Tag Archive for: Hvammsrétt

Ölfusrétt

Í Bændablaðinu 2016 segir Ólafur R. Dýrmundsson frá „Ölfusréttum„:

Ólafur Dýrmundsson

Ólafur R. Dýrmundsson – síðasti fjárbóndinn í Reykjavík.

„Það þykir gjarnan fréttnæmt þegar ný og vönduð mannvirki eru tekin í notkun, ekki síst lögréttir sveitarfélaga, svo sem öðru hvoru er greint frá hér í Bændablaðinu og öðrum fjölmiðlum.

Gamlir siðir og hefðir
Íslenska fjallskilakerfið sem felur í sér nýtingu víðáttumikilla sumarbeitilanda, göngur og réttir á haustin og notkun eyrnamarka fyrir allt sauðfé, er eitt af því fáa sem lítið hefur breyst frá upphafi byggðar í landinu. Allt er þetta hluti af menningararfinum. Sömuleiðis sauðkindin sjálf sem þekkt er fyrir mikla erfðafjölbreytni, svo sem í litum, fyrir verðmætar afurðir, og síðast en ekki síst, fyrir veigamikið hlutverk í viðhaldi búsetu og mannlífs þjóðarinnar um aldir.
Það er í sjálfu sér verðugt verkefni að skoða til dæmis hvar og hvernig réttir voru reistar um land allt, allt frá litlum sundurdráttarréttum heima við bæi til stórra lögskilarétta sveitarfélaga í samræmi við ákvæði afréttarlaga og fjallskilasamþykkta á hverjum tíma. Enn er þessum gömlu siðum og hefðum haldið við, að mestu óbreyttum, en þó í takti við nýja tíma.

Ölfusið var fjármargt

Hvammur

Hvammur – gamli bærinn.

Sveitarfélagið Ölfus, sem var myndað við sameiningu Ölfus- og Selvogshreppa 1988, hafði innan sinna marka Grafning allt til 1785 og höfðu sveitirnar sameiginlegar lögréttir allt til 1910 þegar Selflatarétt í landi Úlfljótsvatns var vígð. Hún gegnir enn hlutverki sínu og er ein af elstu réttum í Landnámi Ingólfs Arnarsonar.
Um langt skeið á meðan réttarhaldið var enn sameiginlegt með Ölfusi og Grafningi, eða allt til 1845, stóðu Ölfusréttir skammt fyrir austan bæinn Hvamm, vestan við innanvert Ingólfsfjall. Í fornöld er talið að Ölfusingar og Suðurnesjamenn hafi réttað sameiginlega við Orrustuhól á Hellisheiði.

Selflatarétt

Selflatarétt – loftmynd.

Hin víðáttumiklu og góðu engjalönd í Ölfusinu tryggðu heyskap í öllum árum, einnig fyrir bændur úr öðrum sveitum. Þar var því löngum fjármargt og vetrarbeit nýttist einnig vel.
Síðustu áratugina hafa þó orðið miklar breytingar á fjárbúskapnum. Þannig var ásett sauðfé í Ölfusi og Selvogi samtals 8.200 kindur haustið 1965, 7.000 haustið 1982, fækkaði hratt á þeim áratug niður í 4.750 haustið 1989 en um árabil hefur fjártalan í sveitarfélaginu Ölfusi verið tæplega 2.000 vetrarfóðraðar kindur. Fjárbúum fækkaði einnig fyrir og um aldamótin en fjöldi þeirra hefur haldist svipaður í seinni tíð.
Þess ber að geta að fyrir 50 árum voru rúmlega 500 vetrarfóðraðar kindur í Hveragerði sem gengu með Ölfusfénu í afrétti en þar er nú fjárlaust.

Lögréttir í Ölfusi og Selvogi

Húsmúlarétt

Húsmúlarétt – loftmynd.

Rétt er að geta þess að í Sveitarfélaginu Ölfusi eru tvennar lögréttir, annars vegar Selvogsrétt sem lengi hefur staðið við Hlíðarvatn og Ölfusrétt sem nánar verður greint frá hér á eftir.

Húsmúlarétt

Húsmúlarétt neðan Kolviðarhóls.

Sundurdráttarrétt fyrir norðurhluta sveitarfélagsins er og hefur lengi verið við Húsmúla á Hvannavöllum vestur af Kolviðarhóli en þangað var hún flutt frá Draugatjörn nokkru neðar 1967 og endurbyggð 2006. Þar kemur margt Ölfusfé fyrir eftir fyrri gangnadaginn, vestan Hengils, auk fjár frá nærliggjandi sveitarfélögum, einkum úr Reykjavík og Þingvallasveit. Þá kemur töluvert af fé úr Ölfusi fyrir í útréttum, einkum í Selflatarétt í Grafningi og Fossvallarétt í Kópavogi.
Féð úr þeim hluta Ingólfsfjalls sem ekki er beitarfriðaður er rekið að og dregið sundur í Hvammi. Leitir eru tvennar með tveggja vikna millibili, að mestu leyti á hestum, og síðan er farið í eftirleitir eftir þörfum. Í Ölfusrétt er réttað í lok seinni gangnadagsins.

Nýja Ölfusréttin

Ölfusrétt

Ölfusrétt við Hveragerði – loftmynd 1954.  Nú horfin.

Svo sem áður var vikið að stóð lögrétt fyrir Ölfus í Hvammi fram undir miðja 19. öld þegar hún var flutt vestur í Hveragerði. Sú rétt, stór og hlaðin úr hraungrýti, stóð sunnan við gamla Suðurlandsveginn, skammt frá býlinu Hraunbæ, nokkurn veginn þar sem Hótel Örk stendur.

Ölfus

Í Tímanum 1980 er frétt; „Samþykkt að rífa ekki réttirnar – Fyrir nokkru var skrifað um gamlar réttir sem standa fyrir utan bæinn og af þvi máli er helst það að frétta að hreppsnefndin samþykkti nýlega að ekki skyldi rifa þær að sinni, enda eru þær sögulegt mannvirki eins og Sigurður Pálsson komst að orði. Sagðist hann mikla eftirsjá í réttunum frá því þegar réttað var, en nú er búið að reisa fullkomnari réttir í Ölfusinu. Nú kemur helst til greina að einhver félagasamtök taki málið í sínar hendur og kæmi e.t.v. helst í hlut Náttúruverndarráðs Suðurlands, sem hefur aðsetur á Selfossi, að það tæki af skarið og setti nefnd í málið. Sem fyrr segir er kjörið að sá í dilkana og gera gróðurreiti og eins er hægt að koma upp aðstöðu fyrirferðamenn, tjaldstæðum eða því um líku, nema hvort tveggja væri.“

Mörgum er sú rétt enn minnisstæð og mér vissulega því að ég kom fyrst þangað sem einn skilamanna fyrir Kópavog, Seltjarnarnes og Reykjavík um miðjan 6. áratug liðinnar aldar, rétt tvítugur en þó búinn að stunda fjárbúskap í Reykjavík frá fermingaraldri.

Núparétt

Núparétt – loftmynd.

Mér eru enn minnisstæðir ýmsir bændur þess tíma úr Ölfusi og Grafningi sem þar voru, sumir fjármargir. Ýmsum þeirra átti ég eftir að kynnast síðar. Hvergi hef ég fyrr né síðar séð jafn marga ómerkinga í haustrétt.
Næsta Ölfusrétt var byggð töluvert sunnar, niður undir Núpum, vönduð hringrétt með steyptum undirstöðum og timburklæðningu á stálrörum, vígð haustið 1977. Þangað var ánægjulegt að koma sem skilamaður um áratuga skeið. Eftir að girt var norðan Suðurlandsvegar um og uppúr aldamótunum, og landið sunnan hans var beitarfriðað, lokuðust hefðbundnar rekstrarleiðir til réttarinnar. Einnig var hún farin að láta á sjá. Því var ákveðið að byggja nýja Ölfusrétt norðan við Kamba, við mynni Reykjadals þar sem gott er að reka að í lok seinni gangnadags.
Á þessum stað hafði fé reyndar verið rekið saman um árabil og hægt var að nota safngirðinguna með minni háttar breytingum.

Reykjadalsrétt

Ölfusréttin neðan Reykjadals – loftmynd.

Nýja réttin var smíðuð frá grunni úr timbri í fögrum hvammi vinstra megin við hinn vinsæla göngustíg og reiðleið inn í Reykjadal sem tugir þúsundir ferðamanna fara um á öllum árstímum. Hún var vígð í haust, nánar tiltekið sunnudaginn 18. september 2016, í blíðskaparveðri að viðstöddu fjölmenni, þar með erlendum ferðamönnum á leið upp í dalinn. Þar var einnig dregið í sundur útréttafé og seinni rétt var hálfum mánuði síðar. Áætlað er að þarna hafi komið til réttar um 1.000 kindur í haust. Reyndist nýja réttin vel í alla staði.
Um er að ræða hringrétt með 18 dilkum af ýmsum stærðum auk tveggja upprekstrardilka með stillanlegum upprekstrargöngum fyrir flutningatæki af ýmsu tagi því að allt fé er bílflutt úr réttinni. Bílastæði eru mjög rúm og aðkoma með flutningatæki góð að öðru leyti en því að fara þarf á vaði yfir Hengladalaá sem aðeins er brúuð með göngubrú.

Gleði og góð stemning
Við vígsluathöfnina fluttu ávörp þeir Halldór Guðmundsson, réttarstjóri og fjárbóndi í Hvammi, Gunnsteinn R. Ómarsson, bæjarstjóri Ölfuss, og Sveinn Steinarsson, forseti bæjarstjórnar Ölfuss. Halldór greindi í stuttu máli frá breytingum í réttahaldi í Ölfusi undanfarna áratugi og minntist þess þegar hann fór drengur í sínar fyrstu göngur haustið 1953. Þá var féð mjög fátt eftir fjárskipti til útrýmingar mæðiveiki og fleiri sauðfjársjúkdómum. Gunnsteinn benti m.a. á menningarlegt gildi sauðfjárbúskaparins í sveitarfélaginu og það verðmæta tækifæri sem þéttbýlisbörn o.fl. fengju til að kynnast réttastörfunum á haustin.

Barnvæn rétt
Ölfusrétt
Nýja Ölfusréttin er nokkuð sérstæð. Auk þess að vera þægileg við innrekstur og til sundurdráttar er hún mjög aðgengileg gestum og gangandi. Það á ekki síst við um börnin sem eiga greiða leið að almenningnum, jafnvel án þess að fara inn í hann, því að engir dilkar eru þar sem fólk kemur að réttinni. Þá er utan með réttinni gangur sem kemur sér mjög vel, sérstaklega þegar verið er að reka fé úr dilkum að upprekstrargöngunum. Allir dilkar eru vel merktir með bæjaheitum og bæjanúmerum.“ – Dr. Ólafur R. Dýrmundsson

Heimild:
-Bændablaðið, 24. tbl. 15.12.2016, Ölfusréttir – Ólafur R. Dýrmundsson, bls. 42.
-Tíminn-Byggða-Tíminn 10.09.1980, Samþykkt að rífa ekki réttirnar, bls. 2.

Ölfusrétt

Ölfusrétt við Hveragerði – horfin. Uppdráttur ÓSÁ eftir loftmynd 1954.