Færslur

Jón Valgeir Guðmundsson

Í Degi, Íslendingaþáttum, árið 1998 er fjallað um “Samgöngur hið forna”,  og er þar sérstaklega getið Ögmundarhrauns.

Ögmundarhraun

Hin forna gata um Ögmundarhraun, áður en vagnvegurinn var lagður.

“Forn gata um Ögmundarhraun. Þarna voru miklar samgöngur fyrr á öldum og hafa skeifur hestanna klappað götu í hraunhelluna.
Fyrr á öldum voru miklar samgöngur milli Suðurlandsins og verstöðvanna á Suðurnesjum. Þar voru vermenn á ferð og eins þurfti að koma varningi milli landshlutanna.
Sveitamenn að austan seldu sínar afurðir íbúum lítt búsældarlegra Útnesja og keyptu í staðinn skreið og annað sjávarfang. En erfiðir farartálmar voru á leiðinni, bæði á sunnanverðu nesinu og eins að norðanverðu, þar sem úfin hraun bönnuðu allar hestaferðir milli Útnesja og Innnesja. Ornefni eins og Hvassahraun vísa til landslagsins milli Hafnarfjarðar og Vatnsleysustrandar.
Hraunin neðan Krýsuvíkur voru ekki síður torfarin, þannig að leiðirnar út á Reykjanes voru nánast lokaðar og alls ekki hestfærar og troðningar tæpast bjóðandi skólítilli þjóð. Hraunin á Reykjanesi eru bæði gömul og ný. Talið er að Kapelluhraun, þar sem álverið stendur, og Ogmundarhraun vestan Krýsuvíkur, hafi runnið úr miklu gosi skömmu eftir árið 1000. Undir þeim eru önnur og eldri hraun.
Um Ögmundarhraun liggur gömul gata, sem á sér svipaðan uppruna og vegurinn um Berserkjahraun vestra, og glöggt er sagt frá í Eyrbyggju hvernig sú samgöngubót var framkvæmd, og frægt er orðið fyrir löngu.
Í sóknarlýsingu séra Jóns Vestmanns í Vogsósum er sagt frá hverjir stóðu að vegaframkvæmdunum við Krýsuvík forðum daga, en vert er að gefa því gaum, að þar starfaði leysingi að, en þrælahald lagðist af á Íslandi á 11. öld. Er því vegurinn yfir hraunið þarna orðinn ærið gamall.

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur í dag.

En hér fer á eftir lýsingin á vegagerðinni: Áður en það var rutt, varð að fara vestur yfir hálsa fyrir endann á hraunsuppkomunni, þegar fara þurfti til Njarðvíkur eða Keflavíkur. Bóndinn í Njarðvík, að nafni Gissur, átti dóttur. Hennar bað lausingi nokkur er Ögmundur hét, tröllmenni að stærð og kröftum.
Bóndi vildi ei gifta dóttur sína fúlmenni þessu, en treystist ei til að stand á móti honum. Tekur hann því það ráð að lofa honum stúlku þessari, ef hann vildi vinna það til hennar að gera færan veg yfir hraunið, þar sem beinn yrði vegur til Suðurnesja. Þetta verk tókst hann á hendur og framkvæmdi það duglega, en lagðist til svefns að loknu verkinu, austan við hraunbrúnina, en bóndi lá í leyni í hraungjótu, Ætlaði hann hinum stundir að sofna vært og drap hann sofandi. Þar er dys hans, sem drepinn var og er hraunið síðan við hann kennt og kallað Ögmundarhraun.

Í Dagblaðinu 1982 er spurt hversu gamalt Ögmundarhraunið sé? Þar segir m.a.: “Jón [Jónsson] hefur prófað lífrænar leifar í hrauninu með geislakolsaðferð og fær úr ártalið 1040. Staðfestir það niðurstöðu sem Þorleifur Einarsson jarðfræðingur hafði áður komizt að, en vildi láta prófa betur.
Sveinbjörn [Rafnsson] kannar hins vegar gömul skjöl Með afar læsilegri röksemdafærslu færir hann líkur að því að Ögmundarhraun hafi runnið rétt fyrir 1563 og eyðilagt Krýsuvíkurkirkju. Má því segja að þarna skakki 500 árum á niðurstöðum raunvísinda og hugvísinda.

Geislakolsprófanir og kvennafarssögur

Sveinbörn Rafnsson

Sveinbjörn Rafnsson.

Listaskáldið og náttúrufræðingurinn Jónas Hallgrímsson liggur þarna mitt á milli því hann stakk upp á árinu 1340 eða þá 1390.
Þeir sem efast um að jarðfræðingarnir hafi rétt fyrir sér benda á að geislakolsprófanir gefa oft hærri aldur á Íslandi en annars staðar. Hafa menn gizkað á eldgos eða jafnvel sólblettir valdi vissum ruglingi í kolefninu. En þessi skekkja á þó ekki að vera meira en 100 ár og Jón er búinn að draga frá fyrir henni þegar hann velur ártalið 1040.
Þeir sem gagnrýna niðurstöðu Sveinbjörns segja hins vegar að ótrúlegt sé að eldgos hafi orðið á Reykjanesi um 1560, því á það er hvergi minnzt í ritum. Verður Sveinbjörn því að treysta á að viðkomandi heimildir hafi eyðzt, brunnið eða farizt í hafi, ef ekki endað í harðindum. Hann byggir allmikið á því að Krýsuvíkurkirkja er formlega aflögð 1563 og skömmu seinna kemst undarleg saga á kreik. Sumsé að Skálholtsbiskup hafi lagt kirkjuna niður til að hefna sín á manni sem þar átti hagsmuna að gæta og vildi ekki gefa dóttur sína vildarmanni biskups. Þykir Sveinbirni sú skýring vafasöm. Raunar tilfærir hann í grein sinni aðra kvennamálasögu sem tengist hrauninu. Samkvæmt henni hafði Ögmundur nokkur lagt veg um þetta illfæra náttúrufyrirbrigði. Átti hann að fá bóndadóttur að launum, en faðir hennar sá sig um hönd og myrti Ögmund áður en af brúðkaupinu yrði. Þannig fékk hraunið nafn sitt. Telur Sveinbjörn þetta þjóðsögu og ekki ýkja gamla.”

JJón Valgeir Guðmundsson

Jón Valgeir Guðmundsson.

Jón Valgeir Guðmundsson fæddist á Ísólfsskála í Grindavík, 4. júní 1921 og er því að verða 98 ára gamall. Sama dag bar kind lambi sem lifði í 14 ár. Jóni var gefið þetta lamb og sagði hann lambið hafa verið mikla happaskepnu. Það var grátt að lit og mjög eftirsótt var að fá gráa ull. Hann seldi móðursystur sinni reyfið og fékk tvær krónur fyrir það. Rétt eftir að Jón var fermdur drapst þó þessi happaskepna. Afi hans og amma létust með aðeins dags millibili, þann 19. og 20. apríl 1921. Hann hét Jón og hún Valgerður og því fékk hann nafnið Jón Valgeir. Jón átti 11 systkini, 5 hálf- og 6 alsystkin. Á langri ævi hefur Jón komið víða við, unnið vegavinnu, verið lengi á sjó og svo vann hann við að keyra vörubíl fyrir útgerðina í Þórkötlustaðahverfinu.

Byrjaði 12 ára í vegavinnu milli Ísólfsskála og Krísuvíkur

Jón valgeir Guðmundsson

Jón Valgeir Guðmundsson.

Þegar Jón rifjar upp það sem á daga hans hefur drifið segir hann æsku sína hafa verið yndislega, „hún var mjög góð, ég fór snemma að vinna. Ég komst í vegavinnu hjá Einari Ben en hann var að gera veg frá Ísólfsskála upp að Krýsuvík. Hann átti bæði Krýsuvíkina og Herdísarvíkina. Ég fékk vinnu í gegnum föðurbróður minn sem kom að verkinu. Ég var þar um vorið 1933, þá var ég 12 ára. Ég var síðan sendur upp í skála til að elda fyrir mennina sem voru að vinna að veginum. Þetta gekk mjög vel, ég gat matreitt allt; kartöflur, rófur, kjöt eða fisk, matargerðin var einföld. Ég fékk 100 krónur fyrir sumarið,“ segir Jón.

Jón Guðmundsson

Jón Guðmundsson á fer með FERLi á Selatöngum 2004.

„Fjórtán ára fór ég á vertíð hérna í Grindavík. Ég var á trillu og fékk 150 krónur fyrir þá vertíð sem var frá febrúar fram í maí. Af því þurfti ég að borga stakk fyrir 10 krónur og stígvél fyrir 12 krónur. Ég fékk ekki nema hálfan hlut þar sem þetta var fyrsta vertíðin mín. Á næstu vertíð fékk ég 350 krónur.“

Jón fylgdi FERLIRsfélögum um Ögmundarstíg og Selatanga í maí 2004. Sjá má frásögn af ferðinni HÉR.

Út frá framangreindu má álykta að framangreind saga af meintum ágreiningi biskups og Krýsuvíkurbónda og aflögn Krýsuvíkurkirkju hafi ekki stafað af persónulegum ástæðum, heldur hagkvæmum. Lýsing Jóns Vestmanns styður það. Ögmundarhraun rann, skv. áreiðanlegustu heimildum, um 1150.

Ísólfsskálii

Ísólfsskáli. Lyngfell og Festarfjall fjær.

Þjóðsagan um Ögmund er að öllum líkindum yngri en vegagerðin. Vegagerðin virðist hafa verið framkvæmd á 16. öld. Þjóðsagan er því líklega frá á 17. öld. Kirkjusóknin var á þeim tíma færð til Selvogssóknar, og síðar til Grindavíkursóknar, líkt og lesa má í heimildum. Slík tilfærsla sóknar var ekkert einsdæmi á þeim tilgreindu tímum, þótt ekki sé hægt að útiloka afskipti klerkaveldisins í einstökum persónulegum málum þess tíma.

Heimild:
-Dagur, Íslendingaþættir, 24.01.1998, Samgöngur hið forna, Ögmundarhraun, bls. 1.
-Dagblaðið-Vísir, 160. tbl. 17.07.1982, Hvursu gamalt er Ögmundarhraun?, bls. 15.
-https://grindavik.is/v/22455
-https://ferlir.is/isolfsskali-selatangar-med-joni-gudmundssyni/

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.