Húsfellsbruni er samheiti nokkurra hrauna umleikis og ofan Húsfells í landi Garðabæjar, s.s. Hólmshraunin, Strípshraun, Rjúpnadyngjuhraun, Eyrarhraun og Kóngsfellshraun. Ekkert hraunanna er komið frá Húsfelli. Fellið það er í rauninni saklaust af nafngiftinni, stóð bara þarna eftir að hafa fyrrum áður fæðst undir jökli samfara hánu sinni Helgafelli og Valahnúkum á millum.
Húsfellsbruni – upptökin við Stóra-Kóngsfell (Kóngsfell). Ruglingur nafngiftarinnar er vegna þess að Kóngsfell er til ekki víðs fjarri, sem og Litla-Kóngsfell. Þá er “Kóngsfell” sýnt á kortum fyrrum, en átti að vera “Konungsfell”. Eftir stendur nefnt “Stóra-Kóngsfell”. Örnefnaruglingur þessi hefur verið tilefni til landamerkjadeilna og dómsmála í gegnum tíðina.
Flest eru brunahraunin svonefndu frá mismunandi tímaskeiðum runnin niður að Húsfelli úr gígum vestan við Kóngsfell (Stóra-Kónsgfell) norðvestan Bláfjalla. Stærsti gígurinn þar er Eldborg austan Drottningar.
Húsfellsbruni er örnefni sem nær yfir mörg nútímahraun og tvö söguleg hraun, Mið-Húsfellsbruna og Elsta-Húsfellsbruna, sem talin eru hafa runnið árið 950. Hraunin hafa þó hlotið önnur örnefni. Hraunið er á köflum úfið, brotið og þakið mosa. Í Húsfellsbrununum leynast eldri hraun, eins og Strípshraun og Stampahraun, sem eru oft töluvert meira gróin. Þá er einnig mikið um gjótur og niðurföll á svæðinu sem sjást vel þegar flogið er yfir svæðið.
Litluborgir – gervigígur.
Í hrauninu austan og sunnan við Helgafell er að finna fjölda gervigíga og kynjamyndir sem að öllum líkindum hafa myndast þegar Hellnahraun rann yfir grunnt vatn á svæðinu í kringum árið 950. Hluti af svæðinu hefur verið nefnt Litluborgir en þar er að finna áhugaverðar hraunborgir og hraunmyndanir. Sunnan Helgafells er Skúlatúnshraun.
Húsfellsbruna er getið í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar um “Garðakirkjuland”: “Sunnan Einihlíðar er Húsfellið fyrrnefnda, og kringum Húsfell heitir Húsfellsbruni. Norður af því heita Grænulautir. Vestur frá Húsfelli er gamalt fróðlegt eldfjall, sem heitir Búrfell.”
Í “Rannsókn á Kóngsfellshrauni með fjarkönnun og landupplýsingum“, sem Tryggvi Már Sigurjónsson gerði í Jarðvísindadeild Háskóla Íslands 2021, segir m.a.:
Kóngsfellshraun
Kóngsfellshraun er er myndað við eldgos í Brennisteinsfjallakerfinu. Kóngsfellshraun er talið hafa orðið til við eldvirkni kringum árið 950. Kóngsfellshraun er partur af stærri hraunbreiðu sem er kölluð Húsfellsbruni II eða Mið-Húsfellsbruni. Ekki er þekkt hvort Kóngsfellshraun hafi myndast í sama eldgosi og Húsfellsbruni eða hvort hraunin sem hafa myndað Húsfellsbruna einni samfelldri eða ósamfelldri goshrinu. Í þessari ritgerð var notast við kort Jóns Jónssonar (1978) sem viðmið fyrir Kóngsfellhraun ásamt korti Helga Torfason (1999).
Á myndinni má sjá Kóngsfellshraun ásamt Húsfellsbruna eins og var sett fram Helga Torfasyni o.fl. (1999). Jón Jónsson setti ekki fram áætlun á rúmmáli Kóngsfellshrauns, en hann setti fram áætlun á rúmmáli Rjúpnadyngjuhrauns og Eldborgarhrauns sem hann taldi vera 0,36 km3 hvort. Hans nálgun á áætlun á rúmmáli er að miða við 20 metra meðalþykkt og að áætla flatarmál þess hluta hraunanna sem eru huldir öðru hrauni.
Upptök Kóngsfellshrauns er frá gossprungu sem liggur við og er að hluta til í Stóra-Kóngsfelli sem er 1500 m löng og stefnir N40°.
Húsfellsbruni.
Stærstu gígarnir liggja á hásléttu við suðvesturhlíð Stóra-Kóngsfells en í suður og norður frá gígunum eru aflíðandi hlíðar sem hraunið hefur runnið niður eftir. Frá tveimur stærstu gígunum hefur verið mesta hraunrennslið. Hraunrennslið úr gígunum var í norðurátt meðfram vesturhlíð Stóra-Kóngsfells og í austurátt meðfram suðurhlíð Stóra-Kóngsfells þar sem það rann áfram milli Stóra-Kóngsfells og Drottningar og þaðan dreifði það sér til vestur, norður og austur. Tvö stór hraunflóð runnu í norður og vestur en minni flæddu í austur meðfram Rauðuhnúkum. Á svæðinu í kringum Stóra-Kóngsfell og Drottningu er hraunið úfið og einkennist af hraunrásum, hraunflóðum og hraunsepum sem hafa runnið yfir hvort annað.
Kóngsfellshraun og Húsfellsbruni
Það hraun sem skoðað hefur verið í þessari ritgerð er Kóngsfellshraun eins og Jón Jónsson (1978) lýsti því. Eftir nánari skoðun á því má vel búast við því að Kóngsfellshraun gæti verið talsvert umfangsmeira en Jón taldi. Hraun það sem Jón telur vera dyngjuhraun og nefndi Rjúpnadyngjuhraun og liggur milli vestur og norðurhraunflóðanna. Það telst líklegt að það sem Jón Jónsson (1978) taldi vera upptök Rjúpnadyngjuhrauns eru aðeins risgjótur og því ekki gosgígur. Síðari kortlagning af svæðinu sem er á vegum Orkustofnunnar hefur breytt skilgreiningu hrauna á svæðinu. Rjúpnadyngjuhrauni var skipt upp í Húsfellsbruna I og II og einnig var Eldborgarhraun skilgreint sem Húsfellsbruni II.
Kóngsfellshraun hafi myndast í sama eldgosi og Húsfellsbruni eða hvort hraunin sem hafa myndað Húsfellsbruna einni samfelldri eða ósamfelldri goshrinu. Jón Jónsson (1978) gaf þó vísbendingar um að Rjúpadyngjuhraun (Húsfellsbruni) gæti verið hluti af Kóngsfellshrauni þar sem bergfærði þeirra voru líkar.
Eins og sést er svæðið sem er skilgreint sem Húsfellsbruni gríðarlega stórt. Svæðið sem það þekur er 29 km2 að stærð og lágmarksrúmmál sem var reiknað er 0,3 km3.
Samanborið við áætlanir Jóns Jónssonar á rúmmáli Rjúpnadyngjuhrauns og Eldborgarhrauns sem hann áætlaði vera 0,36 km3 að rúmmáli eru þetta svipuð gildi. Þó menn séu ekki sammála skilgreiningu hraunanna er ljóst að þetta eru rúmmálsstór hraun sem finnast á þessu svæði.
Það má telja víst að rannsóknir á Húsfellsbruna og Kóngsfellshrauni hafi verið ófullnægjandi og þarfnist frekari rannsókna. Það er meiri þörf á að rannsaka þessi svæði eftir að gos hófst í Geldingadölum. Það eru því auknar líkur á því að það muni gjósa í fleiri eldstöðvakerfunum sem eru í næsta nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Það er því mikilvægt að fá betri mynd á það hvaðan hraunin komu og hversu umfangsmikil eldgosin sem mynduðu þau voru. Það er mikilvægt að vita það til þess að geta áætlað hvert hraun mun geta flætt og hversu langt það getur runnið. Hraun af sömu stærðargráðu og Húsfellsbruni gæti hæglega ógnað byggð.
Eldstöðvar og hraun kringum Stóra-Kóngsfell
Húsfellsbruni – Herforingjaráðskort frá 1903.
Stóra-Kóngsfell (596 m) er móbergsstapi sem liggur um 12 km frá Reykjavík og 2 km frá skíðasvæði Bláfjalla. Tvö misgengi ganga í gegnum það. Frá suðvesturhlíð Stóra-Kóngsfells liggur háslétta sem nær vestur til Grindaskarða. Rétt austan við Stóra-Kóngsfell er Drottning (513 m) sem er einnig móbergsstapi en þó töluvert smærri.
Hólmshraun – uppdráttur Jón Jónsson.
Hólmshraunin er að finna í suðaustur átt frá Höfuðborgarsvæðinu. Hraunbreiður þeirra teygja anga sína í Heiðmörk við Reykjavík og hafa runnið yfir hluta af Leitarhrauni.
Hraunin liggja á svæði norður frá Þríhnúkum og Stóra-Kóngsfelli, austan frá Húsfelli að Rjúpnadalshnúka og niður í Heiðmörk. Hólmshraun er ekki eitt hraun heldur nokkur hraun sem eiga upptök sín á svæðinu milli Bláfjalla og Þríhnúka.
Bláfjöll – Eldborg er einn þriggja gíga af eldborgargerð hjá fjallinu Kóngsfelli, sem er áberandi fjall í Bláfjallafjallgarðinum.
Þegar þunnt hraun flæðir upp úr gossprungu myndar það smám saman litla gíga úr hraunslettum. Við það verður til glóandi hrauntjörn innan gígveggjanna. Hraunið slettist og streymir jafnvel yfir barmana sem hækka og þykkna. Þannig myndast eldborg. Gígveggirnir verða brattir efst og þunnir. Verði veggirnir mjög háir finnur kvikan sér stundum leið í gegnum þá.
Eldborg er stærsti gígur á 1,5 km langri gossprungu með norðaustur stefnu sem úr rann hraun sem er nefnt Hólmshraun V af Jóni Jónssyni (1972). Eldborg liggur um 0,5 km austan við Drottningu. Samkvæmt jarðfræðikorti er hraunið frá Eldborg partur af hraunbreiðu sem er nefnd Húsfellsbruni I. Það hraun rann vestur að Húsfelli og norðan Selfjalls.
Á hásléttunni sem liggur vestur frá Stóra-Kóngsfelli eru Þríhnúkar sem samanstanda af þrem hnúkum, af þeim eru tveir gjallhnúkar og einn móbergshnúkur. Tvö þekkt hraun hafa komið frá Þríhnúkum, Þríhnúkahraun eldra og yngra. Þríhnúkahraun eldra hefur náð alla leið til Helgafells og hefur líklega runnið að einhverju leyti að Stóra-Kóngsfelli. Bæði hraunin eru talin hafa gosið fyrir meira en 4500 árum .
Eyra.
Vestan við Stóra-Kóngsfell og norðaustan frá Þríhnúkum er einn stakur gígur sem Jón Jónsson (1978) nefnir Eyra. Kóngsfellshraun rennur alveg upp að honum og hylur hraunið sem hefur komið frá honum. Samkvæmt Jóni Jónssyni er Strípshraun sem liggur sunnan Elliðavatns komið frá þessum gíg. Um 5 kílómetra vegalengd er þakin yngra hrauni milli Eyra og Strípshrauns. Norðurhluti Kóngsfellshrauns rennur að Strípshrauni og hefur runnið yfir hluta þess.
Heimild m.a.:
-Rannsókn á Kóngsfellshrauni með fjarkönnun og landupplýsingum, Tryggvi Már Sigurjónsson, Háskóli Íslands, 2021.
-Örnefnaskrá, Ari Gíslason; “Garðakirkjuland”.
Gígur í Stóra-Kóngsfelli.