Tag Archive for: Hvammahraun

Fagridalur

Gengið var inn á Dalaleið, hina gömlu þjóðleið milli Kaldársels og Krýsuvíkur, í Fagradal, gatan rakin upp hlíðina og upp á og yfir næstum óendanlega Vatnshlíðina. Götunni var síðan fylgt þvert yfir Hvammahaunið auk þess skoðaður var hugsanlegur stígur vestar í hrauninu. Þar liggur kindagata/fjárgata um þykkt mosahraunið. Loks var gengið til baka með ofanverðri Vatnshlíðinni og niður Vatnshlíðarhorn þar sem gamla gatan austan við Sveifluháls var skoðuð og henni fylgt spölkorn í átt að Breiðdal. Við hana eru tóftir tveggja „smáhýsa“, sem ekki er gott að segja hvaða tilgangi hafi þjónað.

Gata upp úr Fagradal

Gamlar þjóðleiðir og fornir stígar liggja vítt og breitt um Reykjanesfólkvang. Þessar leiðir hafa gleymst eftir að ökuvegir voru lagðir og menn hættu að þræða gamlar slóðir á ferð sinni um Nesið. Flestar leiðirnar tengdu byggðahverfin gömlu við útverin á Suðurnesjum. Á milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur lágu t.d. Undirhlíðaleið, Dalaleið, Vatnaleið, Stórhöfðastígur og Hrauntungustígur. Frá Hraunabæjunum við Straumsvík og Hvassahrauni lágu Straumsselsstígur, Rauðamelsstígur og Mosastígur til Krýsuvíkur, að Selatöngum eða Grindavíkur. Með Núpshlíðarhálsi lágu Hálsagötur og milli Vatnsleysustrandar og Vigdísarvalla lá Þórustaðastígur, sem nefnist Drumbsdalastígur þar sem hann þræðir sig frá völlunum austur að Krýsuvík.
Dalaleiðin lá upp frá Kaldárseli um Kúastíg, sem enn er áberandi suðaustan sumarbúða KFUMogK, suður með Undirhlíðum, upp Kýrskarð, upp fyrir norðurhorn Gvendarselshæða, suður með þeim austanverðum og um Slysadali, Leirdal (áður hétu dalirnir báðir Leirdalir), framhjá vatnsstæðinu syðst undir Lönguhlíðum með stefnu inn Fagradal. Ef vel er að gáð má sjá mjög grónar tóftir norðvestan Leirdals og norðaustan Fagradals.
Hraunkarl Erfitt er að segja til um hvaða hlutverki þær hafa gegnt nema að undangenginni nákvæmri rannsókn. Í fjarlægð lítur svæðið út eins og bæjarhóll undir brattri hlíðinni.
Þeir, sem farið hafa þessa svonefndu Dalaleið um Fagradag hafa eflaust farið inn dalinn að norðanverðu. Þar er hann vel gróinn í vöngum, einkum á kjálkum. Dalurinn er aflíðandi og því auðveldur uppgöngu. Hrauntunga liggur ofan í dalinn, kominn alla leið úr Kistufellsgígunum. Fjárgata ligur með hraunkantinum að sunnanverðu. Uppi í dalsendanum sést gatan mjög vel þar sem hún liggur skáhallt upp hraunhlíðina til suðurs. Þegar gatan er gengin er ljóst að ekki hefur hún nú verið fjölfarin hestagata. Líklegt þykir að gatan hafi mest verið sótt af fé og tiltölulega fáu fólki, enda er hún miklu mun lengri en Undirhlíðavegurinn frá Kaldárseli með vestanverðum Undirhlíðum og Sveifluhálsi, upp á Ketilsstíg.
Uppi á brún greinist leiðin, annars vegar til suðurs og hins vegar til suðvesturs um veðurbarða og grýtta „hásléttuna“. Vörður eru ofan brúnar að norðvestanverðu. Ein þeirra, sem næst er, er landmælingavarða. Sú, sem nær er brúninni hefur líklega, líkt og aðrar vestar með henni, verið hlaðnar af fólki, sem afrekað hefur göngu þangað upp, fundist mikið til koma og viljað skilja eftir „minningu“ um afrekið. Fólk ætti frekar að skilja eftir miða eða jafnvel geymsluþolinn mat fyrir aðra, sem á eftir koma. Vörður voru leiðarmerki hér fyrrum og höfðu því ákveðinn tilgang. Með nýjum vörðum brenglast sú mynd, sem upphaflega var máluð á þjóðleiðum sem þessari.
Gata Til að spara tíma var stefnan tekin beint, ofan gilja á frosnum mosanum (sem var eins og teppi undir fótum), á suðurbrún hásléttunnar þar sem útsýnið var stórbrotið yfir Hvammahraunið og Krýsuvíkurfjöllin. Á leiðinni lét hraunkarl á sér kræla. Reyndar kom mjög á óvart að hann reyndist vera hraunkona. Dalaleiðin sást þaðan þar sem hún lá um mjósta hraunhaftið í Hvammahrauni, yfir í óbrennishólman, sem þar er. Hún var rakin í gegnum hraunið. Innkoman er breið og leiðin skiptist stuttu síðar í tvennt, en kemur saman að nýju við endann hinum megin. Báðar eru þær ógreiðfærar og líklega verið 98,8% notuð af fé og því fáu fólki – og þá nánast eingöngu að sumarlagi.
Ólíklegt er að farið hafi verið með hesta þarna yfir hraunið. Óbrennishólminn er að mestu úr sandi, en þómá sjá móberg og brotaberg á stangli. Hann er sennilegast hluti af gömlu gosi, líklega frá þarsíðasta ísaldarskeiði, á sömu sprungurein og fæddi Gullbringu og sandfjöllin sunnan hennar (vestan Kálfadala).
Að sunnanverðu var vatn í grónum bolla og hægt var að fylgja götunni áfram með hraunkantinum að Gullbringu. Þar greinist hún í tvennt; annars vegar til vinstri upp sandbrúnir austan „hólsins“ og hins vegar niður með honum að norðanverðu.
Miðvert Hvammahraunið var skoðað svolítið betur vegna hagstæðra aðstæðna (mosinn var frosinn). Fjárgata sást liggja yfir hraunið nokkru vestan leiðarinnar og eflaust er fleiri slíkar að finna víðsvegar um hraunið. Lílklegt þykir að fleiri götur leynist þarna yfir hraunið og þá vestar. Það verður skoðað betur síðar.
Gengið var að vestanverðri hraunbrúninni í norðanverðum Hvömmum. Sjá mátti hvar hraunið hafði runnið niður hlíðarnar. Þunnfljótandi hraun var austar í hlíðinum og undir úfnu apalhrauninu í dölunum, en grófara hraun vestar. Hið þunnfljótandi hraun hefur líklega komið úr Kistufellsgígunum, en grófara hraunið úr eldborginnii víðfeðmnu norðvestan Eldborgar í Brennisteinsfjöllum. Sjá mátti þessa lagskiptingu sumsstaðar ofan Vatnshlíðar.
Fagridalur Götu var fylgt upp með hraunbrúninni og á hásléttuna. Gatan var greinileg drjúgan spöl eða þangað til komið var niður í ílanga hvylft í hlíðina. Hún var vel gróin bæði efra og neðra (nær Kelifarvatni). Fjárgata lá í henni milli hinna grónu svæða. Þá sást gatan vel þar sem hún lá upp hlíðina að norðanverðu. Henni var fylgt áfram norður yfir hásléttuna, en ekki leið á löngu að hún hvarf sjónum þar sem rann saman gata og vindsorfið grjót.
Framundan og ofanvert (hægra megin) var varða, vandlega hlaðin hringlaga, en nýleg. Ofan hennar (austar) var varða á klapparhól, sem skoðuð hafði verið á suðurleiðinni. Í norðri sást til vörðu, sem og tveggja ofan brúnar norðvestar. Engin gata fylgdi með vörðunum svo spurning er í hvaða tilgangi þær hafi verið hlaðnar. Allar virtust þær tiltölulega nýlegar. Ein varðan gaf þó augljóslega til kynna hellisop í grunnri rás.
Þunnfljótandi helluhraun (það eldra sennilega frá Kistufellsgígunum) hafði runnið þarna niður eftir og síðan fram af brún Vatnshlíðar á mjög afmörkuðu svæði. Neðan frá er það hinn tilkomumesti hraunfoss á að líta.
Rjúpa sást á stangli, en einungis ein í hóp. Ofan við Vatnshlíðarhornið er nýlega hlaðin varða og önnur nær brúninni, við uppgönguna (eða niðurgönguna eins og í þessu tilviki). Landmælingavarðan ofan Fagradalsgötunnar sást í norðaustri.
Farið var fetið niður Vatnshlíðarhornið, skref fyrir skref, enda eins gott að fara varlega. Frosið var undir og yfirborðið laust í sér. Feykivindur úr norðri bætti um betur. Ekki þurfti mikið til að komast á skrið í miklum brattanum. Allt gekk þetta nú vel, sem betur fer.
Tóft Niðri var skoðaður grunnur, sem talinn er hafa verið af gamla veitingahúsinu norðan við Kleifarvatn. Það var í rekstri áður en vegurinn var lagður undir Helluna á fimmta áratug 20. aldar. Gamla þjóðleiðin sést enn ofan (norðan við grunninn), en húsið hefur kúrt undir fyrrum Vatnsskarði, í skjóli fyrir norðanáttinni. Vatnsskarð það sem nú er nefnt hefur áður að öllum líkindum heitir Markrakagil. Það færðist að einhverjum ástæðum nokkru norðar með Undirhlíðum. Ástæðurnar eru taldar hafa verið landamerkjalegs eðlis.
Ofan við grunninn eru a.m.k. fimm litlar tóftir af einhverju, sem ekki er vitað hvað var. Fróðlegt væri að fá einhvern sérfræðinginn til að skoða aðstæður. Ekki er þó raunhæft að ætla að tóftir þessar hafi tengst veitingarekstrinum og þá verið geymslur. Þjóðleiðin gamla var þá aflögð og kominn akvegur nokkru austar með hlíðunum, á þeim stað sem hann er nú.
Þegar gengið var yfir „hásléttuna“ og götur þar skoðaðar, var stungið upp á því að nefna „Dalaleiðina“ miklu fremur „Dalaleiðirnar“ því við nákæma skoðun virtust þær mun fleiri en ein. Auk þess mun seint koma fram staðreyndir um hvar hún hafi í rauninni legið, ef hún hefur þá yfirleitt legið á einhverjum einum tilteknum stað.
Eftir að hafa elt fjárgötur í svo langan tíma var einungis eitt framundan – ofnbakaðar kótilettur.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Fagridalur

Tóftir í Fagradal.

Brennisteinsfjöll
Gengið var upp með suðurjaðri Hvammahrauns (Hvannahrauns) frá Gullbringu austan Kleifarvatns með stefnu á Vörufell (534 m.ys.). Ætlunin var að skoða hina formfögru gíga Vörufellsborga og halda síðan upp að Eldborg (570 m.y.s.) í Brennisteinsfjöllum, drottningu glepragíganna á Reykjanesskaganum. Miklar hrauntraðir, margir gígar og væntanlega allnokkur forvitnileg jarðop vörðu leiðina, en glöddu augað.
Orkufyrirtæki hafa haft ágirnd á Brennisteinsfjöllum. Ekki síst þess vegna var ákveðið að gaumgæfa það með hliðsjón af öðrum mögulegum verðmætum – og jafnvel meiri – til lengri tíma litið. Göngusvæðið er allt innan umdæmis Grindavíkur.
Hraunið norðan Gullbringu heitir Hvammahraun og er sagt kennt við hvammana sem eru í kring þar sem það fellur niður sunnanverða Vatnshlíð og út í vatnið. Þessi hraunstraumur er annar af meginstraumum sem hafa komið hafa úr mikilli gígaröð í Brennisteinsfjallaeldstöðinni til vesturs. Hluti hraunstraumsins rann til norðurs, m.a. niður í Fagradal. Hinn straumurinn féll niður í Herdísarvík, til suðausturs. Hins vegar, ef grannt er skoðað,má sjá fleira en eitt hraun í Hvömmunum. Þegar gengið var niður frá Eldborg má sjá stóran gíg. Úr honum hefur komið þunnfljótandi hraunkvika og runnið niður hlíðarnar. Það helluhraun hefur greinilega fallið niður syðst í Vatnshlíðinni og er undir hrauni því sem jafnan er nefnt Hvammahraun. Það er því eldra. Hvammahraunið hefur hins vegar komið úr gígunum vestan við Kistufell.
Gengið var upp með Gullbringu með hraunkantinum, inn á gömlu þjóðleiðina ofan hrauns (Dalaleiðin), upp gróinn sneiðing í brekkunni norðan Gullbringu og áfram upp með Brúnunum. Þar er stórt jarðfall, alveg við götuna. Niðri í því er Gullbringuhellir. Hann hefur m.a. verið notaður sem skjól því í hellinum er hlaðið undir bæli undir vegg. Ofar er annað op á hellinum. Rásin er sú sama. Þar í rás er rúmgóður hellir, a.m.k. 150 m langur.
Haldið var áfram upp með hraunjaðrinum, upp undir svonefndar Bringur, sem sumir hafa viljað meina að heiti Gullbringa. Nafnið sé komið af því að á kvöldin þegar sólin er að setjast á bak við Miðdegisnúk á Sveifluhálsi slái gullleitum bjarma á hlíðina alla. Það vita reyndar þeir sem séð hafa. Hinir, sem verið hafa á Bringunum þegar morgunsólin kemur upp sjá hins vegar gylltum bjarma slá á Gullbringu (þá neðri).
Beygt var til hægri upp úr hvömmunum og stefnan tekin á Vörðufell. Haldið var yfir í hrauntröð mikla er kemur úr eldborg norðvestan Vörðufells. Þá var gengið á hina breiðu og reglulega formuðu eldborg norðan Vörðufells. Kvikan úr henni hefur að mestu unnið niður í Herdísarvíkurhraun við Lyngskjöld.
Norðan eldborganna er Eldborg í Brennisteinsfjöllum. Hún er fremur lítil, en stendur hátt. Þegar staðið er uppi á henni má sjá svo til um allan Reykjanesskagann. Sást vel yfir að Hvirfli, Grindarskarðshnjúkum og Syðstubollum í norðri, Æsubúðum í suðri og yfir Sveifluhálsinn, Núpshlíðarhálsinn, Keilir, Fagradalsfjall, Þórðafell og Súlur í vestri. Gígaröðin liggur til NA norðan hennar og SV sunnan hennar. Áður en komið var að Eldborginni sást rjúpa þjóta hjá – og hvítur refur í loftköstum á eftir. Hann var svo upptekinn við veiðarnar að honum yfirsást mannfólkið.
Vestan Eldborgar er enn ein eldborgin, sem fyrr sagði. Þar er stærsti gígurinn og sá þeirra sem framleitt hefur mesta þunnfljótandi kvikuna er rann að mestur til vesturs, niður hlíðarnar.
Að þessu sinni var ekki gengið um Kistufell og niður í Brennisteinsnámurnar, enda gert ráð fyrir að um það svæði verði gengið í annarri ferð n.k. vor þegar skimað verður eftir „götunum djúpu“ norðvestan Kistufells (fundust í einni FERLIRsferðinni, ca. 10-15 m djúp).
Tiltölulega fáir þekkja til Brennisteinsfjalla en þau eru í næsta nágrenni við höfuðborgina, í Reykjanesfólkvangi sem er náttúruperla við bæjardyr borgarinnar. Þar eiga Grindvíkingar og aðrir íbúar höfuðborgarsvæðisins og næsta nágrennis athvarf til að stunda útivist og njóta náttúrunnar á svæði, sem nýtur verndar.
Orkustofnun hefur skoðað Brennisteinsfjöll m.t.t. háhitaöflunar. Í umsögn stofnunarinnar segir að „Brennisteinsfjallasvæðið er fremur lítið og afmarkað“ með hliðsjón af því. Á vefsíðu stofnunarinnar segir m.a. um svæðið:
„Jarðhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum liggur í 400–500 m hæð yfir sjó. Virkur jarðhiti kemur fram sem gufur í um 450 m hæð, en köld ummyndun er á fjórum stöðum og vitnar um meiri virkni á fyrri tíð. Jarðhiti á yfirborði er óverulegur og miðað við útbreiðslu jarðhita og ummyndunar er svæðið um 3 km2. Viðnámsmælingar benda til þess að svæðið sé um 18 km2 á 700 m dýpi undir sjávarmáli, um 1200 m undir yfirborði þar sem jarðhita verður vart. Háhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum liggur í samnefndri sprungurein og hefur gosið þar a.m.k. 30–40 sinnum eftir að ísöld lauk. Brotalínur eru ungar á svæðinu frá sjó og norður á Mosfellsheiði og verða oft jarðskjálftar á um 5 km breiðu og um 40 km löngu belti.
Jarðskjálftar í Brennisteinsfjöllum geta orðið nokkuð stórir. Megingerð jarðlaga er móberg, og þar sem gosstöðvar hafa náð upp úr jökli hafa runnið hraun og myndast stapar eða hraunahryggir. Allar bergmyndanir eru basalt og ekkert súrt eða ísúrt berg hefur fundist á yfirborði.“ Með umfjölluninni fylgja yfirlitsmyndir, sem sýna alls ekki þá miklu náttúrufegurð er svæðið hefur að geyma.
Brennisteinsfjöll eru eina sprungureinin og háhitasvæðið sem enn er að mestu er ósnortið – öllum hinum hefur verið raskað að meira eða minna leyti vegna jarðhitanýtingar.
Náttúruperlur eins og sú sem hér er rædd eru gríðarlegar auðlindir í sjálfu sér, ósnortnar og kynngimagnaðar. Verndargildi þeirra er hátt sem þýðir á máli hagfræðinnar að þær eigi vafalaust eftir að margfaldast að verði eftir því sem tímar líða. En um leið má búast við ásókn þeirra sem vilja nýta sér jarðvarmann á þessum svæðum og virkja. Þegar hefur verið sótt um leyfi fyrir rannsóknaboranir í Kerlingarfjöllum og í Reykjanesfólkvangi, m.a. í Brennisteinsfjöllum. Augljóst er að virkjanir á þessum stöðum munu hafa mikil og óafturkræf náttúruspjöll í för með sér.
Forsætisráðherra hefur haldið því fram að ríkisstjórnin hafi enga stefnu í uppbyggingu álvera. Á sama tíma geysast menn áfram og leggja til að reist verði ný álver og þau eldri stækkuð, allt með fullum stuðningi stjórnvalda. Sama stefnuleysi ríkir í virkjanamálum. Stjórnvöld hafa gefið raforkufyrirtækjum lausan tauminn með því að innleiða samkeppni á raforkumarkaði en hafa ekki enn lokið við gerð rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Í raun má efast um að stjórnvöld ætli sér yfir höfuð nokkuð með þeirri vinnu sem hefur farið í gerð rammaáætlunarinnar. Í fyrsta áfanga hennar, er ekki einu sinni fjallað um Kerlingarfjöll sem virkjunarkost.
Til eru stjórnmálasamtök er telja að dýrmæt náttúrusvæði, eins og Brennisteinsfjöll, eigi að vernda. Það er engin þörf á því að ráðast að þessum perlum. Þvert á móti er mikilvægt að hlúa að þeim með því að samþykkja að gerð verði um þau verndaráætlun. Þannig yrði vernd þeirra tryggð og séð til þess að unnt væri að njóta þeirra um ókomna tíð.
Guðrún Hallgrímsdóttir segir Brennisteinsfjöll vera öræfi Reykvíkinga. Reyndar má segja að fjallasvæðið allt sé í rauninni ómetanleg verðmæti allra landsmanna.
Á Reykjanesskaganum má enn rekja stórkostlega jarðsögu, líklega sögu sem á engan sinn líka og hefur á síðustu 5000 árum mótað landsslag þéttbýlisins á suðvesturhorninu.
Áhrifavaldar í mótun skagans eru fjögur eldstöðvakerfi sem liggja á gosbeltinu eftir endilöngum skaganum og hefur gosið í þeim öllum á sögulegum tíma. Þau eru Reykjaneskerfið þar sem gaus fyrir um 1500 – 1800 árum og svo aftur í Reykjaneseldum árin 1211 – 1240, Trölladyngjukerfið en þar gaus fyrir 2000 árum og síðan aftur í Krýsuvíkureldum 1151-1180, Brennisteinsfjallakerfið sem var virkt fyrir 2000 árum og aftur í Reykjaneseldum og að lokum það stærsta Hengilskerfið sem var í essinu sínu fyrst fyrir um 5000 árum og svo aftur fyrir 2000 árum.
Þegar stórhuga menn mæltu fyrir stofnun Reykjavíkurfólksvangs um miðjan áttunda áratug síðustu aldar bentu þeir á að á fáum stöðum á landinu væri að finna fjölbreyttari eldgosmyndanir og hvergi í Evrópu væri að finna sambærileg jarðfræðifyrirbæri í návist þéttbýlis. Þarna mætti finna flest það sem sóst væri eftir inn á Miðhálendinu, öræfakyrrð og óröskuð víðerni.
Eftir stofnun fólksvangsins var ítrekuð nauðsyn þess að huga að framtíðarskipulagi varðandi landnotkun. Það skipulag hefur ekki litið dagsins ljós en nú 30 árum síðar er búið að ráðstafa þremur af þessum fjórum eldstöðvakerfum og háhitasvæðum til fjölnýttrar orkuvinnslu þ.e. að framleitt er rafmagn, hitaveituvatn, grunnvatn og iðnargufa. Byggðar hafa verið verksmiðjur, jarðböð og orkuver. Nýtingu háhitasvæða fylgja vegalagnir og efnisnámur, borholur, borplön, raflínur og vatns- og gufuleiðslur. Þeir sem fara um Hengilsvæðið og Hellisheiði, út á Reykjanes eða ganga um Svartsengi og meðfram Eldvörpum sjá hvernig borholum hefur verið dritað um allt. Vegir liggja þvers og kruss. Aðeins Brennisteinsfjöll ein eru eftir ósnortin.
Óþarfi er að bíða eftir áætlun um landnýtingu, en hins vegar er nauðsynlegt að bjarga Brennisteinsfjöllum. Þau heita eftir brennisteinsnámum á háhitasvæði á afskekktu landsvæði suður af Lönguhlíð þar sem merkar minjar er að finna um sambúð lands og þjóðar en er þó með öllu ósnortið af nútímanum. Svæðið er töfrandi náttúruparadís þar sem gefur að líta ýmsar gerðir gíga, stuðlaberg, hrauntraðir og tjarnir.
Orkuyfirvöld hafa nú þegar óskað eftir því að hefja rannsóknir í Brennisteinsfjöllum. Gegn því hefur Náttúrufræðistofnun lagst enda fylgja slíkum rannsóknum vegir, borholur og borplön. Þar með væri búið að eyðileggja öll háhitasvæðin á Reykjanesi.
Verði komið í veg fyrir veitingu leyfis til rannsókna í Brennisteinsfjöllum kæmi til greina að friðlýsa hluta Reykjanesfólksvangs sem fyrsta skref í stofnun rekbelta – heimsminjasvæðis sem næði áfram austur eftir gosbeltinu til Vatnajökuls og þaðan norður í Axarfjörð eins og Sigrún Helgadóttir hefur stungið upp á.
Full ástæða er til að ígrunda það alvarlega að friðlýsa Brennisteinsfjöllin sem ósnortið víðerni – og það fyrr en seinna.
Umhverfisstofnun vekur athygli á að í bréfi, dagsettu 26. nóvember 2003, er rektor Háskóla Íslands hafði farið þess á leit við umhverfisráðherra að auglýsingu um friðland í Herdísarvík verði breytt á þann veg að mögulegt verði að rannsaka og nýta jarðhita sem er að finna í Brennisteinsfjöllum. Umhverfisráðuneytið óskaði eftir afstöðu Umhverfisstofnunar til málsins með bréfi dagsettu 20. janúar sl. Álit stofnunarinnar var eftirfarandi:
„Í Brennisteinsfjöllum er jarðfræðileg fjölbreytni mikil, þar er að finna merkar og nánast ósnortnar eldgosaminjar, jarðskjálftasprungur, misgengi og háhita. Brennisteinsfjöll, og raunar allt Herdísarvíkurfriðland, eru hluti af stærra svæði sem fjallað er um í tillögu Umhverfisstofnunar um náttúruverndaráætlun, þ.e. Brennisteinsfjöll-Herdísarvík, en lagt er til að svæðið allt verði friðlýst sem náttúruvætti eða friðland.
Við val á tillögum sem fjallað er um í þingsályktunartillögu um þetta efni var svæðum meðal annars forgangsraðað með tilliti til jarðfræðilegra minja með einkunnagjöf. Þar fékk svæðið Brennisteinsfjöll-Herdísarvík næsthæstu einkunn og á eftir Geysi, en Reykjanes- Eldvörp- Hafnarberg og Grændalur fengu þriðju hæstu einkunnina. Þegar vinnuhópur umhverfisráðuneytis var að störfum lág fyrir að umhverfisráðuneyti hafði með bréfi dags 13. júní 2003, til iðnaðarráðuneytis, lagst gegn því að veitt yrði rannsókna- og nýtingarleyfi í Brennisteinsfjöllum. Í þingsályktunartillögunni var einungis fjallað um Geysi og Reykjanes- Eldvörp- Hafnarberg en ekki þótti ástæða til að fjalla um Brennisteinsfjöll- Herdísarvík að sinni, þar sem ekki voru áform uppi um nýtingu þessa svæðis.“ Nú er hins vegar raunin önnur, en rökin um verndun svæðisins eru enn þau sömu.
Á 130. löggjafarþinginu lagði Ásta R. Jóhannesdóttir fram eftirfarandi fyrirspurn fyrir iðnaðarráðherra: „Hvernig hefur verið brugðist við umsóknum Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur um leyfi til rannsókna í Brennisteinsfjöllum?“
Svar iðnaðarráðherra var eftrifarandi: „Á miðju ári 2000 barst iðnaðarráðuneyti erindi frá Hitaveitu Suðurnesja þar sem farið var fram á rannsóknarleyfi til jarðhitarannsókna í Brennisteinsfjöllum. Á sama tíma barst ráðuneytinu sams konar erindi frá Orkuveitu Reykjavíkur. Í báðum tilvikum óskuðu umsækjendur eftir rannsóknarleyfi með fyrirheit um nýtingarleyfi.
Þetta var í fyrsta sinn sem tveir aðilar sóttu um rannsóknarleyfi á sem næst sama tíma frá því lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, voru sett. Í þeim lögum er ekki kveðið á um það að ekki megi veita tveimur hæfum aðilum rannsóknarleyfi á sama svæði og á sama tíma. Ráðuneytið hefur litið svo á að túlka beri lög nr. 57/1998 svo að heimilt sé að veita fleiri en einum aðila rannsóknarleyfi á sama svæðinu.

Ráðuneytið telur að í slíkum tilvikum þurfi sérstaklega að tryggja að þær framkvæmdir eða rannsóknir sem leyfishafar hyggjast fara í séu ekki ósamrýmanlegar. Hins vegar verður að telja afar ólíklegt að tveir aðilar skuli samtímis standa að dýrum rannsóknum á sama jarðhitasvæðinu án þess að hafa fengið fyrirheit um forgang að nýtingarleyfi.
Eðli málsins samkvæmt er ekki unnt að veita fleiri en einum aðila fyrirheit um forgang til nýtingar á sama svæði. Þar sem lög nr. 57/1998 mæla ekki fyrir um hvernig gert skuli upp á milli umsækjenda taldi ráðuneytið ekki unnt að veita öðrum umsækjandanna fyrirheit um forgang að nýtingarleyfi. Var því beiðni um fyrirheit um forgang til nýtingar fyrir Hitaveitu Suðurnesja annars vegar og Orkuveitu Reykjavíkur hins vegar hafnað í júní 2002. Ráðuneytið benti hins vegar umsækjendum á þann möguleika að þeir sameinuðust um rannsóknir á svæðinu og fengju tilskilin leyfi til þess ásamt fyrirheiti um forgang að nýtingu.
Í lok janúar 2003 sóttu fyrrgreind fyrirtæki sameiginlega um leyfi til að rannsaka umfang, magn og afkastagetu jarðhitasvæða í Brennisteinsfjöllum. Þar var farið fram á að fyrirtækjunum verði sameiginlega veitt nýtingarleyfi á svæðinu ef árangur rannsókna reynist jákvæður. Í apríl 2003 var óskað eftir umsögnum Orkustofnunar, umhverfisráðuneytis og viðkomandi sveitarfélaga um umsókn fyrirtækjanna um rannsóknarleyfi í samræmi við ákvæði laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Orkustofnun og sveitarfélögin tóku jákvætt í að rannsóknarleyfi yrði veitt, en umhverfisráðuneyti taldi að ekki ætti að svo komnu máli að veita Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur rannsóknarleyfi og fyrirheit um forgang að nýtingarleyfi.
Á fundi með umhverfisráðuneyti 26. águst 2003 var farið yfir forsendur fyrir áliti ráðuneytisins, en árið 2000 hafði ráðuneytið ekki lagst gegn því að rannsóknarleyfi yrði veitt, þó með ströngum skilyrðum.
Á fundinum kom fram að undirstofnanir ráðuneytisins hefðu gert nokkrar athugasemdir um að upplýsingar vantaði, m.a. hvað varðaði aðkomuvegi að svæðinu, staðsetningu borplana, og auk þess kom ósk um að beðið yrði eftir niðurstöðum rammaáætlunar. Á fundi með orkufyrirtækjunum í september 2003 var ákveðið að freista þess að afla þeirra gagna og upplýsinga sem talið hafði verið að á skorti í umsókn fyrirtækjanna um rannsóknarleyfi. Þá voru niðurstöður rammaáætlunar kynntar í lok nóvember 2003 þar sem fram kom að virkjun í Brennisteinsfjöllum telst í þeim flokki virkjana er næst minnst umhverfisáhrif hafa.
Þegar framangreind viðbótargögn berast iðnaðarráðuneyti mun umsagnaraðilum lögum samkvæmt kynnt þau gögn og þeim gefið tækifæri á að tjá sig um þau. Komi ekki fram verulegar efnislegar og rökstuddar athugasemdir mun iðnaðarráðuneytið í framhaldi af því gefa út leyfi til jarðhitarannsókna í Brennisteinsfjöllum.“
Í þingræðu 7. des. 2005 fjallaði Kolbrún halldórsdóttir m.a. um Brennisteinsfjöll:
„Ef við værum skynsöm mundum við nú setja reiknimeistara yfir það að reikna ólíka hagsmuni, annars vegar af því að vernda Brennisteinsfjöll og hins vegar að hleypa orkufyrirtækjunum þar að til að ná í jarðvarmann til að selja raforkuna ódýrt til stóriðju. Hvorir hagsmunirnir ætli kæmu betur út? Í mínum huga er ekki nokkur vafi, langtímahagsmunirnir af náttúruverndinni yrðu miklu meiri. Ég er sannfærð um það af því að reikniaðferðirnar sem umhverfissinnaðir hagfræðingar hafa þróað í þeim efnum hafa sýnt okkur fram á að ef dæmin eru reiknuð til enda þar sem náttúruverndarsvæði eru eða verndarsvæði sem hafa mikla verndarhagsmuni eru þau svo þung á vogarskálunum þegar til langs tíma er litið.
Ef þau eru reiknuð inn í heildarverðmætamatið eða hagsmunamatið allt verður útkoman sú að á endanum borgi það sig beinlínis í beinhörðum peningum fyrir okkur að vernda slíkt svæði. (Gripið fram í: Hefurðu …?) Varðandi Brennisteinsfjöll hefur þetta ekki verið reiknað svo að ég viti en gerðir hafa verið útreikningar og skrifuð um þetta háskólaverkefni, bæði hér á landi og reyndar í háskólum erlendis. Ég minnist þess að í háskólum í Skotlandi hafa háskólastúdentar reiknað út svæði á þessum nótum hér á Íslandi. Það þarf oft að fara út fyrir landsteinana til að fólk átti sig á því hve mikil verðmæti eru í húfi. Þessi aðferð sem kölluð er „skilyrt verðmætamat“ hefur verið reynd á ákveðnum svæðum á Íslandi og það hefur ævinlega komið í ljós að verndargildi svæðanna sem hafa verið reiknuð er gríðarlega hátt. Stjórnvöld hafa þó verið ófáanleg til að meta þá hagsmuni og taka þá inn í lokaákvarðanatöku um endanlega nýtingu á svæðinu. Þá er ég að tala um að náttúruvernd sé líka nýting. Það er auðvitað það sem þessi stjórnvöld verða að fara að opna augu sín fyrir. Með því að vernda náttúruna ósnortna erum við að nýta hana til yndisauka og yndisaukinn hefur á reiknistokki þeirra hagfræðinga sem ég var að tala um ákveðið verðgildi.“
Enn ein rökin fyrir því að hinkra og hætta þessu óðagoti, láta ekki eftir orkufrekjunni í orkufyrirtækjunum vegna þess að það liggur ekki lífið á, er að hér er fjöldi virkjunarkosta, í vatnsaflinu jafnvel, fullrannsakaður og ónýttur. Hv. þm. Mörður Árnason fór yfir það áðan og það skiptir verulegu máli að við tökum þetta upp á arma okkar á þeim nótum að við horfum heildstætt á málin.
Í Brennisteinsfjöllum er sérstætt háhitasvæði, nánast ósnortið og með afar hátt verndargildi. Svæðið er hið eina fjögurra eldfjallakerfa á Reykjanesi, sem ekki hefur verið spillt með borunum, vegagerð og línulögnum. Í Brennisteinsfjöllum eru merkar gosminjar frá sögulegum tíma, umhverfið er stórbrotið með gígum, eldhraunum og hellum, og þar má rekja opnar jarðskjálftasprungur og misgengi. Eldvirkt svæði nær alveg frá sjó norður fyrir Sandskeið. Dýrmætt er að hafa aðgang að öræfakyrrð og svo fjölbreyttu landslagi í aðeins 20 km fjarlægð frá þéttbýlinu á suðvesturhorni landsins. Að Brennisteinsfjöllum steðjar nú hætta þar sem mikill þrýstingur er á stjórnvöld um að veita rannsóknarleyfi þeim aðilum er telja svæðið fýsilegt til orkunýtingar. Skorað hefur verið á stjórnvöld að friðlýsa Brennisteinsfjöll, varðveita þau sem ósnortið víðerni og tengja þau friðlandinu í Herdísarvík eins og lagt er til í Náttúruverndaráætlun.
Þegar staðið var ofan við Bringurnar norðanverðar og horft yfir Hvammana og Vatnshlíðina mátti vel ímynda sér þá ógnarkrafta sem þarna hafa verið að verki er hraunið rann, fyllti dalinn og stöðvaðist úti í Kleifarvatni austanverðu. Undir er eldra helluhraun, sem sést vel þar sem það rann niður hlíðna sunnanverða.
Hellir ofarlega í brúnum var skoðaður. Hann var í þröngri rás, en fallegar myndanir voru í honum. Vel mátti sjá hvar Dalaleiðin liggur yfir hraunið þar sem það er mjóst, inn í óbrennishólma að sunnanverðu. Breið kindagata liggur umhverfis hraunið. Líklegt má telja að gangandi fólk hafi farið beint af augum eftir stígnum þvert yfir hraunið til suðurs frá vestanverðum hraunkantinum í Vatnshlíðinni, en ríðandi fólk farið eftir hinni miklu og áberandi götu í hrauninu undir Vatnshlíðinni og síðan krækt með hraunkantinum að Gullbringu. Gatan þar er áberandi enn þann dag í dag. Við Gullbringu skiptist gatan enn á ný, annars vegar í sneiðing upp hlíðina austan við fjallið og áfram um Kálfadali, og hins vegar í gróna sneiðingnum til vesturs norðan fjallsins og síðan yfir að Hvömmum sunnan Kleifarvatns.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín. (16. km).

Heimildir m.a.:
-Guðrún Hallgrímsdóttir.
-Svandís Svavarsdóttir.
-Helgi Torfason og Magnús Á. Sigurgeirsson 2001.
-Umhverfisstofnun.
-Kolbrún Halldórsdóttir
-Alþingi.

Brennisteinsfjöll

Ofan Fagradals.

Gullbringuhellir

Farið var að jaðri Hvammahrauns austan Kleifarvatns til að leita Hvammahraunshellis.

Jón Bergsson leiddi leitarhópinn, en hann hafði rekist á hellisop þarna á leið sinni um Gullbringur nokkrum áratugum fyrr. Hann var þá ljóslaus og gat ekki kannað nánar.

Gullbringuhellir

Gullbringuhellir – bæli.

Þarna, norðan Gullbringu (ranglega merkt á landakort), liggur Dalaleiðin í fleyg upp gras- og lyngbrekku, upp með suðurjaðri hraunsins og áfram norður yfir það allnokkru ofar, neðan hinnar eiginlegu Gullbringu. Norðan hennar er Gullbringuhellir (Jónshellir).

Greinilegt var að engin umferð hefur verið um hellisopið í langan tíma. Dýjamosi er á steinunum innan við opið, en þar voru hvorki spor og né önnur ummerki. Haldið var niður í hellinn, en nokkuð hrun er í fremst í honum. Komið var niður á slétt gólf stórrar hraunrásar. Hraunstrá voru í loftum. Innar þrengist rásin. Þar var hlaðið sporöskjulaga fleti á þurrum stað. Gólfið undir er slétt og grjótið var greinilega týnt til og flórað þarna undir fleti. Ofan við fletið var fúin spýta, en til hliðar við þar voru nokkur smábein. Haldið var innar í hellinn, en eftir u.þ.b. 40 metra lækkar hann og þarf að skríða að opi þar sem rásin hallar niður á við og víttkar á ný (eftir um 70 metra). Ákveðið var að fara ekki lengra að sinni, en skoða bælið betur. Ofan við það virtist hellisveggurinn vera svartur af sóti á kafla. Fallið hafði úr loftinu að veggnum. Góð birta er allt að bælinu og sést vel frá því að opinu, en ekki sést í fletið ef staðið er við opið og horft inn.

Gullbringuhellir

Í Gullbringuhellir.

Hellirinn var nefndur Jónshellir þangað til annað kemur í ljós. Jafnframt var ákveðið að láta Hellarannsóknarfélagið vita um hellinn því skoða þarf hann nánar, einkum innan og neðan við þrengslin. Þegar haldið var upp frá jarðfallinu birtist um 10 m. hellisrás.
Á næstunni verður reynt að grafa upp sögur og sagnir af notkun hellisins, en allt eins er víst að þarna hafi forðum verið athvarft eða skjól fyrir vegfarendur á leið um Dalaleiðina sunnanverða.
Skammt ofar og norðar í Hvammahrauni er Hvammahraunshellir (lýst síðar).
Í bakaleiðinni var litið ofan í Brunntorfuhelli, en hann er á um fimm metra dýpi. Sá hellir bíður enn nákvæmari skoðunar.
Veður var frábært – hlýtt og bjart.

Gullbringuhellir

Gullbringuhellir. Nafnarnir Jón Bergs og Jón Svanþórsson við opið.