Færslur

Arnarseturshraun

Í fjölriti Náttúrufræðistofu um aldur Illahrauns frá árinu 1988, eftir Hauk Jóhannesson og Sigmund Einarsson, segir m.a.: “Í grein þessari er lýst niðurstöðum rannsókna á Illahrauni við Svartsengi á Reykjanesskaga. Hrauninu og gígunum er lýst og mæld stærð hraunsins og rúmmál. Aldur hraunsins var fundinn með könnun öskulaga undir og ofan á því.

Illahraun

Illahraun – kort.

Illahraun nefnist hraunfláki norðvestur af Þorbjarnarfelli og vestan við Svartsengisfell. Hraunið er úfið og víða nokkuð illfært. Það hefur þó runnið að mestu sem helluhraun, en eftir að yfirborð þess storknaði hefur það brotnað upp í fleka sem síðar sporðreistust og mynda eins konar karga á yfirborði þess. Við jaðra meginhraunsins eru skikar af þynnra hrauni, sem ýmist eru undanhlaup eða hafa runnið fram af aðal hraunbrúninni. Hraunið á upptök sín í stuttri gígaröð sem er vestast í hrauninu. Gígaröðin er um 200 metra löng og á henni eru fimm gígar. Nyrsti gígurinn er stærstur og í raun tvöfaldur, fyrst hefur gosið í stórum gíg en seinast hefur virknin dregist saman og minni gígur myndast á vesturjaðri hans. Þessi minni gígur rís hæst yfir hraunið í austur frá þjóðveginum. Gígaröðin hefur stefnuna N30A. Hraunið hefur runnið í austur upp undir Þorbjarnarfell og Svartsengisfell.

Illahraun

Illahraun – gígur (Rauðhóll).

Virkjun Hitaveitu Suðurnesja við Svartsengi stendur á norðausturjaðri Illahrauns. Annar hrauntaumur hefur runnið suðvestur með Þorbjarnarfelli að vestan og hefur stöðvast á móts við slakkan er verður milli Þorbjarnarfells og Lágafells. Stuttur hrauntaumur hefur og fallið suðvestur frá gígnum.
Engar sprungur finnast í Illahrauni sjálfu en á Baðsvöllum, sem er norðan undir Þorbjarnarfelli, ganga nokkrar sprungur undir hraunið þar af ein sem stefnir N-S. Einnig fundust þrjár litlar norðaustlægar sprungur í yngra Eldvarpahrauninu sem ganga inn undir norðvesturjaðar hraunsins.

Illahraun

Illahraun – gígur (Rauðhóll).

Aldur Illahrauns var ákvarðaður út frá aðstöðu hraunsins til þekktra öskulaga. Í jarðvegi á Reykjanesi eru nokkur öskulög frá sögulegum tíma. Þar er fyrst að nefna svonefnt Landnámslag sem féll um árið 900. Þau hraun sem runnið hafa eftir að Landnámslagið féll eru talin frá sögulegum tíma. Annað auðþekkt lag er Miðaldalag. Það er talið hafa fallið árið 1226 og má rekja það í jarðvegssniðum um allan Reykjanesskagann, austur í Ölfus og upp í Borgarfjörð. Þetta er svart sendið öskulag sem hefur myndast í eldgosi í sjó undir Reykjanestánni og sést hluti af gígrimanum uppi á landi gegnt Karli.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræði. ISOR

Þriðja auðþekkta öskulagið er kolsvart fínt lag sem talið er að hafi fallið um 1485 og er það komið úr Kötlu. Þetta lag er að finna á austan- og norðanverðum Reykjanesskaga og hefur það verið rakið allt vestur að Vogum.
Grafin voru og mæld þrjú jarðvegssnið við og inn undir jaðar Illahrauns á Baðsvöllum. Landnámslagið er undir Illahrauni og Miðaldalagið hefur verið nýfallið þegar hraunið rann. Kötlugos frá 1485 fannst ekki í sniðunum.

Illahrain

Illahraun – snið í jarðlögum.

Telja verður víst að hraunið hafi runnið eftir að Miðaldalagið féll svo ekki skakkar nema í mesta lagi fáum árum. Þó er líklegast að hraunið hafi runnið um svipað leyti og öskugosið varð. Illahraun hefur því brunnið í eldgosi sem varð 1226 eða skömmu síðar.”

Heimild:
-Fjölrit Náttúrufræðistofu 1988 – Aldur Illahrauns, Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson.

Grindavík

Grindavík – Þorbjarnarfell. Illahraun t.h. og Bláa lónið. Grindavík fjær.

Arnarseturshraun

Eldvarpahraunin, Arnarseturshraun, Illahraun, Blettahraun og Bræðrahraun voru fyrrum nefnd Illuhraun. Nú nær Illahraunsnafnið þrengra yfir hraunkargann sunnan og suðvestan við Bláa lónið. Hraunin öll teljast til Reykjaneselda á tímabilinu 1211-1240.
Kubbur-21Í Eldvörpum nær suðurendi Eldvarpagígaraðarinnar frá suðvestanverðu Staðarbergi, þar sem hraunið rann í sjó, en í norðaustri endar hún tæpa 2 km vestur af Bláa lóninu, við svonefndan Lat. Hún er alls um 10 km löng en nokkuð slitrótt. Mest hraunframleiðsla hefur verið á nýjustu sprungureininni í Eldvörpum, skammt sunnan miðju gígaraðarinnar.
Arnarseturshraun og Illahraun eru talin vera frá því stuttu eftir 1226, líklega nokkrum árum, en þau runnu bæði inn á Eldvarpahraun.
Á nýlegri loftmynd af hraunasvæðinu má glögglega sjá djúpa hrauntröð. Ætlunin var að ganga um hraunssvæðið norðan við Bláa lónið, leita að framangreindri hrauntröð og koma síðan m.a. við í hellinum Kubb og jafnvel fleiri óþekktum hellarásum á svæðinu. Ein þeirra reyndist vera hin dulúlegi Illir.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Grindavík

Grindavík – Þorbjörn. Illahraun fremst.

 

Arnarsetur

Í Náttúrufræðingnum 1983 fjallar Jón Jónsson, jarðfræðingur, um Arnarseturshraun á Gíghæð ofan Grindavíkur og reynir að áætla aldur þess. Arnarseturshraun, sem rann úr gígum efst í Arnarsetri, nefnast ýmsum nöfnum, en hafa þó það sameiginlegt að hafa runnið úr sömu goshrinum (-hrinum):

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun – kort.

Hraun þetta hefur komið upp í tveim gígum og ber sá þeirra sem hæstur er nafnið Arnarsetur. Hraunið hefur ótvíræða dyngjulögun, einkum séð vestan frá, en bergfræðilega er það skyldara sprunguhraunum. Þetta hefur verið allmikið gos. Hraunið þekur sem næst 22 km2 og telst samkvæmt því 0,44 km\ en sennilega er sú tala talsvert of lág því hraunið er greinilega mjög þykkt á stóru svæði kringum eldvarpið. Eldra hraun, sem aðeins sést í smá óbrennishólma bendir til þess að áður hafi gosið á þessum sama stað. Í sambandi við jarðfræðikortlagningu kom í ljós að Arnarseturshraun hlaut að vera yngst allra hrauna á þessu svæði. Það vakti grun um að það gæti verið frá sögulegum tíma.

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun.

Út frá þeim skráðu heimildum, sem til eru, virtist liggja beinast fyrir að ætla að gos þetta hafi orðið 1660 og sé það, sem getið er um í annál Gunnlaugs Þorsteinssonar fyrir árið 1661, Vallholtsannál, (Annálar 1400-1800) sem getur um eldgos í Grindavíkurfjöllum þetta ár. Sú var og niðurstaða mín (Jón Jónsson 1978, bls. 258-9). Hins vegar hafa nú rannsóknir leitt í ljós að svo getur ekki verið, og er hraunið talsvert eldra, en eigi að síður frá sögulegum tíma.

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun – óbrennishólmi, norðan Litla-Skógfells.

Óbrennishólmi einn lítill er skammt fyrir neðan Litla-Skógfell og eftir árangurslausa leit á nokkrum stöðum fórum við Sigmundur Einarsson jarðfræðingur og grófum þar við hraunröndina. Fundum við þar bæði landnámslagið og Kötlulagið, hið fyrra undir, hið síðara ofan á hrauninu. Af jarðvegssniðinu má ráða að talsvert lengri tími hafi liðið frá því að landnámslagið féll til þess að hraunið rann, en frá því til þess að Kötlulagið féll. Sýnist því að þetta gos gæti vel hafa orðið eitthvað nálægt 1300, samanber töflu I.”

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 1.-4. tbl. 01.05.1983, Eldgos á sögulegum tíma á Reykjanesskaga – Jón Jónsson, bls. 134-135.
Afstapahraun