Færslur

Jón Arason
Böðullinn sem hjó Jón Arason biskup á Hólum og syni hans tvo, Ara lögmann og séra Björn á Melstað, 7. nóvember árið 1550, var íslenskur og hét Jón Ólafsson.
Norðlenskir hefndu þeirra feðga árið 1551. Í Setbergsannál segir:

Kirkjuból

Kirkjuból – grafstæði.

“Þegar þeir norðlenzku riðu frá Kirkjubóli eftir hefnd fyrir þá feðga, fundu þeir böðulinn, sem þá feðga líflét í Skálholti og hét Jón Ólafsson. Hann tóku þeir á Álftanesi og héldu í sundur á honum túlanum og helltu svo ofan í hann heitu blýi. Með það lét hann líf sitt, en þeir riðu síðan norður.” (Ann. IV. 63)
Í annarri heimild er sagt að norðlenskir hafi hellt heitu biki, en ekki blýi, ofan í Jón böðul sem í sumum heimildum er nefndur „herfileg kind“ og „drengtötur.“Oft urðu þeir menn böðlar sem gerst höfðu sekir um smáglæpi og ef til vill hefur það átt við um böðul biskupsins á Hólum. Í Setbergsannál segir frá Guðlaugi sem hafði stolið úr búðum danskra árið 1640. „Þar eftir fékk hann eða var tekinn fyrir böðul.“ (Ann.IV.89) Og í Eyrarannál er þess getið að árið 1671 hafi strákur verið strýktur í Skagafjarðarsýslu fyrir þjófnað. Hann fékk „60 högg og lofaði að verða böðull.“ (Ann.III.298)

Höggstokkur

Höggstokkur sá er þau Friðrik Sigurðsson og Agnes Magnúsdóttir voru hálshöggvin á 12. jan. 1830 af Guðmundi Ketilssyni, bróður Nathans þess er þau höfðu myrt. – Aftakan fór fram í Vatnsdalshólum í Húnavatnssýslu og lá höggstokkurinn þar síðan til þess er hann var sendur hingað suður af Árna Árnasyni frá Höfðahólum. – Hann er eikardrumbur, hefur verið röng í skipi. Við aftökuna var höggstokkurinn klæddur rauðu klæði. Hún var framkvæmd með böðulsöxi nýrri, er til þess var fengin; er nú blaðið af henni í safninu; hefur hún ekki verið notuð til aftöku síðan, því að þessar eru hinar síðustu hjer á landi. – Í þá hlið höggstokksins, er virðist hafa snúið upp við aftökuna, eru 2 stórar rifur og 1 lítil í milli. Sagt er að Guðmundur hafi höggvið af svo miklu afli að öxin hafi gengið nokkuð ofan í stokkinn; má vera að smárifan í miðju sje far eptir öxina, en í þeirri rifunni, sem næst er hökuskarðinu virðist jafnvel votta fyrir axarfari, miklu dýpra; sje það sönn sögn, að verið hafi tveggja manna tak að ná öxinni aptur úr stokknum hlýtur hún að hafa sokkið hjer í hann þá, en það var við fyrri aftökuna, Friðriks; hið smærra öxarfarið, ef það er svo, kann þá að vera eptir hina síðari. – Er þar sagt að öxin og höggstokkurinn hafi verið fengin frá Kaupmannahöfn.

Fyrr á öldum var var hálshöggning algeng refsing á Íslandi fyrir stórglæpi eins og morð og dulsmál, þar sem fæðingu barns var leynt og það síðan deytt. Þessari refsingu var þó nær eingöngu beitt gegn karlmönnum en konum var drekkt fyrir dulsmál. Sakamenn voru hálshöggnir með handöxi og höfuð þeirra stundum sett á stengur öðrum til viðvörunar.

Þingvellir

Þingvellir – aftökustaðir.

Svo virðist sem böðlar á Íslandi hafi ekki alltaf verið stétt sinni til sóma. Í Skarðsárannál segir frá aftöku Björns Þorleifssonar árið 1602:
Tekinn af á alþingi Björn Þorleifsson fyrir kvennamál og svall, fékk góða iðran. Biskupinn herra Oddur áminnti hann sjálfur. Hann kvaddi menn með handabandi, áður sig niður lagði á höggstokkinn, og bauð svo öllum góða nótt. Var hann með öllu óbundinn. Jón böðull, er höggva skyldi, var þá orðinn gamall og slæmur og krassaði í höggunum, en Björn lá kyr á grúfu, og þá sex höggin voru komin, leit Björn við og mælti: Höggðu betur, maður! Lá hann svo grafkyr, en sá slæmi skálkur krassaði ein 30 högg, áður af fór höfuðið, og var það hryggilegt að sjá. (Ann.I.187)
Eftir aftöku Björns voru yfirvöld áminnt um að hafa örugga menn í böðulsstarfi svo að landið yrði ekki að spotti.

-Af www.haskolinn.is

Jón Arason

Minnismerki um Jón Arason við Skálholt um 1970.

Jón Arason

Árið 1551 dró heldur betur til tíðinda á Suðurnesjum. Árið áður hafði síðasti kaþólski biskupinn, Jón Arason, verið tekinn af lífi og nú vildu ættingjar hans ogbandamenn leita hefnda. Nærtækast þótti að láta hefndina koma niður á umboðsmanni danska hirðstjórans, Kristjáni skrifara, sem kveðið hafði upp úrskurðinn um að biskup skyldi hálshöggvinn.

Kapella

Kapella í Kapelluhrauni.

Í ársbyrjun var Kristján staddur í konungserindum á Suðurnesjum og hafði fjölmennt fylgdarlið. Norðlenskum vermönnum barst njósn af ferð hans og héldu í skjóli nætur 30 saman að Kirkjubóli þar sem Kristján dvaldist ásamt mönnum sínum og ungum syni.
Norðanmenn fengu leyfi bóndans á bænum til að rjúfa þekjuna og gátu því komið skrifaranum að óvörum og drepið þá einn af öðrum. Kristján náði þó að brjótast út úr húsinu án teljandi sára því hann var brynjuklæddur.
Kom þá aðvífandi 18 ára piltur, sveinn Þórunnar á Grund, dóttur Jóns Arasonar. Hann var vopnaður lensu, sem hann rak í smáþarmana og mælti í sömu svifum: “Ég skal finna á honum lagið”.
Því næst héldu Norðlendingar um Suðurnes og drápu þá konungsmenn, sem þeir náðu í. Á Másbúðum rákust þeir á tvo fylgdarmenn Kristjáns og felldu annan, en hinn slapp með því að skjóta einn norðanmanna á flóttanum. Er þetta e.t.v. fyrsti íslenski byssubardaginn.

Kirkjuból

Kirkjuból – grafstæði.

Loks hemrir Setbergsannáll að Norðlendingar hafi haldið norður á Álftanes þar sem þeir tóku höndum böðul Jóns Arasonar, Jón Ólafsson,…”og héldu í sundur á honum túlanum og helltu svo ofan í hann heitu blýi. Með það lét hann líf sitt, en þeir riðu norður.”
Vitaskuld brugðust dönsk stjórnvöld illa við þessu framferði og sumarið eftir létu þau hálshöggva bóndann á Kirkjubóli og hjáleigumann hans. Voru höfuðin sett á stengur en búkarnir á hjól og haft sem víti til varnaðar við þjóðveginn við Straumsvík.
Mest gramdist yfirvöldum þó meðferð norðanmanna á líkum þeirra er féllu við Kirkjuból. Þeir voru dysjaðir fyrir norðan tún og líkin svívirt með því að höfuðin voru höggvin af og nefin sett milli þjóanna, til að þeir gengju síður aftur.

-Samantekt frá Fræðsasetrinu í Sandgerði.

Jón Arason

Minnisvarði um Jón Arason og syni hans við Skálholt.

Kappella
Í Öldinni okkar, 7. nóv. 1550, segir að Jón biskup Arason og synir hans, sem með honum voru gripnir á Sauðfelli í haust, séra Björn á Melstað og Ari sýslumaður í Möðrufelli, voru hálshöggnir í Skálholti í morgun, þvert ofan í lögmannsdóminn, sem kveðinn var upp í Snóksdal fyrir hálfum mánuði.
Skálholt

Skálholt.

Talið er, að fógetinn á Bessastöðum, Kristján skrifari, hafi verið frumkvöðull aftökunnar, en aðrir fyrirmenn í Skálholti samþykkt hana.
Kristján skrifari ætlaði að hverfa frá Skálholti vegna ágreinings um hvað skyldi verða um þá feðga. Lét fógetinn söðla hesta sína og bjóst til brottfarar. Þeir Marteinn biskup og Daði í Snóksdal gengu þá til hans og drukku honum til af silfurkerjum, sem þeir gáfu honum síðan til þess að sefa reiði hans. Við það frestaði hann brottför sinni, og mun þá hafa samist, að þeir feðgar þrír skyldu hálshöggnir.

Skálholt

Skálholt fyrrum.

Menn voru þegar settir til að gera aftökustað austan við túnið í Skálholti, og var þangað fluttur gamall vindustokkur frá kirkjunni og höggvið í hann hökuskarð, svo að nota mætti sem höggstokk. Böðull hafði þegar verið fenginn frá Bessastöðum til þess að vinna á þeim feðgum.
Þegar morgnaði, voru fangarnir búnir til aftökunnar. Ari var fyrst leiddur á höggstokkinn, og fylgdi honum prestur sá, sem vakað hafði hjá honum um nóttina. Vildi Ari ekki, að bundið væri fyrir augu sér. Hann gaf böðlinum gjöf til þess, að hann ynni verk sitt hreinlega eins og alsiða er erlendis. Síðan hjó böðullinn hann og fórst allvel.

Skálholt

Skálholt – minnismerki um Jón Arason og syni hans.

Þessu næst var höggstokkurinn færður og sér Björn leiddur til höggs. Böðlinum fataðist fyrsta höggið. Hljóp Daði í Snóksdal þá til og skipaði böðlinum að fullkomna verk sitt. Murkaði böðull loks af honum höfuðið í fjórða höggi.

Síðastur var Jón biskup höggvinn, og fylgdi séra Hængur Höskuldsson á Stóru-Völlum á Landi honum til aftökunnar. Hafði biskup kross í hendi. Við höggstokkinn kraup hann sjálfur á kné og signdi sig. Þegar biskup var lagstur á höggstokkinn, reiddi böðullinn öxi sína til höggs. En höggið geigaði hjá honum sem fyrr, og við þriðja högg mælti biskup: “In manus tuas, domine, commendo spiritum meum” – herra, í þínar hendur fel ég anda minn. Það heyrðu menn hann mæla síðast orða, en í sjöunda höggi tók loks af höfuðið.

Eftirmáli – janúar 1551

Kirkjuból

Tóftir Kirkjubóls.

Norðlenskir vermenn drápu alla danska vetursetumenn á Suðurnesjum til hefnda eftir Jón biskup Arason og syni hans nú rétt fyrir Pálsmessu svo að ekki lifir utan einn, sem slapp frá þeim og komst í Skálholt. Meðal þeirra, sem að velli voru lagðir, var fógetinn á Bessastöðum, Kristján skrifari, er stóð fyrir aftöku Hólafeðga.

Þremur nóttum fyrir Pálsmessu komu sextíu norðlenskir vermenn suður á Reykjanes, og er það almannarómur, að Þórunn á Grund, dóttir Jóns biskups, hafi búið þá til ferðar og lagt svo fyrir, að þeir skyldu drepa alla Dani, sem þeir fengju færi á, hvar sem til þeirra næðist.

Kirkjuból

Kirkjuból – grafstæði.

Fógetinn, Kristján skrifari, tók sér gistingu að Kirkjubóli á Miðnesi með förunauta sína hjá Jóni bónda Kenrikssyni. Norðlendingar héldu uppi njósnum umferð hans, og um kvöldið eða nóttina dreif að flokka manna, sem slógu hring um bæinn. Voru þar komnir Norðlendingar þeir, sem talið er að Þórunn á Grund hafi gert út til hefnd. Voru þeir allir með hettur og hökustalla, svo að ekki yrðu borin á þá kennsl.
Norðlendingum varð það fyrst fyrir, er þeir sáu, að til bardaga myndi koma, að þeir létu kalla séra Jón Bárðason út, svo að hann fengi ekki mein af vopnum manna, og þekktist hann þegar boð þeirra um undankomu. Síðan rufu þeir húsin og veittu Dönunum atgöngu er þeir þóttust hafa brotið sér nógu greiða leið. Féllu allir þar inni, sjö eða níu, nema fógetinn, sem komst út, nokkuð sár. Var hann í hringatreyju, sem járn bitu ekki á, og fékk varist enn umhríð, uns til koma einn sveina Þórunnar á Grund. Hann var með lensu í hendi og kvaðst skjótt skyldu finna lagið á fógeta. Lagði hann lensuna neðan við treyjuna upp í smáþarmana. Rak fógeti þá upp hljóð, er hann kenndi lagsins, og lýsti piltinn banamann sinn. Meðal þeirra, sem drepnir voru á Kirkjubóli, var ungur sonur fógetans, Baldvin að nafni.

Kirkjuból

Kirkjuból – loftmynd 1954.

Þegar lokið var vígum, drógu Norðlendingar líkin norður fyrir garð á Kirkjubóli, þar sem þeir urðuðu þau í einni kös.
Á Bústöðum á Seltjarnarnesi bjó danskur maður og var honum gerð aðför ásamt fleirum, s.s. að Másbúðum. Alls voru það fjórtán menn, sem Norðlendingar vágu í einni lotu til hefnda eftir Jón biskup og syni hans.

Lík Jóns biskups Arasonar og sona hans, Björns og Ara, voru í apríl 1551 grafin upp að kórbaki í Skálholti og færð heim til Hóla. Hlutu þau leg í kirkjunni.

Laugarvatn

Vígðalaug á Laugarvatni.

Á leiðinni norður var komið við á Laugarvatni, þar sem tjaldað var yfir líkin, þau þvegin og búið sem best um þau. Kisturnar voru reiddar á kviktrjám og við hverja kistu voru hengdar litlar bjöllur eða klukkur, sem hringdu látlaust við hverja hreyfingu hestanna. Hvar sem þeir fóru um sveitir, flykktist fólk að þeim, einkum vanheilt og sjóndapurt, til þess að snetra kisturnar, ef það mætti verða því til bötunar, og fannst mörgum þeim verða að hyggju sinni.

Dönsk herskip voru send til Íslands í júlí 1551. Og tóku höfn í Eyjafirði. Flotaforingjarnir riðu til Hóla með sveit manna. Lögðu þeir hald á það, er þeim þótti fémætt og séra Björn Gíslanson hafði ekki áður komið undan í gröft eða geymslu. Helstu klerkar, sýslumenn, lögréttumenn og bændur voru kvaddir á Oddeyri og látnir sverja konungi hollustueiða.

Laugarvatn

Upplýsingaskilti á Laugarvatni.

Helga Sigurðardóttir, fylgikona Jóns biskups Arasonar, leyndist í úthaga um sumarið. Bjóst hún fyrst um í Vindáshlíð í mosalituðu tjaldi, samlitu jörðinni, en var síðar flutt á Glóðafeyki upp á Ökrum í Blönduhlíð, þar sem hún þótti óhultari.
Otti Stígsson lét taka Jón Kenriksson, bónda á Kirkjubóli á Miðsnesi, af lífi, ásamt einum hjáleigubændanna þar syðra. Var Jóni fundið það til saka, að hann hefði ekki bannað Norðlingum að rjúfa bæinn að Kirkjubóli, er þeir fóru að Kristjáni skrifara og fylgismönnum hans. Menn þessa lét Otti færa inn í Straum og reisa þar höggstokk, hjól og stengur. Voru þeir Jón Kenriksson leiddir þar ti höggs, höfuð þeirra sett á stengurnar og bolirnir hjólbrotnir í viðurvist, er þangað var stefnt. Síðan var allt látið standa sem komið var, öllum þeim til viðvörunar, er þar fóru um.

Hörð hríð var gjörð að banamönnum Kristjáns skrifara og annarra Dana, sem norðlenskir vermenn vágu á Suðurnesjum. Voru þeir allir dæmdir óbótamenn á Öxarárþingi. Sextán Norðlendinganna flúðu land með enskum kaupförum og fiskiskipum. Konungur féllst síðan á að þeim yrði leyft að kaupa sér frelsi, þar eð ekki var unnt að ná til margra þeirra, sem fremstir voru í flokki.

Skálholt

Skálholt á miðöldum.

Þórunn á Grund var fjórgift og loks svipt sjálfræði. Hún andaðist í desember 1593. Með henni var fallin einn helsti skörungur meðal kvenna á landinu. Hún var komin nokkuð á níræðisaldur. Var séra Sigurður á Grenjaðastað einn á lífi barna Jóns biskups Arasonar.
Hálfri öld eftir víg Jóns biskups Arasonar og sona hans var kyn hans þó orðið næsta fjölmennt, einkum þó kynkvísl séra Björns Jónssonar á Melstað.
Sjá meira um eftirmálana.

Heimild m.a.:
-Öldin okkar.

Kirkjuból

Kirkjuból – grafstæði.