Tag Archive for: Kálfadalur

Krýsuvíkurbjarg

Gengið var frá Grænavatni að Austurengjahver (Stórahver), um Vegghamra að Stóru-Eldborg, þaðan um Borgarhraun niður á Krýsuvíkurbjarg vestan við Bergsenda, eftir bjarginu (13 km) að Selöldu, upp að Arnarfelli og yfir að Bæjarfelli með viðkomu í Krýsuvíkurkirkju. Loks var haldið upp að Augum og hringnum lokað við Grænavatn.

Grænavatn

Grænavatn.

Krýsuvík er mikið jarðhitasvæði. Þar eru bæði leir- og gufuhverir en einnig sprengigígar. Stærsti sprengigígurinn á svæðinu er Grænavatn.
Í grein Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings sem nefnist Náttúruvernd og birtist árið 1950 í tímariti Náttúrurfræðingurinn segir hann m.a. frá Grænavatni:
„Suður í Krýsuvík er lítið stöðuvatn, Grænavatn, sem fengið hefur nafn af hinum sérkennilega græna lit vatnsins, er stafar af brennisteinssamböndum. Þetta litla vatn, nokkur hundruð metra breitt, en 45 metra djúpt, er myndað eftir ísöld, við eldgos, sem orðið hefur með sérkennilegum hætti, sem hér er ekki tími til að rekja. Meðal annars hafa í því gosi, sem myndaði vatnið, þeyst upp hraunkúlur, sem hafa gabbrókjarna, en bergtegundin gabbró hefur ekki fundist annars staðar á Suðvesturlandi.

Grænavatn

Grænavatn.

Vatnið er óefað meðal merkustu náttúrurfyrirbrigða í sinni röð, og þar sem það liggur í sérkennilegu umhverfi, við þjóðveg, og ekki nema klukkutímakeyrslu frá höfuðstaðnum, kemur vart sá útlendur jarðfræðingur til landsins, að ekki sé keyrt með hann um um Krýsuvíkurveg og honum sýnt Grænavatn, og fjöldi annarra útlendinga fer um þann veg.”
Á Austurengjum er jarðhitinn aðallega á einni rák sem nær frá Austurengjahver norður í Kleifarvatn. Töluverð ummyndun sést í bergi alllangt út frá beggja megin. Auk jarðhitans eru á þessari hitarák nokkrir sprengigígar sem gosið hafa gjalli og smáhraunum með úrkastinu. Sá stærsti er um 100 m í þvermál. Gígar þessir eru frá því snemma á nútíma. Síðsumars 1924 lifnaði Austurengjahver við jarðskjálfta, var áður lítilfjörlegur. Stórir hverasprengigígar eru norðurfrá honum en eldri, sem bendir til að grunnt sé á jarðhitakerfi nærri suðu líkt og í Krýsuvík.

Kleifarvatn

Hellir við Kleifarvatn.

Þeir félagar Eggert og Bjarni voru á ferð um Krýsuvík árið 1756 og var þá unnin brennisteinn í Krýsuvík. Hafa þeir eflaust komið að Austurengjahver, en einnig í Hveradal (Seltún) og Baðstofu. Sveinn þórðarson segir frá því að bændur hafi í gegnum aldirnar grafið upp brennistein og selt ferðamönnum milliliðalaust. Árið 1753 var komið upp húsi í Krýsuvík til að vinna brennistein að undirlagi Skúla Magnússonar landfógeta og Bjarna Pálssonar landlæknis. Nokkur ágóði varð af brennisteinsvinnslunni. Árið 1858 keypti Bretinn Joseph William Bushby  brennisteinsnámurnar í Krýsuvík.

Seltún

Seltún – brennisteinn.

Kostnaðurinn varð þó of mikill og var bara unnin brennisteinn í tvö sumur eftir það. Eftir það tóku ýmsir námurnar á leigu en síðastur þeirra var Bretinn T. G. Paterson og bróðir hans W. G. S. Paterson sem tóku námurnar á leigu árið 1876. Þeir stofnuðu Brennisteinsfélag Krýsuvíkur en á þessum tíma var orðið lítið af brennisteini ofanjarðar þar sem auðvelt var að ná í hann.

Bora þurfti því eftir brennisteininum.  Árið 1880 er talið að allri námuvinnslu hafi verið lokið og sama ár var uppboð á ýmsum eigum félagsins. Vinnsla brennisteins í Krýsuvík stóð því yfir í hartnær tvær aldir.

Austurengjahver

Austurengjahver.

Austurengjahver, áður nefndur Nýihver, er syðstur svokallaðra Austurengjahvera. Sonder (1941) mældi 118°C í hvernum, sem á þeim tíma var gufuhver en telst í dag vatnshver (Barth 1950). Rennsli er ekki mikið frá hvernum og mest gufa sem stígur upp frá honum.
Gengið var í syðri Kálfadalinn. Þar er fallegur hraunfoss, Víti. Haldið var yfir að Vegghömrum vestan Geitahlíðar, niður með henni og yfir að Stóru-Eldborg.
Eldborgir eru hluti af gjallgígaröð. Stóra-Eldborg er meðal fegurstu gíga Suðvesturlands. Þær voru friðlýstar árið 1987. Stóra-Eldborg er formfagur klepragígur, sem rís um 50 metra yfir umhverfið og er um 30 metra djúpur. Hraunin, sem runnu frá honum hafa myndað margar hrauntraðir.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg.

Á leiðinni áleiðis niður á Krýsuvíkurbjarg um Litlahraun var rifjað upp ýmislegt um Krýsuvíkina. Hún er sennilega landnámsjörð. Segir Landnáma að Þórir haustmyrkur hafi numið Selvog og Krýsuvík. Eftir að kristni var lögtekin var þarna kirkja og helguð Maríu mey. Voru prestar búsettir í Krýsuvík fram yfir 1600, séra Eiríkur í Vogsósum þjónaði m.a. Krýsuvíkur prestakalli.
Stóri Nýibær lagðist síðastur í eyði í Krýsuvík og var það árið 1938, en eftir það var ekki mannlaust þarna. Einn maður var eftir og bjó í kirkjunni í Krýsuvík þegar allir höfðu flúið af hólmi.
KrýsuvíkurkirkjaMeð órjúfandi tryggð við staðinn gafst hann aldrei upp þraukaði fjarri mannabyggðum aleinn og ósveigjanlegur og barðist þar áfram með hinn einstöku íslensku seiglu. Þessi maður var Magnús Ólafsson.
Magnús Ólafsson var nauðugur sendur í vist 18 ára gamall til Árna sýslumanns Gíslasonar, í kringum 1895 (bærinn lagðist í eyði 1938).

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja var einföld timburkirkja í Krýsuvík. Hún var byggð árið 1857, endurbyggð árið 1964 og fór þá í vörslu þjóðminjavarðar og komst við það á lista yfir friðuð hús. Altaristafla kirkjunar var málverk eftir Svein Björnsson, listmálara.
Krýsuvíkurkirkja var notuð sem sóknarkirkja allt fram undir 1910. Hún var aflögð 1917 og notuð til íbúðar frá 1929, en síðan aftur breytt í kirkju 1963-64 fyrir tilstuðlan Björns Jóhannessonar, fyrrverandi forseta bæjarstjórnar í Hafnarfirði, en Hafnarfjarðarbær færði Þjóðminjasafninu húsið til varðveislu haustið 1964.
Kirkja mun hafa risið í Krýsuvík í upphafi kristni hér á landi í Kirkjulág í Húshólma áður en Ögmundarhaun rann um miðja 12. öld. Eftir þann atburð var kirkjan færð ofar í landið. Kirkjuna sem brann smíðaði Beinteinn Stefánsson hjáleigubóndi í Krýsuvík úr rekatrjám 1857. Byggð lagðist af í Krýsuvík í byrjun síðustu aldar og 1929 var Krýsuvíkurkirkja aflögð sem helgidómur. Magnús Ólafsson, sem síðastur bjó í Krýsuvíkurbænum, dvaldist í kirkjunni um árabil sem góður hirðir er gætti kinda.
Viðamiklar viðgerðir hófust árið 1986 og hún þá færð til upprunalegrar gerðar. Útveggir voru með tjargaðri listasúð og bárujárn á þaki. Engir gamlir kirkjumunir höfðu varðveist og voru kirkjubekkir, altari og prédikunarstóll af nýlegri og einfaldri gerð.
Hún brann til kaldra kola aðfaranótt 2. janúar 2010.
Spurður hvers vegna hann hafi ekki flutt til Hafnarfjarðar eftir að búskapur lagðist af á Nýjabæ svararði hann: “ Vinnan var stopul í Hafnarfirði og ég hafði meiri löngun til þess að hugsa um kindur heldur en að snapa eftir vinnu þar.“ Eitt sinn var Magnús spurður hvort ekki væri hann myrkfælinn á því að búa í kirkju og hafa kirkjugarð sem sinn næsta garð.

Ætlunin var að senda Magnús í verbúðir sem að Árni sýslumaður átti í Herdísarvík. Enn Magnúsi var ekki um sjóinn gefið og vonaðist eftir starfi í Krýsuvík. Betur fór en á horfðist og fékk Magnús fjárhirðastöðu í Krýsuvík, á Nýjabæ.
Magnús bjó í kirkjunni í Krýsuvík sem var úr timbri og óþétt, svo óþétt að skór hans frusu oft á köldum vetrarnóttum. Kirkjan var 22×14 fet og svo lág að ekki var manngengt undir bita. Ekkert tróð var í veggjum, gólfið sigið og gisið.

„Myrkfælinn, – nei ég veit ekki hvað það er. Og óþarfi að óttast þá, sem hér liggja. Sumt af þessu hefur verið kunningjafólk mitt. Þeir gera engum manni mein, og ég hef aldrei orðið var við neina reimleika. Þeir dauðu liggja kyrrir.“
Magnús vann sem fjárhirðir hjá Árna sýslumanni og bjó í vestri enda bæjarins. Eftir að hann kvæntist Þóru Þorvarðardóttur, bjuggu þau bæði í vestri enda húsins ásamt öðru vinnufólki. Eftir að þau eignuðust börn, var þröngt í búi og bjuggu þau í Krýsuvík á Nýjabæ þar til elsta barnið var komið á skólaaldur og flutti þá frú Þóra Þorvarðardóttir til Hafnarfjarðar með börnin.

Magnús átti erfitt með að aðlagast bæjarlífinu í Hafnarfirði og flutti aftur í Krýsuvík. Þar dvaldi hann í 50 ár í og mestan hluta þeirra sem einbúi.
Tóft, sem blasti við efst á Krýsuvíkurheiði er ein minjanna um Magnús. Þar er sagt að hann hafi setið yfir sauðum á unga aldri að undirlægi Árna sýslumanns.
Skoðaðar voru minjarnar í Litlahrauni og síðan haldið vestur með Krýsuvíkurbjargi. Frábært útsýni er af bjargbrúninni svo til alla leiðina.
Skoðaðar voru minjarnar við Selöldu, upp við Arnarfell og kíkt inn í Krýsuvíkurkirkju áður en haldið var upp að Augunum. Þau eru tveir sprengigígar með vatni í, þó mun minni en Grænavatn. Þjóðvegurinn liggur milli þeirra.
Frábært veður – Gangan tók 6 klst og 6 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.islandsvefurinn.is/photo2.asp?ID=471
-http://hot-springs.org/krysuvik.htm
-http://saga.khi.is/torf/2002/nyibaer/
-http://www.landvernd.is/page3.asp?ID=1089

Graenavatn-221

Grænavatn.