Um selsbúskap (úr bókinni “Íslenskir þjóðhættir” eftir séra Jónas Jónasson).
“Alsiða var það fyrrum, einkum þar sem þröngt var um haga heim um sig, og þurfti ekki til, að hafa búsmala í seli á sumrum frá fráfærum og til tvímánaða eða til þess er nálega 16 vikur voru af sumri. Selin voru byggð til dala eða svo langt frá bæjum, að náðist til betri og kjarnmeiri haga en heima fyrir var að fá. Þangað var farið með allan ásauð og stundum flestar kýrnar. Í selinu var jafnan einn kvenmaður, selmatseljan (selráðskona), og ef fé var mjög margt, hafði hún með sér eina eða tvær unglingsstúlkur.
Svo var smali, sem fylgdi fénu úr kvíunum og var yfir því nótt og dag. Ekki var mulið undir smalann í seljunum stundum. Var ekki dæmalaust, að honum væri ætlað að skaka strokkinn, á meðan mjaltarkonur mjöltuðu ærnar. Þótti þá vel úr rætast, ef nokkurn veginn félli saman, að strokkurinn væri skilinn og lokið væri mjöltunum. Af því er talshátturinn; “Það stenst á endum strokkur og mjaltir”. Sagt var og, að ráðskonur hefðu haft það til, að binda strokkinn upp á bakið á smalanum við smalamennsku og láta hann hlaupa með hann, og hafi skilist þannig smjörið. En ósennilegt er, að þetta hafi verið gert, síst almennt.
Selin voru venjulega þrjú hús; mjólkurhús og selbaðstofa og eldhús til hliðar eða frálaust. Oft voru og selið í beitarhúsum, ef þau voru langt frá bænum. Kvíar voru og til að mjalta í ærnar og kofi handa kúm, ef þær voru hafðar í selinu.
Selmatseljan hafði nóg að starfa; að mjalta ærnar, setja mjólkina og hirða hana, búa í strokkinn og strokka hann, búa út smjörið, flóa mjólkina og gera úr henni skyr.
Mjólkin var hleypt í skyr í kössum með loki. Voru þeir háir og mjóri, líkir venjulegu kofforti, og mátuleg klyf, er þeir voru fullir; þeir voru kallaðir selskrínur. Bóndinn heima eða einhver annar á bænum hafði það starf á hendi, að flytja heim úr selinu annan eða þriðja hvern dag, eftir því sem á stóð. Var skyrinu steypt í keröld heima og safnað til vetrar (söfnuðurinn).
Smalamaður fylgdi ánum nótt og dag, eða þá að hann fylgdi þeim á daginn, en lét þær leika lausar á nóttunni. Stundum eða sumsstaðar var þeim og sleppt í bæði mál og þá smalað kvöld og morgna. Mikið var undir því komið, að smalinn væri góður. Alltaf átti smalinn að vera kominn með ærnar í sama mund í kvíabólið kvöld og morgna, og vandist hann furðanlega á það, þó að ekki hefði hann úr í vasanum. Oftast voru unglingar hafðir við smalamennsku, og var þeim oft ætlað miklu meira en þeim var treystandi til, því að þeim er var ekki hlíft, þó að þeir væru bæði ungir og pasturlitlir. Illt áttu þeir oft í meira lagi, er þeir áttu að fylgja fénu nótt og dag og tíð var stirð, rigningar og slagviðri. Þá byggðu þeir sér hús; byrgi eða smalabyrgi, á þeim stöðum, er fénu var mest haldið til haga, og voru þeir þar inni, þegar illt var eða þeir máttu sofna. Ærið voru þessi byrgi smá og lítilfjörleg, en þó skárri en úti.
Þegar komið var fram yfir fardaga, var farið að stía. Til þess var notaður stekkur, einhverskonar rétt, hæfilega stór fyrir ærnar. Í stekknum var kró, lambakró. Lömbin voru tínd úr stekknum og látin inn í króna. Það var gert seint á kvöldin, svo sem stundu fyrir lágnætti, og látið sitja svo um nóttina, þangað til um miðjan morgun daginn eftir. Þá var aftur farið í stekkinn og lömbunum hleypt saman við ærnar.
Eftir Jónsmessuna komu svo fráfærurnar. Þá voru ærnar reknar heim af stekknum og ekki hleypt til lambanna framar, heldur voru þær mjólkaðar fyrst í kvíunum og reknar síðan í haga og setið þar yfir þeim.
Heldur hefir vistin verið einmannaleg fyrir selmatseljuna, þótt mikið hefði hún að gera, enda komst hjátrúin þar að, sem eðlilegt var á þeim tímum. Mörg selmatseljan komst í tæri við huldumenn og urðu þungaðar við þeim; ólu þær svo börnin í seljunum, og veitti maðurinn þeim þar alla aðstoð, svo að einskis varð vart; tók hann svo barnið með sér og ól það upp í álfheimum. En hann gat ekki gleymt ástmeynni úr selinu, og kom oftast einhvern tíma löngu síðar, þegar sonur þeirra var orðinn fullorðinn og selmatseljan gift kona fyrir löngu, og birtist henni til þess að endurnýja fornar ástir. En þeir samfundir verða báðum jafnan að bana.
Eru margar þær harmasögur til. Stundum ólu þær börn í seljunum og báru út, og er því víða óhreint hjá gömlum seljum. Aftur er þess sjaldan getið, að útilegumenn hafi komist í tæri við selráðskonur.
Svo er að sjá, að selfarir hafi mjög verið farnar að leggjast niður, þegar kom fram á 18. öldina og eymd og ódugnaður landsmanna var kominn á hæsta stig. Gaf þá konungur út lagaboð 24. febr. 1754* að skipa öllum bændum að hafa í seli, að minnsta kosti átta vikna tíma, frá því er átta vikur væru af sumri til tvímánaðar. Lítið mun það lagaboð hafa á unnið, enda var þá landið í kaldakoli af harðindum, fé fallið og fólk að deyja úr harðrétti; og svo kom fjárkláðinn mikli rétt á eftir. Þó var mjög víða haft í seli langt fram á 19. öld, þar sem lítið var um sumarhaga heima, þangað til fólkseklan neyddi menn til að hætta við selfarir og jafnvel fráfærur á síðustu áratugunum.
Selfara er víða getið, bæði í fornsögum vorum og lögum; má af því ráða, að sá siður hefir flust hingað frá Noregi og orðið hér að fastri venju. Selvenjur hafa þá verið hina sömu og á síðari tímum, nema skyr stundum verið flutt heim í húðum, skyrkyllum eða kollum í krókum, sbr. Njálu.
Ísland hefir alla tíð verið gott sauðland, enda er þess víða getið í fornritum og sögnum, að menn hafi verið fjármargir mjög, enda gekk þá fé sjálfala í skógum, meðan þeir voru óhöggnir á landi hér. En auðvitað var hvorki hús né hey handa þessum fjárfjölda, enda hrundi það niður, þegar harðindin dundu yfir. Fram á 19. öld var það víða enn siður á Suðurlandi, að ekki voru hús yfir sauði, önnur en jötulausar fjárborgir”.
*Lovsamling for Island III, nr. 559, bls. 219 – „Rentekammer-Skrivelse til constitueret Amtmand, Laugmand Magnus Gislason, ang. Skovenes Behandling. Kjöbenhavn 10. Mai 1755. —
Publiceret paa Altliinget ved den constituerede Amtmand Magnus Gislasons Bekjendtgjörelse 15. Juli 1755 (Althinigsb. s. A. Nr. xxvi, 2. 3), samt i Synodalforsamlingen for Skalholt Stift 1755. – Rentek. Isl. og Færö. Copieb. Litr. L, Sr. 559.
Udi indkomne allerund. Supplique af 30. Septembr. 1754 haver Han andraget, at de, som med Hans Maj” og det publique Gods ere benaadede, foröde de derved befindende Krat-Skove og den tilvoxende Birke-Riis lader forhugge. Thi ville Herr Laugmand föie den Anstalt, og derover ved Sysselmændene alvorlig lade holde, at ingen, som med Jordegods er benaadet, enten selv eller ved andre forhugger de dertil hörende Krat-Skove, og mindre deraf noget afhænder, men samme Jangt mere freder og opelsker, saa fremt de ikke derfore Tiltale vil være upderkastede.1 Vi forblive & c.
Rentekammeret 10. Mai 1755.“