Færslur

Grindavík

“Þessi mynd er tekin þar sem nú er innsiglingin í Grindavíkurhöfn.
Því myndu fáir trúa að nú sigla þarna um 2000 lesta skip. Grindavik-os-1Myndin er tekin árið 1939 af Einari Einarssyni og sýnir hvernig byrjað var að grafa rennuna inn í Hópið. Um þetta segir Tómas Þorvaldsson á þessa leið í Sveitastjórnarmálum: „Sumarið 1939 var verið að vinna fyrir fjárveitingu, sem fékkst til lendingarbóta á Járngerðarstaðavík. Verkið varð dýrara en ætlað var, og m.a. kom þar til svokallað sexauramál, sem var vísitöluuppbót á kaup. Yfirverkstjórinn var úr Reykjavík, en honum til aðstoðar var faðir minn, Þorvaldur Klemensson, og kom það stundum í hans hlut að fara með flokkinn til vinnu. Dag einn, þegar verkstjórinn var forfallaður, fór flokkurinn á stórstraumsfjöru með þau verkfæri, sem menn höfðu í höndum, og byrjuðu að grafa í kambinn. Grafið var, þar sem malarkamburinn milli Hópsins og sjávar var lægstur, og hét þar Barnaós. Verkfærin voru haki og skófla, og öllu efni, sem upp kom, var ekið á hjólbörum eftir sliskjum upp á kambinn. Undir malarkambinum var moldarbakki, og unnu þá tveir menn með sömu skóflunni, með þeim hætti, að annar stakk, en hinn dró upp með bandi, sem fest var niður við skóflublaðið. Þá var notuð spiss-skófla með löngu skafti. Eftir sumarið gátu bátarnir flotið inn um hálffallinn sjó, og varð þá úr sögunni hin erfiða setning bátanna upp í naustin, því að þeir fóru að lokinni affermingu inn í Hópið og lágu þar inni til næsta róðurs.” — Af hverju stafaði nafnið Barnaós? „Sagan hermir, að á 17. öld hafi bændur í Járngerðarstaðahverfi grafið þarna inn rennu fyrir lausakaupmenn.

grindavik-os-3Árið 1702 er sagt, að maður nokkur hafi farið með tvö börn til þangskurðar á svæði, sem lá milli tveggja útfallanna, vestri og eystri óss. Þegar flæddi, lokuðust þau inni, börnin drukknuðu, en maðurinn bjargaðist á hripi. Sagan segir, að upp úr þessu hafi verið gerð fyrirhleðsla við annan ósinn, og víst er um það, að þegar við grófum þarna á árinu 1939, komum við niður á hlaðinn vegg, sem tók manni í mitt læri. Bendir það til, að saga þessi sé sönn. Einnig mun fé hafa flætt þarna.
Grandinn mun hafa verið gömul kirkjuleið úr Þórkötlustaðahverfi út í Staðarhverfi, þar sem var kirkja til ársins 1909.”

Heimild:
-Sjómannadagsblaðið, 39. árg. 1976, 11. tbl. bls. 11.

Grindavík

Grindavík.