Færslur

Keldnasel
Í Jarðabókinni 1703 er Keldur sagðar hafa selstöðu við Sólheimatjarnir. Sólheimatjörn, sem nú heitir svo, er ofan við Geitháls. Af umhverfinu að dæma er ekki ólíklegt að tjarnirnar hafi stundum verið fleiri en ein, einkum eftir miklar rigningar eða snjóalög.
TóftJarðabókin segir jafnframt frá því að Gufunes, kirkjustaður (annexia með Mosfelli), “item [sé] kirkjunni eignuð mánaðarbeit fyrir kvikfjenað allan heimabóndans, þar sem heita Sólheimatjarnir og nú er kallað Keldnasel, fyrir þá orsök að bóndinn á Gufunesi skal hafa fyrir mörgum árum ljeð ábúandanum á Keldum þetta ítak til selstöðu”. Annars hefur “selstaða [frá Gufunesi] til forna verið brúkuð í Stardal, þar sem nú stendur býli það, er Stardalur kallast, eftir sögu þeirra manna, er að undirrjettingu foreldra sinna vita til yfir hundrað ár:”
Í fornleifaskráningu Fornleifastofnunar Íslands árið 2003 um þetta svæði vegna virkjunar á Hellisheiði (línulagningar) segir m.a. um hugsanlegar minjar við Sólheimakot:
“Skammt suður af Fífikrók er Sólheimakot, hjáleiga frá Miðdal, sést þar vel fyrir veggjum,” segir í örnefnaskrá. Sólheimakot er rúma 700 m NV af Elliðakoti og beint sunnan undir Sogslínu 2. Þar stendur nú rautt timburhús sem Hundaræktarfélag Íslands er með á leigu. Það er á einni hæð. Húsið stendur á sléttu malarplani á hæð. Framaf því er brekka mót suðri og þar fyrir neðan mýri. Upp eða norður af húsinu er melur.
Brekkan framaf húsinu er gróðurrýr og þar er skammt niður á mel og víða rof. Þar hefur verið plantað trjám. Engar minjar eru sjáanlega eftir kotið og heldur ekkert Fjárhústófttúnstæði. Það virðist mjög hæpið að nokkrar mannvistaleifar sé ofan/norðan við húsið þar sem nýja æðin á að liggja.”
Framangreint rautt timburhús stendur utan í hæð u.þ.b. 1 km suðaustan Sólheimatjarnar. Norðaustan við tjörnina, rétt ofan við hana, undir gróinni brekku, stóð hús, sem nú er horfið, en var nefnt Sólheimar.
Í lýsingunni er gata nefnd til sögunnar. Þá segir að: “270 metra A af götunni og 85 metra N við Búrfellslínu 2 er mjög óljós tóft. Í lyngivöxnum hvammi móti SV. Alls er tóftin 9×4 m að stærð og snýr NA-SV. Suðvesturhlutinn er mjög ógreinilegur, vart nema þúst. Í NA enda vottar hins vegar fyrir hólfi, um 4×2 m NA-SV. Tóftin er algróin og hvergi sjást veggjaskil nema nyrst og eru grjóthleðslur hvergi sjáanlegar. Veggjahæð mest 0,2 m.”
Við skoðun á svæðinu, einkum vegna framkominna upplýsinga um forna selstöðu við “Sólheimatjarnir”, komu m.a. í ljós gróin tóft vestur undir lágu melholti, í skjóli fyrir austanáttinni, skammt austan tjarnarinnar. Tóftin er ferhyrnd, ca. 2×3 m að innanmáli. Dyr vísa til vesturs, að tjörninni. Gróið er milli hennar og tóftarinnar. Augnlækur rennur úr tjörninni skammt sunnan við tóftina.
Norðan við tóftina, efst undir gróinni hlíð, er ílöng tóft, gæti hafa verið stekkur. Vestan við tjörnina, skammt frá Lynghól, er allstór og -löng tóft á lágum klapparhól. Þarna hefur að öllum líkindum verið beitarhús. Heytóft er vestan við rústina, fast við hana. Vel hefur blásið um húsið þarna á hólnum. Norðaustan við hólinn mótar fyrir uppþornuðu, nokkuð stóru, vatnsstæði.

Tóftir Keldnasels

Lítið er hægt að fullyrða um minjar eftir selstöðu við Sólheimatjörnina því líklegt má telja að svæðið hafi breyst talsvert eftir að föst búseta var tekin þar upp, bæði varðandi ræktun, sléttun o.fl., auk þess sem mýrin norðan og sunnan við tjörnina hefur verið ræst fram. Enn má þó sjá móta fyrir gamalli götu norðan við tjörnina er liggur síðan áfram til suðausturs (getið hér að framan), en ofan hennar er nýrri vegur, sem væntanlega hefur legið heim að Sólheimum.
Rústin fjær, norðaustan við tjörnina, er nokkuð stór og áberandi í landslaginu. Hún er u.þ.b. 1 km norðaustan við Sólheimakot. Enn önnur rúst er á grónum hól norðvestan hennar. En þarna er alllangt í Sólheimatjörnina.
Ábending hafði komið um að Keldnasel væri í gróinni kvos suðaustan við Langavatn, heldur nær því vatni en Sólheimatjörn. Þar er gróin tvískipt tóft, orðin nær jarðlæg. Tvö hús eru í tóftinni og snúa dyr til vesturs, mót Langavatni. Ekki var stekk að sjá nálægt tóftinni, en norðaustan hennar er klapparholt. Miklir grasgróningar eru allt í kring. Slóði liggur svo til alveg við tóftina, en hann er greinilega eftir þá sem lögðu loftlínuna, sem liggur þarna rétt hjá. Tilraun til skógræktar hefur verið gerð austan við selskvosina.
Í örnefnalýsingu fyrir Miðdal segir m.a.: ”Suður af austurenda Langavatns er Keldnaselshæð. Vestanundir háhæðinni er Keldnasel, sést vel móta fyrir selstóftum. Milli Höfðans og Keldnaselshæðar eru valllendislágar er Keldnaselslágar heita.”
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.Heimild m.a.:
-Jarðabókin 1703.
-Fornleifakönnun á Hellisheiði vegna virkjunar Birna Lárusdóttir og Sædís Gunnarsdóttir – 2003.
-Örnefnaskrá fyrir Miðdal.

Keldnasel

Keldnasel.