Færslur

Jórutindur

Hér verður sagt frá þremur útilegukonum á Reykjanesskaganum, þeim Jóru, Elínu Skinnhúfu og Fjalla-Margréti. 

Jóra
Jórutindur“Sagan af Jóru er ein af eldri þjóðsögum Íslendinga og örnefni henni tengd koma fyrir í Íslendingasögum. Þeir sem draga efni sögunnar í efa geta vitaskuld talið örnefnin eldri sögunni. Í stuttu máli er sagan af Jóru þannig; Jórunn hét bóndadóttir í Sandvíkurhreppi, ung og efnileg en þótti heldur skapstór. Einhverju sinni gerðist það að hestur föður hennar fór halloka í hestaati og varð hún við það svo æf að hún óð að hinum hestinum og reif undan honum lærið. Hljóp hún þegar með það upp að Ölfusá hjá Laxfossi (Selfossi) og þreif þar eitt bjarg mikið úr hömrum við ána og kastaði í hana miðja. Stiklaði hún svo yfir og mælti um leið: “Mátulegt er meyjarstig mál mun vera að gifta sig”. Heitir þar síðan Jóruhlaup en Jóra settist að í Henglinum og gerðist brátt hið versta flagð og grandaði bæði mönnum og málleysingjum. Heitir þar Jóruhellir þar sem hún bjó, Jórusöðull hnjúkur í Henglinum þar sem hún sat löngum og Jórukleif er hamragil þars em hún lá oft fyrir ferðamönnum til að ræna þá og drepa, eftir það hún var búin með hestlærið.
ÞjófahellirFengu menn ekkert við hana ráðið fyrr en Noregskonungur gaf ráð til hvernig hún yrði unnin og gaf til þess öxli silfurrekna. Sat axarblaðið fast í Jóru milli herðablaðanna þegar hún var unnin en rak síðan upp í á þá sem Íslendingar völdu sér síðar þingstað. Allt þetta sagði Noregskonungur fyrir og heitir áin síðar Öxará.
Enn þann dag nýtur Jóra verðskuldaðrar aðdáunar eins og útilegumnn og valkyrjur hafa alltaf notið með þjóðinni. Á Selfosso er gata nefnd eftir Jóru og bæði kvennakór og kvennaklúbbur kenna sig við þessa konu. en fyrir tveimur öldum síðan voru líka til konur sem dáð hafa þetta framtak og fóru að dæmi hennar. Ein heimild segir Jóru hafa verið úr Helliskoti (Elliðakoti) við Reykjavík. Það er oft sagt að sagan endurtaki sig og er sagan um Elínu Skinnhúfu ótrúlegt dæmi um það.
Annars er þjóðsagan um Jóru í Jóruklifi þessi: “Jórunn hét stúlka ein; hún var bóndadóttir einhvers staðar úr Sandvíkurhrepp í Flóanum; ung var hún og efnileg, en heldur þótti hún skapstór. Hún var matselja hjá föður sínum. Einhvern dag bar svo við, að hestaat var haldið skammt frá bæ Jórunnar; átti faðir hennar annan hestinn, er etja skyldi, og hafði Jórunn miklar mætur á honum. Hún var viðstödd hestaatið og fleiri konur; en er atið byrjaði, sá hún, að hestur föður hennar fór heldur halloka fyrir. Varð Jórunn svo æf við það og tryllt, að hún óð að hinum hestinum og reif undan honum lærið; hljóp hún þegar með það, svo ekki festi hönd á henni, upp að Ölfusá hjá Laxfossi, þreif þar upp bjarg eitt mikið úr hömrunum við ána og kastaði því nálega út á miðja á; síðan hljóp hún yfir á stillum þessum og mælti um leið:

Öxará

“Mátulegt er meyjarstig;
mál mun vera að gifta sig.

Heitir þar síðan Tröllkonuhlaup, aðrir segja Jóruhlaup. Þar hélt hún upp Ölfus, austan undir Ingólfsfjalli, og upp í Grafning, uns hún kom að hamragili því, sem liggur vestur úr Grafningi, skammt frá Nesjum; eftir því fór hún og linnti ekki á, fyrr en hún kom upp í Hengil. Þar tók hún sér bólfestu, og er þar síðan kallaður Jóruhellir, og varð versta tröll og grandaði bæði mönnum og málleysingjum.
Þegar Jóra var sest að í Henglinum, var það siður hennar, að hún gekk upp á hnjúk einn í Henglafjöllum og sat löngum þar, sem síðan heitir Jórusöðull; er hann skammt frá sjónarhól hennar á háfjallinu. Af sjónarhól skyggndist hún um eftir ferðamönnum, sem um veginn fóru, bæði um Grafning fyrir vestan Þingvallavatn og um Dyraveg norðan undir Henglinum, sem liggur skammt frá hamragili því, sem áður er nefnt og heitir enn í dag Jórukleif, af því Jórunn lá þar oft fyrir ferðamönnum til að ræna þá eða drepa, eftir það hún var búin með hestlærið. Þar með gjörðist hún svo ill og hamrömm, að hún eyddi byggðina í nánd við sig, en vegirnir lögðust af. Þótti byggðamönnum svo mikið mein að þessari óvætt, að þeir gjörðu mannsöfnuð til að ráða hana af dögum; en engu fengu þeir áorkað að heldur.
Nú, þegar í þessi vandræði var komið og engin ráð fengust til að vinna Jóru, því svo var hún kölluð, eftir það hún trylltist, né heldur til að stökkva henni á burtu, varð til ungur maður einn, sem var í förum landa á milli og var um vetur í Noregi. Hann gekk fyrir konung einn dag og sagði honum frá meinvætti þessum, sem í Henglinum byggi, og bað konung kenna sér ráð til að ráða tröllið af dögum. Skinnhúfuhellir
Konungur segir, að hann skuli fara að Jóru um sólaruppkomu á hvítasunnumorgun, “því ekki er svo vond vættur né svo hamrammt tröll til, að ekki sofi það þá,” segir konungur. “Muntu þá koma að Jóru sofandi, og mun hún liggja á grúfu. Er hér öxi, er ég vil gefa þér,” segir konungur og fékk honum um leið öxi silfurrekna; “og skaltu höggva henni milli herða tröllsins. Mun þá Jóra vakna, er hún kennir sársaukans, snúa sér við og segja: “Verði hendur við skaft fastar.” Þá skaltu segja: “Losni þá öxin af skaftinu.” Mun hvort tveggja verða að áhrínsorðum, og mun Jóra velta sér niður í vatn það, sem þar er ekki langt frá, er hún liggur í Jórukleif, með axarblaðið milli herðanna. Mun axarblaðið síðan reka upp í á þá, sem við hana mun kennd verða; þar munu Íslendingar síðan velja sér þingstað.” Svo mælti konungur; en maðurinn þakkaði honum ráðin og axargjöfina. Fór hann síðan út til Íslands og fór að öllu sem konungur hafði fyrir hann lagt og banaði Jóru. Rættist öll spá konungs, og rak axarblaðið í á þá, sem síðan heitir Öxará, þar sem Íslendingar settu alþing sitt.”

Elín Skinnhúfa
Um 1760 lagðist ung stílka sem talin var neðan af Eyrarbakka úti í Grafningi og hafðist um tíma við í helli í landi Villingavatns. Stúlka þessi var kölluð Elín Skinnhúfa og hellririnn heitir eftir henni, SkjólSkinnhúfuhellir. Hún átti vingott við smalann á Villingavatni sem Símin hét og færði hann henni mat og fleira sem hann stal frá húsbændum sínum.
Símonarhellir er við hlið Skinnhúfuhellis, en þar geymdu skötuhjúin þýfi sitt. Svo fór að daginn sem þau ætluðu að leggjast út á fjöll saman skall á hríðarveður og varð Elín þá úti. Símon komst við ilan leik til blja. Bein hennar fundust snemma á 19. öld undir bergsnös austast í svokölluðu Mælifelli, í Ölfusvatnslandi. Reyndar er margt mjög á huldu um Elínu þessa sem þjóðasagn segir að hafi verið sinnisveikur flakkari. Hún er ýmist talin af Eyrarbakka eða úr Grindavík.

Margrét
HellirÞriðja útilegukvendið úr Flóanum á afrétti Ölfusunga og Grafninsgmanna var Fjalla-Margrét, sem vegin var í Svínahrauni um 1810. Margrét þessi var bóndadóttir úr Flóanum eins og Jóra og var svo lýst að hún hafi verið skapstór, illa lynt, áræðin, ófyrirleitin og tilbúin til hvers sem vera skyldi. Hún var mikil vexti og sterk sem karl.
Einhverju sinni mislíkaði henni við föður sinn og lagðist út í Hagavíkurhrauni sem er milli bæja í Grafningi. Hafðu hún ser til atvinnu það sem hendi var næst, kippti þvotti af snúrum kvenna og stal silungi úr netum á Þingvallavatni. Þegar bændur tóku það ráð að verar árar heim úr bátum svo hún kæmist ekki út á vatnið hefndi hún sín með því að hrinda bátunum á flot svo að þá rak fyrir veðri og vindum og sumir týndust.
Þegar líða tók á sumar settist hún að í Henglinum og sauð þar mat sinn við hveri að dæmi Fjalla-Eyvindar. Grafningsmenn bundust loks samtökum að veita henni heimsókn en Margrét frétti af ráðabruggi þeirra og hljóp heim til sín og sat heima í Flóa um veturinn.
Næsta vor lagðist hún enn út og nú á Hellisheiði. Var hún þar á slangri um sumarið og stóð mörgum ógn af henni. Færu menn einir eða fáir saman réðist hún á þá og rændi. Í þoku og dimmviðri fór hún að tjöldum ferðamann og hirti þar plögg. Hún var stórtæk og átti til að kippa skreiðarböggum á bak sér og hlaupa með þá burt.
HverasvæðiÞað urðu endalok Margrétar að seint þetta seinna útilegusumar hennar fór Guðmundur Bjarnason bóndi á Gljúfri í Öldusi til grasa. Karl þessi var talinn bæði stór og sterkur, en með honum var unglingspiltur, lítilsgildur og veikbyggður. Fór svo að Margrét réðist á Guðmund en pilturinn hélt sig fjarri. Hafði hún karl undir og sá hann sitt óvænna. Var það fangráð Guðmundar þar sem flagðið gein yfir honum að hann “dregur hana að sér og bítur á háls henni fyrir neðan hökuna, allt er tennur tóku. Vildi hún þá sem skjótast losna úr slíkum fanmlögum, en þess var enginn kostur. Lagði Guðmundur fast að hálsi hennar, og létti eigi fyrr en hann hafði bitið í sundur í henni barkanna, og varð það hennar bani.
Engum sagði Guðmundur frá þessum viðskiptum sínum við Margréti og þó svo endalok hennar yrðu brátt kunn urðu engin eftirmál af vígi þessu. Bein hennar fundust á síðati hluta 19. aldar sunnarlega í Svínahrauni en engin gangskör var gerð að því að koma þeim í kirkjugarð.”

Heimild:
-Bjarni Harðarson, Fjöllin heilla, æra og trylla, Morgunblaðið, Lesbók, 16. maí 1998, bls. 7-8.

Jórutindur

Jórutindur.

Jóra

Í “Íslenskum þjóðsögum og ævintýrum” er safnað hefir Jón Árnason og gefin voru út í Leipzig 1862 segir af “Jóru í Jórukleyf”:

Jóra í Jórukleyf – (Eptir sögn manna í Árnessýslu og Gullbringusýslu)

Jóra

Jóra í Jórukleyf – Mynd; Ásgrímur Jónsson.

“Jórun hét stúlka ein; hún var bóndadóttir einhverstaðar úr Sandvíkurhrepp í Flóanum; úng var hún og efnileg, en heldur þókti hún skapstór.
Hún var matselja hjá föður sínum. Einhvern dag bar svo við, að hestaat var haldið skamt frá bæ Jórunar; átti faðir hennar annan hestinn, er etja skyldi, og hafði Jórun miklar mætur á honum. Hún var viðstödd hestaatið og fleiri konur; en er atið byrjaði, sá hún, að hestur föður hennar fór heldur halloka fyrir. Varð Jórun svo æf við það og tryllt, að hún óð að hinum hestinum og reif undan honum lærið; hljóp hún þegar með það, svo ekki festi hönd á henni upp að Ölfusá hjá Laxfossi, þreif þar upp hjarg eitt mikið úr hömrunum við ána, og kastaði því nálega út á miðja á; síðan hljóp hún yfir á stillum þessum og mælti um leið:
Mátulegt er meyarstig
mál mun vera að gipta sig.

Ölfusá

Jórusteinn í Ölfusá (Jóruhlaup/Tröllkonuhlaup).

Heitir þar síðan Tröllkonuhlaup, aðrir segja Jóruhlaup. Þar hélt hún upp Ölfus, austan undir Ingólfsfjalli, og upp í Grafníng, uns hún kom að hamragili því, sem liggur vestur úr Grafníngi, skamt frá Nesjum; eptir því fór hún, og linti ekki á, fyrr en hún kom upp í Heingil. Þar tók hún sér bólfestu, og er þar síðan kallaður Jóruhellir, og varð hið versta tröll, og grandaði bæði mönnum og málleysíngum. Þegar Jóra var sezt að í Heinglinum, var það siður hennar, að hún gekk upp á hnjúk einn í Heinglafjöllum, og sat laungum þar, sem síðan heitir Jórusöðull; er hann skamt frá sjónarhól hennar á háfjallinu. Af sjónarhól skygndist hún um eptir ferðamönnum, sem um veginn fóru, bæði um Grafníng fyrir vestan þíngvallavatn, og um Dyraveg norðan undir Heinglinum, sem liggur skamt frá hamragili því, sem áður er nefnt og heitir enn í dag Jórukleyf, af því Jórun lá þar opt fyrir ferðamönnum til að ræna þá eða drepa, eptir það hún var búin með hestlærið. Þar með gjörðist hún svo ill og hamröm, að hún eyddi bygðina í nánd við sig, en vegirnir lögðust af. Þókti bygðamönnum svo mikið mein að hessari óvætt, að þeir gjörðu mannsöfnuð til að ráða hana af dögum; en eingu feingu þeir áorkað að heldur.

Jórutindur

Jórutindur (Jórusöðull).

Nú þegar í þessi vandræði var komið, og eingin ráð feingust til að vinna Jóru, því svo var hún kölluð eptir það hún tryltist, né heldur til að stökkva henni á burtu varð til úngur maður einn, sem var í förum landa á milli, og var um vetur í Noregi. Hann gekk fyrir konúng einn dag, og sagði honum frá meinvætti þessum, sem í Heinglinum byggi, og bað konúng kenna sér ráð, til að ráða tröllið af dögum. Konúngur segir, að hann skuli fara að Jóru um sólar uppkomu á hvítasunnumorgun; “því ekki er svo vond vættur, né svo hamramt tröll til, að ekki sofi það þá,“ segir konúngur. „Muntu þá koma að Jóru sofandi, og mun hún liggja á grúfu. Er hér öxi, er eg vil gefa þér,“ segir konúngur, og fékk bonum um leið öxi silfurrekna, ,,og skaltu höggva henni milli herða tröllsins. Mun þá Jóra vakna, er hún kennir sársaukans, snúa sér við og segja: „Hendurnar fastar við skaptið”. “Þá skaltu segja: „Fari þá öxin fram af. “Mun hvorttveggja verða að áhrínsorðum, og mun Jóra velta sér niður í vatn það, sem þar er ekki lángt frá, er hún liggur í Jórukleyf, með axarblaðið milli herðanna. Mun axarblaðið síðan reka upp í á þá, sem við hana mun kend verða, þar munu Íslendíngar síðan velja sér þíngstað.“ Svo mælti konúngur; en maðurinn þakkaöi honum ráðin og axargjöfina. Fór hann síðan út til Íslands, og fór að öllu, sem konúngur hafði fyrir hann lagt, og banaði Jóru. Rættist öll spá konúngs, og rak axarblaðið í á þá, sem síðan heitir Öxará, þár sem Íslendingar settu alþíng sitt.

Elliðakot

Elliðakot (Helliskot) – uppdráttur ÓSÁ.

Ath. Jóhannes Lund í Gullbringum hefir sagt svo frá, að Jórun hafi búip í Helliskoti í Mosfollssveit, og hafi hún átt hest bleikan að lit, og látið etja honum á hestaþíngi austur í Flóa. En sökum annríkis komst hún ekki til að fylgja hestinum sjálf, og lét því búskarl sinn, er Barði er nefndur, fara með hestinn austur. En er hann kom aptur, spurði hún Barða, hvernig Bleikur hefði bitizt. Hann sagði, að brúnn hestur úr Flóanum hefði bitizt betur. Þá átti Jórun að hafa orðið æf, þrifið Barða og kœft hann í skyrkeraldi sínu, er hún skamtaði úr veturinn eptir, en tryltist gjörsamlega, er hún sá bóla á honum á útmánuðum, og úr því er eptir frásögn Jóhannesar mjög blandað málum um Jóru og Kötlu í Kötlugjá.”

Heimild:
-Íslenskar þjóðsögur og ævintýri – safnað hefir Jón Árnason, Leipzig 1862, Jóra í Jórukleyf, bls. 182-184.

Jóra

Jóra – teikning Ásgríms Jónssonar.

Hengill

Í Vísi 1966 fjallar Þorsteinn Jósepsson um “Hengil – fjallbáknið við Hellisheiði”:

Hengill
“Um það bil 30 kílómetra í austur frá Reykjavík rís fjallsbákn mikið upp frá Hellisheiði og svæðunum þar í kring. Það heitir Hengill, en Henglafjöll er oft einu nafni nefndur fjallaklasinn sem umlykur það, að meira eða minna leyti á þrjá vegu.

Hæsta gnípan á Hengli er rösklega 800 metra há, og enda þótt þar sé ekki um ýkja mikla hæð að ræða, er útsýn það víð, og það sem meira er um vert, óvenjulega fögur.
Henglafjöllin eru sundurskorin af giljum og dalskorningum, þaðan koma lækir og ár, heitar uppsprettur, gufuhverir og ölkeldur. Við jarðborun sem gerð var á Hengilssvæðinu í sumar sem leið, mældist meiri jarðhiti en til þessa hefur fundizt hér á landi.
Hengill
Allt er landsvæði þetta fjölbreytilegra og forvitnilegra en önnur í jallasvæði í námunda við Reykjavík. Þar er tilvalinn vettvangur fyrir göngufólk og náttúruskoðendur, enda af miklu að taka því víðáttan er mikil, og hvarvetna eitthvað nýtt og nýstárlegt að sjá.
Í allt aftan úr forneskju hefur varðveitzt þjóðsagan um kvenskassið Jóru sem lagðist út í Henglafjöll, lá fyrir ferðamönnum, rændi þá og drap og eyddi byggðina umhverfis sig. Þjóðsagan er á þessa leið:
Jórunn hét stúlka ein. Hún var bóndadóttir einhvers staðar úr Sandvíkurhrepp i Flóanum.
Ung var hún og efhileg, en heldur þótti hún skapstór. Hún var matselja hjá föður sínum. Einhvern dag bar svo við, að hestaat er haldið skammt frá bæ Jórunnar. Átti faðir hennar annan hestinn er etja skyldi og hafði Jórunn miklar mætur á honum. Hún var viðst. hestaatið og fleiri konur en er atið byrjaði sá hún að hestur föður hennar fór heldur halloka fyrir. Varð Jórunn svo æf við það og tryllt, að hún óð að hinum hestinum og reif undan honum lærið. Hljóp hún þegar með það, svo ekki festi hönd á henni upp Ölfusá hjá Laxfossi, þreif þar upp bjarg eitt mikið úr hömrunum við ána, og kastaði því nálega út í miðja á. Síðan hljóp hún yfir á stillum þessum og mælti um leið:
Mátulegt er meyjarstig
mál mun vera að gifta sig“.

Ölfusá

Jórusteinn í Ölfusá (Jóruhlaup/Tröllkonuhlaup).

Heitir þar síðan Tröllkonuhlaup, aðrir segja Jóruhlaup. Þar hélt hún upp Ölfus, austan undir Ingólfsfjalli, og upp í Grafning, unz hún kom að hamragili því, sem liggur vestur úr Grafningi skammt frá Nesjum. Eftir því fór hún, og linnti ekki fyrr en hún kom upp í Hengil. Þar tók hún sér bólfestu, og er þar síðan kallaður Jóruhellir og varð hið versta tröll, og grandaði bæði mönnum og málleysingjum; Þegar Jóra var setzt að í Henglinum var það siður hennar, að hún gekk upp á hnjúk einn í Henglafjöllum, og sat löngum þar, sem síðan heitir Jórusöðull. Er hann skammt frá sjónarhól hennar á háfjallinu.

Jórutindur

Jórutindur (Jórusöðull).

Af sjónarhól skyggndist hún um eftir ferðamönnum, sem um veginn fóru, bæði um Grafning fyrir vestan Þingvallavatn, og um Dyraveg norðan undir Henglinum, sem liggur skammt frá hamragili því, sem áður er nefnt og heitir enn í dag Jórukleif, af því að órunn lá þar oft fyrir ferðamönnum til að ræna þá eða drepa eftir að hún var búin með hestlærið. Þar með gerðist hún svo ill og hamrömm að hún eyddi byggðina í nánd við sig, en vegir lögðust af. Þótti byggðamönnum svo mikið mein að þessari óvætt að þeir gerðu mannsöfnuð til að ráða hana af dögum, en engu fengu þeir áorkað að heldur.
Á þessa lund er þjóðsagan um kvenskassið mikla í Henglinum.

II.
Vera má að framangreind þjóðsaga hafi fengið byr undir vængi er ferðamenn týndust eða urðu úti í vetrarveðrum bæði á Hellisheiðarleið og öðrum slóðum í námunda við Hengilinn. Þarna er villugjarnt, leiðirnar fjölfarnar, en menn oft af vanefnum útbúnir, bæði hvað fatnað og nesti snertir og urðu því hríðunum fyrr að bráð en ella.

Dyradalur

Dyradalur – dyrnar.

Á öndverðri 17. öld, eða nánar tiltekið 1621, var norðlenzkur prestur, Jón Gíslason að nafni, á leið suður til Bessastaða, en týndist á leiðinni. Jón þessi gekk ýmist undir nafninu Jón Maríulausi eða „gamli Adam”. Hann var lengi prestur á Melstað í Miðfirði og hafði Jón biskup Arason vígt hann sumarið 1550, enda þótt prestlingurinn hefði þá litla undirbúningsmenntun hlotið og var aðeins venjulegur „fatabúrspiltur” á Hólum. En biskupi þótti þá í óefni komið með trúarbrögðin á Suðurlandi og vígði ýmsa til prests þótt ekki hefðu hlotið tilskilda menntun, og meðal þeirra var séra „gamli Adam”.
Þegar séra Jón týndist í Bessastaðaför sinni 1621 var hann orðinn farlama gamalmenni, 87 ára að aldri og í rauninni furðulegt að hann skyldi takast svo langa ferð á hendur án fylgdar. Séra Jón þurfti að reka einhver erindi á alþingi, en að því búnu hélt hann frá Þingvöllum suður til Bessastaða. Þangað komst hann þó aldrei, en nokkru síðar fannst reiðhestur hans mannlaus í Dyrfjöllum. Leit var gerð að presti, en gjörsamlega árangurslaust — hann hefur aldrei fundizt.
Þjóðtrúin var ekki í neinum vafa um hvað af presti hafði orðið, því enda þótt hann væri seigur undir tönn, sakir elli, hafði hann samt orðið kvenskassinu Jóru að bráð.

III.
Þjóðsaga er til um það, enda þótt hún fái ekki við neitt að styðjast, að Halla fylgikona Fjalla-Eyvindar hafi borið bein sín í Henglafjöllum. Sú munnmælasögn hermir aö þegar Halla náðist síðast og átti að setja hana með öðrum þjófum í Reykjavíkurtukthús, hafi hún verið svo illa á sig komin að ekki þótti fært að loka hana inni og hafi henni þess vegna verið gefið frelsi. Var hún sett niður á kot eitt í Mosfellssveit, en dag nokkurn er hausta tók og Höllu varð litið til Hengilsins, vaknaði hjá henni fjallaþráin að nýju og nóttina eftir hvarf hún.

Engidalur

Engidalur – bæli.

Nokkrum árum seinna fannst konulík uppi í Henglafjöllum og tveir sauðaræflar hjá, sem hún hafði krækt á hornunum undir styttuband sitt. Gizkuðu menn á að það væri lík Höllu, enda hafði veður spillzt skömmu eftir að hún hvarf úr byggð.

IV.
En hvað sem öllum þjóðsögum um útilegumannabyggð í Henglafjöllum líður, er það stað reynd að þar héldust útilegumenn við, meira að segja oftar en einu sinni.
Í Fitjaannál er getið um mann að nafni Eyvindur. Var hann kvæntur, en hefur sennilega ekki geðjazt að konu sinni, því austur í Ölfusi tældi hann stúlku til samlags við sig. Fluttu þau vestur á land og létust vera hjón. Þetta tiltæki þeirra þótti samt af einhverjum ástæðum ekki gott, voru skötuhjúin því leituð uppi, handtekin og flutt til sýslumanns. Þar voru þau bæði húðstrýkt og að því loknu stíað súndur og send sitt í hvora áttina.

Engidalur

Tóftir útilegumanna í Engidal.

Árangurinn varð þó ekki betri en það, að þau náðu saman aftur, og til þess að ekkert yfirvald stíaði þeim í sundur á nýjan leik, lögðust þau út í Hengli og lifðu um stund á hnupli. Hvort dvöl þeirra þar varð löng eða skömm er ekki vitað ,en 1678 náðust þau, og voru flutt til Alþingis og réttuð á þinginu. Þannig sameinuðust þau í dauðanum.
Annálar geta þess ennfremur að árið 1703 höföu 3 útileguþjófar verið gripnir í Henglinum. Voru 2 þeirra settir án frekari umsvifa í snöruna á Þingvöllum enda stutt að fara. Sá þriðji var kagstrýktur, en látið þar við sitja vegna þess hve ungur hann var.
Í Píslarsögu sinni kemst séra Jón þumlungur þannig að orði, að sá sem fóstrast í Henglafjöllum mun ekki haldinn vitnisbær, því þar er þjófabæli.
Þetta skrifar maður lengst norður á Vestfjörðum og bendir það því ótvírætt til að það orð hafi legið á Henglafjöllum að þar héldu sig þjófar og illþýði.

V.
Á seinni hluta 18. aldar voru hreindýr flutt frá Finnmörk og sleppt á Reykjanesi. Þar tímguðust þau vel og rásuðu vítt og breitt um Reykjanesskagann, Hellisheiði og Mosfellsheiði og m.a. í Henglafjöll.

Marardalur

Marardalur.

Í 2. árgangi „Náttúrufræðingsins” lýsir Guðmundur G. Bárðarson náttúrufræðingur hreindýraveiðum í Marardal nokkru fyrir miðja 19. öld. Marardalur liggur norðan Hengilsins, hann er klettum girtur á allar hliðar en graslendi í botninum og þar er oft hin ákjósanlegasta beit. Einstigi er inn í dalinn gegnum gildrag sem úr dalnum fellur.
Á árunuum 1830-40 bjó bóndi sá á Elliðavatni sem Guðmundur hét Jakobsson afkomandi Snorra prests Björnssonar á Húsafelli. Guðmundur var rammur að afli og skytta með ágætum. Lagði hann sig m.a. eftir hreindýraveiðum og var í frásögur fært að í einni slíkri veiðiferð hafi hann borið fullorið hreindýr austan úr Bláfjöllum og heim til sín á Elliðavatni.
En frækilegasta veiðisagan af Guðmundi var þegar hann rakst á 11 hreindýr saman í Marardalnum. Það var í svartasta skammdeginu, rétt fyrir jól.

Marardalur

Marardalur – fyrirhleðslur.

Guðmundur varð á undan dýrunum að einstiginu og varði þeim undankomu úr dalnum. Féllu dýrin fyrir skothríð Guðmundar hvert af öðru, og í hvert skipti sem dýr féll fyrir skoti, hlupu hin dýrin hring í dalnum. Gafst Guðmundi á meðan gott tóm til að hlaða byssu sína og hafði hana jafnan hlaðna þegar dýrin bar að. Loks hafði hann skotið öll dýrin nema eitt, en það var mikill og stór tarfur með geysistór horn. Þegar tarfurinn sá sér ekki undankomu auðið réðist hann af heift á skyttuna, en hún kom byssunni ekki við og varð því að takast á við bola. Hvort sá bardagi verði lengur eða skemur lyktaði honum þó með sigri Guðmundar sem gekk af hreininum dauðum, enda var Guðmundur sagður hafa þriggja manna afl.
Fram til 1918-20 sáust hreindýr á ferð bæði í Henglafjöllum og víðar um Reykjanesskaga, en þá tekið að fækka til muna, enda sóttust skyttur mjög eftir þeim, ekki aðeins vegna kjötsins heldur og einnig vegna skinnanna og skrautlegra horna. En á þessum árum gerði mjög harða vetur og þá er sennilegt að flest dýranna, sem eftir lifðu, hafi fallið úr harðrétti og hor, a.m.k. sást lítið til þeirra eftir það. Þó er um það vitað, að síðasta hreindýrið sem sást á Suðvesturlandi, var unnið á svokölluðum Bolavöllum, skammt frá Hengli rétt fyrir 1930. Það var vesæl kýr, aflóga af elli, tannlaus og kollótt. Hafði einhver riðið hana uppi og handsamað. Þar fór síðasti útvörður þessara tígulegu og reisulegu dýra á Hengilssvæðinu og Reykjanesskaganum öllum.

VI.
Á síðustu árum 18. aldar var maður sá ráðinn til póstferða milli Reykjavíkur og Árnessýslu sem Klemenz Þorsteinsson hét. Þann 29. desember 1791 lagði Klemenz upp í síðustu póstferð sína austur yfir fjall og hafði þá m.a. meðferð is 300 sendibréf, þar af var meira en helmingurinn konungleg afsalsbréf fyrir seldum Skálholtsjörðum. Þetta var í allra svartasta skammdeginu, þung færð af snjó og allra veðra von.

Jórugil

Í Jórugili.

En samgöngur voru þá allar aðrar en nú og enda þótt ferðalangar kæmu ekki á tilteknum tíma á ákvörðunarstað, var sjaldnast undrazt um þá fyrr en á síðustu stundu.
Og þannig var það í þetta skipti. Enginn vissi f rauninni hvernig Klemenz póstur ætlaði að haga ferðum sfnum né hvar hann myndi fyrst bera niður austur í Árnessýslu. En þegar Klemenz var ekki kominn til sýslumanns Ámesinga, sem þá bjó í Oddgeirshólum um miðjan janúar, taldi sýslumaður að ekki gæti verið einlelkið um ferðir hans og hófst þá handa um eftirgrennslanir og síðan leit.
Leitað var víðs vegar um allan Reykjanesskagann og tók fjöldi manns þátt í henni. En þegar hún hafði engan árangur borið var henni hætt, enda þýðingarlaus talin, þar sem snjóað hafði meira og minna frá því er pósturinn lagði upp.
Í maímánuði um vorið var leit hafin að nýju og fannst þá lík Klemenzar pósts í Jórugili við rætur Hengilsins. Fannst það í djúpri gjá fullri af vatni, en pósttaskan var horfin. Vakti þetta þegar grun um að dauðdaga Klemenzar hafi ekki borið að með felldu, heldur mundi hann hafa verið rændur og myrtur. Þetta þótti og þeim mun grunsamlegra, sem líkið var algerlega nakið þegar það fannst. En aldrei vitnaðist neitt frekar í því máli.

VII.
Og að lokum er hér saga um Jón tófuspreng, sem var eins konar dæmigervi af Vellygna-Bjarna eða Munchausen barón hinum þýzka. Jón hafði róið suður í Garði og í einum róðrinum brast á snarvitlaust veður svo að bátnum hvolfdi í lendingunni og allir bátsverjar drukknuðu. Jón tófusprengur líka. Líkið af honum hafði rekið upp á malarrif, en litlu seinna skolaði sálinni úr Jóni þar framhjá svo að hann gat ekki á sér setið að gleypa hana og þar með lifnaði hann við á ný.

Henglafjöll

Henglafjöll.

Þegar Jón var lifnaður við, tók hann seil með 20-30 fiskum og lagði á bak sér, en ár notaði hann fyrir göngustaf, tók síðan stefnu á Henglafjöll og ætlaði heim til sín austur í Gnúpverjahrepp. Blindhríð var alla leiðina og botnlaus ófærð, sem sí og æ versnaði og þegar Jón var kominn norður í Henglafjöll var snjórinn svo djúpur að hann botnaði ekki með árinni. Samt hélt hann áfram og vissi varla hvað hann fór þvf ekki sá hann út úr augunum. Loks hrapaði hann og þegar hann raknaði við eftir fallið, sá hann að hann hafði dottið niður um eldhússtromp móður sinnar austur í Hreppum.

VIII.
Og loks, lesandi góður ef þér kæmi til hugar að skreppa úr Reykjavík austur yfir fjall skaltu staldra við uppi í Svínahrauni og mæna litla stund á þetta tígulega fjall, sem við þér blasir og Hengill heitir. Og láttu það engin áhrif hafa á þig þótt ferðafélagar þínir haldi þig hengil-mænu fyrir bragðið. Það borgar sig samt.”

Heimild:
-Vísir, 214. tbl. 20.09.1966, Hengill – fjallbáknið við Hellisheiði, Þorsteinn Jósepsson, bls. 8-9 og 6.
-https://timarit.is/page/2387230?iabr=on#page/n7/mode/2up/search/hengill

Hengill

Hengill – ölkelda.