Tag Archive for: Hvalreki

Hvalreki

Nýlega rak dauðan hval, hrefnutarf,  á Álftanesfjöru norðan Breiðabólstaðar. Slíkur hvalreki er ekkert einsdæmi hér á landi, enda þurfti fljótlega í upphafi byggðar að setja sérstakar reglur um eignarhald um hvalreköld.
Í hinni fornu lögbók Jónsbók er langur bálkur, rekabálkur, um hvali og hvalnytjar. Þar er m.a. kveðið á um að ef hval rekur á land er hann eign landeiganda, en ef í honum er hvaljárn eða spjót og rekur á land beri að skipta honum milli landeiganda, eiganda járnsins og fátækra.

Hvalreki

Hvalreki á Seltjarnarnesi 1955.

Hvalreki við strendur Íslands var býsna algengur á árum áður og þótti í þá daga mikill happafengur. Algengar voru frásagnir af hvalreka sem björguðu heilu sveitunum frá hungri. Um hvalreka innan netlaga var fjallað í 54. landbrigðisþætti Grágásar, þar kom fram að landeigandi ætti reka fyrir landi sínu, þar á meðal hval.
Í Jónsbók er að finna sambærilegt ákvæði um hvalreka og verða hér rakin þau ákvæði sem enn gilda í íslenskum rétti. Í áðurnefndum 1. kapítula rekabálks Jónsbókar kemur fram að „hver maður á reka allan fyrir landi sínu, viðar og hvala, sela og fiska, fugla og þara nema með lögum sé frá komið“.

Á Vísindavef Háskóla Íslands var spurt: „Er Jónsbók enn í gildi í íslenskum lögum?“:

Hvalreki

Hvalreki fyrrum.

„Stutta svarið við þessari spurningu er: Rúmur tíundi hluti lögbókarinnar frá 1281, sem nefnd hefur verið Jónsbók, er enn í lagasafni Íslands.
Íslendingar gengust Noregskonungi á hönd á árunum 1262-4. Þjóðveldislögin giltu þá í landinu, það er Grágás. Konungur vildi skipta þeim lögum út fyrir eigin lögbók. Hann fékk lögleiddar tvær lögbækur með skömmu millibili. Fyrri lögbókin var nefnd Járnsíða og þótti ekki góð og gilti bara í um 10 ár. Betur tókst til með síðari lögbók konungs, sem lögleidd var á Alþingi árið 1281. Fljótlega var farið að nefna hana Jónsbók eftir aðalhöfundi hennar, Jóni lögmanni Einarssyni. Jónsbók var meginréttarheimild á Íslandi í meira en 400 ár.

Hvalreki

Hvalreki við Garðskaga.

Upprunalega lögbókin, sem konungur lagði fyrir Alþingi árið 1281, er ekki lengur til en hún hefur varðveist í mörgum afskriftum. Reyndar er engin íslensk miðaldabók til í eins mörgum handritum og Jónsbók. Til eru 224 heil eða heilleg handrit af Jónsbók og 62 handritabrot. Elsta handritið er frá því fyrir 1300 (AM 134 4to) en fallegasta handritið er frá 1363 og er nefnt Skarðsbók (AM 350 fol.). Myndprentuð eftirgerð af Skarðsbók var gerð í tilefni 700 ára afmælis Jónsbókar árið 1981. Jónsbók var fyrsta bókin sem prentuð var á Íslandi, sem ekki var Guðsorðabók. Það var gert árið 1578 í Hólaprentsmiðju. Jónsbók hefur verið prentuð nokkrum sinnum síðan það er 1578, 1580, 1591 (Núpufellsbók, ekki er vitað hvenær hún var prentuð en talið er að það hafi verið einhvern tímann á bilinu 1582 til 1620), 1707, 1709, 1763 (dönsk þýðing Egils Þórhallssonar (1734-1789)), 1858 (Akureyrarútgáfan), 1885 (Gustav Storm í bókinni Norges gamle love), 1904 (fræðileg útgáfa), 1934 (ljósprentuð 1578 útgáfan), 1981 (Skarðsbók myndprentuð) og 2004 (fræðileg útgáfa).

Jónsbók

Blaðsíða úr Jónsbók í myndprentaðri útgáfu Skarðsbókar frá 1981.

Í bréfi Magnúsar konungs, sem fylgdi Jónsbók, segir að bókinni sé skipt í 10 bálka. Hverjum bálki er svo skipt í marga kafla. Mjög snemma eða strax í Skarðsbók (1363) fór að bera á ýmiskonar ruglingi í bálka- og kaflaskiptingunni, sem ýmist erfðist í næstu útgáfur eða var leiðrétt og þá mismunandi eftir útgáfum eða skrifað var upp eftir öðrum handritum en Skarðsbók. Í það minnsta riðlaðist skipan bókarinnar og er því ekki að öllu leyti samræmi á milli Jónsbókarútgáfna hvað þetta varðar. Ekki er þó um stórvægilegan mun að ræða. Sem dæmi má nefna að Jónsbók frá 2004 er skipt í 13 bálka og 260 kafla en í Jónsbókarútgáfunni frá 1904 eru bálkarnir 10 og kaflarnir 251.
Eftir að einveldið komst á árið 1662 hvarf fljótlega síðasti snefill af löggjafarvaldi Alþingis til konungs. Enn meiri þáttaskil urðu þegar Kristján konungur fimmti setti lögbók fyrir Danmörku árið 1683 og fyrir Noreg árið 1687. Þessar lögbækur nefnast Dönsku og Norsku lög og var hvorugri ætlað að gilda á Íslandi.

Hvalreki

Hvalreki við Eiðisgranda.

Á átjándu öld setti konungur nokkrar óljósar tilskipanir um gildi Norsku laga á Íslandi. Oft og tíðum var ekki kveðið nákvæmar að orði en það, að ákvæðin og heilu bálkarnir ættu að gilda eins og átt gæti við á Íslandi. Kastað var höndum til þessa verks vegna þess að lögbók átti fljótlega að taka gildi á Íslandi. Meinið var, að það gerðist aldrei. Stafaði af þessu hinn mesti glundroði og má segja að á 18. öldinni hafi næsta fáir kunnað skil á því, hvað væru í rauninni gildandi lög í landinu. Það leiddi til þess að dómar voru oft og tíðum byggðir á dönskum og norskum lögum, sem hvorki höfðu verið sett fyrir Ísland né birt hér. Hafði strax upp úr 1700 fjarað svo mjög undan Jónsbók, að Árni Magnússon (1663-1730) snupraði Björn Þorleifsson (1663-1710) Hólabiskup fyrir að láta prenta hana árið 1707. Árni segir í bréfi til biskups, að hann hefði ráðið frá því að bókin yrði prentuð og segir að margt í bókinni sé undarlegt og stór hluti hennar sé liðinn undir lok. Árni vildi samt fá eintak handa sjálfum sér og þá frekar tvö en eitt úr því að biskup var hvort sem er búinn að prenta bókina. Magnús Stephensen (1762-1833), dómstjóri Landsyfirréttar, lyfti grettistaki við að leysa úr réttaróvissunni. Þegar hann lést árið 1833 var réttaróvissunni að miklu leyti eytt.

Hvalreki

Hvalreki við Þorlákshöfn.

Árið 1945 voru hlutar af 56 köflum Jónsbókar í lagasafninu. Árið 1983 voru kaflarnir 47 og hefur þeim ekki fækkað síðan þá. Jónsbókarákvæðin frá 1281 munu vera alveg einstök í lagasafni nú á dögum og minna á langa sögu Alþingis sem löggjafarstofnunar.
Flestir kaflar Jónsbókar í lagasafninu eru úr Búnaðarbálki (Landsleigubálki) og Rekabálki. Rekabálkur fjallar um hvalreka og rekavið. Sum Jónsbókarákvæðin, sem tilgreind eru í lagasafninu, eiga uppruna sinn í íslenska Þjóðveldinu það er eru komin úr Grágás. Það eru því til lagaákvæði í lagasafni Íslands sem hafa verið í gildi frá upphafi Íslandsbyggðar eða að minnsta kosti frá stofnun allsherjarríkis og Alþingis árið 930.
Nokkuð oft hefur verið vísað til Jónsbókarákvæða í Hæstaréttardómum. Venjulega er það í málum sem snerta ágreining um eignarrétt yfir landi eða um rétt til ýmiskonar landnytja, svo sem veiði, beitar og reka.“

Í „Landsyfirréttardómum og hæstaréttardómum í íslenskum málum“ frá 1895 er dómur um hvalreka. Málið höfðuðu bændur á Járngerðarstöðum gegn Oddi V. Gíslasyni, presti á Stað:

Hvalreki

Hvalreki við Grindavík.

„Hinn 26. ágústmánaðar 1890 fannst dauður hvalur á floti fyrir utan Grindavík, og var hann af þeim sem fundu hann róinn í land á Járngerðarstöðum; hvalurinn var óskemmdur og 25 álnir að lengd milli skurða.
Afrýjendurnir, sem eru fyrirsvarsbændur á Járngerðarstöðum, ljetu skera hvalinn og skiptu honum í 3 hluti jafna: uppróðrarhlut til flutningsmanna, landshlut og skurðarhlut. Var þannig farið með hvalinn sem flutningshval eptir fyrirmælunum í 7. kap. J.bókar Rb. Hinn stefndi, sem hefur haldið því fram, að hvalurinn væri rekahvalur, taldi skipti þessi ólögmæt, og áleit, að það bæri að skipta hvalnum þannig: 1/3 hluta til uppróðrarmanna, en af hinum 2/3 hlutunum einum fjórðungi til Skálholts- og Staðarkirkju til jafnra skipta, ein um fjórðungi í skurðarhlut milli allra grasbýlismanna í Grindavík og tveim fjórðungunum til allra (7) jarðanna í Griudavík sem landhlut til jafnra skipta. Hinn stefndi höfðaði þá mál gegn áfrýjendunum út af hvalskiptum þessum og var það dæmt í aukarjetti Kjósar- og Gullbringusýslu 7. febr. 1892 á þá leið, að áfrýjendurnir skyldu allir fyrir einn og einn fyrir alla greiða hinum stefnda sjera Oddi Gíslasyni fyrir hönd kirkjunnar á Stað í Grindavík 1/8 — einn áttunda — úr 2/3 — tveim þriðju — hlutum hins umrædda hvals og hinum sama sem ábúanda á Stað 1/7 — einn sjöunda — hluta af 2/4 hlutum af hinum sömu 2 þriðjungum hvalsins, allt eptir mati óvilhallra manna; með sama dómi voru áfrýjendurnir dæmdir til að greiða 100 kr. í málskostnað og nokkur ummæli málsfærslumanns þeirra í varnarskjölum hans fyrir aukarjettinum voru dæmd dauð og ómerk. Að öðru leyti voru áfrýjendurnir sýknaðir fyrir aukarjettinum.

Hvalreki

Hvalreki á Álftanesi 2021.

Nefndum aukarjettardómi Kjósar- og Gullbringusýslu hafa þeir Einar Jónsson, Sæmundur Jónsson, Eiríkur Ketilsson og Magnús Maguússon skotið til yfirdómsins með stefnu, útgefinni 9. júlí f.á., og krafizt þess, að dómurinn verði úr gildi felldur, að þeir verði algjörlega sýknaðir af öllum kærum og kröfum sjera Odds Gíslasonar, og að hann verði dæmdur til að greiða þeim allan sakarkostnað fyrir báðum rjettum með nægilegri uppbæð. Hinn stefndi, sjera Oddur Gíslason, sem befur haft gjafsókn í hjeraði og gjafvörn fyrir yfirdómi og skipaðan talsmann, hefur af sinni hálfu krafizt pess, að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur, og að áfrýjendurnir verði allir fyrir einn og einn fyrir alla dæmdir til að greiða honum málskostnað fyrir yfirdómi að skaðlausu, svo og, að hinum skipaða málflutningsmanni verði tildæmd hæfileg málsvarnarlaun.

Hvalreki

Hvalreki við Granda.

Hinn stefndi hefur eigi fundið neitt að því, að finnendum hvalsins var úthlutaður 1/3 hluti hans í uppróðrarhlut, en að öðru leyti hefur hann byggt kröfur sínar til hluta úr honum á ákvæðum í Wilchinsmáldaga, er segja svo: „að Staðarkirkja eigi 1/8 í hvalreka öllum í Grindavík milli Rangagjögurs og Valagnúpa“, og að því leyti hann sem ábúandi Staðar gjörir kröfur til landhutar, byggir hann það á venju, er á að vera sönnuð með ýmsum hvalrekavitnisburðum, uppskrifuðum árið 1657, en gefnum 1603 og 1627, svo og vitnisburðum um, hvernig hafi verið farið með hvalreka í Grindavík 1860 og 1878, en vitnisburðir þessir fara í þá átt, að landhlut af hval, sem rekur í Grindavík, sje skipt milli allra jarða þar, sem eru 7 að tölu. Ákvæðin í Wilchinsmáldaga, svo og hinir tilvitnuðu vitnisburðir, ræða að eins um rekahval, en áfrýjendurnir hafa stöðuglega haldið því fram, að hjer sje um flutningshval að ræ3a, er heimilt hafi verið að róa upp á Járngerðarstaðaland, og skipta þar á þann hátt, sem þeir gjörðu. Aptur á móti hefur hinn stefndi leitazt við að sanna það, að hvalurinn hafi fundizt í rekhelgi (fiskhelgi) Grindavíkur, og skýrir hann svo frá, að allar jarðir í Grindavík hafi sameiginlegan rjett, að því er rekhelgi snertir.

Hvalreki

Hvalreki í Vogum.

Hinn stefndi heldur því fram, að hvalurinn hafi fundizt á þessum miðum: Djúpmið: Hásteinar mitt á milli Húsatópta og Sýrfells; Hásteinar um Tóptatúnshala; Austurmið, grunnmið: Varðan Sigga í Skotta — og hefur hann látið mæla vegalengdina frá miði þessu til næsta lands, Þórkötlustaðaness, og reyndist vegalengdin 4—500 faðmar(c: 353 mælisköpt á 4 álnir = 1412 ál.). Þá hefur dómarinn eptir beiðni hins stefnda útnefnt 2 menn til þess að athuga, hvort flattur þorskur sæist á bátsborði frá landi í 500 faðma fjarlægð, og hafa þeir gjört tilraun um það, og staðfest með eiði fyrir rjetti, að peir bafi sjeð fisk á borði í 540 faðma fjarlægð. Mælingum þessum hafa áfrýjendurnir mótmælt, og sjerstaklega hafa þeir haldið því fram, að mið þau, sem mælt hefur verið frá, sjeu eigi hin rjettu mið, þar sem hvalurinn fannst. Um þetta hefur hinn stefndi látið fram fara vitnaleiðslu, og hafa 4 vitni, einmitt menn þeir, sem reru hvalinn í land, gefið vitnisburð þar að lútandi. Eitt vitnið skýrði svo frá, að „er þeir komu fyrst að hvalnum, hafi varðan verið vestan til á miðja Vatnsheiði og djúpt af grunnbrún“; annað vitnið tjáist ekkert vita um það; þriðja vitnið segir, að hvalurinn hafi verið á grunnbrún, er þeir fyrst komu að honum, og 4. vitnið ber, að varðan hafi verið austarlega á Vatnsheiði. Með þessum vitnisburðum er það eigi sannað, að hvalurinn hali fundizt á miðum þeim, sem hinn stefndi hefur látið mæla frá vegalengd til lands.

Hvalreki

Hvalreki við Garðskaga.

Hinn stefndi — en á honum virðist sönnunarbyrðin hvíla í þessu efni — hefur þannig eigi sannað það, að hvalurinn hafi fundizt í rekhelgi eða fiskhelgi — enda verða hinar framkvæmdu mælingar eigi álitnar lögmæt sönnun gegn áfrýjendunum, sem eigi voru kvaddir til að vera við þær — og virðist það því rjett, að farið hefur verið með hvalinn sem flutningshval, en í hinum framlögðu skýrslum er hvorki kirkju nje Stað í Grindavík eignaður hluti í hvölum þeim, sem fluttir eru á fjörur annara jarða í Grindavík (c: í flutningum). Það ber því að sýkna áfrýjendurna fyrir kærum og kröfum hins stefnda í þessu máli. Málskostnaður fyrir báðum rjettum þykir eiga að falla niður. Sem gjafsóknarmál hefur málið verið rekið forsvaranlega í hjeraði, og fyrir yfirdómi hefur málsvörnin verið lögmæt.
Því dæmist rjett að vera: Afrýjendurnir, Einar Jónsson, Sæmundur Jónsson, Eiríkur Ketilsson og Magnús Magnússon eiga að vera sýknir fyrir kærum og kröfum stefnda sjera Odds Gíslasonar í þessu máli. Málskostnaður falli niður.“

Heimildir:
-Jónsbók, rekabálkur, kap. 1.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=31477
-Landsyfirréttardómar og hæstaréttardómar í íslenskum málum 01.01.1895, Hvalreki, nr. 28/1892, bls. 324-328.

Hvalreki

Hvalreki á Álftanesi 2021.