Færslur

Brennisteinsfjöll

Á loftmynd má sjá allnokkur göt á landinu sunnan og austan við Vörðufell í sunnanverðum Brennisteinsfjöllum. Tvö þeirra eru meira áberandi en önnur. Svo virðist sem í þeim geti verið leið undir hraunið úr Vörðufellsborgum og niður í eldra hraun er myndaði t.d. Lyngskjöld. Í honum má og sjá minni göt er gætu verið hluti af sömu hraunrásum.
JafndægurEkki eru mörg misseri síðan FERLIR uppgötvaði litskrúðugasta hraunhelli landsins undir Eldborg í Brennisteinsfjöllum. Að fenginni reynslu er ljóst að engir slíkir finnast nema fara á svæðið og skoða.
Farið verður um Lyngskjöld, hann gaumgæfður, og síðan haldið upp í götin fyrrnefndu.
Svæðið er í umdæmi Grindavíkur.
Lyngskjöldur er tiltölulega slétt helluhraun, líklega úr gígum vestan við sunnanvert Vörðufell. Nýrra hraun runnið að hluta til yfir það úr gígum norðvestan við Vörðufell. Einnig úr gígum Vörðufellsborgar norðaustan við fellið.
Mikil, löng og djúp hrauntröð er suðvestan við Vörðufell sem er framhald hrauntraðar úr gígunum efra. Bæði rofnar hún sunnan við Vörðufell þar sem sjá má mikil göt í nýrra hrauninu, auk þess sem stórt jarðfall er ofar í tröðinni. Hvorutveggja var skoðað í þessari ferð.
LeiðinReyndar er ekki heiglum hent að sækja Brennisteinsfjöllin heim. Þegar farið er í þau til norðurs þarf að huga að ýmsu ef rata á rétta leið í úfnu apalhrauni og þykkum hraungambra. Um aldur þessara hrauna er ekki vita, en telja má líklegt að Lyngskjöldurinn geti verið ca. 3500 ára og nýrri hraunin um 1000-2000 ára gömul. Sennilega hefur svæðið allt verið mjög virt um langt skeið, með stuttum hléum á millum.
Vitað er að hraun rann í Brennisteinsfjöllum um árið 1000, m.a. úr Bláfeldi (Draugahlíðargíg). Það kom niður Stakkavíkurfjall vestan við Hlíðarvatn. Annars eru sunnanverð Bláfjöll eitt stórbrotið jarðeldasvæði þar sem hver eldstöðin og gígaröðin hefur gosið eftir aðra. Víða er miklir gos- og móbergshryggir, sem komið hafa upp á síðasta jökulskeiði. Þar er og að finna einstaka stapa frá fyrra ísaldarskeiði. Tilkomumikið er að sjá hvernig einstök gos á hryggjunum hafa náð að bræði sig upp í gegnum íshelluna og mynda grágrýtisstapakolla. Einnig hafa undirliggjandi gossrásir náð að bræða af sér ísinn til hliðanna og mynda litla grágrýtisstapa, s.s. Höfðann út frá Sandafjöllunum.

Leiðin

Ofan og utan í þessum gömlu hryggjum eru svo ótal eldstöðvar, sem gosið hafa á ýmsum tímum á löngu tímabili. Miklar hrauntraðir liggja niður frá upptökunum, hrauntjarnir hafa myndast og hraungúlpar orðið til. Hrauntraðirnar eru sumar bæði breiðar og djúpar. Sú, sem ferðinni var heitið í að þessu sinni, við suðvestanverð Sandafjöll, hafði greinilega fóðrað hraunbreiðuna neðanverða (sunnanverða) í allnokkurn tíma því hún hafði smám saman hlaðist upp yfir landið umhverfis og myndað allnokkurn hæðarhrygg. Samanlagt er hrauntröðin um 3 km að lengd.
Skoðuð voru jarðföllin í Lyngskyldi. Það neðsta er stórt umleikis. Undir því gæti verið hólf, en ekkert Gjallgat var að sjá niður í það. Skammt sunnar steypist hraunáin fram af Geitahlíð (sem aðrir kalla Herdísarvíkurfjallsenda). Ofar er gat niður í rásina, en hún er svo lág að skríða þarf þar inn og undir hraunið.
Haldið var upp og yfir hraungambra á nýrra hrauni. Fjárgata liggur þar yfir. Þegar komið var upp að Höfða var áð. Þrátt fyrir margar hæðir og klettaborgir á þessu svæði er á því ótrúlega lítið um örnefni. Gæti það verið, annars vegar vegna þess að svæðið hefur ekki verið smalað um langa tíð og örnefnin því gleymst, eða ekki hefur verið talin ástæða til að nefna kennileitin þar sem fáir hafa að jafnaði farið þar um.
Þegar komið var upp í götin, sem ferðinni var heitið í, kom í ljós stærðarinnar niðurfall hið efra, en minna hið neðra. Bæði voru full af snjó þrátt fyrir snjóleysu á jörðu. Ofan efra jarðfallsins er hrauntröðin langa og djúpa svo löng sem augað eygði.
HraundrottninginFarið var niður í jarðfallið. Reipi hafði verið tekið með, en nú var í því bæði það mikill snjór að auðvelt var að komast niður og svo var að sjá að hægt væri að komast niður með því að fara á réttum stað í það norðaustanvert. Efst norðanvert í jarðfallinu var rás inn undir hraunið. Þegar niður var komið reyndist rásin full af snjó. Ekki var því lengra haldið að þessu sinni. Neðst sunnanvert í jarðfallinu var snjór. Regndropar höfðu þó holað snjóinn svo stinga mátti löngum staf niður. Hann botnaði ekki þrátt fyrir lengdina. Þarna niðri var greinilega rás, sem kanna þyrfti nánar. Helli þessum var gefið nafnið “Jafndægur” þar sem hann var uppgötvaður 21 mars þegar vorjafndægur voru þetta árið.
Haldið var upp eftir hrauntröðunni löngu. Efst í henni var lokuð rás, full af snjó.
TröllahárTil baka var haldið nokkuð vestar en komið hafði verið. Skoðaðir voru nokkrir fallegir eldgígar. Suðvestan undir Sandafellum er mikil eldstöð. Sunnan úr henni ganga stuttar, en hrikalegar, hrauntraðir. Ein þeirra hefur myndað stóra hrauntjörn. Nú rísa umleikis hana háir bergveggir er mynda hið ágætasta skjól.
Tröllahár óx á mosa. Hraundrottning leið um Gambrann. Gervigígur stóð einn í lágri kvos. Þar hafði hraunið greinilega runnið niður beggja vegna eldri hæðar, og myndað aðstæður fyrir tjörn. Á seinni stigum gossins hafði hraunstraumurinn náð að renna niður í tjörnina og myndaðist þá gervigígurinn.
Þessi hluti Brennisteinsfjalla er öllu jafnan mjög fáfarinn. Jafndægur er uppi á hæð og því langt í frá að vera auðfundin. Til að geta gengið að henni þarf annað hvort góða loftmynd eða heppni – eða vitneskju um hvar hellinn er að finna.
Gengnir voru 10.5 km. Mesta hæð var um 350 m.y.s. Veður var frábært. Gangan tók 4 klst og 4 mín.
Gígur