Færslur

Andvari

 Jarðskjálftar vekja jafnan ugg og ótta með fólki, þá sjaldan sem þeir verða á sérhverri mannsævi. Þeir eru þó algengari en í fyrstu virðist. Þorvaldur Thoroddsen skrifaði “Um jarðskjálfta” í Andvara árið 1882:

Þorvaldur Thoroddsen

Þorvaldur Thoroddsen; 1855-1921.

“Það er naumlega hægt að ímynda sér nokkuð óttalegra en mikinn jarðskjálfta, jörðin titrar og skelfur og gengur upp og niður eins og bylgjur á sæ, fjöllin klofna, jarðvegurinn rifnar í sundur, ár falla úr farvegi sínum og þorna upp, brunnar og uppsprettur hverfa, hús og hallir falla til grunna og drepa hverja skepnu, sem undir verður, hafið sogast frá ströndinni en kemur aptur hvítfyssandi og gleypir borgir og bæi, kastar skipum á þurrt land og fiytur hús út á reginhaf; jarðvegurinn umturnast allur og breytist, neðanjarðar heyrast dunur og dýnkir og hver skepna stendur höggdofa og hyggur kominn heimsenda. Fyrir slíkum undrum eru menn hvergi óhultir, hvorki ofanjarðar né neðan, námur falla saman og kviksetja málmnemana og sterkustu byggingar manna hrynja eins og spilahús við lítinn gust. Það er því eigi undarlegt þó ótti og skelfing grípi hvern mann, þegar jarðvegurinn, sem vér frá blautu barnsbeini höfum álitið fastan og óhreyfanlegan, leikur á reiðiskjálfi og tjón og dauði hvervetna er í vændum.

Flekaskil

Flekaskilin um Ísland – jarðskjálftakort 2010.

Þó jarðskjálftar hafi hér á Íslandi sjaldan gert stóran skaða, þá hafa þeir þó annarsstaðar orðið mörgum manni að bana. Hreyfing sú, sem kemur á jarðarskorpuna við jarðskjálfta, er ýmisleg. Við lítla jarðskjálfta titrar jörðin opt aðeins lítið eitt, svo að glös hreyfast á hillum og hús skjálfa nokkuð, en þegar meira gengur á, gengur jörðin i bylgjum upp og niður; þessi bylgjuhreyfing getur orðið svo mikil, að sjá má hvernig landspildurnar hefjast og falla eins og öldur á sæ. Slíkir landskjálftar ná opt yfir stór svæði, en eru þó ekki mjög hættulegir, þegar bylgjuhreyfingin gengur í eina stefnu, en stundum mætast tvær eða fleiri bylgjuraðir í jarðarskorpunni.

Sprungur

Sprungumyndun eftir jarðskjálfta.

Stundum koma jarðskjálftar fram sem högg eða kippir beint upp (succurroriskir jarðskjálftar), og hvað sem fyrir þeim verður, þeytist upp og brotnar; þegar svo ber undir hefjast hús af grundvelli sínum og klettar hoppa upp og niður.
Útbreiðsla jarðskjálftanna getur verið ýmisleg, stundum er styrkleikur þeirra mestur á einhverjum vissum stað og jarðskjálftabylgjurnar breiðast út til allra hliða alveg eins og bylgjur á vatni, þegar steini er í það kastað; þeir landshlutir, sem eru í miðdepli skjálftans, verða þá fyrir mestum skemmdum og ágangi; opt verður það þá, þegar margir kippir koma hver eptir annan, að miðdepill jarðskjálftans breytist og hreyfist þá aptur á bak eða fram í beina stefnu.

Ölfus

Arnarbæli 1896 – eftir jarðskjálfta á Suðurlandi.

Hreyfing og hraði jarðskjálftabylgnanna eru að miklu leyti komin undir bygging jarðlaganna og eptir því, hverjar bergtegundir verða á vegi þeirra. Styrkleiki og útbreiðsla jarðskjálftanna er því mjög ýmisleg á ýmsum stöðum eptir því, hvort jarðvegurinn er fastur eða laus í sér, þéttur eða sprunginn, samsettur af einni bergtegund eða fleirum. Þar sem jarðvegurinn er samsettur af föstum klettum af sömu bergtegund, fara jarðskjálftabylgjurnar um landið með jöfnum hraða og breiðast jafnt út til allra hliða, án þess að gjöra mjög mikinn skaða, en þar sem sandur er í jarðveginum og sundurbrotnar og sundurklofnar bergtegundir, verða bylgjurnar ójafnar og óreglulegar; allt verður í mesta glundroða og hús og borgir hrapa og brotna í mola; þó eru jarðskjálftabylgjurnar einkum hættulegar, þar sem sandlög hvíla á föstum grunni.

Grindavík

Þórkötlustaðaréttin í Grindavík eftir jarðskjálfta 31. júlí 2022.

Sandurinn hoppar og kastast saman í hrúgur og því lausara sem samhengið er, því meira umturnast jarðlögin; jarðskjálftinn breiðist þá eigi um mikið svæði, en gjörir mikinn skaða þar sem hann er. Útbreiðsla landskjálftans er því alveg bundin við lögun og samsetningu jarðlaganna sem hann verkar á. Djúpar glufur og gjár í jarðveginum geta alveg hindrað útbreiðslu landskjálftans, og eins er farið þar sem margskonar jarðlög og breytileg skiptast á á litlu svæði.

Grindavík

Grindavík – jarðskjálftar í nóv. 2023.

Jarðskjálftar eru eins og áður var sagt mjög tíðir á jörðunni og geta komið nærri alstaðar; þó eru þeir tíðastir nálægt eldfjöllum. Jarðskjálftakippir eru eigi beinlínis bundnir við neina sérstaka byggingu landanna., þeir hafa jafnt fundizt og gjört, skaða á sléttlendum sem hálendum; þeir eru heldur eigi bundnir við neinn vissan áratíma, né nokkurn sérstakan tíma dags, slíkt getur borið við jafnt á nótt, sem degi og eins á sjó sem landi.
Þegar jarðskjálfti verður á sjávarbotni langt frá landi, finnst við það á skipum snöggur kippur alveg eins og þau snögglega hefði rekizt á sker. 1845 þegar Hekla gaus, fannst kippur svo mikill á skipi sem ætlaði frá Keflavík til Reykjavíkur, að hásetar héldu að þeir hefðu siglt upp á sker.

Gljúfurárholt

Gljúfurárholt eftir jarðskjálfta 1896.

Hvergi eru sæskjálftar eins tíðir og á miðju Atlantshafi. Ef jarðskjálftinn nær upp að einhverri strönd, þá verða þar mestar breytingar og mestur skaðinn. Sjórinn sogast snögglega langt út frá landi og kemur svo aptur með ótrúlegu afli langt upp á land og brýtur allt, og bramlar, er fyrir verður, stór skip flytjast upp á land og sjórinn flæðir yfir borgir og bæi, drekkir öllu kviku sem þar er, brýtur húsin og fyllir göturnar með leir, malargrjóti og þangi.
Það er eigi sjaldgæft að dýnkir heyrast neðan jarðar við jarðskjálfta. Dýnkirnir eru ýmislegir, stundum eins og drynjandi fallbyssuhvellir, stundum eins og skrölt eða hringl, stundum brak og brestir; slíkt verður opt við eldgos og heyrist langt frá eldfjöllunum, jafnvel þó engin hreyfing finnist.

Katla

Kötlugos 1918.

Við Kötlugosið 1860 heyrðust dýnkir um Borgarfjörð og allt Suðurland. 1845 þegar Hekla gaus, heyrðust dýnkirnir og fannst til jarðskjálfta norður í Grímsey.
Það er eigi sjaldgæft að fljót þorna upp við jarðskjálfta og breyta farvegi sínum, af því ýmsar sprungur koma í jarðveginn sem breyta vatnsrennslinu. Sprungur koma helzt þar sem jarðvegur er laus í sér, fram með fljótsbökkum, í fjallahlíðum o.s.frv. Upp úr sprungunum koma opt um leið og þær myndast rykský, sandur,
vatn eða leir. Stundum hafa menn þókzt sjá loga og reyk koma upp úr jarðsprungum, þó eru flestar sagnir um það naumlega áreiðanlegar; að minnsta kosti þyrfti það nánari rannsókna; rykský geta opt litið út líkt og reykur.
Sprungurnar ganga optast eptir beinum stefnum eins og sprungurnar er komu við Húsavík 1872; þær ganga frá norðri til suðurs.

Dalvík

Dalvík 2. júní 1934. Skjálft­inn mæld­ist af stærð 6,2.

Einstaka sinnum hafa við jarðskjálfta myndast sprungur, er ganga eins og geislar út frá einum miðpúnkt og þá er vanalega djúp hola í miðjunni. Opt kemur það fyrir, að jarðsprungur myndast án þess þær sjáist á yfirborðinu, en þær raska þá legu lækja og áa, sem fyrr var getið, brunnar þorna upp og hverfa eða það lækkar í þeirn og vatnið verður hvítt eða mórautt af leir, sem blandast saman við það. Stundum hverfa hverir og laugar við jarðskjálfta og koma þá stundum upp aptur á öðrum stöðum; 1597 hvarf t.d. Geysir í Hveragerði fyrir neðan Reyki í Ölvesi, en kom svo fram aptur fyrir ofan túnið. Þessu líkt hefir opt orðið við jarðskjálfta á Íslandi, sem síðar mun getið. Stundum breytist og hiti hveranna við landskjálfta, hverar verða að laugum og laugar að hverum.

Dalvík

Frá Dalvík 1934.

Fjöllin verða opt fyrir miklum ágangi af landskjálftum, stórar skriður falla niður eptir hlíðunum hver á eptir aðra og eyða byggð og graslendi fyrir neðan. Með því að safna saman fregnum um ótal jarðskjálfta, þykjast menn hafa fundið að þeir séu tíðari um haust og vetur en á vorin og á sumrum.
Eins og eðlilegt er verður hver skepna hrædd, þegar jarðskjálfti verður, og er það eigi undarlegt, en skrítið er það, að það sýnist svo sem ýms dýr verði óróleg á undan jarðskjálfta. Það getur verið að þetta orsakist af því, að þau taki eptir litlum titringi og smáhreyfingum, er landskjálftinn byrjar með og sem vér eigi verðum varir við.

Dalvík

Dalvík 1934.

Eptir þessar almennu hugleiðingar um jarðskjálftana, skulum vér fara nokkrum orðum um einstaka mikla jarðskjálfta, sem í minnum eru hafðir, til þess að vér getum gjört oss í hugarlund hvernig þeir verka undir ýmsum kringumstæðum, og til þess að sjá hvaða áhrif þeir hafa.
Ef menn athuga sprungur og rifur í húsum og múrum í héraði því, sem hefir orðið fyrir jarðskjálftanum, þá sjá menn miðpúnkt jarðskjálftans á legu þeirra og stefnu, því eptir aflfræðinni verða þær lóðrétt á landskjálftastefnunni. Séu nú línur dregnar eptir þessu frá öllum athugunarstöðum, sameinast þær á einum stað í jörðunni og þar hlýtur miðdepill jarðskjálftans að vera.

Dalvík

Nær helm­ing­ur íbúa á Dal­vík og ná­grenni varð fyr­ir því að íbúðar­hús þeirra skemmd­ust. Tjöld voru reist og einnig út­bú­in tjöld úr tré­grind­um og segldúk­um. Einnig voru út­bún­ar íbúðir t.d. í fisk­húsi og skóla­hús­inu. Gjaf­ir bár­ust víða að, pen­ing­ar, mat­væli og fleira til styrkt­ar bág­stödd­um Dal­vík­ing­um. Strax var haf­ist handa við end­ur­reisn. Ljós­mynd/​Vig­fús Sig­ur­geirs­son

Ef farið er eptir tímaákvörðunum og menn vita nákvæmlega hvenær kippurinn hefir fundizt á ýmsum stöðum í héraðinu, þá má á landabréfi draga línur á milli allra þeirra staða, sem á sama augnabliki hafa orðið fyrir jarðskjálftanum (homoseiste), og milli þeirra staða, sem jarðskjálftinn hefir verkað á með jöfnum krapti (isoseiste). Þeir staðir, sem á sama tíma hafa orðið fyrir jarðskjálftanum, verða þá að vera hér um bil jafnlangt frá miðdeplinum, ef hraði jarðskjálftabylgjunnar í gegnum jarðlögin hefir verið hinn sami í allar áttir. Á landabrélinu koma þá fram margir hringir hvor innan í öðrum og undir miðdepli þeirra hljóta upptök jarðskjálftans að vera. Hve langt þau eru niðri í jörðunni má svo reikna eptir tímanum og hraðanum. Til þess að finna upptök jarðskjálfta eptir sprungum og rifum verður kippurinn að hafa verið mjög sterkur, því slík missmíði koma að eins við harða kippi. Tímaákvarðanir má aptur á móti nota við alla jarðskjálfta, hve litlir sem þeir eru. Eptir styrkleika mikilla jarðskjálfta og skaða þeim, sem þeir gjöra, má og nokkurn veginu sjá hvar miðdepillinn er, því mest eyðist og skemmist þar.

Sandfell

Fyrir eldgosið í Öræfajökli árið 1362 hét byggðin sem Sandfell tilheyrði Litla-Hérað, en var endurnefnd Öræfi eftir að gosinu lauk. Þá tilheyrðu a.m.k. 30 bæir Litla-Héraði, allt frá Morsárdal og yfir að Breiðumörk. Gosið og jökulhlaupin fóru svo illa með byggðina að það sem áður var gjöfult landbúnaðarsvæði breyttist í mikla auðn. En þrátt fyrir þetta áfall byggðist sveitin upp aftur. Myndin er tekin 1902.

Jarðskjálftar eru tíðastir í þeim löndum, þar sem jarðlögin eru breytilegust, og þar sem randir jarðlaganna hafa mest breytt stöðu sinni innbyrðis og gengið á misvíxl. Jarðskjálftarnir koma opt eigi af öðru en því, að jarðlögin af ýmsum orsökum verða misþung, þegar vatn eða annað hefir sumstaðar bætt við, en borið nokkuð burt á öðrum stað; þá geta jarðlögin brostið þar, sem þau láta bezt undan; við það kemur þá kippur, sem hristir landið í kring. Þegar nú þrýstingaraaflið minnkar, geta jarðlagabrotin færzt til á ýmsan hátt og breyti stöðu sinni innbyrðis. Stundum getur þetta orðið hægar, að ein landspildan lyftst en önnur sígur, án þess hristingur komi í kring, þá gerist það smátt og smátt, þannig hefjast lönd og síga, eins og fyrr hefir verið sagt. Af þessu má sjá, að jarðskjálftarnir og hreyfingar þær, sem þeim eru skyldar, hljóta að hafa stórkostlega þýðingu fyrir jarðmyndunina í heild sinni. Þó fer fjarri því, að öllum jarðskjálftum sé svo varið; orsakir þeirra geta verið þrennskonar:

Eldgos

Eldgos í Fagradalsfjalli ofan Grindavíkur 2021.

1. Við eldgos koma opt jarðskjálftar í kringum eldfjöllin, þeir ná sjaldan yfir mjög stórt svæði, miðdepillinn er þá í eldfjallinu eða undir því. Slíkir jarðskjálftar koma vanalega á undan gosunum og orsakast af því, að logandi hraun er að brjótast upp um rifur í jarðarskorpunni og vatnsgufur, sem hafa niðri í jörðunni verið undir miklum þunga og þrýstingi, koma snögglega upp og hrista landið í kring, um leið og þær leysast úr dróma, eða með öðrum orðum þenjast út.
2. Jarðskjálftar geta komið af því, að vatn hefir skolað jarðveginn burt undan stórum landspildum, sem þá falla niður og hrista landið.

Sprunga

Afleiðingar jarðskálfta.

3. Af misjöfnum þrýstingi og þunga jarðlaganna, sem fyrr var getið. Annaðhvort mynda þau nýjar glufur í jarðskorpunni, eða fylgja gömlum sprungum. Optast mun það þó vera, að fleira en eitt af þessu kemur jarðskjálftum til leiðar, ef t.d. jarðlögin breyta innbyrðis stöðu sinni, myndast sprungur eða gamlar glufur gliðna í sundur; við þetta verður hægra fyrir eldkraptana undir jarðarskorpunni að brjótast upp, vatn og sjór síast niður um glufurnar, verða að gufu þegar þau koma við glóandi eimyrjuna, spenna síðan hraunleðju upp um sprungurnar og hrista landið í kring um eldfjallið.

Sprunga

Sprunga í Þorbjarnarfelli eftir jarðskjálfta.

Snemma hafa menn farið að taka eptir jarðskjálftum og reynt að gjöra sjer í hugarlund hvernig á þeim stæði. Hafa menn um það opt haft mjög misjafnar skoðanir, og undarlegar, einkum framan af, áður en menn fóru að veita náttúruviðburðunum nákvæma eptirtekt, og bera saman öll áhrif þeirra. Það gæti því ef til vill einhverjum þótt gaman, að heyra hvað menn á ýmsum öldum hafa hugsað og ritað um þá, þó það í sjálfu sér eigi hafi aðra þýðingu en þá, að sýna hvernig menn smátt og smátt frá vanþekkingu og getgátum, hafa eins í þessu og öðru loksins eptir langa mæðu, komizt að nokkrum hluta sannleikans.

Sprunga

Sprunga opnast eftir jarðskjálfta.

Á Íslandi hafa sjaldan orðið þeir jarðskjálftar, sem mannskaði mikill hefir orðið að, af því landið er svo strjálbyggt og borgir engar. Jarðskjálftar á Íslandi hafa optast staðið í nánu sambandi við eldgos og komið belzt í þeim héruðum, sem eru nálægt eldfjöllum. Hér munum vér þá telja jarðskjálfta, sem orðið hafa á Íslandi svo sögur fara af. Eldgos eru hér aðeins nefnd, þegar þess er getið í frásögunum að jarðskjálftar hafi verið þeim samfara og þeim er hér eigi lýst neitt, hinum er sleppt, sem engir landskjálftar hafa fylgt, sem í frásögur eru færðir. Hér er víðast hvar farið sem næst orðum annála þeirra og rita, sem þetta er tekið úr.
1013. Landskjálftar miklir og létust 11 menn.

Trölladyngja

Trölladyngja og nágrenni.

1151. Eldur uppi í Trölladyngjum, húsrið og manndauði.
1157. Eldsuppkoma í Heklu 19. janúar og landskjálfti sá, er manndauði varð af.
1164- Landskjálfti í Grímsnesi og létust 19 menn4.
1182. Landskjálfti og dóu 11 menn.
1211. Eldur fyrir Eeykjanesi. Þá varð landskjálfti mikill fyrir sunnan land hinn næsta dag fyrir Seljumannamessu (7. júlí) og létu margir menn líf sitt (18 segja sumir) og féll ofan alhýsi á fjölda bæjum og gjörði hinn stærsta skaða.
Reykjaneseldar1240. Eldur fyrir Reykjanesi. Landskjálftar miklir fyrir sunnan land.
1260. Landskjálfti hinn mikli norður í Flatey.
1294. Eldur í Heklu með miklum landskjálfta, víða féllu hús um Fljótshlíð og Rangárvelli og svo fyrir utan Þjórsá, sprakk jörð og týndust menn. Hjá Haukadal komu upp hverar stórir, en sumir hurfu þeir sem áður voru. Á Húsatóptum hvarf og burt laug sú, er þar hafði áður alla æfi verið. Þar rifnaði og sprakk svo djúpt að eigi sá niður. Brunnar urðu ásyndum sem mjólk 3 daga í Flagbjarnarholti.

Hekla

Heklugos – Larsen 1845.

1300. Mikið Heklugos. Landskjálfti svo mikill fyrir sunnan land, að ofan féll bær á Skarði eystra. Þar í kirkjunni var mikill málmpottur festur við brúnaásinn, honum barði svo við ræfur kirkjunnar af skjálftanum að braut pottinn. Kistur 2 stóðu í anddyrinu, þeim barði svo saman af jandskjálftanum að þær brotnuðu í smán mola.
1308. Landskjálfti fyrir sunnan land og féllu niður 18 bæir en 6 menn dóu.
1311. Landskjálfti næstu nótt eptir drottinsdag (það er nóttina milli 29. og 30. desember eða 10.—11. janúar á nokkrum stöðum. 25. janúar, eldgos á Suðurlandi líklega úr Kötlu.

Jarðskálfti

Þann 26. ágúst 1896 hófust á Suðurlandi einhverjir mestu jarðskjálftar, sem sögur fara af hér á landi. Fyrsti kippurinn var snarpastur í Rangárvallasýslu og í Eystri hrepp í Árnessýslu, þar sem fjölmargir bæir hrundu til grunna. Næsta morgun kom annar kippur og virtist hann hafa verið snarpastur í Hrunamannahreppi, en þar féllu nokkrir bæir. Að kvöldi 5. september kom enn mjög snarpur kippur, sem olli miklu tjóni í Holtum, Skeið og Flóa.

1339. Kom landskjálfti svo mikill fyrir sunnan land, að mönnum og fénaði hrastaði til jarðar svo að ónyttist. Hús féllu mest um Skeið og Flóa og Holtamannahrepp og víðast hið neðra milli Þjórsár og Eystri Rangár, en fjöldi bæja féllu allir til jarðar eða tók hús úr stað, létust nokkur börn og gamalmenni. Jörðin rifnaði víða til undirdjúpanna uppsprettandi heitt vatn og kalt. Hröpuðu fjöll og umhverfðist holt í Holtamannahreppi og færði úr stað. Menn duttu af baki á vegum og urðu að liggja á meðan landskjálftinn var. Þá kom upp hver í Henglafjöllum 10 faðma á hvern veg, þar sem áður var slétt jörð.
1341- Eldsuppkoma í Heklu. Dunur um allt land sem hjá væri og svo stórir voru dynkirnir, að landið skalf allt, svo að í fjarlægum héruðum hristust skjáir á húsum sem fyrir vindi hvössum um langan tíma og var þé kyrrt veður.
1370. Þá varð landskjálfti í Ölfusi og féllu 12 bæir.

Hekla

Fyrsta gosið í Heklu eftir landnám og jafnframt það mesta var 1104. Síðan hefur fjallið gosið 1158, 1206, 1222, 1294 (1300), 1341, 1389-1390, 1440, 1510, 1554, 1597, 1636, 1693, 1725, 1766, 1845, 1878, 1913, 1947, 1970, 1980-1981, 1991 og 2000.

1389. Heklugos, þá brunnu og Trölladyngjur og Síðujökull. Margir bæir féllu af landskjálftum.
1391. Landskjálfti mikill fyrir sunnan land um Grímsnes, Flóa og Ölfus svo að 14 bæi skók niður að nokkru leyti, en Miðengi, Búrfell og Laugardælar braut að öllu, nema kirkjan stóð í Laugardælum og dóu undir fátækir menn. Rifnaði víða jörðin og kom upp vatn, tók þessi landskjálfti allt til Holtavörðuheiðar.
1510. Heklugos 25. júlí. Þá fundust svo miklir landskjálftar i Skálholti, að menn hugðu að hús mundu hrapa, en varð þó ekki mein af.
1546. Jarðskjálfti um fardaga og kom hann mest í Ölfusi, því þar hrundu víða bæir og hús, Hjalli og allt Hjallahverfi hrapaði.
1552. Kom kippur kyndilmessukvöld svo allt hrundi það niður, sem laust var innan húsa, borðin, könnur og annað því um líkt.

Eldgos

Eldgos vekja jafnan mikla athygli. Undanfari þeirra eru jafnan jarðskjálftahrinur.

1554. Eldur uppi í Hekluhraunum um vorið milli krossmessu og fardaga. Voru svo miklir jarðskjálftar í hálfan mánuð að engi maður þorði inni í húsum að vera, heldur tjölduðu menn úti en hlupu snöggvast inn í húsin eptir því, sem þeir skyldu neyta þá í millum varð þvílíkra undra; en þar menn voru, þá héldu þeir sér í grasið, þá þessi undur að komu.
1578. Eldur uppi í Heklu um haustið og gjörði landskjálfta svo margir bæir hrundu í Ölfusi, hús hristust hálfa stund og var það eptir Allraheilagramessu.
1581. Varð jarðskjálfti milli krossmessu og fardaga. Þá hröpuðu víða bæir á Rangárvöllum og í Hvalhrepp og mannskaði varð þá víða, því þeir urðu undir húsunum. Á Bergvaði varð undir bænum kona komin að falli og tvævett barn, er hún átti, en hún komin í jörð þá hennar maður kom til. Einn maður varð undir í Lambhaga, bitinn brotnaði og kom á hálsinn á honum og víðar varð einn maður eða tveir undir.

Jarðskjálfti

Þann 26. ágúst 1896 hófust á Suðurlandi einhverjir mestu jarðskjálftar, sem sögur fara af hér á landi. Fyrsti kippurinn var snarpastur í Rangárvallasýslu og í Eystri hrepp í Árnessýslu, þar sem fjölmargir bæir hrundu til grunna. Næsta morgun kom annar kippur og virtist hann hafa verið snarpastur í Hrunamannahreppi, en þar féllu nokkrir bæir. Að kvöldi 5. september kom enn mjög snarpur kippur, sem olli miklu tjóni í Holtum, Skeið og Flóa.
Fólk var komið í háttinn þegar skjálfti 7,5 á Richter reið yfir. Síðan um 1700 hafa 7 jarðskjálftar verið á Suðurlandi og hafa haft styrkleika >VIII (1706, 1734, 1752, 1784, 1789, 1896 og 1912).
Svipað er að segja um Rangárvelli. Þar hafa bæir örugglega fallið 12 sinnum, líklega 17 sinnum, og þar hafa að minnsta kosti 5 jarðskjálftar siðan 1700 haft styrkleika >VIII eða 1725, 1732, 1784, 1896 og 1912. Aðeins einu sinni er vitað með vissu, að jarðskjálftar samfara byrjun Heklugoss hafi orðið svo sterkir, að bæir hafa hrunið, en líklegt, að það hafi skeð tvisvar eða þrisvar sinnum.

Katla

Kötlugos 1918.

1584. Landskjálfti mikill á Íslandi.
1597. Heklugos 8. janúar; fundust nokkrir landskjálftar í Skálholti er gosið byrjaði. Um vorið eptir þetta gos urðu miklir landskjálftar og hrundu margir bæir í Ölfusi. Í þeim landskjálfta hrapaði niður í grunn bærinn á Hjalla í Ölfusi. Þá hvarf og stóri hverinn Geysir í Hveragerði fyrir sunnan Reyki og kom upp aptur annar hver fyrir ofan túnið á Reykjum, sem er í dag og gýs mjög (nú [1881] hættur gosum) þó eigi sem hinn sá stóri hafði áður gosið, því um veginn hafði ei óhætt verið að fara, sem lá mjög nærri honum, svo sem enn má sjá vöxt og merki til, því þar er enn hverastæðið vítt með vellandi vatni og er þar langur vegur á milli, sem sá Geysir er, sem nú hefir síðan verið og áin á milli.
1613. Landskjálfti syðra, hrundu bæir; í þeim landskjálfta féll Fjall á Skeiðum að mestu. Þar á hlaðinu lá reiðingstorfa, sem hvarf í jarðskjálftanum, svo hún sást ei síðan.
1618. Gengu alltíðir jarðskjálftar bæði dag og nótt um haustið og fram að jólum, hröpuðu í einum þeirra 4 bæir norður í Þingeyjarþingi, þar sprakk jörð sundur svo varla varð yfir komizt.
1619. Heklugos, þá voru og landskjálftar eptir mitt sumar.
1624. Sífeldir jarðskjálftar frá Allraheilagramessu til Andrésmessu og varð vart við þá lengur, féllu í þeim 2 bæir suður í Flóa, fleiri lestust.
1625. Kötlugos sem byrjuðu 2. september, þá fundust nokkrir smáir jarðskjálftakippir í nánd.
1630. Jarðskjálftar þrír um veturinn, svo 6 menn urðu undir húsum fyrir austan Þjórsá.
1632. Landskjálfti um haustið.

Ölfus

Jarðskjálftasprungur eftir Suðurlandsskjálftana 17. og 21. júní árið 2000.

1633. Landskjálftar syðra, hrundu bæir í Ölfusi, ei sakaði menn né pening. Svo voru þessar hræringar tíðar að messufall varð á mörgum kirkjum allan þann vetur.
1643. Varð jarðskjálfti jólanóttina.
1657. Gengu landskjálftar miklir, svo tveir bæir féllu syðra, lá fólk í tjöldum á einum bæ í Fljótshlíð.
1658. Landskjálfti var á páskum.
1660. Kötlugos 3. nóvember. Það byrjaði með landskjálfta, sem varaði hérumbil eina stund.
1661. Landskjálftar um sumarið.
1668. Landskjálftar miklir um veturinn.
1671. Hús hrundu í Grímsnesi og Ölfusi af landskjálftum.
1693. Heklugos 13. febrúarmán. Þá fundust harðir landskjálftakippir á landi og sjó. Nokkrir bæir eyddust af öskufalli og jarðskjálftum.
1706. Miklir landskjálftar 1. dag aprílmánaðar, en þó einkum 20. s.m., hrundu þá hið seinna sinn 24 lögbýli mest um Ölfus og utarlega í Flóa og margar hjáleigur; molbrotnuðu viðir í húsum og húsin veltust um, svo undirstöður veggjanna urðu efstar, kofar og veik hús stóðu eptir sumstaðar þar sem hin sterkari féllu, matföng og búshlutir spilltust, kýr og kvikfénaður drápust víða, en ekki sakaði menn, nema eina konu. Þessar hræringar stóðu lengi fram eptir vorinu og voru því minni sem vestar dró, og það var rétt svo að þær fundust undir Jökli.

Katla

Kötlugosið 1918/Rangárbakki við Hellu – Málverk eftir ljósmynd frá 1918 (Magnús Guðnason, 1950)

1721. Kötlugos sem byrjaði 11. maí, kl. 9. e.m. Um morguninn sama dag kl. 9 á undan gosinu kom svo mikill jarðskjálfti á Höfðabrekku og víða í Mýrdalnum, að menn þorðu ekki að vera inni í húsum. Þessi jarðskjálfti fannst austur í Lóni og í öllum sveitum þar í milli. Einnig fannst hann út til Rangárvalla.
1724. Byrjuðu mikil gos við Mývatn og héldust þangað til 1730. 17. mai 1724 byrjuðu gosin með ógurlegum jarðskjálftum. Þá kófst landið töluvert sumstaðar við Mývatn.
1725. Gaus Leirhnúkur 11. janúar og fylgðu jarðskjálftar gosunum. 19. apríl s.a. gaus Bjarnarflag og gengu á undan stórkostlegir landskjálftar og svo eptir við og við allt árið. Harðastir voru kippirnir 8. september. Árin 1727—30 voru jarðskjálftar og mjög tíðir við Mývatn og breyttu víða mjög landslagi; stórar landspildur sukku en aðrar hófust, sumstaðar kom upp vatn og sumstaðar mynduðust mílulangar sprungur.

Öræfajökull

Aðeins tvö gos hafa orðið í Öræfajökli eftir landnám.  Það fyrra er reyndar mesta sprengigos sem orðið hefur hér á landi frá því land byggðist.  Þetta gos sem varð árið 1362 er ennfremur það mannskæðasta sem orðið hefur hér á landi ef frá er talið mannfallið sem varð óbeint vegna Skaftárelda árið 1783.  
Öræfajökull gaus svo aftur árið 1727.

1727. Gaus Öræfajökull 3. ágúst. Þá fundust nokkrir jarðskjálftar í Öræfum 3. og 4. ágúst, um það leyti sem gosið byrjaði.
1732. Þá varð hinn 7. september landskjálfti svo mikill á Rangárvöllum, að spilltust nær 40 bæir þar um land og í Eystrahrepp, en 11 eða 12 bæir hrundu nær í grunn og meiddust 3 eða 4 menn, lágu menn þá í tjöldum því landskjálftinn hélzt um tvær vikur.
1734. Varð allmikill landskjálfti og fannst um allan Sunnlendingafjórðung, hrundu bæir í Flóa og víðar í Árnessýslu hrundu 30 bæir alls, en 60 eða 70 býli spilltust og létust við það 7 menn eða 8.
1749. Þá varð allmikill jarðskjálfti á Suðurlandi og mestur um Ölfus, húsum lá við hruni og á bænum Hjalla sökk grundvöllur undir bæ og kirkju fullar 2 álnir.
1752. Landskjálftar voru þann vetur í Ölfusi og hrundu 11 bæir.

Austurengjahver

Austurengjahver (Stórihver) í Krýsuvík.

1754. Landskjálfti í Krýsuvík og kom þar upp 6 faðma víður hver og 3 faðma djúpur; þá var og eldur uppi í Hekluhraunum.
1755. Urðu miklir jarðskjálftar á Norðurlandi. Kringum Húsavík voru þeir harðastir; þar hrundu 10. september 13 bæir til grunna en 7 skemmdust. Jarðskjálftinn var einna harðastur kringum verzlunarbúðina, hún færðist nokkra þumlunga úr stað; verzlunarvörur skemmdust og tunnur börðust saman og brotnuðu. Eigi varð jarðskjálfti þessi neinum manni að bana. Í kringum Húsavík komu ótal djúpar sprungur og lækir urðu gruggugir sem skolavatn. Jarðskjálftinn var og mjög harður í Skagafirði, en linari í Húnavatussýslu.

Sprengigos

Sprengigos.

1766. Heklugos, gosið byrjaði 5. apríl, urn nóttina á undan gengu jarðskjálftar í héruðunum kringum Heklu. Á meðan á gosunum stóð, gengu ótal jarðskjálftar, einkum suðvestur frá Heklu, bæir féllu í Árnessýslu og á Reykjanesi og Vestmanneyjum voru kippirnir mjög harðir; optast komu 2—4 kippir á kverjum 21 klukkustundum. 9. og 10. september féllu þrír bæir í Ölfusi.
1783. Gos fyrir Reykjanesi, og síðan fyrir ofan Síðumannaafrétt við Skaptárgljúfur í Varmárdal, Úlfarsdal og norðar. Gosin byrjuðu 8. júní, en frá því 1. júní, höfðu miklir jarðskjálftar gengið um alla Skaptafellssýslu. Alltaf fundust jarðskjálftakippir meðan á gosunum stóð, en einkum þó 24. október; í janúar 1784 gengu og sífeldir jarðskjálftar þar í grennd.
1784. Þá gengu 14.—16. ágúst einhverjir hinir mestu jarðskjálftar, sem nokkurn tíma bafa komið á Íslandi.

Ölfus

Ölfusölkelda á Hengilssvæðinu.

1789. Miklir jarðskjálflar í Árnessýslu 10. júní. Þá hrundu hús um allt Suðausturland, og lágu menn víða í tjöldum, því opt varð vart við þá um sumarið. Urðu þá víða sprungur í jörðu, t.d. á Hellisheiði), og nýir hverar. Þá umbreyttist nokkuð Þingvallahraun, og svo vatnið, svo að sökk grundvöllur vatnsins að norðan, og dýpkaði það þeim megin og hljóp á land, en alfaravegur forn varð undir vatni sumstaðar; grynntist það og allt að sunnan; hrundi mjög Almannagjá og klettar fleiri. Þá seig allt land milli Almannagjár og Hrafnagjár eina alin, að því er Sveinn Pálsson segir. Sökum skemmda og breytinga þeirra, sem á urðu, varð jarðskjálfti þessi meðfram tilefni til þess, að að alþingi var flutt frá Þingvöllum til Reykjavíkur.

Sprunga

Hraunsprunga.

1808. Varð töluverður landskjálfti og fannst víða; breyttu sér þá laugar og hverir.
1810. 24. október varð harður landskjálfti austur frá Heklu, og fannst suður um heiðar, ekki varð hann að tjóni.
1815. Í júnímánuði varð lítill landskjálfti fyrir norðan land.
1818. Um veturinn varð nokkrum sinnum vart við landskjálfta eystra, og þrisvar syðra á Innnesjum.
1823. Kötlugos. Þá fundust jarðskjálftar í nánd, en heldur linir.
1826. Seint í júní kom landskjálfti fyrir norðan ekki afllítill; hann gekk vestur eptir og gjörði ekki tjón.
1828. Þá varð landskjálfti mikill í Fljótsblíð á Þorraþrælinn, féllu þar flestir bæir og 8 í Landeyjum; týndist þó enginn nema eitt barn.
1829. 21. febrúar og um nóttina milli hins 21. og 22. fundust jarðskjálftakippir um allt Suðurland, næstu daga á eptir fundust og nokkrir kippir, en miklu vægari. Harðastir voru landskjálftar þessir í kringum Heklu, og þar skemmdust 6 eða 7 bæir.

Sprungur

Hraunsprunga við kaldársel ofan Hafnarfjarðar.

1838. 12. júní kom allmikill landskjálfti fyrir norðan, og gekk mest yfir landtangana milli Skjálfanda og Húnaflóa; hrundu þá og skekktust nokkrir bæir á útkjálkum milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar, hrundi þá og grjót úr sjávarhömrum og spilltust fuglabjörg í Grímsey og Drangey.
1839. Kom í Reykjavík jarðskjálftakippur 28. júlí kl. 4 um morguninn, og annar minni litlu síðar.
1845. Heklugos, sem byrjaði 2. september; á undan því, og við byrjun þess, fundust lítilfjörlegar landskjálftahreyfingar; þær náðu hér um bil 6 mílur til suðvesturs frá Heklu, en að eins 2 til 3 mílur til norðausturs. Auk þess fundust jarðskjáiftakippir við og við, á meðan á gosunum stóð.
1860. Kötlugos, frá 8. til 27. maí. Jarðskjálftar fundust þá um morguninn 8. maí kl. 6—8 á Höfðabrekku í Mýrdal, og síðan við og við um daginn, bar eigi á öðrum jarðskjálftum nema 25. maí eina stund af dagmálum; þá voru jarðskjálftar í frekara lagi, og öðru hverju allan þann dag til kvölds.

Sprunga

Sprunga eftir jarðskjálfta.

1863. Jarðskjálftakippir kringum Reykjavík 20—21.apríl.
1864. Fannst í Reykjavík og á Suðurnesjum 16. febrúar snarpur jarðskjálftakippur, sumum sýndist turninn á dómkirkjunni hreyfast fram og aptur. Sjórinn gekk nokkru meir á land, en vandi var til. Inntré brökuðu í húsum, og hlutir féllu niður af hillum. Hreyfingarnar stóðu hér um bil í 2 mínútur.
1868. Jarðskjálftar á Suðurlandi. Fyrsti kippurinn fannst 1. nóvember kl. 4 um morguninn, og honum fylgdu 3 eða 4 linari kippir. Um kvöldið kl. 11 fannst enn harður kippur og síðan smærri hreyfingar alla nóttina. 2. nóvember kl. 11 um kvöldið komu þó tveir harðir kippir, hvor eptir annan, en þó smáhreyfingar á milli, þá féllu niður nokkrir ofnar í Reykjavík, glerílát brotnuðu o.s.frv.

Sprunga

Hraunsprunga eftir jarðskjálfta.

1872. Jarðskjálfti á Húsavík. Aðfaranóttina þess 18. apríl kl. 11 um kvöldið kom á Húsavík jarðskjálfti svo mikill, að mönnum leizt ekki ugglaust að vera inni í húsum, ef annar kæmi jafnsnarpur, en litlu á eptir komu kippirnir svo títt, að ekki liðu nema 4—8 mínútur milli þeirra.
1874-75. Rúmri viku fyrir jól fór að bera á jarðskjálftum í Mývatnssveit, og fóru þeir smávaxandi. Ekki voru kippirnir langir og harðir, en svo tíðir að ekki varð tölu á komið, brakað mikið í húsum í stærstu kippunum, og allt hringlaði sem laust var; 2. janúar bar mest á þessu, þá var jarðskjálfti allan daginn. Jarðskjálftar þessir fundust mest upp til dala og fjalla, t. d. á Möðrudal á fjöllum, en minna í útsveitum. 3. janúar byrjuðu Dyngjufjöll að gjósa, og síðan kom upp eldur í Sveinagjá á Mývatnsöræfum.
1878. Eldur uppi í hraununum norður af Heklu. Gos þetta hófst 27. febrúar með allmiklum jarðskjálftum, sem gengu yfir allan suðvesturhluta landsins; þeir stóðu frá kl. 4 e. m., þangað til kl. 5 næsta morgun, og voru næst eldstöðvunum með litlu millibili, og víða svo ákafir að gömul og óvönduð hús skekktust meira eða minna, en ekkert tjón varð á fólki eða peningi; margir flúðu hús sín, og létu út fénað meðan á þessu stóð; mestir urðu jarðskjálftarnir á Landi, Rangárvöllum, í Hreppum, Fljótshlíð og Vestmanneyjum, en ekki á öllum stöðum á sama tíma.

JarðskjálftarÞó litlar sögur fari af flestum jarðskjálftum á Íslandi, og þó frásagnir þær, sem til eru, séu mjög ófullkomnar, þá má þó sjá, að jarðskjálftar eru eigi allstaðar jafntíðir á landinu. Langflestir og sterkastir jarðskjálftar hafa orðið í Árness- og Rangárvallasýslum á Suðurlandi, og á Norðurlandi í Þingeyjarsýslu, einkum nálægt Húsavík. Af þessu sést, að jarðskjálftarnir eru mjög bundnir við eldfjöllin, því í þessum hlutum landsins eru eldfjöllin mest. Jarðskjálftarnir á Suðurlandi, hafa flestir hreyfzt frá norðaustri til suðvesturs og fara því eptir línum þeim, sem eldfjallagýgir og eldfjallasprungur mynda í þessum landshluta.

Jarðskálftar

Jarðgufumyndun eftir jarðskálfta.

Í Þingeyjarsýslu ganga eldfjallaglufur og gýgjaraðir frá suðri til norðurs, og sömu stefnu fylgja jarðskjálftarnir þar. Þegar Hekla hefir gosið, hafa vanalega töiuverðir jarðskjálftar fylgt gosunum, en sjaldan er þess getið við Kötlugos, að landskjálftar hafi orðið að nokkrum mun. Hvergi hafa jarðskjálftar verið jafntíðir, og eins skaðlegir, eins og í Ölfusi; þar næst gengur Grímsnes, Flói, Skeið, Holtamannahreppur, Rangárvellir og Fljótshlíð. Öll þessi héruð liggja á hinu mikla suðurundirlendi Íslands, og þegar að er gáð, er eðlilegt að jarðskjálftar séu hér tíðir. Hekla er á miðju undirlendinu, og þegar hún gýs, eða einhver umbrot verða í undirdjúpunum, þá er náttúrlegt, að héruðin hristist, sem í kring eru.

Hrafnagjá

Hrafnagjá ofan Voga.

Þar sem hálendi og undirlendi mætast, eru flestar sprungur í jörðu og meiri missmíði en annarstaðar, af því að þar mætast þau jarðlög, sem hæst eru hafin, og hin, sem neðst liggja. Á samskeytunum er því eðlilegt, eins og fyrr hefir verið frá sagt, að jarðlögin hefjist og byltist þar upp og niður, er þau leita að jafnvægi, og við það komi hræringar á landið í kring; einkum er það eðlilegt ef jarðskjálftar verka náiægt. Af þessu kemur það, að jarðskjálftar eru svo tíðir í Ölfusi og Grímsnesi, sem liggja vestast á undirlendinu, þar sem takmörk þess eru við fjallahryggina og heiðarnar, er ganga út á Reykjanes, og í Fljótshlíð, sem liggur austast á láglendinu við hin samskeytin. Þess er eigi getið í bókum við nærri aila íslenzka jarðskjálfta, hvenær á árinu þeir hafi orðið, og er því ekki hægt að geta sér til með neinni vissu, hvort þeir eru tíðari á einum árstíma en öðrum. Ef farið er eptir þeim fáu landskjálftum, sem menn vita um, þá sýnast þeir flestir hafa orðið á vetrum, nokkru færri vor og haust, og fæstir á sumrum.”

Heimild:
-Andvari 01.01.1882, Um jarðskjálfta, Þorvaldur Thoroddsen, bls. 53-107.

Þingvellir

Þingvellir – misgengi.