Tag Archive for: jólasveinar

Jólasveinn
Hvað er það að vera til „í alvörunni“? Það er auðvitað ekkert vafamál að jólasveinar eru til í hugum okkar og í sögum og frásögnum af þeim. Í einhverjum skilningi hljóta þeir því að vera til en það er líklega ekki sá skilningur sem átt er við með „í alvörunni“. Líklega er átt við það hvort þeir séu til sem lifandi, áþreifanlegar verur, svona eins og ég og þú.
JólasveinnÞá má auðvitað benda á að til eru lifandi, áþreifanlegir menn í jólasveinafötum sem segjast vera jólasveinar. Er spurningunni þar með svarað? Nei, því stundum heyrist sagt að þessir menn séu bara „venjulegir“ menn með hvítt gerviskegg að leika jólasveina og að þeir eigi alls ekkert heima í helli í fjöllunum og séu þaðan af síður synir Grýlu og Leppalúða. Þetta er talið til marks um að jólasveinar séu ekki til í alvörunni.
Viljum við vita hvort til séu jólasveinar, í sama skilningi og við erum til, 13 rosknir bræður sem búa hjá foreldrum sínum í helli, gegna dags daglega nöfnum á borð við Stekkjastaur, Kertasníkir og Bjúgnakrækir og koma til byggða fyrir jólin og færa börnum gjafir í skóinn.
Óneitanlega eru þær vísbendingar sem við höfum um tilvist jólasveinanna misvísandi. Við skulum nú líta á nokkrar þeirra.

Hvað bendir til þess að jólasveinar séu til?
Margir segja að jólasveinar séu til, meðal annars strangheiðarlegt fólk sem er sjaldan staðið að lygum.
JólasveinnJólasveinar sjást víða um jólaleytið, til dæmis á jólaböllum og niðri í bæ.
Krakkar fá gjafir í skóinn og þeim er sagt að jólasveinarnir setji þær þar. Hver ætti svo sem annars að setja gjafirnar í skóinn?
Mikið er til af sögum og söngvum um jólasveina.
Víða má sjá myndir af jólasveinum.
Heyrst hefur að fólk verði stundum vart við ýmis ummerki eftir komu jólasveina. Til dæmis á Skyrgámur að hafa farið í ísskápinn hjá fólki og skilið eftir sig skyrslettur og kerti að hafa horfið við komu Kertasníkis.

Hvað bendir til þess að jólasveinar séu ekki til?
Hvernig getur einn jólasveinn farið heim til allra barna á landinu og gefið þeim í skóinn á einni nóttu? Á landinu eru um 70.000 börn 15 ára og yngri. Ef við hugsum okkur að jólasveinninn hafi í mesta lagi 12 klukkustundir til að færa þeim öllum gjöf í skóinn á meðan þau sofa þarf hann að setja gjafir í 97 skó á hverri mínútu.
Hvernig getur jólasveinninn borið allt sem krakkarnir fá í skóinn? Ef meðalþyngd gjafar er 200 g þarf jólasveinninn að burðast með 14 tonn af gjöfum þegar hann leggur af stað. Hann getur auðvitað geymt dótið á ákveðnum stað og borið hluta af því í einu, en það tefur hann við verkið þar sem hann þarf að hlaupa meira í staðinn til að sækja dótið.

Hvar fá jólasveinarnir peninga til að kaupa dótið? Ljóst er að verð á gjöfum í skóinn getur verið mjög misjafnt. Til að einfalda málið skulum við gefa okkur að jólasveinarnir fái sérstakan magnafslátt hjá kaupmönnum og komist af með að borga að meðaltali 100 krónur fyrir hverja gjöf. Þá þarf hver jólasveinn að borga 7 milljón krónur á hverju ári fyrir þær gjafir sem hann færir börnunum í skóinn. Ef við reiknum með að hann fái frítt fæði og húsnæði hjá foreldrum sínum og geti eytt öllum sínum launum í gjafir þarf hann að vera með yfir 583 þúsund krónur í mánaðarlaun – eftir skatt.
JólasveinnHvar kaupa jólasveinarnir dótið sem þeir setja í skóinn? Aldrei sést til þeirra við að kaupa neinar af þeim fjölmörgu gjöfum sem þeir gefa.
Hvernig getur jólasveinn sett gjöf í skóinn ef glugginn er lokaður? Heyrst hefur að slíkt komi stundum fyrir.
Af hverju fá krakkar misflottar og misdýrar gjafir frá jólasveinunum?

Ef jólasveinarnir eru til í alvörunni er þetta víst:
Jólasveinar gegna vel launuðum störfum meirihluta ársins og fylgjast vel með því frá ári til árs hvað gleður börnin. Þeir hljóta því að vera vel nettengdir þarna í hellinum sínum, stunda vinnu sína þannig og fylgjast vel með bæjarlífinu. Netið nota þeir líka til innkaupa á dóti í skóinn. Í hellinum er líka fullkomin líkamsræktaraðstaða þar sem þeir lyfta lóðum allan ársins hring til að styrkja sig fyrir gjafaburðinn og hlaupin. Í raun blikna öll helstu íþróttaafrek afreksfólks á heimsmælikvarða í samanburði við afrek jólasveinanna. Líklega ættum við að berjast fyrir því að þeir bræður verði sendir á næstu Ólympíuleika!

Jólasveinar þurfa að fylgjast vel með því sem er að gerast og þeir þurfa að vera meðvitaðir um forna siði og venjur. Kannski jólasveinninn búi enn yfir glötuðum hæfileikum mannsins – góðmennskunni, gjafmildinni, kærleikanum og ekki síst, meðvitundinni.

http://www.visindavefur.hi.is/svar.asp?id

Jólasveinn

Íslenskur jólasveinn.

Arnarseturshellir
Íslensku jólasveinarnir eru öldungis óskyldir hinum alþjóðlega rauðklædda Santa Claus sem er kominn af dýrlingnum Nikulási biskupi. Þeir eru af kyni trölla og voru upphaflega barnafælur. Á þessari öld hafa þeir mildast mikið og klæða sig stundum í rauð spariföt, en geta samt verið þjófóttir og hrekkjóttir.
JólasveinnFjöldi jólasveina var fyrr á öldum misjafn eftir landshlutum. Talan 13 sést fyrst í Grýlukvæði frá 18. öld en nöfn þeirra í Þjóðsögum Jóns Árnasonar 1862. Um 60 önnur jólasveinanöfn hafa fundist.

12. desember byrja gömlu jólasveinarnir að koma til byggða.
Sá fyrsti heitir Stekkjarstaur og hér áður fyrr reyndi hann oft
að sjúga ærnar í fjárhúsunum hjá bændum.

13. desember kemur Giljagaur.
Áður en mjaltavélar komu til sögu var hann vanur að laumast inn í fjós og stela froðu ofan af mjólkurfötum.

Jólasveinninn sem kemur til byggða 14. desember heitir Stúfur og er heldur lágur til hnésins. Hann var líka kallaður Pönnuskefill, því hann reyndi að hnupla matarögnum af steikarpönnunni.

Jólasveinn

15. desember kemur Þvörusleikir ofan af fjöllum. Hann stalst til þess að sleikja þvöruna, sem potturinn var skafinn með. Hann reynir að finna þvörur í Þjóðminjasafninu, þegar hann kemur þangað í heimsókn.

16. desember má búast við Pottasleiki í heimsókn. Hann sat um að komast í matarpotta, sem ekki var búið að þvo upp og sleikja skófirnar innan úr þeim.

Askasleikir kemur 17. desember. Hann faldi sig undir rúmi og ef fólk setti ask á gólfið þá greip hann askinn og sleikti allt innan úr honum.

Hurðaskellir kemur til húsa 18. desember. Hann gengur skelfing harkalega um og skellir hurðum svo fólk hefur varla svefnfrið.

19. desember er von á jólasveini sem heitir Skyrgámur, af því að honum þótti svo gott skyr að hann stalst inn í búrið og hámaði í sig skyrið upp úr keraldi.

Bjúgnakræki má búast við 20. desember. Honum þótti best að borða bjúgu og pylsur og stal þeim hvar sem hann komst í færi.

21. desember kemur hann Gluggagægir í heimsókn. Hann var ekki eins matgráðugur og sumir bræður hans, en skelfing forvitinn að gægjast á glugga og jafnvel að stela leikföngum, sem honum leist vel á.

Jólasveinn

22. desember má búast við Gáttaþef. Hann er með stórt nef, og honum finnst óskaplega góð laufabrauðs- og kökulyktin þegar verið er að baka fyrir jólin. Og svo reynir hann að hnupla einni og einni köku. 22. desember var líka stundum kallaður hlakkandi, því þá voru börnin farin að hlakka svo mikið til jólanna.

Á Þorláksmessu, 23. desember, kemur Ketkrókur, sem er svo sólginn í ket. Í gamla daga rak hann langan krókstaf niður um eldhússtrompinn og krækti sér í hangiketslæri sem héngu uppi í rjáfrinu eða hangiketsbita upp úr pottinum, en þá var hangiketið soðið á Þorláksmessu.

Kertasníkir kemur á aðfangadag, 24. desember. Í eldgamla daga voru kertin skærustu ljós sem fólk gat fengið. En þau voru svo sjaldgæf og dýrmæt að mesta gleði barnanna á jólunum var að fá sitt eigið kerti. Og aumingja Kertasníki langaði líka að eignast kerti.

-http://www.natmus.is/adofinni/jolasveinar/

Arnarsetur

Jólasveinn í Arnarseturshellum.