Færslur

Vogsósar
Eftirfarandi erindi, stytt, var flutt um íslenska fyndni á árshátíð sagnfræðinema, íslenskunema og bókmenntafræðinema við Háskóla Íslands í Þórshöll 27. febrúar 1998.

Vogsósar

Vogsósar – Eggertssteinn.

“Oft hefur því verið haldið fram að hláturinn lengi lífið og vísindamenn jafnvel þóst hafa fært sönnur á það. En verður ekki að efast um sannleiksgildi slíkrar kenningar? Íslendingar urðu til skamms tíma allra karla og kerlinga elstir þótt heldur lítið hafi farið fyrir þróaðri fyndni meðal þjóðarinnar í tímans rás. Kannski á þetta sér sögulegar rætur? Einn fremsti húmoristi Íslendinga á seinni áratugum, Helgi Sæmundsson skáld og blaðamaður, varpaði fram eftirfarandi tilgátu á sjöunda áratug 20. aldar:
… íslensk lífsbarátta var löngum svo ströng og miskunnarlaus að alvaran ein festi rætur. Ríkisbændur fyrri alda voru svo önnum kafnir að afla fanga úr sjó og landi að þeim stökk naumast bros. Fátæklingarnir drúptu höfði í nábýlinu við dauðann og djöfulinn. Jarðneskur veruleiki var Íslendingum linnulaust strit myrkranna milli og prestarnir sáu svo um að heimvonin hinum megin væri ekki á marga fiska. Þeir hræddu safnaðarbörnin með eldi og brennisteini sérhvern helgidag, básúnuðu syndina en gleymdu náðinni.
Kannski hvílir skuggi fortíðarinnar og örlög feðranna enn yfir þjóðinni?
Áratugum saman, frá 1933–1961, gaf Gunnar lögfræðingur Sigurðsson frá Selalæk út samnefnt kver með íslenskri fyndni sem hann safnaði sjálfur og skráði, nánast eitt hefti á ári. Taldi hann að Íslendingar ættu að eiga slíkar sagnir í sérstökum ritum, enda almennt viðurkennt að mikið mætti meta andlegan þroska hverrar þjóðar eftir því á hvaða stigi hún stæði á þessu sviði.
Hjá þeim bæri meira á meinfyndni (satire) og kaldhæðni (kynisme) en kímni (humor) eða gamansemi, heldur en með flestum öðrum þjóðum.

Vogsósar

Vogsósar – Eggertssteinn.

Þetta einkenni taldi hann liggja í eðli þjóðarinnar og rakti það allt til upphafs byggðar á Íslandi og vísaði í fornsögur máli sínu til stuðnings. Sennilegt væri og að þetta stafaði einnig nokkuð af því að í landi kunningsskaparins hefði nánast hver þekkt annan. Taldi hann að það hefði einkennt Íslendinga frá því sögur fóru fyrst af, að þeir hefðu allra þjóða verst þolað að fyndni og háðsyrðum væri beitt við þá.
Skop er spegill og getur lesandinn oft á tíðum fundið í því vísbendingar um fordóma, viðhorf til trúar, annarra þjóða, kynlífs, drykkjuskapar, hjónabandsins, kynnst héraðaríg og þar fram eftir götunum. Fyrst og fremst eru það þó gamansögur af einstaklingum sem einkenna ritin enda vissu Íslendingar löngum glögg deili á fjölmörgum löndum sínum.
Þessi saga er ágætt dæmi um kímni Íslendinga: “Hjón austur í sveitum vildu skíra barn sitt í höfuðið á prestfrúnni. Það var sveinbarn og skyldi heita Hákon, – „af því prestfrúin er há kona“.
Önnur saga segir frá sr. Eggerti Sigfússyni í Vogsósum er hafði um eitt skeið ráðskonu, en ekki hélst honum lengi á henni því að hann hafði allt á hornum sér við hana. Eitt sinn er hún bar á borð fyrir hann sagði prestur: „Þér vitið ég vil ekki fisk. – Svið komið þér aldrei með. – Lundabagginn er of feitur, blóðmörinn of magur. – Af brauðinu fæ ég brjóstsviða. – Skyrinu og grautnum skelf ég af, – og matarlaus má ég fara.“
Enn ein:
Guðjón bóndi var að flá kú. Hún var föst í skinninu og húðin þykk enda sóttist verkið seint. Loks andvarpar Guðjón: „Að menn skuli geta kallað þetta skinnlausar skepnur.“
Ein stutt til viðbótar:
Ung skáldhneigð og draumóragjörn kaupstaðarstúlka var að tala við sveitabónda um sumarkvöld.

Vogsósar

Vogsósar – Eggertssteinn.

„Þér hljótið að þekkja andlit náttúrunnar í öllum myndum,“ segir stúlkan. „Hafið þér ekki séð sólina ganga undir í logandi eldflóði eins og væri að kvikna í öllum heiminum? Hafið þér aldrei séð mánann eins og dauðhræddan flóttamann vera á fleygiferð undan dimmum og drungalegum regnskýjunum? Og hafið þér aldrei séð þokuna læðast niður fjallahlíðarnar, eins og þúsundir af vofum sem allar böðuðu út höndunum?“
Þá greip bóndinn fram í, kinkaði kolli og segir: „Jú, mig rámar nú í þetta, en það er svo langt síðan ég hætti að drekka, stúlka mín.“
Framangreindur sr. Eggert Sigfússon þjónaði Selvogi og Krýsuvík og bjó á Vogsósum. Margar sagnir eru til af tilsvörum hans. M.a. flokkaði hann sóknarbörn sín í skúma og lóma. Í bókinni “Austan tórur” eftir Jón Pálsson eru lýsingar Eggerts á daglegum störfum og messuhaldi í Strandarkirkju á hans tíma.
Sagt er að Eggert hafi jafnan sent sendil á Eyrabakka, sem var aðalverslunarstaðurinn á svæðinu í þá daga, til að kaupa kringlur. Átti sendillinn að kaupa jafn margar kringlur og dagarnir voru í mánuðinum. Síðan borðaði sr. Eggert eina kringlu á dag svo birgðirnar entust út mánuðinn. Sr. Eggert þótti sérkennilegur í háttum, en ljóngáfaður. Hann var yfirleitt vel liðin af sóknarbörnum hans. Hreppstjórinn í Selvogi, sem þar var rétt fyrir aldamótin 1900, Olgeir Þorsteinsson, sem síðar fluttist til Hafnarfjarðar, fékk sr. Eggert til að rita fundargerðir hreppsnefndar og eru þær enn til.
Í túninu á Vogsósum í Selvogi stendur lítt áberandi steinn. Við hann lést sr. Eggert Sigfússon í Vogsósum árið 1908 er hann var á leið heim til sín yfir ósinn vestan Vogsósa frá messu í Krýsuvíkurkirkju. Steinninn minnir á þrákelkni klerksins – en jafnframt virðingu afkomendanna fyrir forfeðrunum því steinninn hefur verið látinn óhreyfður þrátt fyrir að vera til trafala í túninu við sláttinn.

Heimild:
-Eggert Þór Bernharðsson.
-http://www.hi.is/~eggthor/fyndniarshatid.htm
-Þórarinn Snorrason á Vogsósum.