Í Árbók Suðurnesja 1986-1987 er grein eftir Kristinn Arnar Guðjónsson sem nefnist “Áhrif landbrots og sandfoks á byggð á Suðurnesjum 1686-1947”.
Í greininni er m.a. kafli um skilgreiningu á hugtakinu “Suðurnes”: “Í texta, kortum og töflum hér eftir er Suðurnes notað sem samheiti fjögurra hreppa: Hafna-, Rosmhvalaness- og Vatnsleysustrandar-hrepps.
Kristján Eldjárn (Árbók Ferðafélags Íslands 1977) gerði grein fyrir takmörkum nafnsins og telur að í fyrstu hafi það verið bundið Miðnesi (svæðinu frá Hvalsnesi til Garðsskaga) en um miðja 19. öld er farið að nota Suðurnes í víðtækari merkingu, þeirri sömu og nú er algengust; Rosmhvalanes að viðbættum Höfnum. Í yfirgripsmestu merkingu, segir Kristján, er nafnið Suðurnes látið ná yfir allan Reykjanesskagann frá Hvaleyrarholti að Selatöngum.
Skúli Magnússon segir um nafnið Suðurnes: “Í daglegu tali, aðallega með tilliti til fiskveiðanna, er Býjaskersþingsókn kölluð Suðurnes, en fremur hún og Járn-gerðarstaðaþingsókn Útver (Lýsing Gullbringu- og Kjósarsýslu).” Býjaskersþing-sókn tekur yfir Hvalsnessókn og Útskálasókn og samsvarar því hinum gamla Rosmhvalanes-hreppi.
Sigurður B. Sívertssen segir árið 1841: “Úr fjarlægum plássum eru þessar sóknir kallaðar Suðurnes, til aðgreiningar við Innnes, nl. Seltjarnar- og Álftanes. Eiginlega heitir samt ekki annað Suðurnes en Hvalsnessókn, allt frá því nesinu fer að veita til suðurs frá fyrr nefndum Skaga, sem vestast liggur af landinu (Lýsing Útskálaprestakalla 1839).”
Jón Thorarensen telur Suðurnesjaheitið hafa þá merkingu sem Kristján segir yfirgripsmesta. Jón segir m.a.: “Hin ævaforna skipting milli Innnesja og Suðurnesja, sem var skýrt ákveðin alla tíð var þessi: Innnes – frá Elliðaám að Hvaleyrarholti fyrir sunnan Hafnarfjörð. Suðurnes – frá Hvaleyrarholti, að Selatöngum austan við Grindavík. [Hér er Jón greinilega að heimfæra Útnesin upp á Suðurnes].
Ef litið er á samtímaheimildir kemur í ljós að notkun heitisins Suðurnes er enn nokkuð á reiki. Í bókinni Suðurnes, náttúrufar, minjar og landnýting (1986) afmarkast Suðurnes af strandlínunni að norðan og vestan, en að sunnan af línu dreginni frá Hvaleyrarholti í gegnum Hvaleyrarvatn, Helgafell, Trölladyngju, Keili, Stapafell og Hafnir. Í riti Byggðastofnunnar (Byggð og atvinnulíf 1985) er heitið Suðurnes látið ná yfir öll sveitarfélög á Reykjanesskaga, að Hafnarfirði og Kópavogi undanskildum.”
Heimild m.a.:
-Árbók Suðurnesja 1986-1987, bls.39-42.