Tag Archive for: Hvammkot

Kópavogur

Ofan við gamla bæjarstæði Fífuhvamms/Hvamms/Hvammkots í Kópavogi má lesa eftirfarandi á upplýsingaskilti, sem þar er:

Fífuhvammur

Fífuhvammur 1932.

„Jarðardýrleiki er óviss. Eigandinn er kóngl. Majestat.“ Svo hefst umfjöllun Jarðabókar Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 23. október 1703 um konungsjörðina Hvammkot í Seltjarnarneshreppi. Fram að siðaskiptum um miðja 16. öld hafði jörðin verið í eigu Viðeyjarklausturs en elsta heimildin um jörðina er einmitt skrá um leigumála á jörðum klaustursins frá 1312. Þar heitir hún Hvammur. Nafnið Hvammkot kemur fyrst fram í fógetareikningum Eggerts Hannessonar á Bessastöðum 24. júní 1552. Þann 1. janúar 1891 breytti Þorlákur Guðmundsson þingmaður Árnesinga (búsettur á jörðinni 1875-1902) nafni jarðarinnar og hét hún þá Fífuhvammur.

Kópavogur

Fífuhvammur – skilti.

Árið 1703 var í Hvammkoti tvíbýli. Á helmingi jarðarinnar var ábúandinn Marteinn Jónsson, 46 ára, kona hans Þuríður Bjarnadóttir, 43 ára, og börn þeirra. Bústofn Marteins var sex kýr, þrír hestar og sautján sauðkindur. Á hinum helmingi jarðarinnar var Teitur Jónsson ábúandi, kona hans Guðrún Loftsdóttir og dætur þeirra. Teitur átti fjórar kýr, einn hest og ellefu sauðkindur. Kvaðir á jörðinni voru m.a. mannslán um vertíð, hestlán til alþingis, húsastörf á Bessastöðum þegar kallað var og að bera fálka frá Bessastöðum til Keflavíkur og Básenda.

Fífuhvammur

Fífuhvammur.

Síðustu ábúendur Fífuhvamms voru hjónin Ísak Bjarnason og Þórunn Kristjánsdóttir sem þangað fluttu 1919 ásamt börnum sínum sex. Þau stækkuðu bæjarhús, ræktuðu tún og girtu og höfðu gott bú. Dóttir þeirra Bergþóra Rannveig og hennar maður Þorkell Guðmundsson reistu íbúðarhúsið Tungu í landi Fífuhvamms 1935 og þar var búið til 1990. Ísak lést 1930 en Þórunn hélt áfram búskap og var Guðmundur Kristinn sonur hennar ráðsmaður þar til hún flutti til Reykjavíkur 1954. Þá lagðist jörðin í eyði. Bæjarhúsið var rifið 1983, þá var Kópavogsbær búinn að kaupa jörðina.

Kópavogur

Fífuhvammur.

Í grein um Fífuhvamm sem Adolf J.E. Petersen skrifaði 1984 segir: „Á Hvammakotslandinu munu í framtíðinni rísa veglegar byggingar, háborg komandi tíma, hallir menningar, viðskipta og iðnaðar, ásamt íbúðarhúsum með blómabeðum og trjágróðri í kring og iðandi borgarlífi.

Fífuhvammur

Fífuhvammur – túnakort 1916.

Fífuhvammsjörð var að mörgu leyti góð bújörð. Hvammkot hafði til afnota stærstan hluta Kópavogsdals og góðar slægjur norðan og austan við Hnoðraholt, Smalaholt og Rjúpnahlíð. Bæði Digranesbærinn og Hvammakotsbærinn voru vel staðsettir og með útsýni í suður- og vesturátt.

Hernámið

Hilton Camp í Fífuhvammslandi.

Mikil tæknileg uppsveifla kom með breska og ekki síst bandaríska hernum á stríðsárunum. Eigendur Fífuhvamms leigðu hernum svæði og seldu efni, einkum til flugvallagerðarinnar. Leirdalssvæðið var leigt sem sprengjugeymsla herslins.
Fífuhvammur stóð innst eða austast í Kópavogsdalnum, undir vesturtagli Selhryggs, norður af þar sem nú er Núpalind og leikskólinn Núpur hjá Lindaskóla. Hluti af túni bæjarins er þar enn opið svæði.

Kópavogur

Fífuhvammur.

Fífuhvammur

Norðan húsa nr. 76-78 við Austurkór í Rjúpnadalshlíð í Kópavogi er tóft beitarhúss frá Fífuhvammi (Hvammkoti). Við tóftina er skilti. Á því má lesa eftirfarandi:

Fífuhvammur

Skilti við beitarhús á Rjúpnadalshlíð.

„Minjar um eldri byggð í landi Kópavogs er víða að finna. Helstar sem enn eru greinilegar ber kannski að nefna rústir gamla bæjarins í Digranesi og tóftirnar á þingstaðnum við ósa Kópavogslækjarins.
En víða eru merki um hversdagslíf Kópavogsbúa fyrr á öldum þótt ekki beri mikið á þeim. Eitt af þeim er þessi tóft hér í Rjúpnadalshlíð.

Tóftin er um 10×15 metrar og er innan landamerkja Fífuhvamms. Svo heitir jörðin frá árinu 1891, áður hét hún Hvammkot. Um þessa tóft hafa engar ritheimildir fundist. Fólkið sem gerði hleðsluna og stafaði hér er og verður því miður nafnlaust og ástæður hennar á huldu.

En þótt ekki finnist heimildir um þennan stað hindrar það okkur ekki við að velta vöngum yfir tilgangi mannvirkjanna.

Fífuhvammur

Rjúpnadalshlíð – tóft.

Í seljum var búfénaður haldinn á sumrin í bithaga, þar var mjólkað og mjólkin unnin. Oft voru þrjú hús í seljum, búið í einu, mjólkin geymd í öðru og það þriðja eldhús. En þessi tóft er ekki nema í rétt tæplega tveggja kílómetra fjarlægð frá þeim stað sem bæjarhúsin í Hvammkoti stóðu (þar er nú bílastæði við Melalid 8 og 10). Um selstöður segir í ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar, en þeir ferðuðust um landið á árunum 1752-1757, að sel séu oft í tveggja mílna fjarlægð eða lengra frá bæjum. Ein dönsk míla var rúmlega sjö og hálfur kílómetri og því er þesssi tóft of nálægt bænum til að sennilegt megi telja að hér sé um sel að ræða.

Fífuhvammur

Rjúpnadalshlíð – tóft.

Líklegra er að þetta hafi verið kvíar frá Hvammkoti. Kvíar voru réttir fyrir ær sem lömbin höfðu verið færð frá. Þegar fráfærurnar höfðu borið um vorið voru lömbin alin við heimajörðina en ærnar mjólkaðar í kvíum. Vegna nálægðarinnar við bæjarhúsin og stærðar tóftarinnar verður það að teljast sennileg skýring á tilgangi þessara húsa.“

Rétt er að benda á að tóftirnar bera þess greinileg merki að þarna hafi fyrrum verið beitarhús með heimkuml að baki. Bjarni F. Einarsson skráði minjarnar sem „beitarhús“ í endurskoðaðri Fornleifaskrá Kópavogs 2020.

Fífuhvammur

Rjúpnadalshlíð – tóft.