Færslur

Lúther

Í Landnámu (Sturlubók) er fjallað um Brynjudal í Hvalfirði. “Hvamm-Þórir nam land á milli Laxár og Fossár og bjó í Hvammi. Þórir deildi við Ref hinn gamla um kú þá, er Brynja hét; við hana er dalurinn kenndur. Hún gekk þar úti með fjóra tigu nauta, og voru öll frá henni komin. Þeir Refur og Þórir börðust hjá Þórishólum; þar féll Þórir og átta menn hans.

Lúther

Lúther á Refsdys.

Þorsteinn, son Sölmundar Þórólfssonar smjörs, nam land milli Botnsár og Fossár, Brynjudal allan. Hann átti Þorbjörgu kötlu, dóttur Helga skarfs; þeirra son var Refur hinn gamli, er Bryndælir eru frá komnir.
Nú eru taldir þeir menn, er búið hafa í landnámi Ingólfs, vestur frá honum.
Maður hét Ávangur, írskur að kyni; hann byggði fyrst í Botni.
Þar var þá svo stór skógur, að hann gerði þar af hafskip.
Hans son var Þorleifur, faðir Þuríðar, er átti Þormóður Þjóstarsson á Álftanesi og Iðunnar Molda-Gnúpsdóttur. Sonur Þormóðar var Börkur, faðir Þórðar, föður Auðunar í Brautarholti.
Kolgrímur hinn gamli, son Hrólfs hersis, nam land út frá Botnsá til Kalmansár og bjó á Ferstiklu.
Hann átti Gunnvöru, dóttur Hróðgeirs hins spaka. Þeirra börn voru þau Þórhalli, faðir Kolgríms, föður Steins, föður Kvists, er Kvistlingar eru frá komnir. Bergþóra var dóttir Kolgríms hins gamla, er átti Refur í Brynjudal.” Jafnframt segir síðar að “Helgi skarfur var faðir Þorbjargar kötlu, er átti Þorsteinn Sölmundarson, þeirra synir Refur í Brynjudal og Þórður,” Áður hafði verið skilmerkilega skráð að “Ingólfur bjó í Reykjarvík; þar eru enn öndugissúlur þær í eldhúsi. En Ingólfur nam land milli Ölfusár og Hvalfjarðar fyrir utan Brynjudalsá, milli og Öxarár, og öll nes út.”
Fjárhúsið neðraStefnan var að þessu sinni tekin á Brynjudal í Hvalfirði. Ætlunin var m.a. að skoða hin fornu bæjarstæði Þorsteins í Múla, Refs á Stykkisvöllum og Þórðar á Þrándarstöðum (Þorbrandsstöðum), auk skjóla, seltófta og önnur bæjarstæði. 

Ingunnarstaðir höfðu t.a.m. selstöðu í Þórunnarseli, í heimalandi, líkt og Hrísakot og Þrándarstaðir. Þessir bæir eru allir í Brynjudal. Í Jarðabókinni 1703 segir að “Þórunnarsel liggur og í Ingunnarstaða landi, þar ætla menn bygð hafi verið til forna, og sjest þar bæði fyrir girðingum og tóftaleifum. Enginn veit nær það hafi eyðilagst, en eyðileggingunni valdið hafi snjóþýngd og vetrarríki. Hafa nú Ingunnarstaðamenn þar selstöðu þá er þeim líkar. Túnstæði alt er í hrjóstur og mosa komið, og í því bæði berbeinur og skógarrunnar; kann því valla eður ekki aftur að byggjast, nema Ingunnarstöðum til baga og þó með stórerfiði.” Um selstöðu Hrísakots segir að hana “hefur jörðin í sínu eigin landi víðara en í einum stað.” Þetta bendir til þess að selstöðurnar hafi verið fleiri en ein og fleiri en tvær.
Maríuhellir er sagður í Brynjudal í Kjós. Hann var fyrr á tímum gott skjól fyrir sauðfé (Árbók Ferðafélags Íslands 1985, bls. 191). Skammt frá honum var Bárðarhellir. Örnefni í innanverðum Hvalfirði, við mynni Brynjudals, má rekja bæði til Bárðar sögu og Harðar sögu.
Spegulerað og spáðHafsteinn Lúthersson, nú 92 ára, bjó síðast í Hrísakoti, eða til ársins 1975. Foreldrar hans áttu fyrrum bæði Hrísakot og Ingunnarstaði. Frænka hans, Guðrún Björnsdóttir, býr nú að Ingunnarstöðum. Aðspurð um minjar í dalnum benti Guðrún á nefndan Hafstein föðurbróðir hennar því þrátt fyrir háan aldur væri hann manna fróðastur um minjar og örnefni í Brynjudal.
Hafsteinn, sem býr nú á Akranesi, sagði tóftir Þórunnarsels vera á Selflötum við Brynjudalsá að sunnanverðu, innst í dalnum gegnt Þórisgili. Þær væru að mestu sokknar í mýrana, en enn mætti þó sjá móta fyrir þeim.
Hafsteinn sagði Bárðahelli hafa verið fremst í Brynjudal, innan við Voginn. Þetta hefði verið feikna fjárhellir, tekið um 100 fjár. Þegar sprengt var í hylnum fyrir laxastiganum á sjötta áratug síðustu aldar hefði hellirinn fallið saman. Hann væri því horfinn nú. Maríuhellir væri hins vegar norðan við ána ekki langt frá. Hann væri mun minni, varla meira en skúti. Þar hefði einnig verið skjól fyrir beitarfé.
Lúther Ástvaldsson býr að Þrándarstöðum (62 ára). Fyrrnefndur Hafsteinn er móðurbróðir hans. Lúther sagði greinilegar tóftir enn vera í Þórunnarseli. Einnig á Stykkisvöllum undir hlíðum Suðurfjalls, en þeir eru u.þ.b. 1 1/2 km vestar.
Stykkisellir, stundum nefndir Gulllandsvellir (Gullhlaðsvellir/Gullásvellir), komu við sögu í Harðar sögu Hólmverja og Ref gamla. Kristján Eldjárn og Þórhallur Vilmundarson hefðu komið í dalinn einn sunnudag fyrir fjöldamörgum árum þá er hann var 10 ára og hefði hann leiðbeint þeim inn á vellina. Þar eru tóftir. Sumir vilja meina að þar hefði bær Refs gamla verið, en um tíma var þar kirkja. Bænhús hefði og verið á Þrándarstöðum. Sjálfur hefði hann tilgátu um hvar það hefði verið, eða á fornum bæjarhól sem er skammt frá núverandi bæ. Þar suðaustan í bæjarhólnum hefur það líklega staðið, en hann hefði það eftir Þórði á Skógum að svo hafi jafnan verið þar í sveit fyrrum.
LBrynjudalsáúther sagði forna leið, m.a. kirkjuleið, hafa verið um Hríshlíð um svonefndan Flúðastíg við Laugarlæk og yfir Hrísháls. Gatan hafi líklega legið þar allt frá þjóðveldisöld. Áður hafi verið fallegar hleðslur utan í stígnum í hlíðinni og hann flóraður á kafla, en eftir að Skógræktin hafi byrjað að athafna sig á Hrísakoti hefði verið farið með torfærutæki upp eftir stígum og hann aflagaður. Heit laug er ofarlega í hálsinum við gömlu leiðina, í Laugalæknum. Þar má enn sjá verksummerki eftir framkvæmdir hugvitsmannsins Lúthers Lárussonar, sem bjó á Ingunnarstöðum fyrr á síðustu öld.
Þá sagði Lúther frá fornum bæjum, s.s. Múla og Þorbrandsstöðum. Sá fyrrnefndi var undir Múlafjalli í norðanverðum dalnum, en var færður suður yfir ána, í Skorhagaland, um 1600. Enn megi sjá tóftir í gamla bæjarstæðinu.
Harðar saga og Hólmverja gerðist í Geirshólmi í Hvalfirði árið 989. Sagan er skógarmannssaga og segir þar frá Herði Grímkelssyni, sem framast erlendis, fær jarlsdóttur af Gautlandi, en gerist síðan foringi fyrir stigamannaflokki, sem býr um sig í Geirshólma í Hvalfirði, unz móðurbróðir hans ræður hann af dögum. Ekkjan, Helga Jarlsdóttir, syndir síðan til lands með syni sína tvo unga. Styrmir fróði Kárason (d. 1245) er talinn höfundur frumgerðar sögunnar. – Bárðar saga er landvætta- og tröllasaga, sem gerist á landnámsöld. Bárður er sonur jötnakonungs í hafsbotnum. Hann flyzt til Íslands og gerist hollvættur Snæfellinga. – Þorskfirðinga saga er ýkjusaga, sem gerist að mestu leyti á landnámsöld. – Flóamanna saga tekur yfir tímabilið frá því um 870 til 1020, og er þar sögð saga fjögurra ættliða. Upphaf hennar er frásögn af deilum Atla jarls hins mjóva við þá fóstbræður Ingólf Arnarson og Hjörleif, en aðalsöguhetjan er Þorgils Örrabeinsfóstri, og er m.a. greint frá miklum hrakningum hans á Grænlandi.
Innst í BrynjudalHörður var í svo miklum metum hjá Haraldi jarli á Gautalandi og Hróari syni hans að hann fékk Helgu jarlsdóttur fyrir konu. Eftir fimmtán ára dvöl í útlöndum, sneri Hörður heim með Helgu, konu sinni, og bjó um skeið í góðu yfirlæti. En vegna árekstra við nágranna og fjandskapar við einstakra manna fór brátt svo að hann lenti í ófriði og vígaferlum sem leiddu til þess að hann og Geir, fóstbróðir hans, voru dæmdir sekir skógarmenn. Lögðust þeir þá út, lifðu áránum og höfðu þrjú síðustu æviárin aðsetur á eyjunni litlu í Hvalfirði, Geirshólmi, ásamt fjölda annarra útlaga og stigamanna sem söfnuðust að þeim. Lauk þessu svo, að byggðamenn bundust samtökum um að yfirbuga þá. Undir yfirskini samninga og sátta voru útlagarnir gabbaðir í land og síðan drepnir. Hörður brá hart við, þegar hann varð áskynja um svikin, og hafði drepið þrettán menn,  áður en hann var felldur. Nær sex tigir manna voru drepnir af Hólmverjum, og að auki þeir fóstbræður í Dögurðarnesi. Nú töluðu þeir um höfðingjarnir að ráð væri að fara eftir Helgu og drepa sonu þeirra Harðar. Þá þótti sumum of síð dags. Höfðu þeir þá að því samtak að þeim skyldi engi grið gefa né ásjá veita ella skyldu allir þeim hefna. Svo var ríkt við lagið. Þeir ætluðu út um morguninn en voru þar um nóttina.
Helga er nú í hólminum og þykist vita nú allar vélar og svik landsmanna. Hún hugsar nú sitt mál. Það verður nú hennar ráð að hún kastar sér til sunds og leggst til lands úr hólminum um nóttina og flutti með sér Björn son sinn fjögurra vetra gamlan til Bláskeggsár. Og þá fór hún móti Grímkatli syni sínum átta vetra gömlum því að honum dapraðist sundið þá og flutti hann til lands. Það heitir nú Helgusund. Þau fóru um nóttina upp á fjall frá Þyrli og hvíldust í skarði því er nú heitir Helguskarð. Hún bar Björn á baki sér en Grímkell gékk.
Helga fór með drengina til Þorbjargar, systur Harðar, að Indriðastöðum í Skorradal, og dvaldist í skjóli hennar í nokkur ár. Grímkell féll tólf ára, er hann leitaði hefnda eftir föður sinn. Helga fór þá með Björn til Hróars, bróðurs síns, jarls á Gautalandi. Ekki var Helga gift síðan svo að þess sé getið.
ÞórunnarselBjörn varð mikill maður og kom aftur til Íslands drap marga menn í hefnd föður síns og varð hinn röskvasti maður. Fjórir menn og tuttugu voru drepnir í hefnd eftir Hörð. Enginn þeirra var fé bættur.
Stykkisvellir (Gullhlaðsvellir) komu einnig við sögu. “Refur hét maður Þorsteinsson, Sölmundarsonar, Þórólfssonar smjörs. Hann bjó á Stykkisvelli í Brynjudal. Hann var goðorðsmaður ríkur og garpur mikill. Hann var kallaður síðar meir Refur hinn gamli. Þorbjörg katla hét móðir hans. Hún bjó í Hrísum. Hún var fjölkunnig mjög og hin mesta galdrakona. Kjartan hét bróðir Refs. Hann bjó á Þorbrandsstöðum, mikill maður og sterkur og illa skapi farinn, ójafnaðarmaður um alla hluti. Því var hann furðu óvinsæll af alþýðu manna.”
Magnús Grímsson segir frá Brynjudal í Ferðabók sinni fyrir sumarið 1848, Lýsing Kjósarsýslu… “Brynjudalur gengur inn af Hvalfjarðarbotni sunnanverðum, og er Kjölfjallið að sunnanverðu, en Múlafjall að norðan, og Súlur og Botnsheiði fyrir dalbotninum. Dalurinn snýr í suðvestur og norðaustur. Lestarvegurinn liggur neðantil yfir dalsmynnið við sjóinn, og er eigi fagurt að líta þaðan upp í dalinn. En þegar inn kemur í dalinn fer þessi ófegurð af; dalurinn er eigi lángur, en breiður nokkuð; hliðarnar báðu megin háar og fagrar á að sjá; dalbotninn er sléttur og grösugur, og á, sem ekki er nema til prýðis, lykkjar sig eptir endilaungum dalnum, og fellur þar með hægum straumi innanum eyrarnar. Þessi á heitir Brynjudalsá.
Bárðarhellir er rétt við ána hjá leFjárskjólstamannaveginum; það er nú ekki nema skúti einn ómerkilegur. Sumir menn hafa rist þar á og krotað nöfn sín. (Í Bárðar sögu Snæfellsáss er sagt frá því, að landnámsmennirnir Bárður og Þorkell, bróðir hans, er verið höfðu óvinir, sættust heilum sáttum, og áttu “þeir síðan mörg skipti saman ok höfðu löngum samvistir saman í helli þeim í Brynjudal, er Bárðarhellir er kallaður síðan….” Eggert Ólafsson og Bjarni Pásson skoðuðu hellinn 1755, og geta þeir þess í ferðabók sinni, að þar séu víða krotuð nöfn og rúnir við veggina. Finnur Magnússon prófessor kveðst hafa skoðað þessar ristur með föður sínum, þegar hann var um 14 ára aldur, eða um 1795, og getur þeirra í Runamo-riti sínu. Í grein um Kjósina, sem Gunnar Kristjánsson ritaði í Árbók Ferðafélagsins, kveður hann Bárðarhelli hruninn).
Í Landnámu segir svo um landnámsmennina Hvamm-Þóri og Ref hinn gamla: „Hvamm-Þórir nam land á milli Laxár ok Forsár ok bjó í Hvammi. Þórir deildi við Ref inn gamla um kú þá er Brynja hét. Við hana er dalurinn kenndr. Hon gekk þar úti með fjóra tigu nauta, ok váru öll frá henni komin. Þeir Refr ok Þórir börðust hjá Þórishólum. Þar fell Þórir ok átta menn hans:“ Þórishólar eru í Hvammi, rétt vestan við Hvammsós. Bær landnámsmannsins í Brynjudal, Ref hins gamla, stóð í Múla, samkvæmt Landnámu, en sá bær var í byggð fram til 1600 og sér móta fyrir rústum hans norðan Brynjudalsár gegnt Þrándarstöðum að því er virðist. Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín var bærinn Múli þá fluttur að Skorhaga.
SelflatirÞrátt fyrir frásögn Landnámu um uppruna örnefnisins „Brynjudalur” mætti hugsa sér aðra skýringu á orðinu. Þórhallur Vilmundarson hefur sett fram þá skoðun, að nafnið sé hugsanlega skylt sænska orðinu bryn, sem merkir „svæði eytt af skógareldi“.
Brynjudalur er fagur dalur umgirtur háum fjöllum á báða vegu, fyrir botni hans gnæfa Hvalfell og Botnssúlur, sem sjást mjög langt að. Innsti bærinn, Hrísakot, er í eyði, þar var síðast búið 1964. Það hefur á seinni árum heyrt undir Ingunnarstaði, sem er frá fornu fari stærsta jörðin í dalnum og var kirkjustaður fram til 1800.
Skammt utan við Ingunnarstaði eru Þrándarstaðir undir Þrándarstaðafjalli. Rétt innan við bæinn er Þverárgil; í því rennur Þverá, sem kemur ofan af Kili. Ekkert nafn er á fossum þeim, er þar eru. Húsagil er mikið gil beint upp af bænum. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir, að bænhús hafi staðið á Þrándarstöðum fyrr á tímum.
Ysti bærinn í Brynjudal er Skorhagi, lítil jörð. Skammt vestan við bæinn er Kliffoss í ánni, stundum nefndur Skorhagafoss. Í honum er laxastigi og einnig í fossinum sem neðar er og blasir við frá þjóðveginum. Sá foss nefnist Bárðarfoss eða Brynjudalsfoss. Í daglegu tali eru þeir nefndir Efrifoss og Neðrifoss. Sunnan við Bárðarfoss var áður fyrrnefndur hellir, er Bárðarhellir nefndist, hann er nú hruninn. Norðan við fossinn gegnt Bárðarhelli var Maríuhellir. Hann er nú næstum horfinn en var fyrr á tímum gott skjól fyrir sauðfé.
SelsvarðaDálítil laxveiði er í Brynjudalsá og hefur verið að því unnið á undanförnum árum að efla þar laxastofninn. Mikið lífríki er á Brynjudalsvogi og útfiri mikið. Norðan við voginn gnæfir Múlafjall; Rjúpnafjall nefnist brekkan fremst utan í fjallinu.
Ingunnarstaðir og Hrísakot eru í innanverðum Brynjudal sem er við innanverðan Hvalfjörð að sunnan og telst til Kjósarinnar enda í Kjósarhreppi. Innsti bærinn telst vera Hrísakot, sem fór í eyði 1964. Hrísakotið hefur á seinni árum heyrt undir Ingunnarstaði, sem er frá fornu fari stærsta  jörðin í dalnum og var kirkjustaður fram til 1800. Jarðirnar hafa átt sameiginlegt óskipt land um langan aldur.
Brynjudalur hefur verið byggður allt frá landnámi en bær landnámsmannsins í Brynjudal, Refs hins gamla, stóð í Múla, en sá bær var í byggð fram til 1600.
Helsta heimild um merki jarðanna er landamerkjaskrá Ingunnarstaða ásamt Hrísakoti frá 26. apríl 1890 sem hljóðar svo: “Milli Ingunnarstaða og Skorhaga eru eru merki þannig: Þúfa sem stendur við Brynjudalsá og sjónhending úr þeirri þúfu til þess svonefndur Vörðuhvammslækur kemur fram af brúninni og þaðan norður á hámúlann þar til skiptist vatnahalli.
Stykkisvellir - tóftMilli Ingunnarstaða og Stóra-Botns ræður vatnahalli í múlanum og sömuleiðis þar sem “Súlur” taka við og það austur að Þingvallakirkjulandi. Milli Ingunnarstaða og Þingvallakirkju eru merki bein lína frá svonefndri “Hásúlu” eða “Mjóusúlu”, sem stendur í beinni línu við merki, að norðanverðu ræður svo stefna úr nýnefndri Súlu til upptaka Öxarárvið Mirkavatn, og þaðan sjónhending í suður á “Há Kjöl”. Svo ræður vatnahalli vestur eftir Kilinum til þess móts við, eða uppundan “Þverá”.
Milli Ingunnarstaða og Þrándarstaða ræður Þverá frá Brynjudalsá til efstu upptaka Þverár, og svo þaðan bein stefna upp á Kjöl, þar sem merki verða sett.”
Undir landamerkjaskrána rituðu eigendur Stóra-Botns, Þrándarstaða, Skorhaga og umboðsmaður Þingvallakirkjutorfunnar. Eigandi Ingunnarstaða ásamt Hrísakoti og eigandi Skorhaga gerðu landamerkjabréf 15. febrúar 1922 sem felur í sér smábreytingu á merkjum milli þeirra jarða þar sem landamerkjaþúfan við Brynjudalsá var horfin.
Búskapur hefur verið á Ingunnarstöðum frá landnámi til okkar tíma en Landgræðslusjóður hefur fengið ¾ jarðanna tveggja til skógræktar.
IngunnarstaðirIngólfur Arnarson nam allt land milli Ölfusár og Brynjudalsár. Landnámshringurinn lokast því í landi Brynjudals því upptök Öxarár eru í Myrkvavatni en upptök Brynjudalsár í Sandvatni. Þetta segir að landið var numið og um fullkominn eignarrétt var að ræða, fenginn með “námi” eða “töku”. Stofnun eignarréttarins var með viðurkenndum hætti á þeirra tíma mælikvarða og spurning er því hvort eitthvað hafi breyst frá landnámi og þar til á 19. öld er merki voru skráð, sem valdi því að ekki ætti að viðurkenna einkaeignarrétt manna á landi til fjalls á þessu svæði.
Engir sérstakir sameiginlegir afréttir í eru Kjós samkvæmt almennum skilningi þar sem öll lönd innan Kjósar(sýslu) hafa frá upphafi fylgt ákveðnum jörðum. Hver landeigandi hefur nýtt sitt land til beitar, veiði eða annars og hefur ekki gert nokkurn greinarmun á landi sínu hvort það sé langt frá íbúðarhúsum eða í mikilli hæð o.s.frv. Aðeins er og hefur verið ein tegund lands, einkaeignarland. Samvinna um haustsmölun á ekki að breyta nokkru um eignarréttinn.
Búskapur hefur verið á Ingunnarstöðum frá landnámi til okkar tíma en Landgræðslusjóður hefur fengið ¾ jarðanna tveggja til skógræktar. Hluta jarðanna hefur verið skipt samkæmt landskiptagerð frá 27. sept. 1986 en annað land jarðanna er áfram í óskiptri sameign. Á túninu neðan við bæinn er Huldukonuklettur, sem ekki hefur mátt hrófla við.
Tóftir MúlaBrynjudalur er stuttur, en undirlendið allmikið, enda var búið þar áður fyrr á fjórum bæjum, Ingunnarstöðum, Hrísakoti, þrándarholti og Skorhaga. Um hann rennur Brynjudalsá til sjávar. Skömmu áður en hún fellur í Brynjudalsvoginn er klettahaft þvert á leið hennar. Fram af því steypist áin í tveimur fossum. Sá efri heitir Kliffoss, stundum nefndur  Skorhagafoss, en sá neðri Bárðarfoss eða Brynjudalsfoss. Nú eru þessir fossar ekki nema svipir hjá sjón, því laxastigar hafa verið gerðir framhjá þeim og þar rennur nú áin að hluta. Við Bárðarfoss voru tveir hellar, Bárðarhellir að sunnar en Maríuhellir að norðan. Fossinn og hellirinn eru kenndir við Bárð Snæfellsáss. Í sögu hans segir svo: “Oft sveimaði Bárður um landið og kom víða fram. Var hann svo oftast búinn að hann var í gráum kufli og svarðreip um sig, klafakerlingu í hendi og í fjaðurbrodd langan og digran. Neytti hann og hans jafnan, er hann gekk um jökla. þess er getið að þeir bræður hafi fundist og sæst heilum sáttum, Bárður og Þorkell. Áttu þeir síðan mörg skipti saman og höfðu löngum samvistir saman í Brynjudal í helli þeim er Bárðarhellir er kallaður síðan”.
Báðir þessir hellar voru svo djúpir að menn gátu leitað þar skjóls í hrakviðrum eða nýtt þá sér til gagns á annan hátt, m.a. sem skýli fyrir sauðfé í hríðarveðrum. En fara varð að öllu með gát, því þar þótti óhreint og eru af því nokkrar sögur. Þessa sögu er að finna í þjóðsögum Jóns Árnasonar: “Enn er það sögn um séra Hallgrím (Pétursson) að hann var á heimferð við þriðja mann sunnan yfir Brynjudalsvoga. Af því flóð fór í hönd, tóku þeir það til ráðs að liggja í Bárðarhelli við fossinn, til þess að fjaraði út um nóttina og rynni úr ánni.
Förunautum prests þótti illur fossniðurinn og ýrurnar úr honum inn í hellinn. Annar fylgdarmaður prestBæjarhóll Þorbrandsstaðas lá fremstur og gat ekki sofið, því honum sýndist ófreskja eða óvættur nokkur sækja að þeim og koma inn í hellisdyrnar. Bað hann þá prest að hafa bólaskipti við sig og lét hann eftir. Varð prestur nú var hins sama og förunautar hans. Er þá sagt að séra Hallgrímur hafi kveðið stefjadrápu…. og að ófreskjan hörfaði útúr hellinum við hvert stef, en þokaðist aftur nær á milli uns hún hvarf með öllu”.
Báðir hellarnir eru að mestu horfnir. Eiga þar hlut að máli tennur tímans og ekki síður mannanna verk.
Þrætur hafa verið um eignahald jarða í Brynjudal. Skógræktin hefur teygt anga sína inn í dalinn og síðan viljað gína yfir allt og öllu.  Þann 21. júlí 2005 féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur um rétt Lúthers á Þrándarstöðum til kaupa á jörðinni Þrándarstöðum. Í dómnum eru raktar ýmsar áhugaverðar upplýsingar um Brynjudal og aðkomu Skógræktarinnar.
Með afsali, dags. 9. júlí 1937, eignaðist jarðakaupasjóður ríkisins jörðina Þrándarstaði í Kjósarhreppi, Kjósarsýslu, með jarðarhúsum og öllum gögnum og gæðum, sem jörðinni fylgdu, þó að undanskildum rétti námufélags Hvalfjarðar til málm- og steintegunda. Lúther fékk jörðina byggða til ábúðar og erfðaleigu með byggingarbréfi, útgefnu í landbúnaðarráðuneytinu 14. nóvember 1974. Jörðin er á náttúruminjaskrá, sem er skrá yfir friðlýst svæði og aðrar skráðar náttúruminjar. Í náttúruminjaskrá, 6. útg. 1991, er svæðinu lýst.
BrynjudalurBjörn Árnason, formaður Landgræðslusjóðs, og Kristinn Skæringsson, framkvæmdastjóri sjóðsins, rituðu landbúnaðar-ráðuneytinu bréf, dags. 12. júní 2000, þar sem óskað var eftir því að gerður yrði samningur um skógrækt á því landi Þrándarstaða sem stefnandi myndi ekki nýta til heyskapar. Í bréfinu var vísað til bréfs Landgræðslusjóðs til landbúnaðarráðuneytisins í desember 1998 og bréfs ráðuneytisins til sjóðsins í júlí 1999. Jafnframt var vísað til funda formanns og framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Íslands með landbúnaðarráðuneytinu í febrúar 2000, auk fundar formanns og framkvæmdastjóra Landgræðslusjóðs með ráðuneytinu í maí sama ár. Í bréfinu segir enn fremur að á fundum í landbúnaðarráðuneytinu hafi verið lýst áformum og óskum sem uppi hafi verið innan stjórnar Landgræðslusjóðs, allt frá því 75% hlutur í jörðinni Ingunnarstöðum varð eign sjóðsins á 8. áratugnum. Þau áform gangi út á að gera Brynjudal að miðstöð útivistar og skógræktar í innanverðum Hvalfirði. Hafi sú stefna m.a. verið staðfest með ályktun á aðalfundi Skógræktar Íslands haustið 1997, sem beint hafi verið áfram til sveitarstjórna í Kjósarhreppi og Hvalfjarðarstrandarhreppi. Þá var vitnað til þess að Lúther hefði lýst því yfir að hann hygðist hætta fjárbúskap árið 2000. Vilji hann búa áfram á staðnum, nýta túnin til heyskapar en sækja aðra vinnu utan heimilis og hefði komið fram í viðræðum við hann að hann væri fús til að láta af hendi land úr jörðinni til skógræktar.
Hinn 4. janúar 2001 undirritaði landbúnaðarráðuneytið leigusamning við Landgræðslusjóð til 25 ára um hluta jarðarinnar Þrándarstaða til uppbyggingar skógræktar og útivistarsvæðis með samþykki ábúandans. Í leigusamningnum er um legu, takmörk og stærð hins leigða lands vísað til meðfylgjandi uppdráttar.
Kristínarkot í BrynjudalLúther tilkynnti landbúnaðarráðuneytinu með bréfi, dags. 14. mars 2003, þá ákvörðun sína að nýta sér kauprétt sinn að jörðinni Þrándarstöðum. Í bréfinu segir að stefnandi uppfylli öll skilyrði 1. mgr. 38. gr. jarðalaga nr. 65/1976, þar sem hann hefði haft jörðina til ábúðar lengur en 10 ár og fyrir liggi tilskilin meðmæli frá hreppsnefnd og jarðanefnd.
Landbúnaðarráðuneytið óskaði umsagnar Umhverfisstofnunar og Skógræktar ríkisins um erindi L’uthers um kaup jarðarinnar. Í bréfi Umhverfisstofnunar til ráðuneytisins, dags. 22. ágúst 2003, er vísað til þess að jörðin sé á náttúruminjaskrá. Þá segir að Brynjudalur hafi ótvírætt náttúruverndargildi. Jörðin sé kjarri vaxin og innsti hluti sé án mannvirkja. Nálægð við mesta þéttbýli landsins gefi jörðinni útivistargildi og rætt hafi verið um Brynjudal og Botnsdal sem kjörið svæði fyrir fólkvang. Stofnunin mælti með að jörðin yrði áfram í eigu ríkisins og að hún yrði ekki seld.
Skógræktarstjóri taldi sölu jarðarinnar ekki koma til greina og vísaði til 2. mgr. 38. gr. jarðalaga um að kaupréttur næði ekki til jarða sem þörf væri á til opinberra nota eða væru nýttar til annars en búrekstrar, svo sem fólkvangar, sumarbústaðalönd eða jarðir til annarra útilífsnota. Vísað var til leigusamnings við Landgræðslusjóð frá 4. janúar 2001. Þá sagði að miðað við staðsetningu Brynjudals, sem í sjálfu sér væri alger náttúruperla, yrði dalurinn í framtíðinni mjög mikilvægt útivistarsvæði. Landgræðslusjóður og skógræktarfélögin, sem hefðu hafið skógrækt og skipulagningu svæðisins sem útivistarsvæði, muni eðlilega telja hagsmunum svæðisins betur borgið í opinberri eigu en einkaeign. Árekstrar sem yrðu í framtíðinni við skipulagningu og sölu sumarbústaðalóða, ef landið væri í einkaeigu, væru augljósir.
Ingunnarstaðarétt í BrynjudalMeð bréfi Lúthers, dags. 20. janúar 2004, óskaði hann eftir skriflegum rökstuðningi fyrir ákvörðun landbúnaðarráðu-neytisins með vísan til 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Lúther kvaðst hafa tekið við ábúð á jörðinni af foreldrum sínum í fardögum 1965 og hafi því haft jörðina til ábúðar og nytja til landbúnaðar í 40 ár. Formlega hafi hann fengið jörðina byggða á erfðaleigu frá fardögum 1974, en þá hafi hann haft ábúðina í tæp 10 ár. Hafi hann á ábúðartímanum nýtt jörðina til sauðfjárbúskapar og mjólkurframleiðslu, en hyggist nú friða jörðina fyrir beit búfjár og í framtíðinni stunda skógrækt á jörðinni. Lúther telur að hann uppfylli því skilyrði 1. mgr. 38. gr. jarðalaga um ábúðartíma á jörðinni. Þá hafi hann einnig framvísað til landbúnaðarráðuneytisins tilskilinni staðfestingu um að hann hafi setið jörðina vel, auk meðmæla frá sveitarstjórn og jarðanefnd með því að ríkið selji Lúther jörðina.
Lúther vísar til þess að landbúnaðarráðuneytið hafi, af einhverjum ókunnum ástæðum, leitað umsagnar Skógræktar ríkisins, án þess að heimild væri til þess í lögum. Enn fremur hafi ráðuneytið leitað til Umhverfisstofnunar vegna málsins. Fyrir liggi hins vegar að við undirbúning á töku ákvörðunar í málinu hafi ekki verið leitað til lögbundinna umsagnaraðila samkvæmt 2. mgr. 38. gr. jarðalaga, þ.e. til Bændasamtaka Íslands, áður Búnaðarfélags Íslands, og Náttúruverndarnefndar Kjósarhrepps. Þar með sé ákvörðun landbúnaðarráðuneytisins ekki byggð á umsögnum frá lögbundnum umsagnaraðilum og hafi ráðuneytið því farið á svig við ákvæði jarðalaga við undirbúning ákvörðunar í málinu. Þá verði enn fremur ekki fram hjá því litið að synjun ráðuneytisins sé beinlínis byggð á neikvæðum viðhorfum Skógræktar ríkisins og Umhverfisstofnunar.
Lúther benti á að engin sérstök náttúrufyrirbæri séu innan landamerkja Þrándarstaða sem standi í vegi fyrir sölu jarðarinnar. Á það sé heldur ekki bent af hálfu Umhverfisstofnunar, heldur aðeins staðhæft að rætt hafi verið um Brynjudal og Botnsdal sem kjörið svæði fyrir fólkvang. Ekkert frekar liggi fyrir um stofnun fólkvangs á svæði þessu og sé slík breyting á landnotkun ekki á dagskrá skipulagsyfirvalda eftir því sem næst verði komist.
Brynjudalur kannaðurNiðurstaða dómsmálsins var eins kerfismeðlæg og hugsast gat – Skógræktinni í vil. Síðan hefur svæðinu verið raskað verulega, m.a. með eyðileggingu fornra stíga. Staðreyndin er sú að í Brynjudal eru fjölmargar fornleifar, sem sumar hverjar hafa aldrei verið skráðar. Að leifa nánast óhefta skógrækt á slíku svæði jaðrar við vanrækslu – a.m.k. gáleysi hlutaðeigandi yfirvalda.
Leiðsögumaður í þessari FERLIRsferð var Lúther Ástvaldsson, en svo skemmtilega vildi til að faðir hans var bróðir ömmu eins þátttakandans, bæði fædd á Þorbjarnarstöðum í Hraunum.
Byrjað var á því að huga að framangreindum hellum í botni Brynjudalsvogar. Lúther sagði hellana hafa verið undir Reynivöllum á 15. öld. Þá hefði þar verið aðstaða fyrir 50 sauði. Í dag er Bárðarhellir fallinn og Maríuhellir (Maríukirkja var að Reynivöllum) er nú einungis slútningur rétt neðan við fossinn (Sjávarfoss/Bárðarfoss). Engin ummerki eru þar nú eftir menn.
Á túni sunnan við Ingunnarstaði benti Lúther ferðalöngum á mannvistarleifar, líklega lítið hús. Vildi hann meina að þar gætu Stykkisvellir hafa verið. Hann átti eftir að breyta afstöðu sinni síðar í ferðinni. Þessi fornleift er órannsökuð og óskráð í dalnum, eins og flest annað, sem þar er.
Ofar með Brynjudalsá að sunnanverðu eru fjárhúsin fremri, frá Hrísakoti, auk fleiri tófta. Þar gæti hafa verið sel fyrrum og fjárhús hafa verið byggð upp úr því seint á 19. öld. Tóftirnar vestan og austan við fjárhúsin benda til eldri mannvirkja.
Hestasteinn við IngunnarstaðiNokkru ofar er Vörðuklettur (landamerki). Varða er þar á klapparholti, skammt frá gamalli leið. Enn ofar, í Kerlingardal, eru nokkur mannvirki á grónu svæði. Fyrst ber að telja fjárhús líku því sem neðar er. Lúther sagði þetta vera fjárhúsin efri, frá Ingunnarstöðum. Þegar faðir hans eignaðist báðar jarðirnar, Ingunnarstaði og Hrísakot, hefði hann nýtt neðra fjárhúsið, enda nær bæjum. Af ummerkjum að dæma virðist þessi fjárhústóft geta verið frá sama tíma og hin. Utan í henni vestanverði er hlaðinn sauðakofi. Vel sést móta fyrir hleðslum í báðum fjárhústóftunum.
Örskammt suðaustan við efra fjárhúsið er fornt sel. Enn sést móta fyrir litlum húsum og stekkur er undir klettabrún skammt norðaustar. Suðaustan við tóftirnar er fjárskjól eða rúmgóður hellisskúti. Hlaðið er fyrir munnann. Áin er fast neðan við hleðslurnar. Sennilega eru tóftirnar tilkomnar þarna vegna skútans. Forn garðhleðsla virðist skammt norðan við tætturnar. Þrátt fyrir að því hafi verið haldið fram að Þórunnarsel hafi verið á Selflötum sunnan árinnar verður að telja líklegast að hér sé það komið. Jarðabókin 1703 nefnir ekki Selflatir, einungis tilvist þess.
Haldið var yfir ána á ís. Á Selflötum eru tóftir sels, tvö stór rými og gróið í kring. Líklega hafa tóftirnar verið gerðar upp úr eldra seli. Þær virðast vera á flötum “bæjarhól”. Auk þess má sjá jarðlægar tóftir skammt suðaustan við þær. Engir garðar eða önnur mannvirki er þarna að sjá. Tóftirnar eru reglulegar með dyr mót suðri. Flest bendir til þess að þarna geti verið um mun nýrra sel að ræða en því sem lýst er í Jarðabókinni. Auk þess má telja ólíklegt að það hafi byggst upp úr bæ, eða bær verið þar áður. Það gæti hins vegar verið í selstöðunni, sem áður var lýst norðan árinnar. Hér gæti hins vegar verið um selstöðu frá Þrándarstöðum að ræða, en hún á að hafa verið í heimalandi. Sú selstaða gæti hafa verið í Seldal, vestar í norðanverðum Brynjudal, gegn Skorhaga, en Hrískot haft þarna í seli.
Laugin í Laugalæk - í dagGengið var til vesturs sunnan Brynjudalsár, niður á Stykkisvelli (Gulllandsvelli). Eftir nokkra leit fannst rústin, sem þar átti að hafa verið. Lúther sagði þá félaga Kristján og Þórhall dvalið þarna dagspart og væntanlega tekið holu í rústina. Ekki vissi hann hvað hefði komið út úr því. Hins vegar má sjá, að því er virðist, forna skálatóft á þessum stað, jafnvel tvær. Stærð annarrar er 14×6 metrar á breidd (miðað við utanvert). Dyr eru mót suðri. Tóftin uppfyllir öll skilyrði þess að í hana verði grafið með það fyrir augum að kanna aldur hennar, ekki síst þegar höfð er hliðsjón af framangreindum heimildum.
Í örnefnalýsingum er fjallað um Gullásvelli, sem líka voru nefndir Stykkisvellir. “Á þeim eru gamlar tættur, sem báru merki um að þar hefði verið byggð til forna.”

Lúther sýndi þátttakendum tóftir Kristínarkots, austan Ingunnarstaða, Kvíabólið og loks gamla kirkjugarðinn við bæinn. Austurhluti kirkjugarðsveggjarins sést enn. Hins vegar var keyrð grús í garðinn þegar bílastæðið við bæinn var stækkað. Garðurinn er að hluta til undir bílastæðinu og í lægra landi sunnan þess. Garðdraugurinn (kona) hefur stundum látið á sér kræla á Ingunnarstöðum.
Þá var haldið að hinu forna býli Múla, sem nefnt er hér að framan. Þar virðast vera tóftir tveggja skála, nákvæmlega jafn stóra og á Stykkisvöllum. Síðan gekk Lúther að þúst í túni, staðnæmdist á henni og sagði hana vera dys Refs; Refsleiði.
Loks var heimatúnið við Þrándarstaði skoðað svo og gamli bæjarhóllinn. Lúther lýsti einstökum tóftum í annars sléttuðu túninu; gömlu útihúsi, hesthúsi, bæjarstæði og ekki síst bæjarhólnum, sem hýst hefur Þorbrandsstaði til forna.
Brynjudalur er bæði einstaklega áhugavert minjasvæði út frá sögulegum forsendum og jafnframt áminning um það sem verða vill – ef yfirlýst skógræktarsjónarmið ná óbreytt fram að ganga.
Frábært veður. Gangan tók 5 kls. og 5 mín.

Heimildir m.a.:
-Harðar saga Hólmverja.
-Hafsteinn Lúthersson – Hrísakoti.
-Magnús Grimsson – Ferðabók fyrir sumarið 1848 – Lýsing Kjósarsýslu… bls. 45-51 (1988).
-Lúther Ástvaldsson – Þrándarstöðum.
-Guðrún Björnsdóttir – Ingunnarstöðum.
-Í Kjósinni, Þættir um nágrenni Reykjavíkur, Árbók Ferðafélags Íslands 1985, bls. 191.
-Finn Magnusson, Runamo og Runerne, Köb. 1845, bls. 186.
-Landnáma (Sturlubók) 8. kafli, 14. kafli og 46. kafli
-Örnefnalýsingar fyrir Skorhaga, Ingunnarstaði, Þrándarstaði og Hrísakot.

Í Brynjudal