Í Vísindavef Háskóla Íslands er fjallað um örnefnið „Írafell„:
„Írafell er þekkt á nokkrum stöðum á Íslandi, meðal annars í Kjós þar sem bæði fell og bær bera þetta nafn. Bærinn er þekktur í rituðum heimildum allt frá 16. öld en nafn hans kemur fyrst fyrir í fógetareikningum frá 1547-1548 (Íslenskt fornbréfasafn XII:107 og víðar).
Í 18. aldar heimildum er getið um Írafell á Reykjanesi í Gullbringusýslu en það er ekki þekkt nú. Auk þess eru nefnd þrjú Írafell á Snæfellsnesi: eitt á Hellisvöllum (Hellnum) í Breiðuvíkurhreppi (nú slétt flöt, samkvæmt örnefnalýsingu), annað í Helgafellssveit og það þriðja suðvestur af Drápuhlíðarfjalli.
Í Skagafirði er bær sem oft er nefndur Írafell en samkvæmt Landnámabók og fleiri heimildum er upphaflega nafn hans Ýrarfell (Byggðasaga Skagafjarðar III (2004), bls. 410 og áfram).
Ekki er vitað hve gamalt bæjarnafnið Írafell í Kjós er né heldur hvort það er kennt við þá Íra sem taldir eru hafa verið hér við upphaf landnáms eða Íra sem hingað komu í verslunarerindum á 15. öld. Hermann Pálsson fjallaði um Íra-örnefni í grein í Skírni 1953 (bls. 105-111) en hann ræðir ekki Írafell sérstaklega.
Helgi Guðmundsson fjallar um örnefni kennd við Íra, Breta og Pétta í bók sinni, Um haf innan (1997, bls. 198-199). Þar nefnir hann meðal annars að á Katanesi í Skotlandi sé fjall með keltnesku nafni, Cnoc an Eireannaich, sem merki ‘Írafell’, en hann telur annars óvíst hvernig eigi að túlka örnefni þau á Íslandi sem kennd séu við erlendar þjóðir.
Péttar (e. Picts) voru þjóðflokkur, sem var ef til vill ekki keltneskur að uppruna en bjó á Bretlandseyjum og átti í sífelldum útistöðum við Rómverja. Á níundu öld eða svo runnu þeir saman við Skota.“
„Írafells-móra“ er getið í þjóðsögum Jóns Árnasonar sbr.:
„Kort hét maður og var Þorvarðarson (1760 – 1821), bróðir séra Odds á Reynivöllum (1786-1804); hann var nefndarmaður og gildur bóndi; hann bjó lengst á Möðruvöllum í Kjós, en fluttist síðast að Flekkudal og dó þar. Kort var tvíkvæntur; hét fyrri kona hans Ingibjörg, en hin síðari Þórdís Jónsdóttir.
Ingibjörg var ættuð að norðan. Margir höfðu orðið til að biðja hennar áður en Kort, en hún synjaði öllum. Fyrri biðlarnir þóttust því sárt leiknir, er Kort fékk hennar, enn þótt hann væri þeim flestum fremri um marga hluti. Þeim svall svo þetta um hjarta, að þeir keyptu af galdramanni nyrðra að senda Kort og konu hans sendingu.
Galdramaður valdi til þess drenghnokka einn, er sagan segir, að hafi orðið úti milli bæja; en galdramaðurinn vakti hann upp volgan eða ekki með öllu dauðan og sendi hann þeim Kort á Möðruvöllum og mælti svo um, að draugurinn skyldi fylgja þeim hjónum og niðjum þeirra í níunda lið og vinna þeim margt til meins.
Þeir menn, sem hafa séð Móra, og þeir eru ekki fáir, hafa lýst honum svo, að hann sé í grárri brók að neðan og mórauðri úlpu fyrir bolfat, með svartan hatt barðastóran á hausnum, og er skarð eða geil stór inn í barðið upp undan vinstra auga. Af úlpunni dregur hann nafn, og því er hann Móri kallaður. Ummæli galdramannsins þykja hafa rætst helst of vel, því þegar Móri kom suður, lagðist hann að á Möðruvöllum, sem ætlað var, og gjörði þeim hjónum margar skráveifur með ýmsu móti, bæði í fénaðardrápi og matskemmdum. En engin eru dæmi til þess, að Móri hafi beinlínis drepið menn, hvorki fyrr né síðar.
Með því Móri ekki átti að hafa verið með öllu dauður, er hann var vakinn upp, þurfti hann, eins og allir slíkir draugar, mat sinn fullan. Varð því að skammta honum ekki síður en hverjum heimilismanni, bæði á Möðruvöllum og eins eftir það hann fór að leggjast að á Írafelli og fylgja Magnúsi Kortssyni, og var maturinn, sem honum var ætlaður, ávallt settur á afvikinn stað.
Þessu hafði Móri áorkað með því, að hann húðskemmdi allt í búrinu á Möðruvöllum fyrir Ingibjörgu; sat hann þar stundum uppi á búrbitunum og gutlaði í mjólkurtrogunum með löppunum eða steypti þeim niður, sletti skyri, bæði á hana sjálfa og upp um alla rafta, eða fleygði torfi og grjóti ofan í matinn, hvar sem stóð, og spillti honum með því. Af þessu tók Ingibjörg það til ráðs, að hún fór að skammta honum fullnaðarmat í bæði mál; við það lét hann mikið af matskemmdum.
Einhverju sinni bar þó svo við að gleymst hafði að skammta Móra að kvöldi dags. En um morguninn, er komið var í búrið, sáu menn, hvar hann sat, og hafði sína löppina niðri í hvorri skyrtunnu, en húkti á báðum tunnubörmunum; gjörði hann þá bæði að gutla í skyrinu með löppunum og sletta því með krumlunum. Eftir það var varast að gleyma að skammta honum.
En það var ekki maturinn einn, sem Móri þurfti; hann þóttist líka þurfa að hvílast eins og hver annar, og því er sagt, að eftir að hann fór að fylgja Magnúsi Kortssyni á Írafelli, hafi hann jafnan orðið að láta rúmflet standa autt handa honum gegnt rúmi sínu, og dugði engum öðrum en Móra að liggja í því.
Það var eitt sinn um réttaleytið, að margt fólk var komið að Írafelli og hafði fengið þar næturgisting. Seinna um kvöldið kom þangað drengur einn og beiddist húsa. Magnús kvað honum húsin heimil, en hvergi gæti hann lofað honum að liggja nema á gólfinu eða ef hann vildi annars kostar liggja í fletinu á móti rúminu sínu, og það þáði drengur með þökkum.
Þegar hann leggst fyrir um kvöldið, sofnar hann brátt; en þegar hann er nýsofnaður, fer óttalega upp á hann, svo að korrar í honum. Hrekkur hann svo upp og getur ekki sofnað væran blund alla nóttina fyrir einhverri ásókn.
Daginn eftir var vont veður, svo gestirnir komust ekki í burtu og voru svo á Írafelli nóttina eftir. En um kvöldið tóku drengir nokkrir sig til, sem áttu heima á Írafelli og þekktu Móra og höfðu oft verið í skítkasti við hann, og festu hnífa allt í kring um rúmfletið, svo oddarnir stóðu alls staðar upp af stokknum. Þá nótt svaf drengurinn vært, og þökkuðu menn það því, að Móri hefði ekki vogað að honum fyrir hnífsoddunum.“
Heimildir:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=4846
-https://www.snerpa.is/net/thjod/irafell.htm (Íslenskar þjóðsögur og ævintýri, Jón Árnason, bls. 364-365).