum 200 austan við Vatnslón. Vörður þessar heita Sundvörður. Efri varðan er um 800 m austan við bæjarhólinn á Húsatóptum, í uppgrónu hrauni. Í örnefnaskrá segir að „þegar þær bar í háan hraunstand [Sundvörðuna í Sundvöðruhrauni] í háhrauninu og í Höskuld, hnjúk austan í Þórðarfelli, þá var verið á réttu Djúpsundi. Var því miði haldið, þar til Hvirflavörður bar saman á Snúningnum. Þá var sveigt til vinstri inn á Staðarvík, en þaðan var greið leið inn í Staðarvör og Tóptarvör, þótt brimhroði væri. Snúningur var nefnt, þar sem beygjan var tekin, og talað var um að vera komin á Snúning.“ Varðan er hlaðin úr hraungrýti og er um 2 m á hæð. Hún er mest um 1,5 m í þvermál og umför grjóts eru um tíu. Neðri varðan er skammt austan við þar sem hús fiskeldisins standa nú (suðvestar).

Húsatóttir

Refagildra við Húsatóttir.

Síðasta varðan (nú sýnileg) á Árnastíg er skammt ofan við golfvöllinn. Hægra megin við hana liðast gamla gatan um móann áleiðis að lágri hraunbrekku á vinstri hönd. Lengra til hægri eru þrjár hlaðnar refagildrur. Búið er að rjúfa þakið á einni þeirra, en hinar tvær hafa fengið að halda sér eins og þær voru upphaflega byggðar.
Í stað þess að troða á væntumþykjanlegum grasflötum og grínum golfarana var ákveðið að fylgja striðdrekaslóðanum til austurs og nálgast gamlar hlaðnar refagildrur úr þeirri áttinni. Um er að ræða þrjár slíkar á tiltölulega litu svæði ofan Húsatófta. Vel má enn sjá lögun þeirra og notkunarforn,þrátt fyrir að þær sems líkar hafi ekki verið brúkaðar lengi.

Árnastígur

Árnastígur.

Gengið var að Húsatóptum (-tóftum, -tóttum) um Baðstofu (vatnsforðabúaðargjá Staðhverfinga og Hústóftinga). Hlélaust hefði gangan tekið u.þ.b. 2 klst, en með því að staldra við og skoða það er markverðast getur talist, s.s. jarðfræðifyrirbæri, jurtir, þjóðsögukennda staði og sjáanlegar minjar,tók ferðin tekið nálægt 4 klst.

Hverfin í Grindavík eru þrjú; Þórkötlustaðarhverfi austast, Járngerðarstaðarhverfi í miðið og Staðarhverfi vestast. Húsatóptir, þar sem golfvöllur Grindvíkinga er nú, var önnur stóra jörðin í Staðarhverfi. Hin var Staður, sem hverfið dregur nafn sitt af. Árið 1703 voru Húsatóptir konungsjörð og lá til Viðeyjarklausturs. „Selstöðu hefur jörðin lángvaranlega haft þar sem heitir á Selsvöllum, er þángað bæði lángt og erfitt að sækja.“ Hjáleigur voru Kóngshús og Garðhús. Árið 1936 var jörðin seld „með fleiri kóngsjörðum þetta ár, fyrir 630 ríkisdali í silfri til þáverandi landseta. Höfðu Viðeyingar hér áður útræði (1847).

Húsatóftir

Baðstofa.

Til forna átti Staður rétt til vatnssóknar í Baðstofu í Húsatóftalandi. Til endurgjalds áttu Húsatóftir þangfjörutak á Stað. Kaupstaður var á Húsatóptum og var lent við Kóngshellu. Jörðin fór í eyði 1946. Fimm tómthúsbýli voru byggð í landi Húsatópta á árunum 1906-1934; Dalbær (1906-46), Vindheimar (1911-34), Blómsturvellir (1914-22), Hamar (til 1930) og Reynistaður (1934-38). Vel má sjá móta fyrir öllum þessum býlum í vesturjaðri golfvallarins sunnan Húsatópta.
Árið 1703 var túnið á Húsatóptum mjög spillt af sandi og „enn hætt við meiri skaða“. Engvar öngvar og mestallt landið hraun og sandi undirorpið. Árið 1840 var hins vegar önnur lýsing gefin af Húsatóptum: „Mörgum þykir fallegt á bæ þessum því þar eru stór tún, slétt og fögur, þegar í blóma standa, eru þau og allvel ræktuð.“

Túnakort

Húsatóftir – túnakort 1918.

„Bærinn stóð spottakorn frá sjó, á háum og víðsýnum fleti“, segir í sóknarlýsingu. Á túnkorti frá 1918 eru sýndar tvær húsaþyrpingar, en tvíbýli var á Húsatóptum. Tóftir gömlu bæjanna eru þar sem nýrra íbúðarhúsið stendur nú, uppi á brekkunni ofan vegarins. Annars eru tóftir fyrir austan húsið og hins vegar um 15 m vestan þess. Tóftirnar eru enn greinilegar að hluta, en sléttað hefur verið fyrir golfvellinu allt umhverfis þær.
„Frá þeim tíma [þ.e. verslunarinnar] er gólfið þar í bæjardyrunum steinlagt með tígulsteini. Er líklegt að Kaupmannshúsin hafi verið rifin þegar verzlunin lagðist niður, en svo aftur byggður bóndabær í „tóptum“ þeirra, og fengið þar af nafnið, sem hann hefur nú“, segir Brynjúlfur Jónsson í grein frá árinu 1903.

Húsatóptir

Húsatóptir – sjá má torfbæinn v.m.

Íbúðarhús úr steini var byggt á bæjarhólnum 1930, en fram að því hefur verið þar toftbær. Hús voru byggð 1777 með „binding úr torfi og grjóti að utan en göflum úr timbri“. Einnig var þar íbúðarhús beykisins, byggt 1779, „með veggjum úr torfi og grjóti, enm þaki úr timbri“.

Eldra íbúðarhúsið er nú stendur að Húsatóptum, byggt 1930, stendur neðar og vestar en tóftirnar. Það hýsir nú golfskála Grindvíkinga. Tóftirnar fast austan við núja íbúðarhúsið eru á hól. Þær eru tveggja hólfa, en á milli hólfanna er steyptur pallur. Um 20 m norðaustan við tóftirnar eru leifar húss eða kálgarðs.

Húsatóftir

Minjar dönsku einokunarverslunarinnar á Húsatóftum.

„Hjáleigan Kóngshús stóð niður við Húsatóptarvör“, segir í Sögu Grindavíkur. Fast vestan Tóptarvarar er stór klöpp, sem á standa rústir sjóhúss. Er líklegt að hjáleigan hafi verið á svipuðum stað. Klöppin er alltaf upp úr sjó, en getur verið mikið umflotin á flóði. Hún er grasi gróin að hluta. Ekki eru aðrar tóftir á klöppinni en steypurústin, en sunnan í klöppinni standa tveir fúnir timburstaurar úr sjó.
Barlestarsker er beint niður af Húsatóptum, millli Þvottaklappa og Garðsfjöru, í Vikinu. Skerið er skerjatangi syðst í Garðsfjörunni. Ef tekið er mið af klöppinni með steyptu rústinni er Tóptarklöpp austan við hana, en Barlestarsker sunnan við hana. Þau eru tvö. Þar munu verslunarskipin hafa tekið barlest. Í öðru Barlestarskerinu var festarbolti gegnt öðrum í Bindiskeri í Vatnstanga í landi Staðar.
Keðja mun hafa legið þvert yfir víkina milli festarboltanna og voru verslunarskipin á dögum kóngsverslunarinnar svínbundin við keðjuna, þar sem þau lágu á víkinni. Svínbundið var þegar skip var bundið bæði aftan og framan langsum á keðjuna, þannig að hlið lægi að henni.

Staður

Kengur í Bindiskeri.

Boltinn í Barlestarskeri var stór, fleygmyndaður með auga í efri endanum. Hann var lengi notaður sem hestasteinn á hlaðinu á Húsatóptum, en er nú sagður vera í garði húss í Járngerðarstaðahverfi. Festarboltinn á Bindiskeri er enn á sínum stað. Í lýsingu Brynjúlfs Jónssonar frá 1903 segir „að skipin hafi verið bundin á þrjá vegu við járnbolta, sem festir voru í klappir. Tveir af þeim voru í Húsatóptalandi, en einn í Staðarlandi. Jón bóndi Sæmundsson á Húsatóptum lét, nálægt 1850, taka upp báða þá boltana, sem í hans landi voru og færa heim til bæjar. Var annar hafður sem hestasteinn“.

Húsatóftir

Húsatóftir – minjar og örnefni – ÓSÁ.

Búðarhella er upp af Kóngshellu. Næstur er Búðasandur er tekur við af Garðsfjöru allt frá Tóptarvör. Danska verslunarhúsið stóð á litlum hól, u.þ.b. 80 m upp af Tóptarvör. Ennþá sést móta fyrir grunni þess. Í sóknarlýsingu 1840 segir: „Stóðu höndlunarhúsin niður við sjó nálægt Hvirflunum, en kaupmenn bjuggu heima á Húsatóptum.“ Á innri klöppinni (ofan við Kónshellu), sem er mun hærri, hafði krambúðin síaðst staðið. Þar stóð enn fisksöltunarhús Húsatóptarmanna er þar var róið 1865 og 1866. Þar á klöppini var aflanum skipt eftir róðra og gjört að fiskinum. Líklega er hóllinn, sem talað er um hóll sá, sem sumarbústaðurinn Staðarhóll stendur nú. Fast sunnan við hann er Búðasandur.
Verslun var í Grindavík áður, en hætt var við hana snemma á 18. öld. Höfnin var rétt við prestsetrið Stað, við hólma, sem hjallur var á. Skipin lágu milli hans og Barlestarskers. Verslunarhúsin stóðu á Búðartanga, en nú er tanginn að mestu brotinn af brimi. Þegar grafið var þar fyrir löngu fannst þar lóð, 100 pund að þyngd, sem bar merki Kónsghöndlunar. Þar finnast enn krítarpípur ef vel er leitað. Búðin var byggð 1779, einnig eldhús með múraðri eldstó og Gamla pakkhúsið (sennilega eldri verslunarbúð).

Staður

Staður og Húsatóftir í Grindavík. Hafnarkort Dana frá einokunartímanum á 17. öld.

Verslun var tekin upp á ný í Grindavík árið 1664, en hafði fram til 1639 verið í Járngerðarstaðalandi. Kaupmenn „fluttu sig um set vestur í Arfadal í landi Húsatópta. Þar var ráðist í umtalsverðar framkvæmdir og á uppdrætti, sem Kristófer Klog gerði af Grindarvíkurhöfn árið 1751 má sjá verslunarhús niðri við ströndina. Þau stóðu skammt frá svonefndum Hvirflum, sem heita Búðarsandur…“, segir í Sögu Grindavíkur.
Á uppdrættinum sést tvílyft hús, talið vera krambúðin, sem reist var 1731, og minna hús sambyggt við austurendann. Þetta hús mun hafa staðið fram undir lok 18. aldar, en 1779 hafði ný krambúð verið byggð.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Kaupsigling var í Staðarvík til 1745, en eftir það var aðeins siglt til Básenda, þó ennþá væri verslað í húsunum í grindavík. Árni Jónsson keypti húsin á Búðasandi 1789, krambúð, eldhús og „gamla pakkhús“, en hann varð gjaldþrota 1796 og lagðist þá verslun alveg af í Grindavík. Verslunarhúsin voru rifin 1806.
Í Arfadal, neðan við túnið á Húsatóptum, eru pípuklettar. Neðan þeirra, með sjávargötu frá Húsatóptum, er lítill klettur (gróinn hóll), sem Pústi heitir. Þar hvíldu menn sig gjarnan, er sjófang var borið heim. Nú er Pústi í golfvellinum.
Út undir Hvirflum eru klettar, sem heita Háavíti og Lágavíti. Í þeim eru mörg grjótbyrgi, og var fiskur þurrkaður a þeim, áður en söltun kom til. Í hrauninu fast norðan við þjóðveginn eru margir greinilegir grjóthlaðnir hleðslugarðar. „Þá notuðu m.a. Skálholtsmenn til að herða fisk sinn“, segir Þorvaldur Thoroddsen í Ferðabók sinni.

Húsatóftir

Nónvörður.

Vestur af Húsatóptum er landið nokkuð hærra og heita Hæðir suðvestur af bænum. Á þeim eru Nónvörður, eyktarmark frá Húsatóptum. Vörðurnar eru tvær og standa á hárri ógróinni hraunbungu norðan við þjóðveginn. Fremri varðan sést greinilega frá veginum.
Sagan segir að „þegar Tyrkir komu til Grindavíkur 1627, lentu þeir skipi sínu við Ræningjasker í landi Staðar. Gekk þá Staðarprestur upp á efstu brún Hæðanna, hlóð þar þrjár vörður og mælti svo fyrir um, að Grindavík skyldi ekki verða rænd, á meðan í þeim stæði steinn yfir steini.“ Hefur það orðið að áhrínisorðum, enda standa Nónvörður enn, auk vörðunnar á Nónhól skammt vestar, í Staðarlandi.
Árnastígur er sunnan við Klifgjá, vestast í jarði hennar, austan við túnið á Húsatóptum, vel rudd braut um apalhraun. Gamli vegurinn milli Staðarhverfis og Keflavíkur lá um Árnastíg og Klifgjá, þar norð-austur af er Þórðarfell. Um gjána lá svokallað Klif, snarbratt niður í hana. Er það hálfgert einstigi og illt yfirferðar með klyfjahesta, segir í örnefnaskrá.

Árnastígur

Gengið um Árnastíg norðanverðan.

Syðsti hlutinn var bæði kallaður Staðar- og Tóptarvegur. Norðan Stapafells, kom gatan inn á svonefndan Járngerðarstaðaveg (Skipsstíg) á landamerkjum Njarð- og Grindvíkinga. Leiðin er um 16 km löng.
Hjálmagjá er norðvestast (efst) í túni Húsatópta, grasi gróin í botninn. Haft var eftir gömlu fólki, að það hefði oft séð hamrana upplýsa með dýrlegum ljóshjálmum, sem bárum mjög af lýsiskolum í mannheimi. Sást þá oft huldufólkið úr Hjálmagjá leika listir sínar á skautum í tungsljósinu (þ.e.a.s. í lægð í Húsatóptatúni, sem kallast Dans, og þar mynduðust góð svell í frosthörkum á vetrum), segir í örnefnaskrá.
Sunnan við Dans (sem er norðaustast í túninu) er Kvíalág og Fjósskák sunnan hennar. Næst er Harðhaus. Hann er ósleginn túnpartur um 120 m norður af bænum, fast utan golfvallarins. Þar hraktist aldrei hey. Í óþurrkatíð var Harðhaus sleginn til að fá þurrkt. Fjósaskák og Harðhaus náðu alveg heim að gamla bænum.

Árnastígur

Mót Árnastígs og Skipsstígs.

Þangggarðar voru suðaustan við bæjarhlaðið þar sem nú eru gamlar veggtóftir. Þar var þurrt þang geymt til vetrarins. Var því hlaðið þar upp og tyrft yfir það eins og hey. Á veturna var það svo notað til eldiviðar. Þangið var skorið í fjörunni, helst þegar stórstreymt var, og reitt á hestum upp á sjávarbakkann til verkunar. Þegar sterkur álandsvindur var, þá var þang of skorið „undir straum“, vafið um það gömlum netariðli ogmeð flóði fleytt í efsta flóðfar og þaðan reitt á hestum á þurrkvöll. Þá var breitt úr þanginu eins og heyi til þurrkunar. Nú var nauðsynlegt að rigndi vel á þangið, svo úr færi selta. Næst var þangið þurrkað vel, bundið í bagga eins og hey og flutt í geymslur til vetrarins. Oftast var þungu þangi hlaðið í bing í eldhúsinu og brennt á hlóðum. Vel þurrt þang logaði vel, með snarki og neistarflugi, en heldur þótti það léttur eldiviður. Kom sér þá vel að hafa „rekaspýtu í augað“.

Árnastígur

Upphaf Árnastígs við Húsatóftir.

Skipadalur er neðst í túninu. Þangað munu vertíðarskipin til forna hafa verið sett í vertíðarlok. Golfskálinn stendur í raun í Skipadal. Þar er nú sléttað malarplan. Skammt vestar er Húsatóptarbrunnurinn, sem enn sést móta fyrir.
Baðstofa er djúp gjá ofan Tófta þar sem Staðhverfingar fengu í velþóknun heimamanna að sækja sér ferskst vatn um langa tíð. Það er nú helst notað til handa sandverfu- og silungsrækt og fyrrum laxeldisstöð neðan og austan Tófta.
Þegar komið var að golfvellinum á Húsatóptum mátti sjá Þorbjarnarfellið (243 m.y.s.) í norðaustri, en það var ágætt kennileiti alla gönguna.
Frábært veður.

Árnastígur

Varða við Árnastíg.

Húsatóptir

Gengið var frá Markhól austast í landi Húsatópta vestan Grindavíkur, um Stekkjartún, Vörðunes, Arfadal og Kóngshellu út að Hvirflum. Þá var ofanlandið skoðað, s.s. Nónvörður, Hjálmagjá og Baðstofa, auk hinna gömlu tófta á Húsatóptum.

Húsatóftir

Nónvarða ofan Húsatófta.

Austast í Tóptarlandi eru brunnarnir, s.s. Tóptarbrunnur og Stakibrunnur, en vestast í Járngerðarstaðahverfi eru Gerðabrunnar eða Gerðavallabrunnar. Grindvíkingar kölluðu og kalla ferksvatnstjarnirnar ofan við sjávarkambinn brunna. Sjávarfalla gætir í brunnum þessum sem og í nálægum gjám, s.s. Bjarnagjá, sem er á mörkunum, og Baðstofu.
Hverfin í Grindavík eru þrjú; Þórkötlustaðarhverfi austast, Járngerðarstaðarhverfi í miðið og Staðarhverfi vestast. Hér er gengið um hið síðastnefnda (fyrri hluti).

Húsatóptir

Húsatóptir -Vindheimar; túnakort.

Húsatóptir, þar sem golfvöllur Grindvíkinga er nú, var önnur stóra jörðin í Staðarhverfi. Hin var Staður. Árið 1703 voru Húsatóptir konungsjörð og lá til Viðeyjarklausturs. „Selstöðu hefur jörðin lángvaranlega haft þar sem heitir á Selsvöllum, er þángað bæði lángt og erfitt að sækja.“ Hjáleigur voru Kóngshús og Garðhús. Árið 1936 var jörðin seld „með fleiri kóngsjörðum þetta ár, fyrir 630 ríkisdali í silfri til þáverandi landseta. Höfðu Viðeyingar hér áður útræði (1847). Til forna átti Staður rétt til vatnssóknar í Baðstofu í Húsatóftalandi. Til endurgjalds áttu Húsatóftir þangfjörutak á Stað. Kaupstaður var á Húsatóptum og var lent við Kóngshellu. Jörðin fór í eyði 1946. Fimm tómthúsbýli voru byggð í landi Húsatópta á árunum 1906-1934; Dalbær (1906-46), Vindheimar (1911-34), Blómsturvellir (1914-22), Hamar (til 1930) og Reynistaður (1934-38). Vel má sjá móta fyrir öllum þessum býlum í vesturjaðri golfvallarins sunnan Húsatópta.

Húsatóftir

Húsatóftir – byggt 1930.

Árið 1703 var túnið á Húsatóptum mjög spillt af sandi og „enn hætt við meiri skaða“. Engvar öngvar og mestallt landið hraun og sandi undirorpið. Árið 1840 var hins vegar önnur lýsing gefin af Húsatóptum: „Mörgum þykir fallegt á bæ þessum því þar eru stór tún, slétt og fögur, þegar í blóma standa, eru þau og allvel ræktuð.“
„Bærinn stóð spottakorn frá sjó, á háum og víðsýnum fleti“, segir í sóknarlýsingu. Á túnkorti frá 1918 eru sýndar tvær húsaþyrpingar, en tvíbýli var á Húsatóptum. Tóftir gömlu bæjanna eru þar sem nýrra íbúðarhúsið stendur nú, uppi á brekkunni ofan vegarins. Annars eru tóftir fyrir austan húsið og hins vegar um 15 m vestan þess. Tóftirnar eru enn greinilegar að hluta, en sléttað hefur verið fyrir golfvellinu allt umhverfis þær. Nýja húsið er stendur neðar, var byggt 1930 af Einar Jónssyni og sonum hans. Það hýsir nú Golfklúbb Grindavíkur.

Húsatóptir

Húsatóptir – sjá má torfbæinn v.m.

„Frá þeim tíma [þ.e. verslunarinnar] er gólfið þar í bæjardyrunum steinlagt með tígulsteini. Er líklegt að Kaupmannshúsin hafi verið rifin þegar verzlunin lagðist niður, en svo aftur byggður bóndabær í „tóptum“ þeirra, og fengið þar af nafnið, sem hann hefur nú“, segir Brynjúlfur Jónsson í grein frá árinu 1903. Íbúðarhús úr steini var byggt á bæjarhólnum 1930, en fram að því hefur verið þar toftbær. Hús voru byggð 1777 með „binding úr torfi og grjóti að utan en göflum úr timbri“. Einnig var þar íbúðarhús beykisins, byggt 1779, „með veggjum úr torfi og grjóti, enm þaki úr timbri“. Eldra íbúðarhúsið er nú stendur að Húsatóptum, byggt 1930, stendur neðar og vestar en tóftirnar. Það hýsir nú golfskála Grindvíkinga. Tóftirnar fast austan við nýja íbúðarhúsið eru á hól. Þær eru tveggja hólfa, en á milli hólfanna er steyptur pallur. Um 20 m norðaustan við tóftirnar eru leifar húss eða kálgarðs.

Húsatóftir

Efri-Sundvarða austan Húsatófta.

„Hjáleigan Kóngshús stóð niður við Húsatóptarvör“, segir í Sögu Grindavíkur. Fast vestan Tóptarvarar er stór klöpp, sem á standa rústir sjóhúss. Er líklegt að hjáleigan hafi verið á svipuðum stað. Klöppin er alltaf upp úr sjó, en getur verið mikið umflotin á flóði. Hún er grasi gróin að hluta. Ekki eru aðrar tóftir á klöppinni en steypurústin, en sunnan í klöppinni standa tveir fúnir timburstaurar úr sjó.
Hjáleigan Garðhús var til 1703. Í Sögu Grindavíkur segir að ekki sé ljóst hvar hjáleigan, sem nefnd var Garðhús, stóð.
Stekkjatún er norðan Jónsbásakletta. Í örnefnaskrá segir að Markhóll, gróinn hóll, sé austast á mörkum, en vestan við hann er Hvalvík. Vestan Hvalvíkurkletta er Jónsbás, u.þ.b. 80 m breiður. Vestan Jónsbáss er hár malarkambur, kallaður Stekkjatúnskambur. Tóftabrunnar, sjóvatnstjarnir, eru fast vestan við gamla veginn, vestan við Bjarnagjá, vatnsfyllta gjá fast austan við Markhól. Þá er Stekkjartúnsbarð og þá kemur Stekkjatún vestan þess. Ofan við Stekkjatún er Stakibrunnur.

Húsatóftir

Baðstofa.

Þann 14. janúar 1902 sigldi enski togarinn Anlaby í strand við Stekkjartúnskamp og fórst öll áhöfnin.Vestan við Stekkjartúnskamp eru klettabásar, nefndir Sölvabásar. Vestan við Sölvabása skagar tangi fram í sjó. Heitir hann Vörðunes, en er í daglegu tali nefndur Vörðunestangi. Beint upp af honum, u.þ.b. 1 km, er stór hlaðin varða. Tvær vörður með dálitlu millibili stóðu á bakkanum tæpum 200 austan við Vatnslón. Vörður þessar heita Sundvörður. Efri varðan er um 800 m austan við bæjarhólinn á Húsatóptum, í uppgrónu hrauni.  Í örnefnaskrá segir að „þegar þær bar í háan hraunstand í háhrauninu og í Höskuld, hnjúk austan í Þórðarfelli, þá var verið á réttu Djúpsundi. Var því miði haldið, þar til Hvirflavörður bar saman á Snúningnum. Þá var sveigt til vinstri inn á Staðarvík, en þaðan var greið leið inn í Staðarvör og Tóptarvör, þótt brimhroði væri. Snúningur var nefnt, þar sem beygjan var tekin, og talað var um að vera komin á Snúning.“ Varðan er hlaðin úr hraungrýti og er um 2 m á hæð. Hún er mest um 1,5 m í þvermál og umför grjóts eru um tíu. Neðri varðan er skammt austan við þar sem hús fiskeldisins standa nú (suðvestar).
Þvottaklappir eru vestan við Vatnslónsvík, vestan við Vatnslónskletta. Á þeim eru daufar uppsprettur. Þær draga nafn sitt af því, að þegar lágsjávað var, rann þarna mikið vatn niður í fjöruna og var farið þangað með þvott frá Húsatóptum og hann skolaður. Var það kallað „að fara í Vötnin“. Vatnslónsvík er fyrir suðvestan fiskeldið.

Húsatóftir

Húsatóftir – fiskibyrgi.

Tóptarklöpp er stærst klappanna. Hún er um 100 metra norðaustur af steyptri bryggju og er vestasti hluti skerjatangans, austan við grónu klöppina, sem steypta sjóhúsarústin stendur á. Á henni voru fiskhjallar áður fyrr. Guðsteinn Einarsson segir að þar hafði lengi staðið sjávarhús frá Húsatóptum, en þau voru farin af fyrir síðustu aldamót (1900) og þá komin upp á bakkann fyrir ofan. Tóptarvör er vestan Tóptarklappar, vestast í Garðsfjöru. Búðasandur tekur við af henni til vesturs. Vörin er á milli Tóptarklappar og grónu klapparinnar, sem steypta rústin er á.
Barlestarsker er beint niður af Húsatóptum, millli Þvottaklappa og Garðsfjöru, í Vikinu. Skerið er skerjatangi syðst í Garðsfjörunni. Ef tekið er mið af klöppinni með steyptu rústinni er Tóptarklöpp austan við hana, en Barlestarsker sunnan við hana. Þau eru tvö. Þar munu verslunarskipin hafa tekið barlest. Í öðru Barlestarskerinu var festarbolti gegnt öðrum í Bindiskeri í Vatnstanga í landi Staðar.

Staður

Staður í Grindavík. Hafnarkort Dana frá einokunartímanum.

Keðja mun hafa legið þvert yfir víkina milli festarboltanna og voru verslunarskipin á dögum kóngsverslunarinnar svínbundin við keðjuna, þar sem þau lágu á víkinni. Svínbundið var þegar skip var bundið bæði aftan og framan langsum á keðjuna, þannig að hlið lægi að henni.
Boltinn í Barlestarskeri var stór, fleygmyndaður með auga í efri endanum. Hann var lengi notaður sem hestasteinn á hlaðinu á Húsatóptum, en er nú sagður vera í garði húss í Járngerðarstaðahverfi. Festarboltinn á Bindiskeri er enn á sínum stað. Í lýsingu Brynjúlfs Jónssonar frá 1903 segir „að skipin hafi verið bundin á þrjá vegu við járnbolta, sem festir voru í klappir. Tveir af þeim voru í Húsatóptalandi, en einn í Staðarlandi. Jón bóndi Sæmundsson á Húsatóptum lét, nálægt 1850, taka upp báða þá boltana, sem í hans landi voru og færa heim til bæjar. Var annar hafður sem hestasteinn“.

Húsatóftir

Brunnur við Húsatóftir – Erling og Helgi Gam.

Búðarhella er upp af Kóngshellu. Næstur er Búðasandur er tekur við af Garðsfjöru allt frá Tóptarvör. Danska verslunarhúsið stóð á litlum hól, u.þ.b. 80 m upp af Tóptarvör. Ennþá sést móta fyrir grunni þess. Í sóknarlýsingu1840 segir: „Stóðu höndlunarhúsin niður við sjó nálægt Hvirflunum, en kaupmenn bjuggu heima á Húsatóptum.“ Á innri klöppinni (ofan við Kónshellu), sem er mun hærri, hafði krambúðin síaðst staðið. Þar stóð enn fisksöltunarhús Húsatóptarmanna er þar var róið 1865 og 1866. Þar á klöppini var aflanum skipt eftir róðra og gjört að fiskinum. Líklega er hóllinn, sem talað er um hóll sá, sem sumarbústaðurinn Staðarhóll stendur nú. Fast sunnan við hann er Búðasandur.

Verslun var í Grindavík áður, en hætt var við hana snemma á 18. öld. Höfnin var rétt við prestsetrið Stað, við hólma, sem hjallur var á.

Húsatóftir

Minjar dönsku einokunarverslunarinnar á Húsatóftum.

Skipin lágu milli hans og Barlestarskers. Verslunarhúsin stóðu á Búðartanga, en nú er tanginn að mestu brotinn af brimi. Þegar grafið var þar fyrir löngu fannst þar lóð, 100 pund að þyngd, sem bar merki Kónsghöndlunar. Þar finnast enn krítarpípur ef vel er leitað. Búðin var byggð 1779, einnig eldhús með múraðri eldstó og Gamla pakkhúsið (sennilega eldri verslunarbúð). Verslun var tekin upp á ný í Grindavík árið 1664, en hafði fram til 1639 verið í Járngerðarstaðalandi. Kaupmenn „fluttu sig um set vestur í Arfadal í landi Húsatópta. Þar var ráðist í umtalsverðar framkvæmdir og á uppdrætti, sem Kristófer Klog gerði af Grindarvíkurhöfn árið 1751 má sjá verslunarhús niðri við ströndina. Þau stóðu skammt frá svonefndum Hvirflum, sem heita Búðarsandur…“, segir í Sögu Grindavíkur. Á uppdrættinum sést tvílyft hús, talið vera krambúðin, sem reist var 1731, og minna hús sambyggt við austurendann. Þetta hús mun hafa staðið fram undir lok 18. aldar, en 1779 hafði ný krambúð verið byggð.
Kaupsigling var í Staðarvík til 1745, en eftir það var aðeins siglt til Básenda, þó ennþá væri verslað í húsunum í grindavík. Árni Jónsson keypti húsin á Búðasandi 1789, krambúð, eldhús og „gamla pakkhús“, en hann varð gjaldþrota 1796 og lagðist þá verslun alveg af í Grindavík. Verslunarhúsin voru rifin 1806.

Prestastígur

Prestastígur.

Í Arfadal, neðan við túnið á Húsatóptum, eru Pípuklettar. Neðan þeirra, með sjávargötu frá Húsatóptum, er lítill klettur (gróinn hóll), sem Pústi heitir. Þar hvíldu menn sig gjarnan, er sjófang var borið heim. Nú er Pústi í golfvellinum.
Út undir Hvirflum eru klettar, sem heita Háavíti og Lágavíti. Í þeim eru mörg grjótbyrgi, og var fiskur þurrkaður a þeim, áður en söltun kom til. Í hrauninu fast norðan við þjóðveginn eru margir greinilegir grjóthlaðnir hleðslugarðar. „Þá notuðu m.a. Skálholtsmenn til að herða fisk sinn“, segir Þorvaldur Thoroddsen í Ferðabók sinni.
Vestur af Húsatóptum er landið nokkuð hærra og heita Hæðir suðvestur af bænum. Á þeim eru Nónvörður, eyktarmark frá Húsatóptum. Vörðurnar eru tvær og standa á hárri ógróinni hraunbungu norðan við þjóðveginn. Fremri varðan sést greinilega frá veginum.

Húsatóftir

Húsatóftir – ein Nónvarðan.

Sagan segir að „þegar Tyrkir komu til Grindavíkur 1627, lentu þeir skipi sínu við Ræningjasker í landi Staðar. Gekk þá Staðarprestur upp á efstu brún Hæðanna, hlóð þar þrjár vörður og mælti svo fyrir um, að Grindavík skyldi ekki verða rænd, á meðan í þeim stæði steinn yfir steini.“ Hefur það orðið að áhrínisorðum, enda standa Nónvörður enn, auk vörðunnar á Nónhól skammt vestar, í Staðarlandi.
Árnastígur er sunnan við Klifgjá, vestast í jarði hennar, austan við túnið á Húsatóptum, vel rudd braut um apalhraun. Gamli vegurinn milli Staðarhverfis og Keflavíkur lá um Árnastíg og Klifgjá, þar norð-austur af er Þórðarfell. Um gjána lá svokallað Klif, snarbratt niður í hana. Er það hálfgert einstigi og illt yfirferðar með klyfjahesta, segir í örnefnaskrá. Syðsti hlutinn var bæði kallaður Staðar- og Tóptarvegur. Norðan Stapafells, kom gatan inn á svonefndan Járngerðarstaðaveg á landamerkjum Njarð- og Grindvíkinga. Leiðin er um 16 km löng.

Húsatóptir

Fuglaþúfa ofan við Húsatóptir.

Prestastígur er gömul þjóðleið milli Húsatópta og Hafna. Hrafnagjá er vestur af Grýtugjá undir jaðri Eldborgarhrauns. Yfir gjána er hlaðin brú þar sem hún er um 2 m á dýpt. Hleðslan er úr hraungrýti og mjög heilleg, um 2 m breið og um 4 m löng. Frá Hrafnagjá er einstigi um hraunið frá Sauðabæli út í Óbrennishóla.
Líklega er þar að finna svonefndan Hamrabóndahelli, sem mikið er búið að leita að. Troðningur þessi er fær öllum þótt slæmur sé, segir í örnefnaskrá. Gatan liggur í norðvestur upp frá vestanverðu túninu á Húsatóptum. Nú er upphaf götunnar sett við þjóðveginn austan Húsatópta, en golfvöllurinn hefur verið lagður yfir hana næst bænum.
Frá túninu túninu á Húsatóptum að Eldvörpum liggur gatan um mosagróið hraun, mjög úfið á köflum. Norðan Eldvarpa er landið sléttara, grónara og auðveldara yfirferðar. Leiðin er vörðuð svo til alla leiðina og eru flestar vörðurnar miklar og breiðar og vel uppistandandi. Hún er um 12 km.

Húsatóttir

Refagildra við Húsatóttir.

Skothóll, allhár og gróinn með fuglaþúfi í toppinn, áberandi í landslaginu. Hann er vestast í Tóptarkrókum. Hóllinn er á mörkum Húsatópta og Staðar. Skothólsgjá liggur eftir endilöngum hólnum (um 1 m djúp). Á Skothól hefur líklega verið legið fyrir tófu.
Útilegumannabyrgi eru í sunnanverðu Sundvörðuhrauni. Um þau er fjallað sérstaklega í annarri FERLIRslýsingu.
Byrgjahólar eru vestan við Tóptartúnið. Eru þar mörg hlaðin byrgi frá þeim tímum er allur fiskur var hertur. Byrgin, sum heilleg, eru ofan við Hjálmagjá. Þau eru yfirleitt kringlótt og hlaðin í topp. Á þeim voru lágar dyr, vafalaust til að stórgripir kæmust ekki inn í þau. Byrgin voru hlaðin úr stórgrýti og blés vel í gegnum þau. Fiskurinn var hengdur upp á slár inni í byrgjunum. Aðeins eitt byrgjanna er enn vel heillegt og uppistandandi að hluta.

Húsatóptir

Fiskbyrgi ofan Húsatópta.

Baðstofa er norðaustur af Tóptartúni, mikil gjá, 18 faðma djúp, þar af er dýpt vatnsins í botni hennar um 9 faðmar, segir í örnefnaslýsingu. Baðstofa er um 300 m austur af bæjarhólnum. Í gjána var oft sótt vatn, er brunnar spilltust í stórflóðum. Þótti vatn þar mjög gott.

Húsatóftir

Refagildra við Húsatóftir.

Svo sagði Lárus Pálsson hómapat, að hann tæki hvergi vatn í meðul annars staðar en í Baðstofu. Sögn er um, að Staðarprestur hafi fengið að sækja vatn í Baðstofu gegn því, að Húsatóptarbændur fengju að taka söl í landi Staðar. Gjáin er mjög djúp niður á vatnsborðið, en ekki nema um 3 m breið. Mikill gróður er í henni víða. Brú liggur yfir gjána þar sem vatni er dælt úr henni, en vatnið er bæði notað til vökvunar á golfvellinum og í fiskeldinu sunnan vegarins. Gegnumstreymi er á vatninu í gjánni. Skammt ofan gjárinnar er hlaðin refagildra.

Hjálmagjá er norðvestast (efst) í túni Húsatópta, grasi gróin í botninn. Haft var eftir gömlu fólki, að það hefði oft séð hamrana upplýsa með dýrlegum ljóshjálmum, sem bárum mjög af lýsiskolum í mannheimi. Sást þá oft huldufólkið úr Hjálmagjá leika listir sínar á skautum í tungsljósinu (.þe.a.s. í lægð í Húsatóptatúni, sem kallast Dans, og þar mynduðust góð svell í frosthörkum á vetrum), segir í örnefnaskrá.

Húsatóftir

Húsatóftir – minjar og örnefni – ÓSÁ.

Sunnan við Dans (sem er norðaustast í túninu) er Kvíalág og Fjósskák sunnan hennar. Næst er Harðhaus. Hann er ósleginn túnpartur um 120 m norður af bænum, fast utan golfvallarins. Þar hraktist aldrei hey. Í óþurrkatíð var Harðhaus sleginn til að fá þurrkt. Fjósaskák og Harðhaus náðu alveg heim að gamla bænum.

Þangggarðar voru suðaustan við bæjarhlaðið þar sem nú eru gamlar veggtóftir. Þar var þurrt þang geymt til vetrarins. Var því hlaðið þar upp og tyrft yfir það eins og hey. Á veturna var það svo notað til eldiviðar. Þangið var skorið í fjörunni, helst þegar stórstreymt var, og reitt á hestum upp á sjávarbakkann til verkunar. Þegar sterkur álandsvindur var, þá var þang of skorið „undir straum“, vafið um það gömlum netariðli ogmeð flóði fleytt í efsta flóðfar og þaðan reitt á hestum á þurrkvöll. Þá var breitt úr þanginu eins og heyi til þurrkunar. Nú var nauðsynlegt að rigndi vel á þangið, svo úr færi selta. Næst var þangið þurrkað vel, bundið í bagga eins og hey og flutt í geymslur til vetrarins. Oftast var þungu þangi hlaðið í bing í eldhúsinu og brennt á hlóðum. Vel þurrt þang logaði vel, með snarki og neistarflugi, en heldur þótti það léttur eldiviður. Kom sér þá vel að hafa „rekaspýtu í augað“.
Skipadalur er neðst í túninu. Þangað munu vertíðarskipin til forna hafa verið sett í vertíðarlok. Golfskálinn stendur í raun í Skipadal. Þar er nú sléttað malarplan. Skammt vestar er Húsatóptarbrunnurinn, sem enn sést móta fyrir.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-Saga Grindavíkur
-Fornleifaskráning 2002 – FÍ
-Örnefnalýsing fyrir Húsatóftir

Húsatóptir

Refagildra ofan Húsatópta.

Húsatóftir

Golfvellir á Reykjanes- skaganum eru allir byggðir á sögulegum minjasvæðum. Á, og við þá, eru bæði varðveittar minjar og einnig eyddar minjar.
Athyglin beinist að boltanum, en hvað um umhverfið...Líklega eru golfvellirnir þó nú best vernduðu svæðin á Skaganum því víðast hvar virðast þeir hafa notið betri skilnings og beinlínis forgangs þegar kom að varnargarðagerð vegna ágangs sjávar.
Svo virðist sem í upphafi hafi verið farið af stað með vallargerð á hverjum stað með lítilli fyrirhyggju hvað varðar gildi minjanna, en í seinni tíð má sjá hjá hlutaðeigandi vott af áhuga á merkilegheitunum til framtíðar litið. Dæmi þessa er ferð FERLIRsfélaga á Vallagerðisvöllinn við Sandgerði fyrir örfáum árum. Rétt er að geta þess í upphafi að FERLIR hefur haft það fyrir sið í mörg ár að fara eina golfvallaferð á ári. Flestir gætu látið sér detta í hug að um æfingaferðir væri að ræða, en svo er ekki. FERLIR hefur aldrei æft golf, einungis tekið þátt í mótum – einu sinni á ári. Þannig var því háttað á Vallagerðisvellinum umrætt sinn – holukeppni. Áhuginn beindist þó meira á keppnisleiðinni að nálægum sögulegum minjum en nýlega númeruðum holum, sem golfkúlunni var ætlað. Golfvöllurinn er nefnilega í landi Kirkjubóls, þess staðar er kom svo eftirmynnilega við sögu Jóns Gerrekssonar og síðar banamanna Takmarkinu náð - eða hvað...Jóns Arasonar, biskups (1550). Auk tófta bæjarins, grafreita og hins forna Skagagarðs í vallarfætinum var þar margt annað að sjá, s.s. staðar þess heiðna kumls er nú er undir gleri í gólfi Þjóðminjasafnsins. Hvaða heilvita golfari með snefils- menntun gæti mögulega látið eina litla hvíta kúlu villa sér sýn frá slíku minjasvæði þar sem sagan er svo að segja við hvert fótmál?
Til að gera langa sögu stutta breyttu staðarhaldarar stuttu síðar, eftir massíva ábendingu þátttakenda, nafni golfvallarins í Kirkjubólsvöll, enda betur við hæfi –  sögulega séð.
Vegna náinna tengsla golfvallanna við sögulegar minjar og þjóðsagnatengda staði, og eðlilega kröfu um varðveislu þeirra, hefur FERLIR ákveðið að lýsa nokkrum minjastöðum á hverjum stað – bæði til að auka líkur á varðveislu þeirra og jafnframt til að margfalda ánægju golfiðkanda er þeir fara „hringinn“. Hér á eftir verður lýst áhugaverðum stöðum við og á Húsatóftavelli við Grindavík, en þær verða ekki raktar nákvæmlega með hliðsjón af röð brauta – og þó. Hugmyndin er að einhvern tímann vakni áhugi viðkomandi á að setja upp aðgengilegan yfirlitsuppdrátt af svæðinu, líkt og Grindvíkingar hafa þegar byrjað á innanbæjar, svo upplýsa megi áhugasama golfiðkendur á hvað þar er að finna á leið þeirra um völlinn.
Pústi á HúsatóftarvelliByrjað verður á örnefnalýsingur fyrir Húsatóftir (Húsatóttir/- Húsatóptir): „
Upphaflega skráði Ari Gíslason örnefni samkvæmt upplýsingum Guðsteins Einarssonar hreppstjóra, Grindavík, og sóknarlýsingu frá 1840. Seinna bar Kristján Eiríksson lýsinguna undir bræður Guðsteins og samdi drög að endurskoðaðri lýsingu. Auk þess gerði hann skrá yfir spurningar, sem enn var ósvarað. Þessar spurningar voru seinna sendar bræðrunum, og vorið 1980 bárust svör við þeim, undirrituð af Einari Kr., Jóni og Þórhalli Einarssonum. Svörin voru að lokum felld inn í lýsingu Kristjáns.“
Byrjum austast að sunnanverðu: „
Svolítil vík, Vatnslónsvík, er vestan við Vatnslónskletta. Vestan hennar eru Þvottaklappir. Á þeim eru daufar uppsprettur. Þegar búið var að þvo og sjóða þvottinn, var farið með hann niður á klappir þessar og hann skolaður þar. Efst í Þvottaklöppum voru hlóðir, og var ullin soðin yfir þeim og hún síðan skoluð á klöppunum. Fram undan Þvottaklöppum eru klettar, sem fara í kaf á flóðum, og vildi fé flæða á Tóftir Hamraþeim. Voru þeir nefndir Flæðiklettar.“ Þennan stað má finna skammt austan golfvallarins.
Vestur frá Þvottaklöppum er nokkuð stór vík, sem heitir Arfadalsvík. Vestasti hluti hennar, beint niður undan Húsatóftum, milli Þvottaklappa og Garðafjöru, var í daglegu tali nefndur Vik. Upp af Arfadalsvík er Arfadalur, grasspilda. Vestan við Arfadalsvík er skerjatangi fram í sjó. Hann heitir Garðafjara. Norðan í henni er kúpumyndað sker, sem heitir Selsker. Syðst í Garðafjöru er skerjatangi, sem heitir einu nafni Barlestarsker. Þar munu verzlunarskipin fyrrum hafa tekið barlest. Upp af þeim er stór og mikil klöpp, sem heitir Kóngshella. Í einu af Barlestarskerjum var festarbolti gegnt öðrum í Bindiskeri í Vatnstanga í landi Staðar. Keðja mun hafa legið þvert yfir víkina milli festarboltanna og voru verzlunarskipin á dögum kóngsverzlunarinnar svínbundin við keðjuna, þar sem þau lágu á víkinni. (Ath. svínbinda: binda skipin bæði aftan og framan langsum á keðjuna, þannig að hliðin lægi að Tóftir Vindheimahenni.) Boltinn í Barlestarskerjum var stór, fleygmyndaður bolti með auga í efri endanum. Hann var lengi notaður sem hestasteinn á hlaðinu á Húsatóftum, en er nú týndur [en finna má samt jarðlægan í garði í Járngerðarstaða- hverfi, ef vel er að gáð]. Festarboltinn í Bindiskeri er enn á sínum stað.
Í víkinni á milli Garðafjöru og Vatnstanga í landi Staðar var fyrrum aðalverzlunarhöfnin á þessum slóðum. Á einokunartímabilinu kom t. d. öll sigling inn á þessa vík, en mun hafa lagzt endanlega af í tíð Hörmangara. (Ath.: nánar má lesa um þetta í Staðhverfingabók.) Í seinni tíð hafa dekkbátar stundum verið látnir liggja inni á víkinni og hefur lánazt ágætlega. Vík þessi hefur ekki verið nefnd neitt sérstakt i tíð núlifandi manna, en hefur e. t. v. áður verið nefnd Staðarvík, a. m. k. heitir Staðarsund inn á hana. Það er áll á milli Dalboða  að austan og Gerðistanga (í Staðarlandi) að vestan. Vörðunesboði rís upp af grynningunum fram af Vörðunestanga, og er Dalboði rétt utan hans á sama grynningahrygg. Ekki þurfti mikinn Tóftir konungsverslunarinnar fremstsjó til að bryti á boðum þessum, og í stórbrimum brýtur þvert fyrir víkina.
Búðarhella er upp af Kóngshellu og upp af henni Tóftaklöpp. Hún er stærst klappanna. Á henni stóðu fiskhjallar áður fyrr. Vestan hennar er Tóftavör vestast í Garðafjöru. Búðasandur tekur við af henni til vesturs.
Danska verzlunarhúsið stóð á litlum hól u.þ.b. 80 m upp af Tóftavör. Ennþá sést móta fyrir grunni þess.
Utan (vestan) við Búðasand eru Hvirflar, hæðardrag á mörkum Húsatófta og Staðar. Þar er vindasamt og einnig taka Hvirflar af útsýni á milli Húsatófta og Staðar. Á Hvirflum eru tvær vörður, Hvirflavörður. Neðri varðan er ofan við efsta flóðfar, hin um 150 m ofar. Vörðurnar eru leiðarmerki á Staðarsundi og landamerki milli Húsatófta og Staðar með stefnu um Skothól í Hauga við Haugsvörðugjá, en hún er á mörkum milli Húsatófta og Hafna.Nónvarða
Í Hvirflum, austan við Hvirflavörður, var gerð steinbryggja árið 1933. Er hún í landi Húsatófta.
Verður þá aftur lýst austan frá. Skammt fyrir ofan Bjarnagjá er hár hóll eða klettur, sem heitir Hvíldarklettur. Hann er skammt norðvestan við gömlu brautina milli Járngerðarstaða- hverfis og Staðarhverfis. Munu menn hafa lagt byrði sína af sér á klettinn til að hvíla sig.
Tvær vörður með dálitlu millibili stóðu á bakkanum tæpum 200 metrum austan við Vatnslón. Vörður þessar heita Sundvörður. Þegar þær bar í háan hraunstand í háhrauninu og í Höskuld, hnjúk austan í Þórðarfelli, þá var verið á réttu Djúpsundi (þ. e. ytra hluta Staðarsunds). Var því miði haldið, þar til Hvirflavörður bar saman á Snúningnum. Þá var sveigt til vinstri inn á Staðarvík, en þaðan var greið leið inn í Staðarvör og Tóftavör, þótt brimhroði væri. Snúningur var nefnt, þar sem beygjan var tekin, og talað var um að vera kominn á Snúning.
Hraunstandurinn, sem áður var nefndur, var alltaf kallaður Sundvarða og hraunið umhverfis hann Sundvörðuhraun.
Í Arfadal, neðan við túnið á Húsatóftum, eru Pípuklettar. Í frosthörkum urðu óvenjulöng grýlukerti niður úr þessum klettum. Neðan þeirra, með sjávargötu frá Húsatóftum, er lítill klettur eða hóll, sem Pústi heitir. Þar hvíldu menn sig gjarnan, er sjófang var borið heim.
Út undir Hvirflum eru klettar, sem heita Háavíti og Lágavíti. Í þeim eru mörg grjótbyrgi, og var fiskur þurrkaður í þeim, áður en söltun kom til.
Fimm tómthús voru í landi Húsatófta í línu frá Húsatóftum að Hvirflum: Hamrar, Blómsturvellir, Dalbær, Vindheimar og Reynistaður [leiðr. EKE, var “Reynivellir”]. U. þ. b. 1/2 km var á milli allra þessara húsa. Öll þessi tómthús nema Húsatóftir - gamla bæjarstæðiðDalbær voru byggð eftir 1910 og eru nú ásamt heima-jörðinni öll í eyði og nú aðeins rústir einar.
Reynistaður stendur enn (hús með kastalaþaki) og er nú nýttur sem sumarhús. Bærinn var þurrabúðarfjár- festing, byggður af Kristjáni Halldórssyni og Önnu Vilmundardóttur frá Löndum árið 1934. Bygging Reynistaða sýndi ótvírætt, að við þar framkvæmdir í hafnarmálum Staðhverfinga, sem bryggjan á Hvrirflum var, vöknuðu vonir um að í Hverfinu myndi byggðin ekki leggjast af, jafnvel fara vaxandi og haldast í hendur viuð fólksaukninguna í Grindavík í heild. Menn reiknuðu þá ekki með jafn örum vexti, sem hin góða hafnaraðstaða í Hópinu myndi skapa í Járngerðarstaða- hverfi. Við hana stóðst bryggjukrílið á Hvirflunum vitanlega hvorki samanburð né samkeppni. Og því fór sem fór.
Vindheimar voru reistir um 1911 er Árni Jónsson á Húsatóftum seldi Magnúsi syni sínum í hendur þriðjunginn af sínum parti á Tóftum. Síðar, líkt og Templarahúsið í Fiskibyrgi á Byrgishæð ofan HúsatóftaJárngerðarstaða- hverfið, varð Vindheimahúsið miðstöð Staðhverfinga. Að lokinni álfabrennu á þrettándanum og dansi í kringum hana uppi á barðinu austur af Stað, var hlaupið við fót heim að Vindheimum. Ljós voru tendruð, nikkan tekin á hné og danssporin stigin af ungum og öldnum. Á stundum var polkinn eða rællinn svo heillandi á Vindheimaballi, að pörin leiddust ekki til síns heima, fyrr en má var að skinnklæðast, hrinda fram skipinu og róa út á mið í skímu komandi dags. Vindheimar fóru í eyði 1934.
Dalbær var reistur 1906, fyrsta þurrabúðin að Húsatóftum. Elsie og Guðsteinn Einarsson, síðar hreppstjóri eftir föður sinn, bjuggu um tíma í Dalbæ. Bærinn fór í eyði 1946.
Blómsturvellir, þurrabúð, eru fyrst nefndir í manntali 1914, en samnefnt kot hafði áður verið í landi Staðarlandi. Flsut var úr húsinu 1922 og stóð það autt um skeið, en var síðan rifið og efniviður þess fluttur sjóleiðina með timburbát til Keflavíkur. Ekki varð þó úr að húsið yrði endurbyggt þar.
Húsatóftir - nýjasta húsið - nú golfskáliHamrar voru byggðri af Jóni vitaverði Helgasyni á Reykjanesvita. Hann fékk útmælda 900 ferfaðma lóð hjá Einari á Húsatóftum og byggði sér þar lítið, pappaklætt timburhús og kallaði á Hömrum. Það var aðeins 28 ferfaðma að flatarmáli, Fyrsta árið voru þar 11 manns í heimili. En hjartarúmið á Hömrum var nóg, ekki stóð á því. Árið 1930 fékk Jón Stað til ábúðar og fluttist þangað. Eftir hann kom enginn að Hömrum. Nokkrar sagnir eru til um samskipti Hamrabónda og hreppstjórans á Húsatóftum, en sá fyrrnefndi þótti stoltur mjög.
Vestur af Húsatóftum er landið nokkru hærra og heita þar Hæðir suðvestur af bænum. Á þeim eru Nónvörður, eyktamark frá Húsatóftum. Þegar Tyrkir komu til Grindavíkur 1627, lentu þeir skipi sínu við Ræningjasker í landi Staðar. Gekk þá Staðarprestur upp á efstu brún Hæðanna, hlóð þar þrjár vörður og mælti svo um, að Grindavík skyldi ekki verða rænd, á meðan í þeim stæði steinn yfir steini. Hefur það orðið að áhrínsorðum, enda Hjálmagjástanda Nónvörður að nokkru enn.
Sanda heitir hóll upp af Garðafjöru. Hann er skammt austan við hólinn, sem danska verzlunarhúsið stóð á. Er búizt var við brimi og flóðhæð, voru vertíðarskipin sett úr naustum upp á Söndu, sem var um 200 m vestur af naustunum og stóð nokkru hærra en þau.
Tóftakrókar eru heiðarland á svæðinu frá Tóftatúni og vestur að apalhrauninu, á breidd um það bil 2 1/2 km. Miðkrókar eru miðsvæðis i þessari heiði. Þar er Miðkrókagjáin, löng og djúp. Margar fleiri gjár eru í Tóftakrókum og liggja allar eins, frá norðaustri til suðvesturs, flestar djúpar og margar með vatn í botni. Um Tóftakróka lá vegurinn í Hafnir fast með Tóftatúni. Vestast í Tóftakrókum er Skothóll í mörkum milli Húsatófta og Staðar, fast upp undir apalhrauninu (Eldborgahrauni). Skothólsgjá liggur eftir endi-löngum hólnum frá norðaustri til suðvesturs. Á Skothól hefur líklega verið legið fyrir tófu. Um 1/2 km norður af Skothól er Grýtugjá. Allmikið graslendi er á þessu svæði. Um 1500 m norður af Grýtugjá er Sauðabæli, hár hóll. Landgott og skjólsælt var í kringum hann og hélt fé sig þar mikið. Gamli Hafnavegurinn úr Staðarhverfi liggur milli Sauðabælis og apalhraunsins.
Vestur af Grýtugjá, upp undir jaðri apalhraunsins, er Hrafnagjá. Hún liggur frá norðaustri til suðvesturs eins og allar gjár á þessu svæði og reyndar allar gjár á Reykjanesi. Frá Hrafnagjá er einstigi um hraunið frá Sauðabæli út í Óbrennishóla. Troðningur þessi eða einstigi er fær öllum, þótt slæmur sé. Í Óbrennishólum er töluvert graslendi og lyng og ekki eins hraunbrunnið land og í kring. (Ath.: Ekki hafa Jón og Einar heyrt þá nefnda Óbrynnishóla).
Vörðuð þjóðleið að HúsatóftumMiðkrókakriki teygist langt inn í apalhraunið úr vesturjaðri Tóftakróka. Í norðvestur af honum, úti í apalhrauninu, er dálítið sléttlendi og eru þar nokkur grjótbyrgi, er gefa til kynna, að þar hafi fólk hafzt við, er vildi fara huldu höfði. [Byrgin eru 9 talsins, ýmist einhlaðin eða tvíhlaðin [viðb. EKE]]. Byrgin eru vel falin í apalhrauninu, en frá staðnum ber Sundvörðuna í Gyltustíg í Þorbirni. Getgátur eru um, að þangað hafi menn flúið ¬- annaðhvort undan ræningjum eða drepsóttum eða þá að ófrjálsir menn hafi hafzt þarna við, en engar sagnir eru um mannvist þarna. Sléttar klappir eru þarna og er hraunið hátt umhverfis. Á klöppum þessum, nálægt miðju, eru þrjú byrgi í röð frá austri til vesturs. Auk þess er rúst af kofa norðaustast í þessari hvilft, undir hárri hraunnípu. Þröngum og djúpum hraunkrika vestan við rústina hefur verið lokað með grjótgarði og virðist þar hafa verið fjárrétt.
Vestan við Tóftatúnið eru Byrgjahólar. Eru þar mörg hlaðin byrgi frá þeim tímum, er allur fiskur var hertur. Byrgi þessi vHarðhaus og Dalurinn ofan við Húsatóftiroru yfirleitt kringlótt og hlaðin í topp. Á þeim voru lágar dyr, vafalaust til þess að stórgripir kæmust ekki inn í þau. Þau voru hlaðin úr stórgrýti, og blés vel í gegnum þau. Fiskurinn var hengdur á slár inni í byrgjunum. Aðeins eitt þessara byrgja er nú vel uppistandandi.
Vestast (efst) í túni Húsatófta byrjar gjá, grasi gróin í botninn. Vestri hamraveggurinn rís allmiklu hærra en sá eystri, og reyndar er enginn eystri veggur neðst. Gjá þessi heitir Hjálmagjá. Haft var eftir gömlu fólki, að það hefði oft séð hamrana upplýsta með dýrlegum ljósahjálmum, sem báru mjög af lýsiskollunum í mannheimi.
Framhald Hjálmagjár með túninu heitir Túngjá og síðan heitir hún Tóftagjá og er hún eina 2-3 km á lengd. Norðaustur af Tóftatúni er Baðstofa, mikil gjá, 18 faðma djúp, þar af er dýpt vatnsins í botni hennar 9 faðmar. Töluverður gróður er á hamrasyllum í gjánni. í Baðstofu var oft sótt vatn, er brunnar spilltust í stórflóðum. Þótti vatn þar mjög gott. Svo sagði Lárus Pálsson hómópati, að hann tæki hvergi vatn í meðul annars staðar en í Baðstofu. Sögn er um, að Staðarprestar hafi fengið að sækja vatn íBrunnur við Húsatóftir Baðstofu gegn því, aö Húsatóftabændur fengju að taka söl í landi Staðar.
Norðan Baðstofu er Baðstofugreni. Norðaustur af Baðstofu er Baðstofuhraun, en norður af því er Bræðrahraun. Það nær niður á milli Sundvörðuhrauns og Blettahrauns, sem er í landi Járngerðar-staða. Norðan við Tóftagjá er hár hóll, Skyggnir. Þar var skipt í leitir, er Tóftakrókar, Baðstofuhraun og Bræðra-hraun og landsvæðið upp af Vörðunesi var smalað.
Vestur af Eldborgahrauni er Sandfellshæð, mikil um sig. Í henni er Sandfellsdalur, gamall eld-gígur, einhver sá mikilvirkasti á Reykjanesi. Í botni hans eru margir stapar og gosop, nú gróin mosa og grasi. Framan við Sandfellshæð eru hólar, sem heita Einiberjahólar. Þeir ná vestur að Haugum við Haugsvörðugjá. Fram af hólunum er Hrossabeinagreni.“
Örnefni í túninu eru eftirfarandi: „Norðaustast í túninu [á Húsatóftum [viðb. EKE]] er lægð, er heitir Dans. Í leysingum á veturna fylltist hún oft af vatni. Þegar frost komu, varð þar ágætt skautasvell. Sást þá oft huldufólkið úr Hjálmagjá leika þar listir sínar á skautum í tunglsljósinu. Krían var áleitin...Mun lautin draga nafn sitt af því. Sunnan við Dans er Kvíalág og Fjósaskák sunnan hennar. Næst er Harðhaus. Þar hraktist aldrei hey. Í óþurrkatíð var Harðhaus sleginn til þess að fá þurrk. Þessi örnefni eru öll vestan og norðan gamla bæjarins og ná Fjósaskák og Harðhaus alveg heim að gamla bæ. Suðaustan við bæjarhlaðið eru gamlar veggtóftir, er nefndust Þanggarður (sbr. heygarður). Þar var þurrt þang geymt til vetrarins. Var því hlaðið þar upp og tyrft yfir það eins og hey. Á veturna var það svo notað til eldiviðar. Þangið var skorið í fjörunni, helzt þegar stórstreymt var, og reitt á hestum upp á sjávar-bakkann til verkunar. Þegar sterkur álandsvindur var, þá var þang oft skorið „undir straum“, vafið um það gömlum netariðli og með flóði fleytt í efsta flóðfar og þaðan reitt á hestum upp á þurrkvöll. Þá var breitt úr þanginu eins og heyi til þurrkunar. Nú var nauðsynlegt, að rigndi vel á þangið, svo úr því færi öll selta. Næst var þangið þurrkað vel, bundið í bagga eins og hey og flutt í geymslur til vetrarins. Oftast ...og eggiðvar þurru þanginu hlaðið í bing í eldhúsinu og brennt í hlóðum. Vel þurrt þang logaði vel, með snarki og neistaflugi, en heldur þótti það léttur eldiviður. Kom sér þá vel að hafa „rekaspýtu í augað“.
Litlatún er austasti jaðar Tóftatúns. Vestan þess eru lágir hólar, nefndir Hrygghólar. Munu þeir draga nafn af fiskhryggjum, en sjóslang var borið á þá. Vestan þeirra er slétt flöt, nefnd Veita. Ævafornar hleðslur eru sunnan hennar og norðan. Virðast þær hafa verið ætlaðar til að stöðva vatn á Veitu. Vestan Veitu er Hjálmatún, brekkan upp að Hjálmagjá.
Alllangt suðvestur af Tóftatúni, eins og það er nú, eru rústir gamalla grjótgarða. Munu það vera hin gömlu mörk Tóftatúnsins. Innan garðsins hefur myndazt uppblástur í túninu, sem á áratugum hefur teygt sig æ lengra inn í túnið, bar til uppblásturinn var stöðvaður á árunum kringum 1930 með því að gera sneiðingu í bakkann og græða sárið. Við þennan uppblástur í áratugi eða aldir myndaðist þessi lægð, Skipadalur, í suðvesturhorn Tóftatúns. Munu vertíðarmenn löngum hafa sett skip sín að lokinni vetrarvertíð upp í Skipadalinn.
Leifar seinni tíma saltfisverkunnar á KóngshelluÍ Sögu Grindavíkur (JJÞ-1994) segir m.a. um Húsatóftir: „Húsatóttir var eina lögbýlið í Staðarhverfi, að Stað undansyldum. Húsatóttum lýsir séra Geir Bachmann svo í lýsingu Grindavíkursóknar: „Var jörð þessi fyrrum Viðeyjarklausturs jörð, og höfðu Viðeyingar hér útræði. Jörðin er rúm 33 hndr. að dýrleika og 1836 (1837) seld með fleri kóngsjörðum þetta ár til þáverandi landesta þar, Jóns bónda Sæmundssonar… Svo er háttað á Húsatóttum, sem bærinn og túnið væri á afarbreiðum klettastalli, er það umgyrt að austan og vestanverðu með öflugum grjótgarði, en fær ekki frelsað það fyrir töluverðu sandfoki af allri vestanátt, því milli Staðar og Húsatótta eru graslausar sandflesjur á milli lágra hraunklappa. Mörgum þykir fallget á bæ þessym, því þar eru stór tún, slétt og fögur, þegar í blóma standa; eru þau allvel ræktuð. Héðan er og víðsýnast frá bæjum í sókninni, þó ei sé annað að sjá fyrir utan túnið en sand, sjó og brunnin hraun.“
Vindheimar - dæmigerð þurrabúðHúsatóttir komu að sönnu mikið við sögu Grindavíkur á fyrri öldum, ekki síst vegna þess að þar var aðalaðsetur Grindavíkurverslunar á 17. öld, og allt fram til 1742. Heimildir um Húsatóttir fyrir 1700 eru afar fáskúðugar. Viðeyjarklaustur hafði þar ítök í reka og öðrum fjörugæðum þegar á 13. öld, en að öðru leyti koma Húsatóttir lítt við sögu í skjalfestum heimildum fyrr en kemur fram á 18. öld. Jörðin virðist hafa komist að fullu í eigu Viðeyjarklausturs ekki síðar en á 15. öld, og eftir síðaskiptin sló konungur eign sinni á hana eins og á aðrar eigur íslensku klaustranna. Voru ábúendur á Tóttum því landestar klaustursins frá því á 15. öld og fram að siðaskiptum, en eftir það konungslandsetar allt fram til þess, er jörðin var seld 1837.
En þótt Húsatóttir hafi sannanlega verið í byggð frá því á 12. öld, og sennilega frá landnámsöld, er lítið vitað um ábúendur þar fyrir 1700.“ Krían og hreiðurgerð hennar hafa sett svip sinn á Húsatóftir um aldir – og nytin verið eftir því.
Klettar við Húsatóftatún„Merkilegar fornleifar hafa fundist á Húsatóttum. Það var veturinn 1872, að rústir af mörgum smáum kofum, hlöðnum úr grjóti, fundust af tilvilkun í hraunkvos skammt vestur af Sundvörðunni. Þorvaldur Thoroddsen skoðaði tóttirnar árið 1883 og sumarið 1902 kom Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi til Grindavíkur og skoðaði rústirnar. Hann birti lýsingu á þeim í skýrslu sinni í Árbók Fornleifafélagsins árið 1903 og taldi tóttirnar vera alls sjö, en of litlar til þess að menn gætu hafa dvalið þar nema skamman tíma í einu. Löngu síðar rannsakði Ólafur Brieum rústirnar, og taldi hann alls tíu tóttir. Lýsing Ólafs af tóttunum er ýtarleg, en ekki kemst hann, fremur en Brynjúlfur og Þorvaldur, að ákveðinni niðurstöðu um þaðm til hvers kofarnir hafa verið notaðir. Þar virðast einkum tveir möguleikar koma til greina; að þarna hafi útilegumenn hafst við skamma hríð, eða að byggðamenn hafi útbúið þarna fylgsni, sem flýja mætti í ef ófrið eða ræningja bæri að höndum. Væri því trúlegast að kofarnir hafi verið hlaðnir á 17. öld, eftir Vegur að Vindheimum - minjar konungsverslunarinnar fjærTyrkjaránið [1627].“ Þess má geta að um þessar fornleifar er fjallað annars staðar á vefsíðunni, þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að minjarnar hafi verið fiskgeymsluhús, sem virðist jú nærtækasta skýringin m.v. stærð, lögun, staðsetningu og samanburð við önnur sambærileg í nágrenni Grindavíkur. Nákvæmlega eins byrgi, algerlega ósnert, fundust í einni FERLIRsferðinni árið 2006.
Ljóst er að verslunarhöfn var við Húsatóttir þegar árið 1665. Ekki þótti kaupmönnum ráðlegt að endurreisa gömlu verslunarhúsin við Járngerðarsund, sem lögðust af á hafísárinu 1639, en fluttu sig þess í stað vestur í Arfadal í landi Húsatótta. Þar var ráðist í umtalsverðar framkvæmdir. Verslunarhús var reist á staðnum 1731. Leifar alls þessa má enn sjá yst á golfvellinum, rétt ofan við sjávarbakkann. Árið 1745 hættu Hörmangarar skyndilega að sigla á Arfadalsvík, en stefndu skipum sínum þess í stað á Básenda.

Helga Kristinsdóttir

Helga Kristinsdóttir á Húsatóftum.

Einar Jónsson, hreppstjóri, andaðist 1933. Eftir lát hans bjó ekkja hans, Kristín, áfram með börnum sínum að Húsatóttum, en fluttist inn í Járngerðarstaðahverfi árið 1944.
Þótt hér að framan sé hlaupið yfir langa sögu margra kotbýla og höfuðbóls, er brauðfæddu fjölmargan manninn um aldir, þrátt fyrir allnokkur þrengsli og mikil takmörk, má vel heimfæra víðáttu hins 18 holna leikvallar til afraksturs þess – þ.e. fjölda afkomenda og blómlegra mannlífs – þar sem stundir gefast til leiks og afslöppunar frá striti hversdagsins.
Til að koma fyrir golfvelli á minjasvæðum verður ekki komist hjá því að eyðileggja sumar minjanna. Á Húsatóftum hafa aðallega hinir gömlu hlöðnu veggir farið forgörðum, gamlar götur og stígar, lending og matjurtargarðar. Þá hafa örnefnin verið að hverfa með tíð og tíma.
Húsatóftir og Staður eiga það sammerkt með nútíðinni að breytingar í atvinnuháttum leiða til byggðaröskunnar. Fólki fjölgaði á tímum verslunarinnar og einnig var verulega byggt í hverfinu þegar bjartsýnin á aukinni útgerð var sem mest, en þegar hún varð að engu flutti fólkið sig um set .
Helga Kristinsdóttir ólst upp á Húsatóftum. Hún gekk með FERLIRsfélögum um tóftir gamla bæjarins á Efri-Tóftum og útskýrði aðstæður þar, eins og þær voru þar í hennar tíð.
Fábært veður.

Heimildir m.a.:
-Jón Þ. Þór, Saga Grindavíkur 1994.
-Gísli Brynjólfsson, Mannlíf mikilla sæva – Staðhverfingabók 1975.
-Örnefnalýsing fyrir Húsatóftir – Örnefnastofnun Íslands.
-Óli Gam. frá Stað og Barði á Húsatóftum.

Húsatóftir

Húsatóftir – minjar og örnefni.

 

Þorbjörn

Gengið var frá Húsatóptum (-tóftum, -tóttum) yfir að Þorbjarnarfelli um hinn forna Árnastíg og hinn nýja Reykjaveg. Á leiðinni var staðnæmst við ýmislegt, sem fyrir augu bar, en það er reyndar fjölmargt á ekki lengri leið. Hlélaust tekur

Húsatóftir

Nónvörður.

gangan u.þ.b. 2 klst, en með því að staldra við og skoða það er markverðast getur talist, s.s. jarðfræðifyrirbæri, jurtir, þjóðsögukennda staði og sjáanlegar minjar, getur ferðin tekið nálægt 4 klst.
Hverfin í Grindavík eru þrjú; Þórkötlustaðarhverfi austast, Járngerðarstaðarhverfi í miðið og Staðarhverfi vestast. Húsatóptir, þar sem golfvöllur Grindvíkinga er nú, var önnur stóra jörðin í Staðarhverfi. Hin var Staður, sem hverfið dregur nafn sitt af. Árið 1703 voru Húsatóptir konungsjörð og lá til Viðeyjarklausturs. „Selstöðu hefur jörðin lángvaranlega haft þar sem heitir á Selsvöllum, er þángað bæði lángt og erfitt að sækja.“ Hjáleigur voru Kóngshús og Garðhús. Árið 1936 var jörðin seld „með fleiri kóngsjörðum þetta ár, fyrir 630 ríkisdali í silfri til þáverandi landseta. Höfðu Viðeyingar hér áður útræði (1847). Til forna átti Staður rétt til vatnssóknar í Baðstofu í Húsatóftalandi. Til endurgjalds áttu Húsatóftir þangfjörutak á Stað. Kaupstaður var á Húsatóptum og var lent við Kóngshellu. Jörðin fór í eyði 1946. Fimm tómthúsbýli voru byggð í landi Húsatópta á árunum 1906-1934; Dalbær (1906-46), Vindheimar (1911-34), Blómsturvellir (1914-22), Hamar (til 1930) og Reynistaður (1934-38). Vel má sjá móta fyrir öllum þessum býlum í vesturjaðri golfvallarins sunnan Húsatópta. Alls má sjá leifar a.m.k. 18 býla í Staðarhverfi.

Húsatóftir

Húsatóftir – fikibyrgi.

Árið 1703 var túnið á Húsatóptum mjög spillt af sandi og „enn hætt við meiri skaða“. Engvar öngvar og mestallt landið hraun og sandi undirorpið. Árið 1840 var hins vegar önnur lýsing gefin af Húsatóptum: „Mörgum þykir fallegt á bæ þessum því þar eru stór tún, slétt og fögur, þegar í blóma standa, eru þau og allvel ræktuð.“
„Bærinn stóð spottakorn frá sjó, á háum og víðsýnum fleti“, segir í sóknarlýsingu. Á túnkorti frá 1918 eru sýndar tvær húsaþyrpingar, en tvíbýli var á Húsatóptum. Tóftir gömlu bæjanna eru þar sem nýrra íbúðarhúsið stendur nú, uppi á brekkunni ofan vegarins. Annars eru tóftir fyrir austan húsið og hins vegar um 15 m vestan þess. Tóftirnar eru enn greinilegar að hluta, en sléttað hefur verið fyrir golfvellinu allt umhverfis þær.
„Frá þeim tíma [þ.e. verslunarinnar] er gólfið þar í bæjardyrunum steinlagt með tígulsteini. Er líklegt að Kaupmannshúsin hafi verið rifin þegar verzlunin lagðist niður, en svo aftur byggður bóndabær í „tóptum“ þeirra, og fengið þar af nafnið, sem hann hefur nú“, segir Brynjúlfur Jónsson í grein frá árinu 1903. Íbúðarhús úr steini var byggt á bæjarhólnum 1930, en fram að því hefur verið þar toftbær. Hús voru byggð 1777 með „binding úr torfi og grjóti að utan en göflum úr timbri“. Á ÁrnastígEinnig var þar íbúðarhús beykisins, byggt 1779, „með veggjum úr torfi og grjóti, enm þaki úr timbri“. Eldra íbúðarhúsið er nú stendur að Húsatóptum, byggt 1930, stendur neðar og vestar en tóftirnar. Það hýsir nú golfskála Grindvíkinga. Tóftirnar fast austan við nýja íbúðarhúsið eru á hól. Þær eru tveggja hólfa, en á milli hólfanna er steyptur pallur. Um 20 m norðaustan við tóftirnar eru leifar húss eða kálgarðs.
„Hjáleigan Kóngshús stóð niður við Húsatóptarvör“, segir í Sögu Grindavíkur. Fast vestan Tóptarvarar er stór klöpp, sem á standa rústir sjóhúss. Er líklegt að hjáleigan hafi verið á svipuðum stað. Klöppin er alltaf upp úr sjó, en getur verið mikið umflotin á flóði. Hún er grasi gróin að hluta. Ekki eru aðrar tóftir á klöppinni en steypurústin, en sunnan í klöppinni standa tveir fúnir timburstaurar úr sjó.
Barlestarsker er beint niður af Húsatóptum, millli Þvottaklappa og Garðsfjöru, í Vikinu. Skerið er skerjatangi syðst í Garðsfjörunni. Ef tekið er mið af klöppinni með steyptu rústinni er Tóptarklöpp austan við hana, en Barlestarsker sunnan við hana. Þau eru tvö. Þar munu verslunarskipin hafa tekið barlest. Í öðru Barlestarskerinu var festarbolti gegnt öðrum í Bindiskeri í Vatnstanga í landi Staðar.
Keðja mun hafa legið þvert yfir víkina milli festarboltanna og voru verslunarskipin á dögum kóngsverslunarinnar svínbundin við keðjuna, þar sem þau lágu á víkinni. Svínbundið var þegar skip var bundið bæði aftan og framan langsum á keðjuna, þannig að hlið lægi að henni.

Dýrfinnuhellir

Dýrfinnuhellir.

Boltinn í Barlestarskeri var stór, fleygmyndaður með auga í efri endanum. Hann var lengi notaður sem hestasteinn á hlaðinu á Húsatóptum, en er nú sagður vera í garði húss í Járngerðarstaðahverfi. Festarboltinn á Bindiskeri er enn á sínum stað. Í lýsingu Brynjúlfs Jónssonar frá 1903 segir „að skipin hafi verið bundin á þrjá vegu við járnbolta, sem festir voru í klappir. Tveir af þeim voru í Húsatóptalandi, en einn í Staðarlandi. Jón bóndi Sæmundsson á Húsatóptum lét, nálægt 1850, taka upp báða þá boltana, sem í hans landi voru og færa heim til bæjar. Var annar hafður sem hestasteinn“.
Búðarhella er upp af Kóngshellu. Næstur er Búðasandur er tekur við af Garðsfjöru allt frá Tóptarvör. Danska verslunarhúsið stóð á litlum hól, u.þ.b. 80 m upp af Tóptarvör. Ennþá sést móta fyrir grunni þess. Í sóknarlýsingu 1840 segir: „Stóðu höndlunarhúsin niður við sjó nálægt Hvirflunum, en kaupmenn bjuggu heima á Húsatóptum.“ Á innri klöppinni (ofan við Kónshellu), sem er mun hærri, hafði krambúðin síaðst staðið. Þar stóð enn fisksöltunarhús Húsatóptarmanna er þar var róið 1865 og 1866. Þar á klöppini var aflanum skipt eftir róðra og gjört að fiskinum. Líklega er hóllinn, sem talað er um hóll sá, sem sumarbústaðurinn Staðarhóll stendur nú. Fast sunnan við hann er Búðasandur.
Úr flugvélinniVerslun var í Grindavík áður, en hætt var við hana snemma á 18. öld. Höfnin var rétt við prestsetrið Stað, við hólma, sem hjallur var á. Skipin lágu milli hans og Barlestarskers.  Verslunarhúsin stóðu á Búðartanga, en nú er tanginn að mestu brotinn af brimi. Þegar grafið var þar fyrir löngu fannst þar lóð, 100 pund að þyngd, sem bar merki Kónsghöndlunar. Þar finnast enn krítarpípur ef vel er leitað. Búðin var byggð 1779, einnig eldhús með múraðri eldstó og Gamla pakkhúsið (sennilega eldri verslunarbúð). Verslun var tekin upp á ný í Grindavík árið 1664, en hafði fram til 1639 verið í Járngerðarstaðalandi. Kaupmenn „fluttu sig um set vestur í Arfadal í landi Húsatópta. Þar var ráðist í umtalsverðar framkvæmdir og á uppdrætti, sem Kristófer Klog gerði af Grindarvíkurhöfn árið 1751 má sjá verslunarhús niðri við ströndina. Þau stóðu skammt frá svonefndum Hvirflum, sem heita Búðarsandur…“, segir í Sögu Grindavíkur.
Á uppdrættinum sést tvílyft hús, talið vera krambúðin, sem reist var 1731, og minna hús sambyggt við austurendann. Þetta hús mun hafa staðið fram undir lok 18. aldar, en 1779 hafði ný krambúð verið byggð.
Kau

Árnastígur

Árnastígur.

psigling var í Staðarvík til 1745, en eftir það var aðeins siglt til Básenda, þó ennþá væri verslað í húsunum í Grindavík. Árni Jónsson keypti húsin á Búðasandi 1789, krambúð, eldhús og „gamla pakkhús“, en hann varð gjaldþrota 1796 og lagðist þá verslun alveg af í Grindavík. Verslunarhúsin voru rifin 1806.
Í Arfadal, neðan við túnið á Húsatóptum, eru pípuklettar. Neðan þeirra, með sjávargötu frá Húsatóptum, er lítill klettur (gróinn hóll), sem Pústi heitir. Þar hvíldu menn sig gjarnan, er sjófang var borið heim. Nú er Pústi í golfvellinum.
Út undir Hvirflum eru klettar, sem heita Háavíti og Lágavíti. Í þeim erumörg grjótbyrgi, og var fiskur þurrkaður a þeim, áður en söltun kom til. Í hrauninu fast norðan við þjóðveginn eru margir greinilegir srjóthlaðnir hleðslugarðar. „Þá notuðu m.a. Skálholtsmenn til að herða fisk sinn“, segir Þorvaldur Thoroddsen í Ferðabók sinni.
Vestur af Húsatóptum er landið nokkuð hærra og heita Hæðir suðvestur af bænum. Á þeim eru Nónvörður, eyktarmark frá Húsatóptum. Vörðurnar eru tvær og standa á hárri ógróinni hraunbungu norðan við þjóðveginn. Fremri varðan sést greinilega frá veginum. Sagan segir að „þegar Tyrkir komu til Grindavíkur 1627, lentu þeir skipi sínu við Ræningjasker í landi Staðar. Gekk þá Staðarprestur upp á efstu brún Hæðanna, hlóð þar þrjár vörður og mælti svo fyrir um, að Grindavík skyldi ekki verða rænd, á meðan í þeim stæði steinn yfir steini.“ Hefur það orðið að áhrínisorðum, enda standa Nónvörður enn, auk vörðunnar á Nónhól skammt vestar, í Staðarlandi.
Árnastígur er sunnan við Klifgjá, vestast í jarði hennar, austan við túnið á Húsatóptum, vel rudd braut um apalhraun. Gamli vegurinn milli Staðarhverfis og Keflavíkur lá um Árnastíg og Klifgjá, þar norð-austur af er Þórðarfell. Um gjána lá svokallað Klif, snarbratt niður í hana. Er það hálfgert einstigi og illt yfirferðar með klyfjahesta, segir í örnefnaskrá.
Varða við ÁrnastígSyðsti hlutinn var bæði kallaður Staðar- og Tóptarvegur. Norðan Stapafells, kom gatan inn á svonefndan Járngerðarstaðaveg á landamerkjum Njarð- og Grindvíkinga. Leiðin er um 16 km löng.
Hjálmagjá er norðvestast (efst) í túni Húsatópta, grasi gróin í botninn. Haft var eftir gömlu fólki, að það hefði oft séð hamrana upplýsa með dýrlegum ljóshjálmum, sem bárum mjög af lýsiskolum í mannheimi. Sást þá oft huldufólkið úr Hjálmagjá leika listir sínar á skautum í tungsljósinu (.þe.a.s. í lægð í Húsatóptatúni, sem kallast Dans, og þar mynduðust góð svell í frosthörkum á vetrum), segir í örnefnaskrá.
Sunnan við Dans (sem er norðaustast í túninu) er Kvíalág og Fjósskák sunnan hennar. Næst er Harðhaus. Hann er ósleginn túnpartur um 120 m norður af bænum, fast utan golfvallarins. Þar hraktist aldrei hey. Í óþurrkatíð var Harðhaus sleginn til að fá þurrkt. Fjósaskák og Harðhaus náðu alveg heim að gamla bænum.
Þangggarðar voru suðaustan við bæjarhlaðið þar sem nú eru gamlar veggtóftir. Þar var þurrt þang geymt til vetrarins. Var því hlaðið þar upp og tyrft yfir það eins og hey. Á veturna var það svo notað til eldiviðar. Þangið var skorið í fjörunni, helst þegar stórstreymt var, og reitt á hestum upp á sjávarbakkann til verkunar. Þegar sterkur álandsvindur var, þá var þang of skorið „undir straum“, vafið um það gömlum netariðli ogmeð flóði fleytt í efsta flóðfar og þaðan reitt á hestum á þurrkvöll. Þá var breitt úr þanginu eins og heyi til þurrkunar. Nú var nauðsynlegt að rigndi vel á þangið, svo úr færi selta. Næst var þangið þurrkað vel, bundið í bagga eins og hey og flutt í geymslur til vetrarins. Oftast var þungu þangi hlaðið í bing í eldhúsinu og brennt á hlóðum. Vel þurrt þang logaði vel, með snarki og neistarflugi, en heldur þótti það léttur eldiviður. Kom sér þá vel að hafa „rekaspýtu í augað“.
Skipadalur er neðst í túninu. Þangað munu vertíðarskipin til forna hafa verið sett í vertíðarlok. Golfskálinn stendur í raun í

Árnastígur

Refagildra við Árnastíg.

Skipadal. Þar er nú sléttað malarplan. Skammt vestar er Húsatóptarbrunnurinn, sem enn sést móta fyrir.
Þegar lagt var af stað upp með golfvellinum á Húsatóptum mátti sjá Þorbjarnarfellið (243 m.y.s.) í norðaustri, en það var ágætt kennileiti alla gönguna.
Fyrsta varðan (nú sýnileg) á Árnastíg er skammt ofan við golfvöllinn. Hægra megin við hana liðast gamla gatan um móann áleiðis að lágri hraunbrekku á vinstri hönd. Lengra til hægri eru þrjár hlaðnar refagildrur. Búið er að rjúfa þakið á einni þeirra, en hinar tvær hafa fengið að halda sér eins og þær voru upphaflega byggðar.
Skriðdrekaslóði liggur víða ofan á hinni gömlu þjóðleið Árnastígs. Síðan hefur honum verið haldið við með akstri annarra ökutækja. Þó má sumsstaðar sjá gömlu götuna til hliðar við slóðann. Á a.m.k. tveimur stöðum eru hlaðnar brýr á henni.
Árnastígur liggur yfir mjóa apalhrauntungu úr Sundvörðuhrauni og inn á slétt helluhraun Eldvarpahrauns.Fallegar hraunæðar, hraunreipi, katlar og önnur fyrirbæri varða leiðina upp fyrir suðaustanverð Sundvörðuhraunið. Sundvörðuna, hár hraunstöpull í austanverðu hrauninu, var mið sjómanna fyrrum, en vestan við Stekkjartúnskamp við Arfadalsvík eru B17klettabásar, nefndir Sölvabásar. Vestan við Sölvabása skagar tangi fram í sjó. Heitir hann Vörðunes, en er í daglegu tali nefndur Vörðunestangi. Beint upp af honum, u.þ.b. 1 km, er stór hlaðin varða. Tvær vörður með dálitlu millibili stóðu á bakkanum tæpum 200 austan við Vatnslón. Vörður þessar heita Sundvörður. Efri varðan er um 800 m austan við bæjarhólinn á Húsatóptum, í uppgrónu hrauni. Í örnefnaskrá segir að „þegar þær bar í háan hraunstand [Sundvörðuna í Sundvöðruhrauni] í háhrauninu og í Höskuld, hnjúk austan í Þórðarfelli, þá var verið á réttu Djúpsundi. Var því miði haldið, þar til Hvirflavörður bar saman á Snúningnum. Þá var sveigt til vinstri inn á Staðarvík, en þaðan var greið leið inn í Staðarvör og Tóptarvör, þótt brimhroði væri. Snúningur var nefnt, þar sem beygjan var tekin, og talað var um að vera komin á Snúning.“ Varðan er hlaðin úr hraungrýti og er um 2 m á hæð. Hún er mest um 1,5 m í þvermál og umför grjóts eru um tíu. Neðri varðan er skammt austan við þar sem hús fiskeldisins standa nú (suðvestar).
Þegar komið var að gatnamótum ofan við sauðfjárvarnargirðingu þótti ástæða til að staldra við. Þvergatan til vinstri nefndist Brauðstígur. Hann fór fólk frá Húsatóftum uppí Eldvörp til að baka brauð við hverahitann.

Eldvörp

Eldvörp – „Tyrkja“byrgin svonefndu; undanskot Grindavíkurbænda!?

Skammt frá stígnum eru nokkur hlaðin smáhús, svonefnd „Tyrkjabyrgi“. Þau eru í hraunkrika sunnan undir Sundvörðuhrauni. Þetta eru 10 tóftir, auk hlaðinnar refagildru, en tvær tóftanna eru uppi á hraunbrúninni. Þetta eru allmikil mannvirki, misstór en stærsta rústin er um það bil 4 x 1,5 m á stærð. Engar heimildir hafa fundist um þessar rústir og hafa því verið uppi getgátur um tilvist þeirra. Þær fundust fyrir tilviljun veturinn 1872 og elstu lýsingu á þeim er að finna í Ferðabók Þorvaldar Thoroddsen en hann skoðaði þær árið 1883.
Þar sem Árnastígur beygir til norðurs inn á hraunhelluna að Eldvörpum eru nokkrir hraunhólar, Vegamótahólar. Þar greinist leiðin, annars vegar að Húsatóptum um Árnastíg og hins vegar að Járngerðarstöðum um Járngerðarstaðastíg. Mosinn er horfinn af þessu svæði, en hann brann um ´56 þegar brottflognir Bandaríkjamenn voru þarna við heræfingar.
Skammt norðar má sjá veg í hrauninu, sem endar skammt norðar. Þar má sjá nokkurt brak. Hann var gerður til að bjarga leifum af flugvél, sem varð eldsneytislaus og lenti á hrauninu. Skv. upplýsingum frá Friðþóri Eydal „er brakið væntanlega brot úr þessari B-17 sprengjuflugvél sem lenti í villum á leið frá Bandaríkjunum til Bretlands með fyrirhugaðri viðdvöl á Keflavíkurflugvelli og nauðlenti þarna er eldsneytið þraut eftir 14 klst. flug þann 17. apríl 1943.
GönguleiðinÞá var snúið spölkorn til baka og vent til vinstri, inn á svonefndan Reykjaveg. Í fljótu bragði virðist Reykjanesskaginn hrjóstugur og illur yfirferðar og því ekki vel fallinn til gönguferða. Við nánari skoðun kemur annað í ljós. Hann hefur upp á flest að bjóða sem göngufólk leitar að. Hraunið og auðnin hefur aðdráttarafl ekki síður en gróskumikið gróðurlendi þótt á annan hátt sé. Víða leynast fallegar gróðurvinjar og mosinn í hraununum er sérkennilegur. Þar eru líka einstök náttúrufyrirbrigði eins og hraunsprungur og misgengi, eldgígar, hrauntraðir, jarðhitasvæði, hellar og fuglabjörg. Þótt fjölbreytt mannlíf hafi aldrei verið á þeim slóðum sem Reykjavegurinn liggur um eru samt til sögur og minjar um mannlíf á þeirri leið. Gamlar götur líkar Árnastíg liggja víða um Reykjanesskagann og skera eða tengjast Reykjaveginum á mörgum stöðum.
Í jarðfræðilegu tilliti er Reykjanesskaginn mjög merkilegur. Hann er hluti af Atlantshafshryggnum mikla sem liggur um þvert Ísland og er eini staðurinn þar sem hægt er að skoða hann ofansjávar. Sköpunarsaga landsins verður hér ljóslifandi. Að minnsta kosti 12 hraun hafa runnið á Reykjanesskaga síðan land byggðist. Það nýjasta sennilega á 13. öld. Eftir að jökul leysti af skaganum fyrir tólf til fimmtán þúsund árum hafa um 200 eldstöðvar í fjórum eldstöðvakerfum, verið virkar á svæðinu og úr þeim runnið um 42 rúmkílómetrar af hrauni sem þekur yfir 1000 ferkílómetra landsvæði. Má þar á meðal finna allar helstu gerðir íslenskra eldstöðva.

Gyltustígur

Gyltustígur.

Reykjavegurinn sem liggur um endilangan Reykjanesskagann var stikaður sumarið 1996. Hann liggur frá Reykjanesi að Nesjavöllum og er um 130 km langur eða meira en tvöföld vegalengd Laugavegarins margfræga á milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Víða hafa myndast gönguslóðar á leiðinni, sérstaklega þar sem hún liggur um mosavaxin hraun. Á öðrum stöðum liggur leiðin um gamlar götur sem öðlast hafa nýjan tilgang. Einn helsti kostur Reykjavegarins auk þess að vera mjög skemmtileg gönguleið, er hvað hann er nálægt byggð og aðkoma að honum þægileg á mörgum stöðum án þess að fólk verði vart við skarkala þéttbýlisins. Hann liggur um óbyggð svæði og fullnægir því vel þörfum fólks sem vill vera í náinni snertingu við náttúruna og hvíla líkama og sál frá hraða hversdagsins.
Við þennan hluta Reykjavegar má t.d. sjá hraunæðar sem burnirótin hefur náð að nýta sér sem skjól, líkt og tófugrasið.
Þegar komið var inn á Skipsstíg, forna götu er lá milli Járngerðarstaða og Njarðvíkur, var haldið að Dýrfinnuhelli. Þar segir sagan að samnefnd kona hafi dvalið með börn sín eftir að hafa flúið undan Tyrkjunum er herjuðu á Grindavík að morgni 20. júní 1627 Tyrkjasagan.
Gengið var til austurs um grasgrundir milli Illahraunsbrúnarinnar og Lágafells un staðnæmst var neðan við Gyltustíg í Þorbjarnarfelli.
Frábært veður.

Grindavík

Grindavík – séð frá Þjófagjá.

Húsatóttir

FERLIR fann fyrir allnokkru hlaðna refagildru ofan við Húsatóptir við Grindavík. Þegar svæðið var skoðað betur fyrir skemmstu komu í ljós tvær aðrar til viðbótar og líklegt má telja að þar kunni að leynast fleiri slíkar.
Auk refagildranna ofan við Húsatóptir eru fleiri hlaðnar refagildrur við Grindavík, s.s. í Básum ofan við Staðarberg, í Sundvörðuhrauni skammt ofan Húsatófta og við Sandleyni ofan við Hraun.

Húsatóftir

Refagildra við Húsatóftir.

Hinar hlöðnu refagildrur eru leifar gamalla veiðiaðferða, áður en skotvopnið, eitrið og dýrabogar komu til sögunnar – sumir telja hugmyndina hafa komið hingað með landnámsmönnum því slíkar gildrur tíðkuðust þá t.a.m. í Noregi. Skrifaðar heimildir eru um þær frá árunum 1781-1798.
Refagildra er sjaldan getið í örnefnaskrám. Þó má sjá þess merki, s.s. í örnefalýsingu fyrir Tannastaði: „Stekkjarhóll er til landnorðurs frá bænum. Á honum eru tvær fuglaþúfur og var þar áður refagildra undir nyrðri þúfunni. Sunnan undir þúfunni var stekkjað um 1840 og eru glöggar tóftir síðan. En litlu norðar eru mjög gamlar tóftir eða vottur þeirra, sem vel gætu verið frá fornöld.“

Húsatóttir

Refagildra við Húsatóttir.

Í fornleifafræðiorðasafni Fornleifafræðistofnunar Íslands segir um gildrur þessar: tófugildra – Gildra til að veiða í refi. [skýr.] Refagildrur eru nokkuð misjafnar að gerð en oftast grjóthlaðnir stokkar eða kassar sem hellur hafa verið lagðar yfir og grjóti jafnvel hlaðið þar ofan á. Agn var látið inn í gildruna og tófan þannig tæld inn en þá lokaðist stokkurinn með þar til gerðum lokubúnaði. Áður en eitur, dýrabogar og byssur urðu algeng fyrirbæri hafa refagildrur líklega verið eina vopn manna gegn tófunni. [enska] fox trap
Fyrir nokkrum áratugum þótti það í frásögu færandi, og jafnvel einstakt, að til væri hlaðin refagildra er líklegt þótti að gæti verið með sama lagi og slíkar gildrur voru gerðar í Noregi og síðan hér á landi að þeirra fyrirmynd. Var einkum vitnað til slíkra fornminja er til væru á Norðausturlandi, einkum Merrakkasléttu.

Húsatóptir

Refagildra ofan Húsatópta.

Ef Reykjanesið – hið jafnumkunnugulega og ómerkilega til langs tíma – er skoðað gaumgæflega má þar finna ótal slíkar hlaðnar refagildrur, mjög merkilegar. A.m.k. 60 slíkar hafa opinberast ásjónum leitenda s.l. misseri – þær síðustu hér tilgreindar ofan Húsatófta.
Í örnefnalýsingum fyrir Húsatóptir er engin lýsing á refagildrum. Sennilega hafa þær þótt svo sjálfsagðar sem raun ber vitni. Í einni lýsingu er þó talað um Baðstofugreni norðan Baðstofu, auk annarra grenja fjær bænum, s.s. við Sandfell og Rauðhól.
Hinar hlöðnu refagildrur, sem skoðaðar hafa verið, voru jafnan þannig; hlaðið var “grunnlag”; annað hvort í lægð (“láfótan lægðirnar smjó”), á barmi gjár, við bakka eða á annarri líklegri leið rebba (sem jafnan er stundvís sem klukkan). Gildran sjálf var þannig; hlaðinn gangur (ca. 1 m langur, 10 cm breiður og 20 cm hár). Þá var reft yfir með steinum eða hellum svo rebbi gæti ekki lyft af sér okinu þegar á reyndi. Oft var vel hlaðið ofan á og til hliða, enda af nógu grjóti af að taka.

Húsatóftir

Húsatóftir – refagildra.

Virkni: Þegar gangur og yfirhleðsla höfðu verið fullkomnuð var tekin fram “fallhellan” ógurlega (ekki ómerkilegri en nafna hennar í frönsku fallöxinni. Tveimur öflugum steinum var komið fyrir sitt hvoru megin framan við opið. Fallhellan var “krossbundin” og þráður lagður í “hæl” innan í gildrunni. Hnútnum var haganlega fyrir komið. Í hinn endann var hnýtt hluti rjúpu eða af örðu agni. Þegar refurinn greip agnið og togaði í það hljóp lykkjan af hælnum. Við það féll fallhellan niður og refurinn var innikróaður. Hann reyndi að fra til baka,e n fallhellan hindraði hann í því. Þá reyndi hann að lyfta okinu af sér, en þunginn kom í veg fyrir að það tækis. Smám saman þvarr rebba kraftur og hann lagðist niður, beið og dó síðan – smám saman – úr hungri. Þá var hann sóttur í gildruna, skottið sniðið af og hræinu hent. Að vísu var skinninu haldið til haga um skeið (dæmi eru um að því sem og skottinu hafi verið jafnað við vermæti “skagfirsks gæðings” fyrrum), en það breyttist smám saman uns lítið varð að öngvu – nema áhuganum.

Húsatóftir

Húsatóftir – refagildra.

„Víða um landið eru örnefni, sem hafa að fyrra lið orðið gildra. Þannig eru fjölmörg Gildruholt, Gildruklettar og Gildrumelar og getur sumsstaðar að líta á þessum stöðum steinhrúgur, sem líkjast stundum föllnum vörðum, en sums staðar sést á þeim nokkur lögun. Þetta eru refagildrurnar, sem tíðast hafa verið hlaðnar á klöpp eða þar sem jarðvegur var svo þéttur, að refirnir gátu ekki grafið sig út úr þeim.
Sennilegt er, að grjótgildrur þessar hafi verið algengasta veiðitækið á refi hérlendis áður en byssur urðu algengar. Dýrabogar hafa þó þekkst lengi, enda er minnst á boga í kvæðinu um Hrafnahrekkinn og notaði veiðimaðurinn hann samhliða gildrunni, en trúlega hafa þeir fyrst orðið algengir á síðustu öld. Erlendis voru stærri veiðidýr, svo sem hreindýr, úlfar og birnir veidd í fallgryfjur, en eiginlegar fallgryfjur eru vart þekktar hérlendis.

Húsatóftir

Húsatóftir – refagildra.

Thedór Gunnlaugsson lýsir þó í bók sinni, „Á refaslóðum“, fallgryfjum sem gerðar hafi verið í snjó fyrrum, en ekki getur hann þess, hve veiðnar þær hafi verið, enda hefur hann aðeins heyrt um þessa veiðiaðferð. Heimild er þó um, að í Hornafirði hafi gryfjur verið hlaðnar úr grjóti með lóðréttum veggjum eða jafnvel svolítið inn yfir sig. Dýpt þeirra var nokkur, eða svo mikil að öruggt væri að dýrin gætu ekki stokkið eða klifrað upp úr gryfjunum. Á gryfjubotninum var agninu dreift.
Til eru lýsingar af grjótgildrum þar sem hvatt er til að bændur útbúi þær til refaveiða. Elsta og jafnframt gleggsta lýsing þeirra er í Atla, riti Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal, fyrst pr. Í Hrappsey 1780. Þar segir, að dýrabogar leggist nú mjög af, en bóndi veitir Atla þarna nákvæma fyrirsögn um, hversu hann skuli útbúa gildrur sínar. Er lýsingin í rauninni nákvæmlega hin sama og hér mun brátt skýrt frá, en gert er ráð fyrir að hellan, sem lokar munnanum, sé krossbundin eða með gati, til að hún hlaupi niður í réttri andrá.
Í Lærdómslistafélagsritunum, XII b. 1792, er grein um refaveiðar eftir Þórð Þorkelsson. Hann nefnir grjótgildrurnar en lýsir þeim ekki, þar sem þeim sé lýst í Atla og efast hann jafnvel um gagnsemi þeirra. Víða í 19. aldar ritum eru greinar og leiðbeiningar um refaveiðar og má t.d. nefna grein í Reykjavíkurpóstinum 1848 þar sem segir, að slíkar grjótgildrur hafi verið víða tíðkaðar fyrrum en nær enginn beri nú við að nota þær. Þar segir einni, að dýrabogar séu nú orðnir sjaldséðir, og hafi hina gömlu veiðiaðferðir vafalaust þokað fyrir skotveiðinni á þessum tíma.

Húsatóptir

Húsatóptir – refagildra.

Theodór Gunnlaugsson, hin þekkta refaskytta, segist í fyrrnefndri bók sinni stundum hafa hlaðið grjótgildrur við greni til að veiða yrðlinga í eftir að fullorðnu dýrin höfðu verið unnin og mun hann sennilegast vera síðastur manna til að nota þær hérlendis.
Vafalaust hafa ýmsir orðið til að taka upp notkun grjótgildra eftir hvatningu Björn Halldórssonar í Atla. Atli var prentaður þrívegis og fyrstu prentuninni að minnsta kosti dreift ókeypis og hafa því margir kynnst því riti á 18. og 19. öld. En það lætur að líkum að veiðiaðferðin hefur verið seinleg og gildrurnar ekki alltaf fengsælar og hefur t.d. skotveiði úr skothúsum verið margfalt stórvirkari, enda mjög tíðkuð á síðustu öld að minnsta kosti.
Grjótgildrur eru þekktar á Grænlandi og hefur svo verið talið, að þær væri frá tímum Grænlendinga hinna fornu, en þær hafa einnig verið notaðar þar í seinni tíð af bændum landsins. Er mér næst að ætla, að Grænlendingar hafi lært notkun þeirra af norrænum mönnum ámiðöldum, en dæmi eru um, að þeir hafi tekið upp áhöld og vinnuaðferðir norrænna manna. Sá ég líka gildru á Grænlandi 1977 í grennd við forna rúst í Qordlortoq-dal, og virtist hún helst vera frá byggð norrænna manna, en einnig voru ar í notkun nýjar refagildrur af nokkuð annarri gerð.
Refagildra við HúsatóftirSigurður Breiðfjörð lýsir grænlenskum gildrum í bók sinni frá Grænlandi, sem kom út 1836, en einkennilegt er, að hann virðist ekki þekkja notkun slíkra gildra á Íslandi og hvetur bændur hér til að setja slíkar skollagildrur, eins og hann nefnir þær, í landareignum sínum.
Ég hef ekki gert gangskör að því að kanna útbreiðslu þessara gildra, en viðbúið er að langflestra þeirra sé getið í örnefnaskrám einstakra jarða, sem vaðveittar eru í Örnefnastofnun Þjóðminjasafnsins. Árið 1964 var send út spurningaskrá frá Þjóðháttadeild Þjóðminjasafnsins þar sem spurt var aukalega um slíkar refagildrur og hvað menn kynnu að segja um notkun þeirra. Bárust svör allvíða að af landinu og reydust 20 heimildarmenn þekkja gildrur eða leifar þeirra eða þá örnefni, sem ótvírætt benda til að gildrur hafi verið á þaim stöðum, þótt þeirra sæjust stundum engar leifar nú. Eru þessir staðir dreifðir um allt land að kalla má, sumir úti við sjó en aðrir inn til landsins, venjulegast í grennd við bæi eða beitarhús, þar sem menn fóru of um á vetrum…
Á hraungarði vestan við Selatanga eru nokkrar hlaðnar refagildrur og hjá Grindavík er rúst af gildru.
VarðaGreinilegt er af lýsingum þeirra, sem upplýsingar hafa gefið um gildrur þessar, að þær eru flestar af sömu gerð, úr allstóru grjóti, aflangar og munninn látinn snúa undan veðurátt.
Einn heimildarmaður greinir frá slíkri gildru úr tré, aflöngum tréstokki um 3 álnir á lengd og voru lok við báða enda og rann annað fyrir er refurinn var kominn inn í stokkinn, en grjóti var hlaðið umhverfis stokkinn svo að minna bæri á honum utan frá séð.
Gildra á Húsafelli sýnir vel hversu grjótgildrur voru gerðar í meginatriðum. Gildran er hlaðin efst á klettakambi og lítur út til að sjá eins og grjóthrúga. Hefur hún áreiðanlega alla tíð verið mjög áberandi og er svo um aðrar þær gildrur,s em ég hefi séð og hefur greinilega ekki verið reynt að fela þær eða hylja þær jarðvegi. Hefur verið leitast við að hafa gildrurnar þar sem hátt bar svo að þær færu ekki á kaf í snjó og mestu máli skipti, að þær væru þar sem refir fóru um í ætisleit á vetrum, en gildruveiðar munu einkum hafa verið stundaðar að vetrarlagi.

 

Gildran á Húsafelli er þannig gerð, að á klappirnar hefur verið hlaðið stórum steinum, sem sumir eru vel meðalmannstak. Eru þrír steinar í röð hvorum megin og milli þeirra um 30 cm bil, en fyrir enda tveir steinar. Þannig myndast eins konar gangur, um 150 cm langur, sem er opinn í þann enda sem í norður snýr, og þar er munninn, sem lágfótu hefur verið ætlað að fara inn um. Ofan á grjótganginum eru síðan aðrir stórir steinar, sem mynda þak. Síðan hafa allar glufur og op verið þéttuð með minni steinum oggengið svo frá, að sem minnst op væru á gildrunni nema munninn.

Refgildra

Refagildra – ÓSÁ.

Milli tveggja fremstu steinanna í þakinu er nokkur glufa. Þar hefur verið skorðað allvænlegt hellublað, sem enn lá hjá gildrunni, um 20 cm breitt neðst og um 30 cm hátt, og gegnum það er klappað smágat ofarlega. Í gatinu hefur verið trétittur, sem legið hefur milli þaksteinanna og hellan þanngi hangið uppi. Í tittinn var síðan bunið snæri, sem lá ofan á gildrunni og niður í hana aftast, hinn endinn bundinn í agnið, sem væntanlega heftr tíðast verið kjötbiti. Lá agnið innst í gildrunni og var nú útbúnaðurinn þannig, að þegar tófan skreið inn í gildruna og glefsaði í agnið og dró það til sín, kipptist titturinn úr gatinu og hellan rann niður. Rýmið í sjálfri gildrunni hefur verið við það miðað, að tófan kæmist mútulega fyrir en gæti ekki snúið sér við. Þannig átti hún erfitt með hreyfingar og gat með engu móti komist út aftur, enda var hún nú auðunnin í gildrunni, t.d. með broddstaf, sem lagt var inn á milli steinanna.
Gildra af þessari gerð er í raun einföld, en talsverða nákvæmni hefur þurft til að stilla helluna svo vel af, að hún rynni auðveldlega niður og skroðaðist og lokaði refinn inni. Er líklegt, að gildrur þessar hafi verið misvel veiðnar, enda er lágfóta kæn og kvekkist auðveldlega og er vör um sig, ekki síst ef hún finnur mannaþef af agninu. En í hörðum árum, þegar sultur svarf að, hefur svengdin orðið tortryggninni yfirsterkari.
Þessi gildra er hin eina, þar sem ég veit til að hellan hafi verið með gati fyrir trétitt. Annars hefur hellan yfirleitt verið krossbundin og lykkju á hinum enda bandins bundið um afsleppan trétitt eða hvalbeinshæl innst í gildrunni þar sem agninu var komið fyrir, líklegast oftast smeygt bak við bandið. Þegar glefsað var í agnið kipptist bandið fram af tittinum og hellan féll niður.“

Heimildir:
-Síðari hlutinn eru af skrifum Þórs Magnússonar, Hrafnahrekkurinn – sitt af hverju um refagildrur – úr Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 1980.
-Fornleifafræðistofnun Íslands – Fornleifafræðiorðasafn.

Húsatóttir

Refagildra við Húsatóttir.

Reykjanes

Guðmundur G. Bárðason skrifaði grein í Lesbók Morgunblaðsins 1928, „Á Reykjanesi„:

Guðmundur G. Bárðarson

Guðmundur G. Bárðarson.

„Þeir sem ætla frá Reykjavík út á Reykjanes eiga um tvær leiðir að velja. Önnur liggur frá Grindavík en hin frá Kalmanstjörn í Höfnum vestan á Reykjanesskaga. Til beggja þessara staða er góður bílvegur frá Reykjavík og tekur aksturinn um 2 klst. Frá Kalmanstjörn er 3 klst. gangur suður á Reykjanes. Liggur vegurinn fyrst fram hjá Hafnarbergi yfir gömul helluhraun, sem eiga upptök sín í Sandfellsdyngju (Sandfellshæð) upp við fjöllin á skaganum hefir hrunið fallið hjer í sjó fram og myndað Hafnaberg. Er hæsti hraunhóllinn yst á berginu nefndur Berghóll. Sunnan við Hafnaberg taka við Stóra- og Litla-Sandvík. Alt þangað suður eru foksandsbreiður á veginum, er skapast hafa af foksandi frá ströndinni. Veður í sandinn og er þungfært, einkum þegar þurt er. Úr Litlu-Sandvík liggur leiðin heim að Reykjanesbænum yfir Stampahraun. Er þar greiðfær og sæmilega sljett gata. Öll er þessi leið greiðfær hestum.

Gömlu-Hafnir

Tóftir í Gömlu-Höfnum.

Norðanvert við Hafnaberg mótar fyrir sandorpnum rústum, eyðibýlum. Þar voru í fyrndinni 3 bæir, Kirkjuhöfn, Sandhöfn, og Eyri og sunnan við Hafnaberg eru rústir af bæ, sem hjet Skjótastaðir. Líklega efir sandfok eytt býlum þessum. Nú eru þessi svæði mjög sandorpin og gróðurlaus að kalla. Hefir roksandurinn hjeðan borist langa leið upp í Hafnaheiði, austur fyrir veg þann, er liggur úr (Grindavík norður) í Hafnir.

Reykjanesviti

Vagnvegur að Reykjanesvita frá Grindavík. Það mun hafa verið Ólafur Sveinsson vitavörður, er fyrstur kastaði þarna grjóti úr götu. Ólafur og synir hans voru menn harðduglegir til verka, og þeir ruddu þarna veg svo að bílar gátu komist alla leið út að vita.

Frá Járngerðarstöðum í (Grindavík er einnig 3 klst. gangur út á Reykjanes. En s.l. vor hefir Ólafur Sveinsson vitav. á Reykjanesi unnið að því með sonum sínum að bæta veginn úr Staðarhverfinu út á nesið, og orðið mikið ágengt. 23. júlí í sumar fór jeg á bíl úr Grindavík alla leið út að túninu á Reykjanesi. Var það fyrsti bíllinn er komst alla þá leið. Milli Járngerðarstaða og Staðar skiftast á grónar grundir með sjónum og hraun, og á einum stað er sjávarós, sem tæpast verður ekið yfir um flæði.

Staðarberg

Staðarberg.

Utan við Stað taka við hraun og eru sum allúfin apalhraun. Ná þau útundir svo nefnda Sandvík mitt á milli Staðar og Reykjanes. Enda hraunin í bröttum hömrum við sjóinn. Heitir þar Staðarberg. Er þar torfærulaus leið fyrir bíla, en krókótt og seinfarin. — Út frá Sandvík er vegurinn sljettur og greiðfær, en víðast sandborinn. — Aðeins á stöku stað, svo laus að hjólin vantaði viðspyrnu og „spóluðu“ sem kallað er; en úr því hefir vitavörðurinn bætt með því að leggja hraunsteina í veginn. Alt er þetta bærilegur reiðvegur og greiðfær gönguleið, en heldur þungfært í sandinum. En hvorki þessa leið eða frá Kalmanstjörn skyldu menn fara á spariskóm. Eru gúmmískór hentastir í hraununum.

Eldvörp

Í Eldvörpum.

Eldvörp kallast hraunhólaröð, sem ber við himin í hraununum nlllangt fyrir norðan veginn. Er það gömul gígaröð með strjálum gíghólum og eldborgum, sem mynd ast hefir á eldsprungu. Stefnir hún frá Sandvík til norðausturs inn Skagann, norðanveit við Þorbjarnarfell. Úr eldvörpunum hefir fallið mikil hraunbreiða fram á Staðarberg milli Staðar og Sandvíkur og önnur kvísl til sjávar milli Húsatófta opr Járngerðarstaða. Hafa gos þessi líklega orðið á undan landnámstíð, þó eigi verði það sagt með neinni vissu.

Baðstofa

Baðstofa.

Gjár eða hraunsprungur alldjúpar eru á nokkrum stöðum í hraunum þessum nærri veginum og stefna þær allar að kalla líkt og Eldvörpin, frá SV.—NA. — Nafnkunnust er gjá austan vert við bæinn á Húsatóftum; er hún kölluð Baðstofa. Er hún ca. 25—30 m. djúp og ferskt vatn í henni um fjöru. Er það eini staðurinn á þessari strandlengju sem ósalt vatn er að fá. Silfurgjá („Silfra“) er fyrir ofan Járngerðarstaði, 20—25 m. djúp. Inn í sumar gjárnar gengur smá upsi gegnum hraunið t.d. Bjarnagjá.

Eldvörp

Eldvörp – byrgi.

Útilegumannabygð. Í Eldvarpahrauni, í norðvestur frá Grindavík, fundust 1872 eldgamlar rústir af hraunkofum er sumir hafa haldið að væru eftir menn sem lagst hafi út í hraunið, en aðrir halda að Grindvíkingar hafi notað þá sem fylgsni á ófriðartímum. Eru kofarústirnar á afskektum stað í versta hrauninu, og eigi gjörlegt að leita þeirra nema með leiðsögu kunnugra manna. Hefir Þorv. Thoroddsen lýst þeim í ferðabók sinni, (Ferðabókin T. bls. 174).

Rafnkelsstaðaberg

Gatklettur í [H]Rafnkelsstaðabergi.

Eydd bygð. Nú er Staðarhverfið vestasta bygðin sunnan á Skaganum. En ummæli herma að í fyrndinni hafi bygð verið miklu lengra út eftir og prestssetrið Staður hafi þá verið í miðri sveit. Ef til vill hefir einhver bygð verið í Sandvík og þar í grend, sem sje eydd af sandfoki. Sumir telja að Reykjanes hafi áður fyr náð lengra út og þar muni hafa verið bygð, sem sokkin sje í sjó. En það er harla óiíklegt og engin rök hafa fundist fyrir því í fornritum. Hafi Eldvarpahraun runnið eftir landnámstíð gæti það hafa eytt býlum við ströndina.
Háleyjarbunga. Utanvert við Sandvík er ávöl hæð eða bunga suður við ströndina góðan spöl frá veginum. Heitir hún Háleyjarbunga. Er hentugt að taka sjer krók af veginum til að skoða hana. – Er það gömul gosdyngja svipuð Skjaldbreið að lögun, en margfalt minni og halla minni. Efst í bungunni er gosketillinn og sjest hann eigi fyr en alveg er komið að honum. Er hann um 130 m. að þverm. og 20—30 m. djúpur, í börmunum er straumlögótt grágrýtiskent berg með glitrandi ólivín kristöllum gul grænum að lit og eru sumir með bláleitum blæ. Gosdyngjur svipaðar þessum eru allvíða hjer á landi en fágætar annarsstaðar nema á Sandwicheyjum í Kyrrahafi. Sjórinn hefir brotið af suðurjaðri dyngjanna og heitir þar Háleyjaberg.

Háleyjarbunga

Háleyjarbunga.

Skálafell. (Heiðin). Af Háleyjarþungu er best að fara vestur á Skálafell, sem er eldfjall (ef fjall skyldi kalla), og hæsta fjalli sunnan á Reykjanesi (78 m.).
Djúpur gígur eða eldborg með börmum af gjallkendu hrauni en austan í fellstoppnum. Þaðan hefir mikið apalhraun runnið niður fjallið. Annar eldri gígur ógleggri er þar nokkrum metrum vestar. Á fjallinu er gott útsýni út á Reykjanestána, þar sem litli vitinn er. Hraunsprungur og gjár eru margar í fjallshlíðinni að norðvestan. Stefna allar frá SV—NA og rýkur úr þeim á stóru svæði.
Mest ber á Misgengissprungu niður við rætur fjallsins og nær hún út að sjó, hefir þar myndast kletta belti af því landið austan við gjána hefir sigið 10—15m. Þar sem mest er. Heitir gjáin

Valahnúkur

Valahnúkar og Valahnúkamöl.

Valbjargargjá. Stefnir hún yfir hverasvæðið upp á nesinu. Líklega er suðurbarmurinn á svo kallaðri Hauksvörðugjá, norðvestur af Sandfelli inn á Skaganum, áframhald af Valbjargargjá. Sumir telja að sprungur þessar megi rekja austur í Strandaheiði, suður af Vogum.

Reykjanes-sundlaug

Reykjanes – sundlaug. Valborgargjá er staður sem fáir hafa heyrt um og er falin perla fyrir mörgum. Hún er með fallegri stöðum á Reykjanesi en þar er m.a að finna eina af elstu sundlaugum landsins. Ólafur P. Sveinsson vitavörður á Reykjanesi lét gera litla laug í gjánni á árunum 1925–1930. Hann lét sprengja hraunklöpp þannig að volgur sjór seytlaði í gjánna og útbjó hann þrep niður í gjánna. Byggður var skúr yfir gjána og var börnum kennt sund þarna áður en sundlaugar komu til skjalanna í byggðarlögunum á utanverðum Reykjanesskaganum. Laugin er kulnuð í dag.

Sjávarlaug. Sunnan við Valbjargargjá eru óslitin hraun út á Reykjanestána. Sunnanvert við Reykjanestána er Blásíðubás og svo Skarfasetur, þar sem litli vitinn stendur. Eru þar allsstaðar brattir hraunhamrar með ströndinni norður undir Valbjargargjá.
Norðan við gjána er láglent, Hefir brimið hlaðið þar upp háum malarkambi úr stórum hnullungum, er nær norður að Valahnúkum. Bak við malarkambinn er mjótt og langt krókótt lón. Sígur sjórinn inn í það um flæði gegnum malarkambinn. Einnig mun sjór leita neðanjarðar miklu lengra inn undir hraunin bak við, þangað sem jarðhitinn er. Þegar fer að falla út sígur sjórinn undan hrauninu út í lónið og er þá 26° heitur. Er hitinn mestur nyrst í lóninu. Þarna virðist vera efni í besta baðstað. Væri lónið hreinsað, steyptir að því veggir og stúkað í sundur, ættu menn þar völ á sjóböðum, misheitum, frá átta til tíu gráður eins og hann er hjer við ströndina upp í 26° eins og suður við Ítalíu. Nóg er hjer líka af skjólasömum sandstráðum, lægðum og skútum í Valbjargargjá og hrauninu til sólbaða þegar sólar nýtur.

Reykjanes - valahnúkar

Gamli vitinn á Valahnúkum.

Valahnúkar. Svo heita tveir einkennilegir móbergshnúkar við sjóinn norðan við sjólaugina og er sá syðri miklu stærri (48 m. hár). Í raun og veru munu hnúkarnir vera leifar af afargömlum eldvörpum, er spúið hafa ösku. Hefir sjórinn sorfið og brotið niður helming hnjúkanna og stendur þvergnýpt stálið eftir og fljettast svartir blágrýtisgangar og blágrýtislög alla vega innan um móbergið. Í nyrðri hnúknum ber meira á blágrýtinu. Hefir brimið etið breið göng í gegnum hann. Geta menn um fjöru gengið þar þurrum fótum í gegn, undir fellið.
Áður stóð vitinn á Stóra-Valahnúk En í landskjálftum vildi það til að bergið sprakk og hrundu úr því stykki svo staðurinn var ótyggur. Á vorin og framan af sumrum er allmikið af bjargfugli bæði lunda, ritu og fíl í hömrunum framaii í hnúkunum. Eiga þeir þar hreiður sín. Er þar tækifæri til að sjá þá hlynna að ungum sínum og færa þeim fæðu.

Reykjanes - viti

Yngri Reykjanesvitinn á Vatnsfelli. Eldri vitavarðahúsin.

Heima á Reykjanesi. Jeg býst við að ferðamennirnir sjeu farnir að þreytast af göngunni, þegar þeir hafa sköðað það sem hjer hefir verið talið. Er þá ráð að skreppa heim á bæinn og heilsa upp á vitavörðinn, taka sjer stundar hvíld.
Bærinn stendur sunnan undir svonefndu Bæjarfelli. Er það úr móbergi og líkt og Valahnúkar. Vitavörðurinn og frú hans taka vel á móti gestum sínum og eru fús að greiða götu ferðamanna og leiðbeina þeim. Ólafur vitavörður hefir aðeins verið 3 ár á Reykjanesi. Er hann mesti atorkumaður og hefir ótrálega mikið bætt jörðina á þeim stutta tíma, bæði aukið og bætt túnið og girt það með öflugum grjótgirðingum.

Reykajnes - viti

Reykjanes – yngri vitinn og yngri vitarvarðahús.

Vitinn stendur efst á Bæjarfelli (áður Vatnsfelli), er hann 25 m. hár og ljóskerið um 73 metra hátt, yfir sjó. — Borgar sig að skreppa upp í hann til að skoða ljóskerin og njóta útsýnis yfir nágrennið. Er erfitt að standa á verði við ljósin efst í turninum þegar landskjálftar ganga og alt leikur á reiðiskjálfi.

Gunnuhver

Við Gunnuhver á Reykjanesi.

Hefir vitavörðurinn stundum komist í hann krappan við ljóskerin þegar landskjálftar hafa komið. Goshverinn er góðan spöl fyrir austan bæinn á jarðhitasvæðinu norður af Skálafelli. Er hann nefndur Litli-Geysir. Mun hann hafa; myndast 1906(?). Áfast við hann að vestan er annað uppgönguauga. — Eru þetta einu hverirnir hjer á nesinu sem gjósa vatni. Þó er það ekki ferskt vatn sem kemur upp með gosunum, heldur saltur sjór, enn saltari en við ströndina. Liggur þó hverinn nm 15 metra hátt yfir sjó og frá honum er 2—3 km. spölur til sjávar. En óefað sígur sjórinn eftir sprungum neðan jarðar inn undir jarðhitasvæðið. Hverinn gýs á 15—20 mínútna fresti og eigi hefi jeg sjeð hann gjósa nema c.a. 3 m. frá jafusljettu, en stundum kvað hann gjósa mun hærra. Á undan gosunum heyrast miklar dunur niðri í jörðinni, er smáaukast þangað til gosið byrjar. — Nokkrum metrum fyrir austan Geysi ee vellandi leirpyttur er mikið gufar úr. Myndaðist hann í landskjálftum 1919.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Gunna eða Gunnuhver. Fyrir norðaustan Geysi er öll jörðin soðin sundur af jarðhita, bergtegundirnar leystar upp og orðnar að ruuðum, gulleitum og hvítum leirtegundum. Hafa menn haldið að hvítasti leirinn, sem best sjest þar í gryfju einni, væri postulínsjörð, en í rauninni er í honum sömu efni og venjulegu hverahrúðri (Kisill). Þar í holtunum eru á stóru svæði fjölmörg jarðffufuott, er sjóðheitar gufur streyma upp um. Hefir safnast nokkur brennisteinn við sumar þeirra (brenniateinshverir) og víða er leirinn blandaður brennisteini. Í dálítilli hvilft norður í holtaröðlinum, sem þar er, eru vellandi leirhverir. Heitir aðalhverinn Gunna eða Gunnuhver. Er sagt að hverinn dragi nafn af draug, er Eiríkur prestur á Vogsósum setti þar niður (Þjóðsögur Jóns Arnasonar I. 577—578). Í hverunum er vellandi leirgrautur, og öðru hvoru gjósa þar upp brennheitir gufustrókar með miklum hvin og dunum. Er þetta talinn einna mestur leirhver hjer á landi. Fara skyldu menn gætilega nærri þessum leirhverum því jarðvegurinn er ótraustur og undir honum er jörðin sjóðheit og vellandi.

Gunnuhver

Gunnuhver – hverasvæðið.

Láta mun nærri að jarðhitasvæðið á Reykjanesi muni vera 3-4 ferkílómetrar. Á öllu því svæði stíga gufur upp hjer og hvar úr sprungum og hraungjótum, þegar svalt er veður. Í grasflesjunum nærri aðalhveruuum, þar sem engar gufur sjást koma úr jörðu, er jörðin víða 80—90° heit rjett undir grassverðinuni; fer þar að rjúka ef jarðvegurinn er rofinn. Er það ljóst að hjer er geysimikil og dýrmæt orka falin í jörðu, sem nægt gæti Reykjavík og öllum þorpum hjer á skaganum til ljósa, hita og iðnaðarstarfa. En til þess þarf að beisla jarðhitann og breyta honum í rafmagn, líkt og nú er gert á Ítalíu og Japan. Telja fróðir menn að virkjun jarðhitans sje ódýrari en fossavirkjun. Áður en farið er að virkja fossa í stórum stíl handa Reykjavík, er sjálfsagt að rannsaka það til hlítar, hvort eigi borgi sig eins vel eða betur að virkja jarðhitann á Reykjanesi eða öðrum hverasvæðum í nálægð við bæinn.

Sýrfell

Sýrfell.

Sýrfell. Frá hverunum er um klukkutíma gangur norður á Sýrfell; er það móbergsfjall og hæsta fjallið út á nesinu (96 m.). Er þaðan gott útsýni. Suðvestur af því eru svo nefndir Rauðhólar; eru þar ljós og rauðleit leirlög, leifar eftir gamla hveri. Í hæðarana suðvestur af Sýrfelli er gígskál allstór og annar gígur nokkrum metrum sunnar efst í sömu hæðinni. Norðaustur af Sýrfelli mætast nýju hraunin úr Grindavíkur-Eldvörpunum og Stampahraunin úr gígaröðinni á norðanverðu nesinu.

Súlur

Súlur.

Í norðri og austri blasir við Hafnaheiði, Stapafell, Súlur, Þórðarfell, Sandfell og Sandfellshæð, sem er langstærsta hraundyngjan á utanverðum skaganum. Frá Sýrfelli gengur lægð til norðausturs inn skagann, sjest glögt fyrir henni norðaustur við nýjuhraunin. Heitir dældin Hauksvörðugjá, er þessi sigdæld takmörkuð af misgengissprungum beggja vegna. Framhald þessarar sigdældar er lægðin á Reykjanesi milli Skálafells og Stampahrauns. En sprungurnar eru þar víðast duldar undir yngri hraunum nema norðan í Skálafelli. Þjóðsögur herma að Kaldá hjá Kaldárseli hafi í fyrndinni runnið út Reykjanesskaga og þessi sigdæld sje hinn forni farvegur hennar, en forneskjumaður hafi breytt farvegi hennar.

Stampar

Stampar og Stampahraun.

Stampar og Stampahraun. Hraunbreiðan á nesinu norðan við fellin heitir Stampahraun. Hafa þau hraun komið úr eldsprungu (einni eða fleiri) er hefir vanalega stefnu (SV—NA) og nær alla leið frá sjó við svo kallaður Kerlingarbás, eins langt til norðausturs sem hraunið nær. Hefir röð af gígum eða eldvörpum myndast á sjálfum sprungunum þar sem hraunið hefir ollið upp. Heita gíghólar þessir Stampar. Mun nafnið þó helst eiga við þá syðstu. Til þess að skoða gígaröðina er hentast að fara út í hraunið norðvestur af Sýrfelli og fylga eldvörpunum til sjávar. Þar eru víða holar hrannpípur eða hraunræsi er storknað hafa utan um hraunstrauma og hraunleðjan síðan tæmst innan úr. Niður við sjóinn eru háir hamrar af lagskiftu móbergi og hraunið ofan á. Þar eru lóðrjettir blágrýtisgangar upp í gegnum móbergið er renna saman við hraunið ofan á, Eru það án efa endarnir á eldvörpunum sem hraunið hefir ollið upp um.

Önglabrjóstnef

Önglabrjótsnef. Karlinn fjær.

Spöl norður með sjónum er gíghóll framan í hömrunum. Hefir brimið etið hann inn að miðju svo þverskurður sjest af innri gerð hans. Er gígrásin full af rauðleitu gjalli. Önglabrjótsnef, litlu norðar, er myndað úr gjallkendu hrauni úr þessum gíg og fleirum af líkri gerð, er standa nokkru fjær ströndinni.

Karlinn

Karlinn.

Karlinn er 50 m. hár drangur fram af nesinu undan Stampahrauni 400—500 m undan landi. Þar eiga bjargfuglar hreiður í berghillum.
Eldey blasir við í suðvestur af nesinu. Er hún um 14 km. undan lyndi, álíka há og Skálafell (77 m., 100 m. breið, um 300 m. löng), flöt að ofan og öllu megin þverhnýpt niður að fjöru. Eyjan er úr móbergi og gróðurlaus. Hjalti Jónsson framkvæmdarstjóri kleif upp í eyjuna 30. maí 1894. Þótti það þrekvirki. Rak hann járngadda í bergið og las sig eftir þeim upp á eyjuna, og tengdi festi í bjargið. Þar verpa súlur í þúsundatali.

Reykjanes

Reykjanes – brim.

Brimið við Reykjanes er oft stórkostlegt þegar vindur stendur af vestri. Þeir sem staldra við á Reykjanesi þegar öldurót er, og eigi hafa sjeð stór brim, ættu að bregða sjer ofan á hamrana hjá Valbjargargjá eða ofan á Valahnúk, og virða fyrir sjer brimgarðinn, og hlusta á gróttuhljóðið við Valhuúkamöl, þegar brimsogið og öldurnar eru að velta til hnullungunum, sem sumir hverjir eru 1—2 m að þvermáli, Fágætar jurtir. Mjög er gróður lítið á Reykjanesi. Helstu gróðurflesjurnar eru í lægðinni frá túninu vestur fyrir hverina. Fann jeg þar á nesinu um 50 plöntutegundir. Af fágætum plöntum, fann jeg þar þessar: Baunagras í brekku við bæinn. — Naðartungu og flóajurt við gufuhverina. Þistil í túnjaðrinum. Gullkollur er algengur í hraununum. Sækvönn í grasbrekkum og á bjargröndinni suður af Skálafelli.

Gullkollur

Gullkollur – einkennisblóm Reykjaness.

Landskjálftar eru að líkindum tíðari á Reykjanesi en á nokkrum öðrum stað hjer á landi. Hafa þeir oft gert þar spjöll á vitanum og bæjarhúsum og valdið röskun á hverunum. Hafa þeir stundum staðið í sambandi við eldsumbrot í hafinu út af nesinu. Engar sögur fara af eldgosum á landi þar á hesinu. Vita menn því eigi hvort nokkur af hraununum þar hafa runnið eftir landnámstíð. Frásögurnar um gosin í hafi, framundan nesinu eru einnig mjög óglöggar.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 38. tbl. 23.09.1928, Á Reykjanesi – Guðmundur G. Bárðarson, bls. 297-300.

Reykjanes

Reykjanes.

Refagildra

Ekki hefur mikið verið skráð og ritað um hlaðnar refagildrur. Slík veiðaðferð; grjótgildrur, virðast annað hvort hafa fallið í gleymsku eða orðið jarðlægar. Ástæðurnar eru nokkrar.
Í fyrsta lagi þótti Refagildra ofan við Tóftir - 2löngum ekki tiltökumál þótt grjótgildra væri í nánd við bæ, verstöð, geymslustað eða þéttbýli. Það var ekki fyrr en á síðustu öld sem notkun þeirra lagðist af, a.m.k. á Reykjanesskaganum. Í öðru lagi hafa gildrurnar verið í notkun um langan tíma, jafnvel allt frá landnámstíð, svo margar þeirra hafa gleymst og orðið að jarðarinnar ásýnd.
Þegar FERLIR skoðaði svæðið ofan við Stað og Húsatóftir við Grindavík komu í ljós sjö áður óþekktar grjótgildrur. Án efa eru þær fleiri, ef vel væri leitað. Hafa ber í huga að ekki er langt um liðið að FERLIR fann 3 áður óþekktar refagildrur austan Húsatófta.

Refagildra

Refagildra.

Engra þeirra er getið í rituðum örnefnaskrám eða fornleifaskráningum af svæðinu. Þrátt fyrir það eru þekktar refagildrur nálægt þeim bænum orðnar 10 talsins. Nú (í marsmánuði árið 2010) eru þekktar 51 grjóthlaðin refagildra á Reykjanesskaganum og ef að líkum lætur munu finnast fleiri er fram líða stundir. Hafa ber í huga að helmingur þekktra hraunhella á Íslandi hafa fundist eftir aldamótin 2000 – vegna þess að eftir það hefur verið leita skipulegar af slíkum náttúrufyrirbærum í ríkara mæli. Að leita að ummerkjum eftir refagildru krefst mikillar einbeitingar og gerir þá kröfu til leitandans að hann hafi þekkingu á hvar slíkar mannvistarleifar kunni að finnast.
Refagildra ofan við Tóftir - 3Á vefsíðu Fornleifastofnunar Íslands segir eftirfarandi um refagildrur: „Tófugildra: Gildra til að veiða í refi. Refagildrur eru nokkuð misjafnar að gerð en oftast grjóthlaðnir stokkar eða kassar sem hellur hafa verið lagðar yfir og grjóti jafnvel hlaðið þar ofan á. Agn var látið inn í gildruna og tófan þannig tæld inn en þá lokaðist stokkurinn með þar til gerðum lokubúnaði. Áður en eitur, dýrabogar og byssur urðu algeng fyrirbæri hafa refagildrur líklega verið eina vopn manna gegn tófunni.“
Páll Hersteinsson fjallar um refaveiðar í riti Landverndar  (nr. 7) árið 1980. Þar segir hann m.a.: “Forfeður okkar höfðu veitt loðdýr öldum saman, áður en þeir fluttust til Íslands fyrir 1100 árum.
Refagildra ofan við Tóftir -4Víða um landið eru örnefni, sem hafa að fyrra lið orðið gildra. Þannig eru fjölmörg Gildruholt, Gildruklettar, Gildrunef og Gildrumelar, Byrgisskarð og Byrgismelur, og getur sums staðar að líta á þessum stöðum steinhrúgur, sem líkjast stundum föllnum vörðum, en sums staðar sést á þeim nokkur lögun. Þetta eru refagildrurnar, sem tíðast hafa verið hlaðnar á klöpp eða þar sem jarðvegur var svo þéttur, að refirnir gátu ekki grafið sig út úr þeim.
Refskinn voru löggiltur gjaldmiðill.
Refurinn var álitinn mikill skaðvaldur.
Í Grágás og Jónsbók er tekið fram að melrakkar séu á hvers mann jörðu óheilagir.
Árið 1295 var samþykkt á Alþingi að hver sá maður sem hefði 6 sauði á vetri í sinni ábyrgð, skyldi veiða einn melrakka gamlan eða tvo unga á ári. Það kallaðist dýratollur.
Alþingissamþykkt þessi var síðan endurnýjuð orðrétt árið 1485, og árið 1680 féll samhljóða alþingisdómur.
Bændum var skylt að stunda grenjaleit á vorin á jörðum sínum og á afréttum á eigin kostnað, en tófuföngurum var greitt úr dýratollssjóði.
Árið 1809 gefa amtmenn út fyrirmæli til hreppstjóra um skyldur þeirra til að fylgja eftir refaveiðum.

Húsatóttir

Refagildra við Húsatóttir.

Árið 1834 voru veigamiklar breytingar gerðar á reglugerðum. Öll grenjaleit, grenjavinnsla og veiðar voru launaðar úr dýratollsjóði.
Árið 1890 samþykkir Kristján konungur níundi lög þar sem kveðið er á um að kostnað við eyðingu refa skuli greiða úr sveitarsjóði. Tveimur árum síðar var dýratollur innheimtur í síðasta sinn. Lýkur þar 6 alda sögu eins sérstæðasta skatts á Íslandi.
Tiltölulega litlar breytingar hafa orðið á lögum um refaveiðar síðan 1890 nema hvað að ríkið hefur smám saman tekið á sig stærri hlut af kostnaðinum.
Árið 1930 voru sett lög, sem kváðu á um, að sýslusjóður greiði verðlaun fyrir veidda hlauparefi en sveitasjóðir skuli standa undir kostnaði við grenjavinnslu.
Refagildra ofan við Tóftir - 7Ýmsar aðferðir hafa verið notaðar við refaveiðar á Íslandi. Algengast í upphafi byggðar mun hafa verið að bræla refi inni í grenjum á vorin og veiða þá í grjótgildrur á veturna. Notkun grjótgildra virðist hafa lagst niður í upphafi 19. aldar.
Um svipað leyti voru dýrabogar orðnir algengir, en tilkoma þeirra var sennilega aðalástæðan fyrir því, að hætt var að nota grjótgildrurnar. Hætt var að mestu að nota dýraboga við vetrarveiði um síðustu aldamót [1900], en þeir eru enn notaðir við yrðlingaveiðar á grenjum.
Um aldamótin 1700 voru byssur orðnar algengar við grenjavinnslu og í lok 18. aldar voru þær orðnar aðalvopnið við refaveiðar og hafa verið það síðan.
Byrjað var að eitra fyrir refi um miðja átjándu öld.
Þá voru hundar stundum notaðir til að hlaupa uppi og drepa refi. Þeir voru kallaðir dýrhundar.
Refagildra ofan við Tóftir - 8Fyrstu heimildir um víðtæka eitrunarherferð á vegum sveitarfélags eru frá 1837, en almennt taka sveitarfélög að eitra fyrir refi upp úr 1860. Hreint stryknin í duftformi kemur til sögunnar upp úr 1870, en er ekki komið í almenna notkun fyrr en undir aldamót. Trú manna hefur verið, að ,,vesælustu, úrræðaminnstu og einföldustu dýrin“ éti helst eitrið, en ,,athugulustu, harðgjörðustu og bestu veiðidýrin“ verði helst eftir.  Nú ríkir eitrunarbann.
Byrjað var að eitra fyrir refi um miðja átjándu öld.
Þá voru hundar stundum notaðir til að hlaupa uppi og drepa refi. Þeir voru kallaðir dýrhundar.
Fyrstu heimildir um víðtæka eitrunarherferð á vegum sveitarfélags eru frá 1837, en almennt taka sveitarfélög að eitra fyrir refi upp úr 1860. Hreint stryknin í duftformi kemur til sögunnar upp úr 1870, en er ekki komið í almenna notkun fyrr en undir aldamót. Trú manna hefur verið, að ,,vesælustu, úrræðaminnstu og einföldustu dýrin“ éti helst eitrið, en ,,athugulustu, harðgjörðustu og bestu veiðidýrin“ verði helst eftir.  Nú ríkir eitrunarbann.“
Refagildra ofan við Tóftir - 9Þór Magnússon, fyrrverandi þjóðminjavörður, segir frá refagildrum í Árbók Hins ísl. fornleifafélags árið 1980. Þar skrifar hann m.a.: „Til eru gamlar lýsingar af grjótgildrum þar sem hvatt er til að bændur útbúi þær til refaveiða. Elsta og jafnframt gleggsta lýsing þeirra er í Atla, riti Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal, fyrst pr. í Hrappsey 1780.“ Þar segir, að dýrabogar leggist nú mjög af, en bóndi veitir Atla þarna nákvæma fyrirsögn um, hversu hann skuli útbúa gildrur sínar. Er lýsingin í rauninni nákvæmlega hin sama og hér mun brátt skýrt frá, en gert er ráð fyrir að hellan, sem lokar munnanum, sé krossbundin eða með gati, til að hún hlaupi niður í réttri andrá.
Í Lærdómslistafélags-ritunum, XII b. 1792, er grein um refaveiðar eftir Þórð Þorkelsson.
Í Reykjavíkurpóstinum 1848 þar sem segir, að slíkar grjótgildrur hafi verið víða tíðkaðar fyrrum en nær enginn beri nú við að nota þær.”
VegvísirGrjótgildrur eru þekktar á Grænlandi.
Grjótgildrur hafa verið notaðar víða um land. Gildrur þessar eru flestar af sömu gerð, úr allstóru grjóti, aflangar og munninn látinn snúa undan veðurátt.
Milli tveggja fremstu steinanna í þakinu er nokkur glufa. Þar hefur verið skorðað allvænt hellublað, um 20 sm breitt neðst og um 30 sm hátt, og gegnum það er klappað smágat ofarlega. Í gatinu hefur verið trétittur, sem legið hefur milli þaksteinanna og hellan þannig hangið uppi. Í tittinn var síðan bundið snæri, sem lá ofan á gildrunni og niður í hana aftast, hinn endinn bundinn í agnið, sem væntanlega hefur tíðast verið kjötbiti. Lá agnið innst í gildrunni og var nú útbúnaðurinn þannig, að þegar tófan skreið inn í gildruna og glefsaði í agnið og dró það til sín, kipptist titturinn úr gatinu og hellan rann niður. Rýmið í sjálfri gildrunni hefur verið við það miðað, að tófan kæmist mátulega fyrir en gæti ekki snúið sér við.

Ummerki í Berghrauni

Þannig átti hún erfitt með hreyfingar og gat með engu móti komist út aftur, enda var hún nú auðunnin í gildrunni, t.d. með broddstaf, sem lagt var inn á milli steinanna.
Gildra af þessari gerð er í rauninni einföld, en talsverða nákvæmni hefur þurft til að stilla helluna svo vel af, að hún rynni auðveldlega niður og skorðaðist og lokaði refinn inni. Er líklegt, að gildrur þessar hafi verið misvel veiðnar, enda er lágfóta kæn og hvekkist auðveldlega og er vör um sig, ekki síst ef hún finnur mannaþef af agninu. En í hörðum árum, þegar sultur svarf að, hefur svengdin orðið tortryggninni yfirsterkari.
Þessi gildra er hin eina, þar sem ég veit til að hellan hafi verið með gati fyrir trétitt. Annars hefur hellan yfirleitt verið krossbundin, samkvæmt þeim lýsingum, sem síðar verður getið, og lykkju á hinum enda bandsins bundið um afsleppan trétitt eða hvalbeinshæl innst í gildrunni þar sem agninu var komið fyrir, líklegast oftast smeygt bak við bandið. Þegar glefsað var í agnið kipptist bandið fram af tittinum og hellan féll niður.”
LáturÍ Þjóðviljann árið 1964 er skrifað um refagildru á Látrum. Þar segir óþekktur höfundur: „. . . Allra minnst kostar þig, að gjöra þér tófugildru, viðlíka og þú getur séð hana upp á brúninni hér fyrir ofan bæinn, en hún er gjörð eftir forskrift nokkurs gamals prests, sem gaf mér hana, og með því sá umbúnaður er nú flestum ókenndur hér í grenndinni. Hún er þessi:
1) Gildran sé hlaðin á hellu eða grjótgrundvelli, sem tóft eða kvíar, nokkuð lengri og hærri en tófa kann að vera, en svo þröng að tófa geti ekki snúið sér þar inni.
2) Í gafli miðjum standi tréhæll afsleppur neðanverðu.
3) Síðan er byggt yfir þessa tóft með grjóti svo það hlað hafi hæð sjálfrar jarðarinnar.
4) Innar við gaflinn skal vera svo mikið op, að þar verði bæði náð inn til að egna og líka að veiðin megi þar út takast ef á þarf að halda.
5) Strengur með lykkju á endanum, smokkaður á hælinn liggur svo upp úr þessu opi yfir á minnstu grjóthlaði, allt til dyra: þar er krossbundin hella (eða með gati) í hans öðrum enda, sem til ætlað er að niður detti, og þvi skal grjóthlaðið vera svo þykkt, sem hæð hellunnar verður að vera.
Austan Tófta6) Fyrir framan dyrnar standi fallega kantaðir steinar sinn hvoru megin, svo langt frá að hellan hafi nóga þröm eða pláss til að falla í millum þeirra og gildruveggjanna, en fyrir ofan lykkjuna á hælnum hangir agnbiti á annarri lykkju, svo til ætlað er að tófa kippi strengnum fram af undir eins og agninu.
7) Þegar gildran er tvídyruð þá er sín hella við hvorn enda, eins og fyrr segir um þá eindyruðu, en agnhællinn í miðjum vegg annarhvorrar langhliðar og á honum báðir hellustrengirnir.
8) Líklegt er að tófur séu óvarari við þá tvídyruðu. Loksins er agnið með grjóti byrgt, og allt látið verða sem líkast náttúrulegu grjótholti.“
Refgildra
Eftir þennan lestur verður vart um það deilt að skýring þeirra Látramanna, um hæla strengi og fallhellu, hafi hvorki verði staðlaus þjóðsaga né hugarórar heldur gömul raunhæf vitneskja. Ósagt skal látið hvort annað mannvirki þessarar tegundar fyrirfinnist óhrunið á landinu.”
Skammt ofar, í Berghrauni skammt vestan Lynghólshrauns, má sjá ummerki eftir grenjaskyttur; hlaðin skjól. Í örnefnalýsingu fyrir stað er þess sérstaklega getið að „mörg greni eru í Lynghólshrauni“. Þar verður leitað ummerkja fljótlega.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

 

Heimildir m.a.:
-http://www.instarch.is/instarch/ordasafn/r/
-Páll Hersteinsson, rit Landverndar (nr. 7) árið 1980.
-Heimild: Þjóðviljinn 16.02.1964, bls. 53.
-Helgi Gamalíelsson – Stað.

Húsatóftir

Refagildra við Húsatóftir.

Jónsbásar

Gengið var frá dys Járngerðar á Járngerðarstöðum, um virki Jóhanns breiða ofan við Stórubót, um Junkaragerði Grindvíkinga, að Jónsbás þar sem Anlaby, fórst í janúar árið 1902, yfir í Arfadal, upp í Baðstofu og um Blettahraun til baka. Hér var um að ræða eina af tímamótaferðum FERLIRs, þá 800. að tölu um Reykjanesskagann. Venjulega eru tilteknir staðir heiðraðir í slíkum tímamótaferðum. Að þessu sinni, sem og stundum fyrr, varð Grindavík fyrir valinu.

Járngerðardys

Dys Járngerðar – áður en malbikað var hana.

Grindavík er merkilegur bær – þar er hægt að dvelja löngum stundum við að skoða merkilega staði og endurupplifa gagnmerka atburði í gegnum aldirnar.
Landnámsmaður í Grindavík var Molda-Gnúpur Hrólfsson. Þar hafa orðið merkisatburðir Íslandssögunnar, s.s. Tyrkjaránið og Grindavíkurstríðið. Auk þess endurspeglar Grindavík atvinnu- og búsetusögu landsins frá upphafi til núdagsins. Og andrúmsloftið er hvergi ferskara.
Vitneskja um upphaf byggðar takmarkast við frásögn Landnámu af Molda-Gnúpi og sonum hans. Lítið sem ekkert er vitað um byggðina næstu þrjár aldirnar eftir landnám. Ekki er vitað nákvæmlega hvar landnámsmennirnir byggðu sér bú. Þó er líklegt að það hafi verið í námunda við Hópið en síðar risu þar bæirnir Hóp, Þórkötlustaðir og Járngerðarstaðir. Hverfin er eitt af því sem einkenndi gerð og þróun byggðar í Grindavík fram á þessa öld. Þessi hverfi heita Þórkötlustaðahverfi sem er austast, Járngerðarstaðarhverfi í miðið og Staðarhverfi vestast.

Hóp

Hóp; fornar minjar – uppdráttur ÓSÁ.

Ekki er vitað um aldur og upphaf hverfanna þriggja og heldur ekki af hverju þau byggðust nákvæmlega þarna. En gera má ráð fyrir því að þau hafi byrjað að myndast á 10. eða 11. öld. Ekki er ólíklegt að staðsetning hverfanna hafi ráðist af graslendi á þessum stöðum. En það sem hefur líka haft mikið að segja er aðstaða til sjósóknar. Flest bendir til þess að skömmu eftir 1200 hafi byggðin verið búin að taka á sig þá mynd sem hún bar allt fram á öndverða 20. öld.
Þegar 19. öldin gekk í garð var byggðin í Grindavík svipuð og hún hafði verið fyrr á öldum. Flestir bjuggu í hverfunum þremur og bjuggu flestir í Járngerðarstaðarhverfi, 59 manns, en mun færri í hinum hverfunum. Á árunum 1840 og 1841 voru aðeins 7 aðalbýli í sókninni og 13 hjáleigur. Aðalbýlin voru þessi, talin vestan frá, Staður, Húsatóftir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun og Ísólfsskáli. Strax um aldamótin 1800 var þegar kominn vísir að þéttbýli í Járngerðarstaðahverfi. Það samanstóð af tveimur býlum sem þar voru auk hjáleiganna sem byggðar voru í landi jarðarinnar.

Gerðisvellir

Gerðisvellir – leifar virkis Jóhanns breiða.

Á 19. öld hélt byggðin áfram að vaxa í Járngerðarstaðahverfi og varð miðstöð byggðar í Grindavík. Líklegt má telja að ef kirkja hefði verið í Járngerðarstaðahverfi á þessum tíma hefði byggðin jafnvel verið mun þéttari, en kirkjan og kirkjugarðurinn var í Staðarhverfi. En þann 26. september 1909 var vígð ný kirkja í Járngerðarstaðahverfi og kostaði hún 4.475 krónum.
Byggð í Staðarhverfi var nokkuð stöðug á árunum 1801 – 1920 en lagðist svo alveg af fljótlega eftir 1920. Byggð í Þórkötlustaðahverfi og Járngerðarstaðahverfi var nokkuð jöfn fram til ársins 1910. Hverfin héldust nokkuð í hendur varðandi fólksfjölda en á fyrri hluta 20. aldarinnar dróst þó nokkuð í sundur með hverfunum. Að lokum var svo komið að Þórkötlustaðahverfi var orðið nokkurs konar úthverfi við hlið meginbyggðarinnar. En þó svo byggðin hafi verið þetta mikil á Járngerðarstöðum var lýsing Geirs Bachmann á henni ekki mjög fögur:

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

„Eigi er fagurt á Járngerðarstöðum, því þó þar ei sé ýkja illa húsað. Þá stendur bærinn og allt hverfi þetta nema Krosshús niður í dæld eða dalverpi. og er þaðan hvergi víðsýnt.”
En þó ekki hafi verið fagurt á að líta á Járngerðarstöðum fjölgaði þar nokkuð ört og hlaut Grindavík kaupstaðarréttindi árið 1974. Og áfram fjölgaði heimilum í Járngerðarstaðahverfinu og nú búa í Grindavík um 2500 manns, þar af búa u.þ.b. 50 í Þórkötlustaðahverfi.
Gangan byrjaði við leiði Járngerðar, sem er nú að mestu undir veginum við Hlið. Þegar komið var að dysinni lá þar utan í henni stór, svartur, fjörgamalt hunslíki. Fylgdi það hópnum síðan eftir, en þegar komið var til baka hvarf það jafnskjótt og það birtist.

Járngerðardys

Tómas Þorvaldsson við dys Járngerðar.

Eitt horn dysjarinnar stendur þó út undan veginum. Skv. gamalli lýsingu var dysin hæst að suðvestanverðu, en hallaði undan til austurs (undir veginn). Hornið er svona til að minna á fyrrum tilvist þjóðsögunnar á þessum stað. Sú gamla hefur sannarlega mátt muna tímanna tvenna. En nú er Járngerður notuð sem hraðahindrun fyrir sjálfrennireiðar. Áður fyrr var borin miklu mun meiri virðing fyrir henni, bæði lifandi og látinni. Virðingin að henni lifandi var svo sterkt að rituð var þjóðsaga um hana þar sem hún er leggur á Járngerðarstaðasundið að þar skyldu tuttugu skip farast eftir að hafa horft upp á eiginmann sinn drukkna á sund

inu. Virðingin að henni látinni var að hún skuli hafa verið dysjuð við gömlu sjávargötuna frá Járngerðastöðum er lá niður í Fornuvör, aðalvör hverfisins.

Stóra-bót

Stóra-Bót; leifar virkisins.

Þá leið gengu sjómenn til skips, stöldruðu við og dvöldu jafnan við dysina og fóru með bænir svo áhrínisorð Járngerðar myndu ekki duga til. a.m.k. hvað þá snerti. En eins og gamli maðurinn sagði; „virðingin fyrir hinu liðna, er mótast af framkomnum lifandi kynslóðar, virðist verulegum takmörkunum háð.“
Lönguklettar voru tiltölulega langt klettabelti úr frá skerjóttri ströndinni við Flúðir. Þanghóll er þar áberandi og mun þangi hafa verið safnað á hann í fyrri tíð, á meðan það var enn notað til eldiviðar.
Neðan við kampinn má sjá Stokkavör, Akurhúsakamp, Kvíahúsakamp, Fornuvör, Sjálfkvíarklöpp og Draugalón.
Við Litlubót er Stakibakki, Hvítisandur, Kampur og Eystri- og Ytri-Hestaklettur. Fjörunar eru nefndar Flúðir einu nafni, sem fyrr segir, og vestast á þeim eru þrjú örnefi; Stakabakkagrjót, Önnulónstangi og Flúðagjá.
Alls eru Flúðirnar tæpur kílómetri á lengd, en þar hafa þó orðið einna flest strönd á einum stað á þessum slóðum. Í desember 1899 strandaði þar norsk flutningaskip, sem Rapit hét, og árið eftir togari Vídalínsútgerðarinnar, Engines. Mannbjörg varð í bæði skiptin.

Gerðavellir

Garður í Junkaragerði ofan við Stóru-Bót.

Í janúarmánuði 1911 strandaði svo breski togarinn Varonil á Flúðunum, og var það strand í senn sorglegt og grátbroslegt. Strandið sjálft virðist hafa orðið með þeim hætti, að skipið “togaði í land”, en talið var, að varpan væri úti, er það kenndi grunns. Þá gerðu skipverjar sömu mistök og landar þeirra á Clan fjórum áratugum síðar, settu út björgunarbáta og drukknuðu þeir þrí menn, sem í þá komust. Aðrir skipverjar afréðu þá að vera um kyrrt í skipinu, og var þeim bjargað morguninn eftir.
Næsta strand á Flúðunum varð 4. apríl 1926, er togarinn Ása strandaði þar á heimleið úr sinni fyrstu veiðiför, og tíu árum síðar, 6. september 1936, strandaði enski línuveiðarinn Tracadiro á svipuðum slóðum. Mannbjörg varð í bæði skiptin. Í fjöru má vel sjá vélina og ketilinn úr Ásu neðan og austan við Stórubót. Nú var hvoru tveggja t.a.m. vel sýnilegt.

Ofan við Stórubót er Rásin, en um hana fellur sjór upp í Gerðavallabrunna á stórstraumi.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir og Gerðavellir – uppdráttur ÓSÁ.

Upp af Stórubót, á Hellum, má enn sjá ógreinilegar leifar af virki Englendingsins Jóhanns breiða þar sem atlaga Grindavíkurstríðsins svonefnda fór fram í júnímánuði 1532. Varð sá atburður til að marka þáttaskil í verslunarsögu landsins sem og skapa skörp átök milli öflugustu þjóða Evrópu á þeim tíma.
Lítið eitt vestar, þar sem heita Gerðisvellir, eru rústir af vegghleðlsum. Frá þeim er frásögn í einni af þjóðsögunum þar sem Junkarar eiga að hafa hafst við og Grindvíkingar eldað við þá grátt silfur lengi vel. Garðar gerðisins sjást vel sem og móta fyrir tóftum innan þess.
Hásteinar eru vestan við Hásteina. Austar eru Hellan og þá Malarendar. Stórhóll er á Hellunni. Miðbótarklettur er sker utan við Malaraenda. Hóllinn Skyggnir er vestann við Bótina. Á honum er Skyggnisrétt.

Skyggnisrétt

Skyggnisrétt. Rásin og Grindavík fjær.

Sandvík er fremur skerjótt og lón á milli skerjanna. Þar strandaði Resolut í austanstormi og brimi í október 1917, sen skipverjar björguðust allir og komu gangandi heim að Járngerðarstöðum morgunin eftir.
Katrínarvík er vestan við Markhól. Það er eitt örfárra örnefna á gervallri strandlengjunni frá Valahnúk í vestri til Seljabótar í austri, sem dregið er af mannsnafni, sem ekki er vitað, af hvaða Katrínu víkin tekur nafn.
Markhóll er áberandi við ströndina áður en komið er að Jónsbás og Jónsbásaklettum. Á milli eru Hvalvík og Hvalvíkurklettar. Markhóll er landamerki Húsatótta og Járngerðarstaða og skilur um leið Staðarhverfi og Járngerðarstaðahverfi. Ofan og austan við Markhól er gamla gatan út að Staðarhverfi vel greinileg. A.m.k. ein heil varða er við leiðina, en hægt er að fylgja henni frá vestanverðum Gerðavallabrunnum og áleiðis út að Arfadal.
Á klettóttri ströndinni má sjá Jónsbásakletta, Karfabása og Vörðunes, sem er austan við Vörðunestanga. Á Jónsbásaklettum strandaði breski togarinn Anlaby snemma í janúar 1902, og fórust allir, sem á honum voru, 11 manns. Skipstjóri á Anlaby var Svíinn Carl Nilson, og var þetta fyrsta ferð hans til Íslands að aflokinni fangelsisvist, sem honum var gert að afplána fyrir aðförðina frægu að Hannesi Hafstein og mönnum hans á Dýrafirði árið 1899 þar sem þrír Íslendingar létust.
Klettarnir við Jónsbás skörtuðu bleikum, gulum, brúnum og fjólubláum lit í bland við græna. Stórbrotin umgjörð við fagurblátt hafið og svarta klettana.
Af Anlabystrandinu spunnust margar sögur í Grindavík, og benda flestir til þess, að atburðurinn hafi þótt í meira lagi vofveiflegur. Segir sagan m.a. að stígvél hafi fundist ofan fjörunnar er benti til þess að einhver hafi komist lífs af, en þoka var kvöldið áður og varð hún til þess að Staðarmenn gengu ekki rekann þá eins og venjulega. Vildu sumir þess vegna kenna sér um að hafa ekki bjargað mannslífum það sinnið.

Jónsbás

Jónsbásaklettar.

Víkin neðan við Húsatóftir heitir Arfadalur, en kölluð Dalur í daglegu tali. Nafngiftin gefur til kynna, hverjum augum menn hafa litið þann gróður, sem þarna þreifst. Víkin, sem gengur inn í landið á milli Vörðunestanga og Gerðistanga, heitir að rétu Arfadalsvík, en var oftast nefnd Staðarvik og leiðin inn í hana Staðarsund. Um sundið fóru kaupskip þau, er til Grindavíkur sigldu á fyrri tíð, og lögðust þá við festar vestan til á Arfadalsvík.
Garðafjara er í Arfadalsvík. Þar útan við eru tvö sker, sem Flæðiklettar heita. Þar þurfti mjög að gæta að sauðfé, þá stórstreymt var, því flæðihætta var mikil og náði féð sjaldnast að synda til lands. Á Flæðiklettum var rostungur eitt sinn veiddur seint á 19. öld, og um 1890 strandaði þar franska skútan Bris. Var það strand mörgum Grindvíkingi minnisstætt vegna koníaksbirgða, sem í skipinu voru. Sumir vildu þegja þunnu hljóði um þann þátt málsins, en aðrir æmtu þegar á var minnst.
Gengið var upp í Baðstofu, gjá ofarlega við Húsatóftir.
Þá var Blettahraunið gengið til austurs, til baka að Járngerðarstaðarhverfi.

Heimild m.a.:
-Saga Grindavíkur – Jón Þ. Þór – 1994.
-http://nemendur.khi.is/svavagna/Ritgerd%20um%20Grindavik.htm

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir og Gerðavellir – uppdráttur ÓSÁ.

Húsatóftir

FERLIR fann fyrir allnokkru hlaðna refagildru ofan við Húsatóptir við Grindavík. Þegar svæðið var skoðað betur fyrir skemmstu komu í ljós tvær aðrar til viðbótar og líklegt má telja að þar kunni að leynast fleiri slíkar.

Húsatóptir

Húsatóptir – refagildra.

Auk refagildranna ofan við Húsatóptir eru fleiri hlaðnar refagildrur við Grindavík, s.s. í Básum ofan við Staðarberg, í Sundvörðuhrauni skammt ofan Húsatófta og við Sandleyni ofan við Hraun.
Hinar hlöðnu refagildrur eru leifar gamalla veiðiaðferða, áður en skotvopnið, eitrið og dýrabogar komu til sögunnar – sumir telja hugmyndina hafa komið hingað með landnámsmönnum því slíkar gildrur tíðkuðust þá t.a.m. í Noregi. Skrifaðar heimildir eru um þær frá árunum 1781-1798.
Refagildra er sjaldan getið í örnefnaskrám. Þó má sjá þess merki, s.s. í örnefalýsingu fyrir Tannastaði: „Stekkjarhóll er til landnorðurs frá bænum. Á honum eru tvær fuglaþúfur og var þar áður refagildra undir nyrðri þúfunni. Sunnan undir þúfunni var stekkjað um 1840 og eru glöggar tóftir síðan. En litlu norðar eru mjög gamlar tóftir eða vottur þeirra, sem vel gætu verið frá fornöld.“
Refagildra
Í fornleifafræðiorðasafni Fornleifafræðistofnunar Íslands segir um gildrur þessar: tófugildra – Gildra til að veiða í refi. [skýr.] Refagildrur eru nokkuð misjafnar að gerð en oftast grjóthlaðnir stokkar eða kassar sem hellur hafa verið lagðar yfir og grjóti jafnvel hlaðið þar ofan á. Agn var látið inn í gildruna og tófan þannig tæld inn en þá lokaðist stokkurinn með þar til gerðum lokubúnaði. Áður en eitur, dýrabogar og byssur urðu algeng fyrirbæri hafa refagildrur líklega verið eina vopn manna gegn tófunni. [enska] fox trap
Fyrir nokkrum áratugum þótti það í frásögu færandi, og jafnvel einstakt, að til væri hlaðin refagildra er líklegt þótti að gæti verið með sama lagi og slíkar gildrur voru gerðar í Noregi og síðan hér á landi að þeirra fyrirmynd. Var einkum vitnað til slíkra fornminja er til væru á Norðausturlandi, einkum Merrakkasléttu.

Húsatóftir

Húsatóftir – refagildra.

Ef Reykjanesið – hið jafnumkunnugulega og ómerkilega til langs tíma – er skoðað gaumgæflega má þar finna ótal slíkar hlaðnar refagildrur. A.m.k. 80 slíkar hafa opinberast ásjónum leitenda s.l. misseri – þær síðustu hér tilgreindar ofan Húsatófta.
Í örnefnalýsingum fyrir Húsatóptir er engin lýsing á refagildrum. Sennilega hafa þær þótt svo sjálfsagðar sem raun ber vitni. Í einni lýsingu er þó talað um Baðstofugreni norðan Baðstofu, auk annarra grenja fjær bænum, s.s. við Sandfell og Rauðhól.
Hinar hlöðnu refagildrur, sem skoðaðar hafa verið, voru jafnan þannig; hlaðið var “grunnlag”; annað hvort í lægð (“láfótan lægðirnar smjó”), á barmi gjár, við bakka eða á annarri líklegri leið rebba (sem jafnan er stundvís sem klukkan). Gildran sjálf var þannig; hlaðinn gangur (ca. 1 m langur, 10 cm breiður og 20 cm hár). Þá var reft yfir með steinum eða hellum svo rebbi gæti ekki lyft af sér okinu þegar á reyndi. Oft var vel hlaðið ofan á og til hliða, enda af nógu grjóti af að taka.

Refagildra

Refagildra – teikning.

Virkni: Þegar gangur og yfirhleðsla höfðu verið fullkomnuð var tekin fram “fallhellan” ógurlega (ekki ómerkilegri en nafna hennar í frönsku fallöxinni. Tveimur öflugum steinum var komið fyrir sitt hvoru megin framan við opið. Fallhellan var “krossbundin” og þráður lagður í “hæl” innan í gildrunni. Hnútnum var haganlega fyrir komið. Í hinn endann var hnýtt hluti rjúpu eða af örðu agni. Þegar refurinn greip agnið og togaði í það hljóp lykkjan af hælnum. Við það féll fallhellan niður og refurinn var innikróaður. Hann reyndi að fra til baka,e n fallhellan hindraði hann í því. Þá reyndi hann að lyfta okinu af sér, en þunginn kom í veg fyrir að það tækis. Smám saman þvarr rebba kraftur og hann lagðist niður, beið og dó síðan – smám saman – úr hungri. Þá var hann sóttur í gildruna, skottið sniðið af og hræinu hent. Að vísu var skinninu haldið til haga um skeið (dæmi eru um að því sem og skottinu hafi verið jafnað við vermæti “skagfirsks gæðings” fyrrum), en það breyttist smám saman uns lítið varð að öngvu – nema áhuganum.

Húsatóftir

Húsatóftir – refagildra.

„Víða um landið eru örnefni, sem hafa að fyrra lið orðið gildra. Þannig eru fjölmörg Gildruholt, Gildruklettar og Gildrumelar og getur sumsstaðar að líta á þessum stöðum steinhrúgur, sem líkjast stundum föllnum vörðum, en sums staðar sést á þeim nokkur lögun. Þetta eru refagildrurnar, sem tíðast hafa verið hlaðnar á klöpp eða þar sem jarðvegur var svo þéttur, að refirnir gátu ekki grafið sig út úr þeim.
Sennilegt er, að grjótgildrur þessar hafi verið algengasta veiðitækið á refi hérlendis áður en byssur urðu algengar. Dýrabogar hafa þó þekkst lengi, enda er minnst á boga í kvæðinu um Hrafnahrekkinn og notaði veiðimaðurinn hann samhliða gildrunni, en trúlega hafa þeir fyrst orðið algengir á síðustu öld. Erlendis voru stærri veiðidýr, svo sem hreindýr, úlfar og birnir veidd í fallgryfjur, en eiginlegar fallgryfjur eru vart þekktar hérlendis. Thedór Gunnlaugsson lýsir þó í bók sinni Á refaslóðum, fallgryfjum sem gerðar hafi verið í snjó fyrrum, en ekki getur hann þess, hve veiðnar þær hafi verið, enda hefur hann aðeins heyrt um þessa veiðiaðferð. Heimild er þó um, að í Hornafirði hafi gryfjur verið hlaðnar úr grjóti með lóðréttum veggjum eða jafnvel svolítið inn yfir sig. Dýpt þeirra var nokkur, eða svo mikil að öruggt væri að dýrin gætu ekki stokkið eða klifrað upp úr gryfjunum. Á gryfjubotninum var agninu dreift.

Tyrkjabyrgi

Refagildra við „Tyrkjabyrgin“ ofan Húsatófta.

Til eru lýsingar af grjótgildrum þar sem hvatt er til að bændur útbúi þær til refaveiða. Elsta og jafnframt gleggsta lýsing þeirra er í Atla, riti Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal, fyrst pr. Í Hrappsey 1780. Þar segir, að dýrabogar leggist nú mjög af, en bóndi veitir Atla þarna nákvæma fyrirsögn um, hversu hann skuli útbúa gildrur sínar. Er lýsingin í rauninni nákvæmlega hin sama og hér mun brátt skýrt frá, en gert er ráð fyrir að hellan, sem lokar munnanum, sé krossbundin eða með gati, til að hún hlaupi niður í réttri andrá.
Í Lærdómslistafélagsritunum, XII b. 1792, er grein um refaveiðar eftir Þórð Þorkelsson. Hann nefnir grjótgildrurnar en lýsir þeim ekki, þar sem þeim sé lýst í Atla og efast hann jafnvel um gagnsemi þeirra. Víða í 19. Aldar ritum eru greinar og leiðbeiningar um refaveiðar og má t.d. nefna grein í Reykjavíkurpóstinum 1848 þar sem segir, að slíkar grjótgildrur hafi verið víða tíðkaðar fyrrum en nær enginn beri nú við að nota þær. Þar segir einni, að dýrabogar séu nú orðnir sjaldséðir, og hafi hina gömlu veiðiaðferðir vafalaust þokað fyrir skotveiðinni á þessum tíma.

Húsatóftir

Húsatóftir – refagildra.

Theodór Gunnlaugsson, hin þekkta refaskytta, segist í fyrrnefndri bók sinni stundum hafa hlaðið grjótgildrur við greni til að veiða yrðlinga í eftir að fullorðnu dýrin höfðu verið unnin og mun hann sennilegast vera síðastur manna til að nota þær hérlendis.
Vafalaust hafa ýmsir orðið til að taka upp notkun grjótgildra eftir hvatningu Björn Halldórssonar í Atla. Atli var prentaður þrívegis og fyrstu prentuninni að minnsta kosti dreift ókeypis og hafa því margir kynnst því riti á 18. og 19. öld. En það lætur að líkum að veiðiaðferðin hefur verið seinleg og gildrurnar ekki alltaf fengsælar og hefur t.d. skotveiði úr skothúsum verið margfalt stórvirkari, enda mjög tíðkuð á síðustu öld að minnsta kosti.

Refagildra

Refagildra.

Grjótgildrur eru þekktar á Grænlandi og hefur svo verið talið, að þær væri frá tímum Grænlendinga hinna fornu, en þær hafa einnig verið notaðar þar í seinni tíð af bændum landsins. Er mér næst að ætla, að Grænlendingar hafi lært notkun þeirra af norrænum mönnum ámiðöldum, en dæmi eru um, að þeir hafi tekið upp áhöld og vinnuaðferðir norrænna manna. Sá ég líka gildru á Grænlandi 1977 í grennd við forna rúst í Qordlortoq-dal, og virtist hún helst vera frá byggð norrænna manna, en einnig voru ar í notkun nýjar refagildrur af nokkuð annarri gerð.

Húsatóftir

Húsatóftir – refagildra.

Sigurður Breiðfjörð lýsir grænlenskum gildrum í bók sinni frá Grænlandi, sem kom út 1836, en einkennilegt er, að hann virðist ekki þekkja notkun slíkra gildra á Íslandi og hvetur bændur hér til að setja slíkar skollagildrur, eins og hann nefnir þær, í landareignum sínum.
Ég hef ekki gert gangskör að því að kanna útbreiðslu þessara gildra, en viðbúið er að langflestra þeirra sé getið í örnefnaskrám einstakra jarða, sem vaðveittar eru í Örnefnastofnun Þjóðminjasafnsins. Árið 1964 var send út spurningaskrá frá Þjóðháttadeild Þjóðminjasafnsins þar sem spurt var aukalega um slíkar refagildrur og hvað menn kynnu að segja um notkun þeirra. Bárust svör allvíða að af landinu og reydust 20 heimildarmenn þekkja gildrur eða leifar þeirra eða þá örnefni, sem ótvírætt benda til að gildrur hafi verið á þaim stöðum, þótt þeirra sæjust stundum engar leifar nú. Eru þessir staðir dreifðir um allt land að kalla má, sumir úti við sjó en aðrir inn til landsins, venjulegast í grennd við bæi eða beitarhús, þar sem menn fóru of um á vetrum…
Á hraungarði vestan við Selatanga eru nokkrar hlaðnar refagildrur og hjá Grindavík er rúst af gildru.

Refagildra

Refagildra innan dyra.

Greinilegt er af lýsingum þeirra, sem upplýsingar hafa gefið um gildrur þessar, að þær eru flestar af sömu gerð, úr allstóru grjóti, aflangar og munninn látinn snúa undan veðurátt.
Einn heimildarmaður greinir frá slíkri gildru úr tré, aflöngum tréstokki um 3 álnir á lengd og voru lok við báða enda og rann annað fyrir er refurinn var kominn inn í stokkinn, en grjóti var hlaðið umhverfis stokkinn svo að minna bæri á honum utan frá séð.
Gildra á Húsafelli sýnir vel hversu grjótgildrur voru gerðar í meginatriðum. Gildran er hlaðin efst á klettakambi og lítur út til að sjá eins og grjóthrúga. Hefur hún áreiðanlega alla tíð verið mjög áberandi og er svo um aðrar þær gildrur,s em ég hefi séð og hefur greinilega ekki verið reynt að fela þær eða hylja þær jarðvegi. Hefur verið leitast við að hafa gildrurnar þar sem hátt bar svo að þær færu ekki á kaf í snjó og mestu máli skipti, að þær væru þar sem refir fóru um í ætisleit á vetrum, en gildruveiðar munu einkum hafa verið stundaðar að vetrarlagi.

Gömlu Hafnir

Refagildra.

Gildran á Húsafelli er þannig gerð, að á klappirnar hefur verið hlaðið stórum steinum, sem sumir eru vel meðalmannstak. Eru þrír steinar í röð hvorum megin og milli þeirra um 30 cm bil, en fyrir enda tveir steinar. Þannig myndast eins konar gangur, um 150 cm langur, sem er opinn í þann enda sem í norður snýr, og þar er munninn, sem lágfótu hefur verið ætlað að fara inn um. Ofan á grjótganginum eru síðan aðrir stórir steinar, sem mynda þak. Síðan hafa allar glufur og op verið þéttuð með minni steinum oggengið svo frá, að sem minnst op væru á gildrunni nema munninn.
Milli tveggja fremstu steinanna í þakinu er nokkur glufa. Þar hefur verið skorðað allvænlegt hellublað, sem enn lá hjá gildrunni, um 20 cm breitt neðst og um 30 cm hátt, og gegnum það er klappað smágat ofarlega. Í gatinu hefur verið trétittur, sem legið hefur milli þaksteinanna og hellan þanngi hangið uppi. Í tittinn var síðan bunið snæri, sem lá ofan á gildrunni og niður í hana aftast, hinn endinn bundinn í agnið, sem væntanlega heftr tíðast verið kjötbiti. Lá agnið innst í gildrunni og var nú útbúnaðurinn þannig, að þegar tófan skreið inn í gildruna og glefsaði í agnið og dró það til sín, kipptist titturinn úr gatinu og hellan rann niður.

Refagildra

Refagildra – Reykjavíkurpósturinn 1847.

Rýmið í sjálfri gildrunni hefur verið við það miðað, að tófan kæmist mútulega fyrir en gæti ekki snúið sér við. Þannig átti hún erfitt með hreyfingar og gat með engu móti komist út aftur, enda var hún nú auðunnin í gildrunni, t.d. með broddstaf, sem lagt var inn á milli steinanna.

Gildra af þessari gerð er í raun einföld, en talsverða nákvæmni hefur þurft til að stilla helluna svo vel af, að hún rynni auðveldlega niður og skroðaðist og lokaði refinn inni. Er líklegt, að gildrur þessar hafi verið misvel veiðnar, enda er lágfóta kæn og kvekkist auðveldlega og er vör um sig, ekki síst ef hún finnur mannaþef af agninu. Enm í hörðum árum, þegar sultur svarf að, hefur svengdin orðið tortryggninni yfirsterkari.
Þessi gildra er hin eina, þar sem ég veit til að hellan hafi verið með gati fyrir trétitt. Annars hefur hellan yfirleitt verið krossbundin og lykkju áhinum enda bandins bundið um afsleppan trétitt eða hvalbeinshæl innst í gildrunni þar sem agninu var komið fyrir, líklegast ofyast smeygt bak við bandið. Þegar glefsað var í agnið kipptist bandið fram af tittinum og hellan féll niður.“

Heimildir:
-Síðari hlutinn eru af skrifum Þórs Magnússonar, Hrafnahrekkurinn – sitt af hverju um refagildrur – úr Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 1980.
-Fornleifafræðistofnun Íslands – Fornleifafræðiorðasafn.

Húsatóptir

Húsatóptir – refagildra.