Gamla þjóðleiðin yfir Miðnesheiði milli Hvalsness og Njarðvíkur hefur verið nefnd Hvalsnesvegur. Melabergsvegur (-gata) hefur hún einnig verið nefnd því hún liggur niður með Melabergi að vestanverðu. Þaðan liðast hún um sléttlendi að Hvelsnesi, nú að mestu gróið.
Í örnefnalýsingum er Hvalsnesvegar (Melabergsvegar) ekki getið. Annað hvort hefur hann þótt of auðsjánlegar til þess að geta hans sérstaklega eða hann hafi hreinlega gleymst. Fáir virðast hafa haft áhuga á gömlu leiðunum eftir að nútímavegirnir komu til á Suðurnesjum (eftir ~1912). Verktakar (ríkis og bæja)og aðrir framkvæmdarmenn virðast ekki einu sinni hafa orðið þeirra varir á leiðum sínum við seinni tíma vegargerð um mela og móa Rosmhvalanessins. Slík eru ummerkin (og frágangurinn) að líkt er og þar hafi blindir menn verið að verki. Nóg um það í bili (því viðhorfið virðist hafa breyst svolítið til hins betra í allra seinustu tíð).
Á háheiðinni, rétt innan varnargirðingarinnar beggja vegna, greinist Hvalsnesvegur, annars vegar í sveig til vesturs þar sem gatan er grópuð í móann eftir uppkast, frákast og ágang og hins vegar í beina leið, svonefnda vetrarleið, vel varðaða.
Margvörður er fyrsti hóllinn við götuna innan varnargirðingarinnar að sunnanverðu (gegn flugstöðinni). Þegar komið er upp fyrir Margvörðuholtið, undir girðinguna, beygir gatan áleiðis til vesturs. “Innan við Margvörður er Kaupmannsvarðan (vestan götunnar með bendil til austurs, aðrar vörður við vetrargötuna benda til vesturs), sem er við krossgötur rétt hjá flugvellinum.” Þarna eru sem sagt krossgöturnar; annars vegar hinnar gömlu hlykkjóttu götu Hvalsnesleiðar og hins vegar annarrar vel varðaðrar götu – svo til beint að augum.
Óvarðaða leiðin er áreiðanlega miklu mun eldri en sú varðaða, enda vörðurnar að öllum líkindum komið af gegnu tilefni, jafnvel ítrekuðum tilefnum. Miðnesheiðin er ekki há á heiðamælikvaðra landsins. Í rauninni er hún flatlendi m.a. við flestar aðrar slíkar. En á móti koma að Miðnesheiðin gat verið mjög villugjörn því fátt er þar um séstök kennileyti. Þau fáu, sem þar eru, virðast öll líkjast hverjum öðrum. Enda urðu margir úti á þessari heiði. Nafngreindi hafa verið í heimildum á þriðja tug manna er létust þar á u.þ.b. tuttugu ára tímabili og á fjörutíu ára tímabili 19. aldar urðu nálægt 60 menn úti í heiðinni á fjörtutíu árum, eða sem svarar einum og hálfum manni á ári að jafnaði. Flestir þessarra manna voru á leið frá kaupmanninum í Keflavík eftir að hafa annað hvort drukkið ótæpilega af áfengistilboði verslunarinnar eða byrjað snemma að dreipa á verslunarvarningnum á heimleiðinni. Nafngiftin Brennivínshóll við Sandgerðisveg ofan Grófarinnar, sá fyrsti ofan byggðar, er ágæt staðfesta þess efnis. Nokkrar “dauðsmannsvörður” eru í Miðnesheiðinni sem og aðrar vörður heitnar eftir einstaklingum er þar fundust látnir. Þótt ekki hafi verið um langar vegarlengdir að ræða milli byggðalaga eða hverfa (7-8 km) þá hafa þær verið nógu langar til að drukkið illa klætt fólk þess tíma hefur ekki getað varist kulda og vosbúð.
Stundum þurfti ekki áfengi til, s.s. dæmi er um af Sigurðu B. Sívertssen, presti á Útskálum, er hreppti skyndilega íshraglanda og óveður á leið hans um Garðstíg (-veg) á ofanverði 19. öld – en lifaði það af fyrir “miskunnsemi drottins”.
Vörðurnar við vetrarleið Hvalsnesvegar standa enn – þökk sé varnargirðingunni. Allt of margar stæðilegar vörður við gamlar þjóðleiðir sem og garðar var tekið undir önnur seinni tíma mannvirki, s.s. bryggjur og vegi. Þá var vörubílum þess tíma ekið að þessum fyrrum þarflegu mannvirkjum og grjótið úr þeim kastað upp á pallinn. Þægilegra gat það ekki orðið þar sem efnið stóð þarna tilbúið og uppstaflað. Nokkrir “sérvitringar” þess tíma spynrtu við fótum og fenguð því framgengt að sumum hinna gömlu mannvirkja var þyrmt – sem betur fer. Víða við hinar gömlu leiðir má sjá vörðufót (neðsta umfarið), en ofanáumförin eru horfin.
Ekki er að sjá ummerki eftir umgang milli varða vetrarleiðar Hvalsnesvegar. Ástæðan gæti verið þríþætt. Í fyrsta lagi var þessi leið einungis gengin á klaka, ís, frosinni jörð eða snjó að vetrarlagi. Í öðru lagi eru vörðurnar sennilega ekki mjög gamlar, varla eldri en u.þ.b. eitt hundrað ára. Ástæðan er þessi: “Mikil verslun var stunduð í Keflavík sem gerði hana að stærsta þorpinu á Suðurnesjum, höfuðstað svæðisins. Má rekja verslunarsögu Keflavíkur allt til upphafs 16. aldar og er vitað um þýska kaupmenn þar árið 1518. Undir lok 16. aldar komu Hamborgarkaupmenn til Keflavíkur en þegar Danir settu einokunarverslunina á 1602 féll Keflavík í hendur Kaupmannahafnar.
Þessi dönsku áhrif í verslun í bænum héldust svo alveg fram á 20. öld, þó svo að Einokunarverslunin hafi um síðir liðið undir lok. Keflavíkurhreppur var stofnaður 1908 og þann 22. mars 1949 fékk Keflavík kaupstaðaréttindi.” Hlutverk hreppanna var í fyrstu fátækrahjálp og sameiginleg framkvæmdagerð, s.s. vegagerð. Þarna gæti kaupmaðurinn í Keflavík hafa haft frumkvæði að því, að gefnu tilefni, að varða erfiðasta hluta Miðnesheiðar (Hvalsnesvegar). Með því hafi hann viljað skora á hreppinn að klára verkið. Hreppar Suðurnesja veittu á þessum tímum fé til úrbóta á aðalleiðum milli byggðalaga. Ástæðan var sú að betra þótti að ráða menn til starfa við slíkar tímabundnar úrbætur og um leið skapa þeim atvinnu en að greiða nauðsynlegar þurfabætur. Ef þetta er rétt verða vörður þessar fornleifar í fyrsta lagi árið 2008. Annars gæti kaupmaðurinn í Keflavík hafa stuðlað að framkvæmdinni mun fyrr, eða eftir að einokunarverslunni var aflétt hér á landi.
Í þriðja lagi gæti umferð um vörðuðu leiðina hafa verið það lítil að framkvæmd lokinni að ekki hafi náðst að myndast slóð milli varðanna. Að athugun lokinni má vel sjá að gamla “hlykkjótta” leiðin er mun greiðfærari fótgangi fólki en sú varðaða, sem fer svo til beint að augum um holt og lágar hæðir.
Þegar gatan er rakin neðan frá (frá Hvalsnesi) er miklu mun aðgengilegra að rekja sig eftir gömlu leiðinni því sú varðaða er alls ekki augljós frá þeirri hlið.
Ástæður ferða fólks um hinar gömlu leiðir, s.s. Hvalsnesleiðina, hafa verið margþættar. Beggja vegna Hvalsness, annars vegar á Stafnesi, Básendum og í Þórshöfn, og hins vegar í Másbúðum, Nesjum og Fuglavík, voru vermenn á vertíðum. Verslunarstaðir voru fyrrum að vestanverðu, þ.e. við Þórshöfn og að Básendum. Á Stafnesi var væntanlega þungamiðjan um tíma, einkum forðum, því þar eru sagnir um dómhring (sem nú er reyndar búið að planta trjám umhverfis). Fólk á útvegsbæjum strandanna þurfti að fara á milli byggða við afhendingu og öflun varnings og annarra nauðsynja og verslun færðist um 1800 frá Básendum til Keflavíkur. Vinaheimsóknir og annar tilgangur hefur og fyrrum verið svipaður og nú er. Loks er ekki útilokað að fólk hafi fetað þessar gömlu leiðir í þeim tilgangi að skoða og fræðast um staði og svæði, sem það hafði ekki áður augum litið – líkt og nú.
Heimild m.a.:
-Örnefni fyrir Keflavík.
-reykjanesbaer.is – saga.
-Saga Keflavíkur.