Hvítanes í sunnanverðum Hvalfirði er merkilegur staður, ekki síst vegna mikilla stríðsminja, sem þar eru.
Friðþór Eydal skrifaði um „Hernámið og hersetuna“ í Fréttablaðið 9. maí 2020. Þar minnist hann t.d. á Hvítanes.
Satt og logið um hernámið og hersetuna
„Friðþór Eydal hefur rannsakað umsvif erlendra herja á Íslandi, meðal annars í skjalasöfnum þeirra. Margt reynist ekki eins og almannarómur hafði fyrir satt og Friðþór varpar ljósi á staðreyndirnar.
Bretar hernámu Ísland 10. maí 1940 til þess að hindra að Þjóðverjar kæmu sér upp flug- og flotabækistöðvum í landinu sem ógnað gætu Bretlandseyjum og skipaleiðum á Norður-Atlantshafi.
Stuttur aðdragandi var að þessum sögufræga atburði en þýskir herir gerðu innrás í Noreg mánuði fyrr og brutu á nokkrum vikum á bak aftur mótspyrnu norska hersins og breskra og franskra hersveita sem sendar höfðu verið til aðstoðar.
Sumt af breska herliðinu sem hrökklaðist frá Noregi kom til Íslands ásamt öðrum liðsauka í júnímánuði og hóf varnarviðbúnað. Skortur á herafla varð til þess að Kanadastjórn lagði til eitt stórfylki með tæplega 2.700 mönnum til Íslandsdvalar sumarið 1940. Sigldu flestir þeirra áfram til Bretlands um haustið þegar breskur liðsauki barst til landsins. Herafli Breta náði hámarki árið 1941 þegar um 28.000 liðsmenn landhers, flughers og flota dvöldu í landinu.
Til verndar skipaleiðinni
Bandaríkin voru hlutlaus í styrjöldinni til ársloka 1941 en allmikils stuðnings gætti þar við málstað Breta. Ríkisstjórn Roosevelts Bandaríkjaforseta fann leið til þess að létta undir með því að lána og leigja Bretum margvíslegan herbúnað sem þeir sóttu í bandarískar hafnir. Mikil hætta steðjaði þó að siglingunum og hugkvæmdist forsetanum að senda bandarískt herlið til Íslands og láta Bandaríkjaflota þar með veita herskipavernd á siglingaleiðum austur á mitt Atlantshaf. Sömdu ríkisstjórnir Íslands, Bretlands og Bandaríkjanna um það sumarið 1941 að bandarískt herlið skyldi taka við vörnum landsins og leysa breska hernámsliðið smám saman af hólmi.
Hernámi Breta lauk formlega 22. apríl 1942 þegar meginliðsstyrkur þeirra hvarf heimleiðis, en breski flotinn og flugherinn, sem léku aðalhlutverk í baráttunni við þýska flotann á norðaustanverðu Atlantshafi, starfaði áfram í landinu með Bandaríkjaher þar til eftir stríðslok.
Hvalfjörður lék stórt hlutverk
Bandamenn höfðu mikinn viðbúnað til þess að hefta siglingar þýskra herskipa og kafbáta og verja skipaleiðir á Atlantshafi. Varnir landsins miðuðust fyrst og fremst við svæði þar sem voru hafnir, eða aðstaða til flugvallagerðar og starfsemi sjóflugvéla með vegartengingu við aðra landshluta, svo sem á Suðvesturlandi, við Húnaflóa, Eyjafjörð og á Austurlandi.
Viðbúnaður var mestur á höfuðborgarsvæðinu, en Reykjavíkurhöfn var lykillinn að liðs- og birgðaflutningum til landsins. Umsvifin voru í meðallagi á Norðurlandi og fremur lítil á Austurlandi, enda vegatengingar við þá landshluta fremur frumstæðar. Bretar lögðu flugvelli í Kaldaðarnesi og Reykjavík en Bandaríkjamenn reistu stóra flugbækistöð við Keflavík, sem lék stórt hlutverk í miklum loftflutningum þeirra til Bretlands.
Eftirlitsskip og fylgdarskip skipalesta höfðu aðstöðu í Hvalfirði og áðu einnig í Seyðisfirði. Hvalfjörður lék stórt hlutverk í siglingum skipalesta með hergögn og birgðir frá Bretlandi og Bandaríkjunum til sovéskra hafna á Kólaskaga og við Hvítahaf er mest reið á, 1941 og 1942.
Heildarheraflinn í landinu var nærri 50.000 þegar mest var, sumarið 1943, og hafði um 80 prósent hans aðsetur á höfuðborgarsvæðinu og Suðvesturlandi. Landsmenn sjálfir voru einungis um 120.000 í upphafi hernámsins og íbúar Reykjavíkur um 40.000.
Kærkomin umskipti
Þótt þröngt væri á þingi tókst sambúð landsmanna við hina framandi gesti furðu vel. Í árslok 1942 var ekki lengur talin hætta á innrás Þjóðverja og sumarið eftir var stór hluti bandaríska herliðsins fluttur til Bretlands til þjálfunar fyrir innrásina á meginland Evrópu. Nýr og miklu fámennari liðsafli kom þá til landsins en hélt að mestu sömu leið árið 1944.
Flestir bresku og bandarísku hermennirnir sem eftir sátu í stríðslok störfuðu á Reykjavíkur- og Keflavíkurflugvelli og hurfu þeir síðustu til síns heima vorið 1947.
Síðari heimsstyrjöldinni hefur verið lýst sem mesta umbrotatíma í sögu Íslendinga. Markaðir opnuðust í Bretlandi og Bandaríkjunum fyrir flestar útflutningsafurðir á margföldu verði og hleypti það, ásamt atvinnu sem skapaðist við fjölbreytt umsvif herliðsins, af stað gríðarlegum efnahagslegum uppgangi. Umskiptin voru kærkomin eftir langvarandi stöðnun og kreppu og grunnur var lagður að nútímavæðingu og velmegun þjóðarinnar.
Íslendingar voru ekki þátttakendur í hernaðinum en bækistöðvar bandamanna og aðstaða í landinu átti þátt í að flýta fyrir sigri í styrjöldinni. Landsmenn veittu mikilvægan stuðning, t.d. með sölu matvæla og annarra framleiðsluvara sem kom Bretum afar vel.
Þótt styrjöldin færði þjóðinni auðsæld og umbætur fór hún ekki varhluta af ógnum hennar. Alls fórust 151 Íslendingur af hernaðarvöldum, svo fullvíst sé talið, og skjótur efnahagsuppgangur og herseta höfðu langvarandi þjóðfélagsumrót í för með sér.
Bandamenn misstu alls nærri 900 manns hér við land og í stríðslok hvíldu 510 erlendir hermenn og sjómenn í íslenskri mold. Þar af voru rúmlega 200 Bandaríkjamenn en líkamsleifar þeirra voru síðar fluttar til heimalandsins.
Bábiljurnar leiðréttar
Hér hefur verið stiklað á stóru um helstu staðreyndir, en margvíslegar bábiljur sem snemma fengu byr undir báða vængi heyrast enn. Er því ekki úr vegi að skýra og leiðrétta ýmislegt sem misskilningi kann að valda.
Hernámi Breta lauk formlega 22. apríl 1942 og við tók umsamin hervernd Bandaríkjanna.
Herliðið tók sér í fyrstu bólfestu í fjölmörgum byggingum sem sumar stóðu auðar, en reistu síðan herbúðir víða á leigulóðum. Engin mannvirki eða lóðir voru tekin án samninga og endurgjalds til eigenda, sem miðaðist við gangverð í landinu.
Stóraukin dýrtíð olli því þó að endurgjaldið rýrnaði þegar frá leið, en fékkst að hluta bætt í gegnum skaðabótanefndir sem í sátu fulltrúar hersins og íslenskra stjórnvalda. Þeir sem fært gátu sönnur á að hafa farið halloka í viðskiptum hlutu bætur frá ríkissjóði að styrjöldinni lokinni.
Breska orrustuskipið HMS Hood lagði ekki upp frá Hvalfirði í sína hinstu för vorið 1941, heldur var á leið þangað frá Orkneyjum þegar því var snúið til vesturs í veg fyrir þýska orrustuskipið Bismarck. Hood var grandað um það bil miðja vegu milli Reykjaness og Hvarfs á Grænlandi en ekki skammt undan Reykjanesi. Ógerlegt er talið að sprengjudrunurnar hafi borist alla leið til Reykjavíkur.
Ofmetinn fjöldi hermanna
Hermannafjöldi í landinu hljóp ekki á hundruðum þúsunda, eins og sumir landsmenn ályktuðu af umsvifunum sem þeir urðu vitni að, heldur fór mest í tæplega 50 þúsund.
Hernaðaryfirvöld gerðu reyndar í því að láta líta út fyrir að liðsaflinn væri miklu meiri, til þess að láta Þjóðverja halda að innrás í Noreg væri yfirvofandi frá Íslandi og Bretlandseyjum.
Heraflinn var minnstur á Austurlandi, þar sem hann fór mest í um 800 á Seyðisfirði en fluttist síðar að stórum hluta til Reyðarfjarðar. Þar náði hann hámarki rúmlega 900 í tíð breska, kanadíska og norska hersins árið 1942 og í rúmlega 1.200 eftir að Bandaríkjamenn höfðu tekið við haustið 1942, en var ekki mörg þúsund eins og gjarnan er haldið fram fyrir austan.
Íslendingar ekki þátttakendur
Landsmenn voru ekki þátttakendur í hildarleiknum en allmargir íslenskir sjómenn sigldu á farskipum sem fluttu nauðsynjavörur til landsins og fiskiskipum með afla til sölu á mörkuðum í Bretlandi. Einnig réðust nokkrir ungir sjómenn á erlend farskip, oftast í ævintýraleit. Því miður komust ekki allir alltaf heilir heim úr þeim ferðum, en það var fremur afleiðing, heldur en þátttaka í átökunum og reyndar engin nýlunda, enda sjómennska jafnan nokkurt hættuspil.
Þjóðverjar litu á siglingar Íslendinga til Bretlands sömu augum og bandamenn á siglingar norskra og danskra skipa á hersetnum heimaslóðum sínum, það er í þágu óvinarins og eirðu engu.
Alls fórust um 410 íslenskir sjómenn og farþegar af almennum slysförum eða hernaðarvöldum á styrjaldarárunum sex, auk fjögurra sem urðu fyrir banaskotum hermanna eða sprengjubrotum. Virðist sem sú heildartala hafi snemma verið höfð ranglega til marks um fórnir Íslendinga í samanburði við aðrar þjóðir.
Til samanburðar við þá 260 sjómenn og farþega sem ekki fórust af hernaðarvöldum, svo víst sé talið, fórust samkvæmt skýrslum Slysavarnafélags Íslands að meðaltali um 200 sjómenn á þremur sex ára tímabilum á áratugnum fyrir stríð. Að teknu tilliti til mjög aukinnar sóknar og ástands skipastólsins á stríðsárunum, má því álykta að hlutfallslegur mannskaði af öllum orsökum á sjó, hafi í reynd verið lítið tíðari en áratugina á undan.
Lítinn séns í íslenskar konur
Erlendu hermönnunum varð alls ekki eins vel ágengt í samskiptum við íslenskar stúlkur og oft er látið í veðri vaka. „Ástandið“ svonefnda var raunar ekkert frábrugðið því sem jafnan gerðist á stöðum sem ungir vermenn hópuðust til eða í síldarplássum, þótt fjöldi aðkomumanna næði óþekktum hæðum á stríðsárunum.
Langflestir hermannanna kváðust ekki eiga neinn „séns“ í stúlkurnar, sem fæstar virtu þá viðlits.
Bandaríkjaher sem fjölmennastur var þegar á leið, lagði bann við giftingum liðsmanna sinna. Ákvörðunin var ekki einskorðuð við Ísland og byggðist á því að stjórnvöld vildu forðast að þurfa að annast framfærslu fjölskyldna sem stofnað væri til með óvissa framtíð og e.t.v. í einmanaleika fjarri heimahögum.
Allmikið er til af lýsingum á viðhorfi hermanna til landkosta eða ókosta og dvölinni í landinu almennt, en fremur lítið um viðhorf til landsmanna. Þetta stafar einfaldlega af því að sárafáir kynntust í raun, eða áttu náin samtöl við, landsmenn.
Nú gerir fólk sér vart grein fyrir hversu tungumálakunnáttan var lítil og erfiðlega gekk að eiga gagnleg samtöl þannig að fólk kynntist högum hvers annars í raun. Flest viðhorfin á báða bóga eru því byggð á því sem fólk sá úr fjarlægð, og upplifði í einhverjum tilvikum, en ekki síst á sögusögnum og getgátum sem gengu manna á milli í fásinninu, enda fréttaflutningi strangar skorður settar.
Báru hver öðrum vel söguna
Þeir sem kynntust í raun sér um líkum, til dæmis liðsforingjar eða menntamenn, báru hverjir öðrum jafnan vel söguna og sama er að segja um þá sem áttu í viðskiptum eða bjuggu í návígi, til dæmis á smærri varðstöðvum á landsbyggðinni.
Herliðið flutti ógrynni tækja og búnaðar til landsins við uppbyggingu heraflans, til dæmis rúmlega 4.000 bifreiðar og önnur farartæki auk fjölda flugvéla, og reisti um 12.000 braggabyggingar ásamt 1.000 smærri stein- og timburhús í rúmlega 300 íbúðahverfum. Þrjú þúsund farartæki voru flutt aftur úr landi ásamt margvíslegum búnaði.
Árið 1944 samdist svo við ríkisstjórnir Bretlands og Bandaríkjanna um að íslenska ríkið annaðist kaup og endursölu á öllum fasteignum og búnaði sem ekki yrði fjarlægður, til þess að tryggja innheimtu lögboðinna aðflutningsgjalda. Fékk ríkissjóður eignirnar á vægu verði en yfirtók jafnframt skuldbindingar gagnvart landeigendum. Var Sölunefnd setuliðseigna sett á fót til að annast verkið ásamt því að bæta skemmdir á landeignum fyrir ágóða af endursölu til landsmanna.
Í allmörgum tilvikum fengu landeigendur greitt fyrir að sjá sjálfir um landlögun en heyktust sumir á því og eru það nánast einu staðirnir þar sem mannvirki eða minjar standa eftir frá hersetunni, utan flugvallanna í Reykjavík og Keflavík og olíu- og hvalstöðvarinnar í Hvalfirði, sem voru áfram í notkun.
Heyrst hefur að hermannafjöldi í Hvalfirði hafi skipt tugum þúsunda, en hið rétta er að bækistöðvar í firðinum voru fremur fáliðaðar en fjöldi sjóliða og sjómanna á skipum sem áðu þar gat auðvitað hlaupið á þúsundum, þótt fæstir fengju landgönguleyfi.
Í Hvalfirði gekk lengi sú saga að við lendingu léttbáta, skammt innan við Hvítanes, hafi verkamenn verið látnir smíða forláta tröppur fyrir komu Winstons Churchills, forsætisráðherra Breta, sem hafði viðdvöl á Íslandi eina dagstund sumarið 1941. Sagan er ólíkleg sökum þeirrar leyndar sem hvíldi yfir komunni og fullvíst er að Churchill steig alls ekki á land í Hvalfirði heldur einungis í Reykjavík.
Engir særðir hermenn að utan
Um hríð var útbreidd sú saga að stórir herspítalar hefðu verið reistir á Íslandi fyrir hermenn sem særðust á meginlandi Evrópu eftir innrás bandamanna í Normandí sumarið 1944. Herliðið reisti reyndar braggaþyrpingar fyrir sjúkraskýli og spítala í herbúðum sínum en einungis í samræmi við fjölda hermanna í landinu hverju sinni. Liðsaflinn dróst skjótt saman árið 1943 og því ekki að undra þótt landsmenn hafi brotið heilann um tilgang svo umfangsmikilla salarkynna, sem skyndilega stóðu auð og yfirgefin.
Sömu vangaveltur eru þekktar í tengslum við bandarísku flugbækistöðina í Narsarsuaq á Grænlandi, þar sem allstór spítali reis fyrir herlið á stríðsárunum og var endurnýjaður í Kóreustríðinu, að sögn til líknarmeðferðar illa særðra hermanna, sem herinn vildi að leynt færi.
Draugur kveðinn niður
Ýmsar sögur hafa einnig gengið af reimleikum tengdum hermönnum eða hjúkrunarkonum sem látist hafi á stríðsárunum og jafnvel spítalabröggum eða efni úr þeim sem flutt var á milli landshluta.
Þekkt er saga af bandarískri hjúkrunarkonu, ungri og myndarlegri, sem sögð er hafa látist í bifreiðaslysi í Mosfellssveit og gengið aftur á þeim slóðum. Dauðsföll í röðum herliðsins eru vel skilgreind í heimildum hernaðaryfirvalda og sýna að engin hjúkrunarkona hersins lést á Íslandi á stríðsárunum.
Ekki verða bornar brigður á frásagnir fólks af reimleikum en helst er að ætla að afturgengna hjúkrunarkonan unga og myndarlega hafi ef til vill ekki verið öll þar sem hún var séð.“
Í Sunnudagsblaði Morgunblaðisins 3. jánúar 1999 er fjallað um „Hernaðarumsvif í Hvalfirði eftir heimsstyrjöldina síðari“.
„Bandamenn komu sér upp aðstöðu á Íslandi til þess að fylgjast með og hefta siglingar þýskra herskipa og kafbáta og verja skipaleiðir sínar á norðaustanverðu Atlantshafi. Bretar lögðu flugvelli í Reykjavík og Kaldaðarnesi í þessu skyni.
Hernaðarumsvif
Umsvifum hers og flota bandamanna í Hvalfirði í síðari heimsstyrjöldinni er lýst ítarlega í bókinni „Vígdrekar og vopnagnýr – Hvalfjörður og hlutur Íslands í orrustunni um Atlantshafið“, eftir Friðþór Eydal sem kom út fyrir jóli 1997. Ekki var rými í bókinni fyrir umfjöllun um afdrif stöðva og mannvirkja hersins og umsvif í Hvalfirði að styrjöldinni lokinni og bætir bókarhöfundur úr því nú.
Bandamenn komu sér upp aðstöðu á Íslandi til þess að fylgjast með og hefta siglingar þýskra herskipa og kafbáta og verja skipaleiðir sínar á norðaustanverðu Atlantshafi. Bretar lögðu flugvelli í Reykjavík og Kaldaðarnesi í þessu skyni, en Bandaríkjamenn tvo flugvelli suður með sjó til loftvarna og liðsflutninga til Bretlands. Eftirlitsskip og fylgdarskip skipalesta áðu í Hvalfirði og Seyðisfirði. Um eins og hálfs árs skeið var kaupskipum frá Bretlandi og Bandaríkjunum safnað saman í Hvalfirði til siglingar í skipalestum norður fyrir land og um Smuguslóðir til rússneskra hafna. Hætt var að hafa þennan hátt á í árslok 1942 og sigldu Rússlandsskipalestirnar eftir það beint frá Skotlandi án viðkomu. Herskipadeildir og fylgdarskip skipalesta höfðu þó viðkomu hér á landi eftir sem áður.
Í Hvalfirði lá oft fjöldi skipa á kaupskipalæginu utan Hvammsvíkur og á móts við Ferstiklu og herskipalæginu sem var í firðinum annanverðum. Gat þar oft að líta stærstu herskip veraldar sem veittu skipalestunum vernd gegn orrustuskipum þýska flotans í Noregi. Bretar reistu flotastöð í Hvítanesi þar sem m.a. var gert við netalagnir, sem lágu þvert yfir fjörðinn utanverðan, til varnar gegn óvinaskipum og kafbátum, svo og tundurdufl sem girtu fjörðinn við Hálsnes í sama tilgangi. Í stöðinni voru birgðageymslur, verkstæði, íbúðaskálar, spítali, og annað til þjónustu við herskipaflotann ásamt kvikmyndahúsi, verslun, veitingastofu og tómstundaheimili fyrir sjóliðana. Öflug flotkví lá innanvert við nesið ásamt viðgerðar- og birgðaskipum og lyfti skipum til botnviðgerðar.
Bandaríkjamenn reistu mikla eldsneytisbirgðastöð í landi Miðsands og Litlasands við fjörðinn norðanverðan. Þar tóku skip sem áðu í firðinum olíu og einnig olíuskip sem fylgdu flotadeildunum og gáfu þeim eldsneyti á hafi úti. Á Miðsandi var jafnframt birgðastöð vegna skipaviðgerða.
Í Hvammsvík reis birgðastöð fyrir skotfæri og djúpsprengjur flotans ásamt tómstundaheimili fyrir skipshafnir Bandaríkjaflota. Sams konar tómstundaheimili var reist fyrir áhafnir kaupskipanna í Hvammsey. Á Hvammshólum, sem gnæfir yfir Hvammsvíkina, var aðsetur hafnarstjórans í Hvalfirði, sem var breskur sjóliðsforingi, og stjórnuðu menn hans allri skipaumferð í firðinum.
Skipalægið og flotastöðvarnar í Hvalfirði voru vandlega varðar gegn óvinaárásum. Segulmælingalagnir á sjávarbotninum milli Seltjarnarness og Akraness gerðu viðvart um skipaumferð í myrkri eða dimmviðri og varðskip önnuðust eftirlit á innanverðum Faxaflóa. Hljóðsjárbúnaður lá á sjávarbotni beggja vegna álsins í firðinum utanverðum og var eftirlitsstöð með henni að Gröf í Skilamannahreppi. Á Kjalarnesi, Akranesi og í Borgarnesi var talsvert herlið sem hafði það hlutverk að verja óvinum leiðina landveginn. Stórar fallbyssur við bæinn Dalsmynni á Kjalarnesi vörðu innsiglinguna. Slíkar byssur voru einnig á Valhúsahæð á Seltjarnarnesi og Hvaleyri við Hafnarfjörð.
Úr krikanum utan Hvaleyrar og yfir að Grundartanga lá netalögn úr sverum vír sem stöðva skyldi skip og kafbáta á leið inn fjörðinn. Netunum var haldið uppi af fjölmörgum stórum duflum og lágu festar í akkeri á botninum. Hlið var á lögninni og varðskip við sem hleypti skipum í gegn. Fallbyssur og ljóskastarar á bökkunum undan Útskálahamri að sunnan, og að Klafastöðum að norðan, vörðu netalögnina. Að auki lá tundurduflagirðing með segulnemum þvert yfir fjörðinn undan Hálsnesi.
Í varðstöð á nesinu mátti sprengja duflin, eitt eða fleiri, undir óboðnum kafbátum eða skipum sem kæmust svo langt. Þessi varnarviðbúnaður bandamanna í firðinum ásamt ströngu eftirliti á Faxaflóa var þýskum hernaðaryfirvöldum ljós og aftraði þeim frá að stefna skipum og kafbátum gegn þessum mikilvæga áningarstað. Til loftvarna var öflugum byssum komið fyrir undir Hvammshólum við Hvammsvík, á Hrafneyri handan fjarðarins og á Þyrilsnesi. Smærri loftvarnabyssur voru þar og í Hvítanesi og við olíustöðina á Söndum. Þýskar könnunarflugvélar lögðu oft leið sína með ströndum landsins í leit að skipum, loftmyndatöku af hernaðarmannvirkjum og til veðurathugana. Í einstaka tilfellum gerðu þær árásir á skip eða mannvirki. Oft lá leiðin yfir Hvalfjörð til að gæta að skipum á læginu. Flug þeirra var áhættusamt, enda margar loftvarnabyssur í firðinum bæði í landi og á skipum. Einnig voru flugvellirnir í Reykjavík og Keflavík skammt undan en þar var fjöldi orrustuflugvéla sem höfðu það hlutverk að granda hinum óboðnu gestum. Þýsku njósnaflugvélarnar flugu gjarna lágt yfir fjöllum svo loftvarnaskytturnar rétt grilltu í skotmarkið. Bandaríkjaher grandaði 5 þýskum flugvélum við landið í styrjöldinni, öllum með orrustuflugvélum og tveimur eftir að þær höfðu lagt leið sína yfir Hvalfjörð.
Er leið á styrjöldina og bandamenn náðu yfirhöndinni í baráttu við þýska kafbátaflotann fór skipakomum fækkandi í Hvalfirði og viðbúnaður sömuleiðis. Breski flotinn starfrækti flotastöð sína í Hvítanesi til stríðsloka en hóf þá brottflutning. Dregið hafði verulega úr varnarviðbúnaði í firðinum er leið að styrjaldarlokum. Tundurduflagirðingin lá þó enn undan Hálsnesi uns henni var eytt í sprengingu í maí. Um líkt leyti var kafbátanetunum sökkt þar sem þau lágu þvert yfir fjörðinn og höggvið á landfestar þeirra.
Olíustöðin, sem Bandaríkjamenn reistu fyrir Breta á svokölluðum „láns og leigukjörum“ , var rekin af bresku olíufélagi frá ársbyrjun 1944. Réð fyrirtækið til þessa verks um 30 íslenska starfsmenn sem aðsetur höfðu í skálahverfinu á Miðsandi. Að styrjöldinni lokinni tók Bandaríkjafloti aftur við stöðinni og hugðist reka hana áfram samkvæmt áætlunum sem þeir þá höfðu uppi um herstöðvar til langs tíma.
Eftir stóðu í firðinum fjölmörg mannvirki sem reist höfðu verið í miklum flýti og með ærinni fyrirhöfn og kostnaði. Var komið að hernaðaryfirvöldum að losa sig við þessi mannvirki ásamt búnaði og birgðum sem ekki þótti ástæða til að nýta eða flytja af landi brott, enda flutningatæki, mannafli og farmrými af skornum skammti. Ljóst var að verðgildi mannvirkja á svo afskekktum stað gat ekki orðið í neinu samræmi við upphaflegan byggingarkostnað og varla að búast við að þau nýttust nema með flutningi annað.
Samkomulag hafði verið gert milli hernaðaryfirvalda og ríkisstjórnarinnar um að hún keypti og/eða yfirtæki mannvirki og búnað hersins og endurseldi einkaaðilum eftir atvikum. Í mörgum tilvikum var um að ræða greiðslu fyrir landspjöll sem orðið höfðu við umsvif herliðsins, einkum þegar um mannvirki var að ræða.
Í Hvítanesi var hafskipabryggja úr stáli og önnur smærri steinbryggja og heilt þorp íbúðarbragga og vöruskemma auk nokkurra hlaðinna steinhúsa. Þar var að finna vatnsveitu, rafstöð og kyndistöð og gatnakerfi með lýsingu. Í Hvammsvík og nágrenni voru vöruskemmur og skotfærageymslur og fjöldi íbúðarbragga. Þá voru braggahverfi að Dalsminni, Útskálahamri, á Hálsnesi, Þyrilsnesi, Hrafneyri, að Klafastöðum og Gröf. Nefnd setuliðsviðskipta annaðist ráðstöfun búnaðar og mannvirkja hersins fyrir hönd ríkissjóðs. Mannvirki og búnaður í Hvítanesi höfðu kostað breska flotann a.m.k. 270.000 sterlingspund, sem var jafnvirði 2,9 hundraðshluta af verðmæti útfluttra sjávarafurða árið 1945 og gæti með sömu viðmiðun numið rúmlega 2,7 milljörðum króna í dag. Stöðin á Hálsnesi hafði kostað 10.000 pund og í Hvammsvík átti flotinn mannvirki að verðmæti 7.000 sterlingspund. Greiðlega gekk að selja búnað og byggingar, enda flestar færanlegar.
Helstu mannvirkin í Hvítanesi voru tvær stórar vöruskemmur og steypt plan við þær og bryggjurnar tvær. Fékk Vita- og hafnarmálastofnunin m.a. tvo stóra gufukrana sem gengu á járnbrautarspori fram á bryggjuna ásamt skemmunum tveimur. Greiddi stofnunin 3.000 sterlingspund fyrir þá stærri og flutti á lóð sinna við Vesturvör í Kópavogi.
Í bryggjuna sjálfa, sem kostað hafði 126.000 pund að smíða, barst einungis eitt boð að upphæð 400 pund og var það einnig frá Vita- og hafnarmálastofnuninni. Mælti breski flotaforinginn í Reykjavík með því að boðinu yrði tekið, þótt lágt væri, enda vart að búast við öðru betra og stofnunin hefði reynst breska flotanum hjálpleg á ýmsan hátt og keypt mikið af búnaði og þ. á m. umrædda skemmu á fullu verði. Breska flotastjórnin ákvað hins vegar að gefa íslenska ríkinu bryggjuna gegn því að ríkisstjórn Bretlands væri þar með leyst undan allri ábyrgð vegna viðhalds hennar eða kröfum sem upp kynnu að koma síðar vegan þessa mannvirkis.
Ekki kom til þess að bryggjan yrði seld eða rifin og töldu íslensk stjórnvöld í fyrstu réttast að eiga hana þar uppistandandi ef til þyrfti að taka og greiddi Vitamálaskrifstofan landeiganda dálitla leigu fyrir aðgang að bryggjunni, a.m.k. fyrstu árin. Snemma fór þó að bera á því að tekið væri timbur úr bryggjunni. Hirti þá Vitamálaskrifstofan það sem hún náði upp af brautarsporinu og undirlagstrjám. Eigandi jarðarinnar óskaði eftir því árið 1949 að fá bryggjuna keypta af ríkissjóði og árið 1960 að ríkissjóður afsalaði honum bryggjunni til niðurrifs vegna þeirra búsifja sem hernámið í Hvítanesi hefði haft í för með sér og hversu takmarkaðar skaðabætur hefðu hlotist fyrir. Var það álit vitamálastjóra í bæði skiptin að ekki væri ástæða til að afsala bryggjunni, heldur bíða hentugs tækifæris í þeirri von að gera mætti úr henni frekari verðmæti en brotajárn. Má eflaust geta sér þess til að mannvirki þau sem eftir stóðu í Hvítanesi hefðu ef til vill fengið nýtt hlutverk ef síld hefði gefið sig oftar í eins ríkum mæli í Hvalfirði og hún gerði veturinn 1947-1948, þegar nánast engar síldarverksmiðjur var að finna á Suðvesturlandi. Þá má ætla að þróun heimsmála í kalda stríðinu hafi gefið mönnum tilefni til að halda að brátt yrði aftur þörf á hernaðaraðstöðu í firðinum.
Hvalfjarðarsíldin og hreinsun fjarðarins
Veiðar á síld til beitu voru hefðbundnar í Faxaflóa á haustvertíð. Veturinn 1947 varð mikillar síldar vart í Kollafirði og á Sundunum og var talsvert veitt þar um veturinn af blandaðri síld í nót sem siglt var með í bræðslu til Siglufjarðar, enda hefðbundnar síldveiðihafnir á Norður-og Austurlandi og engar stórar síldarbræðslur að finna fyrir sunnan. Sumarsíldveiðarnar fyrir Norðurlandi brugðust illa þetta sumar, svo og veiðar reknetabátanna á Faxaflóa um haustið. Auk þeirrar óáranar sem síldarlaust sumar hafði í för með sér stefndi nú í alvarlegan beituskort um veturinn. Reknetabátarnir lömdu allan flóann um haustið, en án teljandi árangurs uns mikillar síldar varð vart inni í Hvalfirði í byrjun október. Var það upphaf stórfenglegra síldveiða í firðinum sem stóðu fram í marsmánuð árið eftir.
Fljótlega kom þó í ljós að víða á veiðislóð síldveiðibátanna var að finna leifar af kafbátagirðingunni, sem sökkt hafði verið við brottför breska flotans, legufæri og víradræsur sem ollu síldarflotanum tilfinnanlegu veiðarfæratjóni. Kvartaði Landssamband íslenskra útvegsmanna yfir þessu ástandi til sjávarútvegsmálaráðherra í janúar 1948. Var vitaskipinu Hermóði falið að athuga hvort mögulegt væri að ná upp nokkru af þessum festum, en svo reyndist ekki vera og ljóst að til þyrfti að koma öflugt sérbúið skip. Samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu 25. febrúar þess efnis að nauðsynlegar ráðstafanir skyldu gerðar til hreinsunar á öllu því sem herliðið hefði skilið eftir á botni Hvalfjarðar sem truflun ylli við veiðar í firðinum og skemmdum á veiðarfærum. Skyldi ríkisstjórnin beita sér fyrir því að þau erlendu ríki sem hér ættu hlut að máli framkvæmdu hreinsun á sinn kostnað auk þess að greiða tjón sem fiskimenn hefðu beðið og kynnu að bera af þessum sökum. Varð að samkomulagi að skip frá breska flotanum, H.M.S. Barrage, sérbúið til lagningar og viðhalds netgirðinga og legufæra, skyldi annast verkið. Hóf skipið að slæða upp kafbátanetin utanvert við Hvalfjarðareyri í lok ágúst.
Brátt kom í ljós að önnur tveggja lagna sem þar höfðu legið samhliða var enn í heilu lagi, en hin var í nokkrum hlutum og höfðu sumir m.a. verið dregnir inn í víkina innan við Hvalfjarðareyri. Þá héldu dufl, sem skilin höfðu verið eftir á lögnunum er þeim var sökkt, enn hlutum hennar nokkuð frá botni og víða lágu rytjur af nótum síldarbáta frá því um veturinn saman við víraflækjurnar ásamt legufærum skipa. Skipið hélt slæðingum áfram fram í nóvember og hafði þá losað í Hvítanesi 14 farma af netum, duflum og legufærum sem flest voru 6-8 tonna steypuklumpar. Mest af víraflækjunum setti skipið á land upp af bryggjunni í Hvítanesi, en nokkuð var látið í sjóinn og fjöruna upp með henni.
H.M.S. Barrage kom aftur til landsins í apríl 1949 og hóf slæðingu að nýju í maí. Verkið gekk nú mjög vel, enda réttur árstími. Stóð verkið fram í ágúst og taldi skipstjórinn þá að vírnetin sem upp hefðu verið tekin mundu nægja í fjögurra sjómílna samfellda lögn auk dufla og legufæra. Þó var línu yfir fjörðinn frá odda Hvalfjarðareyrar hlíft við slæðingu til að skemma ekki sæsímastreng sem þar hafði verið lagður. En Hvalfjarðarsíldin sást ekki meir.
Nýtt hlutverk
Þótt Bretar hyrfu á brott úr Hvalfirði að stríðinu loknu starfrækti Bandaríkjafloti áfram olíustöðina á Söndum. Umsvifin voru þó ekkert í líkingu við það sem verið hafði, en Bandaríkjamenn höfðu uppi miklar áætlanir til að tryggja öryggi í þessum heimshluta að styrjöldinni lokinni og óskuðu eftir leyfi til að starfrækja áfram herstöðvar á Íslandi til langs tíma.
Hugmyndir Bandaríkjahers voru þær að rekstur Keflavíkurflugvallar yrði óbreyttur, þ. e. sem millilandaflugvöllur og að þar yrði einnig aðstaða fyrir sprengju- og orrustuflugsveitir flughersins eftir því sem þurfa þætti. Í herbúðum Bandaríkjaflota í Washington voru ýmsar hugmyndir viðraðar veturinn 1946 um staðsetningu flotaflugstöðvar eins og þeirrar sem rekin hafði verið í Skerjafirði og á Reykjavíkurflugvelli. Þaðan höfðu flugvélar flotans stundað eftirlitsflug og kafbátaveiðar á styrjaldarárunum. Þá var rætt um heppilegan stað fyrir flotastöð sem annaðist önnur verkefni og hýsa skyldi yfirstjórn flotans og verið hafði í Camp Knox í Reykjavík. Kom m.a. til álita að taka allt Kársnesið vestan Hafnarfjarðarvegar undir þessa aðstöðu, eða Skerjafjörð og Reykjavíkurflugvöll eins og verið hafði, og var rætt um innanverðan Kópavogsdal undir skotfærageymslur.
Einnig kom til álita að leggja flugvöll á Álftanesi með þremur flugbrautum og yrði þar öll aðstaða flotans utan Hvalfjarðar og næði um allt nesið inn í Hafnarfjörð. Loks kom til álita að flotaflugstöðinni yrði einnig valinn staður á Keflavíkurflugvelli.
Í Hvalfirði gerðu menn ráð fyrir að olíubirgðastöðin á Söndum yrði starfrækt áfram, en ný stöð reist innanvert við Hvítanes ef leyfi fengist ekki til áframhaldandi reksturs. Hvítanes var álitinn heppilegur staður fyrir yfirstjórn flotans og skotfærageymslur hans yrðu áfram í Hvammsvík, eða utanvert við stöðina á Miðsandi. Ekki var búist við því að mikið af þeim byggingum sem reistar höfðu verið á stríðsárunum yrðu nýttar til frambúðar, enda flestar þeirra braggar sem ekki var ætlað að standa lengi.
Vart er þó ástæða til að ætla að komið hefði til greina að reisa ofangreindar herstöðvar á höfuðborgarsvæðinu þótt rætt hafi verið um þá staði í upphaflegri tillögugerð. Í skjalasafni Bandaríkjaflota er að finna kort með hugmynd að flugvelli á Álftanesi og hefur þar verið ritað: „Nei, forsetinn býr þar.“ Sérstök staðarvalsnefnd á vegum flotans tók sér ferð á hendur til Íslands og kannaði aðstæður síðari hluta aprílmánaðar 1946. Auk hernaðarlegra atriða hafði nefndin þrjú meginatriði að leiðarljósi við tillögugerð sína.
a. Af pólitískum og diplómatískum ástæðum væri óæskilegt að reisa herstöðvar á höfuðborgarsvæðinu.
b. Sökum skorts á ræktarlandi væri æskilegt að halda sig við óræktuð svæði þar sem því yrði við komið.
c. Hátt verð á fasteignum mælti með því að valin væru svæði þar sem sem fæstar byggingar væru fyrir.
Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að flotastöðin skyldi rísa í Hvítanesi; sprengju- og skotfærageymslur fyrir herskipaflotann í Hvammsvík; olíustöðin skyldi vera á sama stað, en austan Hvítaness til vara; Fjarskiptastöð á Kjalarnesi, eða austan Hvítaness til vara; hafnarskrifstofa flotans í Reykjavík sem verið hafði á efstu hæð hafnarhússins á stríðsárunum, yrði best rekin þar áfram; flotaflugstöð og aðstaða öll fyrir flugvélar flotans skyldi vera á Keflavíkurflugvelli.
Er skemmst frá því að segja að ofangreindar áætlanir Bandaríkjamanna komu aldrei til framkvæmda, enda kveðið á um brottför Bandaríkjahers í Keflavíkursamningnum sem undirritaður var 8. október 1946.
Er Bandaríkjafloti tók aftur við olíustöðinni í Hvalfirði af Bretum sumarið 1945 hætti Shell olíufélagið breska rekstrinum og við tók bandaríska félagið Standard Oil (ESSO) í gegn um umboðsaðila sinn hér á landi, Hið íslenska steinolíufélag. Sameinuðu þar krafta sína smæsta íslenska olíufélagið og stærsta olíufélag í heimi. Daglegur rekstur stöðvarinnar var áfram í höndum íslenskra starfsmanna. Olíufélagið hf. sem stofnað var vorið 1946 keypti þá um haustið meirihlutann í Hinu íslenska steinolíufélagi, en það félag hafði þá tekið við eldsneytisafgreiðslu á flugvélar á Keflavíkurflugvelli.
Við brottför Bandaríkjahers bauðst stóru olíufélögunum Olíuverslun Íslands og Skeljungi að kaupa olíustöðina í Hvalfirði. Að könnun lokinni var það niðurstaða beggja félaganna að stöðin mundi ekki henta fyrir starfsemi þeirra, enda áttu bæði félögin aðstöðu í Reykjavík. Olíufélaginu var þá boðin stöðin til kaups, en félagið átti ekkert umtalsvert geymarými og þótti henta að kaupa stöðina og reka hana a.m.k. þar til nýrri og fullkomnari aðstöðu yrði komið upp annarsstaðar. Er hér var komið höfðu bæði Hvalur hf., sem þá var nýstofnað fyrirtæki til hvalveiða, og Félag íslenskra botnvörpuskipaeigenda sýnt áhuga á að eignast aðstöðuna. Fjöldi nýsköpunartogara var í smíðum og brenndu langflestir svartolíu sem ekki var neitt geymarými fyrir á útgerðarstöðum þeirra. Samdist svo með togaraeigendum og Olíufélaginu, en meðal þeirra er stóðu að stofnun félagsins voru allmargir útvegsmenn, að hinir fyrrnefndu afsöluðu sér tilkalli til kaupa á olíustöðinni eða hluta hennar ef Olíufélagið fengi hana keypta og félagið skyldi sjá útgerðum hinna nýju skipa fyrir brennsluolíu á hagkvæmu verði. Sóttu togarar olíu í stöðina í Hvalfirði allt fram yfir 1950 og þaðan var olíuvörum lengi dreift út um landið. Með kaupum á stöðinni varð fyrst grundvöllur fyrir kaupum á stórum olíuförmum til landsins sem voru miklu hagkvæmari viðskipti en áður höfðu tíðkast.
Við Nefnd setuliðsviðskipta samdist svo vorið 1947 að Oíufélagið og Hvalur keyptu stöðina og skiptu félögin með sér bryggjunni, vatnsveitu, legufærum o.fl., en önnur mannvirki tilheyrðu hvoru félagi um sig. Var mikið af tækjabúnaði stöðvarinnar, sem ekki nýttist félögunum tveimur, selt öðrum, þ. á m. lítið olíuskip af þeirri gerð sem Bandaríkjafloti notaði til flutninga í höfnum og á skipalægjum, sem lá þar með bilaða vél. Gert var við skipið og því gefið nafnið Þyrill. Fékk Skipaútgerð ríkisins Þyril til afnota og var skipið í olíuflutningum innanlands næstu tvo áratugina og síðar, m.a. í síldarflutningum til ársins 1970 er það var selt úr landi.
Er Bandaríkjaher kom aftur til landsins árið 1951 má segja að olíustöðin á Söndum hafi gengið í endurnýjun lífdaga. Varnarliðið þarfnaðist mikils geymarýmis fyrir eldsneytisbirgðir sínar, en samið var um leigu á megninu af geymarými stöðvarinnar fyrir eldsneyti á flugvélar og herskip. Mikill hluti birgðanna í Hvalfirði voru reyndar varabirgðir, einkum fyrir Bandaríkjaflota. Auk þess var þar geymt allt flugvélaeldsneyti Varnarliðsins og það flutt í smærri skömmtum sjóleiðina til Keflavíkur eftir því sem gekk á birgðirnar þar. Var þessi háttur hafður á allt til ársins 1990, er ný olíubirgðastöð Varnarliðsins og NATO í Helguvík var komin í notkun.
Með komu Varnarliðsins var herlið á ný staðsett í Hvalfirði. Reis lítið braggahverfi á ásnum vestan Miðsands þar sem dvöldu rúmlega 100 liðsmenn landhersins og önnuðust gæslu olíubirgðastöðvarinnar. Stöðin var nú rekin af sérstöku dótturfyrirtæki Olíufélagsins, Olíustöðinni í Hvalfirði hf., sem stofnað var í því skyni. Landherinn hvarf að mestu af landinu árið 1959 og liðsmenn hans í Hvalfirði síðastir í janúar árið eftir. Önnuðust herlögreglumenn flughersins gæslustörfin uns landgönguliðar flotans tóku við sumarið 1961.
Olíubirgðastöð Atlantshafsbandalagsins
Bandaríkjafloti tók við hlutverki flughersins við rekstur mannvirkja og þjónustu við Varnarliðið sumarið 1961 í samræmi við aukinn þátt flotans í vörnum á austanverðu Norður-Atlantshafi. Taldi Atlantshafsherstjórn NATO brýnt að tryggja að nægar birgðir eldsneytis væru til staðar í Hvalfirði.
Var hafinn undirbúningur að endurnýjun geyma og lestunaraðstöðu ásamt lagningu legufæra í firðinum sem nýtast mættu herskipum Atlantshafsbandalagsríkjanna á ófriðartímum. Íslenskir aðalverktakar önnuðust framkvæmdir við nýju olíustöðina sem tekin var í notkun árið 1968. Framkvæmdum lauk að fullu árið eftir, en verkið var fjármagnað að mestu leyti af Mannvirkjasjóði NATO. Í stöðinni eru fjórir rúmlega 12.000 tonna svartolíugeymar sem grafnir voru niður í brekkuna upp af Gorvík vestan Miðsands, olíubryggja, dælu- og hitunarbúnaður auk húsnæðis fyrir rekstur stöðvarinnar.
Samkomulag varð um að Íslenskir aðalverktakar önnuðust rekstur nýju stöðvarinnar í samræmi við samning milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda frá árinu 1966 sem kvað á um að fyrirtækinu, sem sérhæfði sig í vinnu fyrir Varnarliðið, skyldu tryggð lágmarks verkefni er umsvif í varnarliðsverkefnum væru lítil. Þá tóku starfsmenn aðalverktaka einnig við gæslu olíubirgðanna og mannvirkja í Hvalfirði og leystu landgönguliðana af hólmi vorið 1967.
Hlutverk olíustöðvar NATO breyttist á öndverðum níunda áratugnum eftir að breytingar höfðu orðið á vélbúnaði herskipa. Eru flest herskip nú knúin dísilvélum eða þotuhreyflum sem krefjast léttara eldsneytis en svartolíunnar sem tankarnir voru upphaflega gerðir fyrir. Voru þeir tæmdir árið 1991 og endurnýjaðir og búnir til geymslu á léttari steinolíublöndu fyrir þotuhreyfla. Þessari framkvæmd lauk nýlega, en ekki liggur fyrir hvenær geymarnir verða fylltir að nýju.
Upphaflegt skálahverfi olíustöðvarinnar stendur enn að hluta á Miðsandi. Er það með heillegustu minjum um þau miklu umsvif sem voru í Hvalfirði og víðar á landinu á árum heimsstyrjaldarinnar síðari. Þar má sjá einstætt safn þeirra mismunandi braggategunda sem herlið bandamanna reisti yfir starfsemi sína, og hefur þeim verið vel við haldið, enda í fullri notkun fram á síðari ár.
Minjar um mannvirki og veru hernámsliðsins á stríðsárunum sáust lengi vel víða, en það voru ekki aðeins braggarnir sem hurfu, heldur hafa aðrar minjar smám saman verið að mást út.
Minjar um mannvirki og veru hernámsliðsins á stríðsárunum sáust lengi vel víða, en það voru ekki aðeins braggarnir sem hurfu, heldur hafa aðrar minjar smám saman verið að mást út. Hvalfjörður var mikilvægur frá hernaðarsjónarmiði og risu herstöðvar á Miðsandi að norðanverðu og á Hvítanesi að sunnanverðu. Þegar er ekið inn eftir Hvalfirði sunnanverðum og komið fram hjá Hvammsvík liggur vegurinn ofan við Hvítanes, sem hallar niður að firðinum, grasi vafið. Ofan frá þjóðveginum er þar ekkert sérstakt að sjá en útsýnið er fagurt frá þessum stað inn eftir Hvalfirði.
Gegnt Hvítanesi skagar Þyrilsnes fram í fjörðinn og sundið á milli er aðeins hálfur annar kílómetri. Til austurs sést inn í Brynjudal, en fyrir suðrinu gnæfir Reynivallaháls. Á Hvítanesi var bújörð, en langt mun vera síðan hún fór í eyði.
Afleggjari liggur frá þjóðveginum niður eftir nesinu. Þegar þangð er komið má víða sjá hvar vegir hafa legið um nesið, en grasið sem víðast hvar er hnéhá beðja, hefur miskunnað sig yfir hinar smærri minjar. Eftir standa steinsteyptar tóftir uppi á nesinu og hálffallin, steinhlaðin hús niðri við bryggjuna sem enn hangir uppi. Það af henni sem stendur upp úr sjó er heillegast en sá hluti hennar sem alveg er uppi á ströndinni hefur molnað niður.
Heimildir:
-Fréttablaðið – Friðþór Eydal, Laugardagur 9. maí 2020.
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/440784/
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/580576/