Færslur

Jónsbásar

Gengið var frá dys Járngerðar á Járngerðarstöðum, um virki Jóhanns breiða ofan við Stórubót, um Junkaragerði Grindvíkinga, að Jónsbás þar sem Anlaby, fórst í janúar árið 1902, yfir í Arfadal, upp í Baðstofu og um Blettahraun til baka. Hér var um að ræða eina af tímamótaferðum FERLIRs, þá 800. að tölu um Reykjanesskagann. Venjulega eru tilteknir staðir heiðraðir í slíkum tímamótaferðum. Að þessu sinni, sem og stundum fyrr, varð Grindavík fyrir valinu.

Járngerðardys

Dys Járngerðar – áður en malbikað var hana.

Grindavík er merkilegur bær – þar er hægt að dvelja löngum stundum við að skoða merkilega staði og endurupplifa gagnmerka atburði í gegnum aldirnar.
Landnámsmaður í Grindavík var Molda-Gnúpur Hrólfsson. Þar hafa orðið merkisatburðir Íslandssögunnar, s.s. Tyrkjaránið og Grindavíkurstríðið. Auk þess endurspeglar Grindavík atvinnu- og búsetusögu landsins frá upphafi til núdagsins. Og andrúmsloftið er hvergi ferskara.
Vitneskja um upphaf byggðar takmarkast við frásögn Landnámu af Molda-Gnúpi og sonum hans. Lítið sem ekkert er vitað um byggðina næstu þrjár aldirnar eftir landnám. Ekki er vitað nákvæmlega hvar landnámsmennirnir byggðu sér bú. Þó er líklegt að það hafi verið í námunda við Hópið en síðar risu þar bæirnir Hóp, Þórkötlustaðir og Járngerðarstaðir. Hverfin er eitt af því sem einkenndi gerð og þróun byggðar í Grindavík fram á þessa öld. Þessi hverfi heita Þórkötlustaðahverfi sem er austast, Járngerðarstaðarhverfi í miðið og Staðarhverfi vestast.

Hóp

Hóp; fornar minjar – uppdráttur ÓSÁ.

Ekki er vitað um aldur og upphaf hverfanna þriggja og heldur ekki af hverju þau byggðust nákvæmlega þarna. En gera má ráð fyrir því að þau hafi byrjað að myndast á 10. eða 11. öld. Ekki er ólíklegt að staðsetning hverfanna hafi ráðist af graslendi á þessum stöðum. En það sem hefur líka haft mikið að segja er aðstaða til sjósóknar. Flest bendir til þess að skömmu eftir 1200 hafi byggðin verið búin að taka á sig þá mynd sem hún bar allt fram á öndverða 20. öld.
Þegar 19. öldin gekk í garð var byggðin í Grindavík svipuð og hún hafði verið fyrr á öldum. Flestir bjuggu í hverfunum þremur og bjuggu flestir í Járngerðarstaðarhverfi, 59 manns, en mun færri í hinum hverfunum. Á árunum 1840 og 1841 voru aðeins 7 aðalbýli í sókninni og 13 hjáleigur. Aðalbýlin voru þessi, talin vestan frá, Staður, Húsatóftir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun og Ísólfsskáli. Strax um aldamótin 1800 var þegar kominn vísir að þéttbýli í Járngerðarstaðahverfi. Það samanstóð af tveimur býlum sem þar voru auk hjáleiganna sem byggðar voru í landi jarðarinnar.

Gerðisvellir

Gerðisvellir – leifar virkis Jóhanns breiða.

Á 19. öld hélt byggðin áfram að vaxa í Járngerðarstaðahverfi og varð miðstöð byggðar í Grindavík. Líklegt má telja að ef kirkja hefði verið í Járngerðarstaðahverfi á þessum tíma hefði byggðin jafnvel verið mun þéttari, en kirkjan og kirkjugarðurinn var í Staðarhverfi. En þann 26. september 1909 var vígð ný kirkja í Járngerðarstaðahverfi og kostaði hún 4.475 krónum.
Byggð í Staðarhverfi var nokkuð stöðug á árunum 1801 – 1920 en lagðist svo alveg af fljótlega eftir 1920. Byggð í Þórkötlustaðahverfi og Járngerðarstaðahverfi var nokkuð jöfn fram til ársins 1910. Hverfin héldust nokkuð í hendur varðandi fólksfjölda en á fyrri hluta 20. aldarinnar dróst þó nokkuð í sundur með hverfunum. Að lokum var svo komið að Þórkötlustaðahverfi var orðið nokkurs konar úthverfi við hlið meginbyggðarinnar. En þó svo byggðin hafi verið þetta mikil á Járngerðarstöðum var lýsing Geirs Bachmann á henni ekki mjög fögur:

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

„Eigi er fagurt á Járngerðarstöðum, því þó þar ei sé ýkja illa húsað. Þá stendur bærinn og allt hverfi þetta nema Krosshús niður í dæld eða dalverpi. og er þaðan hvergi víðsýnt.”
En þó ekki hafi verið fagurt á að líta á Járngerðarstöðum fjölgaði þar nokkuð ört og hlaut Grindavík kaupstaðarréttindi árið 1974. Og áfram fjölgaði heimilum í Járngerðarstaðahverfinu og nú búa í Grindavík um 2500 manns, þar af búa u.þ.b. 50 í Þórkötlustaðahverfi.
Gangan byrjaði við leiði Járngerðar, sem er nú að mestu undir veginum við Hlið. Þegar komið var að dysinni lá þar utan í henni stór, svartur, fjörgamalt hunslíki. Fylgdi það hópnum síðan eftir, en þegar komið var til baka hvarf það jafnskjótt og það birtist.

Járngerðardys

Tómas Þorvaldsson við dys Járngerðar.

Eitt horn dysjarinnar stendur þó út undan veginum. Skv. gamalli lýsingu var dysin hæst að suðvestanverðu, en hallaði undan til austurs (undir veginn). Hornið er svona til að minna á fyrrum tilvist þjóðsögunnar á þessum stað. Sú gamla hefur sannarlega mátt muna tímanna tvenna. En nú er Járngerður notuð sem hraðahindrun fyrir sjálfrennireiðar. Áður fyrr var borin miklu mun meiri virðing fyrir henni, bæði lifandi og látinni. Virðingin að henni lifandi var svo sterkt að rituð var þjóðsaga um hana þar sem hún er leggur á Járngerðarstaðasundið að þar skyldu tuttugu skip farast eftir að hafa horft upp á eiginmann sinn drukkna á sund

inu. Virðingin að henni látinni var að hún skuli hafa verið dysjuð við gömlu sjávargötuna frá Járngerðastöðum er lá niður í Fornuvör, aðalvör hverfisins.

Stóra-bót

Stóra-Bót; leifar virkisins.

Þá leið gengu sjómenn til skips, stöldruðu við og dvöldu jafnan við dysina og fóru með bænir svo áhrínisorð Járngerðar myndu ekki duga til. a.m.k. hvað þá snerti. En eins og gamli maðurinn sagði; “virðingin fyrir hinu liðna, er mótast af framkomnum lifandi kynslóðar, virðist verulegum takmörkunum háð.”
Lönguklettar voru tiltölulega langt klettabelti úr frá skerjóttri ströndinni við Flúðir. Þanghóll er þar áberandi og mun þangi hafa verið safnað á hann í fyrri tíð, á meðan það var enn notað til eldiviðar.
Neðan við kampinn má sjá Stokkavör, Akurhúsakamp, Kvíahúsakamp, Fornuvör, Sjálfkvíarklöpp og Draugalón.
Við Litlubót er Stakibakki, Hvítisandur, Kampur og Eystri- og Ytri-Hestaklettur. Fjörunar eru nefndar Flúðir einu nafni, sem fyrr segir, og vestast á þeim eru þrjú örnefi; Stakabakkagrjót, Önnulónstangi og Flúðagjá.
Alls eru Flúðirnar tæpur kílómetri á lengd, en þar hafa þó orðið einna flest strönd á einum stað á þessum slóðum. Í desember 1899 strandaði þar norsk flutningaskip, sem Rapit hét, og árið eftir togari Vídalínsútgerðarinnar, Engines. Mannbjörg varð í bæði skiptin.

Gerðavellir

Garður í Junkaragerði ofan við Stóru-Bót.

Í janúarmánuði 1911 strandaði svo breski togarinn Varonil á Flúðunum, og var það strand í senn sorglegt og grátbroslegt. Strandið sjálft virðist hafa orðið með þeim hætti, að skipið “togaði í land”, en talið var, að varpan væri úti, er það kenndi grunns. Þá gerðu skipverjar sömu mistök og landar þeirra á Clan fjórum áratugum síðar, settu út björgunarbáta og drukknuðu þeir þrí menn, sem í þá komust. Aðrir skipverjar afréðu þá að vera um kyrrt í skipinu, og var þeim bjargað morguninn eftir.
Næsta strand á Flúðunum varð 4. apríl 1926, er togarinn Ása strandaði þar á heimleið úr sinni fyrstu veiðiför, og tíu árum síðar, 6. september 1936, strandaði enski línuveiðarinn Tracadiro á svipuðum slóðum. Mannbjörg varð í bæði skiptin. Í fjöru má vel sjá vélina og ketilinn úr Ásu neðan og austan við Stórubót. Nú var hvoru tveggja t.a.m. vel sýnilegt.

Ofan við Stórubót er Rásin, en um hana fellur sjór upp í Gerðavallabrunna á stórstraumi.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir og Gerðavellir – uppdráttur ÓSÁ.

Upp af Stórubót, á Hellum, má enn sjá ógreinilegar leifar af virki Englendingsins Jóhanns breiða þar sem atlaga Grindavíkurstríðsins svonefnda fór fram í júnímánuði 1532. Varð sá atburður til að marka þáttaskil í verslunarsögu landsins sem og skapa skörp átök milli öflugustu þjóða Evrópu á þeim tíma.
Lítið eitt vestar, þar sem heita Gerðisvellir, eru rústir af vegghleðlsum. Frá þeim er frásögn í einni af þjóðsögunum þar sem Junkarar eiga að hafa hafst við og Grindvíkingar eldað við þá grátt silfur lengi vel. Garðar gerðisins sjást vel sem og móta fyrir tóftum innan þess.
Hásteinar eru vestan við Hásteina. Austar eru Hellan og þá Malarendar. Stórhóll er á Hellunni. Miðbótarklettur er sker utan við Malaraenda. Hóllinn Skyggnir er vestann við Bótina. Á honum er Skyggnisrétt.

Skyggnisrétt

Skyggnisrétt. Rásin og Grindavík fjær.

Sandvík er fremur skerjótt og lón á milli skerjanna. Þar strandaði Resolut í austanstormi og brimi í október 1917, sen skipverjar björguðust allir og komu gangandi heim að Járngerðarstöðum morgunin eftir.
Katrínarvík er vestan við Markhól. Það er eitt örfárra örnefna á gervallri strandlengjunni frá Valahnúk í vestri til Seljabótar í austri, sem dregið er af mannsnafni, sem ekki er vitað, af hvaða Katrínu víkin tekur nafn.
Markhóll er áberandi við ströndina áður en komið er að Jónsbás og Jónsbásaklettum. Á milli eru Hvalvík og Hvalvíkurklettar. Markhóll er landamerki Húsatótta og Járngerðarstaða og skilur um leið Staðarhverfi og Járngerðarstaðahverfi. Ofan og austan við Markhól er gamla gatan út að Staðarhverfi vel greinileg. A.m.k. ein heil varða er við leiðina, en hægt er að fylgja henni frá vestanverðum Gerðavallabrunnum og áleiðis út að Arfadal.
Á klettóttri ströndinni má sjá Jónsbásakletta, Karfabása og Vörðunes, sem er austan við Vörðunestanga. Á Jónsbásaklettum strandaði breski togarinn Anlaby snemma í janúar 1902, og fórust allir, sem á honum voru, 11 manns. Skipstjóri á Anlaby var Svíinn Carl Nilson, og var þetta fyrsta ferð hans til Íslands að aflokinni fangelsisvist, sem honum var gert að afplána fyrir aðförðina frægu að Hannesi Hafstein og mönnum hans á Dýrafirði árið 1899 þar sem þrír Íslendingar létust.
Klettarnir við Jónsbás skörtuðu bleikum, gulum, brúnum og fjólubláum lit í bland við græna. Stórbrotin umgjörð við fagurblátt hafið og svarta klettana.
Af Anlabystrandinu spunnust margar sögur í Grindavík, og benda flestir til þess, að atburðurinn hafi þótt í meira lagi vofveiflegur. Segir sagan m.a. að stígvél hafi fundist ofan fjörunnar er benti til þess að einhver hafi komist lífs af, en þoka var kvöldið áður og varð hún til þess að Staðarmenn gengu ekki rekann þá eins og venjulega. Vildu sumir þess vegna kenna sér um að hafa ekki bjargað mannslífum það sinnið.

Jónsbás

Jónsbásaklettar.

Víkin neðan við Húsatóftir heitir Arfadalur, en kölluð Dalur í daglegu tali. Nafngiftin gefur til kynna, hverjum augum menn hafa litið þann gróður, sem þarna þreifst. Víkin, sem gengur inn í landið á milli Vörðunestanga og Gerðistanga, heitir að rétu Arfadalsvík, en var oftast nefnd Staðarvik og leiðin inn í hana Staðarsund. Um sundið fóru kaupskip þau, er til Grindavíkur sigldu á fyrri tíð, og lögðust þá við festar vestan til á Arfadalsvík.
Garðafjara er í Arfadalsvík. Þar útan við eru tvö sker, sem Flæðiklettar heita. Þar þurfti mjög að gæta að sauðfé, þá stórstreymt var, því flæðihætta var mikil og náði féð sjaldnast að synda til lands. Á Flæðiklettum var rostungur eitt sinn veiddur seint á 19. öld, og um 1890 strandaði þar franska skútan Bris. Var það strand mörgum Grindvíkingi minnisstætt vegna koníaksbirgða, sem í skipinu voru. Sumir vildu þegja þunnu hljóði um þann þátt málsins, en aðrir æmtu þegar á var minnst.
Gengið var upp í Baðstofu, gjá ofarlega við Húsatóftir.
Þá var Blettahraunið gengið til austurs, til baka að Járngerðarstaðarhverfi.

Heimild m.a.:
-Saga Grindavíkur – Jón Þ. Þór – 1994.
-http://nemendur.khi.is/svavagna/Ritgerd%20um%20Grindavik.htm

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir og Gerðavellir – uppdráttur ÓSÁ.

Staður

Í Morgunblaðinu 1970 er grein; ” Í Staðarkirkjugarði” eftir séra Gísla Brynjólfsson. Þar fjallar hann um klukkuna í Staðarkirkjugarði og aðdraganda að komu hennar við strendur Grindavíkur:

Klukkan í Staðarkirkjugarði –
Þetta er klukka dauðans.”

Jónsbásar

Jónsbás.

“Það er hún, þessi gamla, kopargræna skipsklukka í litla turninum í kirkjugarðinum á Stað, sem hringir líkhringinguna út yfir leiðin í þessum grafreit Suðurnesja. Ómar hennar eru síðasta kveðja lífsins til látinna.
Hún á sína sögu, þessi klukka.
-Sú saga minnir líka á dauðann, ekki síðnur en núverandi notkun hennar. Það er dapurleg saga um mannlega villu og synd og sviplegan dauða. — Þegar maður les hina stuttorðu áletrun: S.S. ANLABY – 1896 – Hull, þá mun sumum ef til vill koma í hug þessi orð postuans í Rómverjabréfinu: “Mín er hefndin, ég mun endurgjalda, segir Drottinn“.

Togari

Svipaður togari og Alnaby.

Anlaby var brezkur togari, sem strandaði dimma óveðursnótt vestan við Jónsbásskletta á Húsatóftafjöru í Grindavík 14. janúar 1902. Áhöfnin var 11 manns og fórust þeir allir. Skipstjórinn var enginn annar en hinn alræmdi landhelgisbrjótur Carl Nilsson, eða Sænski Carl, eins og sumir kölluðu hann.
Hann var skipstjóri á togaranum Royalist nr. 423 frá Hull, sem sökkti bátnum undir Hannesi Hafstein á Dýrafirði 10. október 1899 og varð þrem mönnum að bana. Fyrir það ódæði var hann síðar dæmdur í fangelsi í Danmörku. Er hann hafði lokið refsivist sinni hélt hann á Anlaby á Íslandsmið, sagður alráðinn í því að hefna ófara sinna á Íslendingum og velgja þeim undir uggum. „En hvað sem því líður, var það staðreynd, að þarna undir Jónsbássklettum átti þessi þjarkur sitt síðasta uppgjör við tilveruna, “eins og Guðsteinn Einarsson kemst að orði í ritgerð sinni í bókinni: Frá Suðurnesjum.

Jónsbásar

Jónsbássklettar.

Daginn áður en Anlaby strandaði, var veður gott, næstum logn en dimmt í lofti. Þennan dag var Sæmundur á Járngerðarstöðum, þá 13 ára, gendur út með sjó að huga að kindum. Sá hann þá marga togara að veiðum skammt frá landi. Það var sorgleg sjón, en því miður alltof algeng á þeim árum, því lítt fengu landsmenn reist rönd við yfirgangi útlendra veiðiþjófa.
Um nóttina gerði versta veður. Næsta dag var Björn, vinnumaður Einars í Garðhúsum að ganga til kinda á þessum sömu slóðum. Þegar hann kom út í Hvalvík, sem er skammt austan Jónsbásskletta, fann hann þar mannslík nokkru ofan við flæðarmál. Maðurinn hafði bundið sig við belg og var auðséð, að hann hafði komizt lifandi í land þótt ótrúlegt væri í slíku hafróti. Hann hafði farið úr öðru stígvélinu og lá það við hlið hans. Alls rak 10 lík af Anlaby.

Staður

Staður.

Hreppstjóri Grindvíkinga, Einar Jónsson á Húsatóftum, sendi þegar hraðboða til Hafnarfjarðar á fund Pál sýslumanns Einarssonar með tilkynningu um strandið. Skrifaði sýslumaður hreppstjóra með sendimanni til baka, bað hann bjarga því, sem ræki úr skipinu og láta leita fjörur að líkum hinna drukknuðu, og ef þau fyndust, þá að láta jarða þau að kristnum sið.
Jafnframt ráðfærði sýslumaður sig, pr. telefon, við enska consulatið í Reykjavík og hafði samráð við það um allar framkvæmdir í sambandi við strandið. Þann 20. lagði sýslumaður af stað til Grindavíkur, en sakir illviðra og annarra tálmana náði hann ekki þangað fyrr en á 3ja degi. Voru þá fundin 4 lík og næsta dag fundust önnur fjögur, segir sýslumaður í skýrslu sinni.

Staðarhverfi

Klukknaport í Staðarkirkjugarði. Gamla kirkjuportið h.m.

Það sem rekið hafði úr skipinu var aðallega timbur, allt brotið í spón. Skipið hafð brotnað í þrennt, framstafninn og skutinn hafði rekið á land, en sjálfur skrokkurinn var spölkörn frá landi, alltaf í kafi. Og enn í dag má um stórstraumsfjöru, sjá vélina úr Anlaby standa þangi vaxna langt frammi á Húsatóftafjöru.
Allt strandið, einnig skrokkurinn, var selt á uppboði 23. janúar. Síðar, eða 17. febrúar var svo haldið annað uppboð á ýmsu rekaldi sem þá hafði borizt á land, ennfremur talsverðu af fatnaði skipverja, sem hirtur hafði verið og rækilega sótthreinsaðir af „fagmanni” undir umsjón hreppstjóra.

Alls nam andvirði seldra muna á þessum uppboðum 728 krónum og 35 aurum. Hins vegar voru gjöldin heldur meiri, eða 743 krónur og 18 aurar svo það vantaði nœstum 15 krónur á að skipveriar á Anlaby ættu fyrir útför sinni.

Anlaby

Skipsklukka Anlaby í klukknapotrinu.

Frá líkfundunum og útför skipverja greinir prestsþjónustubók Staðarsóknar á þessa leið:
Í janúr 1902 fundust níu lík af sjó rekin af botnvörpuskipinu Anlaby, sem brotnaði í spón á Húsatóftafjörum 14. janúar. Voru 4 líkin greftruð 24. janúar og fimm líkin greftruð 27. janúar. Í febrúar rak upp 10. líkið og var það greftrað 6. febrúar.”
Þá vantaði það ellefta. Hver var hann? Um það segir Guðsteinn frá Húsatóftium í fyrrnefndri ritgerð:
„Eftir að jarðarför þeirra tíu, sem rak, hafði farið fram og sendar höfðu verið lýsingar af líkunum, þótti það sannað, að sá, sem vantaði væri skipstjórinn sjálfur, Carl Nilsson.”
En þótt þessi lítt þokkaði brezk-sænski skipstjóri næði ekki að fá leg í íslenzkri mold, Sét hann sig hér ekki án vitnisburðar. Á þessum tíma var vinnukona á Stað í Grindavík, sem átti von á barni. Hennar vitjaði Sænski-Carl í draumi oftar en einu sinni. Hún mun haía skilið heimsóknir hans á þá leið að hann væri að biðja hana að koma upp nafni sínu ef hún mundi son ala.

Anlaby

Brak úr Alnaby ofan Jónsbáss.

Og svo varð. Vinnukonan á Stað fæddi dreng 31. júlí um sumarið. Þann 5. ágúst var hann vatni ausinn og hlaut nafnið Karl Nilson.
Þannig má segja að skipstjórinn á Anlaby hafi á vissan hátt „náð landi” í Grindavík þótt hann hlyti hina votu gröf í hafrátinu við Jónsbásskletta, lítt harmaður af því fólki, sem jafnan mun líta á hann sem holdi klæddan ofstopa og yfirgang gegn varnarlausri þjóð, sem var að leita réttar síns á eigin fiski miðum og verja lífsbjörg sína. – G. Br.

Staður

Staður. Kirkjan stóð á hólnum nær.

Í Þjóðviljanum 1902 segir: “Botnvörpuskip strandað – Sænski Nilson drukknar”:
“Enskt botnvörpuskip, Anlaby að nafni, strandaði í Grindavík fyrir skömmu, og brotnaði i spón.
Skipstjóri á „Anlaby” var Nilsson sænski, er olli manndauðanum í Dýrafirði haustið 1899.

Staður

Staður 1925.

Hann var ný sloppinn úr betrunarhúsinu, eptir að hafa tekið þar út hegninguna, og réðst þegar, sem skipstjóri á „Anlaby” og lagði af stað frá Hull í fyrstu veiðiferð sina, á jóladagsmorguninn.
Enginn vafi getur á því leikið, að skipshöfnin á „Anlaby” hefir öll drukknað, enda voru tvö lík rekin í Grindavíkinni, er síðast fréttist.
Svo er að sjá, sem þeir félagar hafi verið að ólöglegum botnvörpuveiðum, því að botnvarpan var í sjó, en þá orðið of nærri landi, sakir þoku eða myrkurs, og skipið steytt á steini, og liðazt þar sundur, en skipverjar eigi fengið borgið sér til lands, sakir brims. Brottför Nilsson’s úr heimi þessum hefur því orðið all-kynleg og svaðaleg, — að drukkna þannig, er hann leitaði landsins aptur, fyrsta skipti, og var tekinn til fyrri iðju sinnar, ólöglegra landhelgisveiða.”

Fréttin var endurskrifuð í Heimskringlu sama ár.

Heimildir:
-Morgunblaðið, 131. tbl. 14.06.1970, Í Staðarkirkjugarði, séra Gísli brynjólfsson, bls. 6.
-Þjóðviljinn, Þjóðviljinn ungi, 4.-5. tbl. 28.01.1902, Botnvörpuskip strandað – Sænski Nilson drukknar, bls. 29.
-Heimskringla, 22. tbl. 13.03.1902, Sænski Nilson drukknar, bls. 1.

Staðarkirkjugarður

Staðarkirkjugarður.