Færslur

Jón forseti

Í Sunnudagsblaði Tímans árið 1967 má lesa eftirfarandi um strand Jóns forseta við Stafnes. Það er einn skipverjanna, Gunnlaugur Jónsson, sem segir frá:

Morgunblaðið birti veðurhorfur á sunnudeginum 26. febrúar, 1928: Snarpur sunnan og suðaustan. Hlókuveður.
Niðamyrkur var og stríð gola úr landsuðri. Jón forseti hefur verið tvo sólarhringa á veiðum í Jökuldjúpi og stefnir nú fyrir Reykjanesskaga.
Jon forseti - 221— Ég á vakt klukkan þrjú um nóttina, og halla mér því eftir kvöldsnæðing. Eftir fjögurra stunda væran svefn vakna ég snögglega við feiknlega skruðninga og bresti. Skipið nötrar, og skerandi málmhljóð nístir merg og bein. Mér verður þegar ljóst, að við höfum steytt á rifi. Ég snarast fram úr kojunni, þríf stígvélin og kemst í þau með erfiðismunum. Allt hrikktir og skipið skelfur, svo að varla er stætt. Í óðafári böðlast ég upp á dekk og sé, að skipið er við klettótta strönd og skammt undan klýfur vitageisli myrkrið. Allt um kring rísa og falla ógnvænlegir boðar, lemja utan skipið og kasta því til á grjótinu. Ég sé ekki yfir sjóina, og er þó lágfjara.
Ég staulaðist aftur þilfarið, og við áhafnarmenn tökum tal saman í brúnni. Skipið hefur rekizt á svonefnt Stafnesrif. Ljósgeislarnir koma frá vitanum í Stafnesi, en til lands eru um það bil þrjú hundruð og fimmtíu faðmar. Fyrir innan rifið er hyldjúpt lón, Hólakotsbót, og er þar stilltur sjór, þótt rifið sjálft sé umleikið hvæsandi brimgarði. Allir erum við vongóðir um að ná landi, komi björgunarsveitir fljótt á vettvang. Sent hefur verið neyðarkall, og er nú ekki um annað að ræða en að bíða, herða upp hugann og vera bjartsýnn.
Skipið er alónýtt. Fyrsti meistari segir mér, að stórt bjarg hafi skorizt inn í vélarúmið og megi geta nærri, hvað fylgt hafi á eftir. Nokkrir skipverja láta þau orð falla, hvort ekki sé reynandi að setja út bjargbátinn, og þykir mönnum sjálfsagt að fara til þessa. En þá er fjarað svo út, að báturinn lendir í urðargrjóti og spænist sundur undan boðunum. Megum við lofa guð og lukkuna, að enginn skyldi álpast strax í bátinn, því það hefði orðið hvers manns bani.
— Segðu mér Gunnlaugur, hvers vegna strandaði Jón forseti við Stafnes í hægu veðri og tiltölulega góðu skyggni?
— Þar voru óheilladísir að verki. Maðurinn við stýrið tók stefnu beint í klettana og hefur trúlega haldið, að Stafnesviti væri Reykjanesviti. Mér dettur engin önnur skýring í hug.
— Var skipstjóri ekki í brúnni?
— Nei. Magnús blundaði í klefa sínum, en hásetar á vakt höfðu sagt honum af Garðskagavita, og hann var í þann veg að fara upp. Að vísu er skipstjórans að tilkynna stefnubreytingu, en maðurinn við stýri átti að þekkja siglingaleiðina fyrir Reykjanesskaga svo vel, að hann gerði ekki skyssu eins og þessa. Ég man ljóslega, að Magnús sagði við okkur í brúnni: „Ég skil ekki í manninum.” Hann var fátalaður eftir það.

Stafnes

Stafnes.

Jón forseti tók niðri um klukkan eitt á mánudagsnóttina tuttugasta og sjöunda febrúar, og barst váfregnin þegar til fjölmargra skipa, er á siglingu voru undan Suðvesturlandi. Tryggvi gamli, skipstjóri Kristján Schram, var næstur slysstaðnum, og kom hann þangað fyrstur klukkan sex um morguninn. Áhöfn Tryggva gamla sá þó ekki Jón forseta fyrr en klukkan hálf átta, og þá virtust engir vera þar ofan þilja. Hallaðist skipið mikið á bakborða og dundu á því sjóirnir.
Óheillatíðindi fara sem eldur á akri, og leið ekki langur tími, unz stjórnarmönnum h.f. Alliance í Reykjavík var tilkynnt um strandið. Þegar í stað byrjaði björgunarsveit undir forystu Halldórs Kr. Þorsteinssonar og Jóns Sigurðssonar ferð sína að Stafnesi. Var komizt á bifreiðum til Fuglavíkur, en þaðan var drjúg klukkustundar reið í Stafnesfjörur og torleiði mikið. Lauk ferðinni árla morguns hjá Stafnesi, og voru þá fyrir utan rifið þessi skip: Tryggvi gamli sem áður getur, Ver og Hafsteinn, og skömmu síðar komu Þór og Gylfi.
Veðurlag hélzt óbreytt, sunnanátt og hláka. Í Jóni forseta er vistin slæm. Enn grúfir vetrarmyrkrið yfir, og nú fellur að. Æsist brimrótið. Nær helmingur skipverja er í lúkarnum, en hinir standa í brúnni, þeirra á meðal Gunnlaugur.
— Ég er ekki rór, hvað sem veldur, og sný mér því að skipstjóranum og segi í hugsunarleysi: Ég held ég fari fram í til karlanna. Honum hnykkir við þessi orð. Hann lítur á mig hvasseygur og svarar þykkjuþungur: Nei, Gunnlaugur, þú verður hér kyrr. Ég fyrirbýð ykkur að brjótast á milli. Boðarnir eru svo slæmir. Mér þykir illt að hlýða banni Magnúsar, en læt þó talið niður falla og þoka mér frá honum. Er ég kominn að brúardyrunum, þegar mér heyrist rödd hvísla í síbylju: Þú ferð, þú ferð, þú ferð, þú ferð, . . . , og ég læðist út, í senn fífldjarfur og hikandi. Sjóirnir hafa magnazt, þrymja, svella og brotna á þilfarinu. Skipinu hallar, og er enginn hægðarleikur að beita sér til gangs. Ég gríp báðum höndum í ljósastagið, og með herkjum get ég þannig þumlungað mig fram í lúkarinn. Í lúkarnum er líðan allra góð. Þar er þurrt, og karlarnir í óða önn að búa um föggur sínar niður í poka og bera þá upp á hvalbak. Ég fer að dæmi þeirra. Nú birtir af degi. Komið er háflóð. Við verðum nauðugir að hreiðra um okkur á hvalbaknum og sláum þar utan yfir okkur trossu. Nokkrir fara í reiðann, en af þeim, sem eftir voru í brúnni, hafast þrír við uppi á stýrishúsinu. Brimið er geigvænlegt. Við á hvalbaknum erum betur settir en brúarmenn, þar eð við sjáum, hvað brotunum líður. Þeir snúa hins vegar í þau bökum og horfa gegnt okkur.

Stafnes

Stafnes – örnefni. ÓSÁ.

Líður svo af morguninn. Um klukkan tíu æðir válegur boði og feiknmikill að skipinu, og við öskrum til brúarmanna, að þeir skuli vera reiðubúnir, gefum bendingar og pötum út í loftið. Ef til vill hafa þeir ekki haft auga með okkur. Sjórinn brotnar tvisvar áður en hann skellur á skipinu, og ekki að síður rífur hann skorsteininn hálfan af, mélar brúna og tekur sjö menn út. Frá okkur hrekur einn mann, en við náum honum aftur inn. Þessi atburður dregur úr mörgum kjark um stund, og lífsvon, sem okkur hefur fylgt fram til þessa, virðist stunum jafnvel skopleg bjartsýni. Ég hugsa sem svo, að nú sé annað hvort líf eða dauði á næsta leyti og valið sé ekki mitt, en ég geti reynt að þrauka. Að þrauka og þrauka, að vilja ekki deyja, að þrauka, það er okkar hlutur. Sökum boðafalla er óhægt að dveljast lengur á hvalbaknum, og raða menn sér í reiðann. Er hann þröngskipaður svo hátt sem komizt verður. Förin í reiðann er flestum sæmilega greið, nema hvað þann, sem lestina rekur, hrifsar holskefla útbyrðis, og getum við enga hjálp honum veitt. Þetta er harðger maður, flugsyndur, og grípur hann þegar sundtök í átt til lands, en svo er straumur í Bótinni stríður, að félaga okkar hrekur andviðris á haf út, og eru dagar hans taldir.
Stafnes - 221Skipið sígur nú að framan og vagar á grjótinu. Stundum leggst reiðinn niður í urðina, og allir hljótum við einhver meiðsli. Ber ég þessa enn merki í andliti. Sérhvert skipti, sem reiðinn sígur, tauta ég við sjálfan mig: Nú fer mastrið, nú fer það, og þú ert dauður, karl minn, steindauður. — En Forsetinn reisir sig ætíð upp milli brotanna, og ekki lætur mastrið undan sjóganginum.
Nú tekur að falla út. Lægir brimrótið. Við sjáum tvo menn liggja á brúarvængnum, og þeir ríghalda sér, unz sjódrykkja ríður þeim að fullu. Greipar opnast, og tveimur skolar út í kalda röstina. Við hinir eigum að þrauka, og við skulum þrauka. Skip, sem á vettvangi voru, gátu lítið gert til björgunar. Hellt var niður lýsi og olíu í sjóinn, en brimið var meira en svo, að þessi austur kæmi nokkrum að haldi. Tóku þá skipverjar að slæða eftir líkum þeirra, sem útbyrðis höfðu fallið af Jóni forseta. Björgunarsveitin í landi fékk léðan áttæring og tvær skektur frá Stafnesi. Skyldi áttæringurinn liggja í landfestum, en smábátarnir notast sem dragferjur, ef takast mætti að koma línu út í hið strandaða skip. Tilraunir í þá átt báru þó engan árangur, og um hríð var lítil bjargvon. Strandfregnin birtist í glugga Morgunblaðsins árla dags, og dreif þangað múg manns. Sló óhug á Reykvíkinga við þessi sorgartíðindi, og í veðursæld vetrarins sáust engir brosa, nema börn. Var mánudegi þessum líkt við sjöunda apríl, árið nítján hundruð og sex, þegar drukknuðu nær sjötíu menn í Faxaflóa, tuttugu þeirra fyrir augum bæjarbúa hjá Engey og Viðey. Nú var Jón forseti, minnsta skip íslenzka togaraflotans, ofarlega í allra huga, og milli vonar og ótta biðu menn nýrra fregna af ættingjum, ástvinum og kunningjum, nýrra tíðinda frá Stafnesi.
Miðdegi. — Í reiðanum sjáum við, að áttæringur liggur fyrir landi, hjá honum tveir smábátar, og hafa björgunarmenn bundið átta lóðabelgi á aðra skektuna. Líður og bíður, og lánast þeim ekki að senda út línu til okkar í flakinu. Höfum við flestir glatað nær allri von um björgun úr landi. Þykir okkur einsætt, að viljum við lifa hljótum við að varpa okkur til sunds, kafa undir ólögin og reyna þannig að komast í ládeyðu. Að vísu skortir suma næga sundfimi en við erum þá dauðir hvort sem er. Ekki dettur mér í hug nokkurt líf, en ég er eigi að síður rólegur, og engin flýgur að mér hræðsla.

Jón forseti

Jón forseti.

Meðan við ráðgumst um þetta okkar á milli, rek ég augun í baujuræfil, sem hangir við mastrið. Eru af baujunni bæði sköftin, en kaðalhönkin virðist mér óröskuð. Ég lít upp til næsta manns og spyr, hvort ekki sé unnt að koma út baujunni í þeirri von að hana beri að bátunum inn á lónið. Nú sé fjara, brimrótiS stilltara en fyrr um daginn, og straumur ekki landstæður. Með aðgæzlu megi fikra sig að borðstokknum og fleygja út baujunni. Tillögu þessari er slælega tekið í fyrstu. En eftir stundarkorn kallar einhver til mín: Gunnlaugur, við skulum reyna þetta með baujuna. — Er hinar hafizt handa, og innan varpa ég baujunni út fyrir, hverfur og henni skýtur upp. Á baujunni hefur enginn augun, þar sem hana hrekur að lóninu og eftir fylgir visin líftaug þrettán manna. Fjöregg mitt er gúmmíbelgur, eymdarlegur gúmmíbelgur. Öldurnar henda honum milli sín, og stundum eins og þær vilji spotta mennina í reiðanum, geri leik að því að færa baujuna á kaf og halda henni þar lengi, svo að dauðans angist grípur alla. — Skorðast hún föst í grjótinu — Slitnar reipið? —Ber brimið hana til baka? — Skyldi reipið rekjast sundur á enda?
— Nær það nógu langt? — Tekst það? — Eða?
Enginn er til svars. í reiðanum ríkir þögn, og ekkert hljóð berst okkur til eyrna utan hryglandi hvæs boðanna. Það tekst. Ég setti líf mitt að veði fyrir einn gúmmíbelg, og aldrei hefur mér þótt jafn vænt um nokkurn dauðan hlut og þennan vesæla belg, þegar björgunarmennirnir slæða hann til sín í bátana. Nú birtir yfir svip okkar. Við höfum þraukað, og þetta eru launin. Í reipið er bundin taug, taugin fest í skektuna með lóðabelgjunum átta, og drögum við hana svo nærri flakinu sem vogandi þykir. Og þá er komið að hinum fyrstu að fara í bátinn. Einn okkar skipsfélaga i reiðanum er fátækur barnamaður, og finnst öllum miklu varða, að hann nái landi heilu og höldnu. Við segjum honum að varpa sér fyrstum í skektuna, en hann þvertekur fyrir það og svarar þrásinnis: „Ég fer næst, ég fer næst. Mér þykir ennþá af mikil ólga.” Ég legg fast að manninum að yfirgefa flakið, en hann skeytir því engu og neitar sem áður. Ekki dugir að þjarka um þetta lengi, og annar maður hendir sér fyrstur útbyrðis. Hann er vel syndur, kafar undir
ólögin og kemst í bátinn. Næsti maður hverfur í brimið, hefur trúlega fengið krampa, og þá hikum við hinir um stund, svo að skektan er dregin strax að áttæringnum. Klukkan er fjögur. Lánast hefur að bjarga einum. Aftur togum við kænuna til okkar, en hún ee oftast í kafi og þung í drætti. Fara nú þrír úr reiðanum í skektuna, en þá brotnar stefnið við skipshlið, og slitnar samtímis taugin, sem höldum við í hinir. Björgunarmenn sjá þegar, hvað orðið hefur, og draga bátinn rösklega að landi, en við, skipsfélagar, sem eftir eru, hefjum leit að öðru dufli að binda við kaðalreipið og láta það reka inn á lónið. Að drjúgri stundu liðinni ber leitin árangur, og sagan endurtekur sig. Við togum til okkar nýja skektu, og komast nú fimm menn frá flakinu, þeirra á meðal ég sjálfur. Ég hef drukkið mikinn sjó og er vinglaður, svo að ég veiti því tæpast athygli, þegar björgunarmenn lyfta mér úr bátnum og ég er leiddur upp ströndina, en þar bíður okkar Helgi Guðmundsson, læknir í Keflavík og gerir að sárum manna.
Nú rökkvar óðum, enda liðið á sjötta tímann. Eru þrír skipverja eftir í reiðanum, og gengur þeim illa að draga skektuna að flakinu og halda henni þar kyrri í brimrótinu, sem æsist fremur en stillist. Fer svo að lokum, að dráttartaugin brestur, og er þá öll bjargvon úti, nema þessum þremur takist að synda í land. 

Jón forseti

Jón forseti á strandstað.

Tveir varpa sér fyrir borð, en hinn fátæka barnamann, sem áður kom við sögu, skortir áræði til sunds, og verður hann um kyrrt í reiðanum. Mennirnir tveir synda hins vegar lengi og knálega, og kemst annar í skektuna, og er hún dregin að áttæringnum. Náð er hinum nokkru síðar, og er þá svo af honum dregið, að hann deyr, þrátt fyrir lífgunartilraunir læknis. Vonlaust er nú talið, að bjarga megi þeim, sem í flakinu dvelur, og lætur sveitin af frekari björgunartilraunum. Henni eiga tíu menn líf sitt að launa, og er björgun þeirra mikið þrekvirki við slíkar aðstæður sem hjá Stafnesi.
Um kvöldið sigldu öll skip frá slysstaðnum, nema hvað strandgæzluskipinu Óðni var haldið í námunda við rifið um nóttina. Beindu skipverjar kastljósum að mastrinu á Jóni forseta, en þar lét hinn fátæki barnamaður fyrir berast og hreyfði sig hvergi. Klukkan tíu á mánudagskvöld kom Tryggvi gamli með lík fimm manna til Reykjavíkur. Þeim var þegar ekið í líkhús og um þau búið sem hæfa þótti.

Jón forseti

Jón forseti.

Nóttin hin næsta varð mörgum beizk og bitur, og mun þarflaust að lýsa hér tilfinningum þeirra, sem á bak sáu nánustu samferðamönnum og ástvinum. Svo er ritað í grein í Morgunblaðinu hinn fyrsta marz: En Reykvíkingar sýndu sorgbitnum samúð þá, og svo hygg jeg að enn muni verða. Því svo er háttað með okkur hjer í borginni, að þó við aðra stundina rífumst og bítumst, sem gráir seppar eða gaddhestar um illt fóður, þá kennum við samúðar hver með öðrum, þegar þungar raunir steðja að bræðrum vorum og systrum. Sýna Reykvíkingar þá oft í orði og verki, að það er sannur vitnisburður um þá, að þeir mega ekkert aumt sjá eða bágt heyra. Skipbrotsmenn sofa í Stafnesbænum þessa döpru nótt.
— Ég vakna árla morguns, og er þá vonlega velktur mjög og blámarinn innanvert á lærunum, en get þó skreiðzt á fætur. Geislarnir frá Óðni lýsa upp svefnstofuna, og kemur mér þá félagi okkar, barnamaðurinn, í hug. Þykir mér sjálfsagt að reyna að klöngrast niður að ströndinni og kanna, hvernig honum reiði af i flakinu. Förum við tveir, en hinir átta geta sig lítið hreyft sökum meiðsla. Vindur er snarpari en daginn áður og hafrótið meira. Þegar við göngum ofan í klettana, sjáum við félaga okkar í mastrinu. Lítur svo út, sem hann hafi bundið sig, því hann hreyfir einungis höfuðið og bifast hvergi, þótt flakið vagi á rifinu, Óefað er honum ekki lífs auðið. Í flæðarmálinu r

ekumst við á lík af einum skipverja. Hann hefur verið ásamt okkur í þrjá daga, og við þekkjum hann lítið.
Um klukkan átta stöndum við aftur hjá Stafnesbænum, og sjáum þá, að holskefla liðar flakið sundur, mastrið fellur, og innan stundar, sleikir hrá dagskíma bera klöppina.

Jón forseti

Jón forseti.

Hinn tuttugasta og áttunda febrúar birtust í Morgunblaðinu nöfn og heimilisföng þeirra, sem björguðust:
Bjarni Brandsson, bátsmaður, Selbrekkum.
Magnús Jónsson, Hverfisgötu 96.
Pétur Pétursson, Laugavegi 76.
Sigurður Bjarnason, Selbrekkum.
Kristinn Guðjónsson, Selbrekkum.
Steingrímur Einarsson, Framnesvegi.
Gunnlaugur Jónsson, Króki, Kjalarnesi.
Steinþór Bjarnason, Ölafsvík.
Frímann Helgason, Vík, Mýrdal.
Ólafur I. Árnason Bergþórugötu 16.
Fimmtán menn fórust á Stafnesrifi, og var hinn elzti fjörutíu og sjö ára að aldri, en tveir hinir yngstu sautján ára. Sjö hinna látnu voru kvæntir, og létu þeir eftir sig þrjátíu og fjögur börn, en bryti á Jóni forseta drukknaði ásamt átján ára syni sínum, sem var elztur níu systkina. Í Reykjavík var þegar efnt til samskota að styrkja föðurlaus heimili, og var fyrsta framlagið frá h.f. Alliance, fimmtán þúsund krónur.
Hinn áttunda marz voru tíu skipverja bornir til grafar, en þá voru fimm lík enn ófundin. Var útför allra gerð frá Fríkirkjunni, og mun það vera fjölmennust helgiathöfn á Íslandi fyrr og síðar. Sóttu hana sex til sjö þúsund manns, og náði líkfylgdin frá kirkjunni sjálfri í miðja Suðurgötu. Í gamla kirkjugarðinum í Reykjavík biðu níu opnar grafir. Hin níunda beið föður og sonar – jöm.”

Sjá umfjöllun RÚV af strandi Jóns forseta HÉR.

Heimild:

-Tíminn Sunnudagsblað, 2. júlí 1967, bls. 564-569.

Stafnes

Á Stafnesi.

Stafnes

Minnivarði um strand togarans Jóns forseta var í gær afhjúpaður á Stafnesi.
Jón forseti RE 108 markaði tímamót í íslenskri útgerðarsögu en hann var fyrsti togarinn sem smíðaður var fyrir Íslendinga og kom til landins þann 23. janúar 1907.

Reynir Sveinsson og Höskuldur FrímannssonAð morgni 28. febrúar 1928 strandaði Jón forseti við Stafnes.  Á þeim tíma voru engin tæki til björgunarstarfa og engin vegur né sími var á Stafnesi. Bátar voru sendir frá Sandgerði með olíu til að hella í sjóinn og reyna þannig að lægja öldur.
Áhöfninni tókst að láta flot reka að landi sem varð til þess að hægt var að draga litla skektu að skipinu og þannig tókst að bjarga níu mönnum.
Þegar ekki var lengur hægt að nota skektuna voru þrír menn eftir á lífi um borð í togaranum. Ákváðu tveir þeirra að fara úr sjóstökkum og stígvélum og fara í sjóinn á stórri öldu sem bar þá langa leið að landi. Annar þeirra komst lifandi til lands en það var Frímann Helgason. Hann var þá 18 ára og varð síðar kunnur íþróttamaður.
MinnisvarðinnStrand Jóns forseta var mikið áfall fyrir íslensku þjóðina. Fimmtán menn drukknuðu í sjóslysinu. Forsetinn hafði verið flaggskip íslenskra togara um árabil.
Slysavarnafélag Íslands var nýstofnað á þessum tíma og  setti kraft í að stofna slysavarnadeildir um landið. Sú fyrsta var stofnuð í júní 1928 í Sandgerði. Hún hlaut nafnið Sigurvon.

Þann 27. ágúst 2009 var á Stafnesi afhjúpaður minnisvarði um togarann Jón Forseta sem fórst utan við Nesið 28. febrúar árið 1928. Reynir Sveinsson og Höskuldur Frímannsson, sonur síðasta mannsins sem bjargaðist af Jóni Forseta, afhjúpuðu minnisvarðann.

SkjöldurKristinn Jónsson, framkvæmdastjóri slysavarnafélagsins Landsbjargar, flutti stutt ávarp að lokinni vígslu og sagði meðal annars frá því að afi sinn hafi verið skipstjóri á Jóni Forseta er hann strandaði.

Reynis Sveinssonar, verðandi formaður Slysavarnardeildarinnar Sigurvonar í Sandgerði (hann hefur verið vikur í deildinni í 23 ár), flutti einnig ræðu við athöfnina:

“Góðir gestir,
Ég vil bjóða ykkur öll velkomin hingað að Stafnesi þar sem afhjúpaður verður minnisvarði um strand togarans Jóns Forseta RE 108.
JónStafnes á merka sögu tengda sjóslysum, má þar nefna að árið 1685 á góuþrælnum fórust sjö skip frá Stafnesi og drukknuðu 58 menn á einum degi.
Nafn þessa staðar Stafnes er tilkomið vegna sjóslyss, en fyrr á öldum var nafnið Nes ávallt notað um þennan stað. Fyrir margt löngu bjó hér útvegsbóndi sem var orðinn fótalúinn. Hann sat í smiðju og var að tálga sér staf, er tvær vinnukonur komu til hans og sögðu honum þau döpru tíðindi að bátur sem tveir sona hans hafi verið á hafi farist er báturinn tók land og bræðurnir hafi báðir látist.
Gamli maðurin kláraði að tálga stafinn og bað nokkru síðar vinnukonurnar að fylgja sér að þeim stað þar sem báturinn fórst. Þegar þau voru komin út á klappirnar þar sem sjórinn braut á, lyftir gamli maðurinn nýja stafnum upp, lamdi honum í sjóinn og mælti “Héðan í frá skal enginn láta lífið sem tekur land á Nesi sé farin rétt sundleið og skal Nesið héðan í frá heita Stafnes”.
23. janúar árið 1907 urðu tímamót í Íslenskri útgerðasögu, en þann dag kom fyrsti togarinn sem smíðaður var fyrir Íslendinga, Jón Forseti RE 108.
Jón forsetiAð morgni 28. febrúar árið 1928 nefndu menn nafn skipsins í hálfum hljóðum með óræða bæn í svip og fasi. Forsetinn var strandaður við Stafnes.
Þá tók við barátta upp á líf og dauða hjá áhöfn skipsins við miskunarlaust hafið, en á þessum tíma voru engin tæki til björgunarstarfa, engin vegur né sími var á Stafnesi.
Bátar voru sendir frá Sandgerði með olíu til að hella í sjóinn og lægja öldur.
Áhöfninni tókst að láta flot reka að landi sem varð til þess að hægt var að draga litla skektu að skipinu og þannig tókst að bjarga níu mönnum. Þegar þrír menn voru eftir á lífi um borð í Jóni forseta og ekki lengur hægt að notast við litlu skektuna,  ákváðu tveir þeirra að fara úr sjóstökkum og stígvélum og fara í sjóinn á stórri öldu sem bar þá langa leið að landi. Aðeins annar þessara manna komst lifandi til lands, Frímann Helgason þá 18 ára og varð hann síðar kunnur íþróttamaður.
Þetta strand var mikið áfall fyrir Íslensku þjóðina. Fimmtán menn drukknuðu í sjóslysinu og Forsetinn hafði verið flaggskip íslenskra togara um árabil.
JónSlysavarnafélag Íslands sem var ný stofnað setti nú kraft í að stofna Slysavarnadeildir um landið og var fyrsta deildin stofnuð í júní árið 1928 í Sandgerði og hlaut hún nafnið Sigurvon.
Árið 1929 kom björgunarbáturinn Þorsteinn til Sandgerðis og fljótlega eftir komu bátsins var hafist handa við að leggja veg frá Fuglavík að Stafnesi svo hægt væri að fara með bátinnn að Stafnesi ef slys bæri að höndum.  Það var sagt að þessi vegur væri ógnarbreiður en það kom til útaf breidd vagnsins sem flutti Þorstein og er Stafnesvegur sennilega eini vegurinn sem er lagður fyrir bát hér á landi.
Að lokum langar mig að þakka þeim systrum á Vestur-Stafnesi fyrir að ljá land undir minnisvarðann, öllum þeim starfsmönnum sem komu að verkefninu þar á meðal jarðvinnu og girðingavinnu, Sjóminjasafninu Víkin á Grandagarði, Eignarhaldsfélagi Brunabótafélags Íslands sem veitti styrk til verkefnisins ásamt Sandgerðisbæ.
Hér á meðal okkar er Höskuldur Frímannsson sonur síðasta mannsins sem bjargaðist af Jóni Forseta og vil ég biðja hann að koma hingað og afhjúpa verkið.”

Þess má geta að Reynir var upphafsmaður að setja upp þennan minnisvarða, vann við að finna grjót og láta skera mynd skipsins út ásamt því að stórbæta allt umhverfið, stækka planið og girða umhverfis minnisvarðan. Við hann eru 15 minni steinar til minningar um þá 15 menn er fórust í þessu slysi.

Heimild:
-245.is
-vikufrettir.is

Stafnes

Á Stafnesi með Sigurði Eiríkssyni.