Tag Archive for: Jarðabók

Straumssel

Á vefsíðunni má fræðast um yfir 414 sel, sem skráð hafa verið eða hafa fundist á umliðnum árum á Reykjanesskaga. Hægt er að ganga að tóftum þeirra allra, utan þriggja, sem horfin eru (Reykjavíkursel í Ánanaustum, Hraunsholtssel við Flatahraun og Kalmannstjarnarsel undir Stömpum). Þá eru tilgreind selstaða á a.m.k. þremur stöðum, sem ekki hefur verið skráð hingað til (við Selöldu, í Húshólma og við Hraunsnes vestan við Lónakot).

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Yfirlitið segir til um 401 sel á 202 stöðum. Ef það er borið saman við Jarðabók Páls Vídalíns og Árna Magnússonar frá árinu 1703 kemur í ljós að getið er 63 bæja, sem höfðu selstöðu í Gullbringusýslu, auk þriggja bæja í Ölfusi, sem eru vestan við línu þá sem dregin var, þ.e. Hlíðarenda, Litlalands og Breiðabólstaðar. Ekki er t.d. getið selja frá Hrauni og Þorlákshöfn, auk fjölda annarra.

Hlíðarendasel

Hlíðarendasel.

Innan við 66 sel hafa því verið í notkun á um aldramótin 1700 á þessu svæði, en ekki er getið um önnur jafnmörg, sem sannarlega hafa þá verið í notkun. Verður það að skrifast á ónákvæma skráningu hlutaðeigandi. Margt bendir til að mörg sel hafi verið aflögð þegar upplýsingum var safnað, s.s. Fornusel í Sýrholti. Þá er líklegt að selstaða hafi verið færð til eftir landkostum eða af hagkvæmisástæðum og eldri selin þá yfirgefin. Einhver seljanna gætu hafa verið í notkun um stuttan tíma, en síðan verið aflögð og einnig gætu bændur hafa tekið sig saman um selstöðu, þ.e. að fé (og jafnvel kýr) frá fleiri en einum bæ hafi verið haft í sama selinu.

Urriðavatn

Frá uppgreftri við Urriðavatn.

Í heimildum um sel á Reykjanesi virðist lítið hafa verið um kýr í seljum. Ef þær hafa verið þar er þess jafnan getið sérstaklega, s.s. á Selsvöllum og við Snorrastaðatjarnir. Landfræðilega aðstæður á Nesinu hafa ekki beinlínis þótt heppilegar til kúabeitar. Hins vegar eru nokkur örnefni og mannvirki ekki fjarri bæjum er benda til þess að kúm hefur verið beitt þar um tíma, s.s. Kúadalur við Grindavík, Kúadalur ofan Kaldársels og Kúadalur ofan við Brunnastaðahverfið á Vatnsleysuströnd. Þar er hlaðin rétt. Við Urriðavatn í Garðabæ hefur verið garfið upp kúasel, væntanlega frá Hofstöðum.

Stakkavíkursel

Stakkavíkursel.

Í Jarðabókinni er ekki alltaf getið um staðsetningu seljanna, en reynt að lýsa kostum þeirra. Þannig segir frá selstöðu frá Hrauni (Grindavík): “Selstaða langt í frá og þó sæmilega góð”. Þórkötlustaðir eru sagðir brúka selstöðu í Krýsuvíkurlandi [Vigdísarvöllum]. Hóp þurfti að kaupa út selstöðu. Á á “selstöðu í heimalandi”. Ummerki eru eftir hana í Dalnum norðan við Hamranes, en þar má sjá hrunið fjárskjól með hlöðnum inngangi og grasi gríð dalverpi. Hlíðar Dalsins eru grasi grónar og seljalegar á að líta. Krýsuvík er sögð hafa tvær selstöður; “aðra til fjalls en aðra nálægt sjó, báðar merkilega góðar”. Þannig virðist Krýsuvík bæði hafa haft selstöðu á Vigdísarvöllum og líklega austan við Selöldu (eða í Húshólma).

Borgarhraun

Sel við Selskál.

Ísólfsskáli á ekki að hafa haft selstöðu, en nafnið Selskál í Fagradalsfjalli bendir til einhverra selnota þar. Hóp er sagt hafa þurft að kaupa út selstöðu, en tóftir nýrra sels frá Hópi er norðvestan undir Selshálsi vestan Hagafell. “Gálmatjörn” (Kalmannstjörn) er sögð hafa átt selstöðu, en “nú að mestu eyðilögð fyrir sandi”. Á Stafnesi er ekki minnst á selstöðu, en þó er vitað að bærinn hafði selstöðu skammt ofan við Djúpavog við Ósa. Vindás er sagt eiga “selstöðu í heiðinni”. Stakkavík “á jörðin yfrið erfiða, svo varla er hestum fært á fjöll upp, þarf og vatn til að flytja, nema votviðri gángi því meiri, og er hún fyrir þessara ókosta sakir í margt ár ekki brúkuð”.
Yfirleitt er þess getið að selstaða sé annað hvort vatnslaus eða “stórt mein af vatnsskorti”. Í Jarðabókinni er þess jafnan getið hvort selstaðan hafi haft aðgang að vatni, það slæmt eða alls ekkert. Er að sjá sem vatnið hafi verið ein af forsendunum fyrir vali á góðu selstæði.

Blikdalur

Selin í Blikdal – uppdráttur ÓSÁ.

Kaldársel

Sesselja Guðmundsdóttir tók í janúar 2002 saman upplýsingar um sel, sem getið er um í Jarðabókinni 1703. Þau eru eftirfarandi:

Gullbringu-og Kjósarsýsla.
Árnessýsla
Nefnd sel og eða selstöður.

Grindavíkurhreppur
1. Krisevik:
“Selstöður tvær á jörðin, aðra til fjalls en aðra nálægt sjó, báðar merkilega góðar. Og mega þær nýta hjálegumenn og bóndi.“ Skógur í landinu.
2. Isólfs Skále:
Ekki nefnd selstað en eiga skóg í Suðurnesja almenningum.
3. Hraun:
“Selstaða langt í frá og þó sæmilega góð.“ (sel í Þrenglsum).
4. Þorkötlu stader:
“Selstöðu brúkar jörðin og hefur lengi brúkað í Krýsivíkurlandi, þar sem heitir á Vigdísarvöllum, segja menn að selstaðan sje ljeð frá Krýsivík, en Krýsivík aftur ljeð skipstaða fyrir Þorkötlustaða landi. Er selstaðan að sönnu góð, en mikillega lángt og erfitt til að sækja.“
5. Hóp:
“Selstöðu þarf út að kaupa.“
6. Jarngerdar stader:
“Selstöðu hefur jörðin og brúkar enn nú þar sem heita Baðsvellir, og kvarta menn um að þar sjeu hagar oflitlir og þröngvir. Item sje þar stórt mein að vatnsleysi, þá þerrar eru, og fyrir þessa lesti selstöðunnar segja menn fulla nauðsyn til að kaupa selstöðu annarstaðar. Þessa brúkar bóndinn alleina.“
7. Husa Tofter:
„Selstöðu hefur jörðin lángvaranlega haft þar sem heitir á Selsvöllum, er þángað bæði lángt og erfitt að sækja.“
8. Stadur í Grindavík:
„Selstaða góð til haga, en lángt og erfitt til að sækja, hefur þó hjeðan frá staðnu brúkuð verið 1xxx ár á Selsvöllum.“

Hafnahreppur
9. Gálmatjörn:
“Selstöðu hefur jörðin átt sem nú er að mestu eyðilögð fyrir sandi, og verður því valla eður ekki brúkuð, og er augljóst að snart muni hún að öngvu liði verða.“
10. Merke Nes:
“Selstaða mjög haglítil og vatnslaus, so þíða verður snjó fyrir peníng, um sumur, þegar hann bregst, er ekki vært í selinu.“
11. Kyrkiu Vogur:
“Selstaða ei allfjarri. Mjög haglítil. En vatnsból í selinu mjög erfitt, so að á hestum þarf til að flytja um hásumar.“
12. Gamle Kyrkiu Vogur:
“Forn eyðijörð, hefur legið í auðn yfir stórt hundrað ár. Eru munnmæli að Kirkjuvogs bær sje þaðan fluttur, þángað sem nú stendur hann, og vill þá þetta bæjarstæði í Kirkjuvogslandi verið hafa. Aðrir halda að þetta bæjarstæði sje í Stafness landi.“
Gamle Kirkiuvogur: “ …. Nú að fleirum kringumstæðum betur yfirveguðum sýnist að sitt hafi hver bær verið, Kirkjuvogur, sem nú er bygður, og þessi gamli Kirkjuvogur, sem af gömlum documentum ráða er, að heitið hafi til forna Djúpivogur. . .“
13. Stafnes:
Ekkert minnt á selstöðu.
14. Basendar:
Kaupstaður. Nefndar eru 12 hjáleigur í landinu, í eyði fyrir 1-40 árum, landbrot og uppblástur.
15. Hualsnes:
“Selstöður tvær er sagt að kirkjan eigi, og eru nú báðar þær næsta því ónýtar fyrir grasleysi, og önnur aldeilis vatnslaus, so er og mestalt land jarðarinnar komið í sand, grjót og hrjóstur.“
16. Maasbuder:
“Tún fordjarfast stórkostlega af sands og sjáfar ágángi, og hefur sjórinn fyrir innan sjötíi ár brotið sig í gegnum túnið á tvo vegu, þar sem áður var svarffast land, so að nú stendur bærinn á umflotinni eyju, og fer þetta landbrot árlega í vöxt, so að nú er þar ekki fært yfir með stórstraumsflæði nema með brú, sem að brim brýtur af um vetur, og er það eitt með stærstum meinum ábúandans . . .“
17. Melaberg:
“Eyðijörð, hefur legið í auðn yfir hundrað ár.“

Vatnsleysustrandar hreppur
18. Innre Niardvik:
“Selstaða mjög haglítil.“
19. Storu Vogar:
“Selstöðu vissa á jörðin eina nærri þar sem kallað er Vogaholt, aðra vill hún eigna sjer þar sem heitir Fagridalur, en þar um eru misgreiningar, því Járngerðarstaðarmenn í Grindavík vilja eigna sjer þessa selstöðu, þó segja menn, að Fagridalur liggi fyrir norðan og vestan þann fjallahrygg, sem hæðst liggur millum Grindavíkur og Vatnsleysustrandar.“
20. Minne Vogar:
“Selstöðu brúkar jörðin frí hina sömu sem Stóru Vogar.“
21. Brunnastader:
“Selstöðu hefur jörðin við fjallgarð, eru þar hagar litlir, en vatnsskortur að miklu meini, þegar þerrar gánga.'“
22. Hlodunes:
“Selstöðu á jörðin þar sem heitir Hlöðuneskinn, og eru þar hagar bjarglegir en vatnsból í lakasta máta, so orðið hefur fyrir vatnsskort að flytja heim úr selinu.“
23. Stóru Aslaksstader:
“Selstöðu á jörðin frí þar sem heita Knararness sel, og eru þar hagar í lakasta máta en vatnsbrestur til stórmeina.“
24. Minne Aslakstader:
Sama selstaða.
25. Litla Knararnes:
Sama selstaða.
26. Stóra Knararnes:
“Selstaða þar sem heitir Knararness sel; eru hagar litlir mjög, en vatnsskortur til stórmeina, so að selstöðuna hafa menn næsta því forlátið, og kaupir bóndinn nokkrum sinnum selstöðu í fjarlægð.“
27. Breida Gierde:
Sama selstaða.
28. Audnar:
“Selstöðu á jörðin og brúkar þar sem kallað er Auðnasel, þar eru hagar nýtandi, en vatnsskortur til stórmeina margoft.“
29. Þorustader:
“Selstöðu á jörðin þar sem kallaðar eru Fornuselshæðir, þar eru hagar næsta að þrotum komnir, en vatnsból so lakt, að fyrir þann skort er selstaðan aflögð orðin, og hefur því bóndinn selstöðu að annara láni með miklum óhægðum og lángt í burtu.“ (tel að þarna sé átt við Sogasel. S.G.)
30. Kalfatiörn:
“Selstöðu á staðurinn þar sem kallað er Sogasel, og er í Stóru-Vatnsleysu landi; áður hefur hann og brúkað selstöðu þar sem staður á sjálfur land, þar sem heitir Fornuselshæði (svo hdr), þar er mein stórt að vatnsbresti og hagar naumir, en í Sogaseli skortir hvorki vatn nje gras, þó er þángað lángt og erfitt að sækja.“
31. Backe:
“Selstöðu brúkar jörðin ásamt staðarhaldaranum í Sogaseli í Stóru-Vatnsleysu landi.“
32. Fleckuvík:
“Selstöðu á jörðin og brúkar þar sem heitir Flekkuvíkursel, eru þar hagar viðsæmandi, en stórt mein að vatnsleysi, og báglegt eldiviðartak.“
33. Minne Vatnsleisa:
“Selstöðu segja menn jörðin eigi þar sem heitir Oddafell, og er þángað bæði lángt og erfitt að sækja, eru þar hjálplegir hagar og vatn nægilegt.“
34. Stóra Vatnsleisa:
“Selstöðu á jörðin þar sem heitir Rauðhólssel, eru þar hagar viðsæmandi, en stórt mein á vatnsskorti.“
35. Huassahraun:
“Selstöðu á jörðin þar sem heitir Hvassahraunssel; hagar eru þar sæmilegir en vatnsból brestur til stórmeina.“

Álftanesshreppur
36. Lónakot.
„Seltöðu á jörðin í egin landi, og eru hagar þar góðir, en þegar þurkur gengur, verður þar stórt mein að vatnsskorti.“
37. Ottarstader.
„Selstöðu á jörðin í Lónakotslandi, so sem á mót þeim skipsuppsátrum, er Lónakotsmenn hafa við Óttarstaði.“
38. Straumur.
„Selstöðu á jörðin þar sem heitir Straumssel, þar eru hagar slæmir, en oft mein að vatnsskorti þá þurkar gánga.“
39. Þorbiarnarstader.
“Selstöðu á jörðin þar sem kallað er Gjásel, þar eru hagar góðir, en vatn slæmt.“
40. Lambhæge.
“Selstöðu brúkar jörðin ásamt Þorbjarnarstöðum þar sem heitir Gjásel, eru þar hagar góðir en vatn slæmt.“
41. Ás.
“Selstöðu á jörðin í heimalandi, eru þar hagar sæmilegir og vatnsból gott.“
42. Ofridarstader.
„Selstöðu á jörðin í heimalandi, eru þar hagar sæmilegir en vatnsskortur mikill, og hefur því til forna bóndinn neyðst til að færa selið að eður í Ássland, og fyrir það halda sumir að Áss haf skipstöðu eignast í Ófriðastaðarlandi sem áður greinir.“
43. Hamarskot.
“Selstöðu eigna nokkrir jörðinni í Garðakirkjulandi þar nærri sem heitir Sljettahlíð hjá hellir nokkrum og skuli þar kallast enn í dag Hamarskotssel.“
44. Setberg.
„Selstöðu á jörðin þar sem heitir Kietsheller, eru þar hagar góðir, en vatnsból ekkert nema snjór í gjá, sem sólarhiti bræðir.“
45. Gardar.
“Selstöðu á staðurinn þar sem heitir við Kaldá, þar eru bæði hagar og vatnsból gott.“
46. Sandhus.
„Selstöðu á jörðin og hefur brúkað átölulaust þar sem heita Norðurhellrar.“
47. Hlid.
„Selstöðu hefur jörðin haft þar sem heita Norðurhellrar, þó ei ummælalaust af Garðastaðarhaldara, en ei hefur sú misgreining til laga komið.“
48. Mölshus.
„Selstöðu hefur jörðin brúkað þar sem heita Norðurhellrar.“
49. Brecka.
„Selstöðu hefur jörðin brúkað þar sem heita Norðruhellrar.“
50. Sualbarde.
„Selstöðu hefur jörðin brúkað þar sem heita Norðurhellrar.“
51. Suidhollt.
„Selstöðu hefur jörðin brúkað í Norðurhellrum.“
52. Deild.
„Selstaða hefur brúkuð verið til forna í Norðurhellrum.“
53. Selskard.
„Selstöðu má jörðin brúka í staðarins landi.“

Seltjarnarnesshreppur
54. Lambastader.
„Selstöðu þykjast nokkrir heyrt hafa jörðinni eignaða þar sem heitir undir Selfjalli og kallað er Lambastaðasel.“
55. Nes.
“Selstaða er jörðinni eignuð þar sem heitir Nessel í Seljadal undir Grímafelli, og hefur um lánga stund ekki brúkuð verið.“
56. Erfersey.
“Selstöðu á jörðin undir Selfjalli þar sem heitir Erferseyjarsel.“
57. Reikiavík.
“Selstaða er jörðunni eignuð þar sem heitir Víkursel undir Undirhlíðum; sumir kalla það gamla Víkursel; þar hefur jörðin brúkað hrís til eldiviðar fyrir selsins nauðsyn.“
Selvogur.
58. Snióthús.
“Selstöðu brúkar jörðin í óskiftum úthögum, sem hún hefur saman við Nesmenn haft og brúkað ómótmælt so lángt menn minnast.“ . . . „Vötn engin nema sjóstemma, og er það flutt á hestum til seljanna á sumardag, en kvikfje rekið meir en fjórðúng þingmannaleiðar til vatns.“ (37,5 km/4 = 9,4 km, aths. S.G.).
59. Nes.
“Selstaða vatnslaus sem áður segir um Snjóthús.“
60. Biarnastader.
“Selstaða lángt í frá og vatnslaus sem áður segir um Nes og Snjóthús.“
61. Gata.
“Selstöðu brúkar jörðin í sama stað sem Bjarnastaðamenn, og hefur það verið tollfrí og átölulaust það lengst menn minnast.“
62. Þorkelsgerde.
“Selstaða vatnslaus ut supra.“
63. Eima.
“Selstöðu brúkar jörðin í heiðinni, vatnslausa so sem aðrir.“
64. Windás.
“Selstaða í heiðinni vatnslaus sem annarstaðar.“
65. Straund.
“Selstöðu á jörðin gangvæna í eigin landi, en þó vatnslausa nærri sjer, nema votviðri tilfalli, þó er hjer skemra til vatns en annarstaðar hjer í sveitum frá seljum.“
66. Wogshús.
“Selstöðu á jörðin í Hlíðarlandi og færa menn þó vatn til selfólks brúkunar, en kvikfje er vatnað stórbágindalaust í Hlíðarlandi“
67. Stackawijk
“Selstöðu á jörðin yfrið erfiða, so valla er hestum fært á fjöll upp, þarf og vatn til að flytja, nema votviðri gángi því meiri, og er hún fyrir þessara ókosta sakir í margt ár ekki brúkuð.“
68. Herdijsarwijk
“ Selstöðu eigna menn jörðinni í Krísivíkurlandi, þar sem enn heitir Herdísarvíkursel. Ekki brúkast hún nú í nokkur ár, heldur önnur í heimalandi.“

Ölfus
69. Breiðabólsstaðarsel
„Inn af Löngudölum eru aðrir, grösugir dalir sem heita Kvíadalir. Eru klettabríkur milli þeirra. Mesta bríkin heitir Kvíadalaberg, nokkurra metra hátt standberf, sem horfir mót austri. Austan undan því eru allgreinilegar rústir. Þar stóð Breiðabólsstaðarsel. Tætturnar eru: 1) Tvö hús sambyggð, úti á grundinni, utanmál 6 m. lengd og 13 m. breidd, beggja húsanna. 2) Eitt hús upp við bergið, utanmá þess: 6 m. breidd og 5 m. lengd. 3) Lítið hús rétt við hlið hins, um 2 m. sinnum 2 m. að utanmáli.“
70. Litlalandssel
„upp á fjallinu, ofan Lyngbrekkna og Grislingahlíðar, er hraun austur frá Búrfelli. Það heitir Litlalandshraun. Í því austarlega er Litlalandssel, í stefnu frá Búrfelli á Kerlingarberg.“
71. Hlíðarendasel
„Á miðri leið frá Búrfelli inn að Geitarfelli er Hlíðarendasel, í stefnu af Búrfelli á Hrútagil.“