Tag Archive for: Hvaleyrartangi

Flensborgarhöfn

Á upplýsingaskilti við Smábátabryggjuna, „Flensborgarhöfnina„, í Hafnarfirði má lesa eftirfarandi texta um Hansabæinn Hafnarfjörð:

„Hið svokallaða Hansasamband var stofnað í Lübeck í Þýskalandi á 13 öld og var bandalag kaupmanna í verslunargildum borga í Norður- og Vestur-Evrópu. Lübeck var á þessum tíma mjög öflug verslunarborg og útskipurnarhöfn inn á Eystrasaltið eftir að elsti skipaskurður Evrópu var opnaður árið 1398 á milli Trave og Elbe.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minnismerkið við Flensborgarhöfn.

Upp úr 1470 hófu Hansakaupmenn að sigla til Íslands, upphaflega komu þeir einungis frá Bergen í Noregi en fljótlega eiggin frá þýsku Hansaborgunum Hamborg, Lübeck og Bremen. Konungur hafði veitt Hansakaupmönnum leyfisbréf til verslunar á Íslandi árið 1468 en mikil samkeppni myndaðist á milli enskra og þýskra kaupmanna um bestu hafnirnar hér á landi í kjölfarið og til eru heimildir frá árinu 1475 um ófrið þeirra á milli við Hafnarfjörð.

Ófriðurinn hélt áfram um nokkurra ára skeið en svo fór að upp úr 1480 höfðu Þjóðverjarnir náð að hrekja Englendinga frá Hafnarfirði, Straumsvík og Básendum. Þýsku kaupmennirnir urðu mun vinsælli en þeir ensku, einkum vegna þess ap þeir fóru með friði og buðu ódýrari og fjölbreyttari varning en hinir höfðu gert. Baráttan um Íslandsverslunina sneri ekki nema að litlum hluta að innflutningi, fyrst og síðast var sóst eftir íslenskri skreið til að viðhalda völdum á skreiðarmörkuðum Evrópu. Hafnarfjörður var aðalhöfn Hansakaupmanna hér á landi á ofanverðri 15. öld og alla þá 16. og má segja að hann hafi verið þýskur bær á þessu tímabili.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður.

Verslunarbúðir Hansakaupmanna í Hafnarfirði voru á svoköllum Háagranda sem var ysti hluti Hvaleyrargranda. Þar höfðu þeir ríka þörf fyrir varanlegan húsakost enda fjölmennar áhafnir á skipum þeirra, jafnvel um 60 manns á hverju. Í frumskýrslum þýsku kaupskipanna má sjá að þeir fluttu töluvert af byggingarvið til landsins til smíði verslunarhúsa og vöruskemma en einnig kirkjuvið til kirkjubyggingar. Þekkt er að þýskir kaupmenn reistur sér kirkjur í erlendum höfnum og það gerðu þeir einnig hér. Kirkjan sem Hansakaupmenn reistur í Hafnarfirði var fyrsta lúterska kirkjan hér á landi og nokkuð vegleg timburkirkja með koparþaki. Að stofnun og byggingu kirkjunnar stóðu bæði kaupmenn og skipstjórar sem lögðu stund á Íslandssiglingar en þeir voru í trúarlegu bræðralagi sem bar nafnið „Die Islandfahrerbrüderschaft“.

Kristján IV. danakonungur gat út tilskipun sína um einokunarverslunina árið 1602 en með henni var öllum öðrum en þegnum danska ríkisins banna að stunda verslun á Íslandi. Liðu undir lok áhrif þýskra kaupmanna í Hafnarfirði og hið beina verslunarsamband á milli Hafnarfjarðar og Hamborgar. Konungur gaf einnig út þá tilskipun árið 1608 að allar byggingar Hansakaupmanna í Hafnarfirði skyldu rifnar.“

Hafnarfjörður

Flensborgarhöfn – skilti.

Á koparskilti áföstu minnismerki um fyrstu lúthersku kirkjuna við Flensborgarhöfn má lesa eftirfarandi:
„Minnismerki þetta var afhjúpað á Óseyrarbryggju við Flensborgarhöfn í Hafnarfirði í júlí 2003 um fyrstu lúthersku kirkjuna sem reist var á Íslandi, árið 1533. Kirkjan stóð á Háagranda í Hafnarfirði þar sem þýskir Hamborgar kaupmenn stunduðu verslun sína í rúmlega eina öld. Hún var reist til þess að þjóna þýskum farmönnum og var grafreiturinn við kirkjuna hinsta hvíla þeirra sem týndu lífi fjarri fósturjörðinni. Kirkjan var reist úr þýskum kjörviði og henni haldið við af Þjóðverjum allt til ársins 1603, en þá var þeim meinuð hvers kyns verslun á Íslandi. Var kirkjan tekin niður nokkrum árum síðar. Forsetar Íslands og Þýskalands afhjúpuðu minnismerkið, sem er verk þýska listamannsins Hartmuts Langs, sem kallar sig Lupus. Verkið myndar táknrænan gotneskan boga úr íslensku grjóti og nær sex og hálfs metra hæð. Hliðið minnist samskipta Íslendinga og Þjóðverja til forna og vísar veginn um ókomna tíð.“

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Hvaleyrarlón.

FERLIR gekk með strandlengju Hafnarfjarðar allt frá Hleinum að Hvaleyrarfjöru. Í sögulegu samhengi bar margt fróðlegt fyrir augu, s.s. leifar útgerðarinnar á Langeyri, lifrabræðslunnar við Gönguhól, fyrrum útvörðinn Fiskaklett, slippstöðina neðan Drafnar, Flensborgarhöfnina allt þar til göngustígurinn endaði skyndilega framan við skilti er á stóð „Hvaleyrarlón“.

Hvaleyri

Hvaleyri – skotbyrgi.

Ákveðið var þó að halda áfram eftir fjörunni neðan bátaskýlanna þar sem fyrrum fornfálegar „bryggjurnar“ voru flestar komnar af fótum fram. Hús var tekið á einum eigandanna, sem var að þvo bílinn sinn í góðviðrinu. Hann sagðist hafa haft þarna bát framar fyrrum, en selt hann fyrir nokkrum árum. Skýlið nýttist hins vegar vel áfram sem afrep fyrir gamlan mann.

Hvaleyrarlón

Hvaleyrarlón.

Þegar gengið var með innanverðu Hvaleyrarlóninu vakti athygli að gerður hafði verið sjóvarnagarður innan þess að hluta. Spurningin var hvaða tilgangi hann hafi átt að þjóna þá er gerður var, væntanlega með tilfallandi kostnaði?

Sjóvörn hefur einig verið gerð norðan Hvaleyrartanga, allt að Hvaleyrarfjöru vestan hans. Þrátt fyrir framkvæmdirnar var enginn göngustígur gerður með ströndinni, sem reyndar hefði verið í lófa lagið. Gangandi þurfa því að ganga upp á og með utanverðum golfvellinum í verulegri óþökk golfaranna hverju sinni.

Flókaklöpp

Flókaklöpp.

Ofan Hvaleyrartanga er „Flókaklöppin“ með áhugaverðum áletrunum, fimm skotbyrgi frá seinni heimstyrjöldinni auk annarra minja er minna á þá tíð. Allt umleikis eru minjar Hvaleyrarkotanna sem og höfuðbýlisins. Í dag eru þær allar ómerktar á golfvellinum. Golfararnir, sem rætt var við, höfðu enga meðvitund um nýtingu svæðisins fyrrum. Sorglegt er til þess að vita að ákveðin íþrótt skuli vera orðin svo afgerandi að hún þurrkar út nánast allan áhuga þátttakenda á fortíðinni. Kannski skiptir núvitundin það meira máli en arfleifðin?

Oftar en einu sinni hefur því verið haldið fram að golfvellirnir séu einu staðirnir þar sem hægt er að halda „sjúklingum“ innan afmarkaðs svæðis án girðinga. Afstaða til þess verður ekki tekin hér.

Gangan endaði við flakið við leifar Fjarðarkletts GK 210 í Hvaleyrarfjöru.

Hvaleyrarfjara

Hvaleyrarfjara með minjum Fjaðarkletts.