Færslur

Keflavíkurberg

Sturlaugur Björnsson er bæði áhugasamur og margfróður um hinar merkilegstu minjar í núverandi Reykjanesbæ. Hann tók á móti hópnum í Keflavík.

Keflavíkurborg

Keflavíkurborg.

Var þegar haldið að Keflavíkurborg, fjárborg (fjárrétt) norðan bæjarins, skammt ofan við Grófina. Borgin er á klapparhól. Við hana hefur verið settur landmælingastöpull. Austan borgarinnar liggur Stafnesvegur. Sést hann mjög vel þar sem hann liðast áleiðis upp á heiðina.

Keflavík

Brunnur ofan Stekkjarhamars.

Þá var haldið að Helguvík. M.a. var letrið, HPP (Hans P. Petersen), á klettunum vestan víkurinnar barið augum. Sturlaugur lýsti tilurð þess og leiddi hópinn síðan um Keflavíkurbjargið upp frá Grófinni.

Þar var komið við í Stekkjarlág, gömlum samkomustað Keflvíkinga. Í þá daga voru nefnilega til alvöru Keflvíkingar. Við Stekkjarlág benti Sturlaugur á ræðustól gerður af náttúrunnar hendi, sté í hann og hélt stutta tölu um það markverðasta á svæðinu; lýsti m.a. tóft, sem þarna er (væntanlega stekkur) og leiddi hópinn síðan að Drykkjarskálinni, gerði krossmark yfir og bauð fólki að drekka.

Keflavík

Stekkur í Stekkjarlág undir Stekkjarhamri.

Um er að ræða stóran grágrýtisstein með skál ofan í. Í henni var ávallt tilbúið tært vatnið til handa þeim, sem áttu leið um bjargið á leiðinni milli Leiru og Víkur. Neðar er klettanef, mörk Keflavíkurbjargs og Hólmsbergs.

Þá fór Sturlaugur með hópinn að Brunninum, ferköntuðum steinbrunni ofan við bjargið. Sagði hann þá trú hafa verið á brunninum að í honum myndi vatn aldrei þrjóta. Í kringum brunninn eru smátjarnir.

Keflavík

Drykkjarsteinn ofan Keflavíkurbjargs.

Haldið var að Berghólsborg og hún skoðuð. Um er að ræða heillega og stóra borg á Hólmsbergi skammt sunnan Leiru. Sunnan hennar átti að vera rétt, sem enn sér móta fyrir. Gengið var yfir að Bergvötnum (Leirutjörnum) því þar átti að vera sel sunnan við vötnin. Erfitt var að átta sig á hvar það gæti nákvæmlega verið, en þarna eru hleðslur á nokkrum stöðum, sennilega stekkir eða kvíar. Selið sjálft átti að vera á bjarginu neðan við vötnin. Þarna er vel gróið og greinilegt að vötnin og nágrenni hafa verið vinsæl til beitar. Leita þarf betur við þau að þessu seli.
Sturlaugur komst að þessu sinni einungis yfir hluta þess, sem markvert þykir í Reykjanesbæ. Framundan er ferð með honum að Ásarétt á Háaleiti, um Háaleitið og að Nónvörðu.

Sturlaugur Björnsson

Sturlaugur Björnsson.

Vatnaborg

Þrátt fyrir dimmviðri lék sólin við Reykjanesbrautina. Ákveðið hafði verið að fara í skoðunarferð um borginar sex sem og nokkra aðra staði við brautina. Byrjað var á því að skoða Vatnaborgina sunnan brautarinnar skammt vestan Kúagerðis. Borgin er á grashól örskammt frá veginum og sést vel. Norðan borgarinnar er hið fallegasta vatnsstæði. Borgin ber þó fremur nafn sitt af bænum Vatnsleysu en vatnsstæðinu, enda í Vatnsleysulandi.

Stóra-Krossskjól

Stóra-Krossskjól á Njarðvíkurheiði.

Næst var staðnæmst við Stóra-Skjólgarð sunnan við Innri-Njarðvík, sunnan Reykjanesbrautar. Um er að erð ræða mikinn hlaðinn skjólgarð á hól skammt frá brautinni. Hann hefur veitt fé skjól fyrir vondum veðrum úr öllum áttum. “Garðinn hlóð Helgi Jónsson sterki, er var húsmaður Þorkels lögrm. Jónssonar, föður Jóns Thorkilli. – Skv. frás. Guðm. A. Finnbogasonar.” Skv. því hefur garðurinn verið hlaðinn um 1650. Skipsstígurinn á milli Narðvíkur og Grindavíkur, liggur skammt vestan við hólinn.

Rósel

Rósel.

Þá var haldið að Róasaseli vestan Rósaselsvatna og það skoðað. Selið er greinilega mjög gamalt. Við þar er hlaðinn stekkur, fremur lítill. Litið var á borg skammt vestan þjóðvegarins að Garði. Borgin er á litlum hól og er fremur lítil af fjárborg að vera. Hún er greinilega mjög gömul, enda engar sagnir til um tilvist hennar. Hún er hvergi til á kortum, hvorki gömlum né nýjum.

Keflavíkurborg

Keflavíkurborg.

Staldrað var við Keflavíkurborgina, sem er á holti ofan við Grófina. Um er að ræða mjög gamla hlaðna fjárborg. Inn í hana hefur einhvern tímann verið hlaðinn garður og er líklegt að fé hafi verið gefið í borginni. Eins og flestir vita voru ekki til fjárhús á þeim tíma, heldur komu hlaðnar borgir og fjárhellar (fjárskjól/fjárbyrgi) í þeirra stað. Sérstök hús fyrir fé komu löngu síðar( á 20. öldinni).

Berghólar

Berghólar – fjárborg.

Haldið var að Hólmsborginni á Hólmsbergi (Berghólum). Um er að ræða mjög fallega fjárborg, að mestu hlaðna úr torfi og grjóti. Út frá henni til suðurs er garður, en inni í henni miðri er stallur. Hafa ber í huga að fornum fjárborgum var breytt í tímans rás, allt eftir þörfum hverju sinni. Þannig urðu sumar borgir að stekkjum, sbr. Þórustaðaborgin, og til eru dæmi um að borgir hafi þróast í réttir, sbr. Auðnaborgin. Sunnan Hólmsborgar er gerði eða rétt, en austan hvorutveggja liggur gamla þjóðleiðin á milli Keflavíkur og Útskála.

Árnarétt

Árnarétt.

Loks var haldið að Árnarétt við viðkomu við Hríshólavöru, einni fallegustu fjárborginni á Reykjanesi. Hún er stærri að ummáli en Staðarborgin, svo til alveg heil og næstum því jafn há og hún. Norðan hennar er Álaborgin, forn rétt. Álaborgin syðri er ofan Bæjarskerja. Hún er einnig forn rétt og stendur enn að mestu heil. Í bakaleiðinni var skoðuð gömul fjárborg sunnan vegarins að Leifsstöð. Rétt mótar fyrir hringnum innan um leifar hernaðarmannvirka Bretans. Gaman að sjá hvernir hin gamla arfleið hefur lifað hernaðarbröltið vegna þess hversu ómeðvituð þau hafa verið þeim er þar komu að.
Góður dagur. Og hið skemmtilega var að flestir í hópnum, sem ekið hafa margoft þessa leið, höfðu aldrei tekið eftir þessum merku mannvirkjum – sem eru einungis nokkra metra frá einni fjölförnustu þjóðleið nútímans.

Stóri-krossgarður

Stóri-krossgarður.

Helguvík

Gengið var upp á Keflavíkurbjarg norðan við Grófina og síðan sem leið lá yfir og framhjá Helguvík, yfir á Hólmsberg og að Stakksnípu. Þar undir er kletturinn Stakkur í sjónum, en af honum dregur fjörðurinn nafn sitt. Þjóðsaga tengist klettinum. Þá var gengið áfram til norðurs eftir bjarginu þangað til komið var að Helguvík.

Keflavíkurberg

Vatnsskál á Keflavíkurbergi.

Fremst á berginu, eftir að skoðaðir höfðu verið drykkjarsteinn og handgerður brunnur, tóftir og Stekkjarlág, fyrrum samkomustaður Keflvíkinga, var komið að Brennunípu. Líklegt er að nafnið sé tilkomið líkt og önnur brenninefni, s.s. Brennuhóll og Brenna, en slíkir staðir eru venjulega gegnt gömlum innsiglingum við varir eða lendingar. Kveikt var í bálkesti á þessum hólum þegar farið var að rökkva eða myrkur var skollið á til að leiðbeina þeim, sem enn voru á sjó og voru að róa í land, réttu leiðina. Einnig stærri skipum, sem enn var von á af hafi, við sömu aðstæður.
Stakksfjörður, sem er hafssvæðið utan við bergið (bergin), er breiður og djúpur fjörður sem gengur til suðurs úr Faxaflóa og afmarkast að austan af Keilisnesi á Vatnsleysuströnd en af Stakksnípu í Hólmsbergi að vestan.

Stakkur

Hellunef er skammt norðar. Þar eru mörk hinnar gömlu Keflavíkur. Náðu mörkin til suðurs að Stekkjarhamri þar sem Ytri-Njarðvík tók við. Gengið var áfram til norðurs á bjarginu, að Helguvík. Hún er lítil hamravík þar sem nú er ætlunin að byggja upp blómlegt atvinnulíf í kringum stórskipahöfn, loðnubræðslu, loðnuflokkunarstöð, sementssölu, steypustöð og malbikunarstöð. Til stendur að fjölga enn stórum fyrirtækjum í Helguvík. Víkin var áður falleg hömrum girt náttúruvík, sniðin af eðlilegum ástæðum, en nú er hún dæmi um niðurbrotna hugmyndastefnu.

Hólmsbergsviti

Stakksnípuviti.

Norðan við Helguvíkina tekur Hólmsbergið við. Syðst á því er Stakknsípa. Undir henni er klettadrangurinn Stakkur. Viti er á Stakksnípu, reistur 1958. Stakksfjörður dregur nafn af Stakki.
Í þjóðsögunni af Rauðhöfða, sem gerast á í fornöld, segir m.a. að löngum aðdraganda gegnum er gerist á Hvalsnesi og varðar afleiðingar hans í samskiptum við álfkonu í Geirfuglaskeri, að hann tók undir eins á rás og æddi sem vitstola norður eftir þangað til hann kom fram á Hólmsberg, en berg það er fram við sjó, býsna hátt og þverhnípt. Þegar hann kom fram á bergsbrúnina staldraði hann við.

Keflavíkurberg

Keflavíkurberg – Stekkjalág.

Varð hann þá allt í einu svo stór og þrútinn að bergið sprakk undir fótum honum og hljóp fram klettur mikill úr hamrinum. Stakkst maðurinn þar fram af í sjóinn og varð í sama augnabragði að feikilega stórum hvalfiski með rauðan haus því maðurinn hafði haft rauða húfu eða hettu á höfðinu þegar hann brást í hvalslíkið. Af þessu var hann síðan kallaður Rauðhöfði. En kletturinn sem fram hljóp með hann í sjóinn stendur enn fram í sjónum austarlega undir Keflavíkurbergi og er kallaður Stakkur. Eftirmálar af sögunni urðu síðan í Hvalfirði.
Önnur saga segir að þegar upp komust svik mannsins varð hann óður og steypti sér í sjóinn og breyttist í hrosshveli og kölluðu menn hann Faxa. Af því nafni dregur Faxaflói nafn sitt

Keflavíkurborg

Keflavíkurborg.

Í enn annarri frásögn segir að er upp komast svik mannsins, er hér nefnist Helgi, segir hann allt af létta og fer síðan inn þvera heiði og fram af Hólmsbergi. Um leið og hann stakk sér féll úr berginu klettur og er hann hér um 100 faðma fyrir framan bergið og heitir Stakkurinn til þessa dags.
Gangan endaði að þessu sinni við við vitann á Hellisnípu. Þar undir að norðanverðu er Selvík. Hægt er að ganga niður í víkina og er hún hin fallegasta – í góðu verði.
Ofan Grófarinnar er Keflavíkurborg, gömul fjárborg við Sandgerðisveginn fyrrum.
Í rauninni er þetta svæði ein hin dýrmætasta útivistarperla Keflvíkinga, en of fáir þeirra virðast því miður gera sér grein fyrir því. Fjölmargt er að skoða á annars ekki lengri leið.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=226
-Jón Árnason I 82.

Keflavíkurberg

Brunnur á Keflavíkurbergi.