Færslur

Járnöld

Eftirfarandi er kynning á doktorsritgerð Völu Garðarsdóttur í fornleifafræði, Norræn járnaldarmenning og sérkenni Íslands. Kynningin birtist í riti fornleifafræðinema, Eldjárni, árið 2008. Hér er efnið sett fram í tengslum við umfjöllun og vettvangsskoðun að Mosfelli, en þar er að finna minjar, sem ekki hefur verið hægt að skilgreina sem eðlilegar og augljósar.

Forsíða

“Doktorsverkefnið er fólgið í samanburðar-rannsókn á fornleifafræði-legum vitnisburði um norræn samfélög víkingaaldar innan núverandi Norðurlanda. Lýsa má markmiðum verkefnisins með eftirfarandi rannsóknar-spurningum:
1. Hvaða helstu minjaflokkar finnast á hverju landsvæði fyrir sig (s.s. búsetuminjar, grafir, steinsetningar, rúnasteinar, o.sv.fr.)?
2. Hvaða tegundir norrænna minja hafa til þessa ekki fundist á Íslandi?
3. Hvers vegna er munur á því hvaða norrænu minjar finnast innan Íslands og Skandinavíu?
Ritgerðin mun annars vegar samanstanda af almennri umfjöllun um helstu minjaflokka, s.s. byggingar, grafir og gripi, sem þekktir eru frá víkingaöld á Norðurlöndum. Hinsvegar mun hún taka mið af sérstakri rannsókn á efnisflokkum frá umræddu tímabili sem hafa til þessa ekki verið skoðaðir með samanburði. Safnað verður fornleifafræðilegum heimildum um áðurnefnda minjaflokka og ítarleg samantekt gerð um þá. Upplýsingar um íslenska efnið er nokkuð vel aðgengilegt í útgefnum ritum um grafir og fornbæi, en einnig í nýlegum skráningar og uppgraftarskýrslum. Á hinum Norðurlöndunum er unnt að afla upplýsinga um efnisflokkana með sama hætti, en einnig að nokkru leyti í gegnum þar til gerða gagnagrunna sem aðgengilegir eru á netinu. Um leið verða tilgreindir þeir minjaflokkar sem þekktir eru innan svæðisins alls en staðfest að ekki hafi fundist hér á landi. Tekinn verður til umfjöllunar sá samanburður sem þegar hefur verið gerður og athugað hvaða ályktanir hafa til þessa verið dregnar af sýnilegum mun á minjum Íslands og Norðurlanda.
svíþjóðReynt verður að skilgreina norræna menningu út frá fornleifunum en um leið skoðað hvort víkingar hafi verið einsleitur hópur í líkingu við þjóðir nútímans með sameiginlegan bakgrunn, minni, átrúnað og siði.
Verkefnið er viðleitni til þess að skoða afrakstur íslenskra fornleifarannsókna í norrænu ljósi, í þeim tilgangi að kanna hvort og þá að hvaða leyti norræn menning á Íslandi var frábrugðin þeirri sem greina má innan skandinavísku landanna. Reynt verður að greina hvort mismunurinn hafi verið mótaður af umhverfi, t.d. aðgengilegum efnivið, veðráttu og öðrum ytri lífsskilyrðum, fremur en vegna áhrifa frá menningarstraumum úr öðrum áttum, nema hvorttveggja sé. Einn af þeim minjaflokkum sem um verður fjallað eru steinsettningar. Þær hafa hingað til ekki verið taldar í hópi þeirra norrænu minja sem finnast hér á Íslandi en eru stór hluti af sýnilegum mannvirkjum norrænna manna í Skandinavíu og á Suðureyjum. Hefur þessi minjaflokkur átt hug minn allan undafarin ár og tel ég að slíkar steinsettningar séu til hér á Íslandi. Hefur þessi flokkur verið lítið rannsakaður hérlendis og er ástæðan fyrir því ekki augljós. Undanfarin misseri hef ég einbeitt mér að því að rannsaka hinar meintu steinsettningar sem fundist hafa með hjálp góðra manna og kvenna á víð og dreif um landið. Liggja nokkrar undir grun sem heiðinna manna verk. Erfitt er að segja hvers eðlis þessar steinsettningar eru að svo stöddu. Innan fornleifafræðinnar hérlendis hefur verið deilt um það hvort þetta séu steinsettningar yfirhöfuð og um upphaf þeirra og aldur. 

Skán

Er því rannsóknar tilefnið enn brýnna, að mínu viti. Í Skandinavíu og á Bretlandseyjum eru slíkar steinsettningar ekki óalgengar og finnast oftast í samhengi við grafhauga og samkomustaði frá brons- og járnaldarsamfélögum. Sumar steinsettningarnar hafa verið túlkaðar sem ákveðin fyrirbæri sem nýtt voru til þess að reikna út sólstöður og árstíðir, sbr. Ales Stenar á Skáni í Svíþjóð, en aðrar hafa beinlínis verið nýttar sem blótstaðir og sem grafir, sbr. Ånundshaug í Vesterås í Svíþjóð og allnokkrar á Gotlandi, Skáni og Öland.
SelvogurEru þessar steinsettningar aðallega þrennskonar, þ.e. bátalaga, sporöskjulaga og hringlaga (þó eru til önnur form). Sumar standa einar en aðrar virðast vera tengdar á einn eða fleiri hátt. Stærð steinsettninganna er mjög misjöfn allt frá nokkrum metrum að lengd og breidd upp í tugi metra. Sú stærsta sem hefur fundist í Evrópu er á Orkneyjum og er um 110 metra löng. Sú minnsta er um 2 metrar að lengd. Þær eiga þó flestar sameiginlegt að vera nálægt sjó og vísa austur-vestur. Þær steinsettningar sem hafa verið aldursgreindar í Skandinavíu og á Suðureyjum eru frá 3000 f.Kr.-1050 e.Kr. Það gefur því auga leið að þessi siður er mjög langlífur og hefur vafalaust þjónað misjöfnu hlutverkinu í gegnum tíðina, mann af manni, kynslóð eftir kynslóð. Slík mannvirki hljóta því að endurspegla mannlega hegðun, hugsun og sköpun.
Þó er óhætt að segja að þessi siður falli niður í kjölfar siðaskipta til kristinnar trúar og sé því rammheiðinn siður. Þær steinsettningar hér á landi sem ég er nú þegar að rannsaka eru staðsettar í Mosfellsdal (forsíðumyndin), í Selvogi á Reykjanesi, í Arnarfirði og á Hala í Suðursveit. Vitað er af fleirum en þær bíða fram á sumar til frekari rannsókna.”

Heimild:
-Eldjárn – Rit fornleifafræðinema við Háskóla Íslands – 1. tbl. 3. árg. 2008.

Mosfell

Mosfell – bátslag.