Tag Archive for: Jameston

Brúin

Í Brúnni árið 1930 er fjallað um „Skipströnd í Hafnahreppi árin 1800-1930„. Frásögnin er hluti greinar Ólafs Ketilssonar í Höfnum í Ægi sama ár. Þar eru tíunduð skipströndin á nefndu tímabili, en í Brúnni er einungis fjallað um þann hluta er lítur að strandi Jamestown:

Brúin„[Í síðustu tölublöð „Ægis“ (Ægir 01.11.1930 og 01.12.1930) skrifar Ólafur Ketilsson, hreppstjóri að Óslandi í Höfnum, langa og mjög fróðlega grein um skipströnd í Hafnahreppi á síðustu 130 árum. Er greinin bráðskemtilega skrifuð, svo sem Ólafs er von og vísa, því að hann segir manna best frá. Leyfir Brúin sjer að birta hjer kafla úr greininni. Er hann um 4. strandið, „Jamestown“ eða „stóra strandið“, sem Ólafur kallar].

Vorið 1881, á hvítasunnumorgun, rak á land norðanvert við Kirkjuvogssund, geysilega stórt skip, í hafrótar-vestanroki. Var sjáanlegt, meðan skipið var að veltast í brimgarðinurri, að það myndi mannlaust með öllu.
Ekki var hægt að komast út í skipið þrjá fyrstu dagana eftir að það strandaði, fyrir brimi. Þegar skipið strandaði, lá á „Þórshöfn“ skamt þar frá, er skipið strandaði, danskt kaupskip frá H. P. Duusverslun í Keflavík. Skipstjórinn hjet Petersen; sagði hann okkur strax sem skipið var strandað, að það væri ameríkst timburskip, fult stafna á milli af tómum plönkum, og 3500 tonn að stærð. Var svo að heyra sem skipstjóri væri nákunnugur skipinu, því hann sagði okkur líka nákvæmlega um allan útbúnað á því ofan dekks, sem allt stóð heima, er komið var um borð í skipið. Hefir skipstjóri sennilega verið búinn að hitta skipið í hafi, áður en að það strandaði hjer við land.

Jamestown

Skip líkt og Jamestown.

Á fjórða degi var sjór loks orðinn það dauður, að komist varð um borð, og er óhætt að fullyrða að mörgum manninum var orðið meir en mál að komast um borð í báknið! Og aldrei gleymi jeg þeirri stund, þegar jeg, 16 ára unglingur, stóð í fyrsta sinni inni á þilfari „Jamestown“, og horfði undrandi og hugfanginn á þetta 60 faðma skipsbákn! Set jeg hjer stutta lýsingu af „Jamestown“, hinu stærsta skipi, sem strandað hefir við Ísland, síðan landið byggðist.
„Jamestown“ var þrímastraður barkur, og eins og áður er sagt, nákvæmlega 60 faðmar á lengd, en um breidd þess man jeg ekki með vissu, en það var jafnbreitt og franska skútan var löng, sem um sumarið var höfð til að flytja planka úr því. Þrjú þilför voru í skipinu, og óskiftur geimur hver lest, og hver lest troðin eins og síld í tunnu, af tómum plönkum, og enn pá eftir 50 ár blasir við augum mínum hinn óskaplegi geimur, efsta lestin, pegar búið er loks að tæma hana, 60 faðma langa og hátt á þriðju mannhæð á dýpt, má af því nokkurn veginn gera sjer grein fyrjr, hver kynstur hafi rúmast í öllum þessum geim, af plönkum.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir eystri í Hraunum voru byggðir úr timbri Jamestown.

Tveir stórir salir voru á efsta þilfari; var annar salurinn miðskips, en hinn millum aftasta og mið siglutrjes, var aftari salurinn hið mesta skrauthýsi, eða rjettara sagt, hafði verið, því búið var að brjóta þar allt og bramla, sennilega bæði af manna- og náttúrunnar völdum, en fyrir aftan öftustu siglu, var hálfdekk, sem tæplega var manngengt undir, hefir að öllum líkindum verið forðabúr [skipsins, því þar var að finna ýmislegt matarkyns, svínsflesk, nautakjöt m.m., og hrannir af spítnabraki, póleruðu mahoní, bæði í útskornum rósum og þiljum, sem borist höfðu þangað úr salnum, og auk þess voru þar kynstrin öll bæði af skrám, lömum og skrúfum, sem allt var úr kopar. 6 herbergi höfðu verið sitt til hvorrar hliðar í salnum, sennilega allt svefnherbergi, en allt var það orðið brotið að mestu, en mátti þó sjá, að öll höfðu herbergin verið mjög skrautleg, því útskornar, póleraðar mahoní-rósir á millum bita og mahoníþiljur voru sumsstaðar óbrotnar, en flest voru þó skilrúm millum herbergjanna brotin að meiru eða minnu. Fremri salurinn var að öllu íburðarminni, en var þó að nokkru leyti skift í svefnherhergi, en ekki líkt því eins vönduð, og sjáanlegt var að borðsalur hafði verið í öðrum enda salsins, þó ekkert fyndist þar af borðbúnaði, eða neitt því, sem verðmæti væri í.

Jamestown

Hafnir og nágrenni – kort,

Af öllu því tröllasmíði, sem sjá mátti á skipi þessu, var þó þrent sem mesta undrun mína vakti, — fyrst miðsiglutrjeð, tveir feðmingar að gildleika, með 18 afar sverum járngjörðum, annað undirbugspjótið, sem kallað er, 36 þml. ákant, og það þriðja, stýrislykkjurnar (3) úr kopar, en hvað þær hver um sig voru þungar, get jeg ekki gert neina ágiskun um, en jeg vil þó geta þess, að einn sunnudag fórum við Eiríkur sál. bróðir minn, ásamt þriðja manni, til þess að reyna að ná efstu lykkjunni, því hún hjekk á einum nagla, og því að kalla mátti laus úr sæti sínu (stýrið var brotið af). — Bundum við afarsverum nýjum kaðli í lykkjugatið, en vorum þeir aular að hafa dálítinn slaka á kaðlinum, svo þegar við loksins vorum búnir að losa naglann, og vega hann úr sætinu (falsinu), þá purpaði hún kaðalinn eins og brent brjef hefði verið, um leið og hún hrökk niður, og munaði minnstu að hún mjelaði bátinn, sem við vorum í.
Sægur af fólki, hvaðanæfa af landinu, kom um sumarið til þess að að skoða þetta skipsbákn, og mátti stundum heyra óp og vein, og guð almáttugur! þegar verið var að drösla kvenfólkinu upp þennan 17 tröppu riðlandi stiga, sem náði upp að öldustokkskipsins.

Jamestown

Annað ankeri ásamt keðju við Kirkjuvogskirkju í Höfnum.

Eftir að „Jamestown“ strandaði og ráðstöfun hafði verið gerð til þess af landshöfðingja, Hilmar Finsen, að fara að bjarga til lands plönkunum, neituðu Suðurnesjabændur algerlega að hreyfa hönd að björgun, töldu það alveg óvinnandi verk, en vildu hins vegar fá skipið keypt með öllu, eins og það stóð. En er því var neitað, buðu sig fram til að bjarga úr skipinu þrír menn í Reykjavík, þeir kaupmennirnir Páll sál. Eggerz og Jón sál. Vídalín og Sigurður Jónsson járnsmiður, sem ennþá er á lífi, nú á níræðisaldri. Komu þeir hingað á strandstaðinn snemma í júnímánuði á franskri skútu (Loggortu); var skipstjóri Ólafur Benediktsson Waage. Fengu þeir fjelagar mikið af verkafólki hjer, því þeir buðu óvenjulega hátt kaup í duglega menn, 25 aura um tímann! 3 kr. um daginn fyrir 12 tíma þrælkun; þótti það óheyrilega hátt kaup, og alt borgað í skíru gulli og silfri, á hverju laugardagskveldi!

Hestaklettur

Hestaklettur – strandstaður Jamestown.

Keflavíkurkaupmennirnir voru ekki í þann tíð vanir að borga verkafólki í gulli og silfri vinnu sína, heldur í uppskrúfuðum vörum, þurrum og blautum! Var þessari nýjung um greiðslu verkkaups tekið með hinum mesta fögnuði af Suðurnesjabúum, og margur sá maðurinn, sem átti laglegan skilding um haustið í kistuhandraðanum, því í þá daga þektust ekki tálsnörur nútímans bíóin, kaffihúsin m. m., sem nú tæma vasa verkamannsins verkalaunum sínum!
Hvað margir „Loggortu“-farmar af plönkum voru fluttir til Reykjavíkur man jeg ekki með vissu, en jafnaðarlega var verið i tvo daga að ferma skútuna, og svo aðra tvo daga að flytja í land í stórum ílotum, því öllu var skipað í land upp á helming. Þegar kom fram í júlímánuð fóru bændur líka að bjarga upp á helming, voru þá oft fra 12 — 20 plankar á hvern mann, í helmingaskiftum, og stundum var það mikið meira, sem hver maður hafði í sinn hlut eftir daginn, þegar svo stóð á að sunnan stormur var, því þá var plönkunum dyngt í sjóinn og látnir reka til lands, frá 600 — 800 st. í einu! Í júlímánaðarlok var loksins efsta lestin tæmd af timbrinu.

Kaupstaðavegurinn

Kaupstaðavegurinn (vagnvegurinn) ofan Ósa. Hefur eflaust tengst strandinu mikla skammt vestar.

Í tvo mánuði voru fleiri tugir manna að tæma eina skipslest og þó þrásinnis fleygt i sjóinn mörg hundruð plönkum á dag! Það ætti að gefa nútíðarmanninum nokkurn veginn ljósa hugmynd um hver ógrynni af plönkum hafi verið í öllum (3) lestum skipsins.
Þegar efsta lestin var tæmd, var fyrsta uppboðið haldið, var sjávarströndin á fleiri hundruð faðma svæði þá ein óslitin plankahrúga. Voru í hverju númeri frá 10 — 20 plankar. Voru plankarnir 6—9 ál. langir, en 3 1/2 tom. þykkir, og af mismunandi breidd, 6—11 tom.
Kristján sál. Jónsson, hæstarjettardómari, var þá sýslumaður í Gullbringusýslu, og hjelt hann fyrsta uppboðið. Stóð uppboðið í tvo daga; var verð á plönkunum 25 — 50 au. og mundu það þykja góð timburkaup nú.

Jamestown

Jamestown – auglýsing.

Að plankauppboðinu loknu, var sjóboðið haldið. Keypti faðir minn möstrin og alla kaðla (vantinn) og víra m. m. á 24 kr., en í skipið sjálft með öllu timbri sem í því var í mið- og neðslu lest, var hæstbjóðandi H. P. Duus, kaupmaður í Keflavík, fyrir kr. 300,00, er hann bauð í það fyrir föður minn og aðra Suðurnesjabændur, en kom þar aldrei nálægt eftir uppboðið.
Strax eftir uppboðið var byrjað að skipa upp úr skipinu aftur og því haldið áfram stanslaust til 10. sept., en þá kom suðvestanrok með stórbrimi og klofnaði skipið þá í tvennt og rak hver spíta til lands. Var stórfengleg sjón að sjá allan þann flota, þegar hann kom að landi, mundi engum manni hafa dottið í hug, ef ekki hefði vitað, að öll sú plankabreiða væri úr einu skipi, og þó var búið að taka meiri partinn úr miðlestinni og alt úr efstu lestum er skipið brotnaði.
Jeg minnist pess, að þegar skipið var nýstrandað, kom til föður míns maður, sem hjet Sölvi Sölvason, og lengi var búinn að vera í siglingum. Sagði hann föður mínum, að hann þyrði að taka 18 sextíu lesta skonnortufarma úr skipinu, en faðir minn taldi það þá öfgar einar. En það hefði verið áhættulaust að tvöfalda þá tölu. Alt var skipið eirslegið í sjó og koparseymt og voru það laglegir koparboltar, sem gengu í gegnum botnrangirnar. Sendi faðir minn mörg þúsund kgr. til Englands af kopar. Það eina; sem tapaðist og aldrei sást, var afturstafn skipsins með stýrislykkjunum. Hefir það sennilega sokkið sökum þyngslanna af lykkjunum.
Hver kynstur að sumir af Suðurnesjabændum söfnuðu að sjer af plönkunum, má meðal annars marka af því, að faðir minn seldi í einu til Jóhanns nokkurs snikkara á Eyrarbakka 1200 st. og sá ekki á eftir, að á hefði verið tekið.

Silfurgrjót

Silfurgrjót.

Þegar leið á sumarið fór að kvisast að ballest skipsins væri afarmikils virði, jafnvel meira verðmæti en skipið sjálft með öllum farminum. Um nýjársleytið kom svo fyrirspurn til föður míns frá landshöfðingja um hvað orðið hefði af ballestinni og hvort ekki væri hægt ennþá að bjarga henni, því hún (ballestin) hefði verið auðæfi mikil, óhreinsað silfurgrjót frá Mexico. Hleypti pessi fregn heldur en ekki púðri í okkur strákana og var ekki dregið á langinn að fara og slæða botninn á strandstaðnum. En allir þessir silfurloftkastalar okkar hrundu og urðu að engu, þó við værum að slæða dag eftir dag, fengum við aldrei einn einasta mola og gátum aldrei sjeð einn einasta stein í botninum þó við sæjum vel í botn.

Jamestown

Þrímastra skip líkt og Jamestown.

Vorið eftir kom svo Sigurður Jónsson, járnsmiður, sem áður er nefndur, í sömu erindagerðum og var jeg oft með honum við að slæða, en það fór á sömu leið. Við höfðum erfiðið og ekkert annað. Sennilega hefir svo farið, að þegar skipið brotnaði, hefir botninn sogast fram í briminu og hvolft þar úr sjer á leirbotni áður en botninn rak til lands. Hinsvegar alveg óskiljanlegt, að í þau 50 ár, sem liðin eru síðan að skipið strandaði, skuli aldrei einn moli hafa borist til lands í öllum þeim hafrótum, sem komið hafa í þessi 50 ár. Það eina, sem mjer er kunnugt um að náðst hafi af ballestinni, er einn hnullungsmoli, sem Sigurður sál. Ólafsson, bóndi í Merkinesi, náði. Skreið hann eitthvað niður með afturstafni skipsins og fann þá þennan mola.
Var Sigurður mikill járnsmiður sem kunnugt er. Fór hann með molann í smiðju sína og bræddi úr silfrið, en hve mikið hann fjekk af silfri veit jeg ekki, því jeg sá það aldrei.
Jeg hefi orðið nokkuð langorður um þetta stóra strand, þó ótalmargt sje enn þá ósagt, en sökum þess að mjer er ekki kunnugt um að nokkur maður, alt til þessa, hafi skrifað einn sögulegan staf strandinu viðvíkjandi, þá hefi jeg ekki viljað láta undir höfuð leggjast að skrásetja það helsta um þetta mikla strand, svo að jafn-stórmerkur viðburður ekki týndist algerlega úr annálum Íslands.
Einkennileg tilviljun má það kallast, að tvö alstærstu timburströndin, sem borið hefir að ströndum þessa lands skuli hafa lent í Hafnahreppi“.

Heimildir:
-Brúin, 97. tbl. 31.12.1930, Skipströnd í Hafnahreppi árin 1800-1930, bls. 1-4.
-Ægir, 11. tbl. 01.11.1930, Skipströnd í Hafnahreppi árin 1800-1930, Ólafur Ketilsson, bls. 137-240.
-Ægir, 12. tbl. 01.12.1930, Skipströnd í Hafnahreppi árin 1800-1930, Ólafur Ketilsson, bls. 273-277.

Hafnir

Hafnir um og eftir 1900.