Færslur

Kaðalhellir

Gengið var með Þórarni Björnsyni, hellamanni, í Kaðalhelli norðvestan Kaldársels, og í Hreiðrið þar skammt frá. Þórarinn lék sér í Kaðalhelli ásamt ungum mönnum í Kaldárseli, en síðar fann hann Hreiðrið, sem mun vera einstakt í sinni röð. Hann var eini maðurinn, sem fram að þessu hafði litið innvolsið augum.

Kaðalhellir

Kaðalhellir.

Kaðalhellir er í háum hraunkanti. Hann er í rauninni hluti af Gjánum svonefndu norðnorðvestan Kaldársels. Í þeim eru hrauntraðir og ná þær út fyrir Gjárnar. Kaðalhellir er að hluta til opin og lokuð hraunrás og að hluta til sprunga í hraunjarðrinum. Hann er tvískiptur. Efri hlutinn er á tveimur hæðum. Til að komast upp í efri hluta rásarinnar þarf aðstoð kaðals. Hún nær spölkorn inn undir hraunið, en mesta rýmið er fremst. Neðri hluti rásarinnar er greinilega safnþró frá efri hlutanum.
Skammt vestan við rásina er hægt að fara niður um sprungu. Þá er komið niður í helli, sem með jökulgólfi allan ársins hring. Vatnsdropar úr loftinu hafa holað klakann og mynda sérstakt mynstur. Umhverfið er mjög myndrænt.

Hreiðrið

Í Hreiðrinu.

Nokkru vestar er Hreiðrið. Opið er á berangri og því mjög erfitt að finna það. Fara þarf niður um loftið og liggur þá rás til norðurs og suðurs. Af ummmerkjum að dæma undir opinu hafði ekki verið farið þarna niður um alllangan tíma. Rásin til norðurs lokast fljótlega, en hægt er að fylgja rásinni til suðurs með því að skríða á fjórum fótum. Botninn er mjög grófur. Eftir u.þ.b. 30 metra skrið er komið að svæði þar sem sjá má víða inn undir hraunið. Á þessu svæði eru falleg og misstór hraunegg, dökkbrún að lit. Um er að ræða gasbólur, sem hafa storknað, en ekki náð að sprynga. Eggin eru misstór, allt frá títuprjónshausum upp í hænueggsstærð. Svo virðist sem þetta jarðfræðifyrirbæri sé einungis á litlu svæði. Fara þarf mjög varlega þarna um til að valda ekki skemmdum. Þegar komið var inn í Hreiðrið var auðvelt að skilja hvers vegna ástæða hefur verið til að halda staðnum leyndum.
Frábært veður – reynar kemur veður ekkert við sögu inni í hellum – en hvað um það. Fljótlega verður farið á ný í Hreiðrið og það myndað, ásamt Kaðalhelli. Þá munu birtast hér myndir úr fyrirbærunum.

Hreiðrið

Í Hreiðrinu.