Færslur

Hveragerði

“Hveragerði er í austurjaðri gosbeltis sem liggur frá Reykjanesi um Þingvelli og norður Langjökul. Gosbeltið er framhald Mið-Atlantshafshryggjarins sem þarna gengur á land.

manndrapshver

Manndrápshver.

Annað gosbelti liggur síðan frá Vestmannaeyjum um Vatnajökul og norður í Öxarfjörð. Í gosbeltunum er mikil framleiðsla á kviku sem kemur upp í eldgosum eða storknar neðanjarðar og myndar hitagjafa jarðhitasvæðanna. Eitt slíkra jarðhitasvæða er kennt við Hengil og er Hveragerði í eldri hluta þess. Hin mikla jarðhitavirkni þar er þannig nátengd reki meginlanda og eldsumbrotum.
Jarðhitasvæðum á Íslandi er skipt í háhita- og lághitasvæði eftir uppruna og hitastigi. Hiti í háhitasvæðum er yfir 200ºC á eins km dýpi og er Hengill eitt þeirra. Jarðskjálftar eru eitt af einkennum jarðhitasvæða. Þeir viðhalda brotum og glufum í berginu sem auk lekra jarðlaga gera vatni kleift að renna niður í jarðhitakerfin og upp aftur. Það er því algengt að í jarðskjálftum breytist jarðhitasvæði, hverir hverfi og nýir komi í staðinn. Jarðhitasvæðin eru þannig síbreytileg. Staða grunnvatns hefur einnig mikil áhrif á útlit hveranna, í þurrkum lækkar vatnsborð og gufuhverum fjölgar, en í rigningartíð breytast gufuaugu í vatns- eða leirhveri. Háhitasvæðið í Hengli er ævagamalt, að öllum líkindum nokkur hundruð þúsund ára, og er elsti hluti þess í Hveragerði. Þar var hverasvæðið löngum farartálmi og til lítilla nota þótt alltaf þætti ferðamönnum það forvitnilegt. Einkum fannst þeim mikið til um goshverina, Litla-Geysi sem nú er horfinn og Grýlu sem enn skvettir úr sér.

gryla

Hverinn Grýla.

Jarðhiti í Hveragerði var fyrst nýttur í einhverjum mæli við Mjólkurbú Ölfusinga um 1930. Árið 1940 var fyrsta jarðhitaholan boruð og gufan leidd í gróðurhúsið í Fagrahvammi. Þessi hola var 54 m djúp og er nú löngu horfin. Með henni var framtíð bæjarins ráðin því gróðurhúsabyggð óx smám saman og garðrækt varð einn af aðalatvinnuvegum bæjarins.
Gufan sem notuð var í Mjólkurbú Ölfusinga kom úr kraftmiklum gufuhver, Bakkahver. Hann er nú rólyndislegur og stendur enn pýramídalagað þak yfir honum, þaðan sem gufuleiðslan lá.
Nafnfrægastur hveranna á girta svæðinu er Manndrápshver, en í hann féll maður árið 1906 og lést. Varð það til þess að götulýsing var sett upp í Hveragerði, sú fyrsta á landinu. Gróuhver heitir eftir nágranna hversins. Bláhver er nefndur eftir lit vatnsins og var áður mun kraftmeiri. Ruslahver (Önnuhver) hafði um árabil verið notaður sem ruslagryfja og dregur nafn sitt af því að hann lifnaði við í jarðskjálfta 1947 og þeytti öllu ruslinu úr sér. Annar hver sem nýlega hefur stækkað er Dynkur, en hann var lítið gufuauga 1991 og er nú orðinn að snotrum leirhver.
Fyrir utan að vera náttúruundur er hverasvæðið í Hveragerði virkjað fyrir hitaveitu bæjarins. Nú eru nýttar tvær holur, hola HS-02 boruð 1959 í 311 m og HS-08 boruð 1988 niður í 254 m. Jarðhitinn er einkum virkjaður til hitunar íbúðarhúsnæðis og gróðurhúsa og í sundlaugar bæjarins. Vegna hins öfluga jarðhita er Garðyrkjuskóli ríkisins staðsettur í nágrenni Hveragerðis.”

Heimild:
-http://www.hveragerdi.is/Ferdamenn/Ahugaverdir_stadir/Hverasvaedid_i_midbaenum/

Hveragerði

Hveragerði – hverasvæði.