“Í kvöld, rétt rúmlega ellefu, voru vetrarsólstöður. Einmitt þá var afstaða jarðar og sólar sú að myrkurstundir okkar hér á norðurhjara voru lengstar og birtustundir stystar. Frá og með þeirri stundu tekur dagana að lengja aftur, myrkrið að hverfa og við sjáum fram á vorið, gróður og yl.
Þessum tímamótum í árinu okkar hefur verið fagnað í öllum menningarheimum í öllum löndum á norðurhveli jarðar eins langt aftur í aldir og okkur getur órað fyrir. Þetta getum við kallað sólstöðuhátíð, miðsvetrarhátíð eða eitthvað þvíumlíkt. Hér á Íslandi og í nágrannalöndum var þessi hátíð kölluð jól og fjölmargar heimildir sýna fram á að í heiðni voru jól haldin hátíðlega. Þess má til gamans geta að eitt af nöfnum Óðins er Jólnir.
Jólatréð er frjósemisdýrkun. Svínakjötsát má tengja Frey. Gjafir á jólum tíðkuðust löngu fyrir daga kristninnar. Grýla, jólasveinarnir og allt það er þjóðtrú mun tengdari heiðninni en nokkurn tíma kristni. Kristni þáttur hins almenna jólahalds á íslenskum heimilum er í raun lítið annað en messuferðin eða útvarpsmessan.
Á jólunum var vaxandi sól sem sagt fagnað með útbreiddum veisluhöldum og þá hófst árið upp á nýtt (vetrarsólstöður mörkuðu nefnilega líka áramót, en vegna hins kristna tímatals hefur þetta skolast svolítið til og nú munar örfáum dögum). Svo kom kristnin, og gleymum því ekki að hún kom hingað á sverðsoddi, með hótunum og gíslatöku.
Hér bjuggu hins vegar skynsamir menn sem létu kristniboðið (ef boð skyldi kalla) yfir sig ganga í stað þess að úthella blóði. Á kirkjuþingum úti í heimi var ákveðið að kristna heiðnar hátíðir, og um það eru til skrásettar heimildir. Fólk fékk að halda sínum hátíðum en stundum undir öðru nafni eða breyttum formerkjum. Það sem áður var kallað hátíð ljóssins því ljósið var sólin varð nú hátíð ljóssins en ljósið var Jesús. Jesús, sem fæddist að sumri til en fékk skaffaðan afmælisdag þann 25. desember. Um þetta er ekki deilt. Þetta viðurkenna allir skynugir prestar, þetta hefur Karl biskup sagt í myndbandi og svo má áfram telja. Jólin eru ekki kristin hátíð að uppruna. Þau eru miklu eldri en kristni.
Þegar líður að jólum halda misvitrir kristnir menn því hins vegar blákalt fram í ræðu og riti að jólin séu kristin hátíð og að ástæða þess að við höldum jól sé sú að fagna fæðingu frelsarans. Þarna fer ekki mikið fyrir söguþekkingu né skilningi á því að til sé fólk sem ekki er kristið. Í þessu samhengi er oft talað um kristna þjóð og meirihluta, en sjaldnar um trúfrelsi, mannréttindi eða fjölmenningu.
Jólin eru hátíð okkar allra. Við fögnum þeim af mismunandi ástæðum. Sumir gera það vegna þess að Jesús fæddist. Aðrir gera það vegna þess að dagsbirtan vinnur bug á næturhúminu. Enn aðrir gera það því þeim finnst gott að gera sér dagamun, borða góðan mat, skiptast á gjöfum og vera með fjölskyldu sinni þegar nær allir eiga frídaga. Það á enginn einkarétt á jólunum og það halda engir heilagri jól en aðrir.
Ég sem ásatrúarmaður gleðst bara yfir því að aðrir heiðri þessa heiðnu hátíð með því að halda sín jól á þessum tíma. Fyrir mér skiptir ekki máli hvers vegna fólk tekur þátt í því og ég þekki engan ásatrúarmann sem hneykslast á því að aðrir haldi jól. Ég þekki hins vegar til leiðinlega margra kristinna sem agnúast út í trúlausa fyrir að taka þátt í þessu og spyrja heiðna hvort og hvers vegna þeir haldi upp á jól.
Í stuttu máli: Gerum okkur grein fyrir því hvaðan jólin koma og virðum upprunann. Látum ekki fáfræðina éta okkur upp til agna. Virðum jól annarra og njótum þess að eiga þau saman, sama hvaða ástæður liggja þar að baki.”
Heimild:
-http://nutiminn.is/jolin-eru-hatid-okkar-allra/