Færslur

Jónsbók

Verkefni þetta var unnið í Ritheimildarrýni í Fornleifafræði við HÍ 2006.

Inngangur
JónsbókMá sjá merki Jónsbókar í fornleifauppgrefti? Í leit að svari við þessari spurningu ákváðum við að best væri að lesa lögin gaumgæfilega en einnig ákváðum við að fara í atriðisorðaskrá Jónsbókar og vinsa út þau atriðiðsorð sem gætu verið „sýnileg“ á vettvangi. Ákvæði Jónsbókar og þau atriðisorð sem skoðuð voru er að finna í meðfylgjandi fylgiskjölum. Við ákváðum einnig að kynna okkur fjóra uppgraftastaði sem voru allir nema einn í byggð á gildistíma laganna. Þessir staðir eru Gljáskógar sem fór í eyði um miðja 11. öld, Þórarinsstaðir sem fór í eyði í lok 12. aldar, Gröf í Öræfum sem fór í eyði um miðja 14. öld og Kúabót í Álftaveri sem fór í eyði um miðja 15. öld. Uppgraftarskýrslurnar voru bornar við ákvæðin og atriðisorðin í leit að einhverri samsvörun. Að því loknu var ákveðið að taka út fjóra þætti og skoða þá sérstaklega. Þeir þættir eru ábúðarskylda, sáir og keröld, eyðibýli og loks byggðarlög og stærri svæði. Eftirfarandi greinargerð er afrakstur þeirrar vinnu.

Uppgraftarskýrslur
-Gljáskógar í Þjórsárdal
Kristján Eldjárn rannsakaði bæjarleifar í Gljáskógum í Þjórsárdal á árunum 1949-1960. Rústir bæjarins eru rétt um 2 km norðaustur af þjóðveldisbænum Stöng og er byggingarstíllinn áþekkur. Kristján taldi að bærinn hafi verið reistur á öðrum fjórðungi 11. aldar og farið í eyði rétt eftir miðja 11. öld og því aðeins verið í byggð í skamman tíma. Lokaskýrsla var svo gefin út í Árbók hins íslenzka fornleifafélags árið 1961.

Þórarinsstaðir í Þjórsárdal
Kristján Eldjárn rannsakaði Þórarinsstaði í Þjórsárdal sumarið 1945. Kristján ályktaði um aldur rústanna og taldi að bærinn hafi aðeins verið í byggð í skamman tíma, líkt og í Gljáskógum, og taldi hann að bærinn hafi verið byggður um miðbik 13. aldar og farið í eyði í kringum árið 1300 í Helklugosi. Lokaskýrsla um uppgröftinn var síðan gefin út í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags árið 1949.

Gröf í Öræfasveit
Gísli Gestsson hóf rannsókn bæjarleifa á Gröf í Öræfum árið 1955. Þar fundust leifar af bæ frá 14. öld sem fór í eyði vegna goss í Öræfajökli árið 1362. Taldi Gísli jafnframt að hugsanlega væru eldri búsetuminjar undir þeim fornleifum sem rannsakaðar voru. Lokaskýrsla um uppgröftinn var gefin út í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags árið 1959.

Kúabót í Álftaveri
Á árunum 1972-1976 fór fram fornleifauppgröftur í Álftaveri undir stjórn Gísla Gestssonar á bæ sem seinna hlaut nafnið Kúabót. Á Kúabót var grafinn upp frekar stór bær ásamt heimakirkju. Jökulhlaup í kjölfarið á Kötlugosi mun hafa lagt bæinn í eyði í lok 14. aldar. Hugsanlega eru á staðnum eldri búsetuminjar. Lokaskýrsla var gefin út í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags árið 1986.

Jónsbók
Ábúðarskylda
Er hægt að nýta ákvæði Jónsbókar um ábúðarskyldu leiguliða við túlkun fornleifa og á meðan uppgrefti stendur? Ef tillit er tekið til þeirra skýrslna sem lesnar voru má segja að fornleifafræðingarnir hefðu getað haft Búnaðarbálk Jónsbókar til hliðsjónar. Þar stendur að Leiguliðar skulu koma með allt sitt innbú til hússins og jafnframt taka það með sér þegar á fardaga er komið. Allt sem er naglfast í húsunum er eign jarðeiganda. Þetta ákvæði kemur fyrir í lið 9. Í lið 3 er grein gerð fyrir þeirri skyldu leiguliða að halda við þeim húsum sem á jörðinni voru þegar hann kom. Í lið 4 kemur fram hvenær leiguliði skuli koma og fara af jörðinni sem og hvað honum ber að taka með sér.
Ef uppgraftarskýrslur eru skoðaðar með hliðsjón af ábúðarskyldu leiguliða kemur í ljós að Jónsbók hefur vissulega einhverju við að bæta. Í uppgraftarskýrslunni á Gröf í Öræfasveit kemur fram að ekki er að sjá að þilin við bæjardyrnar hafi verið festar með járnöglum, hvorki á stoðirnar né aurstokkinn.
Eins og þegar hefur komið fram er í Jónsbók að finna ákvæði um að allt sem er naglfast í húsum sé eign jarðeiganda, hvort sem leiguliði hafi naglfest viðkomandi hlut eða jarðeigandi. Þó að Gísli lýsi og skrifi lítið um þetta má jafnvel draga þá ályktun af því að menn reyndu að komast í kringum þessi lög með því að festa þilin með öðrum hætti. Þannig að viðurinn sem fór í þilin myndi alfarið vera eign leiguliða.
Næst er vert að skoða uppgreftina á Kúabót og Þórarinsstöðum. Ekkert af húsgögnum og búsáhöldum fundust við þá uppgrefti ef frá eru taldir leifar sáa og setstokka á Kúabót. Erfitt er að sjá beint samband uppgraftanna við ávkæða Jónsbókar túlka eitthvað um ábúðarskylduna útfrá skýrslunum. Þó má ekki gleyma að báðir bæirnir fóru í eyði vegna hamfara og hefur það vissulega sitt að segja um hvað fólkið skildi eftir og hvað það tók með sér. Segja má að þegar bæirnir fóru í eyði hefur fólkið örugglega tekið nær allt með sér sem auðvelt var að taka í þeirri von að getað haldið áfram búskap.
Gljáskógar skera sig úr sökum þess að í raun fannst nánast ekkert við uppgröftinn þar. Auk þess er Gljáskógar eini bærinn sem ekki var yfirgefinn vegna hamfara. Gljáskógar var einfaldlega yfirgefinn, afhverju er ekki gott að vita. Hér líkt og áðan er þó líklegt að ástæðan fyrir því hve fáir gripir fundust sé einmitt vegna ákvæði Jónsbókar.

Sáir og keröld
Á öllum þeim stöðum sem skoðaðir voru var að finna niðurgrafin keröld (sái). Í Kúabót í Álftaverum var að finna fimm jarðgrafna sái, tvo í búrinu og tvo í skemmunni, auk hringlaga klefa í norðvesturhluta búrsins en þar var einnig sár. Aðeins voru þó varðveittir sáirnir tveir í búrinu og sárinn í hringlaga klefanum. Sáirnir tveir í skemmunni höfðu greinilega verið fjarlægðir áður en að bærinn fór í eyði. Á Þórarinsstöðum í Þjórsárdal höfðu einnig verið sáir en þeir líkt og sáirnir tveir í búrinu á Kúabót höfðu verið fjarlægðir. Kristján Eldjárn, sem rannsakaði staðinn, furðaði sig á hvernig menn fóru að því að ná sánum út og datt honum helst í hug að búrþakið hafi verið rofið og sánum þannig verið komið út. Á bænum Gröf í Öræfasveit var einnig að finna sá en hann hafði ekki verið fjarlægður áður en að vikurinn, sem varð til þess að bærinn lagðist í eyði, féll. Á Gljáskógum í Þjórsárdal er í gólfinu djúpt kringlótt far með steinhellu á botninum. Ekki er því óhugsandi að þar hafi verið geymdur sár og taldi Kristján að skyr hafi verið geymt í búrinu.
Í öllum dæmunum hafa verið í bæjunum a.m.k. á einhverjum tímapunkti sáir. Ýmist höfðu þeir verði fjarlægðir áður en bærinn lagðist í eyði eða höfðu verið skildir eftir. Jónsbók segir um sái að, „…[e]f maður fer af jörðu og á hann þar ker inni, þá skal hann það út hafa fært og allt búsgagn sitt hið síðasta laugardaginn í fardögum, nema hinn lofi. Rétt er mani að brjóta hús til þess að færa ker sitt út ef hann bætir húsið aftur jafnvel sem áður var, ella færi út í stöfum.” Greinilegt er af þessu ákvæði Jónsbókar að ætlast var til þess að menn tækju með sér sína sái bæði þegar þeir fóru af jörðinni og jafnframt að menn kæmu með sá með sér þegar flutt var á nýjan stað. Í þessu ljósi kemur því á óvart að sáir hafi verið skildir eftir bæði á Kúabót og á Gröf þar sem á Gljáskógum og Þórarinsstöðum talsverð vinna hafði verið lögð í að ná þeim út. Hugsanlega hefur mikið og skyndilegt gjóskufallið á Gröf og Jökulhlaupið á Kúabót haft eitthvað með það að segja og orðið til þess að á báðum stöðunum var tekin ákvörðun um að eyða ekki dýrmætum tíma og orku og sáirnir því skildir eftir. Á Þórarinsstöðum hefur hins vegar verið tekin ákvörðun um að sárinn hafi verið þess virði að eyða tíma og orku í að ná honum út. Með hliðsjón af ákvæði Jónsbókar má því ætla að þegar fólk fluttist búferlum hafi sáirnir ávallt fylgt með, rétt eins og aðrir gripir, og ekki verið skildir eftir nema í algerri neyð.

Eyðibýli
Bæirnir Gröf, Þórarinsstaðir og Kúabót fóru allir í eyði vegna hamfara en bærinn Gljáskólgar var yfirgefinn. Í Jónsbók er ákvæði um eyðibýli og hversu skal fara með jörð ef hún fæst ekki byggð: „Engi maður skal bólstað sinn í eyði leggja ef hann fær byggt. En ef hann fær eigi til leigu byggt, á skal hann bjóða þeim með vottum þá jörð að leiga er næstir búa eftir því sem sex skynsamir menn meta.“ Bærinn Gljáskógar var yfirgefinn um miðja 11. öld en það er áður en að Jónsbók tekur gildi. Er hugsanlegt að þetta ákvæði Jónsbókar sé því tilraun til að sporna við því að bæir færu í eyði líkt og gerðist á Gljáskógum.

Bæir og byggðarlög
Mikilvægt er að hafa texta Jónsbókar til hliðsjónar bæði við undirbúning og vettvangsskoðun fornleifaskráningar og þegar meta á heilstætt búsetulandslag. Ákvæði er varða t.d. jarðaskipti (bls. 178), löggarð (bls. 173), löghlið (bls. 179), skógarneyslu (bls. 171), þjóðgötu (bls. 186), brúargerð (bls. 187), marksteina (bls. 244) og aldingarða (bls. 244) gætu þar mögulega gefið upplýsingar sem kannski liggja ekki beinlínis í augum uppi þegar gögn eru metin.
Hvert býli hefur verið samfélag út af fyrir sig og Jónsbók gerir í rauninni að nokkru ráð fyrir að svo sé. Í nútíma fornleifafræði hefur verið lögð áhersla á að reyna að greina samfélög, breytingar, trú og einstaka áhrifaþætti út frá fornleifunum. Ljóst er að gildandi lög hafa haft áhrif hverju sinni og því er mikilvægt að skoða heilstæð svæði með hliðsjón af því. Hvar kann þessara áhrifa að gæta? Gætu áhrif laganna skýrt einstök ummerki? Slíkra spurninga hefur ekki verið spurt, a.m.k. sér þess ekki merki í textum eða lýsingum af fornleifauppgröftum. Þó er mikilvægt að horft sé til ákvæða Jónsbókar auk ákvæða Grágásar og Járnsíðu þegar einstakir fornleifauppgreftir eru metnir og túlkaðir eða þegar fornleifaskráning er gerð fyrir bæi og/eða svæði.

Lokaorð
Má sjá merki jónsbókar í fornleifauppgrefti? Ákvæði Jónsbókar höfðu greinilega áhrif á gildistíma laganna. Leiguliðum var tryggður réttur til þess að flytja öll búsgögn með sér nema það sem var naglfast. Í þeim fornleifafræðilegu dæmum sem skoðuð voru bar voru þess greinileg merki að þennan rétt notaðfærðu leiguliðar sér. Einnig var leiguliðum tryggður réttur til að flytja niðurgrafna sái með sér þegar þeir fluttust búferlum. Í dæmunum sem skoðuð voru má leiða líkum að því að sá réttur hafi einnig verið nýttur. Hugsanlega er einnig að finna í Jónsbók ákvæði sem sett voru til að sporna við eyðingu byggðar líkt og á Gljáskógum. Hvers vegna var Jónsbók þá ekki notuð af þeim fornleifafræðingum sem rannsökuðu þessa staði? Hugsast getur að á þeim tíma sem þessar fornleifarannsóknir voru gerðar hafi texti Jónsbókar aðeins verið aðgengilegur þröngum hópi fræðimanna sem höfðu fengið þjálfum í textafræði. Útgáfur Jónsbókar með nútímalegum texta hafa ekki verið aðgengilegar fyrr en nýlega og munu þær áreiðanlega stuðla að því að Jónsbók verði nú meira en áður notuð í fornleifafræðilegum tilgangi.

Heimildaskrá:
Gísli Gestsson, Lilja Árnadóttir og Guðrún Sveinbjarnardóttir: „Kúabót í Álftaveri I-VIII.“ Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1986. Hið íslenzka fornleifafélag. Reykjavík, 1987.
Gísli Gestsson: „Gröf í Öræfum.“ Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1959. Hið íslenzka fornleifafélag. Reykjavík, 1959. bls. 5-87.
Jónsbók. Lögbók Íslendinga. [Hver samþykkt var á alþingi árið 1281 og endurnýjuð um miðja 14. öld en fyrst prentuð árið 1578] Már Jónsson tók saman. Háskólaútgáfan. Reykjavík, 2004.
Kristján Eldjárn: „Bær í Gljáskógum í Þjórsárdal.“ Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1961. Hið íslenzka fornleifafélag. Reykjavík, 1961. bls. 7-46.
Kristján Eldjárn: „Eyðibyggð á Hrunamannaafrétti.“ Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1943-48. Hið íslenzka fornleifafélag. Reykjavík, 1949. bls. 1-43.

Fylgiskjal 1.
Ákvæði Jónsbókar sem skoðuð voru við úrlausn verkefnisins.

-Búnaðarbálkur 1.
Ef maður vill leigja jörð annars manns verður að nást handsölur með 2 vitnum og viðkomandi að búa á jörðinni í að minnstakosti 12 mánuði. Ef viðkomandi borgar ekki, fær hann eigi þá jörð.

-Búnaðarbálkur 3. Ábúðarskylda leiguliða
Halda á öllum húsum til haga á jörðinni er leiguliði fékk jörðina. Ef einhver hús hafa hlotið skaða skal leiguliði bæta það áður en hann fer af henni. Ef það er ekki gert er leiguliði skilt að borga landsdróttin eða sjá um að viðgerð sé gerð. Ef hann byggir annað/fleiri hús á jörðinni á hann þau sjálfur En honum er skylt að bjóða landsdrottni að kaupa húsið. Ef að jarðareigandi vill ekki húsið má leiguliði taka húsið fyrir fardaga, ef hann gerir það ekki á sá húsið sem jörðina á. Ef að leiguliði bætir þau hús sem eru fyrir með sínum eiginn við skal hann fjarlæga hann áður en hann fer, ef hann gerir það ekki á jarðareigandi viðinn.

-Búnaðarbálkur 4. Hvenær leiguliði á að koma á jörðina.
Á að koma á jörðina þegar á vor er komið. Á að vera alfluttur þegar 6 vikur eru liðnar af sumri. Má flytja húsgögn og annað hafurtask sitt er húsrúm leyfir. Ef viðkomandi sem var þar fyrir er ekki kominn út má hann vera í fjárhúsunum í þrjár nætur.

-Búnaðarbálkur 5.Hvað gerist með leigujörð ef leiguliði mætir ekki á jörðina.
Ef leigliði sem ætlaði að vera á jörðinni mætir ekki er sjö vikur eru liðnar af sumri, má jarðareigandi nýta jörðina sembest hann telur. Hann má leigja jörðina aftur.

-Búnaðarbálkur 6. Leigujörð er byggð er tveimur
ef að jarðareigandi selur 2 mönnum jörð til leigu skal sá fá hana sem fyrstur leigði og jarðareigandi að bæta hinum tapið með því að leigja honum aðra jörð eða gjalda honum jafnmikið fé og landskuldin var. Þetta skal gerast 2 vikum eftir að upp hefur komist að 2 menn leigja sömu spilduna.

-Búnaðarbálkur 7. Hvað á að fylgja leigulandi samkvæmt lögum.
Til leigulands telst: Allar fuglaveiðar,fiskveiðar og eggver, nema um annað er samið. Leigulandi fylgir allur reki. Eggversfugla skal engi maður veiða. Allt torf. Allan þann skóg sem er í landinu. Nýta á skóginn sem hann ætti sjálfur.

-Búnaðarbálkur 8.Hvernig á að færa bú sín á fardögum.
Þegar 6 vikur eru liðnar af sumri, á fimmtudegi, er fyrsti fardagur. Seinasti fardagur er þá sunnudagurinn þar á eftir. Öll mykja undan fé leiguliða skal dreifð á vellina áður en hann fer.

-Búnaðarbálkur 9. Hversu upptækt er góss leiguliða ef eigi er brott fært.
Leiguliði skal fjarlæga öll húsgögn áður en hann fer, síðasta laugardag í fardögum. Allt það sem er naglfast á jarðareigandi, ef það er skemmt skal leiguliði bæta það. Hey og korn má vera á jörðinni svo lengi sem engum er mein af því.

-Búnaðarbálkur 11. Hverjum má leiguliði hey selja samkvæmt lögum.
Áður en leiguliði fer af jörðu er honum skylt að reyna selja hey sitt til landeiganda. Ef landeigandi vill ekki kaupa ræður leiguliði hvað hann gerir við það. Ef tveir menn eiga hlut í heyinu skal það skiptast áður en reynt er að selja það.

-Búnaðarbálkur 13. Hvernig leiguliðar eiga að skipta húsum.
Ef fleiri en einn búa í óskiptum húsum. þeir skulu elda hús að manntali eigi að jarðaráhöfn, því að hjón þurfueldingar en eigi húsin.

-Búnaðarbálkur 14. og 15. um taðfall og hvernig því skal skipta

-Búnaðarbálkur 17. Lögfesting jarða
lögfesta skal að krkju eða þingi. Skal hann segja; Eg lögfesti hér í dag eign mína er N heitir, akra og töður, engjar og skóga, holt og haga, vötn og veiðistaði…

-Búnaðarbálkur 23.
Maður skal gera löggarð um hey sitt á annars manns jörðu og grafa í sínu engimarki torf til, sama um löggarð í fjárhögum.

-Búnaðarbálkur 26. lögfesta og fimmtarstefna.
Ef menn skilur á vegna áverka á jörðu þá skal það lögfest leggja fyrir fimmtarstefnu ef svo þykist til.

-Búnaðarbálkur 29. Ábyrgð á voðaeldi
Sá sem kveikir eldinn á hann og er ábyrgur fyrir honum. Leiguliðar bæta 2/3 hluta tjóns af völdum voðaelds en jarðareigandi 1/3.

-Búnaðarbálkur 31 og 32. garðaskipti og löghlið, löggarðar.

-Búnaðarbálkur 41. hvernig fer með jörð sem ekki er búið á.
Þeir sem næstir búa jörðinni er boðið að leiga jörðina.

-Búnaðarbálkur 44. Varðandi þjóðgötur
Þóðgata á að vera fimm álna breið, nema ef engi er nálægt, þá skulu sex skynsamir menn meta aðgerðina. Bændum er skylt að gera veg um héruð þar sem mestur er almannavegur.

-Búnaðarbálkur 45. Brúargerð
Ef á skilur lönd manna, þá skal sá sem ætlar að byggja brúnna spyrja hinn aðilann hvort hann vilji það einnig. Ef hann vill það eigi má hann taka torf beggja vegna árinnar.

-Búnaðarbálkur 56. Hversu veiðar eiga löndum að fylgja.
Hver maður á öll vötn og veiðistaði á sinni jörð. Ef tveir menn eiga land að veiði á, eiga þeir jafnmikinn rétt.

-Búnaðarbálkur 57. Eign á fuglaveiðum.
Vali alla, elftur og gæs og alla aðra fugla ómerkta á hver maður á sinni jörð, leiguliði sem landsdrottinn, nema frá sé skilt í kaupum þeirra. Þernur, æður eða andir skulu engi maður veiða(200 faðma tólfræð frá eggveri annars manns). Ekki má veiða fugla í landi manns svo að firr verði af eggveri viðkomandi.

-Kaupabálkur 13. Varðandi skrúðklæði
„…hver sá maður sem hann á tuttugu hundrað fjár og eigi minna, hvort sem hann er kvongaður eður eigi, má bera eina treyju með kaprúni af skrúði. En sá sem á fjóra tigi hundraða má þar með bera einn skrúðkyrti. Sá sem á átta tigi hundraða má bera þar með ólpu eður kápu tvídregna fyrir utan gráskinn. En sá sem á hundrað hundraða, hann má að frjálsu bera bera þessi klæði öll. Lærðir menn megu bera þau klæði sem þeir vilja og þeir handgengnir menn sem sér eiga skyldarvopn. Svo og þeim mönnum sem utan hafa farið er lofað að bera þau klæði er þeir flytja sjálfir út meðan þau vinnast þó að þeir eigi minna fé en fyrr skilur. En eigi skulu þeir kaupa hér á landi sér til burðar framar en fyrr segir. Nú ef nökkur ber skrúðklæði sá er minna fé á eður öðruvíss tilkomin en hér vottar, þá er sá sekur tveimur aurum fyrir hvert við konung, utan honum sé gefin, nema konur beri.“

-Kaupabálkur 5. Um lögauragjald
„Eyrir gulls þess er stenst elding fyrir sex tigi aura. Eyrir brennds silfurs fyrir sex aura. Járnketill nýr og óeldur og vegi fjóra fjórðunga, og liggi í átta skjólur fyrir fimmtán aura. Það er katlamálsskjóla er tré er sett í lögg og tekur öðrum megin á þröm upp, tólf þumlunga meðalmanni í naglsrótum. Stæltur lér, eggelningur, og vegi átján aura, heill og stálslegin, þeir skulu þrír fyrir tvo aura. Átta fjórðunga vætt blástursjárns fyrir fimm aura. Vætt fellujárns fyrir sex aura.“

-Kaupabákur 6. Um metfé
„Albreitt léreft þrjár álnar fyrir tvo aura. Enskt léreft tvíelnt, tvær álnar fyrir eyri. Mörk vax fyrir eyri. Skrúðklæði ný, skorin og óskorin, hafnarvaðmál ný og ónotin. Kattaskinn ný og lambsskinn, flatsmíði nýtt, vörusmíði nýtt, teint járn, eirkatlar nýir, það er allt metfé og þó réttgoldnir lögaurar. Allt metfé skulu virða sex skynsamir menn, þrír af hvors hendi.“

-Kaupabálkur 26. Um stikur og mælikeröld.
„En sá er réttur pundari er tuttugu merkur sé í fjórðung hvern og megi á vega tvær níu fjórðunga vættir, en eigi meira, og rísi að fjórðungi. … Stika skal sú vera að tvær álnar geri stiku, sem verið hefur að fornu. …skulu pundarar og mælikeröld liggja á Þingvelli undir lögmanns lási, skal þar eftir sýslumaður rétta sína pundara og stikur og mælikeröld. En bændur í hvers þeirra sýslu marki eftir þeirra pundurum, stikum og mælikeröldum. …En eigi eru allir bændur skyldugir mælikeröld að eiga“

-Mannhelgi 16. Um eyðihús
„Nú hlaupa útlaga menn í auðnahús eður þau hús er þeir menn eru fyrir er eigi vilja verja þá, þá eiga þeir er að sækja að brjóta hús að ósekju til þeirra ef þarf og bæta þeim fyrir skaða er hús átti eftir því sem sex skynsamir menn meta“

-Rekaþáttur 2. Hvar maður má flutningar taka fyrir annars landi.
Rekaviður og annað tvíumlíkt.

-Þjófabálkur 1. Matur.
“ef sá maður stelur mat er eigi fær sér vinnu til fósturs og helpur svo lífi sínu fyrir hungurs sakir, þá er sá stuldur fyrir öngvan mun refsingar verður”. Orðin “stelur mat” eru ekki í elstu handritum. “Steli maður hundi mann eður ketti, knífi eður belti” og öðru minna verðmætu greiðir hann sekt til konungs. Steli hann hins vegar “til eyris” skal hann færður til þings og þyngjast refsingar, jafnvel með því að fyrirgera landi sínu, við ítrekuð brot. Alvarleg refsing lá við að taka við þýfi og var sá nefndur “þjófsnautur”

-Þjófabálkur 2. Flet.
“Sá ábyrgist þjóf er hann bindur fjórum mörkum við konung þar til hann setur hann bundinn á flet umboðsmanns”. Væntanlega hefur umboðsmaður þurft að hafa geymslu fyrir þjófa.

-Þjófabálkur 6. Lýsi.
Þegar leitað er að stolnu fé í húsi annars “skal bóndi fá þeim lýsi sem þeir þurfa meðan þeir rannsaka”. Væntanlega til ljósa.

-Þjófabálkur 6. Hirslur.
Þegar leitað er að stolnu fé í húsi annars skal “ef eigi vilja láta lukla til að lúka upp hirslum sínum, þá er lok þeirra óheilög við broti”.

-Þjófabálkur 6. Gröf.
…”en stanga skulu þeir jörð og grafa á öllum stöðum og leita þar sem þeir vilja..”..

-Þjófabálkur 7. Gripur.
“Taka má maður fé sitt eður grip sinn að heimilu hvar hann finnur, ef eigi er á haldið”.

-Þjófabálkur 10. Marksteinn.
“nú tekur maður marksteina upp úr jörðu og setur niður á öðrum stað, og færir á þess hlut er í móti honum á, þá er hann sekur aleigu við konung”. ..”en sex aurum er maður sekur ef hann tekur upp marksteina og setur hverhi niður”.

-Þjófabálkur 10. Fé.
“Ef maður leggst undir fénað manna og drekkur, þá á hann öngvan rárr á sér. Ef maður mjólkar búfé annars manns stelandi hendi, bæti sem fyri stld sá er fé hefir til…”.

-Þjófabálkur 11. Aldin.
“Ef maður gengur í eplagarð manns eður hvannagarð eður næpugarð, og allt það aldin er menn hegna (hirða) með görðum eður gæslum, þó að vötn falli um, og vill sá eigi lofa er á, tvígildi þeim skaða er átti og tvo aura í þokkabót”.

-Þjófabálkur 12. Áifóður.
“Nú fer maður að veg með hrossi, og þó að þeir sé þrír saman, og stendur hey nær götu en bær eigi allnær, þá taki þeir að ósekju það sem hross þeirra þurfa til áifóðurs ef nauðsyn gengur til”. Þá skal hafa vöndul fyrir hesta heima við bæi hafi menn ekki fé.

-Þjófabálkur 14. Fundið fé.
“Ef maður finnur fé í jörðu manns, hafi sá þriðjung er finnur en landeigandi tvo hluti, en allt ef hinn hedlur ekki upp að lögum”. Ef grafið er í “haug eða agrefur jörð maður að ólofi þess er á til fjár, færi þeim er jörð á slíkt er hann fann og leggi í landnám og jarðarspell þeim er jörð á.”

-Þjófabálkur 16. Skip.
Fái maður lánað skip eða hross skal skila því á þann stað og í því ástandi, sem var.

-Þjófabálkur 18. Teningar.
Sekt er við að kasta teningum um peninga.

-Þjófabálkur 23. Sakeyrir.
“Allur sakeyrir löglliga sagður á menn skal goldinn á næstum fardögum eftir. Hann er rétt godlinn í vaðmálum og ullu og allri skinnavöru, og í öllu kvíkfé eftir vþí sem flestra mann gengur í millum í því hérðai, í slátrum og lls kyns mat, í léreftum og öllum austrænum varningi og öllu járnsmíði eftir sex manns virðingu, fella eigi til vöru né búfjár en virða þó til fullra aura”.

Fylgiskjal 2.
Atriðisorð úr Jónsbók sem skoðuð voru við úrlausn verkefnisins. Orð og blaðsíðutal fyrir aftan.

Afturfærsla 167
Albreitt léreft, hálfur þriðja alin á breidd 213
Aldingarður 291
Askur matarílát, mælieining 224, 318
Auðnahús, eyðihús 111
Ábúðarskylda 160
Blástursjárn, óunnið járn 212
Brík fjöl í rúmi 164
Búföng, aðdrættir 318
Búhlutir, búsáhöld 97, 163
Búnyt málnyt, mjólkurmatur 223
Búsgögn 141, 161, 164
Dyr 147 166 242 281
Eirketill 213
Eldfæri 229
Eldiviður 163, 170
Enskt lérefti, tveggja álna breitt 213.
Fellujárn járn sem búið er að hita úr sora og gjalt 212
Fjárhús 161
Flatsmíði, járn sem búið er að hamra til 213
Fyrnast, um hús eða skip 160, 187
Garður, heimili 134,138,215
Gráskinn, loðskinn, grávara 149
Grjót 172, 187, 199, 238
Hafnarvaðmál, hafnarvoð, dýrt og vandað vaðmál 213, 269
Heyhlaða, 164, 173, 177
Húsaspell skemmdarverk á húsi 166
Húsbrot, að rjúfa húsvegg til að ná út keri sem kemst ekki út um dyr 164 281
Húsgjörð, smíði húss 160, 280
Húsrúm 161
Húsverð 160
Hvalbein 199, 201, 203
Innanstokks 102
Innbyggjari 322
Innihús 161
Járnsmíði 213, 250, 292
Kaldakol, brottför af jörð fyrirlögboðinn tíma þannig að eldur til upphitunar og matargerðar slokknaði og kol kólnuðu 160, 163, 164, 280, 309
Kápa 149
Ker, kerald 164, 223, 257
Knífur, hnífur 109, 110, 239, 278, 303
Leiguból 152
Leigujörð, leiguland 159-162, 280
Lykill, að húsi 242
Lykill, til brennimerkingar 239, 290
Metfé, varningur sem meta þurfti sérstaklega 212, 213
Mungát, bjór 83
Mælikerald, 223, 224, 288, 314, 317
Naglfast 164
Oki, spýta negld þvert yfir fjalir til að halda þeim saman 179
Óeldur járnketill, sem ekki hefur verið soðið í 212
Ótelgdur viður, 200
Reipi 201, 234, 290
Rúm, svigrúm 83, 161, 230
Rýtningur, rýtingur 109, 278
Setstokkur, í húsi 204
Skaft 109, 152, 303
Skinnavara 98, 250, 292
Skjóla, fata 212
Skyldarvopn 149
Smjör 216, 218, 310
Spjótskaft 115, 278
Stafur, húsaviður 164
Stekkur 191
Stilli, hlaðin gildra til selveiða 206
Stokkur, á hnífi 303
Teint járn, járn sem hamrað er í teina 213
Teldgur viður, 198, 207
Timbur, 178, 283
Tré 169, 170, 199, 202, 212, 223, 286
Tunna 216
Ullarskyrta 242
Umbót, húsa 162
Úthýsi, útihús 242
Vaga, sleði 170
Vagn 170
Vatnskerald 236
Veiðigögn 196
Veiðivél 195, 196
Verkfæri 141
Veturhús 146
Viður 160-163, 170-172, 174, 198-200, 207, 232, 237, 238, 281, 282, 286, 290, 312 sjá 63
Vindauga, gluggi 173, 174, 242
Þari, þang 199, 200
Þrep, jarðvegsstallur 178
Örk, kista 257

Hvalreki

Nýlega rak dauðan hval, hrefnutarf,  á Álftanesfjöru norðan Breiðabólstaðar. Slíkur hvalreki er ekkert einsdæmi hér á landi, enda þurfti fljótlega í upphafi byggðar að setja sérstakar reglur um eignarhald um hvalreköld.
Í hinni fornu lögbók Jónsbók er langur bálkur, rekabálkur, um hvali og hvalnytjar. Þar er m.a. kveðið á um að ef hval rekur á land er hann eign landeiganda, en ef í honum er hvaljárn eða spjót og rekur á land beri að skipta honum milli landeiganda, eiganda járnsins og fátækra.

Hvalreki

Hvalreki á Seltjarnarnesi 1955.

Hvalreki við strendur Íslands var býsna algengur á árum áður og þótti í þá daga mikill happafengur. Algengar voru frásagnir af hvalreka sem björguðu heilu sveitunum frá hungri. Um hvalreka innan netlaga var fjallað í 54. landbrigðisþætti Grágásar, þar kom fram að landeigandi ætti reka fyrir landi sínu, þar á meðal hval.
Í Jónsbók er að finna sambærilegt ákvæði um hvalreka og verða hér rakin þau ákvæði sem enn gilda í íslenskum rétti. Í áðurnefndum 1. kapítula rekabálks Jónsbókar kemur fram að “hver maður á reka allan fyrir landi sínu, viðar og hvala, sela og fiska, fugla og þara nema með lögum sé frá komið”.

Á Vísindavef Háskóla Íslands var spurt: “Er Jónsbók enn í gildi í íslenskum lögum?”:

Hvalreki

Hvalreki fyrrum.

“Stutta svarið við þessari spurningu er: Rúmur tíundi hluti lögbókarinnar frá 1281, sem nefnd hefur verið Jónsbók, er enn í lagasafni Íslands.
Íslendingar gengust Noregskonungi á hönd á árunum 1262-4. Þjóðveldislögin giltu þá í landinu, það er Grágás. Konungur vildi skipta þeim lögum út fyrir eigin lögbók. Hann fékk lögleiddar tvær lögbækur með skömmu millibili. Fyrri lögbókin var nefnd Járnsíða og þótti ekki góð og gilti bara í um 10 ár. Betur tókst til með síðari lögbók konungs, sem lögleidd var á Alþingi árið 1281. Fljótlega var farið að nefna hana Jónsbók eftir aðalhöfundi hennar, Jóni lögmanni Einarssyni. Jónsbók var meginréttarheimild á Íslandi í meira en 400 ár.

Hvalreki

Hvalreki við Garðskaga.

Upprunalega lögbókin, sem konungur lagði fyrir Alþingi árið 1281, er ekki lengur til en hún hefur varðveist í mörgum afskriftum. Reyndar er engin íslensk miðaldabók til í eins mörgum handritum og Jónsbók. Til eru 224 heil eða heilleg handrit af Jónsbók og 62 handritabrot. Elsta handritið er frá því fyrir 1300 (AM 134 4to) en fallegasta handritið er frá 1363 og er nefnt Skarðsbók (AM 350 fol.). Myndprentuð eftirgerð af Skarðsbók var gerð í tilefni 700 ára afmælis Jónsbókar árið 1981. Jónsbók var fyrsta bókin sem prentuð var á Íslandi, sem ekki var Guðsorðabók. Það var gert árið 1578 í Hólaprentsmiðju. Jónsbók hefur verið prentuð nokkrum sinnum síðan það er 1578, 1580, 1591 (Núpufellsbók, ekki er vitað hvenær hún var prentuð en talið er að það hafi verið einhvern tímann á bilinu 1582 til 1620), 1707, 1709, 1763 (dönsk þýðing Egils Þórhallssonar (1734-1789)), 1858 (Akureyrarútgáfan), 1885 (Gustav Storm í bókinni Norges gamle love), 1904 (fræðileg útgáfa), 1934 (ljósprentuð 1578 útgáfan), 1981 (Skarðsbók myndprentuð) og 2004 (fræðileg útgáfa).

Jónsbók

Blaðsíða úr Jónsbók í myndprentaðri útgáfu Skarðsbókar frá 1981.

Í bréfi Magnúsar konungs, sem fylgdi Jónsbók, segir að bókinni sé skipt í 10 bálka. Hverjum bálki er svo skipt í marga kafla. Mjög snemma eða strax í Skarðsbók (1363) fór að bera á ýmiskonar ruglingi í bálka- og kaflaskiptingunni, sem ýmist erfðist í næstu útgáfur eða var leiðrétt og þá mismunandi eftir útgáfum eða skrifað var upp eftir öðrum handritum en Skarðsbók. Í það minnsta riðlaðist skipan bókarinnar og er því ekki að öllu leyti samræmi á milli Jónsbókarútgáfna hvað þetta varðar. Ekki er þó um stórvægilegan mun að ræða. Sem dæmi má nefna að Jónsbók frá 2004 er skipt í 13 bálka og 260 kafla en í Jónsbókarútgáfunni frá 1904 eru bálkarnir 10 og kaflarnir 251.
Eftir að einveldið komst á árið 1662 hvarf fljótlega síðasti snefill af löggjafarvaldi Alþingis til konungs. Enn meiri þáttaskil urðu þegar Kristján konungur fimmti setti lögbók fyrir Danmörku árið 1683 og fyrir Noreg árið 1687. Þessar lögbækur nefnast Dönsku og Norsku lög og var hvorugri ætlað að gilda á Íslandi.

Hvalreki

Hvalreki við Eiðisgranda.

Á átjándu öld setti konungur nokkrar óljósar tilskipanir um gildi Norsku laga á Íslandi. Oft og tíðum var ekki kveðið nákvæmar að orði en það, að ákvæðin og heilu bálkarnir ættu að gilda eins og átt gæti við á Íslandi. Kastað var höndum til þessa verks vegna þess að lögbók átti fljótlega að taka gildi á Íslandi. Meinið var, að það gerðist aldrei. Stafaði af þessu hinn mesti glundroði og má segja að á 18. öldinni hafi næsta fáir kunnað skil á því, hvað væru í rauninni gildandi lög í landinu. Það leiddi til þess að dómar voru oft og tíðum byggðir á dönskum og norskum lögum, sem hvorki höfðu verið sett fyrir Ísland né birt hér. Hafði strax upp úr 1700 fjarað svo mjög undan Jónsbók, að Árni Magnússon (1663-1730) snupraði Björn Þorleifsson (1663-1710) Hólabiskup fyrir að láta prenta hana árið 1707. Árni segir í bréfi til biskups, að hann hefði ráðið frá því að bókin yrði prentuð og segir að margt í bókinni sé undarlegt og stór hluti hennar sé liðinn undir lok. Árni vildi samt fá eintak handa sjálfum sér og þá frekar tvö en eitt úr því að biskup var hvort sem er búinn að prenta bókina. Magnús Stephensen (1762-1833), dómstjóri Landsyfirréttar, lyfti grettistaki við að leysa úr réttaróvissunni. Þegar hann lést árið 1833 var réttaróvissunni að miklu leyti eytt.

Hvalreki

Hvalreki við Þorlákshöfn.

Árið 1945 voru hlutar af 56 köflum Jónsbókar í lagasafninu. Árið 1983 voru kaflarnir 47 og hefur þeim ekki fækkað síðan þá. Jónsbókarákvæðin frá 1281 munu vera alveg einstök í lagasafni nú á dögum og minna á langa sögu Alþingis sem löggjafarstofnunar.
Flestir kaflar Jónsbókar í lagasafninu eru úr Búnaðarbálki (Landsleigubálki) og Rekabálki. Rekabálkur fjallar um hvalreka og rekavið. Sum Jónsbókarákvæðin, sem tilgreind eru í lagasafninu, eiga uppruna sinn í íslenska Þjóðveldinu það er eru komin úr Grágás. Það eru því til lagaákvæði í lagasafni Íslands sem hafa verið í gildi frá upphafi Íslandsbyggðar eða að minnsta kosti frá stofnun allsherjarríkis og Alþingis árið 930.
Nokkuð oft hefur verið vísað til Jónsbókarákvæða í Hæstaréttardómum. Venjulega er það í málum sem snerta ágreining um eignarrétt yfir landi eða um rétt til ýmiskonar landnytja, svo sem veiði, beitar og reka.”

Í “Landsyfirréttardómum og hæstaréttardómum í íslenskum málum” frá 1895 er dómur um hvalreka. Málið höfðuðu bændur á Járngerðarstöðum gegn Oddi V. Gíslasyni, presti á Stað:

Hvalreki

Hvalreki við Grindavík.

“Hinn 26. ágústmánaðar 1890 fannst dauður hvalur á floti fyrir utan Grindavík, og var hann af þeim sem fundu hann róinn í land á Járngerðarstöðum; hvalurinn var óskemmdur og 25 álnir að lengd milli skurða.
Afrýjendurnir, sem eru fyrirsvarsbændur á Járngerðarstöðum, ljetu skera hvalinn og skiptu honum í 3 hluti jafna: uppróðrarhlut til flutningsmanna, landshlut og skurðarhlut. Var þannig farið með hvalinn sem flutningshval eptir fyrirmælunum í 7. kap. J.bókar Rb. Hinn stefndi, sem hefur haldið því fram, að hvalurinn væri rekahvalur, taldi skipti þessi ólögmæt, og áleit, að það bæri að skipta hvalnum þannig: 1/3 hluta til uppróðrarmanna, en af hinum 2/3 hlutunum einum fjórðungi til Skálholts- og Staðarkirkju til jafnra skipta, ein um fjórðungi í skurðarhlut milli allra grasbýlismanna í Grindavík og tveim fjórðungunum til allra (7) jarðanna í Griudavík sem landhlut til jafnra skipta. Hinn stefndi höfðaði þá mál gegn áfrýjendunum út af hvalskiptum þessum og var það dæmt í aukarjetti Kjósar- og Gullbringusýslu 7. febr. 1892 á þá leið, að áfrýjendurnir skyldu allir fyrir einn og einn fyrir alla greiða hinum stefnda sjera Oddi Gíslasyni fyrir hönd kirkjunnar á Stað í Grindavík 1/8 — einn áttunda — úr 2/3 — tveim þriðju — hlutum hins umrædda hvals og hinum sama sem ábúanda á Stað 1/7 — einn sjöunda — hluta af 2/4 hlutum af hinum sömu 2 þriðjungum hvalsins, allt eptir mati óvilhallra manna; með sama dómi voru áfrýjendurnir dæmdir til að greiða 100 kr. í málskostnað og nokkur ummæli málsfærslumanns þeirra í varnarskjölum hans fyrir aukarjettinum voru dæmd dauð og ómerk. Að öðru leyti voru áfrýjendurnir sýknaðir fyrir aukarjettinum.

Hvalreki

Hvalreki á Álftanesi 2021.

Nefndum aukarjettardómi Kjósar- og Gullbringusýslu hafa þeir Einar Jónsson, Sæmundur Jónsson, Eiríkur Ketilsson og Magnús Maguússon skotið til yfirdómsins með stefnu, útgefinni 9. júlí f.á., og krafizt þess, að dómurinn verði úr gildi felldur, að þeir verði algjörlega sýknaðir af öllum kærum og kröfum sjera Odds Gíslasonar, og að hann verði dæmdur til að greiða þeim allan sakarkostnað fyrir báðum rjettum með nægilegri uppbæð. Hinn stefndi, sjera Oddur Gíslason, sem befur haft gjafsókn í hjeraði og gjafvörn fyrir yfirdómi og skipaðan talsmann, hefur af sinni hálfu krafizt pess, að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur, og að áfrýjendurnir verði allir fyrir einn og einn fyrir alla dæmdir til að greiða honum málskostnað fyrir yfirdómi að skaðlausu, svo og, að hinum skipaða málflutningsmanni verði tildæmd hæfileg málsvarnarlaun.

Hvalreki

Hvalreki við Granda.

Hinn stefndi hefur eigi fundið neitt að því, að finnendum hvalsins var úthlutaður 1/3 hluti hans í uppróðrarhlut, en að öðru leyti hefur hann byggt kröfur sínar til hluta úr honum á ákvæðum í Wilchinsmáldaga, er segja svo: “að Staðarkirkja eigi 1/8 í hvalreka öllum í Grindavík milli Rangagjögurs og Valagnúpa”, og að því leyti hann sem ábúandi Staðar gjörir kröfur til landhutar, byggir hann það á venju, er á að vera sönnuð með ýmsum hvalrekavitnisburðum, uppskrifuðum árið 1657, en gefnum 1603 og 1627, svo og vitnisburðum um, hvernig hafi verið farið með hvalreka í Grindavík 1860 og 1878, en vitnisburðir þessir fara í þá átt, að landhlut af hval, sem rekur í Grindavík, sje skipt milli allra jarða þar, sem eru 7 að tölu. Ákvæðin í Wilchinsmáldaga, svo og hinir tilvitnuðu vitnisburðir, ræða að eins um rekahval, en áfrýjendurnir hafa stöðuglega haldið því fram, að hjer sje um flutningshval að ræ3a, er heimilt hafi verið að róa upp á Járngerðarstaðaland, og skipta þar á þann hátt, sem þeir gjörðu. Aptur á móti hefur hinn stefndi leitazt við að sanna það, að hvalurinn hafi fundizt í rekhelgi (fiskhelgi) Grindavíkur, og skýrir hann svo frá, að allar jarðir í Grindavík hafi sameiginlegan rjett, að því er rekhelgi snertir.

Hvalreki

Hvalreki í Vogum.

Hinn stefndi heldur því fram, að hvalurinn hafi fundizt á þessum miðum: Djúpmið: Hásteinar mitt á milli Húsatópta og Sýrfells; Hásteinar um Tóptatúnshala; Austurmið, grunnmið: Varðan Sigga í Skotta — og hefur hann látið mæla vegalengdina frá miði þessu til næsta lands, Þórkötlustaðaness, og reyndist vegalengdin 4—500 faðmar(c: 353 mælisköpt á 4 álnir = 1412 ál.). Þá hefur dómarinn eptir beiðni hins stefnda útnefnt 2 menn til þess að athuga, hvort flattur þorskur sæist á bátsborði frá landi í 500 faðma fjarlægð, og hafa þeir gjört tilraun um það, og staðfest með eiði fyrir rjetti, að peir bafi sjeð fisk á borði í 540 faðma fjarlægð. Mælingum þessum hafa áfrýjendurnir mótmælt, og sjerstaklega hafa þeir haldið því fram, að mið þau, sem mælt hefur verið frá, sjeu eigi hin rjettu mið, þar sem hvalurinn fannst. Um þetta hefur hinn stefndi látið fram fara vitnaleiðslu, og hafa 4 vitni, einmitt menn þeir, sem reru hvalinn í land, gefið vitnisburð þar að lútandi. Eitt vitnið skýrði svo frá, að “er þeir komu fyrst að hvalnum, hafi varðan verið vestan til á miðja Vatnsheiði og djúpt af grunnbrún”; annað vitnið tjáist ekkert vita um það; þriðja vitnið segir, að hvalurinn hafi verið á grunnbrún, er þeir fyrst komu að honum, og 4. vitnið ber, að varðan hafi verið austarlega á Vatnsheiði. Með þessum vitnisburðum er það eigi sannað, að hvalurinn hali fundizt á miðum þeim, sem hinn stefndi hefur látið mæla frá vegalengd til lands.

Hvalreki

Hvalreki við Garðskaga.

Hinn stefndi — en á honum virðist sönnunarbyrðin hvíla í þessu efni — hefur þannig eigi sannað það, að hvalurinn hafi fundizt í rekhelgi eða fiskhelgi — enda verða hinar framkvæmdu mælingar eigi álitnar lögmæt sönnun gegn áfrýjendunum, sem eigi voru kvaddir til að vera við þær — og virðist það því rjett, að farið hefur verið með hvalinn sem flutningshval, en í hinum framlögðu skýrslum er hvorki kirkju nje Stað í Grindavík eignaður hluti í hvölum þeim, sem fluttir eru á fjörur annara jarða í Grindavík (c: í flutningum). Það ber því að sýkna áfrýjendurna fyrir kærum og kröfum hins stefnda í þessu máli. Málskostnaður fyrir báðum rjettum þykir eiga að falla niður. Sem gjafsóknarmál hefur málið verið rekið forsvaranlega í hjeraði, og fyrir yfirdómi hefur málsvörnin verið lögmæt.
Því dæmist rjett að vera: Afrýjendurnir, Einar Jónsson, Sæmundur Jónsson, Eiríkur Ketilsson og Magnús Magnússon eiga að vera sýknir fyrir kærum og kröfum stefnda sjera Odds Gíslasonar í þessu máli. Málskostnaður falli niður.”

Heimildir:
-Jónsbók, rekabálkur, kap. 1.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=31477
-Landsyfirréttardómar og hæstaréttardómar í íslenskum málum 01.01.1895, Hvalreki, nr. 28/1892, bls. 324-328.

Hvalreki

Hvalreki á Álftanesi 2021.