Gengið var frá Hvalsnesi eftir svonefndri Hvalsnesgötu(Melabergsleið) um Melabergsvötn og Miðnesheiðina yfir að Stakksnípu norðan Helguvíkur. Tilefnið var að feta í fótspor Rauðhöfða sem lið í Ljósahátíð Reykjanesbæjar, þeim er segir frá í samnefndri þjóðsögu. Sagt er að eftir atburði þeim, sem þar er tilgreindur, heiti nú staðir við Faxaflóa, s.s. Stakkur, Stakksfjörður, Hvalfjörður, Glymur, Hvalfell og Hvalvatn.
Hvalsnesvegur – varða.
Fengist hafði leyfi til að ganga leiðina innan ytri varnargirðingarinnar, en þegar leggja átti af stað fengust þær upplýsingar að hliðið þar efra, sem átti að ganga út um, hafi verið fest og ekki hægt að opna það. Því var brugðið á það ráð að ganga með girðingunni á þeim kafla leiðarinnar.
Hins vegar er löngu kominn tími til þess að opna þessa fallegu leið fyrir innlendum svo þeir geti notið eigin fornminja, enda þjónar „varnargirðingin“ litlum tilgangi á þessu svæði. Önnur girðing er innar og væri nóg að hafa hana til varnar hersstöðinni.
Gangan hófst á Hvalsnesgötunni skammt sunnan viið Melaberg eftir að þjóðsagan um Rauðhöfða hafði verið rakin í megindráttum.
Hvalsnes er bær og kirkjustaður milli Sandgerðis og Stafness. Hvalsnes var fyrrum prestssetur og útkirkjur í Kirkjuvogi og Innri-Njarðvík. Hvalsnesprestakall var lagt niður 1811 og Hvalsnes og Kirkjuvogskirkjur lagðar til Útskála. Á Hvalsnesi var kirkja helguð guði Maríu guðsmóður, Ólafi konungi og, heilagri Katrínu og öllum guðs heilögum mönnum. Núverandi kirkja var reist á árunum 1886-1887 og vígð á jóladag 1887. Hún er hlaðinn úr tilhöggnum steini. Frægastur prestur á Hvalsnesi er sennilega Hallgrímur Pétursson.
Hvalsnesvegur – varða.
Í sögunni (reyndar eru til nokkrar útgáfur) um Rauðhöfða segir frá því að „í fornöld var það mjög tíðkað á Suðurnesjum að fara út í Geirfuglasker til að sækja þangað bæði fugl og egg. Þóttu þær ferðir jafnan hættulegar og varð að sæta til þeirra góðu veðri því bæði eru skerin langt undan landi og svo er líka mjög brimsamt við þau.
Einu sinni sem oftar fór skip eitt út í Geirfuglasker; geymdu sumir skips, en sumir fóru upp í skerin eftir eggjum. Ókyrrði þá sjóinn fljótt svo þeir urðu að fara burtu fyrr en þeir hefðu viljað. Komust eggjatökumennirnir með illan leik upp í skipið allir nema einn. Hann kom seinastur ofan úr skerinu því hann hafði farið lengst og hugsað að ekki mundi liggja svo mikið á. Hann var sonur og fyrirvinna ekkju nokkurrar sem bjó á Melabergi í Hvalsnessókn, og var hinn ötulasti maður og á bezta aldri (sumir nefna manninn Helga). Þegar nú maðurinn kom niður að skipinu þá var hafrótið orðið svo fjarskalegt við skerið að honum varð ekki náð út í skipið hversu mjög sem þar var leitað lags við. Urðu skipverjar að fara burtu við svo búið og töldu þeir manninn af með öllu nema hans yrði bráðlega vitjað. Héldu þeir svo í land og sögðu hvar komið var og átti nú að fara í skerin og vitja mannsins hvenær sem þar gæfist færi á. En eftir þetta varð aldrei framar komizt út í skerin um sumarið fyrir brimi og stórviðrum. Var þá hætt með öllu að hugsa til manns þessa framar eða leiða sér í hug að hann mundi nokkurn tíma sjást lifandi framar.
Nú leið og beið þangað til sumarið eftir. Þá fóru Nesjamenn á skipi út í Geirfuglasker eins og þeir voru vanir. Þegar eggjatökumennirnir komu upp í skerið urðu þeir hissa, þegar þeir sáu þar mann á gangi þar sem þeir áttu sér hér engra manna von. Maðurinn gekk til þeirra og þekktu þeir þar Melabergsmanninn sem eftir hafði orðið sumarið áður í skerinu.
Fuglavíkursel.
Gekk það öldungis yfir þá og þóttust sjá að þetta væri ekki einleikið. Forvitnaði þá nú heldur en ekki að vita hvernig á þessu öllu stæði. En maðurinn sagði þeim óljóst frá því sem þeir spurðu, en í skerinu sagðist hann alltaf hafa verið og hefði þar ekki væst um sig. Samt bað hann á að flytja sig í land og gjörðu þeir það fúslega. Var Melabergsmaðurinn hinn glaðasti, en þó fremur fátalaður. Þegar í land kom varð þar hinn mesti fagnaðarfundur og þótti öllum þessi atburður allur undrum gegna, og enga glögga grein vildi maðurinn gjöra um veru sína í skerinu.
Nú leið enn og beið og var hætt að tala um nýlundu þessa. En seint um sumarið, einn góðan veðurdag þegar messað var á Hvalsnesi, varð sá atburður sem alla kynjaði á. Við kirkjuna var fjöldi fólks og þar á meðal Melabergsmaðurinn. En þegar fólkið kom út (aðrir segja inn í kirkjuna og láta allan atburðinn fara fram fyrir messu) úr kirkjunni stóð uppbúin vagga við kirkjudyrnar og lá ungbarn í vöggunni. Ofan á vöggunni lá dýrindisábreiða sem enginn þekkti hvað í var. Á þetta varð öllum starsýnt mjög og enginn leiddi sig að vöggunni eða barninu og enginn lézt þar vita nein deili á. Nú kemur prestur út úr kirkjunni; sér hann vögguna og barnið og furðar á þessu öllu ekki síður en aðra. Spyr hann þá hvort viti nokkur deili á vöggunni og barninu eða hver með það hafi komið eða hvort nokkur vilji að hann skíri barnið. En enginn lézt vita neitt um þetta og enginn þóttist hirða um að hann skírði barnið. En af því presti þótti allur atburður með Melabergsmanninn kynlegur spurði hann hann ítarlegar um allt þetta en aðra, en maðurinn brást þurrlega við og sagðist ekkert vita um vögguna né barnið enda skipti hann sér öldungis ekkert um hvorugt.
Gengið um Sandgerðisveg.
En í því bili sem maðurinn sagði þetta stóð þar kvenmaður hjá þeim fríð sýnum og fönguleg, en æði svipmikil. Hún þreif ábreiðuna af vöggunni, snaraði henni inn í kirkjuna og segir:
„Ekki skal kirkjan gjalda.“
Síðan víkur hún sér að Melabergsmanninum og segir við hann mjög reiðulega:
„En þú skalt verða að hinu versta (argasta) illhveli í sjó.“
Greip hún þá vögguna með barninu og hvarf með allt saman og sást ekki síðan. – Presturinn tók ábreiðuna og lét gjöra úr henni altarisklæði handa kirkjunni, og hefur það verið þar til skamms tíma og þótt hin mesta gersemi.
Nú víkur sögunni til Melabergsmannsins. Honum brá svo við orð hinnar ókunnugu konu að hann tók undir eins á rás frá kirkjunni og heim til sín. Ekki stóð hann þar við, heldur æddi sem vitstola norður eftir þangað til hann kom fram á Hólmsberg sem er fyrir vestan Keflavík, en berg það er fram við sjó, býsna hátt og þverhnípt. Þegar hann kom fram á bergsbrúnina staldraði hann við. Varð hann þá allt í einu svo stór og þrútinn að bergið sprakk undir fótum honum og hljóp fram klettur mikill úr hamrinum. Stakkst maðurinn þar fram af í sjóinn og varð í sama augnabragði að feikilega stórum hvalfiski með rauðan haus því maðurinn hafði haft rauða húfu eða hettu á höfðinu þegar hann brást í hvalslíkið. Af þessu var hann síðan kallaður Rauðhöfði. En kletturinn sem fram hljóp með hann í sjóinn stendur enn fram í sjónum austarlega undir Keflavíkurbergi og er kallaður Stakkur.
Stakkur.
Það er sumra manna sögn, að nú hafi það komið upp á Melabergi eftir móður mannsins að hann hefði sagzt hafa dvalið um veturinn í skerinu (skerið var síðan kallað Helgasker) í álfabæ einum í góðu yfirlæti. Hefðu þar allir verið sér vel, en þó hefði hann ekki geta fest þar yndi. Fyrst þegar hann hefði orðið eftir af lagsmönnum sínum í skerinu hefði hann gengið um skerið í eins konar örvilnan og verið að hugsa um að steypa sér í sjóinn og drekkja sér til að stytta hörmungar sínar. En þá sagði hann að til sín hefði komið stúlka fríð og falleg og boðið sér veturvist og sagt að hún væri ein af álfafólki því sem ætti heima í Geirfuglaskeri. Þetta þá hann, en vegna óyndis fékk hann heimfararleyfi sumarið eftir. Þá sagði hann að álfastúlkan hefði sagzt ganga með barni hans og skyldi hann muna sig um að láta skíra það ef hún kæmi því til kirkju þar sem hann væri viðstaddur, en ef hann gjörði það ekki mundi hann gjalda þess grimmilega. Sumir segja að maðurinn hafi sagt móður sinni frá þessu einhvern tíma einslega um sumarið; sumir segja að han hafi gjört það um leið og hann gekk um á Melabergi frá kirkjunni seinast, en sumir segja að hann hafi sagt það einhverjum trúnaðarmanni sínum öðrum. En ekki er þess getið hvers vegna hann brá út af skipun álfkonunnar með barnsskírnina.
En nú víkur aftur sögunni til Rauðhöfða. Hann tók sér aðsetur í Faxaflóa og grandaði þar mönnum og skipum svo engum var óhætt í sjó milli Reykjaness og Akraness. Varð það fjarskinn allur sem hann gjörði illt af sér í skipsköðum og manntjóni, en enginn gat að gjört eða stökkt óvætti þessum burtu, og áttu margir um sárt að binda af hans völdum þó ekki séu þeir nafngreindir neinir sem hann drap eða tölu hafi verið á þá komið. Upp á síðkastið fór hann að halda til á firðinum milli Akraness og Kjalarness og er sá fjörður því síðan kallaður Hvalfjörður.
Sandgerðisvegur.
Þá bjó gamall prestur í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd; hann var blindur, en þó ern að öðru leyti. Hann átti tvo syni og eina dóttur. Voru systkini þessi öll uppkomin þegar hér var komið sögunni og hin efnilegustu og ann faðir þeirra þeim mjög. Prestur var forn í skapi og vissi jafnlangt nefi sínu. Synir hans reru oft út á fjörðinn á báti til fiskjar. En einu sinni urðu þeir fyrir Rauðhöfða og drekkti hann þeim báðum. Presturinn faðir þeirra heyrði að synir sínir væru drukknaðir og svo af hvers völdum. Féllst honum mikið um sonamissinn.
Litlu síðar einn góðan veðurdag biður hann dóttur sína að koma og leiða sig niður að firðinum sem er þaðan ekki alllangt frá bænum. Hún gjörir svo, en prestur tekur sér staf í hönd. Staulast hann nú með tilhjálp dóttur sinnar ofan að sjónum og setur stafinn fram undan sér út í flæðarmálið og styðst svo fram á hann. Spyr hann þá dóttur sína hvernig sjórinn líti út. Hún segir hann vera spegilfagran og sléttan. Að lítilli stundu liðinni spyr karl aftur hvernig sjórinn líti út. Stúlkan segir að utan fjörðinn sjái hún koma kolsvarta rák líkt og stórfiskavaður ösli inn fjörðinn. Og þegar hún sagði rák þessa komna nærri á móts við þau biður prestur hana leiða sig inn með fjörunni og gjörir hún það. Var röstin jafnan á móts við þau og gekk það uns komið var inn í fjarðarbotn. En þegar grynna fór sá stúlkan að röstin stóð af ákaflega stórum hval sem synti beint inn eftir firðinum eins og hann væri rekinn eða teymdur. Þegar fjörðinn þraut og þar kom að sem Botnsá kemur í hann bað klerkur dóttur sína að leiða sig upp með ánni að vestanverðu. Hún gjörði það og staulaðist karlinn upp fjallshlíðina með ánni, en hvalurinn öslaði einatt hér um bil jafnframt þeim upp eftir ánni sjálfri, og var honum það þó örðugt mjög sökum vatnsleysis.
Melabergsvötn.
En þegar inn kom í gljúfrið sem áin rennur um fram af Botnsheiði þá urðu þrengslin svo mikil að allt skalf við þegar hvalurinn ruddist áfram, en þegar hann fór upp fossinn hristist jörðin umhverfis eins og í mesta jarðskjálfta. Af því dregur fossinn nafn og heitir síðan Glymur og hæðirnar fyrir ofan Glym eru síðan kallaðar Skjálfandahæðir. En ekki hætti prestur fyrr en hann kom hvalnum alla leið upp í vatn það sem Botnsá kemur úr og síðan er kallað Hvalvatn.
Fell eitt er hjá vatninu og dregur það einnig nafn af atburði þessum og er kallað Hvalfell. Þegar Rauðhöfði kom í vatnið sprakk hann af áreynslunni að komast upp þangað og hefur síðan ekki orðið vart við hann, en fundist hafa hvalbein mjög stór-kostleg við vatnið og þykir það vera sögu þessari til sannindamerkis. – En þegar prestur var búinn að koma hvalnum fyrir í vatninu staulaðist hann heim aftur með dóttur sinni og þökkuðu honum allir vel fyrir viðvikið.“Sagan um Rauðhöfða er til í nokkrum útgáfum, yfirleitt breyttum og styttum. Ein þeirra fjallar um Melabergsmanninn. „Hann hleypur fram af hamri sem kallast Stakksgnípa. Drekkir 19 skipum milli Akraness og Seltjarnarness. Drekkti bæði syni prestsins í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd og prestsins í Saurbæ á Kjalarnesi. Tóku þeir sig saman og kváðu Rauðhöfða inn fjörðinn á milli bæjanna og heitir hann því Hvalfjörður. Varð þá landskjálfti mikill og því heita hæðirnar við Hvalvatn Skjálfandahæðir.“
Í sögunni um Faxa, sem er um sama efni, segir að „þegar upp komust svik mannsins varð hann óður og steypti sér í sjóinn og breyttist í hrosshveli og kölluðu menn hann Faxa. Af því nafni dregur Faxaflói nafn sitt. Drap tvo syni manns er kunni jafnlangt nefi sínu. Var Faxi rekinn í Hvalvatn þar sem síðan fundust hvalbein til sannindamerkis um þessa atburði.“
Dauðsmannsvarða.
Í sögunni um Melabergs-Helga, enn um sama efni, segir að „ekkja nokkur bjó að Melabergi ásamt sonum sínum þremur og hét einn Helgi. Eitt sinn fóru bræðurnir í Geirfuglasker ásamt öðrum. Þeim varð illt til fengs og fóru því í fleiri sker. En nú fór að brima og komst Helgi ekki í bátinn. Ekki var komist í skerin fyrr en vorið eftir og var leitað eftir beinum Helga. Var undrun manna mikil er hann fannst lifandi og vel á sig kominn. Eftir þetta var skerið kallað Helgasker.
Síðan gerist allt sem í hinum sögunum og er upp komast svik Helga segir hann allt af létta og fer síðan inn þvera heiði og fam af Hólmsbergi. Um leið og hann stakk sér féll úr berginu klettur og er hann hér um 100 faðma fyrir framan bergið og heitir Stakkurinn til þessa dags. Bræður Helga ætluðu heim og komust inn fyrir Melabergsá og urðu þar að steinum. Heita steinar þeir Bræður enn. Helgi breyttist í rauðhöfðaðan hval og hafðist við í Hvalfirði á fjaðrarmótum Kollafjarðar.
Að Reynivöllum bjó prestur og drekkti Rauðhöfði sonum hans tveim. Prestur var skáld og kunnáttusamur. Hann stefndi Rauðhöfða upp í Hvalvatn. Melaberg lagðist í eyði vegna reimleika. En klæðið sem var yfir ruggunni skyldi hafa verið haft fyrir altarisklæði á Hvalsnesi þar til slitið var, þá tekið í sundur og verið lengi til nokkuð af því og ei alllangt síðan eyðilagðist.“
Í sögunni um Mókoll á Melabergi, enn og aftur um sama efni, segir að hann hafi verið „ríkur bóndi á Melabergi. Allt fer sem fyrr en nú er hann finnst er kona ein hjá honum og lætur vel að honum. Segist hún ganga með barn hans og muni koma með það í kirkju til skírnar. En er barnið var til skírnar fært vildi Mókollur ekki kannast við neitt. Hann stekkur úr kirkju og fram á Hólmsberg á snös þá er síðan er kölluð Stakksnös. Þá féll þar úr berginu með honum klettur sá er Stakkur heitir. Á Katanesi bjó karl sem átti tvo sonu sem Mókollur gleypti að karli ásjáandi. Hann kom svo Mókolli fyrir í Hvalvatni.
Dauðsmannsvarða endurgerð.
Í annarri útgáfu af sögunni um Rauðhöfða segir að „Árni hafi heitið kvæntur maður og átti hann nokkur börn. Skip hans hvarf við Geirfuglasker en vorið eftir birtist Árni þessi heima hjá sér. Ekki sagði hann hvernig hann hefði komist af. Nú gerist allt sem áður: barn er fært til skírnar og yfir því er dýrindis klæði í rauðum lit. Presturinn reynir árangurslaust að telja Árna á að viðurkenna barnið og álfkonan leggur á að hann verði að hinum versta fiski í sjónum „og granda skipum og mönnum og aldrei komast úr þeim ánauðum, og jafnan skal einhver ógæfumaður vera meðal niðja þinna, allt í átjánda lið.“ Árni var með rauða húfi á höfði er hann tók að tryllast og þrútna út. Stökk hann svo í sjóinn og breyttist í illhveli mikið og hafðist við milli lands og Geirfuglaskerja þar til kraftaskáld nokkur kvað hann upp í Hvalvatn. Mælt er að Einar á Iðu sem var dæmdur til lífláts fyrir barneign í meinum væri kominn að Árna í níunda lið, en nú er komið í hinn tólfta.“
Í sögunni um Álfkonuna í Geirfuglaskeri, sem ein útgáfan af Rauðhöfða, segir að „nú er það presturinn að Útskálum er fær barnið til skírnar og maðurinn kastar sér fram af „Hólsbergi“. Hann drekkir síðan tveim sonum ekkju á Bjarteyjarsandi. Hún var margkunnug og kom illhvelinu fyrir í Hvalvatn.“
Í sögunni um Hvalinn í Hvalvatni segir af Gísla (eða Birni). „Hann hafðist við hjá tveimur konum og gerði þá yngri ólétta. Við messu kemur kona með vöggu og yfir henni er rautt klæði. Þegar Gísli neitar að eiga barnið breytist hann í illhveli og hefst við á Faxaflóa og gengur síðan allt eftir sem fyrr.“
Dauðsmannsvarða við Sandgerðisveg.
Í sögunni um Árna á Melabergi segir að „Árni þessi átti þrjá bræður er bjuggu á næstu bæjum við Melaberg. Hann hvarf við Geirfuglasker um haust og kom fram vorið eftir að Hvalsnesskirkju heill á hófi og vel útlítandi. Nú gengur sem fyrr að kona kemur með vöggu til kirkju og yfir henni er fagur dúkur.
Þegar Árni neitar að meðkenna barnið segir konan: „Illa launar þú mér lífgjöfina og veturvistina enda skaltu í sjóinn fara – og verða að þeim versta og mannskæðasta hval og óhamingja skal fylgja ætt þinni í átjánda lið.“
Árni ærðist og steyptist fram af klettunum hjá Melabergi. Bræður Árna voru við kirkju og urðu þeir allir að steinum á heimleiðinni. Þeir steinar sjást hjá kirkjuveginum og eru stórir drangar og ganga út úr þeim mjóir drangar sem handleggir. Það fylgdi ætt Árna í átjánda lið að í henni var alltaf einhvur ólánsmaður. Seinastur þeirra er talinn Einar á Iðu á Skeiðum sem átti barn með dóttur sinni. Árni varð að versta hval og lagðist inn í Hvalfjörð. Þar var hann þar til hann drekkti tveimur sonum bónda á Kjalarnesi. Þessi bóndi var kraftaskáld og kvað hann hvalinn inn úr Hvalfirði og undir jörðu inn í Hvalvatn þar sem hann sprakk. Eftir hvarf Árna var um langa tíð reimt á Melabergi.“
Á leiðinni, skammt vestan Melabergsvatna, eru hólar að norðanverðu. Þeir heita Smjerhólar. Ofar eru Melabergsvötnin. Þar segir sagan að Tómas nokkur frá Bursthúsum hafi drukknað er hann var að fara yfir brú á vötnunum á 17. öld. Tómasarhóll heitir hóll með fuglaþúfu á nokkur norðaustar í heiðinni, skammt frá horni varnargirðingarinnar. Óvíst er þó að sá hóll tengist atburðinum þótt um sama nafn sé um að ræða.
Norðan við Tómasarhól sést í helsta kennileitið í Miðnesheiði ofan við Norðurkot; Efrivörðu. Sigurður Eiríksson í Norðurkoti hefur hlaðið vörðuna upp ásamt kunningja sínum Guðmundi Sigurbergssyni. Þeir hafa og hlaðið upp nokkrar aðrar nafnkunnar vörður í heiðinni.
Ómar og Sigurður við Dauðsmannsvörðu í Miðnesheiði.
Önnur varða, sem þeir hlóðu upp, er Dauðsmannsvarða, sem er allnokkru austar, fast utan við varnargirðinguna. Sú varða tengist sögn um mann frá Bæjarskeri, sem varð þar úti eins og svo margir aðrir á leið þeirra frá kaupmanninum í Keflavík. Milli þessara varða er Reykhóll.
Margar skráðar heimildir eru til um mannskaða á Miðsnesheiði. Má nefna að á u.þ.b. 40 ára tímabili á 19. öld urðu þar um 60 menn úti á leið þeirra um heiðina.
Melabergsleiðin (Hvalsnesgatan) innan varnarsvæðisins er vel vörðuð þegar komið er upp að og fyrir ofan Melabergsvötn. Þar taka við Efrivötn, mun minni, en ofan við þau þarf að fara í gegnum gat á varnargirðingunni. Venjulega er gatið lokað, en af og til reynist það opið. Annað gat er á girðingunni efra, þ.e. á henni austanverðri. Það er þó oftar lokað en hið neðra.
Götunni var fylgt með augunum þar sem hún liðast upp eftir heiðinni. Norðan við hana er vetrarleiðin, vel vörðuð óröskuðum vörðum.
Austar blasir Vatnshólavarða við. Hún var mun hærri hér áður fyrr, enda lengi notuð sem siglingarvarða í Másbúðarsundið og sem mið af sjó.
Norðar sjást Selhólar, en vestur undan þeim eru tóftir sem og gróin fjárborg. Glæsir er ofar og austar. Þeir, sem fara þurftu um heiðina, töldu sig stundum verða var við draugagang við Glæsi, og sumir beinlínis lögðu lykkju á leið sína til að forðast staðinn, einkum eftir að rökkva tók. Nafnið er til komið eftir að maður, sem átti leið um, lenti þar í miklum ljósagangi.
Þegar komið er upp að svonefndu Margvörðuholti beygir gatan út af götunni og undir girðinguna. Utan hennar var leiðinni síðan fylgt áfram til Keflavíkur.
Melabergsvegur.
Beinvarðaða gatan er yfir háheiðina, frá því að útsýni sleppir að austanverðu uns útsýni næst á ný að Hvalsneskirkju og Melabergi að vestanverðu.
Staðnæmst var á Berginu þar sem Stakksnípa og Stakkur blöstu við. Stakksfjörður er breiður og djúpur fjörður sem gengur til suðurs úr Faxaflóa og afmarkast að austan af Keilisnesi á Vatnsleysuströnd en af Stakksnípu í Hólmsbergi á Rosmhvalanesi að vestan. Viti er á Stakksnípu, reistur 1958. Stakksfjörður dregur nafn af þessum staka klettadrangi, Stakki, sem er undan Hólmsbergi.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.
Heimildir m.a.:
-Jón Árnason – Þjóðsögur og ævintýri III.
-http://bokasafn.reykjanesbaer.is/
-Sigurður Eiríksson.
Vörður við Melabergsleið og Hvalsnesgötu.