Færslur

Hrafnagjá

Gengið var af tengivegi línuvegarins í Strandarheiði ofan Reykjanesbrautar skammt austan við Voga, að Kánabyrgi og Viðauka, um Heljarstíg á Hrafnagjá, að Huldum, um Kúastíg á Hrafnagjá og eftir henni að Axarhól, þaðan að Hvíthólum og að upphafsstað.

Vogaheiði

Sel í Vogaheiði

Áður en gengið var að Kánabyrgi var litið á hlaðna refagildru í heiðinni, milli línuvegarins og Reykjanesbrautar, skammt austan tengivegarins. Hún lítur út eins og varða, nema að þessi varða er ekki á hæð eða við stíg, heldur í lægð, en slíkt er sjaldan varða siður. Þegar fallhellan, sem snýr mót suðri, er tekin frá opinu sést gildran vel. Það voru Brunnastaðabræður (Stakkavíkurbræður) sem bentu FERLIR á gildru þessa.

Kánabyrgi

Kánabyrgi.

Kánabyrgi er skammt austar, norðan línuvegarins. Þar er hóll eða há klettaborg þar sem talið er að leitarmenn hafi safnast saman áður en skipt var í göngur. Orðið káni er til á 18. öld, sjaldgæft orð sem merkir ‘þrjótur, slæpingi; seppi”. En þarna hefur hóllinn sennilega heitið Gangnabyrgi, en latmæli breytt því í Kánabyrgi.

Gengið var eftir Heljarstíg, sem er einstigi yfir Hrafnagjá spölkorn suðvestan við Kánabyrgi. Þar er tæp gata og djúpar gjár til beggja handa.

Refagildra

Vatnsleysuheiði – refagildra.

Þegar farið var til smölunar frá Kánabyrgi lá leiðin upp heiðina og um Huldur. Svæðið ber einnig örnefnið Margur brestur, sem þýðir líklega “margir eru brestirnir” því þarna eru víða sprungur er leyna á sér.
Ofar í heiðinni er Inghóll, með gamalli vörðu á, sem sagður er á eða við mörk Brunnastaða og Voga á Huldum. Hóllinn er fast ofan við Litlu-Aragjá. Fast neðan við hólinn og gjána eru Inghólslágar.
Viðaukur, Viðuggur eða Viðauðgur skammt austan Vogaafleggjarans skammt ofar er annað hvort heiti á nokkuð áberandi hólum þarna í heiðinni, sem standa rétt vestan við Línuvegsafleggjarann eða margstofna klöpp fast ofan við hólana. Klöppin er með rismikilli og fallegri vörðu á og stendur hún um 100 m neðan Hrafnagjár. Sumir ætla að varðan sé landamerkjavarða Brunnastaða og Voga.

Kánabyrgi

Kánabyrgi.

Nafnið Viðaukur er sérkennilegt og vel má ætla að það sé rétta útgáfan af örnefninu og að það sé komið til vegna þess að einhver bóndinn hafi bætt við sig landi, þ.e. “aukið við” land sitt.
Hrafnagjá er tilkomumikil ofan við Voga, með háu hamrabelti sem snýr til fjalla. Hún er mjög djúp á köflum og nokkuð breið milli bakka. Besta upp- og niðurgangan í Hrafnagjá á þessum slóðum er um Kúastíg. Ofan hans á gjárbarminum eru þrjár vörður; Strákar.
Talið er að þær hafi verið nefndar svo vegna þess að þrír strákar, kúasmalar, úr Vogum hafi dundað við að hlaða upp fáeinum steinum, sem síðar voru kenndir við þrjá “Stráka”.

Kúastígur

Kúastígur um Hrafnagjá.

Kúastígurinn hefur eflaust verið notaður af selfólki úr Vogunum og e.t.v. hafa verið kúahagar á grasbölunum við ofanverða gjána. Við Kúastíginn er tófugreni.
Efri gjárbarmi Hrafnagjár var fylgt til vesturs að Axarhól. Hann er nokkuð brattur og sprunginn eftir endilöngu og má líkja sprungunni við axarfar og af því dregur hóllinn trúlega nafn sitt. Norðan við Axarhóla eru Hvíthólar. Á leiðinni að þeim var komið við í Þóruseli, sem er suðvestan hólanna.

Hvíthólavarða

Hvíthólavarða.

Hvíthólavarða er á þeim, 70-80 cm á kant og traustbyggð. Varðan er áberandi kennileiti ofan við Vogana. Ekki liggur fyrir með óyggjandi hætti hvar Þórusel hafi verið nákvæmlega, enda landið nú sundurskorið af stórum moldarflögum. Þóru nafnið er úr Vogum því gamlar sagnir eru til um Þórusker við Voga, en á því átti að hafa staðið höfuðból með “átján hurðir á hjörum”. Engar rústir eru sjáanlegar þarna. Önnur tilgáta er að Þórusel hafi verið neðan Reykjanesbrautar og rétt austan Vogaafleggjara.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Hrafnagjá

Hrafnagjá.