Færslur

Flórgoði

Gengið var um Húshöfða og Höfðaskóg þar sem Skógræktarfélag Hafnarfjarðar hefur aðstöðu á austanverðum Beitarhúsahálsi. Félagið hefur stundað þarna trjárækt frá 1956, fyrst á 32 ha landi við Húshöfða, en síðan hefur félagið aukið ræktunarsvæði sitt til muna í Höfðalandi.

Stekkur

Húshöfði – stekkur.

Góðir og greiðfærir stígar liggja um skóginn í hlíðinni og ef fólk vissi ekki betur mætti vel halda að verið væri að ganga um skóg einhvers staðar í útlandinu. Skógarþrestir höfðu hópað sig saman í kvöldkyrrðinni og fóru um loftin í stórum flokkum.
Hvaleyrarvatn er neðan við hlíðina. Það er í fallegri kvos sem er umlukin lágum hæðum á þrjá vegu. Að vestan er Vatnshlíð, austanvert stendur Húshöfði, Miðhöfði og Fremstihöfði og Selhöfði að sunnan. Vestan vatnsins er Selhraun sem lokar fyrir afrennsli þess úr kvosinni. Áður fyrr höfðu Ásbændur og Hvaleyrarbændur í seli við vatnið og sjást frá hlíðinni tóftir undir Selhöfða þar sem selstöðurnar munu hafa verið.

Selhöfði

Selhöfði – fjárborg.

Húshöfði dregur nafn sitt af gömlu beitarhúsi eða fyrrum selstöðu frá Jófríðarstöðum og eru tóftir þess enn sýnilegar í höfðanum. Við Vatnshlíðina vestan við Hvaleyrarvatn er skógræktarsvæði Hákonar Bjarnasonar skógræktarstjóra ríkisins sem átti þar sumarhús og lagði gjörva hönd á plóginn við ræktunarstörfin.
Á síðustu árum hefur Skógræktarfélagið lagt göngustíga um Höfðaskóg og komið upp trjásýnireit sem áhugavert er að skoða. Ganga kringum Hvaleyrarvatn er auðveld því göngustígur hefur einnig verið lagður umhverfis það. Að þessu sinni var fyrst gengið að hlöðnum stekk eða gerði norðvestan við skála Skógræktarfélagsins. Hann tengist sennilega notkun beitarhústófta austar á hálsinum. Þar er nokkuð stór beitarhústóft og önnur minni skammt norðvestar. Hún virðist nokkuð eldri og er mun jarðlægari. Ekki er ólíklegt að beitarhúsið, sem var brúkað frá Jófríðarstöðum, hafi verið byggt þar upp úr eldri selstöðu eftir að hún lagðist af.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn.

Skammt austar í hlíðinni er minningarlundur um Kristmundsbörn er munu hafa tengst upphafi skógrækar í Hafnarfirði. Skammt frá er Ólafslundur, til minningar um Ólaf Daníelsson, skógræktarmann.
Gengið var niður að vatninu og suður með því að austanverðu. Skammt sunnan við skála St. Georgs gildisskáta, sem stendur í miðri hlíð Kjóadalsháls, var komið að hálfgerðu nesi er skagar út í vatnið undir Selhöfða. Þar er komið að tóftarbrotum Ássels. Lúpínan er farin að teygja sig í selstöðuna. Einstaka blágresi reynir lyfta kolli sínum upp fyrir hanan til að ná í a.m.k. einhverja sólargeisla.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

Skammt utar með vatninu eru tóftir Hvaleyrarsels. Það mótar enn fyrir seltóftunum og auðvelt að glöggva sig á húsaskipan. Trjágróður er farin að þrengja að rústunum. Saga tengist selinu. Hún segir frá nykri, sem átti að vera í vatninu og láti seljamatsstúlku í selinu (sjá HÉR).

Seldalur

Tóft í Seldal.

Haldið var áfram suður með vatninu þangað til komið var upp á veginn áleiðis í Seldal. Sunnan hans er hlaðinn stekkur og fyrirhleðsla undir hraunbakka. Selhraunshóll, stakur klofinn hraunhóll, sést þaðan í vestri. Hóllinn er áberandi kennileiti og vegvísir þegar Stórhöfðastígur var fjölfarin alfaraleið milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur á fyrri tíð. Í honum er tófugreni að sunnanverðu.
Fremur létt er að ganga upp í hlíðar Selhöfða eftir gamla akveginum og fæst þá góð sýn yfir svæðið. Suðvestan hans er svonefndur Seldalshálskofi, tvískipt tóft á hálsinum. Ekki eru neinar kunnar heimildir um hvaða hlutverki kofinn gegndi, en líklega hefur hann verið smalaskjól eða hluti selstöðunnar handan höfðans, s.s. stekkur. Hálsinn er þarna mjög vel gróinn, en mikil jarðvegseyðing allt um kring. Auðvelt er að ímynda sér að þarna hafi verið gróðursælt áður fyrr og því ekki ólíklegt að þar hafi verið útselstaða um tíma.

Miðhöfði

Haldið var á Selhöfða. Uppi á honum eru a.m.k. tvö mannvirki. Annað, það syðra og stærra hefur að öllum líkindum verið tvískiptur stekkur, rétt eða fjárborg, en hið nyrðra hefur líklega verið kví eða önnur afmörkun. Grjóthleðslurnar gefa útlitið glögglega til kynna, en sennilega hafa veggir verið tyrfðir, en þeir síðan horfið ásamt öðrum gróðri á höfðanum og grjótið þá fallið bæði út og inn í mannvirkið. Af Selhöfða er mjög gott útsýni yfir Seldal og Stórhöfða í suðaustri og Hvaleyrarvatn og Bleiksteinsháls í norðvestri. Einnig yfir að Undirhlíðum, Lönguhlíðum, Helgafelli, Búrfelli og Húsfelli í austri.

Stórhöfði

Stórhöfði.

Gengið var norður Selhöfða, um Kjóadalaháls og síðan yfir á Húshöfða. Þaðan var haldið til suðausturs að Miðhöfða. Bæði efst á Húshöfða og á honum suðvestanverðum eru vörður. Fuglaflokkurinn hélt för sinni áfram, fram og til baka yfir skóginum. Nánar um Höfðavörðurnar HÉR.
Frábært veður – sól og blíða. Gangan tók 59 mín.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel – uppdráttur ÓSÁ.

 

Hvaleyrarvatn

Eftirfarandi umfjöllun um skógrækt Skógræktarfélags Hafnarfjarðar birtist í 24stundir í ágústmánuði árið 2008. “Mörg hundruð hektarar af skógrækt með yfir 200 tegundum af trjám – Náttúruperla í útjaðri Hafnarfjarðar. Í Hafnarfirði leynist sannkölluð náttúruperla sem enginn ætti að láta framhjá sér fara. Þar eru mörg hundruð hektarar af skógrækt með yfir 200 tegundum af trjám og runnum.

HólmfríðurÍ útjaðri Hafnarfjarðar leynist sannkölluð náttúruperla, fleiri hundruð hektarar af skógræktar og uppgræðslulandi.
„Hér er góður andi,“ segir Hólmfríður Finnbogadóttir, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Hafnarfjarðar en félagið hefur umsjón með upplandi bæjarins. „Við erum rík hér í Hafnarfirði að eiga þetta fallega útivistarsvæði alveg við bæjardyrnar. Þetta er ákaflega fallegt og hér er margt að sjá. Hér höfum við opnað fjóra útivistarskóga. Þetta eru glæsilegir skógar sem eru opnir almenningi. Svo erum við með trjásýnilund hérna rétt fyrir neðan þar sem búið er að gróðursetja og merkja yfir 200 tegundir af trjám og runnum. Steinar Björgvinsson sér um trjásafnið en hann er ræktunarstjóri gróðrastöðvarinnar Þallar ehf sem félagið á.“

Fjölbreytni og fegurð
Nýverið var opnuð skemmtileg útikennslustofa í Höfðaskógi enda koma bæði grunnskólar og leikskólar í heimsókn á vorin. „Á vorin koma grunnskólanemar og Fræðsluaðstaðagróðursetja tré og hlúa að gróðri en hver skóli er með sína landnemaspildu. Við reynum að auka fjölbreytnina í skógunum. Í gamla daga var þetta svo einsleitt en í dag setjum við rósir og alls kyns runna í skóginn enda viljum við hafa skóginn fjölbreyttan og fallegan. Við prófum okkur líka áfram og könnum hvað lifir í náttúrunni. Við söfnum íslenskum fræjum, berjum og öðru og fáum það líka sent víða að úr heiminum,“ segir Hólmfríður að lokum og hvetur alla til að koma og skoða þetta fallega svæði.”

Útikennslustofan var formlega tekin í notkun laugardaginn 3. maí, kl. 14:00. Það voru hjónin Hörður Zóphaníasson og Ásthildur Ólafsdóttir sem gáfu Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar peningagjöf á 60 ára afmæli félagsins árið 2006. Gjöfinni fylgdi sú ósk að hún yrði notuð til að fræða ungt fólk um gildi skógræktar og uppgræðslustarfs og til að sýna hversu fjölbreytt not má hafa af skógum. Með þetta að leiðarljósi unnu starfsmenn og stjórn félagsins að því að þróa og móta þetta verkefni, sem nú er orðið að veruleika.

Minjar
BeitarhúsÍ Húshöfða, líkt og í næstu höfðum, Fremstahöfða, Selhöfða og Stórhöfða eru minjar fyrrum búskaparháttar, flestar tengdar selstöðunum, Hvaleyrarseli og Ásslei, við austanvert Hvaleyrarvatn.
Húshöfði dregur nafn sitt af gömlu beitarhúsi frá Jófríðarstöðum og eru tóftir þess enn sýnilegar við höfðann. Á síðustu árum hefur Skógræktarfélagið lagt göngustíga um Höfðaskóg og komið upp trjásýnireit sem áhugavert er að skoða. Ganga kringum Hvaleyrarvatn er í beinum tengslum við skógræktarsvæðið. Leiðin er auðveld því göngustígur hefur einnig verið lagður umhverfis vatnið.
Hlaðinn stekkur eða gerði er norðvestan við skála Skógræktarfélagsins. Hann tengist sennilega notkun beitarhústóftarinnar austar á hálsinum. Þar er nokkuð stór beitarhústóft og önnur minni skammt norðvestar. Hún virðist nokkuð eldri og er mun jarðlægari. Ekki er ólíklegt að beitarhúsið, sem var brúkað frá Jófríðarstöðum, hafi verið byggt þar upp úr eldri selstöðu eftir að hún lagðist af. Innan við beitarhúsatóftina er fyrrnefnd útikennslustofa.

Rós

Skammt austar í hlíðinni er minningarlundur um Kristmundsbörn er munu hafa tengst upphafi skógrækar í Hafnarfirði. Þar hjá er Ólafslundur til minningar um Ólaf Daníelsson, skógræktanda.
Efst á höfðanum er Höfðavarðan

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar var stofnað árið 1946 og er því 62 ára (2008). Skóglendi þess eru Höfðaskógur, Seldalur, Skólalundur, Undirhlíðar og Gráhelluhraun. (Sjá meira um Hvaleyrarvatnssvæðið HÉR).

Heimild:
24stundir 6. ágúst 2008 – eftir Svanhvíti Ljósbjörgu.Húshöfði

Hvaleyrarvatn

Þegar skoðað er svæðið meðfram Hvaleyrarvatni má sjá þar nokkra nafngreinda höfða að austanverðu; Húshöfða, Selhöfða, Miðhöfða (Þormóðshöfða) og Efstahöfða (Fremstahöfða), auk Stórhöfða að suðaustanverðu. Auk þess eru þarna tveir hálsar; Kjóadalaháls og annar ónafngreindur í vestur frá Fremstahöfða (Efstahöfða).

Efsta

Alla þessa höfða og hálsa prýða vörður, hér nefndar Höfðavörður, reyndar tvær á Húshöfða er virðast greinast í Húshöfðavörðu (vestar) og Kjóadalsvörðu (austar). Sumar eru landamerkjavörður. Kjóadalsháls er einnig nefndur Langholt. Þetta þarfnaðist nánari skýringa. Spurning vaknaði og um hvort tilgangur varðanna hefði einungis verið sem kennileiti efst á annars áberandi stöðum eða ávísun á Fjárhús í Seldaleitthvert annað. Spurningin fékk áhugaverð svör.
Skoðum fyrst skráðar heimildir um svæðið. Í örnefnalýsingu AG fyrir Ás segir m.a.: “Svo er hár hnúkur syðst á fjalli, sem heitir Vatnshlíðarhnúkur. Vestur af honum hallar fjallinu niður og myndar þar háls, sem nær niður á Hamranesið fyrrnefnda og heitir Bliksteinaháls eða Bleiksteinaháls. Á honum eru tveir steinar ljósir að lit, sem heita Bliksteinar. Þeir eru í hálsinum norðanverðum og eru á merkjum móti Hvaleyri. (Í örnefnalýsingu Hvaleyrar er getið um Bleikstein, landamerki á norðanverðum Bleiksteinshálsi.)
Fjárborg á SelhöfðaSunnan við Vatnshlíðarhnúkinn fyrrnefnda er hlíð með giljum og skógarbörðum, sem hallar niður að Hvaleyrarvatni, og heitir hlíð þessi Vatnshlíð. Að norðan eru merki Jófríðarstaða svo nærri vatninu, að þegar hátt er í vatninu, getur Jófríðarstaðabóndinn vatnað hesti sínum í því.
Sunnan við vestri endann á vatninu er gríðarstór höfði eða hóll, sem heitir Selhöfði. Á honum er merki móti Hvaleyri. Sunnan við vatnið er dálitill hryggur, sem nefndur er Kjóadalsháls. Svo er landið mjótt, því nú ná nöfnin þvert yfir land jarðarinnar. Svo er gríðarstór dalur, helmingur grasflöt, hitt moldarflag; heitir hann Miðhöfði. Þar upp
af er svo Efstihöfði, og svo skerst landið í odda við svonefnt Steinhús, neðst í gjánni, rétt fyrir neðan túnið í Kaldárseli. Þar myndar það tungu.” Hér er hvorki varðan á “Húshöfða” austanverðum né aðrar slíkar nefndar.

Fremsthöfðavarða

Í örnefnalýsingu GS fyrir Ás segir m.a.: “Landamerkjalína liggur úr gilinu um Vatnsendann og þaðan upp Kjóadalaháls í Kjóadalahálsvörðu. Frá Markavörðunni liggur lína um Kjóadali upp í Miðhöfðavörðu á Miðhöfða, þaðan í Fremstahöfðavörðu á Fremstahöfða og þaðan í Steinhús, sem í gömlum skjölum nefnist Steinhes, og er þar hornmark margra landa.

Efstahöfðavarðan

Selhöfði eða Hvaleyrarselhöfði er sunnan við Hvaleyrarvatn, en það er allt í Áslandi. Sunnan undir höfðanum eru miklar rústir eftir Hvaleyrarsel. Vestan við Selhöfðann er svo alldjúpur dalur, sem heitir Seldalur, sem að vestan myndast af hæstu hæðinni á þessum slóðum, sem heitir Stórhöfði. Hraunið milli Hamraness og Stórhöfða og frá Hvaleyrarvatni að austan og vestur á brún, þar sem landið hækkar, heitir Selhraun.” Hér er “Húshöfðavarðan eystri” nefnd “Kjóadalsvarða”. Ef vel er skoðað er það bara eðlilegt því Húshöfðanum sleppir þar sem hann er hæstur að handan og önnur óskilgreind hæð, Kjóadalsháls, vestan Kjóadals, tekur við. Það er því bæði eðlilegt og sjálfsagt að hæðin sú fengi sérstakt nafn. Svo virðist sem Langholtið sé efsti hluti Kjóadalshálsar. Þá er að sjá að Fremstihöfði og Efstihöfði séu einn og hinn sami.

Varðan á Selhálsi

Gengið var að vörðunum, fyrst á Fremstahöfða. Varðan sú er enn heilleg. Austan undir höfðanum eru mannvistarleifar; hálfhlaðið fjárhús. Líklega er hér um að ræða ætlaðar hleðslur frá Kaldárseli, enda eru bæði fjárskjól, gerði, rétt, fjárborg og selstaðan  ekki víðs fjarri.
Lítið er um stöðuvötn og læki á Reykjanesi en Kleifarvatn sem er mest allra vatna á Reykjanesskaganum er á sjálfu gosbeltinu. Þó eru víða smávötn (Djúpavatn, Grænavatn, Seltjörn, Snorrastaðatjarnir, Hvaleyrarvatn og Urriðavatn) og tjarnir (Augun í Krýsuvík, Hraunsfells-Vatnsfells vatnstæðið, Fagradals-Vatnsfells vatnstæðið), bæði í lægðum og gígum. Vatnsstæðin og sum vötnin hafa þótt aðlaðandi selstæði, t.a.m. Hvaleyrarvatn, Seltjörn og Snorrastaðatjarnir sem og Kaldá við Kaldársel.

Skammt sunnan við Miðhöfðavörðuna eru hleðslur lítils skjóls, sennilega fyrir smala eða til yfirsetu. Skjólið hverfur í lúpínu.
Í örnefnalýsingu Hvaleyrar segir m.a.: “Miðhöfði eða Þormóðshöfði Skjólið öðru nafni. Hann er allmiklu lægri en Selhöfðinn. Þar suðaustar er svo þriðji höfðinn, sem heitir Efstihöfði.”
Varðan á Langholti við Kjóadalaháls (Kjóadalshálsvarða, ef tekið er mið af lýsingu GS), virðist hafa verið byggð upp úr fyrrum fjárborg eða skjóli. Sunnan vörðunnar má enn sjá leifar af hringlaga hleðslu, ef vel er að gáð (áður en lúpínan nær að þekja umhverfið).
Varðan á Kjóadalahálsi vísar á hlaðið skjól skammt sunnar. Skjólið hefur verið endurbyggt að hluta. Óvíst er hvaða öðrum tilgangi hleðslur þessar hafa þjónað.

Hleðslur af skjóli

Á Selhöfða er varðan augljós vísbending á fjárborg, gerði eða litla rétt (jafnvel stekk) efst á honum. Skammt frá má sjá leifar af öðrum mannvistum á höfðanum. Fjárborgin, ef um slíkt hefur verið að ræða, er orðin nánast jarðlæg. Hún virðist hafa verið hlaðin úr torfi og grjóti, en veðrun eytt torfinu svo grjótið féll smám saman bæði inn og út frá veggjunum. Niður  undir sunnanverðum höfðanum eru leifar af stekk, skjóli eða tvískiptu fjárhúsi.
Kort af HúshöfðasvæðinuVarðan á Stórhöfða virðist einungis hafa þjónað tvennum tilgangi; annars vegar hafi hún verið gerð einhverjum til minningar og/eða skemmtunar eða sem leiðarmerki á vörðuðum Stórhöfðastígnum; gamalli þjóðleið millum Áss og Krýsuvíkur.
Varðan efst á Húshöfða virðist vera ábending um gamla beitarhúsatóft frá Jófríðarstöðum suðvestan í höfðanum. Þar í nágrenninu má og sjá fleiri mannvistarleifar tengdum fjárbúskap.
Merkt gönguleið liggur nú um svæðið sem tiltölulega auðvelt er að fylgja milli höfðanna. Minjarnar eru flestar skammt frá gönguleiðinni. Þá er hið ágætasta útsýni af höfðunum yfir umhverfið.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.
Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Ás.

Miðhöfðavarða

Hvaleyrarvatn

Í Náttúrufræðingnum 1998 segir m.a. að “Hvaleyrarholt og Ásfjall eru að mestu úr grágrýti sem er yngra en 0,7 milljón ára og undir Hvaleyrarvatni og Ástjörn er einnig að finna grágrýti frá sama tíma. Hraunið sem stíflar vötnin er hluti af Hellnahrauni, sem er dæmigert helluhraun, með ávölum sprungnum hraunkollum, að mestu gróðurlaust nema í gjótum og bollum og sjást þess engin merki að það hafi nokkurn tíma verið gróið að marki. Hellnahraun er í raun tvö hraun sem hafa verið nefnd Yngra- og Eldra-Hellnahraun.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn. Selhöfði og Stórhöfði fjær, en Húshöfði og Vatnshlíð nær.

Hraunin eru ákaflega lík að ytri ásýnd og nokkuð erfitt að greina þau að. Eldra-Hellnahraun er um 2000 ára gamalt og líkt og Yngra-Hellnahraun komið frá eldstöðvum í eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla og hefur runnið svipaða leið til sjávar. Yngra-Hellnahraun hefur einnig verið nefnt Tvíbollahraun, en það hefur að öllum líkindum runnið í sömu goshrinu og Breiðdalshraunið á síðari hluta 10. aldar og komið úr Tvíbollum í Grindaskörðum (Sigmundur Einarsson o.fl. 1991).
Út frá þessu má ætla að Hvaleyrarvatn og Ástjörn hafi orðið til fyrir u.þ.b. 2000 árum.”
Lítill lækur rennur frá Ásfjalli í Ástjörn, en í Hvaleyrarvatn hefur einungis safnast yfirborðsvatn eftir rigningar og snjóa. Hið síðarnefnda er því háðari veðursveiflum frá einum tíma til annars.

Selhöfði

Selhöfði – stekkur.

Ómar Smári Ármannsson skrifaði grein í Fjarðarpóstinn 2003 undir fyrirsögninni: “Á Gangi við Hvaleyrarvatn”. Í greininni er m.a. lýst gönguferð við vatnið, tóftum, seljum og borgum:
“Hvaleyrarvatn er í kvos sem er umlukin hæðardrögum á þrjá vegu; Vatnshlíð að norðanverðu, Húshöfða að austanverðu og Selhöfða að sunnanverðu. Selhraun (Hellnahraun) lokar fyrir afrennsli vatnsins að vestanverðu.

Vatnshlíð

Vatnshlíð 1960 – hús Hákons Bjarnasonar.

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar hóf uppgræðslu við vatnið árið 1956. Nú er svæðið orðið kjörið útivistarsvæði. Göngustígar liggja um skóginn og í kringum vatnið, um 20 mínútna léttur gangur. Á svæðinu eru einnig nokkrar minjar frá tímum fjárbúskapar, sem gaman er að skoða, auk þess sem torfhlaðin hafa verið ágæt skeifuskjól á stöku stað. Hús Skógræktarfélags Hafnarfjarðar er í Húsmúla, en í Selhöfða er skáli Gildisskátanna. Sumarhús er undir Vatnshlíðinni, en vestan hans er Bleikingsháls.

Ákjósanlegt er að byrja göngu frá bílastæðinu norðan við vatnið.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

Í Húshöfða má t.d. sjá tóft af hlöðnum stekk efst á hæð, Beitarhúsahálsi, norðan húss Skógræktarfélagsins. Sunnan hússins er nokkuð stór tóft í hlíðinni. Það er rúst beitarhúss, Veturhúss, frá Jófríðarstöðum, en var síðast notað árið 1922 frá Ási. Rétt vestar eru jarðlægar leifar, líklega af fyrrum selstöðu. Þar skammt sunnar í hlíðinni við göngustíg er minnisvarði í svonefndum Systkinalundi. Hann er um Kristmundarbörn, en þau létu eftir sig minningarsjóð til styrktar skógræktarstarfi í Hafnarfirði.

Ássel

Ássel.

Sunnan við Hvaleyrarvatn, undir Selhöfða eru tóftir tveggja selja. Austar eru tóttir, líklega sels frá Ási, niður undan skátaskálanum, en vestar, á grónum tanga, eru tóftir Hvaleyrarselsins. Þar lagðist selsbúskapur af eftir að smali frá Hvaleyri fann selsstúlku látna og illa leikna niður við vatnið. Talið var að nykur, sem átti að hafa haldið til í vatninu annað hvert ár, hafi ráðist á og banað stúlkunni. Nykurinn átti, skv. sögnum, að búa hitt árið í Urriðakotsvatni, en hann mun hafa drepist þar frostaveturinn mikla áríð 1918. A.m.k. sást aldrei til hans eftir það.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel – stekkur.

Vestan við veginn, sem liggur vestan við vatnið, eru hleðslur í klapparkvos. Þar gæti hafa verið stekkurinn frá Hvaleyrarseli.
Sunnan við Selhöfða er Seldalur, þangað sem vegurinn liggur. Sunnan hans er Stórhöfði. Uppi á hálsinum, vinstra megin við veginn þegar komið er að Seldal, er tótt. Norðan hennar er ágæt gönguleið til norðurs upp á Selhöfða. Þegar þangað er komið er beygt til hægri, uppá klapparhæðina, sem þar er. Á henni eru leifar gamals stekkjar, auk annars minni og eldri skammt austar. Auðvelt er fyrir vant fólk að koma auga á minjarnar, en erfiðara fyrir aðra. Þær eru augljósastar þegar staðið er norðan við hleðslurnar og horft í átt að Stórhöfða. Þá sjást þær vel. Í norðanverðum Seldal er stekkur og auk þess óljósar seltóftir á grónum hvammi.

Stórhöfði

Nátthagi við Stórhöfða.

Vestan við Stórhöfða er grjóthlaðinn nátthagi með fjárskjólum. Líklegt má telja að hafi tengst selstöðunni í Seldal fyrrum. Vestan við Hvaleyrarvatn eru einnig minjar, bæði hlaðinn stekkur og óljósar jarðlægar tóftir.
Vörður eru á höfðunum fimm umleikis. Flestar eru þetta landamerkjavörður frá bæjunum er landið tilheyrði fyrrum.
Ágæt gönguleið er niður af Selhöfða til vesturs, á milli furulunda. Þá er komið að vatninu á milli seljanna og auðvelt að ganga meðfram því til baka – að bílastæðunum. Þessi ganga tekur u.þ.b. klst.”

Sjá einnig MYNDIR frá Hvaleyrarvatni og nágrenni..

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 3.-4. tbl. 01.05.1998, bls. 276.
-Fjarðarpósturinn, 17. tbl. 30.04.2003, Á Gangi við Hvaleyrarvatn – Ómar Smári Ármannsson, bls. 11.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn – minjar.

Hvaleyrarvatn

Hjálmar Rögnvaldur Bárðarson, skipaverkfræðingur og siglingamálastjóri, og eiginkona hans, Else Sörensen Bárðarson, létu eftir sig miklar eignir en þau áttu enga afkomendur. Else lést 28. maí 2008 en Hjálmar tæplega ári seinna 7. apríl 2009. Létu þau eftir sig eignir og fjármuni sem þau ánöfnuðu nokkrum aðilum. Landgræðsla ríkisins og Landgræðslusjóður hlutu 30% af eigum þeirra hvert um sig, en það sem eftir var skiptist jafnt milli Fuglaverndarfélags Íslands og þriggja safna.

Rögnvaldur R. Bárðarson

Rögnvaldur R. Bárðarson.

Hjálmar óskaði eftir því í erfðaskrá sinni að fénu sem rann til Landgræðslusjóðs yrði varið til landgræðsluskógræktar „þar sem áður var lítt gróið bersvæði, ef til vill þar sem gróðursett lúpína hefur gert landsvæði vænlegt til skógræktar“. Stofnaður var minningarsjóður um hjónin sem starfa mun í 10 ár með það markmið að styrkja rannsóknir í landgræðslu og skógrækt með sérstakri áherslu á vistfræði lúpínu og í landgræðsluskógrækt með lúpínu. Jafnframt var Hjálmarssjóður settur á laggirnar sem veitir styrki til landgræðsluverkefna. Hjálmarssjóður hefur m.a. gert samning við Skógræktarfélag Hafnarfjarðar um að gróðursetja í nokkurra hektara landsvæði í Vatnshlíð norðan Hvaleyrarvatns þar sem áður var berangur en lúpínan hefur breytt svæðinu í vænlegt ræktunarland.

Ætlunin er að útbúa minningarreit um Hjálmar og Else í Vatnshlíðinni og vinnur Þráinn Hauksson landslags arkitekt að hönnun reitsins.

Else Sörensen Bárðarson

Else Sörensen Bárðarson.

Gróðursetning í Vatnshlíð hófst með formlegum hætti laugardaginn 17. september 2011 þegar um 30 sjálfboðaliðar mættu kl. 10.00 að morgni og plöntuðu stálpuðum trjám fram til kl. 14.00 um daginni. Að gróðursetningunni lokinni þáðu sjálfboðaliðarnir kaffi og meðlæti í Selinu í Höfðaskógi. Hjálmar var mikill áhugamaður um náttúru Íslands og kunnur ljósmyndari. Fuglaljósmyndir hans skipuðu stóran sess í lífsstarfinu og þessvegna var lögð sérstök áhersla á að gróðursetja berjarunna, reynitré og fleiri tegundir sem hafa sérstakt gildi fyrir fugla. Næstu sumur verður haldið áfram að planta út fjölbreyttum trjágróðri í lúpínubreiðurnar í Vatnshlíðinni og skapa þar sælureit. Ætlunin er að koma upp ljósmyndahúsi við Hvaleyarvatn með tíð og tíma til að auðvelda fuglaljósmyndurum að ná góðum fuglamyndum og bæta aðstöðuna við vatnið. Svæðið er mjög vinsælt meðal þeirra sem stunda fuglaljósmyndun enda fuglalíf í skóginum við Hvaleyrarvatn sérstaklega fjölbreytilegt.

Vatnshlíð

Minningarreiturinn í Vatnshlíð ofan Hvaleyrarvatns.

Hjálmar Rögnvaldur bjó lengi við Álftanesveg skammt frá norðurbæ Hafnarfjarðar en hann fæddist árið 1918 á Ísafirði og ólst þar upp. Hann tók fjölmargar ljósmyndir á heimaslóðum og gaf út merka ljósmyndabók um Vestfirði sem margir kannast við. Hjálmar fékk fyrstu myndavélina í fermingargjöf frá afa sínum og ömmu en vildi ekki kalla sig ljósmyndara þar sem hann var sjálfmenntaður í faginu. Hann lauk stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1939 og útskrifaðist sem skipaverkfræðingur frá Tekniske Højskole í Kaupmannahöfn árið 1947 en faðir hans var fyrsti menntaði skipaverkfræðingur landsins. Hjálmar fetaði þar með í fótspor föður síns, en hann eyddi meginhluta starfsævinnar sem skipasmiður á Torfnesi á Ísafirði. Hjálmar varð skipaskoðunarstjóri ríkisins árið 1954 og síðar siglingamálastjóri og gegndi starfinu til ársins 1985. Var hann þekktur um allan heim fyrir störf sín á vettvangi öryggismála sjófarenda og vörnum gegn mengun sjávar og hlaut Alþjóða siglingamálaverðlaunin, auk margra annarra viðurkenninga.

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar er stolt af því að Landgræðslusjóður og stjórn minningarsjóðsins hafi falið félagsmönnum að sinna þessu merka ræktunarstarfi og heiðra þannig minningu hjónanna Hjálmars R. og Else S. Bárðarsonar.

Minningarreitur og hólmar í Hvaleyrarvatni

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn – hólmar.

Framkvæmdir við minningarreit um Hjálmar Rögnvald Bárðarson skipaverkfræðing og siglingamálastjóra og eiginkonu hans Else Sörensen Bárðarson í Vatnshlíð við Hvaleyrarvatn gengur vel. Reiturinn er hannaður af Þráni Haukssyni landslagsarkitekt og það eru Kristján Ingi Gunnarsson og Bjarni Sigurðsson sem hafa séð um framkvæmdina. Þeir hafa jafnaframt útbúið þrjá hólma í vestanverðu Hvaleyrarvatni. Hólmarnir voru rétt mátulega tilbúnir þegar fyrstu farfuglarnir komu til landsins og voru vað- og andfuglar fljótir að átta sig á þessum nýju hólmum. Vatnsstaða hefur verið óvenju há í Hvaleyrarvatni seinni hluta vetrar og setti það aðeins strik í reikninginn en nú er vatnshæðin að ná stöðugleika og það verður spennandi að fylgjast með fuglalífinu í og umhverfis hólmana í sumar.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn.

Hjálmar og Else arfleiddu m.a. Landgræðslusjóð af hluta eigna sinna og vildu að fénu yrði varið til landgræðsluskógræktar „þar sem áður var lítt gróið bersvæði, ef til vill þar sem gróðursett lúpína hefur gert landsvæði vænlegt til skógræktar“ . Minningarsjóður var stofnaður um hjónin sem mun starfa í 10 ár með það markmið að styrkja rannsóknir í landgræðslu og skógrækt með sérstakri áherslu á vistfræði lúpínu og landgræðsluskógrækt með lúpínu. Landgræðslusjóður heldur einnig utan um Hjálmarssjóð og veitir styrki úr sjóðnum sem eru hugsaðir til að efla landgræðsluskógrækt þar sem lúpína hefur breytt gróðusnauðu landi í ákjósanlegt skógræktarland.

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar gerði samning við Minningarsjóðinn um að gróðursetja í nokkurra hektara landsvæði í Vatnshlíð norðan Hvaleyrarvatns í landi sem var áður örföka en lúpínan hefur breytt landinu þannig að nú er það alveg kjörið til gróðursetningar og trjáræktar.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn – Vatnshlíð.

Haustið 2011 var gróðursetning hafin með formlegum hætti í Vatnshlíð og stuttu seinna var hafist handa við að útbúa dvalarflöt þar sem minningarskildi um Hjálmar og Else Bárðarson verður komið fyrir á veglegum steindrangi.

Hjálmar var kunnur áhugamaður um ljósmyndun og lagði sig mjög fram um að ná góðum ljósmyndum af fuglum. Það vill svo vel til að skógræktarsvæðið umhverfis Hvaleyrarvatn er kjörinn vettvangur fyrir fuglaljósmyndara sem hafa margir náð afar merkum ljósmyndum af sjaldgæfum gestum sem og staðbundnum fuglum á svæðinu. Skógræktarfélaginu er umhugað um þessa vængjuðu skógarvini og hefur gert ýmislegt til að laða þá að svæðinu. Skógurinn er dvalarsvæði fjölmargra fugla og stöðugt bætast nýir í hópinn. Má þar til dæmis nefna glókollinn sem er minnsti í hópi nýju landnemanna hér á landi. Glókollahreiður hafa fundist í skógarlundi í Höfðaskógi nokkur ár í röð.

Á skilti í minningarlundinum í Vatnshlíð má lesa eftirfarandi:
Gróðurunnendur

Vatnshlíð

Vatnshlíð – skilti.

“Hjálmar var fæddur og uppalinn á Ísafirði. hann lauk námi í skipaverkfræði frá Danmarks Tekniske Höjskole í kaupmannahöfn 1947. Að námi loknu starfaði hann á skipasmíðastöðvum í Danmörku og Englandi, en hóf svo störf hjá Stálsmiðjunni í Reykjavík 1948. Þar hannaði hann og stóð fyrir smíði fyrsta íslenska stálskipsins, dráttarbátsins Magna. Hjálmar var skipaður skipaskoðunarstjóri ríkisins árið 1954 og síðar siglingamálastjóri til 1985. Hann tók virkan þátt í starfi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) og var forseti stofnunarinnar um þriggja ára skeið. Hann var einn af brautryðjendum í alþjóðlegum aðgerðum gegn mengun heimshafanna og kom að mótun reglna um öryggi í siglingum á heimsvísu og öryggismálum sjómanna. Fyrir störf sín að siglingamálum hlaut hann Höfrunginn, alþjóðleg verðlaun IMO, árið 1983. Hjálmar var afkastamikill og vandvirkur áhugaljósmyndari og höfundur tólf bóka í máli og myndum um Ísland og náttúru þess, auk tveggja bóka um íslensk fiskiskip.

Vatnshlíð

Vatnshlíð – minningarreiturinn 2021.

Else var fædd í Svíðþjóð, af dönskum foreldrum. Hún lauk prófi frá verslunarskóla í Danmörku 1940 og vann á skattstofu Kaupmannahafnar þar til þau Hjálmar fluttu til Íslands 1948. Else var góð tungumálamanneskja, söngelsk, listræn og fróð um listasögu, einkum danska málara. Hún var mikill dýravinur og átti stóran þátt í stofnun Kattavinafélags Íslands og Kattholts. Else hafi unun af ferðalögum og þau Hjálmar ferðuðust mikið bæði innanlands og utan.

Hjálmar og Else voru barnlaus en arfleiddu Landgræðslusjóð, landgræðslu ríkisins, Fuglavernd, Sjóminjasafnið Víkina, Þjóðminjasafn Íslands og Byggðasafn Vestfjarða að eigum sínum. Að ósk gefenda er meginhluta arfs Landgræðslusjóðs varið til langræsluskógræktar á landsvæðum vöxnum lúpínu.
Stofnaður var minningarsjóður, í samvinnu við Landgræslu ríksins, en markmið hans er einkum að styrkja rannsóknir er tengjast notkun lúpínu í landgræðslu og skógrækt.”

Heimild:
-https://skoghf.is/vatnshlidarlundur/

Hvaleyrarvatn

Hólmarnir í Hvaleyrarvatni.

Litli Ratleikur Hafnarfjarðar 2020

Litli Ratleikur Hafnarfjarðar er nýr ratleikur sem fór af stað í miðjum kórónafaraldri árið 2020 og er ætlaður til að hvetja fólk til að njóta útivistar um leið og það lærir um fróðlega staði í útjaðri bæjarins og í bænum sjálfum. Leikurinn er samvinnuverkefni Fjarðarfrétta og Hafnarfjarðarbæjar. Guðni Gíslason lagði leikinn.
Litli Ratleikur er frábrugðinn stóra Ratleik Hafnarfjarðar, engin ratleiksmerki eru á staðnum eða ratleikskort. Hann er einungis á vefnum og hægt er að stunda hann hvenær sem er.
Í Litla Ratleik 2020 eru 15 áhugaverðir staðir. Að þessu sinni:

1 – Útihús við Ástjörn

Ástjörn

Ástjörn – útihús.

S-A Ástjarnar, neðan við klapparhól sem vel sést frá göngustígnum eru rústir útihúss. Svona rústir og ummerki mannvistar er víða að finna í landi Hafnarfjarðar en opinber skráning þeirra er af skornum skammti og nær engar þeirra merktar. Flestar rústir sem enn er að finna eru ummerki um búskaparhætti fyrri alda. Líklegt er að þetta séu rústir útihúss sem tilheyrði bænum Ási sem stóð þarna skammt frá og var rifinn síðla á síðustu öld.

Greinilega má sjá hleðslurnar skammt frá göngustígnum. Hleðslurnar eru neðan við stóran klett við stíginn.

Ástjörn

Útihús við Ástjörn.

Markmiðið er að ganga í kringum Ástjörnina sem er rúmlega 3 km hringur frá bílastæðunum. Til viðbótar má ganga upp að útsýnisskífunni á Ásfjalli að norðanverðu, og ganga eftir öxlinni og koma niður á Skarð, þar sem finna má grjóthlaðinn stekk, og á göngustíginn í kringum Ástjörnina. Allt eru þetta ágætir stígar, misgóðir þó.

Ástjörn

Ástjörn.

Friðlandið við Ástjörn er 28,5 ha að stærð og var friðlýst 1978. Vegna fuglaverndunar er óheimilt að fara um svæðið frá 1. maí til 15. júlí utan merktra stíga. Bærinn Ás stóð í brekku vestan undir Ásfjalli. Norður frá Ástjörn var býli, sem hét Stekkur. Þar mun hinn gamli stekkur frá Ási hafa verið. Þótt bærinn Ás hafi verið rifinn má þar enn sjá margar minjar húsa og annarra búsetuleifa.

Ástjörnin er vogskorin uppistöðutjörn sem myndast hefur í kvos vestan undir Ásfjalli þegar Hellnahraun rann fyrir um 2000 árum og stíflaði afrennsli hennar til sjávar. Í tjörnina renna nokkrir smálækir og er yfirborðsrennslið breytilegt sem hefur þó lítil áhrif á vatnsborðið.

Lífríki tjarnarinnar er fjölbreytilegt og hér er kjörlendi margra fuglategunda því fæðuframboð í tjörninni er mikið. Sést hafa 44 tegundir fugla við tjörnina.

Tjörnin og nánasta umhverfi nýtur friðlýsingar vegna fjölskrúðugs fuglalífs og lífríkis. Þar sem Ásbærinn gamli stóð áður er nú trjáreitur frá því þar var skógræktarstöð og liggur göngustígurinn umhverfis vatnið þar í gegn.

Skammt vestan bæjarstæðisins milli Ásfjallsaxlar og Grísaness er Hádegiskarðið sem ferðalangar gengu um fyrrum er þeir fóru Stórhöfðastíg og Hrauntungustíg til Krýsuvíkur eða Grindavíkur.

Fólkvangurinn Ásfjall og umhverfi Ástjarnar var opnaður 10. maí 1997.

2 – Útsýnisskífa á Ásfjalli

Ásfjall

Ásfjall – útsýnisskífa.

Lengi var talið að Ásfjall væri lægsta fjall á Íslandi. Reyndar er lægra fjall á Austurlandi svo Ásfjall er þá a.m.k. næst lægsta fjall Íslands.

Á Ásfjalli er gott útsýni yfir fallegan fjörðinn og nágrenni og það nýttu sér hermenn á stríðsárunum. Enn má sjá merki eftir byrgi þeirra á fjallinu.

Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar reisti árið 1987 útsýnisskífu á fjallinu, rétt við vörðuna sem þar er. Með útsýnisskífunni má þekkja fjöll og staði sem fyrir augum ber.

Markmiðið er að ganga upp á Ásfjallið til að upplifa fallegt útsýnið yfir Hafnarfjörð. Frá útsýnisskífunni má ganga eftir öxlinni til suðurs og koma niður á Skarð og á göngustíginn í kringum Ástjörnina. Slóðinn á fjallinu er greinilegur en grófur.

Friðlandið við Ástjörn er 28,5 ha að stærð og var friðlýst 1978. Vegna fuglaverndunar er óheimilt að fara um svæðið frá 1. maí til 15. júlí utan merktra stíga. Bærinn Ás stóð í brekku vestan undir Ásfjalli. Norður frá Ástjörn var býli, sem hét Stekkur. Þar mun hinn gamli stekkur frá Ási hafa verið. Þótt bærinn Ás hafi verið rifinn má enn sjá margar minjar húsa og annarra búsetuleifa.

Ásfjall

Ásfjallavarða árið 2007.

Varðan á Ásfjalli var eyðilögð snemma á öldinni en var reist aftur með leiðsögn frá Byggðasafni Hafnarfjarðar. Mörgum þykir hún þá allt of flöt og ekki lík þeirri sem menn muna eftir fyrrum.

Ásfjallavarða

Ásfjallavarða árið 2020 og ummerkin umleikis.

Útsýnisskífan á Ásfjalli átti sér langa sögu eins og segir í 50 ára afmælisriti Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar. Þegar hún var komin á sinn stað voru fimmtán ár liðin frá því að fyrst var rætt um það í klúbbnum að hann ætti að beita sér fyrir því að koma upp útsýnisskífu á Ásfjalli. Málinu var hreyft öðru hvoru en úr framkvæmdum varð ekki fyrr en árið 1987 að forseti klúbbsins, Steingrímur Atlason, fékk nokkra vaska drengi í lið með sér og verkið var unnið.

Þessir félagar voru auk forsetans: Jón Bergsson, Sigurbjörn Kristinsson, Gísli Guðmundsson, Hjalti Jóhannsson, Einar Ágústsson og Gunnar Hjaltason. Lögðu þeir allir fram góð ráð, mikla vinnu og fagþekkingu án þess að ætlast til launa.

Loks stóðu 14 manns á Ásfjalli við vígslu skífunnar 26. júní 1987 og veðurguðir sáu um hressilega vatnsskírn því að regn bókstaflega hvolfdist úr loftinu.

Vígsluskálina hafði forseti í fórum sínum og þótti mönnum ekki vanþörf á. Þegar menn bergðu á veigunum reyndust þær vera íslensk mysa. Sló þá þögn á mannskapinn!

3 – Ósinn

Ósinn

Bekkur við Ósinn.

Ósinn er heiti á mannvirki sem tengist fráveitu Hafnarfjarðar. Í gegnum þetta mannvirki er skolpi dælt frá stórum hluta bæjarins út í pípu sem liggur undir Hvaleyrina og út í hreinsi- og dælustöð í Hraunavík en þaðan er öllu skolpi dælt langt á haf út eftir að það hefur verið grófhreinsað. Skolpdælistöðvar bæjarins hafa gjörbreytt áhrifum skolpsins við strendurnar frá því sem áður var.

Horft að miðlunartankinum sem hægt er að fara upp á.

Gott að leggja
Leggja má við enda Óseyrarbrautar þar sem hún sveigir til hægri við tanka Atlantsolíu.

Markmið
Markmiðið er að ganga stíginn við Hvaleyrarlónið, upplifa fegurð þess og láta sig dreyma um að sjá alla þá byggð sem var á Hvaleyrinni. Við enda stígsins er Ósinn og upp á mannvirkið eru tröppur sem leiðir gesti að útsýnisstað með bekkjum.

Bekkir leynast uppi á miðlunartankinum.

Fróðleikur
Lang stærstur hluti hafnarsvæðisins er á uppfyllingu og er svæðið sem Ósinn er á það nýjasta og stærsta.

Í 2. kafla Landnámu segir að þar hafi Flóki Vilgerðarson og Herjólfur, bóndi er honum fylgdi, komið að landi fyrir árið 870 og dvalið um stund. „Flókaklöppin“ efst á Hvaleyrarholti er með ýmsum áletrunum, sem sumir telja vera eftir áhöfnina.

4 – Minnisvarði um Hrafna-Flóka
Í Landnámu segir frá því er Hrafna Flóki, Flóki Vilgerðarson, kom til Hafnarfjarðar þar sem hann fann félaga sinn Herjólf, sem hafði orðið viðskila við hann á eftirbát í mynni Faxaflóa. Fann Flóki þar og rekinn hval við eyri og nefndi Hvaleyri.

Var Hrafna-Flóka reistur minnisvarði í vörðuformi hæst uppi á Hvaleyri og var hann vígður í lok Víkingahátíðar 13. júlí 1997. Varðan er úr norsku grjóti og er gjöf frá Norðmönnum til minnis um atburðinn.

Markmiðið er að ganga stíginn við Hvaleyrarlónið, upplifa fegurð þess og láta sig dreyma um að sjá alla þá byggð sem var á Hvaleyrinni. Einnig að kynnast sögunni um Hrafna-Flóka og jafnvel um þá fornu byggð sem var á Hvaleyrinni, Hvaleyri, Sveinskot, Hjörtskot, Hvaleyrarkot, Vesturkot og Halldórskot.

Hrafna-Flóki

Minnisvarða um Hrafna-Flóka á Hvaleyrarholti.

Í Landnámu segir frá því að Flóki hafi upphaflega haldið af stað frá Noregi vestur um haf til að leita lands sem fréttir höfðu borist af. Hann ætlaði að setjast þar að og þess vegna voru með í för fjölskylda hans og frændlið, auk búfénaðar. Af förunautum Flóka eru nefndir þeir Herjólfur, Þórólfur og Faxi. Flóki hafði með sér þrjá hrafna sem hann hafði blótað í Noregi og lét þá vísa sér leið til Íslands. Hann sleppti fyrst einum og flaug sá aftur um stafn í átt til Færeyja, sá næsti flaug í loft upp og aftur til skips en sá þriðji flaug fram um stafn í þá átt sem Flóki og félagar fundu landið. Þeir komu að Horni eystra, síðan sigldu þeir suður og vestur fyrir land og námu land í Vatnsfirði á Barðaströnd. Vatnsfjörður mun hafa verið fullur af fiski og nýbúarnir stunduðu veiðar svo stíft að ekkert varð úr heyskap og öðrum nauðsynlegum undirbúningi fyrir íslenskan vetur. Þess vegna drapst allt kvikféð um veturinn. Vorið var heldur kalt og þá gekk Flóki upp á fjall eitt hátt og sá fyrir norðan fjöllin fjörð, líklega Arnarfjörð, fullan af hafís. Því kölluðu þeir landið Ísland sem það hefur síðan heitið.

Flóki og fylgdarlið hans ákváðu að fara burt og héldu úr Vatnsfirði þegar langt var liðið á sumar. Þeir náðu ekki að sigla fyrir Reykjanes og urðu Flóki og Herjólfur viðskila í mynni Faxaflóa.

Flókaklöpp

Flókaklöpp á Hvaleyri..

Ýmsar minjar er að finna á Hvaleyrinni. Herjólfur kom að landi í Herjólfshöfn en Flóki hafði vetursetu í Borgarfirði. Næsta sumar kom Flóki í Hafnarfjörð og þar fundust þeir Herjólfur.

Menn hafa leitt að því getum að Herjólfshöfn sé Hvaleyrartjörn en hún var höfnin í Hafnarfirði sem fjörðurinn dregur nafn sitt af.

Í Landnámu segir enn fremur: Flóki Vilgerðarson hét víkingur mikill; hann bjóst af Rógalandi að leita Snjólands; þeir lágu í Smjörsundi. Hann fékk að blóti miklu og blótaði hrafna þrjá, þá er honum skyldu leið vísa, því að þá höfðu hafsiglingarmenn engir leiðarstein í þann tíma í Norðurlöndum. Þeir hlóðu þar varða, er blótið hafði verið og kölluðu Flókavarða; það er þar er mætist Hörðaland og Rogaland.

Samskonar varða er í Sveio sem liggur á mótum Hörðalands og Rogaland á vesturströnd Noregs. Varðan sem talin er að hafa verið upprunalega Flókavarðan, var rifin af ókunnum ástæðum á 19. öld. Ný varða var reist þar sem hin stóð og samskonar varða á Hvaleyri sem fyrr er nefnd.

5 – Útsýnisskífan á Hamrinum

Hamarinn

Litlu Ratleiksfrumkvöðlar við útsýnisskífuna á Hamrinum.

Hamarinn, öðru nafni Hamarskotshamar, er eitt af staðareinkennum Hafnarfjarðar. Hann hefur fengið nafnið Austurhamar þar sem hann er hæstur og Vesturhamar, þar sem hann gekk í sjó fram.

Áður fyrr var þessi mikli klettur sem stendur fyrir miðjum fjarðarbotninum nefndur Hamarskotshamar eftir koti sem stóð þar sem Flensborgarskólinn er nú.

Sprengt var úr Vesturhamrinum 1941-1948 og var efnið úr honum notað við gerð Norðurgarðsins í Hafnarfjarðarhöfn. Eru enn ljót ummerki eftir þetta og sést vel frá Flensborgarskóla.

Á austurhamrinum er útsýnisskífa og í góðu skyggni má sjá allan fjallahringinn umhverfis Faxaflóa. Ath. að hádegi á skífunni er sýnt þegar sól er í hásuðri en þar sem við erum bæði um hálfum tíma vestan við tímabeltið auk þess að vera með sumartíma allt árið, er hádegi sýnt um einum og hálfum tíma of snemma á skífunni.

Hamarinn á sér bróður; Setbergshamar (Þórsbergshamar). Á þeim báðum eru jökulminjar, einkum þó á hinum fyrrnefnda. Af Hamrinum er hið ákjósanlegasta útsýni yfir miðhluta bæjarins sem og Hamarskotslækinn.

Hamarinn

Hamarinn.

Ofan Hamarsins eru Öldurnar og niður af Austurhamri er Brekkan með Brekkugötu og Suðurgötu. Svæðið neðan Vesturhamars kallaðist fyrrum einu nafni Undirhamar.

Elsta bergmyndun Hafnarfjarðar og undirstaðan sem allt annað hvílir á er grágrýti, sem er einkennisbergtegundin í Hamrinum. Ætla má að bergið geti verið yngra en 800 þúsund ára. Grágrýtið myndaðist úr hrauni frá eldstöðvum sem voru virkar á hlýskeiði ísaldar og eru yfirleitt komin úr dyngjum. Ekki er vitað úr hvaða eldstöð grágrýtið í Hafnarfirði og umhverfi þess er komið.

Hamarinn er góður staður til að setjast niður og horfa yfir bæinn.

Í klöppunum ofan á Hamrinum sjást jökulrispur, menjar ísaldarjökulsins.

Finna má ummerki á Vesturhamrinum eftir veru hersins í Hafnarfirði í síðari heimsstyrjöldinni.

Í Hamrinum eru sagðar búa álfaverur af „konungakyni”. Hamarinn var friðlýstur sem náttúruvætti árið 1984.

Austurgatan en samt er aldrei talað um austur í Hafnarfirði!

Markmiðið er að ganga á Hamarinn og upplifa hann og útsýnið þaðan. Útsýnisskífan gefur möguleika á að þekkja fjöllin og umhverfið í kring.

6 – Arnarklettur

Arnarklettur

Arnarklettur.

Arnarklettar standa ásamt Krummakletti og Gnípu í grónu hrauni sem markast af Klettahrauni, Arnarhrauni, Sunnuvegi og neðra Álfaskeiði. Jafnframt eru gerði og aðrar mannvistarminjar í kringum klettana. Arnarklettarnir voru tveir; Arnarklettur syðri og Arnarklettur nyrðri. Hlaðin gerði og aðrar mannvistarminjar eru í kringum klettana. Á öðrum Arnarklettanna sem stendur á óbyggðu svæði á horni Arnarhrauns og Álfaskeiðs er merki með nafni klettsins.

Á svæðinu eru hverfisverndarákvæði: „Hverfisvernd tekur til þess að þessum hraunmyndunum og minjum verði ekki raskað“.

Á síðustu tugum nítjándu aldar voru í Gullbringusýslu nokkrir þekktir varpstaðir arnarins, enda bera örnefnin þess merki, s.s. Arnarklettar utanvert við Balatún, Arnarnýpa á Sveifluhálsi, Arnarfell í Krýsuvík og Arnarþúfa í Ögmundarhrauni, auk tveggja Arnarkletta sunnan Stórhöfða og Helgafell í Garðakirkjulandi.

Markmiðið er að upplifa friðuðu hraunin, göngustígana austan og vestan Arnarhrauns. Stígarnir eru ekki merktir sérstaklega en ganga má m.a. inn á þá út úr endum Mánastígs, Þrastahrauns og víðar.

7 – Vindspil

Vindspil

Listaverkið Vindspil.

Listaverkið Vindspil frá árinu 2000 eftir Einar Má Guðvarðarson stendur á malarkambi við bílastæði við enda Langeyrarmala. Verkið heitir ekki aðeins Vindspil heldur er það vindspil og í vindi hljóma úr því fagrir bjölluhljómar. Einar Már bjó og hafði vinnustofu sína í bænum Ljósaklifi en það er bærinn sem er næst Herjólfsgötu. Hann var fæddur í Hafnarfirði 9. febrúar 1954. Hann lést 25. júní 2003.

Í Skerseyrarhrauni, á svæði sem er norð-vestasti hluti Hafnarfjarðar, og markast af Herjólfsgötu, Garðavegi og landamerkjum Hafnarfjarðar og Garðabæjar við Bala, eru fimm gömul bæjarstæði þar sem enn standa hús. Auk Ljósaklifs eru bæirnir Fagrihvammur (Litli bær), Brúsastaðir I og nýbýlið Brúsastaðir II og Sæból sem stendur nyrst. Á milli bæjanna liðast steinhlaðnar götur í hrauninu.

Stifnishólar

Stifnishólar við Brúsastaði.

Hraundranginn utan við bílastæðið nefnist Rauðsnef og hraundrangarnir framan við Brúsastaði nefnast Stifnishólar þar sem sagt er að draugur hafi verið kveðinn niður um aldamótin 1800. Þar sem Brúsastaðir standa stóð áður bærinn Litla-Langeyri.

Langeyri var ævaforn hjáleiga frá Görðum og stóð þar sem Herjólfsgata 30 var en stutt er síðan það hús var rifið og ný fjölbýlishús byggð á lóðinni.

Meðal örnefna við sjóinn eru Brúsastaðavör, Skerseyrarvör og Balavör sem segja okkur að útræði hafi verið þarna áður.

Vindurinn skellir skálunum saman og myndar fallega bjölluhljóma.

Ganga Strandstíginn og Langeyrarmalirnar út með ströndinni að Bala.

8 – Hlaðnar götur

Hlaðnar götur

Gömul hlaðin gata.

Lengst af voru í raun engir afmarkaðir vegir í Hafnarfirði, einungis götur og slóðar. Hús voru byggð þar sem hagkvæmt þótti í hrauninu og milli hraunklettanna mynduðust götur eða troðningar áður en eiginleg gatnagerð hófst. Víða má enn finna leyfar af fyrstu gatnagerðinni, þar sem götur voru einfaldlega hlaðnar upp af hraungrjóti og fylltar með grús og hraunbrotum.

Best er að finna dæmi um slíkar götur við Hjallabrautina, gegnt skátaheimilinu Hraunbyrgi, og að Klettagötu. Þar má sjá hversu hagalega menn hafa hlaðið mjóar götur til að aka fiski á vögnum á stakkstæðin.

Fyrsta eiginlega gatnagerðin var þegar vegur var lagður frá Sjónarhóli, yfir Flatahraun og inn í Engidal.

„Hafnarfjörður var löngum verzlunarstaður án þess að vera svo mikið sem þorp, og hingað lágu koppagötur úr ýmsum áttum yfir hraunin allt til ársins 1873. Að innan lágu Gömlufjarðargötur, troðningar frá túngarðshorni á Hraunsholti að Sjónarhóli, og þaðan niður um Háaklif hjá hliðinu á Hellisgerði. Þar stendur nú hálfbrotinn klettur, Svensensklettur. Kletturinn er kenndur við skipstjóra, Svensen, sem lengi sigldi upp Hafnarfjörð á vegum Knudtzons. Þangað gekk hann til þess að skyggnast til veðurs og gá til skipa. Þá var Kristinn Zimsen verzlunarstjóri hjá Knudtzon hér í Firðinum. Hann gekkst fyrir því, að vegur var lagður frá Sjónarhóli yfir Flatahraun inn í Engidal,” skrifaði Björn Guðmundsson sagnfræðingur 1962.

Markmiðið er að kynnast Hafnarfirði fyrri ára og láta sig dreyma um fólkið á ferðinni með fiskinn á vögnum efir hlöðnum götunum.

Allt umleikis eru grjóthlaðnir garðar og gerði er nýtt voru til heimilisbrúks fyrrum.

Víðistaðir

Víðistaðatún.

Tilvalið er að ganga til baka um Víðistaðatúnið þar sem bærinn Víðistaðir stóð og sláturhús sem margir muna eftir og stóð neðan við þar sem Víðistaðakirkja stendur núna.

Víðistaðatún er stórt opið svæði við Víðistaðakirkju og skátaheimili Hraunbúa. Þar er starfrækt tjaldsvæði frá miðjum maí fram í enda ágúst. Svæðið státar af fjölmörgum listaverkum sem tilvalið er að skoða og börn hafa gaman af að leika sér í. Einnig er þar aparóla, ærslabelgur og kastali sem staðsettur er í nálægð við grillhús. Hann hentar fyrir bæði leik- og grunnskólaaldur. Einnig er þar skógarlundur sem börn hafa gaman af að leika sér í sem og eini tennisvöllur Hafnfirðinga.

9 – Lækjarbotnar

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – stífla.

Lækurinn sem rennur í jaðri Stekkjarhrauns og framhjá Setbergsskóla kemur úr Lækjarbotnum í norðurjaðri Gráhelluhrauns (Lækjarbotnahrauns). Við upptökin eru steinhleðslur undan timburhúsi sem þar stóð um tíma á vatnsþró. Frá húsinu lá svo trépípa niður til bæjarins og var í raun fyrsta alvöru vatnsveita bæjarins frá um 1909. Sjá má vanræktar leifar hennar neðan við hleðslurnar. Skammt neðar er stíflumannvirki, steypt og hlaðið.

Stuttu ofar, í skógarjaðrinum má sjá hvar vatnið kemur undan hrauninu. Rennslið dugði þó ekki á sínum tíma til að anna vatnsþörf bæjarbúa og það varð til þess að árið 1916 fengu þeir Jóhannes Reykdal og Jón Ísleifsson verkfræðingur brjálæðislega hugmynd. Þar sem nægt vatn var í Kaldárbotnum, uppruna Kaldárinnar, var það áhugavert að koma því vatni til bæjarins. En það var löng leið og ekki á færi manna þá að leggja rör eða stokk alla þá leið auk þess sem það var yfir gjá og misgengi að fara. En hvað gera menn þá? Jú, hlaða úr grjóti og smíða tréstokk sem hleypti vatninu um 1,6 km leið yfir hraun og djúpa Lambagjána. Var vatninu sleppt inn á vatnasvæði Lækjarbotna og það var mikil spenna í bænum þegar beðið var eftir því hvort vatnið yfirleitt kæmi fram neðar í hrauninu. Voru margir efins um þessa aðferð, en vatnið kom í ljós um síðir og dugði vatnsveitan úr Kaldárbotnum allt til 1951 þegar ný vatnsleiðsla var lögð úr Kaldárbotnum í Hafnarfjörð.

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – leifar af vatnsleiðslunni.

Hluta af vatnsleiðslunni má enn sjá en mest af henni hefur nú verið eyðilögð.

Því miður grotna minjar um þessa vatnsveitu niður og lítið er gert til að varðveita þessa sögu úti í náttúrunni t.d. með endurgerð hluta stokksins og uppsetningu á fleiri fræðsluskiltum.

Austan við lækinn má finna götu sem liggur alla leið í Selvog en það er hin margkunna Selvogsgata.

Látið ekki hjá liggja að ganga inn í Gráhelluhraunið, þar er góður göngustígur og margt að sjá, ekki síst ef vikið er svolítið frá stígnum.

10 – Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

Á odda sunnan við Hvaleyrarvatn, þar sem stígurinn skiptist í tvennt, eru tóftir Hvaleyrarsels. Má þar sjá þrjár tóftir og er ein þeirra stærst, eldhús vestast, búr og baðstofa austast. Stekkurinn er skammt vestan við eldhúsið.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

Þarna átti að hafa gerst hryllilegur atburður um 1880 er smali fann seljastúlku rifna á hol niður við vatnið. Var talið að nykurinn í vatninu hafi leikið stúlkuna svo illa. Um nykur þennan sagði sagan að hann væri annað hvert ár í Hvaleyrarvatni, en hitt árið í Urriðakotsvatni. Sást til hans oftar en einu sinni.

Hvaleyri hafði bæði í seli við Hvaleyrarvatn og um hríð í Kaldárseli.

Önnur selstaða er við Hvaleyrarvatn; Ássel. Það er skammt austan við Hvaleyrarsel, en landamerki Hvaleyrar og Áss lágu um vatnið. Jófríðarstaðir hafði um tíma selstöðu þar sem nú er Húshöfði. Þar við má sjá leifar beitarhúss og stekk selsins skammt norðar.

Ganga umhverfis Hvaleyrarvatn og um skemmtilega stíga í skóginum. Stígar í skóginum eru fjölmargir og vel þess virði að ganga um þá og upplifa raunverulega skógarstemmingu.

11 – Riddaralundur

Riddaralundur

Riddaralundur – setstaður gamalla Hafnarfjarðarskáta.

Frá upphafi skátastarfs á Íslandi var gjarnan farið í skátaútilegur í uppland Hafnarfjarðar og var Kaldársel mjög vinsælt og Helgadalur fyrir 1960. En síðar varð Hvaleyrarvatn áhugavert en þess ber að geta að um 1960 sást þar í umhverfinu varla nokkurt tré. St. Georgsgildið í Hafnarfirði, félag eldri skáta, var stofnað 22. maí 1963 og nýttu félagar þess umhverfi Hvaleyrarvatn til útivistar og útilegu. Fljótt kom áhugi á að byggja skála við vatnið og fékk félagið úthlutað lóð og var skálinn Skátalundur vígður 25. júní 1968.

Um svipað leyti kom skátasveitin Riddarar í Skátafélaginu Hraunbúum sér upp varðeldalaut sunnan við vatnið, á milli Ássels og Hvaleyrarsels. Settu þeir upp bekki í hring úr rafmagnsstaurum og útbjuggu eldstæði í miðjunni en sveitarforingjar þá voru þeir Ólafur Sigurðsson (Óli Sill) og Hermann Sigurðsson. Þarna var þetta undir brekku er hvergi neitt tré var að sjá en fallegur staður og skjólgóður til að sitja í kvöldsólinni.

Á Selfjalli ofan seljanna eru leifar stekks og fjárborgar. Sunnan þess, í norðanverðum Seldal, eru leifar sels.

Riddaralundur

Eldri skátar rifja upp gamla tíma í Riddaralautinni.

Ganga umhverfis Hvaleyrarvatn og stíga í skóginum tekur u.þ.b. 20-30 mínútur. Stígar í skóginum eru fjölmargir og mislangir en vel þess virði að ganga um þá og upplifa skógarstemmingu á hinum ólíku árstíðum.

12 – Ássel

Ássel

Ássel.

Flestir ganga greiðfæra stíginn í kringum Hvaleyrarvatn án þess að átta sig á því að þarna leynast minjar mannvistar frá fyrri öldum.

Sunnan við Hvaleyrarvatn, skammt frá skátaskálanum Skátalundi, undir Selhöfða, eru tóftir tveggja selja, Ássels og Hvaleyrarsels.

Niður undir landi skátanna, á grónum hól eru tóftir sels sem talið er að hafa verið frá bænum Ási sem stóð við Ástjörnina, undir Ásfjallinu. Þetta er sel frá því um 1900 er Jófríðarstaðir og Ás skiptu með sér aðstöðunni við norðaustanvert vatnið

Á Íslandi var seljabúskapur stundaður frá landnámi fram á 19. öld en var á undanhaldi ofanvert á 18. öld eða jafnvel fyrr. Í seljabúskap voru mjólkandi skepnur, aðallega ær en í einhverjum tilvikum kýr, reknar í sel snemma sumars og hafðar á beit þar yfir sumarmánuðina, frá 6. til 16. viku sumars. Samkvæmt ritheimildum var dæmigert að sel skiptust í þrjá hluta: íveruhús, búr og eldhús. Utandyra voru yfirleitt stekkir eða kvíar skammt frá, afgirt svæði þar sem hægt var að mjólka skepnurnar.

Selstöðurnar voru jafnan við vötn, ár, læki eða náttúrleg vatnsstæði.

Ganga umhverfis Hvaleyrarvatn og stíga í skóginum. Stígar í skóginum eru fjölmargir og vel þess virði að ganga um þá og upplifa skógarstemminguna.

13 – Beitarhús

Beitarhús

Beitarhús í Húshöfða.

Aðsetur Skógræktarfélags Hafnarfjarðar er á Húshöfða og skógurinn sem þar hefur verið myndaður nú kallaður Höfðaskógur.

Næst Kaldárselsvegi er þjónustubygging en suðvestar á svæðinu, á Beitarhúsahálsi, er skáli félagsins, skammt frá trjásýnilundi sem vígður var á 50 ára afmæli félagsins.

Sunnan skálans er nokkuð stór tóft (tótt) í hlíðinni. Það er rúst beitarhúss, Veturhúss, frá Jófríðarstöðum en Jófríðarstaðasel varð að beitarhúsi þegar selfarir lögðust af. Sjá má tóftir selsins skammt norðan við beitarhúsið.

Er talið að selið hafi síðast verið notað árið 1922 frá Ási.

Skammt fá tóftinni er útikennslustofa félagsins. Þetta er einfalt skýli með bekkjum inn á milli trjánna. Kennslustofan var útbúin að tilstuðlan hjónanna Harðar Zóphaníassonar og Ásthildar Ólafsdóttur sem gáfu félaginu peningagjöf á 60 ára afmæli þess í því skyni að efla áhuga skólabarna á skógrækt.

Allt umleikis eru fræðslustígar um hin ólíklegustu trjádæmi og plöntur.

Fleiri tóftir, m.a. af seli frá Jófríðarstöðum, eru á svæðinu, en þessi er þeirra stærst.

Ganga um skógarstíga og umhverfi Hvaleyrarvatns. Stígar í skóginum eru fjölmargir og vel þess virði að ganga um þá, skoða trjásýnisafnið, rósagarðinn og bara upplifa alvöru skógarstemmingu.

14 – Fuglstapaþúfa

Fuglastapaþúfa

Fuglastapaþúfa.

Fuglstapaþúfa er við Þúfubarð á Hvaleyrarholti en gatan er kennd við þúfuna.

Svæðið, sem hún er á, hefur verið látið óhreyft er segir nokkuð til um vægi þess í hugum fólks þegar hverfið var að byggjast upp. Ábúendur í nágrenninu fylgdust með því er farfuglarnir komu í holtið á vorin eða hópuðust saman við þúfuna á haustin á leið þeirra til baka.

Í deiliskipulagi er hverfisvernd skilgreind á svæði milli Kelduhvamms og Þúfubarðs, Fuglstapaþúfu sem skal vera opið og óraskað svæði. Þúfurnar voru á jökulsorfnum klöppum, syðri þúfa við Þúfubarð og nyrðri þúfan við olíutanka norðan Melabrautar.

„Innan hverfisverndar má hvorki raska landslagi né gróðri og eru allar framkvæmdir háðar framkvæmdaleyfi“.

Fuglstapaþúfa er landamerki milli Hvaleyrar og Ófriðarstaðalanda.

Þann 22. nóv. 1907 var ákveðið í 1. grein laga um bæjarstjórn Hafnarfjarðar að takmörk kaupstaðarins yrðu sem hér segir:

„Úr sjó Arnarklettar utanvert við Balatún [varða], sjónhending eftir takmörkum Hafnarfjarðarhrauns og Dysjamýrar, þar til kemur á hinn forna veg frá Görðum til Reykjavíkur [varða]. Eftir þeim vegi í Engidal [varða]. Þaðan eftir nyrðri brún Hafnarfjarðarhrauns, þar til kemur móts við austurhorn Hraunsholtstúns. Þaðan bein stefna yfir neðanverðan Kaplakrika í vörðu á háholtinu fyrir ofan Jófríðarstaði, þaðan yfir í Fuglastapaþúfu efri beina leið í sjó fram. Kaupstaðurinn skal skyldur til að setja nægilega mörg varanleg merki, er sýni greinilega takmörk landsins, og viðhalda þeim.“

Víða um bæinn eru óröskuð svæði eða svæði sem eiga sér sögu sem vert er að minnast og er Fuglstapaþúfa og ÓlaRunstúnið gott dæmi um slík svæði. Auða lóðin þar sem Fuglstapaþúfan er, var á sjöunda áratugnum vinsælt leiksvæði barna í hverfinu og þarna voru byggðir kofar og var þarna mikið líf. ÓlaRunstúnið var einnig gríðarlega vinsælt meðal barna í svæðinu sem léku þar fótbolta á sumrin og renndu sér á sleðum og skíðum á vetrum. Var vera barna á túninu ekki alltaf vinsæl því Ólafur Runólfsson heyjaði túnið og það jók ekki á sprettuna að strákar væru þar að hamast í fótbolta.

15 – Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðir.

Bærinn Jófríðarstaðir suður á Hamrinum hét áður Ófriðarstaðir, nefndur í heimildum frá 1595 sem sérstakur bær og var þá konungsjörð. Er talið að nafnið Ófriðarstaðir hafi komið til eftir bardaga milli enskra kaupmanna og Hansakaupmanna um yfirráð mikilvægrar verslunar í Hafnarfirði.

Árið 1816 er þetta land, allt sunnan frá Bruna (Hafnarfjarðarmegin við Straum) og allt vestur að Fiskakletti í Hafnarfirði komið í eigu Bjarna riddara Sívertsens.

Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðir fyrrum – tilgáta.

Á árunum 1921 og 1922 keypti Kaþólska trúboðið á Íslandi jörðina Jófríðarstaði. Jófríðarstaðir voru ein af þeim fjórum bújörðum sem Hafnarfjarðarkaupstaður stóð á. Örnefnaskráning Hafnarfjarðar fyrrum var grundvölluð á jörðinni. Hinar voru Akurgerði, Hamarskot og Hvaleyri.

St. Jósefsskirkja, sem vígð var 3. júlí 1993, stendur rétt við efsta hluta Jófríðarstaða en töluvert graslendi er í kringum kirkjuna. Hugmyndir voru uppi fyrir all nokkrum árum að byggja á túninu en mikil andmæli íbúa urðu til þess að svo varð ekki – að sinni. Víðsýnt er frá Jófríðarstaðaholtinu.

Markmiðið er að njóta fallegra staða, útsýnisins yfir Hafnarfjörðin fyrrum, kynnast sögunni og hreyfa sig svolítið í leiðinni. Hafnarfjarðarbær leggur áherslu á góða heilsu bæjarbúa og gesta þeirra.

Heimild:
-https://ratleikur.fjardarfrettir.is/litli-ratleikur-hafnarfjardar/litli-ratleikur-2020/

Skólpstöðin

Óseyri – Skólpstöðin.