Færslur

Ísólfsskáli

Tvær örnefnalýsingar eru til af Ísólfsskála, auk tveggja spurningalista er fylgdu í kjölfarið. Fyrri lýsingin er höfð eftir Guðmundi Guðmundssyni, bónda á Ísólfsskála og hin síðari af Lofti Jónssyni frá Þórkötlustaðahverfi í Grindavík. Báðar athugasemdirnar við lýsingarnar eru skráðar eftir Ísólfi Guðmundssyni, bónda á Ísólfsskála árið 1982:

Guðmundur GuðmundssonÍsólfsskáli; örnefni – Ari Gíslason skráði eftir Guðmundir Guðmundssyni.
“Ísólfsskáli er næst austasta jörð í Grindavíkurhreppi og sú austasta, sem er í byggð 1954. Bærinn stendur niður við sjó, sunnan við allháa hæð, sem heitir Slaga.

Verður fyrst byrjað með sjó austast og haldið vestur eftir. Nokkuð fyrir austan bæinn á Ísólfsskála, sem svarar klukkutíma gang, gengur tangi fram í sjóinn. Hann heitir Selatangar (1). Þar eru merkin móti Krýsuvík í klett, sem heitir Dagon (2). Áður voru þeir tveir, og deildu menn um, hver væri sá rétti. Nú er annar hruninn og óþekkjanlegur. En þrætueplið var ekki stærra en það, að hvalur gat rétt fest sig þar. Á Selatöngum sjást byrgi og búðatættur, eldhús og önnur mannvirki, enda var þarna allmikil útgerð fyrir eina tíð, en lagðist fyrst niður um tíma eftir Básendaflóðið 1799, og svo að fullu og öllu milli 1880 og 1890.

Dágon

Dágon á Selatöngum.

Hraunið hér upp af og heim undir tún heitir Ögmundarhraun (3) . Er það mikill hluti hrauns þess, sem sagt var frá við Krýsuvík. Um það liggja margir troðningar, en hraun þetta er mjög úfið. Má þar víða sjá hófaförin mörkuð í klappirnar. En merkin móti Krýsuvík eru úr Dagon upp í austanverðan Núpshlíðarháls.

Vestur af Dagon er sandur með sjó fram og melhóll er þar, sem nefndur er Hóll (4),

Nótarhellir

Nótarhellir.

Þá er að geta Nótarhellis (5), sem er vestast á Selatöngum. Þar innar tekur svo við svæði, sem nefnt er Katlahraun (6). Er það fullkomið réttnefni á landssvæði þessu, sem allt er fullt af kötlum og hraunbollum, djúpum með grasi í botni. Milli þeirra eru háir drangar, en gjóturnar djúpar á milli.

Mölvík

Mölvík.

Vestar er svo vik inn í landið, sem heitir Mölvík (7). Vík þessi er með möl í botni. Þá tekur við berg með sjó, sem heitir ekki sérstakt, það er 1-2 mannhæðir, en svo ganga inn í það vik, básar og víkur. Þar vestar er svo Vondanef (8), og vestur og fram af því er Veiðibjöllunef (9). Þar hækkar hraunið og breytir um svip. Austar er það lágt og nokkuð sandborið. Þar vestar er bás, sem heitir Heimastibás (10). Hraun er þar vestur með, þar til kemur nafnlaus bás, svo er Rangagjögur (11). Austur og upp af honum er hóll, sem heitir Hattur (12). Enn vestar er hraun fram á kamb. Þar vestar er hraun fram á kamb. Þar vestar er vík, sem heitir Hattvík (13). Vestan við Hattvík tekur við skerjagarður, sem brýtur á um flóð, og heitir hann Trantar (14). Þar vestur af er sker, sem heitir Gvendarsker (15). Milli Tranta og Gvendarskers er mjó vör, sem breikkar þegar inn kemur, og heitir hún Gvendarvör (16).

Nótarhóll

Nótarhóll – byrgi.

Upp af Gvendarvör er hóll, sem heitir Nótarhóll (17), og miðið á vörina er, að austurhorn Gvendarskers á að jaðra við Nótarhólinn, þar til vörin opnast inn og hægt er að slá undan. Á Nótarhól var byrgi. Fram af Nótarhól var annar hóll með sama nafni. En hann er nú horfinn í sjó.

Lambastapi

Lambastapi.

Niður undan túninu er legan og ströndin kölluð Bót (18). En hæð vestur af túni með hömrum í hlíðum en grasi á kolli heitir Bjalli (19). Efst á Bjallanum er nú komið tún. Annars myndar Bjallinn klettahrygg norðan túns og að nokkru að austan. Þetta er mjög gamalt hraun. Þar vestur af er berg og allhár hnúkur, Lambastapi (20). Þar neðar er svo vík, sem heitir Lambastapavík (21). Þar er smáreki.

 

Festarfjall

Festi – Festarfjall. 

Á Selatöngum var sundmerkið þannig, að Dagon átti að bera í Litlabólið í Núpshlíð. Vestur af Lambastapa er berg og ekki undirlendi. Undir því bergi er nefnt Skálasandur (22). Vestar er stuðlabergsgangur, sem heitir Festi (23). Þaðan á Þórir haustmyrkur að hafa numið land austur í Selvog, og nú eru hér merki móti Hrauni.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli 1915-1930; Sæmundur G. Guðmundsson. Gamli bærinn neðst t.h.

Nú tökum við aðra umferð og byrjum enn austan frá. Upp af Selatöngum er hraunið nafna- og auðkennalítið, frekar jafnlent, þó ekki sé það slétt. Merkin eru hér línan úr Dagon í Trölladyngjurætur að vestanverðu, en Trölladyngja er útbrunnið eld-fjall. Hraun á ekki svo langt til norðurs. Núpshlíðarháls (24), sem reyndar vafi er, hvort Hraun á í. Hlíðin sunnan í hálsinum heitir Núpshlíð (25). Þar uppi er hið forna Vigdísarvallaland. Á móti þar austast er fjallshlíðin nefnd Skalli, og er það í Vigdísarvallalandi.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – Krýsuvíkur-Mælifell fjær.

Vestur af því er smárauf nefnd Litlaból (26), lítið fjárból, er blasir vel við frá Selatöngum, enda innsiglingamið þar á leguna. Þar upp af er lægðin nefnd Dalur (27) og upp, og ofan eða austanvert við há-Núpshlíð heitir Langagörn (28). Hún liggur meðfram dalnum alla leið að Vigdísarvöllum, breytir þar um útlit og nefnist innst Litli-Hamradalur. Vel má vera, að öll Langagörn sé í Krýsuvíkurlandi, en ég set hana hér, því annars glatast hún. Vestar og hærra en Litlabót er Stórabót (29). Það er móhella. Þar austur og upp af er Skálagörn (30), skora, er liggur til norðurs. Þar er vinkilbeygja á gamla veginum.

Grákvíguhraun

Grákvíguhraun.

Vestan við Núpshlíð er hraunspilda, sem heitir Grákvíguhraun (3l) og nær vestur að allmikilli hæð, sem nefnd er Höfði (32). Við suðurenda hans er vegurinn allknappur og heitir þar Méltunnuklif (33). Er sagt, að þar hafi eitt sinn farið méltunna af hesti og niður fyrir.

Fram af Núpshlíð eru tveir hólar nefndir Moshólar (34), og vestan þeirra er eins og fyrr segir Grákvíguhraunið. Höfðinn fyrrnefndi nær svo, með mismunandi nöfnum, fram í Bjallan fyrir ofan bæinn á Skála. Suður af Méltunnuklifinu er Skála-Mælifell (35), ekki mikið um sig, en nokkuð hátt. Sunnan þess er svo hraunið fyrrnefnda, en vestan þess er djúpt skarð, sem heitir Mælifellsskarð (36). Vestan þess tekur svo við fjall allmikið, sem heitir Slaga (37).

Méltunnuklif

Méltunnuklif.

Rétt innan við bæinn skagar klapparnef fram úr Slögunni, sem heitir Skollanef (38). Niður af henni, austur af túni, út í hrauni, er klettur, sem sker sig úr að lögun og heitir Kista (39).

Slaga

Slaga að sunnanverðu.

Fremst í Slögunni, rétt við túnið innanvert, er Fjárból (40), við alllangan hamravegg. Vestur af Slögunni er gróðurlítið svæði, sem nefnt er Melar (41). Vestan við þá heitir Lágar (42). Þær eru vestan við veginn og langur grjótgarður hlaðinn þeim til varnar. Er mikið hér af slíkum görðum og víða með mjög fallegu handbragði. Nú er verið að græða lágarnar upp. Upp og vestur af Lágunum rís Lyngfjall (43), lítið um sig, en nokkuð hátt. Þar vestur af er Festarfjall (44), sem fyrr er getið. Suður af Lyngfjallinu er Lambastapinn fyrrnefndi, og uppi á honum er Lambastapabrekka (45).

Móklettar

Móklettar – áletrun á landamerkjum.

Sunnan í Festarfjalli er Festin fyrrnefnda, en norðan undir því eru móbergsstrýtur og hnúkar, sem heita Móklettar (46). Þeir eru sjávarmegin við veginn. Austan undir Lyngfjalli er smáhæð og hóll, sem heitir Litliháls (47). Norður frá Skála-Mælifelli er Skyggnir (48), hæð alláberandi (á korti nefnd Méltunnuklif).

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn í Drykkjarsteinsdal.

Norðanvert við Slöguna er Drykkjasteinn (49). Hans er víða getið, vegna þess að þar fengu ferðamenn oft svölun. Hans er einnig getið í þjóðsögum. Norðan í, vestur af Skyggni, er svonefndur Litli-Leirdalur (50). En lægðin, sem Drykkjarsteinn er í, heitir Drykkjarsteinsdalur (51).

Allmiklu skakkar hér um landlýsingu þeirra nágrannanna. En merkjabókin segir merki Ísólfsskála þannig: Úr fjöru við Festargnípu vestan við svonefndan Skálasand til norðurs að merktum kletti við götuna á Móklettum, svo til austurs í miðja suðuröxl á Borgarfjalli (52).

Selsvallafjall

Selsvallafjall.

Síðan sama sjónhending austur Selvallafjall að merkjum Krýsuvíkur og þá suður að Dagon. Þetta segir þar, en Gísli á Hrauni sagði, að línan væri úr Móklettum og beint í skarðið á Núpshlíð, þar sem vegurinn liggur gegnum, og skakkar það allmiklu. En ég hygg, að merkjabókin hafi hér rétt fyrir sér. Læt ég svo lokið talningu Ísólfsskálaörnefna.”

Ísólfsskáli – athugasemdir:
Jónína Hafsteinsdóttir skráði eftirfarandi svör við spurningum um örnefni í skrá Ara Gíslasonar eftir Ísólfi Guðmundssyni bónda á Ísólfsskála. Skráð var í Örnefnastofnun 20. okt. l982.

Selatangar

Selatangar.

“Selatangar (1): Selveiði var stundum við þá og útgerð í gamla daga.
-Dágon (2) (ekki Dagon): Ísólfur veit ekki, hvernig stendur á því nafni. Dágon var hraundrangi niðri við sjó, en er nú dottinn. Hann var suður af vestustu sjóbúð á Selatöngum. Ekkert sérstakt var við hann, sem skýrt gæti nafnið.

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

-Ögmundarhraun (3): Ögmundur nokkur lagði hug á dóttur bóndans í Krýsuvík. Bóndi lagði fyrir hann að ryðja veg yfir hraunið, og skyldi hann þá fá stúlkuna. En er verkinu var lokið, lét bóndi drepa Ögmund.
-Nótarhellir (5) er syðst og austast í Katlahrauni (6). Þar var sagt, að nætur hefðu verið þurrkaðar og gerðar upp.
-Veiðibjöllunef (9): Þegar mikið var um loðnu í Mölvík (7), sat veiðibjallan mikið á nefinu.
-Rangagjögur (11) er dálítíð fyrir austan Ísólfsskála. Þetta er sprunga, sem liggur frá suðri til norðurs og frá austri til vesturs, liggur í kross. Þetta er stór og mikil gjá, sem sjórinn gengur í.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – Hattur.

-Hattur (12) er klettur uppí á hrauninu, og er gras á honum.
-Trantar (14) eru austan við Gvendarvör. Hraun hefur runnið fram í sjó, en klettadrangar standa upp úr.
-Gvendarsker (15) og Gvendarvör (16): Ísólfur hefur heyrt sagt, að Guðmundur einhver hafi farizt á skerinu, en veit ekki um það nánar.
-Grákvíguhraun (31) er vestan undir Höfða. Þar eru hraunsteinar með gráum mosa, gráir tilsýndar, og mun nafnið dregið þar af.
-Skollanef (38): Skollahraun (53) er suður af því; þar var og er enn greni.
Moshólar (34) eru gamlir, útbrunnir gígar, en ekki meiri mosi á þeim en gengur og gerist. Ekki er vitað um nein not af mosanum.
-Núphlíðarháls (24) (ekkí Núps-) nær frá gamla veginum, sem lá til Krýsuvíkur og inn að Krossgili. Krossgil (54) er vestanverðu í Stóra-Hamradal (55), er í Vesturhálsi (56).
-Langagörn (28) er ekki öll í landi Krýsuvíkur. Landamerki Ísólfsskála og Krýsuvíkur eru eftir Löngugörn.”

Loftur JónssonÍsólfsskáli; örnefni – Loftur Jónsson skráði.
“Austan við Hraunsvík stendur bærinn Ísólfsskáli. Bærinn stendur niður við sjó framan við Bjalla, hamrahæð suðvestur af Slögu.
Fyrir botni Hraunsvíkur er fjallið Festi (1). Í áberandi stuðlabergsgangi austarlega í fjallinu eru landamerki Ísólfsskála og Hrauns. Heitir þar Festin (2). Þaðan eru merkin í móbergsstrýtur og hnúka norðan undir Festi. Þar eru tákn um landamerkin klöppuð á hellu norðan við veginn. Þeir heita Móklettar (3).
Ef farið er austur ströndina frá Festi tekur fyrst við Skálasandur (4), þangað er illfært nema um fjöru vestan frá. Lambastapi (5) er allhár grágrýtishnúkur með grastorfu í toppinn og þar austan við er smáhækkandi alda sem myndar fell austast og heitir Slaga (6). Þar sem Skálasandur endar að austan eru tveir melhólar upp á brúninni á milli Skálasandsbergs (7) og Lambastapa. Þeir heita Lambastapahryggir (8). Fyrir austan Lambastapa kemur smávik sem heitir Lambastapavik (9) og þar upp af er Lambastapabrekka (10). Frá vikinu og austur í Skálabót er lágt berg sem heitir Hjálmarsbjalli (11) og er eins og smátota fram í sjóinn. Skálabót (12) er víkin þar austur af og þaðan var róið áður fyrr.

Isólfsskáli

Ísólfsskáli – loftmynd.

Gamli Ísólfsskáli var upp af Skálabót undir Bjallanum vestast. Þar eru nú húsatættur. Austast í Skálabót eru klapparflúðir sem heita Vötnin (13). Þar kemur fram ósalt vatn um fjöru. Skammt austur af Vötnunum eru sléttar klappir; Gvendarklöpp (14) og beint suður af henni er Gvendarsker (15). Þar heitir lendingin Gvendarvör (16). Þar var lent þegar gott var í sjó. Miðið á vörina er að austurhorn Gvendarskers á að jaðra við Nótarhól þar til vörin opnast inn og hægt er að slá undan.
Nótarhóll (17) er hóll upp af Gvendarvör, vestan við hraunið. Nótarhóll dregur nafn af því að dregið var fyrir sel í Gvendarvör og nótin síðan geymd á hólnum. Norðvestur af Nótarhól er smágerði sem kallað er Hestagerði (18). Í fjörinni austur af Nótarhól eru tveir svartir klettar sem heita Svörtuklettar (19). Suður af þeim er skerjagarður sem brýtur á um flóð. Þar heita Trantar (20). Austan Tranta er Hattvík (21), smámalarvík. Rangagjögur (22) er lón inn í landið og fellur sjórinn um rifna klöpp. Þar austur af er klettur upp á kampinum með grastó í toppinn sem heitir Hattur (23).

Ísólfsskáli

Brimketill við Kvennagöngubása.

Þar austur af er smábás sem heitir Skálabás (24). Þar austur af er hraunnef í sjó fram og austur af því eru Kvennagöngubásar (25). Heimastibás (26) er vestasti básinn. Hraunsnes (27) skagar í sjó fram þar fyrir austan. Þar er talið hálfnuð leið frá Ísólfsskála að Selatöngum en þessi leið er talin um það bil klukkustundar gangur. Veiðibjöllunef (28), öðru nafni Vondanef (29) , er þar fyrir austan og er það í vesturmörkum á Mölvík (30). Víkin er með möl í botni og vestast í henni er berg með sjó, ein til tvær mannhæðir á hæð. Inn í það ganga vik, básar og víkur. Hraunið þar upp af Mölvík austan til heitir Katlahraun (31). Hraunið er fullt af kötlum og djúpum hraunbollum með grasi í botni. Austast í Katlahrauni er Nótarhellir (32) og gengur í sjó fram. Þar sem Katlahraun endar tekur við Bjallinn á Selatöngum (33). Það er frekar lágur bergstandur og nær í sjó að vestan en gengur síðan upp í landið. Fyrir austan Nótarhelli er sandfjara og síðan taka við Selatangar (34).

Selatangar

Selatangar – sjóbúðir.

Á Selatöngum var allmikil útgerð frá Skálholti í eina tíð en lagðist fyrst niður um tíma eftir Básendaflóðið 1799 og svo að fullu og öllu milli 1880 og 1890. Þarna eru byrgi og búðatættur sem eru nú friðlýstar.
Dágon (35) var klettur á kampinum suður af vestustu sjóbúðinni á Selatöngum en er nú hruninn. Hann skipti löndum og reka á milli Ísólfsskála og Vigdísarvalla. Skiptivöllur (36) er smáhæð fyrir austan Dágon, grasivaxin að ofan. Sjóbúðirnar standa austan undir Skiptivelli á hraunnefi.

Selatangar

Selatangar – Smíðahellir.

Austan undir hraunnefinu eru fjórir hellar og var einn þeirra smíðahellir og sést þar enn steinskál sem notuð var til kælingar. Fyrir norðaustan Dágon eru smátjarnir, kallaðar Brunnar (37). Vörin er að sjá á milli Dágons og Skiptivallar. Sundmerkið í vörina er þannig að Dágon átti að bera í Litlaból í Núphlíð. Hraunið þarna á milli fjalls og fjöru heitir Ögmundarhraun (38).
Ef farið er aftur vestast í landareignina þá eru móklettar vestast (norðaustan í Festi). Austan þeirra er Borgarhraun (39) og austan þess rís Borgarfjall (40) sem er syðsti hluti Fagradalsfjalls. Landamerki Hrauns og Ísólfsskála eru frá Móklettum og í miðja suðuröxl Borgarfjalls. Suður frá Móklettum er Lyngfell (41) og austur úr því er Litliháls (42). Þar austur af er Litla-Borgarhraun (43) og þar í er hlaðin hringmynduð fjárborg sem kölluð er Borgin (44).

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – örnefni.

Melar (45) er kallað fyrir ofan Skálasandsberg og ná þeir upp að Lyngfelli. Framan undan Lyngfelli er undirlendi með grastorfum á víð og dreif og heitir það Lágar (46). Lágarnar er nú verið að græða upp og eru að mestu orðnar grasivaxnar. Vestan við veginn þar er sprunginn hóll sem heitir Klofhóll (47).
Bjallinn (48) er klettastallur og nær frá Hjálmarsbjalla og inn í Ból (49) sem er undir fellinu Slögu vestast. Hæðarbunga vestan undir Slögu heitir Slögubringur (50). Stór klettur er þar sem Hattur (51) heitir en er skráður á kort Grettistak.
Austan við Bólið eru smálautir sem heita Bólkvosir (52). Lengra austur með Slögu að sunnan, ofan við skriður, er bergstallur sem heitir Hrafnshreiður (53).

Slaga

Slaga.

Stórusteinar (54) er stórgrýti sem fallið hefur hæst úr Slögu. Þar innan við er Langakvos (55). Upp af Löngukvos er móklettur sem kallaður er Móklettur (56). Fyrir austan Löngukvos er Skollanef (57) og er nokkurs konar öxl eða klapparnef fram úr Slögu. Skollahraun er þar suður af. Í hrauninu austan við túnið er sérstæður klettur sem heitir Kista (59). Hvammur austan Skollanefs með stórum steinum er Innri-Stórusteinar (60). Austan og uppi á Slögu fyrir norðan Innri-Stórusteina eru sjö grastorfur sem heita Sláttutorfur (61).
Skálamælifell (62) er austur af Slögu og skarðið þar á milli heitir Mælifellsskarð (63). Þar eru tvö vatnsstæði sem sjaldan þorna. Grasbrekkur austan Skálamælifells heita Fyrstabrekka (64), Önnurbrekka (65) og Þriðjabrekka (66). Og síðan tekur við Bjallinn í Klifinu (67). Við endann á Bjallanum í Klifinu að austan er gjá og nær hún langleiðina suður á Vondanef.

Méltunnuklif

Méltunnuklif.

Méltunnuklif (68) er norð-norðaustan í Skálamælifelli. Þar er gamli vegurinn í nokkuð brattri og þröngri brekku og segir sagan að þar hafi farið mjöltunna af hesti og niður fyrir. Leggjabrjótshraun (69) er hraunið norðaustur undir Skálamælifelli en sunnan þess og austur um er Ögmundarhraun. Moshólar (70) eru eldgígar úr brunnu hraungjalli austur frá Skálamælifelli. Þar liggur nú akvegur um. Aust-norðaustur frá Moshólum er Núphlíð (71). Er það suðurhlíð Núphlíðarháls (72). Skálagörn (73) er jarðsig suð-suðvestan í Núphlíð og liggur frá jafnsléttu að gamla veginum norðan Núphlíðar. Móklettur eða hella í hlíðinni að vestan heitir Stóraból (74). Skalli (75) er hnúkur sem gengur í suður úr Núphlíð og er hann á mörkum Vigdísarvalla og Ísólfsskála. Vestan Skalla er kvos þvert yfir Núphlíð sem heitir Langagörn (76) (Vallagörn (77)). Vestan undan Löngugörn fremst er klettur sem heitir Litlaból (78). Vestan Skalla er kvos sem heitir Dalur (79) og þar fyrir norðan kemur Vallagörn eða Langagörn sem nær norður fyrir Litla-Hamradal.

Ísólfsskáli

Rekagatan – Ísólfsskáli fjær.

Eystri-Tangagata (80) liggur frá Skalla og yfir hraunið fram á Selatanga en Vestri-Tangagata (81) frá Skálagörn og fram á Selatanga. Framan undir Núphlíð hét Mýrdalur (82) áður en hraun rann þar yfir allt. Frá Festi og allt austur í Selvog á Þórir haustmyrkur að hafa numið land.
Drykkjarsteinsdalur (83) er norðan við Slögu vestanvert. Þar í er Drekkjarsteinn (84). Það er stakur móklettur við fjallshlíðina með nokkuð djúpum skálum en litlum um sig og þar stóð oftast vatn í sem var kærkomin svölun ferðamönnum, því lítið er um yfirborðsvatn á þessum slóðum. Skálin er nú sprungin og ekkert vatn þar lengur að hafa.
Stóri-Leirdalur (85) er norðaustan undir Slögu. Norðan við hann er Lyngbrekka (86) og Langihryggur (87). (Fjall). Litli-Leirdalur (88) er þar austur af og norðan við Skálamælifell og vestan við Skyggni (89) sem er klettahæð. Fyrir austan Skyggni (öðru nafni Brattháls (90)) er Bratthálskrókur (91) og þar norður af er Einihlíðarkrókur (92) og síðan Einihlíðar (93) sem ná inn að Sandfelli (94).

Skála-Mælifell

Skála-Mælifell.

Á milli Brattháls og Höfða (95) heitir Leggjabrjótshraun. Fyrir austan Leggjabrjótshraun er fjall sem heitir Höfði. Norð-norðaustan af Einihlíðum er Sandfell. Austan við mitt Sandfell er götuslóði yfir hraunið austur í Hraunssel (96) fremst. Inn með Núphlíðarhálsinum að vestan eru tættur sem Hraunssel heita. Og þar skammt norður af nær hraunið upp að hálsinum og heitir þar Þrengsli (97) og síðan taka við Selsvellir (98) og Selsvallafjall (99). Núphlíðarháls nær frá gömlu götunni í Núphlíð og fremst í Krossgil (100). Krossgil er fremst í Stóra-Hamradal (101) og þar fyrir austan er Lyngkrókur (102).
Að kunnugra manna sögn þá er Leggjabrjótshraun vestan við Höfða en Grákvíguhraun (103) á milli Höfða og Núphlíðarháls. Á korti er Leggjabrjótshraun sagt austan Höfða og er það sennilegra því þar er hraunið úfið og illt yfirferðar en vestan Höfða er það tiltölulega slétt.” – Grindavík 07.10 ‘80, Loftur Jónsson [sign.].

Ísólfsskáli; athugasemdir:

Ísólfsskáli

“Hér eru tilfærð svör Ísólfs Guðmundssonar, Ísólfsskála, Grindavíkurhreppi, sem hann veitti við fyrirspurnum (ódagsettum) Örnefnastofnunar og dagsetti 20. apríl 1983 í Grindavík. Sennilega eru spurningarnar samdar með örnefnalýsingu Lofts Jónssonar í huga því sum örnefnin sem spurt er um koma aðeins fyrir þar (t.d. Skiptivöllur) eða notaður er ritháttur sem kemur aðeins fyrir þar (Lyngfell, en Lyngfjall hjá AG). Um er að ræða tvær spurningaskrár og fyrir kemur að nokkurn veginn sama spurningin er borin upp tvisvar. [HJÁ 15/10/2004.]
l. Er vitað um tilefni nafnanna Skálasandur, Skálabót, Skálabás o. s. frv.
Svar: Kennt við Ísólfsskála, sem oft er í daglegu tali nefndur Skáli.
2. Er vitað, hvers vegna Skiptivöllur var nefndur svo?
Sv.: Fiski var skipt í hluti á þessum stað eftir löndun.
3. Er Lyngfell hátt?
Sv.: Nei.
4. Er Hattur (5l) einnig þekktur undir nafninu Grettistak eða er það alrangt? Eru Hattarnir tveir?
Sv.: Hattur er nefndur Grettistak á landakorti (ekki talið rétt). Þeir eru tveir, annar vestan undir Slögu og hinn hjá Rangagjögri.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – Bólið.

5. Hvernig er Ból?
Sv.: Hellisskúti þar sem fé var geymt í.
6. Verpir hrafn á/í Hrafnshreiðri?
Sv.: Ekki nú.
7. Er Leggjabrjótshraun erfitt yfirferðar?
Sv.: Ekki svo mjög auk þess er vegur lagður yfir það

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

8. Er vitað, hvers vegna Slaga er nefnd svo?
Sv.: Nei.
9. Er Festarfjall oft nefnt Festi?
Sv.: Já.
l0. Koma fram í lýsingunum öll örnefni, sem þekkt eru í landareigninni? Eru öll örnefnin, sem skráð eru í lýsingunum, innan landareignarinnar?
Sv.: Óvíst.
Gott væri að fá svör við sem flestum eftirfarandi spurninga:

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – Refagildra í Skollahrauni.

1) Hverjir voru heimildarmenn að lýsingunni?
Sv.: ?
2) Er eitthvað vitað um menn þá, sem eftirtalin örnefni eru kennd við: Hjálmarsbjalli, Gvendarklöpp, Gvendarsker, Gvendarvör og Ögmundarhraun?
Sv.: Hjálmarsbjalli: Hjálmar Guðmundsson. Gvendarklöpp: Sagt var að einhver Guðmundur hefði farist í vörinni. Ögmundur var nafn þess manns, sem fyrst lagði slóða yfir hraunið og var síðan veginn austast í hrauninu.
3) Eru Trantar þröng leið á milli skerja?
Sv.: Hátt brunahraun í sjó fram.
4) Verpa veiðibjöllur í Veiðibjöllunefi?
Sv.: Nei.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – Kvennagöngubásar.

5) Er nokkuð vitað um tilefni nafnsins Kvennagöngubásar?
Sv.: Þar var kvenfólk sagt baða sig.
6) Af hverju ætli Skiptivöllur heiti svo?
Sv.: Fiski var skift þar í hluta.
7) Sjást stundum selir við Selatanga?
Sv.: Já oft.
8) Vex lyng í Lyngfelli, Lyngbrekku og Lyngkrók?
Sv.: Já þar er lyng.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – túnakort 1918.

9) Er vitað, hvers vegna Ból heitir svo?
Sv.: Ból var oft nefnt þar sem fé var geymt.
10) Voru Sláttutorfur slegnar?
Sv.: Já.
11) Eru Moshólar mosavaxnir?
Sv.: Já.
12) Af hverju ætli Leirdalir heiti svo? (Er jarðvegurinn leirborinn og gróður lítill sem enginn?)
Sv.: Já.
13) Vex einir í Einihlíðum?
Sv.: Já.

Hraunssel

Hraunssel.

14) Er Hraunssel í landi Ísólfsskála?
Sv.: Já.
15) Einihlíða- eða Einihlíðarkrókur?
Sv.: Einihlíðarkrókur.
16) Af hverju ætli Krossgil dragi nafn?
Sv.: Tvö gil sem mynda kross.” – Virðingarfyllst, Ísólfur Guðmundsson [sign.]

Hjónin Valur Helgason og Harpa Guðmundsdóttir hafa átt sumarbústað á jörðinni í um 27 ár. Í viðtali við Val kom í ljós að Hjálmar, bróðir Guðmundar á Skála, hafi um tíma búið í húsi undir Hjálmarsbjalla. Benti hann FERLIR á tóftirnar, sem nú eru að mestu komnar undir kampinn. Var þar kominn skýringin á örnefninu “Hjálmarsbjalli”.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

Heimildir:
-Örnefnalýsing fyrir Ísólfsskála; heimildarmaður: Guðmundur Guðmundsson, bóndi, Ísólfsskála. Ari Gíslason skráði.
-Ísólfsskáli; örnefni – Jónína Hafsteinsdóttir skráði eftirfarandi svör við spurningum um örnefni í skrá Ara Gíslasonar eftir Ísólfi Guðmundssyni bónda á Ísólfsskála. Skráð var í Örnefnastofnun 20. okt. l982.
-Örnefnalýsing fyrir Ísólfsskála; Loftur Jónsson skráði.
-Ísólfsskáli; örnefni – Hér eru tilfærð svör Ísólfs Guðmundssonar, Ísólfsskála, Grindavíkurhreppi, sem hann veitti við fyrirspurnum (ódagsettum) Örnefnastofnunar og dagsetti 20. apríl 1983 í Grindavík. Sennilega eru spurningarnar samdar með örnefnalýsingu Lofts Jónssonar í huga því sum örnefnin sem spurt er um koma aðeins fyrir þar (t.d. Skiptivöllur) eða notaður er ritháttur sem kemur aðeins fyrir þar (Lyngfell, en Lyngfjall hjá AG).

 

 

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – fiskbyrgi – og – garðar við Nótarhól.

 

 

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – uppdráttur ÓSÁ.