Færslur

Bær
Svíinn Carl Wilhelm Paijkull, steinafræðingur, ferðaðist hér víða um land á árinu 1865, og gaf út ferðasögu sína: “En sommer på Island”. Kemur höfundur víða við, og munu sumar lýsingar hans þykja í hispurslausara lagi. Fer hér á eftir lýsing hans á íslenska torfbænum:

Torfbær

Torfbær í Reykjavík á 18. öld.

“Hið fyrsta, sem vekur athygli ferðamannsins, þegar hann fer að kynna sér landið, er íslenski bóndabærinn. Hann er ýmist byggður úr torfi einu saman eða torfi og grjóti. Á sumrin, þegar þak og veggir er orðið grænt, er erfitt að greina bæinn frá umhverfinu. Híbýli fátækasta fólksins er nánast jarðhús, þótt raunar séu reist ofan jarðar. Ég kom t.d. einu sinni að bæ í nágrenni Reykjavíkur, sem gerður var úr venjulegu efni, en aðeins eitt herbergi, myrkt og lágt.

Eldhús

Hlóðareldhús – Gaimard.

Voru þar í öðrum enda tvö rúmstæði, en ferhyrnt borð á milli. Í hinum endanum var geymsla og vinnustofa. Þar hafði verið hlaðið eða fleygt frá sér ull, fjallagrösum og ýmsu fleira. En á miðjum vegg gegnt dyrum var eldstæðið, hlóðir úr lágum hellum. Ekki var trégólf í húsi þessu og ekki heldur loft, nema ef telja skyldi sperrurnar, sem halda uppi torfþekjunni. Birtan kom inn um tvo ljóra á þakinu, og húsið var svo lágt, að bjálkarnir undir sperrunum náðu mér á að giska í geirvörtu. Það liggur í hlutarins eðli, að allt er svart, sótugt og sóðalegt í slíkum bæ, enda verður ekki með orðum lýst, hvernig þarna var umhorfs.”

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir í Hraunum – tilgáta.